Borgarstjórn - 2.4.2019

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2019, þriðjudaginn 2. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:04. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Gunnlaugur Bragi Björnsson, Pawel Bartoszek, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Sabine Leskopf, Guðrún Ögmundsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þór Elís Pálsson, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Egill Þór Jónsson, Marta Guðjónsdóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir, Örn Þórðarson og Björn Gíslason.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

1. Reykjavíkurborg skorar á ráðherra að fella burt takmarkanir á hámarksfjölda umhverfisvænna leigubíla á höfuðborgarsvæðinu. 2. Reykjavíkurborg lýsir því yfir að þeir aðilar sem hyggjast bjóða upp á leigu á reiðhjólum og léttum rafknúnum farartækjum séu velkomnir til Reykjavíkur. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að fylgjast með þróun mála og gera, eftir þörfum, tillögur að reglum fyrir slíka starfsemi til að tryggja gæði og stýringu. 3. Unnið skal að því á vettvangi skipulags- og samgönguráðs að uppfæra reglur um bílastæðafríðindi visthæfra deilibíla til að styðja við notkun þeirra.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19040028

Samþykkt með 21 atkvæði Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Flokks fólksins gegn einu atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg á að vera opin fyrir nýjungum í samgögnum. Með tillögunni er lagt til að afnumið verði þak á fjölda visthæfra leigubíla, að farið verði í aðgerðir til að styðja við notkun deilibíla og að borgin lýsi því yfir að hún taki þeim sem hyggjast leigja út hjól eða lítil rafknúin farartæki fagnandi. Allt eru þetta aðgerðir sem styðja við fjölbreyttar ferðavenjur og búa til valkosti fyrir þá sem vilja oftar fara ferða sinna öðruvísi en á eigin bíl.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Líkt og fram kemur með skýrum hætti í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokks, leggja fulltrúar flokksins áherslu á tryggan starfsgrundvöll og betri nýtingu deilihagkerfis í samgöngum, líkt og fyrri tillögur flokksins hafa undirstrikað. Á þessum nótum megi einnig ýta enn frekar undir betri nýtingu bíla, með auknu samfloti. Eins kemur fram í landsfundarályktun að nýta skuli vistvæna orkugjafa enn frekar í samgöngum og fylgjast vel með tækniframförum og þróun á sviði samgangna. Þá sé tímabært að afnema samkeppnishömlur á leigubifreiðamarkaði svo aukinn sveigjanleiki fáist í þjónustuframboði, verðmyndun og nýsköpun. Samtímis megi vel tryggja hóflegar kröfur um gæði og öryggi þjónustu.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Sósíalistaflokksins fagnar deilisamgöngum sem geta reynst jákvæð leið til að koma í veg fyrir mengun og umferð. Þessi tillaga gengur þó m.a. út á það að fella burt takmarkanir á hámarksfjölda leigubifreiða á höfuðborgarsvæðinu. Á meðan það liggur ekki fyrir hvort þörf sé á því hefur fulltrúi Sósíalistaflokksins áhyggjur af því að slíkt geti haft slæm áhrif á lífsviðurværi þeirra sem nú starfa sem leigubílstjórar. Áður en farið er í slíkar viðamiklar breytingar er mikilvægt að kalla eftir upplýsingum um hvort það sé þörf á fjölgun leigubíla og hvernig slíkt muni hafa áhrif á starfandi leigubílstjóra. Í staðinn telur fulltrúi Sósíalistaflokksins að það eigi að aðstoða núverandi leigubifreiðastjóra við að komast á vistvæna bíla. Það er mat fulltrúa Sósíalistaflokksins að stjórnvöld ættu að vinna að því að flýta fyrir slíkum orkuskiptum í bifreiðum. Tillagan felur einnig í sér að Reykjavíkurborg styðji og vinni með fyrirtækjum og frumkvöðlum sem hafi áhuga á að bjóða upp á leigu á reiðhjólum og léttum rafknúnum farartækjum. Fulltrúi Sósíalistaflokksins styður slíkar almenningssamgöngur en finnst mikilvægt að reksturinn verði félagslegur en verði ekki komið í hendur þeirra sem eru með hagnaðarsjónarmið að markmiði. Reykjavíkurborg gæti t.d. séð beint um utanumhaldið og útleiguna.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Miðflokkurinn er í fararbroddi umhverfis- og auðlindamála en borgarfulltrúi flokksins leggst alfarið gegn þessum tillögum. Hér gerir meirihlutinn enn á ný aðför að fjölskyldubílnum. Sú stefna er meira í ætt við þráhyggju og forræðishyggju og á ekkert skylt við deilisamgöngur. Fram kemur í markmiðum tillagnanna að þær eigi að ýta undir ýmsa fjölbreytta ferðamáta, sem allir eigi það sameiginlegt að vera einstaklingmiðaðir en um leið auðvelda fólki að komast leiðar sinnar öðruvísi en á eigin bíl. Þetta er lélegur grímubúningur andstöðunnar við fjölskyldubílinn. Fólk verður að hafa frelsi til að nota þann samgöngumáta sem það vill og það er afturför til síðustu aldar að setja svo íþyngjandi reglur fyrir borgarana. Borgarfulltrúa Miðflokksins er það til efs að ferða- og atvinnufrelsi megi skerða á þann hátt sem hér er lagt til. Markaðurinn leysir þessar tillögur sem hér liggja fyrir sjálfur án valdboðs meirihlutans í Reykjavík og er kominn langleiðina með það.

