Borgarstjórn - 2.2.2021

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, þriðjudaginn 2. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Hildur Björnsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Alexandra Briem, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Sabine Leskopf, Kolbrún Baldursdóttir og Ragna Sigurðardóttir. Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sætu á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Valgerður Sigurðardóttir, Skúli Helgason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Örn Þórðarson, Björn Gíslason, Egill Þór Jónsson og Dóra Björt Guðjónsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagðar fram tillögur að markvissum vinnu- og virkniaðgerðum vegna stöðunnar á vinnumarkaði í kjölfar COVID-19, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. janúar.  R20060016

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikilvægasta verkefni ríkis og sveitarfélaga um þessar mundir er að vinna gegn atvinnuleysinu sem nú er í sögulegu hámarki vegna afleiðinga heimsfaraldursins. Atvinnuleysið á landsvísu er um 12% og 10,6% í Reykjavík þar sem ekki hafa fleiri verið án atvinnu. Með þessari tillögu er samþykkt að skapa fjölbreytt störf fyrir 200 atvinnuleitendur í fyrsta áfanga og setja á fót skilvirka atvinnu- og virknimiðlun sem vinna mun markvisst að því að finna störf og bjóða stuðning fyrir þá hópa sem á þurfa að halda, með áherslu á ungt fólk og atvinnuleitendur af erlendum uppruna þar sem hlutfall atvinnulausra er hvað hæst. Vinna þarf með opinberum stofnunum, atvinnulífinu og þriðja geiranum til að styðja fólk til starfa eða virkni og draga úr skaða atvinnuleysis og langtímaáhrifum þess með samræmdum og markvissum aðgerðum. Byggt verður á reynslu af vinnumarkaðsaðgerðum sem unnið var að eftir efnahagshrunið 2008.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Öflugt atvinnulíf er grundvallarforsenda velsældar. Atvinnulífið þrífst ekki án hvata og fyrirtæki dafna ekki án svigrúms til fjárfestinga og hagnaðar. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði hafa loks verið lækkaðir úr lögleyfðu hámarki en mættu lækka meira. Við byggjum ekki upp traust velferðarsamfélag án starfa og við byggjum ekki upp öflugt atvinnulíf án þess að jarðvegurinn sé góður. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja því tillöguna að markvissum vinnu- og virkniaðgerðum vegna stöðu á vinnumarkaði í kjölfar COVID-19. Hér er um virkniúrræði að ræða þar sem verið er að skapa störf fyrir þá sem annars væru á fjárhagsaðstoð.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Í desember 2020 voru 8.606 skráðir án atvinnu í Reykjavík. Þessi tillaga miðar að því að koma á fót atvinnu- og virknimiðlun sem komi virkni og vinnuaðgerðum í framkvæmd í áföngum eftir því hvernig staðan á vinnumarkaði þróast á tímabilinu 2021-2022. Ráðið verður í 9 stöðugildi sérfræðinga sem starfa við vinnumiðlun og við stuðningsaðgerðir. Áætlað er að fyrsti áfangi hefjist í febrúar 2021 þar sem störf og stuðningsúrræði verða sköpuð fyrir eftirfarandi hópa: atvinnulausir einstaklingar með bótarétt (150 störf) og vinnufærir einstaklingar sem eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum og fá fjárhagsaðstoð til framfærslu (50 störf). Fulltrúi sósíalista telur brýnt að Reykjavíkurborg gefi í og skapi enn fleiri störf. Möguleikarnir eru víða t.a.m. í skóla- og frístundastarfi og í umönnunarstörfum, til að létta á álagi. Einnig væri hægt að vinna gegn útvistun með því að ráða starfsfólk beint til borgarinnar. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Þetta eru mikilvæg og nauðsynleg verkefni og styður fulltrúi Flokks fólksins tillöguna um markviss vinnu- og virkniaðgerðir vegna stöðu á vinnumarkaði í kjölfar COVID-19. Um nauðsyn þessara verkefna er sannarlega ekki deilt. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgarmeirihlutann til að leita eftir samstarfi og samvinnu við þá sem nú þegar eru að sinna þessum verkefnum til að læra af reynslu þeirra. Samnýting og samvinna er mikilvæg í þessu sem öðru enda erum við öll í þessum óvenjulegu aðstæðum saman. Um er að ræða nokkuð stóra vinnumiðlun sem hér er lagt til að verði sett á laggirnar, með all stórri yfirbyggingu. Ráðið verður í 9 stöðugildi sérfræðinga. Auk kostnaðar við laun og launatengd gjöld er kostnaður við fjölmargt annað. Með samvinnu og samnýtingu við aðrar vinnumiðlanir og þá sem hafa reynslu á þessu sviði má sjá fyrir sér hagræðingu í mörgum þáttum og skilvirkni við vinnslu aðgerðanna.

