Borgarstjórn - 2.6.2015

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2015, þriðjudaginn 2. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Greta Björg Egilsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug María Friðriksdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. 

- Kl. 15.50 víkur Elsa Hrafnhildur Yeoman af fundinum og Ragnar Hansson tekur þar sæti.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Úttekt innri endurskoðunar á aðdraganda, innleiðingu og framkvæmd breytinga á ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu er vönduð og ítarleg og varpar skýru ljósi bæði á það sem vel var gert og það sem brást í ferlinu. Undirbúningur breytinganna var góður og ekki eru gerðar miklar athugasemdir við þá stefnumótun sem slíka. Brestirnir fólust fyrst og fremst í því að ekki var skýrt hver átti að bera ábyrgð á heildarumsjón með innleiðingu breytinganna eftir að verkefnið hafði verið falið Strætó bs. Upplýsingagjöf var mjög ábótavant, bæði til notenda þjónustunnar og eftirlitsaðila sveitarfélaganna, velferðarsviða og velferðarráða. Vönduð breytingastjórnun byggist á skýrt skilgreindri ábyrgð og góðu upplýsingaflæði og þegar um viðkvæma þjónustu á borð við þessa er að ræða verður að vanda sérstaklega vel til verka. Nauðsynlegt er að draga lærdóm af mistökunum til að tryggja að slíkt gerist ekki aftur þegar viðamiklar breytingar eru gerðar á þjónustu.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Í skýrslunni er gerð grein fyrir aðdraganda, innleiðingu og framkvæmd breytinganna. Margt var vel unnið í aðdraganda breytinganna en innleiðing og framkvæmd breytinganna var illa unnin. Eftir undirritun samkomulags og þjónustulýsingar í maí 2014 töldu þeir sem ábyrgð bera að einhver annar ætti að bera ábyrgðina og hafa umsjón með breytingunum. Þannig virðist t.d. sem samráðshópur félagsmálastjóra á höfuðborgarsvæðinu hafi litið svo á að stjórnun breytinganna væri hjá Strætó bs. þó svo ekkert í samkomulaginu eða þjónustulýsingunni kveði á um slíka ábyrgð Strætó bs. Nauðsynlegt er að allir læri af skýrslunni og bæti vinnubrögðin, auki upplýsingaflæði, samráð, þekkingu og reynslu fólks og átti sig á hvar ábyrgð á einstökum verkefnum liggur, hver hefur yfirumsjón með þeim, hver á að gera hvað og hvernig.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Svört skýrsla um ferðaþjónustu fatlaðra er harkalegur dómur yfir margvíslegum mistökum stjórnar Strætó bs., stjórnenda, velferðarsviða og velferðarráða sveitarfélaganna. Í skýrslunni er staðfest að öllum starfsmönnum í ferðaþjónustu Strætó bs. var sagt upp, öfugt við það sem haldið hefur verið fram. Með uppsögnum fatlaðs starfsfólks hjá Strætó bs. glataðist mikilvæg þekking á þörfum notenda og áratugareynsla var fyrir borð borin. Framkoma stjórnenda við starfsfólk var ómannúðleg og ófagleg. Tryggja verður aðkomu hagsmunasamtaka fatlaðs fólks að ferðaþjónustunni með varanlegum hætti. Skýrsluhöfundar beina athyglinni að þætti stjórnar Strætó bs. en fram kemur í skýrslunni að stjórnin hafi verið veik og að hlutverk hennar virðist hafa verið að veita samþykki við gjörðum framkvæmdastjórnar. Ennfremur segir að ekki verði annað séð en að eftirlit stjórnar með rekstri hafi brugðist varðandi verkefni er lutu að ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Reykjavíkurborg ber að axla ábyrgð á þessu sorglega máli. Það eiga önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að gera líka. Fulltrúar í stjórn Strætó bs. hljóta að hugleiða stöðu sína.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að hverfa frá áformum um flutning Þorrasels, dagdeildar aldraðra, úr núverandi húsnæði. Tryggt verði að dagdeildin verði rekin áfram í núverandi mynd að Þorragötu 3. Einnig verði tryggt að opið félagsstarf velferðarsviðs verði áfram rekið með myndarlegum hætti að Vesturgötu 7.

- Kl. 17.15 víkur Halldór Halldórsson af fundi og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti. 