-    Kl. 15:25 tekur Katrín Atladóttir sæti á fundinum og Jórunn Pála Jónasdóttir víkur sæti. 

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að styðja við íþróttafélögin í Reykjavík að koma á fót rafíþróttadeildum innan félaganna. Þannig er lagt til að borgin styðji við og styrki þau félög sem hafa hug á að koma á fót rafíþróttadeildum. Þá er jafnframt lagt til að iðkendur geti nýtt sér frístundakort Reykjavíkur líkt og með aðrar íþróttagreinar í samræmi við reglur um frístundakortið. Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar verði falin nánari útfærsla á stuðningi borgarinnar við íþróttafélögin. 

Greinargerð fylgir tillögunni. R19040029

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vinsældir rafíþrótta hafa vaxið mikið um allan heim. Hér eru heilmikil sóknarfæri fyrir hendi til að draga úr félagslegri einangrun sumra barna og ungmenna, finna ástríðu og áhugamálum þeirra farveg undir leiðsögn og tengja þau betur í annað íþrótta- og tómstundastarf í borginni. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins og Vinstri grænna í borgarstjórn eru sammála um að eðlilegt sé að börn geti nýtt frístundakort í rafíþróttum, rétt eins og í öðru skipulögðu íþróttastarfi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins og Vinstri grænna eru sammála um að styðja við viðleitni íþróttafélaga, eða annarra, sem hyggjast bjóða upp á rafíþróttir í tengslum við starf sitt. Tillögu Sjálfstæðisflokksins er vísað til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs til frekari úrvinnslu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins veit að rafíþróttir eru komnar til að vera og hafa án efa fjölmarga kosti og mikið skemmtanagildi. Engu að síður eru nokkrar áhyggjur af börnum sem eru í áhættu fyrir tölvufíkn og/eða glíma við hreyfingarleysi. Áhyggjur eru af unglingum sem vilja ekki víkja frá tölvunum til að fara í skólann eða til að stunda hreyfingu sem er öllum börnum og unglingum mikilvægt. Rafíþróttir eru jú setuíþrótt. Flokkur fólksins metur það að ætlunin er að styrkja keppendur í íþróttinni með líkamlegum æfingum. Hvað varðar notkun frístundakorts í þessu samhengi vill Flokkur fólksins að frístundakortið sé ekki hvað síst notað til að hvetja börn og unglinga til hreyfingar og útiveru af hvers lags tagi. Til þess þyrfti að útvíkka reglur kortsins umtalsvert. Eins og staðan er nú er t.d. ekki hægt að nota frístundakortið til kaups á sundkorti því sú tillaga Flokks fólksins hefur verið nýlega felld í borgarráði. Nauðsynlegt er því að árétta að breyta þarf notkunarmöguleikum frístundakostsins svo m.a. verði hægt að nota þau á niðurgreidd sumarnámskeið á vegum borgarinnar eða félaga, aðeins er undanþága að nota þau vegna sumarnámskeiða fyrir fatlaða í Reykjadal.

