Borgarstjórn - 26.11.2013

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2013, þriðjudaginn 26. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Páll Hjalti Hjaltason, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Hjálmar Sveinsson, Hildur Sverrisdóttir, Áslaug María Friðriksdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fram fer síðari umræða í Borgarstjórn Reykjavíkur um aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og lagt er fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. nóvember 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d., um samþykkt á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. nóvember sl. Tillagan samanstendur af greinargerð A, Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030: meginmarkmið og framtíðarsýn, greinargerð B, Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030: skipulag borgarhluta, umhverfisskýrsla, fylgiskjöl C-hluti, þéttbýlisuppdráttur, sveitarfélagsuppdráttur, dags í júlí 2013, sumt uppfært í nóvember 2013. Einnig eru lagðar fram allar athugasemdir við auglýsta tillögu í einu skjali ásamt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs um þær, dags. 11./18. nóvember 2013, ásamt lista yfir breytingar og lagfæringar á skipulagsgögnum, dags. 15./18./20. nóvember 2013.

Samþykkt með 15 atkvæðum að taka svohljóðandi breytingatillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þeirra Júlíusar Vífils Ingvarssonar, Kjartans Magnússonar og Mörtu Guðjónsdóttur, á dagskrá:

- Lagt er til að Reykjavíkurflugvöllur verði sýndur í aðalskipulagi Reykjavíkur á þeim stað sem hann er nú. Uppbyggingaráform í Vatnsmýrinni verði lögð til hliðar. Landnotkun svæðisins verði flugvallarstarfsemi. Uppdrættir og kort verði lagfærð í samræmi við það.

Tillagan er felld með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum Júlíusar Vífils Ingvarssonar, Kjartans Magnússonar og Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks.

Hildur Sverrisdóttir og Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sitja hjá við afgreiðslu málsins.

- Lagt er til að endurmetin verði áform um íbúðabyggð í Ártúnsholti, við Rafstöðvarveg. Með uppbyggingunni er verið að ganga á svæði með útivistargildi sem er hluti af einstökum perlum Elliðaárdals. Aðalskipulaginu verði breytt þannig að svæðið verði útivistarsvæði.

Tillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar gegn 3 atkvæðum Júlíusar Vífils Ingvarssonar, Kjartans Magnússonar og Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks. 

Hildur Sverrisdóttir og Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, og Sóley Tómasdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins

- Lagt er til að fjölgað verði íbúðum í Úlfarsárdal austan Úlfarsár og við það miðað að hverfið verði sjálfbært. Hafist verði þegar handa í samráði við íbúa að skilgreina og meta hvort stefna eigi að 10.000 - 12.000 íbúa byggð í Úlfarsárdal (að undanskildu Grafarholti og Reynisvatnsási) og gera það að sjálfstæðu hverfi.

Tillagan er felld með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum Júlíusar Vífils Ingvarssonar, Kjartans Magnússonar og Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks. 

Hildur Sverrisdóttir og Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sitja hjá við afgreiðslu málsins.

- Lagt er til að hætt verði við húsalengju norðan Suðurlandsbrautar í Laugardal. Laugardalurinn njóti áfram sem hingað til sérstakrar verndar. Uppbygging við Suðurlandsbraut á milli Grensásvegar og Reykjavegar mun ganga á vinsælt íþrótta- og útivistarsvæði. Húsin verða fjögurra hæða frá Suðurlandsbraut og fimm hæðir frá Laugardalnum. Þau munu byrgja aðgengi og sýn frá Suðurlandsbraut yfir dalinn. Þrisvar hafa verið settar fram tillögur um að byggja inn í dalinn og því hefur alltaf verið harðlega mótmælt. Hugmyndir um að taka af bílastæðum sem eru við hús sunnan megin Suðurlandsbrautar eru óraunhæfar og munu skapa Reykjavíkurborg skaðabótaskyldu. Texti í aðalskipulagi Reykjavíkur þar sem stendur: „fyrirkomulag bílastæða sunnan götunnar endurskipulagt“ er villandi og merking sem að baki býr önnur en textinn gefur til kynna.

Tillagan er felld með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum Júlíusar Vífils Ingvarssonar, Kjartans Magnússonar og Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks. 

Hildur Sverrisdóttir og Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sitja hjá við afgreiðslu málsins.