-    Kl. 15.25 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir víkur.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að fara í þríþættar aðgerðir til að bæta loftgæði í borginni. Í fyrsta lagi að auka þrif á götum borgarinnar, í annan stað að auka viðbragðstíma snjómoksturs og í þriðja og síðasta lagi að veita afslátt af gjaldskyldum bílastæðum fyrir þá sem ekki aka á nagladekkjum. Umhverfis- og skipulagssviði verði falin nánari útfærsla sem lögð verði fyrir skipulags- og samgönguráð eigi síðar en 15. febrúar næstkomandi. Samvinna verði höfð við Vegagerðina og nágrannasveitarfélögin með hagkvæmni og loftgæði að leiðarljósi.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21020042

Samþykkt að vísa tillögunni til umsagnar borgarlögmanns.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Við ættum að líta til Osló varðandi þrif. Við ættum að auka öryggistilfinningu íbúa með bættum vinnubrögðum við snjómokstur og minnka þannig þörfina fyrir nagladekk. Borgin lætur kanna notkun nagladekkja árlega. Í síðustu könnun kom fram að hlutfall negldra dekkja er töluvert hærra í ár en í fyrra og síðastliðin ár. Þá kom fram að hlutfallið skiptist þannig að 40% ökutækja reyndust vera á negldum dekkjum. Hlutfall þeirra ökutækja sem voru á negldum dekkjum töluvert minna, eða 31% árið áður. Fyrir tveimur árum var hlutfallið enn lægra eða 22%. Hér hefur nagladekkjanotkun því stóraukist í tíð þessa meirihluta. Ef ekkert verður framkvæmt er meirihlutinn endanlega búinn að tapa umræðunni um svifryk, borgarbúar fá nú endanlega staðfestingu á því að þau hafa ekki áhuga á að taka á þessum málum. Sú staðreynd er dapurleg.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Rannsóknir styðja ekki að aukin þrif eða styttri viðbragðstími vegna snjómoksturs séu markvissar leiðir til að bæta loftgæði. Gjöld á nagladekk geta hins vegar verið það og er því fallist á að vísa þeim hluta tillögunnar til frekari skoðunar við endurskoðun loftgæðaáætlunar borgarinnar. Fengin verði umsögn borgarlögmanns varðandi lagalega þætti.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn samþykkti ekki tillögu sem dregur úr svifryksmengun í borginni og hengir sig á stórfurðulegra skýrslu sem unnin var fyrir styrk úr rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar. Skýrslan er satt best að segja stórfurðuleg og í engu samræmi við veruleikann, almenna þekkingu og skynsemi. Í skýrslunni kemur fram að nagladekkjanotkun spili næst stærsta þáttinn í myndun svifryks frá umferð í borginni, að hlutur þungaumferðar í svifryksmengun sé lítil og að götuþvottur sé óskilvirk aðferð. Það er óskiljanlegt að Vegagerðin haldi þessari skýrslu á lofti og enn óskiljanlegra að skipulags- og samgönguráð, ásamt umhverfis- og heilbrigðisráði Reykjavíkur geri slíkt hið sama og líti á hana sem biblíu í svifryksmengun. Staðreyndin er sú að tryggingafélögin gera það að skyldu að bílaleigubílar séu á nelgdum dekkjum. Ferðamenn eru að lang stærstum hluta notendur bílaleigubíla. Nú hafa engir ferðamenn verið hér á landi í tæpt ár og svifryksmengun hefur samt mælst þó nokkra daga yfir mörkum á því tímabili. Er það mikið áhyggjuefni. Ergo: Mengunarvaldarnir eru skortur á götuþvotti, þungaflutningar og akstur stórra bíla á götum borgarinnar. Má þar nefna olíuflutninga úr Örfirisey, Strætó, stórfelldra grjótflutninga af Landsspítalalóðinni og aðfangaakstur í nýtt Landsbankahús í miðbænum. Að halda öðru fram er della. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Svifryk er sannarlega vandamál í borginni. Áhrifarík aðgerð til að bæta loftgæði er að minnka umferð bíla sem menga. Væri gjald lágt, helst ekkert gjald fyrir raf-, metan og tvinnbíla myndi bílum sem menga fækka enn hraðar. Með nýjum farartækjum svo sem raf-hjólum og skutlum er dregið úr bílaumferð, án allra þvingana, en þá þarf að sinna hjólastígum betur. Sinna þarf göngu- og hjólreiðastígum hvað viðkemur snjómokstri, söltun og almennu viðhaldi ef þeir eiga að vera alvöru hluti af samgöngukerfi borgarinnar. Það væri einnig góð ákvörðun að hafa frítt í Strætó þegar svifryksdögum er spáð. Það kostar lítið enda eru vagnar sjaldan fullir og bílaakstur myndi minnka. Götuþvottur hlýtur að vera til bóta og þvottur vörubíla sem eru að aka frá byggingarstað. Ekki er hægt að líta fram hjá niðurstöðum rannsókna á svifryksmengun af völdum nagladekkja. Veðurfar spilar stórt hlutverk og borgarbúum sem ferðast um landið, við afmarkaðar aðstæður, finnst þeir ekki öruggir nema á nagladekkjum. 