3.    Fram fer umræða um auglýsinga- og kynningarkostnað sl. 10 ár, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. febrúar 2019, að beiðni borgarfulltrúa Miðflokksins.  R19010334

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg hefur eytt rúmum milljarði í auglýsingar á síðastliðnum níu árum. Athygli vekur að kosningaárin 2014 og 2018 standa uppúr hvað kostnað varðar. Hámarkinu var náð á árinu 2018 þegar auglýsingakostnaður nam rúmri 151 milljón króna. Þetta eru ótrúlega háar upphæðir hjá einu sveitarfélagi. Auðvitað er eitthvað af þessum auglýsingum lögboðnar eins og t.d. útboðsauglýsingar, auglýsingar um skipulagsmál og fleira. Hið opinbera á að halda úti þögulli þjónustu og forgangsraða fjármagni í lögbundna- og grunnþjónustu. Hins vegar er Reykjavíkurborg rekin eins og skemmtistaður og nú er það nýjasta að kaupa jákvæða umfjöllun svokallaðra áhrifavalda til að auglýsa upp ólögbundin verkefni borgarinnar. Borgin er komin út á vafasamar brautir þegar slík þjónusta er notuð því bæði Neytendastofa og skattayfirvöld hafa haft afskipti af slíkum aðferðum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Auglýsingar og kynningar eru mikilvægur þáttur í rekstri borgarinnar og snúa líka að aðgengi að upplýsingum. Níuþúsund manna fyrirtæki þarf að auglýsa eftir fólki, auglýsa skipulag og auglýsa þjónustu, s.s. sundlaugar og menningarstofnanir. Afar mikilvægt er að þeim fjármunum sem varið er í kynningar sé vel varið og notaðar séu auglýsingar sem ná til þess markhóps sem borgin vill ná til í hvert skipti. Mikilvægt er líka að gæta jafnræðis og að upplýsingar um kaupin séu aðgengilegar og gagnsæjar. Allri umræðu um kaup á jákvæðri umfjöllun og að borgin sé rekin eins og skemmtistaður er vísað til föðurhúsanna.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Auglýsingakostnaður Reykjavíkurborgar frá árinu 2010 og fram til febrúar ársins 2019 er rúmur milljarður króna, eða alls 1.016.520. Sjá má að kostnaður hefur aukist töluvert frá árinu 2010 og hefur aukist undanfarin ár. Eftir því er tekið að Fréttablaðið fékk stærstu sneiðina. Það er ekki óeðlilegt að hugsa um hlutleysi og hlutdrægni í þessu sambandi. Allir vita að í gegnum tíðina hafa fréttablöð verið tengd flokkum og flokkspólitík. Hlutlausir fréttamiðlar er draumur allflestra. Það að geta treyst á að fjölmiðill hampi ekki stefnu eða málflutningi ákveðins flokks er það sem við öll viljum. Ef fjölmiðill á fjárhagslega mikið undir því að stjórnmálaflokkur eða flokkar auglýsi hjá þeim fyrir stórfjárhæðir þá telur Flokkur fólksins alveg eðlilegt að hafa áhyggjur af hlutleysi þess miðils.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins: 