- Lagt er til að samgöngumannvirkjum verði ekki fækkað í nýju aðalskipulagi og þeim mislægu gatnamótum sem nú eru í aðalskipulagi 2001 - 2024 verði haldið inni.

Tillagan er felld með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum Júlíusar Vífils Ingvarssonar, Kjartans Magnússonar og Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks. 

Hildur Sverrisdóttir og Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sitja hjá við afgreiðslu málsins.

- Lagt er til að unnar verði umferðarlausnir á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar, Háaleitisbrautar og Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Þetta eru hættulegustu gatnamót landsins og því mikilvægt að unnið verði að því að auka öryggi borgarbúa. Umferðarlausnir á þessum gatnamótum verði hluti af aðalskipulaginu.

Tillagan er felld með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum Júlíusar Vífils Ingvarssonar, Kjartans Magnússonar og Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks. 

Hildur Sverrisdóttir og Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sitja hjá við afgreiðslu málsins.

- Lagt er til að íbúðabyggð sem rísa á við Skerjafjörð samkvæmt aðalskipulagi verði lögð til hliðar og þörf fyrir uppbyggingu endurmetin. Fyrirhuguð byggð á þessu svæði tekur ekki mið af þeirri íbúðabyggð í Skerjafirði sem fyrir er.

Tillagan er felld með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum Júlíusar Vífils Ingvarssonar, Kjartans Magnússonar og Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks. 

Hildur Sverrisdóttir og Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sitja hjá við afgreiðslu málsins.

- Lagt er til að ekki verði sýnd brú yfir Fossvoginn á uppdráttum aðalskipulagsins. Kostnaðaráætlun sýnir að brúin muni kosta á annan milljarð króna. Ekki eru rök fyrir því að forgangsraða með þessum hætti. Brúin mun hafa takmarkaðan almennan tilgang en mun hafa mjög neikvæð áhrif á siglingastarfsemi sem er mikil í  Fossvoginum og hefur farið vaxandi.

Tillagan er felld með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum Júlíusar Vífils Ingvarssonar, Kjartans Magnússonar og Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks. 

Hildur Sverrisdóttir og Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Samþykkt með 15 atkvæðum að taka svohljóðandi breytingatillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá: 

- Lagt er til að gerð verði greining á aukinni þörf fyrir grunnþjónustu á þéttingarsvæðum og tryggt að innviðir beri fjölgun íbúa. Nauðsynlegt er að innviðir grunnþjónustu nái að sinna aukinni þéttingu á tímabilinu. Gera verður áætlanir um breytingar eða viðbætur, t.d. hvað varðar  leikskóla, skóla, frístundir og heilsugæslu, í takt við aukinn íbúafjölda á þéttustu svæðunum. Ekki liggur fyrir slík áætlun og því er lagt til að borgarstjórn samþykki að vísa því til umhverfis- og skipulagsráðs að kortleggja þörf fyrir þjónustu og útfæra framkvæmdaáætlun í samstarfi við önnur svið eftir þörfum.

Tillagan er samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

- Lagt er til að sjálfstæðum aðilum verði tryggð aðkoma að rekstri grunnþjónustu á þéttingarsvæðum. Þegar þétta á byggð þarf að koma þjónustu fyrir inni í hverfum með afar sveigjanlegum hætti. Ekki er hægt að horfa framhjá því að sjálfstæðum aðilum hefur farist þetta vel úr hendi. Yfirbygging hefur verið margfalt stærri þegar horft er til borgarrekinna þjónustueininga, t.d. hvað varðar leikskóla og skóla. Eins má sjá að fjölbreyttari þjónusta og enn meiri sveigjanleiki í þjónustu bjóðist íbúum þar með. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að umhverfis- og skipulagsráð fái það verkefni að skoða hvernig tryggja megi að sjálfstæðir aðilar fái að bjóða í byggingu og rekstur þjónustu á þéttingarreitum um leið og hverfisskipulag er unnið.

Tillagan er felld með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks. 