Þá er full ástæða til að minnka notkun flugelda en styrkja starfsemi björgunarsveita sem sinna mikilvægu björgunarstarfi án þess að kaupa skotelda. Reykjavíkurborg hefur ekki sýnt ábyrgð, t.d. með því að hvetja borgarbúa til að finna aðrar leiðir til að styrkja björgunarsveitir en að kaupa skotelda.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins: 

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að stofna sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja. Kannanir sýna mikla notkun geðlyfja hjá öldruðum á Íslandi án þess að formleg geðgreining liggi fyrir. Ekki eru heldur skýr tengsl milli geðsjúkdómagreininga og geðlyfjanotkunar meðal íbúa hjúkrunarheimila. Notkun geðlyfja er oft nauðsynleg. Ef marka má gögn eru eldri borgurum þó gefin geðlyf án þess að greining liggi fyrir. Í Reykjavík eru engin skipulögð sálfélagsleg meðferðarúrræði til fyrir fólk á hjúkrunarheimilum. Oft er geðlyfjameðferð eina meðferðarúrræðið sem eldri borgurum býðst.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21020043

-    Kl. 18:45 taka Kristín Soffía Jónsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir, Líf Magneudóttir, Örn Þórðarson og Björn Gíslason sæti á fundinum í borgarstjórnarsalnum. Hildur Björnsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir og Sabine Leskopf taka sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði. 

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir fólk á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja er vísað til velferðarráðs til frekari skoðunar. Sátt er um það í borgarstjórn. Aðgengi að samtalsmeðferð skiptir þennan hóp miklu máli. Staðan í dag er sú að reykvísk hjúkrunarheimili bjóða ekki upp á sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir íbúana. Þeim sem búa heima stendur heldur ekki til boða sálfélagsleg meðferð. Gripið er til geðlyfja þegar ekkert annað úrræði býðst oft án þess að greining liggi fyrir. Lyfjanotkun er aldrei án aukaverkana og eru aldraðir viðkvæmari fyrir aukaverkunum geðlyfja ef þeir eru samtímis að taka önnur lyf. Ótal ástæður verða til þess að andlegri heilsu getur hrakað með hækkandi aldri. Félagsleg hlutverk breytast og geta til athafna daglegs lífs minnkar. Tímabært er að velferðaryfirvöld borgarinnar stofni með formlegum hætti sitt eigið úrræði byggt á skipulagðri samtalsmeðferð með það að markmiði að hjálpa eldri borgurum að auka andlegan styrk og fá það mesta út úr lífinu. Farsóttin hefur ekki bætt úr skák og bitnað illa á eldri borgunum sem hafa einangrast enn frekar. Hvað sem tæknilausnum líður þá geta þær ekki komið í staðinn fyrir tengsl fólks þegar það talar saman, maður við mann.