Flokkur fólksins leggur til að frestað verði fyrirhugaðri lokun Laugavegar og hluta Skólavörðustígs til frambúðar. Lagt er til að Reykjavíkurborg taki upp samstarf við háskóla og/eða reynslumikið fyrirtæki sem framkvæmir skoðanakannanir, í þeim tilgangi að vinna að viðhorfsrannsókn ýmissa hópa í borginni gagnvart lokun umræddra gatna fyrir bílaumferð. Lagt er til að leitað verði viðhorfa hagsmunaaðila við þær götur sem á að loka, jafnframt samtök eldri borgara, samtök fatlaðra og breiðs hóps borgarbúa sem búa víðs vegar um borgina. Nauðsynlegt er að úrtakið endurspegli þýðið og sýni þannig sem best raunverulegan vilja borgarbúa og einstakra hópa. Nauðsynlegt er að móta spurningar þannig að skýrt sé hvað spurt er um og þátttakendum gert ljóst hvað er í vændum varðandi lokun þessara gatna til frambúðar.

-    Kl. 20:25 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Ellen Jacqueline Calmon tekur sæti. 

Forseti vítir borgarfulltrúa Vigdísi Hauksdóttur vegna brigsla, sem hún ber forseta í ræðu sinni, með vísan til 2. mgr. 17. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi breytingatillögu: 

Flokkur fólksins leggur til að fram fari víðtækara samráð en nú hefur átt sér stað áður en ákvarðanir verði teknar um lokun Laugavegar og hluta Skólavörðustígs til frambúðar. Lagt er til að Reykjavíkurborg taki upp samstarf við háskóla og/eða reynslumikið fyrirtæki sem framkvæmir skoðanakannanir, í þeim tilgangi að vinna að viðhorfsrannsókn ýmissa hópa í borginni gagnvart lokun umræddra gatna fyrir bílaumferð. Lagt er til að leitað verði viðhorfa hagsmunaaðila við þær götur sem á að loka, jafnframt samtök eldri borgara, samtök fatlaðra og breiðs hóps borgarbúa sem búa víðs vegar um borgina. Nauðsynlegt er að úrtakið endurspegli þýðið og sýni þannig sem best raunverulegan vilja borgarbúa og einstakra hópa. Nauðsynlegt er að móta spurningar þannig að skýrt sé hvað spurt er um og þátttakendum gert ljóst hvað er í vændum varðandi lokun þessar gatna til frambúðar. R19040030

Breytingatillögunni er vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðsluna.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins dregur framlagða tillögu sína tilbaka og kemur hún því ekki til atkvæðagreiðslu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er með ólíkindum hvernig borgarmeirihlutinn ætlar að hunsa óskir hagsmunaaðila við aðalverslunargötur borgarinnar með því að hunsa undirskriftalista þeirra, sem bárust borginni í dag, þar sem allt að 90% þeirra eru mótfallnir lokunum á þessu svæði. Það sýndi meirihlutinn með því að vísa frá breytingatillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins á eigin tillögu. Hér skortir alla auðmýkt hjá meirihlutanum. Hér er sýndur ótrúlegur ósveigjanleiki og barnaleg þrákelkni borgarfulltrúa meirihlutans. Vilja rekstraraðila skal bara troðið ofan í kokið á þeim og undirskriftalistarnir fara ofan í skúffu eða skjalasafn hjá borgarstjóra. Borgarbúar hafa verið beittir blekkingum með ranglega orðaðri skoðanakönnun m.a. Verði haldið áfram með þessar lokanir er verið að misbjóða borgarbúum gróflega. Hér á að valta yfir fjölmarga. Hvar er samráð við hreyfihamlaða og eldri borgara? Tal um samráð er bara hjómið eitt og sannarlega er hvorki verið að huga að þeim sem glíma við hreyfihömlun né eldri borgara. Flokkur fólksins gerir kröfu um að haft sé fullt samráð þegar kemur að þessum lokunum. Annað er ólíðandi í lýðræðislegu samfélagi.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er miður, og sóun á tíma borgarstjórnar, að eftir þriggja tíma umræðu og fjölmörg fundahlé hafi tillöguflytjandi ákveðið að draga tillögu sína til baka og ekki gefið borgarstjórn færi á að greiða um hana atkvæði. Nokkrir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir stuðningi við tillögu Flokks fólksins, sem hefði falið í sér að fyrirhugaðri „lokun“ Laugavegar yrði frestað. Gott hefði verið að sjá hvort allir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tækju undir þau sjónarmið.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð meirihlutans þar sem tillöguflytjanda er gert ókleift að breyta eigin tillögu. Sá plagsiður að „vísa tillögum frá“ án afgreiðslu og án þess rökstuðnings sem gerð er krafa um í 26. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar er dæmi um vond vinnubrögð. Þegar tillagan er samþykkt inn á dagskrá borgarstjórnar í forsætisnefnd og síðan gengið til dagskrár er hún tæk til afgreiðslu þar með talið að gerðar séu breytingatillögur um hana.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Miðflokksins er orðlaus yfir framvindu fundarins og fundarstjórn í Ráðhúsinu í kvöld, en hvetur til þess að fólk skoði upptökur af fundinum. Bókunin verður því ekki lengri.