- Lagt er til að borgin gæti bílastæðaréttinda núverandi íbúa. Áður en farið er í framkvæmdir við þéttingu í afmörkuðum hverfum er brýnt að borgin gæti að hagsmunum þeirra íbúa og fyrirtækja sem fyrir eru. Nauðsynlegt er að fara í sérstaka skoðun og mótun aðgerða til að tryggja að þeir sem eiga réttmæta kröfu um að fá ekki skerta aðkomu að bílastæðum og hafa greitt gjöld vegna þess fái að njóta þeirra réttinda framyfir þá sem gera það ekki í sama mæli. Sérstaklega verði skoðað hvernig hægt er að nota gjaldskyldu, íbúakort eða önnur slík kerfi til þess. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að vísa því til umhverfis- og skipulagsráðs að útfæra leiðir til að gera aðgerðaáætlun um hvernig hægt er að gæta þessara réttinda áður en framkvæmdir hefjast í viðkomandi þéttingarreitum.

Tillagan er samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum. 

- Lagt er til að tekið verði upp reglulegt samstarf borgar- og samkeppnisyfirvalda. Í aðalskipulaginu er dreginn rammi í kringum verslun í hverfum sem getur orðið til þess að hamla samkeppni ef ekki er vel að gætt. Þar er til dæmis gert ráð fyrir að stemma stigu við opnun nýrra matvöruverslana innan atvinnusvæða og öðrum svæðum fjarri íbúabyggð þrátt fyrir að margir einkaaðilar hafi hingað til byggt á slíkum svæðum. Ástæða er til þess að gæta sérstaklega að því að í byrjun hvers kjörtímabils sé skoðað í samráði við samkeppnisyfirvöld hvort endurskoða þurfi þessa stefnu. Lagt er til að tillögunni sé vísað inn í umhverfis- og skipulagsráð sem geri tillögur að því hvernig útfæra má slíkt samráð.

Tillagan er felld með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks.

Tillaga að aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, greinargerð  A og B, þéttbýlisuppdráttur (1:20.000) og sveitarfélagsuppdráttur (1:50.000), ásamt umhverfisskýrslu, öðrum fylgigögnum (C-hluti), sbr. framlagðan lista yfir breytingar og lagfæringar á skipulagsgögnum, samþykkt  með vísan til 1. og 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sbr. 9. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 og með vísan til niðurstöðu í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dagsett 18. nóvember 2013, samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna auk borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, þeim Áslaugar Friðriksdóttur og Hildar Sverrisdóttur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir greiða atkvæði gegn tillögunni.

Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Besta flokks og Samfylkingar í borgarsstjórn fagna þeim tímamótum sem samþykkt nýs aðalskipulags markar. Aðalskipulagið er drifið áfram af framsækinni stefnu um umhverfisvæna og fjölbreytta borg með sjálfbærum hverfum og blómlegu mannlífi. Sú stefna hefur notið stuðnings fulltrúa allra flokka í borgarstjórn. Nýja aðalskipulagið nær yfir tímabilið 2010 til 2030 og er endurskoðun á aðalskipulaginu 2001 til 2024. Vinnan við það hefur staðið yfir undanfarin ár. Hún hefur falist í margvíslegri greiningarvinnu, mati valkosta og samráði við íbúa og hagsmunaaðila. Svo dæmi sé tekið má nefna að frá haustinu 2009 hafa í tvígang verið haldnir fundnir með íbúum í öllum hverfum borgarinnar. Fjölmargar óskir og hugmyndir borgarbúa hafa haft veruleg áhrif á mótun aðalskipulagsins. Leiðarljós skipulagsins er „borg fyrir fólk“. Það setur manneskjuna í öndvegi í stað bílsins. Í stað þess að leggja megináherslu á aukna afkastagetu gatnakerfisins og sem allra mest byggingarmagn, er sjónum beint að umgjörðinni í daglegu lífi borgarbúanna. Það miðar að því að skapa þéttari, skjólsælli, skemmtilegri og fallegri borg. Það segir endanlega skilið við þá gömlu hugmynd að borgin sé vélrænn staður þar sem við dveljum til sækja vinnu og skóla en að sjálf lífsgæðin séu annars staðar. Það er rauður þráður í skipulagsinu að borgarumhverfið sjálft getur skapaða mikil umhverfisgæði og þar með lífsgæði. Annað mikilvægt atriði skipulagsins er rökrétt afleiðing af þeirri staðreynd að gott byggingarland og jarðeldsneyti eru takmarkaðar auðlindir. Aðalskipulagið leggur þá línu að slíkar auðlindir verði betur nýttar auk þess sem það mun leiða til mun betri nýtingar innviðanna í borginni, svo sem gatnakerfis og lagnakerfis, stofnana, skólahúsa, slökkvistöðva og þannig mætti lengi telja. 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar lýsir róttækri framtíðarsýn á sama tíma og borin er virðing fyrir sögu borgarinnar og þeim verðmætum sem í henni felast. Aðalskipulagið er grænt, félagslega sanngjarnt og femínískt og rímar vel við þessi grunnstef í hugmyndafræði Vinstri grænna.

