Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2015, þriðjudaginn 22. september, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 17.05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug María Friðriksdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina:
Borgarstjórn samþykkir að draga til baka samþykkt borgarstjórnar frá 15. september 2015 um undirbúning og útfærslu á sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum.
Greinargerð fylgir tillögunni.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:
Borgarstjórn samþykkir að draga til baka samþykkt borgarstjórnar frá 15. september 2015 um undirbúning og útfærslu á sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Forseti borgarstjórnar ákveður að umræða og afgreiðsla framlagðra tillagna fari fram samhliða og vísar þeim úrskurði til úrlausnar borgarstjórnar í samræmi við 2. mgr. 16. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkur og fundarsköp borgarstjórnar.
Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
- Kl. 19.49 víkur Hjálmar Sveinsson af fundinum og Dóra Magnúsdóttir tekur þar sæti.
- Kl. 20.00 víkur Dagur B. Eggertsson af fundinum og Sabine Leskopf tekur þar sæti.
Framlagðar tillögur eru samþykktar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan er samþykkt af okkar hálfu á grundvelli greinargerðar með tillögu okkar. Þar kemur fram að tilgangur tillögunnar er að lágmarka þann skaða sem orðspor og viðskipti Íslands við önnur lönd hefur orðið fyrir fram til þessa vegna ákvörðunar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar. Við höfnum alfarið þeim sjónarmiðum sem fram koma í greinargerð meirihlutans um að einhver næstu skref verði tekin og leita ráðgjafar og hafa samráð við utanríkisráðuneytið. Við teljum að eina leiðin til að takmarka það mikla efnislega og óefnislega tjón sem samþykkt tillögunnar hefur haft í för með sér eigi sér aðeins stað með fullkominni afturköllun. Alltof langur tími leið þar til viðbrögð meirihlutans komu í ljós. Á þeim tíma varð tjón á viðskiptahagsmunum íslenskra fyrirtækja, tjón á orðspori Íslands og Reykjavíkurborgar og óvissa varð um áætlanir um risastóra uppbyggingu af hálfu erlendra fjárfesta.
Fundi slitið kl. 21.10.
Sóley Tómasdóttir
Halldór Halldórsson Skúli Helgason
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 22.9.2015 - prentvæn útgáfa