-    Kl. 22:10 víkur Líf Magneudóttir af fundi og Elín Oddný Sigurðardóttir tekur sæti. 

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Lagt er til að borgarstjórn beiti sér fyrir því að samráð verði haft við strætónotendur áður en leiðakerfisbreytingar Strætó bs. eiga sér stað. Þá er einnig lagt til að tekið verði tillit til þeirra þarfa og væntinga sem fram koma í samráðsferlinu. Hér er um að ræða allar leiðakerfisbreytingar að undanskildum þeim sem eru óhjákvæmilegar, t.d. vegna framkvæmda við ákveðnar götur. Í þeim tilfellum er þó mikilvægt að Strætó bs. eigi samráð við strætónotendur til að veita sem besta þjónustu þegar ferðir um ákveðnar götur liggja niðri. Þá er einnig mikilvægt að stjórn Strætó bs. eigi í virku samtali við strætófarþega, skyldu þeir sjálfir telja þörf á ákveðnum leiðakerfisbreytingum eða bætingum á leiðakerfinu. Faghópur um leiðakerfisbreytingar tók nýverið til starfa en hlutverk hópsins er að koma með tillögur að heildstæðu leiðakerfi sem taki tillit til uppbyggingar borgarlínu og hámarksskilvirkni kerfisins. Strætó bs. hefur greint frá því að fulltrúi notenda sitji í faghópnum en hér er lagt til að samráðið verði aukið við strætófarþega almennt. Slíkt mætti t.d. gera með hverfaskiptum samtölum í nærumhverfi strætónotenda, t.d. í hverfisráðum, og með því að senda hagsmunaaðilum líkt og ungmennaráðum, mögulegar leiðakerfisbreytingar til umsagnar. R19040031

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar hjá stjórn Strætó. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