Aðalskipulagið leggur grunn að þéttri byggð með sjálfbærari hverfum. Það mun stuðla að styttri ferðum innan borgarinnar og fjölbreyttari samgönguháttum, draga úr svifryksmengun og útblæstri bifreiða. Það eru mikilvægar aðgerðir til að sporna gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Slegið er af kröfum um bílastæði og stórkarlaleg umferðarmannvirki. Aðalskipulagið gerir ráð fyrir bættri nýtingu á svæðum sem þegar hefur verið raskað, en þar mun stærstur hluti uppbyggingarinnar eiga sér stað á komandi áratugum. Útþensla borgarinnar með tilheyrandi umferðarþunga og mannvirkjum heyrir þannig sögunni til. Uppbygging á grænum svæðum er í lágmarki. Aðalskipulagið gerir ráð fyrir aukinni félagslegri fjölbreytni með skýrum ákvæðum um margvíslegt búsetuform. Gert er ráð fyrir íbúðum af öllum stærðum og gerðum og sérstök áhersla lögð á fjölgun leigu- og búseturéttaríbúða. Aðalskipulagið leggur grunn að bættri nærþjónustu sem kemur til móts við þarfir barna og fjölskyldna innan hverfis. Þannig er dregið úr ferðatíma fólks og skutli sem veitir foreldrum aukið frelsi til að samræma atvinnu- og fjölskyldulíf, betri starfsaðstæður og jafnari tækifæri. Það leiðir aftur af sér aukin lífsgæði, bæði fyrir börn og fullorðna. Aðalskipulagið er afurð sjö ára vinnu fulltrúa allra flokka. Niðurstaðan er þverpólitísk málamiðlun sem allir hlutaðeigandi geta vel við unað þó ekki hafi verið hægt að mæta ítrustu kröfum neins fulltrúa. Borgarfulltrúi Vinstri grænna telur því brýnt að setja fyrirvara við uppbyggingarreiti í jaðri Elliðaárdalsins sem getur haft talsverð áhrif á lífríki og útivistargildi svæðisins. Að sama skapi er settur fyrirvari við klasauppbyggingu atvinnusvæða sem borgarfulltrúinn telur að gæti unnið gegn markmiðum um fjölbreytt mannlíf á þeim svæðum sem um ræðir og íbúasvæðum í kringum þau. Að þessu sögðu fagnar borgarfulltrúi Vinstri grænna samþykkt nýs aðalskipulags og þakkar samstarfsfólki, embættismönnum og forverum sínum í stýrihópi um endurskoðun aðalskipulagsins fyrir mikið og gott samstarf.

Hildur Sverrisdóttir og Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins,  leggja fram svohljóðandi bókun:

Þróun byggðar í Reykjavík er eitt mesta hagsmunamál allra Reykvíkinga. Hagkvæm skipulagsstefna nýtir sem best fjárfestingar sveitarfélags í grunnþjónustukerfum, svo sem götum, veitukerfum og skólastofnunum. Þétting byggðar er þjóðhagslega hagkvæm og hefur jákvæð áhrif á rekstur sveitarfélagsins sem og, og ekki síst, heimilanna í borginni. Fjárhæðir í þeim sparnaði geta numið hundruðum milljarða.  Aðalskipulagið sem nú er til samþykktar er hagkvæmt og leiðir til jákvæðra áhrifa. Á næstu 16 árum er nauðsynlegt að taka afgerandi afstöðu með þéttingu byggðar og því að gefa fjölbreyttari samgöngukostum aukið vægi enda mun slík forgangsröðun koma jafnvægi á borgarumhverfið og veita borgarbúum fleiri valkosti. Það segir ekkert til um hver áherslan verður áratugina eftir það. Þétting byggðar hefur nokkur atriði í för með sér sem verður að gaumgæfa. Í aðalskipulaginu er búinn til rammi í kringum verslun í hverfum sem getur orðið til þess að hamla samkeppni ef ekki er vel að gætt. Ástæða er til þess að gæta sérstaklega að því að í byrjun hvers kjörtímabils sé það skoðað í samráði við samkeppnisyfirvöld. Í aðalskipulaginu er einnig gert ráð fyrir húsnæði sem ekki fylgja bílastæði. Með tilkomu slíkra hverfa verður að gera ráð fyrir því að íbúar sem hafa greitt fyrir rétt til bílastæða fái að njóta þeirra framyfir aðra. Mikilvægt er einnig að skoða hvernig innviðir grunnþjónustu fara saman við þörfina sem myndast þegar fleiri íbúar bætast við og bregðast við með raunhæfum áætlunum og framkvæmdum. Mikilvægt er að horfa til þess að einkaaðilar hafi aðkomu að rekstri grunnþjónustu, s.s. leik- og grunnskóla á þéttingarsvæðum, enda hafa þeir sýnt mikinn sveigjanleika með minni kostnaði. Eins má sjá að fjölbreyttari þjónusta og enn meiri sveigjanleiki í þjónustu bjóðist íbúum þar með. Þegar unnið er með grundvallarstefnumótun eins og aðalskipulag höfuðborgar koma margir við sögu. Ef helstu áherslur í þróun borgarinnar eiga einhvern tímann að komast til framkvæmda verða allir þeir sem koma að þeirri vinnu að láta undan einhverjum ítrustu kröfum og horfa til heildarmyndarinnar. Heildarmyndin í aðalskipulagi því sem er nú til samþykktar hefur verið í vinnslu frá 2006. Þverpólitísk samstaða hefur náðst að mestu í öll þau ár sem það hefur verið unnið.  Aðalskipulag markar sýn sem útfærist nánar þegar farið er í afmarkaðar hverfis- og deiliskipulagstillögur. Jafnframt er nýjum meirihluta gert að meta hvort endurskoða skuli aðalskipulag að loknum sveitarstjórnarkosningum samkvæmt lögum. Undirritaðar samþykkja því aðalskipulag Reykjavíkur til ársins 2030 með tilliti til þess að niðurstaða mun ekki fást um flugvallarstæði á höfuðborgarsvæðinu fyrr en árið 2022 og þar sem nægt svigrúm er fyrir borgarstjórn að takast á við breytingar og lagfæringar aðalskipulagsins á næstu kjörtímabilum.

Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, leggja fram svohljóðandi bókun:

Helstu ástæðurnar fyrir því að við greiðum atkvæði gegn tillögu að aðalskipulagi eru í fyrsta lagi að uppbygging á skipulagstímanum er takmörkuð við þéttingarreiti í eldri hluta borgarinnar. Slík ofurtrú á einni leið til uppbyggingar stríðir gegn eðlilegri borgarþróun. Hún mun auk þess ýta undir að stór hluti fólks sem vill búa í Reykjavík mun leita þangað sem framboð er fjölbreyttara. Horft er framhjá margvíslegum göllum þess að þétta byggð, m.a. þeim aukna byggingarkostnaði sem því fylgir, aukinni umferð og meiri mengun. Í öðru lagi byggir samgöngukaflinn á óraunhæfum forsendum. Umferðaröryggi er best tryggt með skynsamlegum samgöngumannvirkjum en stefna aðalskipulagsins er að draga úr vegaframkvæmdum og þrengja að umferð. Hundruðir manna munu slasast alvarlega á þremur hættulegustu gatnamótum borgarinnar á skipulagstímanum verði ekki ráðist í fyrirbyggjandi aðgerðir. Horft er framhjá því að þétting byggðar í eldri borgarhlutum kallar óhjákvæmilega á samgöngumannvirki til að greiða fyrir eðlilegu flæði umferðar allra samgöngumáta. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að atvinnustarfsemi eins og iðnaður víki fyrir íbúðabyggð á stórum svæðum eins og Vogum, Höfða, Skeifunni og Múlum, án þess að skapa fyrirtækjum samsvarandi aðstöðu til uppbyggingar annars staðar í borginni. Fyrri áætlanir um flutning fyrirtækja í grófum iðnaði á Álfsnes voru lagðar af á kjörtímabilinu og enga skýra stefnu er að finna um framtíðarstaðsetningu fyrir slíka starfsemi.  Í fjórða lagi á flugvöllurinn að fara úr Vatnsmýrinni á skipulagstímanum. Um sjötíu þúsund landsmenn mótmæltu því að flugvöllurinn færi og engin dæmi eru um svo sterk viðbrögð við skipulagsmálum í sögu þjóðarinnar. Efnahagsleg, samgönguleg og samfélagsleg rök styðja að hann verði áfram þar sem hann er. Áætlun í aðalskipulagi um að hann fari samkvæmt aðalskipulaginu er ekki drifin af þörf fyrir landrými. Það sést m.a. af því að ekki þótti ástæða til þess að gera breytingar á aðalskipulaginu þrátt fyrir að brottflutningi flugvallarins yrði frestað um sex ár með samkomulagi ríkis og borgar í síðasta mánuði. Auk þess viljum við benda á að eitt helsta einkenni borgarinnar er fjölbreytileiki hennar en skipulagið lýsir þröngri sýn skipulagshöfunda þar sem val um búsetuform er takmarkað og dregið er úr vali borgarbúa. Sú forsenda aðalskipulagsins að flestir vilji búa á þéttingarreitum í vesturborginni stenst ekki. Verði skipulagið samþykkt munu ungar fjölskyldur í ríkara mæli leita til annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu enda er með þessu skipulagi ekki verið að skapa þeim aðstæður til að hefja sinn búskap í borginni. Reynslan sýnir að barnafjölskyldur eru ekki kaupendur íbúða á þéttingarreitum þar sem lóðarverð er hátt og íbúðir eru óhjákvæmilega dýrar. Við styðjum þéttingu byggðar þar sem því verður við komið en farsæl skipulagsvinna sem styður við eðlilega borgarþróun byggist á að svara ólíkum óskum íbúa og atvinnulífs. Úthverfum er í texta aðalskipulagsins lýst sem meinsemd sem verður að stöðva eftir „áratugalanga  gegndarlausa útþenslu“. Í samræmi við það er ekki gert ráð fyrir uppbyggingu í nýju eða nýlegu hverfi í útjaðri borgarinnar á aðalskipulagstímanum. Þau hverfi hafa í áranna rás verið eftirsóttustu byggingarsvæðin á höfuðborgarsvæðinu. Framtíð Reykjavíkur byggir á því að skapa ungu fólki tækifæri og aðstæður til uppbyggingar. Meginstefna aðalskipulagsins er að þétta byggð í Reykjavík en það mun leiða til meiri dreifingar byggðar á höfuðborgarsvæðinu.   Samgöngukafli aðalskipulagsins byggir á samningi ríkis og borgar sem felur í sér að horfið verði frá framkvæmdum við samgöngumannvirki næstu 10 árin. Með aðalskipulaginu eru felld út mislæg gatnamót og önnur mannvirki sem tengjast umferðarlausnum. Þetta er gert í þeim sama anda og unnið hefur verið eftir á kjörtímabilinu, sem er að þrengja að umferð. Umferðaröryggi fyrir alla samgöngumáta á að vera forgangsverkefni. Enginn vafi er á að árangursríkasta leiðin til að tryggja umferðaröryggi er að reisa nútímaleg samgöngumannvirki á gatnamótum þar sem alvarlegustu slysin verða. Mikilvægt er að aðalskipulag Reykjavíkur sé unnið í sátt við borgarbúa. Ekkert verkefni hefur þó mætt meiri andstöðu. Vinna við aðalskipulag hefur staðið yfir í nokkur ár en hefur tekið miklum breytingum á þessu kjörtímabili einkum hvað varðar borgarþróun, uppbyggingu svæða og samgöngukaflann. 

2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 21. nóvember.

3. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 22. nóvember, skóla- og frístundaráðs frá 20. nóvember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. og 20. nóvember og velferðarráðs frá 21. nóvember.

Fundi slitið kl. 20.16

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Eva Einarsdóttir     Áslaug Friðriksdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarstjorn_2611.pdf