No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2020, þriðjudaginn 24. mars, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:09. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sabine Leskopf, Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Egill Þór Jónsson, Örn Þórðarson, Marta Guðjónsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir.
Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Skúli Helgason, Aron Leví Beck, Dóra Magnúsdóttir, Hjámar Sveinsson, Rannveig Ernudóttir, Björn Gíslason og Katrín Atladóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki tímabundin frávik frá skilyrðum ákvæða 3. mgr. 17. gr., 5. mgr. 35. gr., 1. mgr. 40. gr., 1. og 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga með vísan til auglýsingar nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Borgarráð fer þannig með sömu heimildir og borgarstjórn hefur fram að næsta reglulega fundi borgarstjórnar þann 21. apríl með sömu skilyrðum og í sumarleyfi borgarstjórnar samkvæmt 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Á þessum tíma verður jafnframt heimilt að nota fjarfundarbúnað á fundum borgarstjórnar, borgarráðs, fagráða samkvæmt B-lið 63. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og annarra nefnda samkvæmt B-lið 64. gr. samþykktarinnar, eftir því sem við á. Notkun fjarfundarbúnaðar skal að jafnaði vera í samræmi við ákvæði í leiðbeiningum um notkun fjarfundarbúnaðar á fundum sveitarstjórna nr. 1140/2013 þó þannig að meirihluti fundarmanna þarf ekki að vera á boðuðum fundarstað eins og fram kemur í 5. gr. Einnig verður fundargerð borgarstjórnar áfram staðfest og yfirfarin af forseta borgarstjórnar og skrifurum, í samræmi við ákvæði 8. gr. leiðbeininganna.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:
Borgarstjórn samþykkir að falla tímabundið frá skilyrðum ákvæða 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga með vísan til auglýsingar nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Vegna áhrifa kórónaveirunnar á samfélagið er mikilvægt að borgarstjórn ræði brýn málefni og komi saman til ákvarðanatöku. Í stað þess að fela borgarráði sömu heimildir og borgarstjórn hefur, fram að næsta reglulega fundi borgarstjórnar 21. apríl, með sömu skilyrðum sem gilda í sumarleyfi borgarstjórnar samkvæmt 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, er lagt til að fjarfundum borgarstjórnar verði fjölgað. Aðeins hluti borgarfulltrúa situr í borgarráði og ekki allir hafa atkvæðarétt þar. Lagt er til að fundir borgarstjórnar verði vikulega fram til 21. apríl. Á þessum tíma verður heimilt að nota fjarfundarbúnað á fundum borgarráðs, fagráðum samkvæmt B-lið 63. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og öðrum nefndum samkvæmt B-lið 64. gr. samþykktarinnar, eftir því sem við á. Notkun fjarfundarbúnaðar skal að jafnaði vera í samræmi við ákvæði í leiðbeiningum um notkun fjarfundarbúnaðar á fundum sveitarstjórna nr. 1140/2013 en meirihluti fundarmanna þarf ekki að vera á boðuðum fundarstað. Í samræmi við 8. gr. leiðbeininganna verður fundargerð borgarstjórnar áfram staðfest og yfirfarin af forseta borgarstjórnar og skrifurum.
Greinargerð fylgir breytingartillögunni. R18060129
Breytingartillagan er felld með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins, Vinstri grænna, og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
Tillagan er samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins, Vinstri grænna, og Flokks fólksins Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi sósíalista fagnar því að hægt sé að nota tæknina til að tryggja að fundir borgarinnar geti farið fram í gegnum fjarfundarbúnað. Á tímum sem þessum telur fulltrúi sósíalista mikilvægt að borgarstjórn komi saman til funda um þau mikilvægu mál sem kunna að koma upp vegna kórónaveirunnar og afleiðinga hennar. Miðað við núverandi fundadagatal er næsti reglulegi fundur borgarstjórnar ekki á dagskrá fyrr enn 21. apríl 2020 og í ljósi aðstæðna lagði borgarfulltrúi sósíalista fram tillögu um að fjölga fjarfundum borgarstjórna á þeim tíma í stað þess að fela borgarráði sömu heimildir og borgarstjórn hefur. Í borgarráði situr einungis hluti borgarfulltrúa og ekki allir þar hafa atkvæðarétt, óháð borgarstjórn. Á tímum sem þessum er mikilvægt að tryggja að borgarstjórn komi öll saman og að hún geti öll tekið þátt í þeirri stefnumótandi ákvarðanatöku sem er framundan.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur tjáð sig í ræðu og riti um óskir þess að borgarstjórn, meiri- og minnihluti, vinni saman að tillögum, aðgerðarplani og ákvörðunum í þessum fordæmalausu aðstæðum enda sterkari saman en sundruð. Hins vegar finnst borgarfulltrúa það ekki mikilvægt að ákveða fjölgun borgarstjórnarfunda hér og nú næsta mánuðinn heldur myndi frekar sjá fyrir sér að oddvitar flokkanna hittust á fjarfundum reglulega samhliða öðrum fundum sem haldnir eru til að ræða um tillögur, aðgerðir og framvindu aðstæðna. Hvað varðar borgarstjórn Reykjavíkur telur borgarfulltrúi Flokks fólksins hins vegar að nú þegar sá möguleiki hefur skapast að geta haldið fjarfundi þá sé ekkert að vanbúnað að boða til aukafunda oftar en sjaldnar og skapist eitthvað vafamál um hvort rétt eða nauðsynlegt sé að kalla saman fund þá skuli það hiklaust gert bæði þann mánuð sem heimildin nær til og í framtíðinni.
Fundi slitið kl. 12:45
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Sabine Leskopf
Sanna Magdalena Mörtudóttir Líf Magneudóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjorn 24.3.2020 - aukafundur - prentvæn útgáfa