6.    Fram fer umræða um stöðu hverfisráða að beiðni borgarfulltrúa Miðflokksins. R19040032

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokksins harma þann drátt sem orðið hefur á því að skipa hverfisráð og gera þau starfhæf að nýju. Á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar í júní á síðasta ári, samþykkti meirihlutinn að fresta kosningum í öll hverfisráð Reykjavíkurborgar til áramóta og leysti þá jafnframt sitjandi hverfisráð frá störfum. Í september var skipaður stýrihópur um „endurskipulagningu og framtíðarskipan fyrir hverfisráðin“ undir stjórn formanns mannréttinda- og lýðræðisráðs. Í erindisbréfi stýrihópsins er honum ætlað að skila niðurstöðum fyrir borgarráð 13. nóvember 2018. Stýrihópurinn hélt fjölda vinnufunda ásamt því að halda íbúafundi í öllum hverfum borgarinnar. Kallað var eftir umsögnum íbúasamtaka og fundað með forstöðumönnum og sviðsstjórum. Vinna stýrihópsins tók mið af því að hægt yrði að standa við fyrirheit um að gera hverfisráð borgarinnar starfhæf um síðustu áramót. Það tókst ekki, en stýrihópurinn lagði fram drög að lokaskýrslu sinni í byrjun febrúar. Síðan þá hefur ekkert spurst til hverfisráða, engar upplýsingar gefnar um stöðu mála, né skýringar gefnar á þeim óásættanlega drætti sem orðinn er á endurskipulagningu og framtíðarskipan hverfisráðanna. Þessi vinnubrögð eru harðlega átalin enda í hróplegri mótsögn við stefnu meirihlutans og fara gegn fyrirheitum um aukið íbúalýðræði og endurskoðun hverfaráðanna með skilvirkni, eflingu lýðræðis og bætt samstarf við íbúana að leiðarljósi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins saknar þessa að sjá hvað hægt gengur með að koma hverfisráðunum í gang að nýju. Starf stýrihópsins hefur dregist von úr viti. Það er mjög mikilvægt að í hverfisráði geti setið aðrir en borgarfulltrúar og er þá verið að meina að þarna ætti að geta átt sæti fólk sem er á listum allra flokka ef vel ætti að vera. Tengsl við borgarfulltrúa má tryggja með ýmsum hætti. Mikilvægt er að sá sem á sæti í hverfisráði hafi tengsl við viðkomandi hverfi og hafi brennandi áhuga á verkefni ráðanna. Drífa þarf í að koma hverfisráðunum aftur í gang helst í þeirri sömu mynd og þau voru.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Hverfisráð hafa starfað við góðan orðstír um langt skeið. Ákveðið var í upphafi kjörtímabils að fresta kosningu í hverfisráð meðan vinna við endurskipulagningu þeirra færi fram. Þeirri vinnu er að ljúka og verður hún kynnt á næstu vikum og mun kosning fara fram þegar niðurstaða vinnunnar liggur fyrir.

7.    Lagt er til að Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon og Egill Þór Jónsson taki sæti í aðgengis- og samráðsnefnd fatlaðs fólks og að Alexandra Briem¸ Aron Leví Beck og Þórdís Pálsdóttir taki sæti sem varamenn í ráðinu.

Einnig er lagt til að Ellen Jacqueline Calmon verði formaður nefndarinnar. R19040033

Samþykkt.

8.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 14., 21. og 28. mars. R19010002

22. liður fundargerðarinnar frá 14. mars; ábyrgð á lántöku Félagsbústaða hjá Lánasjóði sveitarfélaga, sem var samþykktur á fundi borgarstjórnar 19. mars sl., er nú lagður fram að nýju ásamt svohljóðandi bókun: R18100327

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Félagsbústaða hf. hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að nafnvirði 3.000 m.kr. til 36 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Ábyrgð þessi er veitt skv. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og veitir sveitarstjórnin lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til greiðslu láns þessa, ásamt vöxtum og verðbótum auk hvers kyns innheimtukostnaðar. Lánið er tekið til að fjármagna kaup á félagslegu húsnæði og til uppgreiðslu óhagstæðra lána Félagsbústaða hf. sem tekin voru til kaupa og viðhalds á félagslegu húsnæði, sem fellur undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Borgarstjórn Reykjavíkur skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Félagsbústaða hf. til að selja ekki eignarhlut sinn í Félagsbústöðum hf. til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt. Fari svo að Reykjavíkurborg selji eignarhlut í Félagsbústöðum hf. til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjavíkurborg sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu. Jafnframt er Birgi Birni Sigurjónssyni, kt. 200249-2169, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að samþykkja f.h. Reykjavíkurborgar veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningar og til þess að móttaka, undirrita, gefa út og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. mars:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks vara við því að verið sé að veðsetja tekjur borgarsjóðs enn og aftur fyrir dótturfyrirtæki borgarinnar. Í þessu tilfelli fyrir þrjá milljarða króna. Lánið er á mun betri kjörum en Félagsbústöðum býðst annars og léttir á vaxtakostnaði félagsins. Rétt er að árétta að fjármálaskrifstofa borgarinnar vekur athygli á því í umsögn sinni að aðgengi borgarinnar að hagstæðum lánum Lánasjóðs sveitarfélaga lækkar um þriðjung.