Tillagan er felld með 11 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Ákvörðun um flutning dagdvalar aldraðra af Þorragötu 3 yfir í Vesturgötu 7 var samþykkt án ágreinings í velferðarráði. Möguleiki er á að hagræða í rekstri velferðarsviðs um 28 milljónir króna á ársgrundvelli án þjónustuskerðingar. Það er eftirsótt að njóta dagdvalar Þorrasels og með flutningi má bjóða fleirum þjónustuna og fækka fólki á biðlista. Meirihluti borgarstjórnar sér ekki ástæðu til að falla frá þessum áformum en hefur þó fullan skilning á áhyggjum notenda þjónustunnar af fyrirhuguðum breytingum og leggur áherslu á að vel verði haldið utan um stjórnun þeirra.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir samþykktu tillögu velferðarsviðs um samþættingu heimaþjónustu í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum með staðsetningu að Þorragötu 3 undir stjórn Vesturgarðs þar sem nú er rekin dagdvölin Þorrasel fyrir aldraða þann 16. október síðastliðinn. Tillögunni var veitt samþykki þar sem henni er ætlað að skapa betri yfirsýn yfir þarfir notenda, hagræðingu, heildstæðari þjónustu, aukinn viðbragðsflýti og að betur sé hægt að mæta aukinni þjónustuþörf. Einnig leggjum við áherslu á að þessar breytingar verði unnar í samráði og samvinnu við starfsfólk og notendur eins og gefið hefur verið til kynna. Þó svo að dagdvöl Þorrasels flytjist á Vesturgötu teljum við að það muni efla félagsstarfið, auka húsnæðisrými og tækifæri skapist af því að hafa Heilsugæslustöð miðbæjar í sama húsi. Þessi flutningur muni einnig stuðla að bættri notkun á félagsmiðstöðinni við Vesturgötu sem og félagsmiðstöðinni við Aflagranda.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata. Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina skuli fella tillögu um að Þorrasel, dagdeild fyrir aldraða, verði áfram rekin í núverandi mynd að Þorragötu 3 og að horfið verði frá þeirri hugmynd að starfsemin víki fyrir annarri starfsemi. Ljóst er að núverandi húsnæði við Þorragötu hentar að mörgu leyti betur fyrir rekstur dagdeildarinnar, t.d. vegna aðstöðu til útivistar og aðkomu bifreiða, en núverandi húsnæði félagsstarfs eldri borgara að Vesturgötu 7. Einnig er ljóst að ef fyrirhugaður flutningur verður að veruleika, mun hann koma niður á starfsemi félagsstarfs eldri borgara að Vesturgötu 7 og þátttakendum þar vísað annað. Verður ekki séð að það sé skynsamleg ráðstöfun að skerða þannig umrædda þjónustu í gamla Vesturbænum þegar fyrirséð er að fjöldi eldri borgara muni a.m.k. tvöfaldast á næstu 15-20 árum. Þá hafa komið fram ábendingar um að Reykjavíkurborg kunni að vera óheimilt að breyta notkun nefnds húsnæðis að Þorragötu 3 án samþykkis húsfélagsins að Þorragötu 5, 7 og 9, sem hefur lýst sig andvígt umræddum fyrirætlunum Reykjavíkurborgar. 

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að borgaryfirvöld endurskoði þá ákvörðun sína að veita ekki nemendum 8. bekkjar sumarstörf hjá Vinnuskóla Reykjavíkur og að þeim verði útveguð störf hjá skólanum strax í sumar. Þá er jafnframt lagt til að hugað verði að meiri fjölbreytni og valmöguleikum í þeim störfum sem nemendum stendur til boða hjá skólanum.

Tillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Enginn nemandi í 8. bekk grunnskóla fær vinnu hjá Vinnuskóla Reykjavíkur. Vinnutími nemenda í 9. og 10. bekk hefur auk þess verið skertur miðað við það sem áður var. Starfsemi Vinnuskólans hefur mikið forvarnargildi og veitir uppbyggilega sumarvinnu fyrir unglinga. Nemendur í 8. bekk eru 1.354 talsins og fæstir þeirra munu fá verkefni í sumar. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu bjóða 8. bekkingum sínum vinnu. Þau sem leið eiga um borgina sjá að Vinnuskólanum veitir ekki af liðsauka enda er víða verk að vinna við þrif og umhirðu í borginni. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Vinnuskólinn hefur gegnt mikilvægu hlutverki fyrir ákveðna hópa gegnum tíðina. Þar hafa unglingar hlotið þjálfun og menntun í vinnubrögðum og vinnusiðferði. Starfsemi skólans hefur þróast og breyst í áranna rás og sjálfsagt er að vinna áfram að aukinni fjölbreytni starfa í þágu áhugasviðs og hæfileika reykvískra unglinga. Nýstofnaður atvinnumálahópur borgarráðs mun á næstu vikum hefja þessa vinnu í samráði við Vinnuskólann, ungmennaráð og aðra sem að málinu koma og má gera ráð fyrir að fyrir næsta sumar verði tillögur komnar fram um hvernig þessu verður best fyrir komið enda brýnt að Reykjavíkurborg leggi sitt af mörkum til að börn og unglingar geti varið sumarfríinu á uppbyggilegan og skemmtilegan hátt.

4. Lagt er til að Hreiðar Eiríksson taki sæti Sigmundar Þóris Jónssonar sem aðalmaður í hverfisráði Breiðholts.

Samþykkt. 

5. Lagt er til að Heiðrún Ólafsdóttir taki sæti Bryndísar Helgadóttur sem varamaður í hverfisráði Hlíða.

Samþykkt. 

6. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 21. og 28. maí

- 20. liður fundargerðarinnar frá 21. maí; svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2015-2040, samþykktur með 9 atkvæðum. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

- 21. liður fundargerðarinnar frá 21. maí; þróunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið 2015-2018, samþykktur með 13 atkvæðum. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina  sitja hjá við afgreiðslu málsins.

7. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 29. maí, mannréttindaráðs frá 12. maí, menningar- og ferðamálaráðs frá 26. maí, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. og 22. maí, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 18. maí, umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. og 27. maí.

Fundi slitið kl. 18.00

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Sóley Tómasdóttir

Áslaug Friðriksdóttir Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 2.6.2015