-    Kl. 23:00 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum.

10.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 29. mars, mannréttinda- og lýðræðisráðs frá 14. og 28. mars, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 25. mars, skóla- og frístundaráðs frá 26. mars, skipulags- og samgönguráðs frá 20. mars og umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 15. og 27. mars. R19010073

1. liður fundargerðar forsætisnefndar; tillaga um að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar 16. apríl 2019, er samþykktur. R19010103

2. lið fundargerðar forsætisnefndar; breyting á viðaukum vegna fullnaðarafgreiðsluheimilda skipulagsfulltrúa, er vísað til síðari umræðu. R18060129

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 26. mars:

Tillaga Flokks fólksins um að öll börn sem sækja félagsmiðstöðvar geti tekið þátt í ferðum eða viðburðum á þeirra vegum án tillits til efnahags foreldra var felld í skóla- og frístundaráði. Meirihlutinn verður að fara að horfast í augu við að hópur barna elst upp hjá fátækum foreldrum og að fátækt hindrar sum börn í að taka þátt í viðburðum sem kosta. Hér er e.t.v. ekki um stórar upphæðir að ræða en þúsund krónur er mikill peningur hjá þeim sem ekki á. Flokkur fólksins veit að starfsfólkið gerir sitt besta til að enginn verði útundan. Söfnun er liður í því og fjáröflun er góð og gild og oft einnig mikil skemmtun. En það má aldrei vera þannig að þátttaka aðeins sumra barna en ekki annarra eigi að vera háð því hvernig til tekst að safna fé. Það er afar slæmt að ekki er hægt að greiða fyrir þátttöku í starfi félagsmiðstöðva með frístundakorti Reykjavíkurborgar. Að sjálfsögðu eiga félagsmiðstöðvar ekki að hafa upplýsingar um hvaða foreldrar eru undir framfærsluviðmiðum eins og rétt er sagt í svari og enginn að fara fram á það heldur. Fyrirkomulag um gjaldfría þjónustu er hægt að hafa með ýmsu öðru móti en að upplýsa félagsmiðstöðvar beint um erfiða fjárhagsstöðu foreldra.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 25. mars:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að raunhæfnimat og athugun á viðhalds- og rekstrarkostnaði verksins fari fram, líkt og samþykkt var í borgarstjórn, sbr. 7 lið fundargerðar borgarstjórnar frá 7. febrúar sl. Eins væri hugsanlega æskilegt að Reykjavíkurborg skerpti á skilmálum í samningsmarkmiðum borgarinnar hvað varðar ráðstöfun þess fjármagns sem eyrnamerkt er listsköpun í almenningsrými, t.d. hvort því skuli almennt varið til kaupa á einu verki eða fleirum á hverju uppbyggingarsvæði.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 25. mars: 

Samkeppni um listaverk í Vogabyggð er skilgetið afkvæmi einkaréttarlegra samninga sem borgin gerði fyrir nokkrum árum við lóðahafa á svæðinu um uppbyggingu innviða. Samningarnir snerust meðal annars um kostnaðarþátttöku við gerð listaverka. Fyrir rúmu ári var sett af stað metnaðarfull alþjóðleg samkeppni um listaverk fyrir þetta nýja borgarhverfi. Þetta var tveggja þrepa samkeppni undir verkstjórn forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur og farið í einu og öllu eftir samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna. Dómnefnd var skipuð myndlistarfólki að meirihluta. Borgarfulltrúar meirihlutans fagna því hve myndlist er mikils metin í skipulagi og hönnun hins nýja Vogahverfis.

Fundi slitið kl. 23:34

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Dóra Björt Guðjónsdóttir

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir    Vigdís Hauksdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 2.4.2019 - Prentvæn útgáfa