4.    Umræðu um hlutdeildarlán og tækifæri Reykjavíkur í uppbyggingu hagkvæmra íbúða er frestað. R21020044

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

Lagt er til að undirbúin verði stofnun upplýsinga- og félagsmiðstöðvar að fyrirmynd Alþjóðahúss sem var starfandi í Reykjavíkurborg á árunum 2001 til 2010. Alþjóðahús var þekkingar- og þjónustumiðstöð á sviði fjölmenningar og mannréttinda. Í Alþjóðahúsi verði boðið upp á ráðgjöf, þar á meðal lögfræðiráðgjöf og upplýsingagjöf. Mikið ákall hefur verið eftir upplýsingamiðstöð vegna málefna er varða innflytjendur, stað þar sem hægt sé að fá allar upplýsingar á einum stað. Fjölmenningarsetrið á Ísafirði sinnir þessu hlutverki að einhverju leyti en vegna fjarlægðar hafa íbúar Reykjavíkur ekki kost á því að setjast niður með ráðgjafa þar. Ríkið hefur samþykkt að koma á fót ráðgjafarstofu en hér er lagt til að Alþjóðahúsið sinni ráðgjöf en verði einnig miðstöð félagsstarfs, sér í lagi fyrir börn og ungmenni. Slíkt starf fari t.a.m. fram í gegnum viðburði, námskeið og iðjuver þar sem þátttakendum gefist færi á að skapa eitthvað saman. Áhersla verði lögð á aðgengi fyrir börn og ungmenni til að hittast og vera saman, óháð efnahag. Þegar Alþjóðahús var starfandi þá skipulagði það ýmsa viðburði sem stóðu öllum til boða. Upplýsinga- og félagsmiðstöðin verði gjaldfrjáls og opin öllum þeim borgarbúum sem koma þangað og áhersla verði lögð á að starfsemin byggist upp í takt við það sem íbúar kalla eftir. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu verði falið að útfæra efni tillögunnar í samvinnu við fjölmenningarráð og önnur viðeigandi svið borgarinnar eftir því sem þurfa þykir.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21020045

Frestað.

6.    Fram fer umræða um mansal. R21010221

7.    Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi ályktunartillögu: 

Borgarstjórn fordæmir árásir á höfuðstöðvar stjórnmálaflokka og bifreið borgarstjóra og lítur þær mjög alvarlegum augum. Því miður hafa margir kjörnir fulltrúar áður fengið hótarnir vegna starfa sinna. Allt slíkt ofbeldi er aðför að okkar frjálsa, lýðræðislega samfélagi og með öllu óásættanlegt. Gæta verður hófs í umræðu um kjörna fulltrúa og virða friðhelgieinkalífs. Við viljum ekki samfélag þar sem fólk sem helgar sig samfélagsmálum þurfi að óttast um öryggi sitt og sinna nánustu. R21020048

Samþykkt.

8.    Lagt til að Örn Þórðarson taki sæti sem varamaður í skipulags- og samgönguráði i stað Ólafs Kr. Guðmundssonar. R18060086

Samþykkt.

9.    Lagt til að Egill Þór Jónsson taki sæti sem varamaður í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Ólafs Kr. Guðmundssonar. R20030171

Samþykkt.

10.    Lagt til að Björn Gíslason taki sæti sem varamaður í öldungaráði í stað Ólafs Kr. Guðmundssonar. R18060107

Samþykkt.

11.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 21. og 28. janúar. R21010001

1. liður fundargerðarinnar frá 21. janúar; Furugerði 23 - deiliskipulag er samþykktur með tólf atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.  R20080076

9. liður fundargerðarinnar frá 21. janúar; endurgreiðsluhlutfall vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar er samþykktur. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. R20010166

6. liður fundargerðarinnar frá 28. janúar; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021 vegna COVID-19, er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.R21010107 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. janúar:

Hér stendur til að byggja upp 30 íbúðir á lóð sem liggur að Bústaðavegi og lengi hefur staðið til að byggja upp. Við styðjum uppbyggingu á reitnum sem er í anda stefnu aðalskipulags um þéttingu byggðar. Svæðið liggur vel við hjóla- og almenningssamgöngum. Hægt er að uppfylla viðmiðunargildi fyrir hljóðstig með mótvægisaðgerðum. Vegna bílastæðaábendinga er rétt að taka fram að nú er gert ráð fyrir bílastæðum fyrir allar íbúðir í kjallara en búið er AÐ gera uppdrátt bílastæða og djúpgáma leiðbeinandi til að gera uppbyggingaraðila kleift að koma gestastæðum fyrir á lóð. Tekið er undir og þakkað fyrir ábendingar íbúa um nauðsyn þess að bæta aðgengi hjólandi og gangandi að götunni sem um ræðir.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. janúar:

Fram kom mikil andstaða frá íbúum eftir auglýsingu skipulags við Furugerði. Uppbyggingin mun auka umferð og hraðakstur í hverfinu og því getur Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn ekki stutt málið.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. janúar:

Borgarfulltrúi Sósíalista er ánægður með hversu mikið tillit hefur verið tekið til athugasemda nágranna en á samt erfitt með að samþykkja þessa uppbyggingu vegna andstöðu margra nágranna og vegna þess að þessi uppbygging er ekki til þess að mæta húsnæðisþörf þeirra sem mest þurfa á henni að halda.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. janúar:

Íbúar í Furugerði og íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis hafa miklar áhyggjur af framvindu uppbyggingaráforma við Furugerði. Íbúar eru hræddir um skemmdir á húsum sínum þegar farið verður að sprengja fyrir bílakjallara því grunnt er niður á klöpp. Einnig hafa íbúar miklar áhyggjur af skorti á bílastæðum því nú þegar er takmarkað magn bílastæða og einnig eru áhyggjur af hljóðvist. Íbúaráðið bendir á fleiri þætti, s.s. að takmarkað pláss er fyrir gangstéttir og að þröngt verði um bíla. Aðaláhyggjurnar eru þó þær að byggingarmagnið á reitnum verði alltof mikið og stendur til að margfalda það miðað við fyrirliggjandi aðalskipulag. Íbúaráðið bendir á að „í B-hluta aðalskipulags 2010-2030 kemur fram um þennan reit: „ÍB33 Gerði-vestur. Svæðið er að mestu fullbyggt og fastmótað.“ Gangi þessi uppbyggingaráform eftir þrengir þetta enn frekar að umferð um Bústaðaveg og engin áform eru um þverun hans með undirgöngum eða göngubrúm.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. janúar:

Borgarráð 21. janúar, liður 1: Furugerði/deiliskipulag. Óánægja íbúa í þessu máli er vel skiljanleg. Þétting byggðar hefur leitt til þrengsla víða og er áætlað að auka byggingarmagn. Ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða en þegar er skortur á bílastæðum fyrir íbúana. Borgarráð 21. janúar, liður 14: Stytting vinnuvikunnar. Stytting vinnuvikunnar hefur verið lengi í deiglunni og er nú orðin að veruleika. Eðlilega er mikil ánægja með að stytta vinnuvikuna sem gefur starfsmönnum færi á að vera meira með fjölskyldum sínum. Það sem er miður er að ekkert fjármagn fylgdi breytingunni, hún mátti hvorki fela í sér aukinn kostnað né skerðingu á þjónustu. Þetta gæti verið erfitt að samræma. Starfsfólk hefur m.a. afsalað sér hvíldarhléum til þess að þetta megi ganga upp. Gangi þetta ekki upp vofir yfir að styttingin verði dregin til baka. Það vill enginn. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að gerð verði skoðun á áhrifum breytinganna á líðan barna, starfsfólks og starfsemina en tillögunni var hafnað. Ekki er séð hvaða áhrif breytingin mun hafa á sumaropnanir leikskólanna. Vel kann að vera að einhverjir leikskólar verði að ráða starfsmenn inn tímabundið og þeir munu þá jafnvel ekki eiga rétt á styttingu vinnuvikunnar.

12.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 29. janúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 25. janúar, skipulags- og samgönguráðs frá 27. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 26. janúar, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 20. janúar og velferðarráðs frá 20. janúar. R21010063

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. og 5. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs og 5. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:

Fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs 20. janúar, liður 7: Listi yfir samþykkt hundaleyfi. Fulltrúi Flokks fólksins gerir athugasemdir við framlagningu lista yfir samþykkt hundaleyfi og vill að persónuverndarfulltrúi og Persónuvernd skoði hvort þetta stríðir mögulega gegn persónuverndarlögum. Birting listans með nöfnum og heimilisföngum fólks kann að vera með öllu ólöglegt eða í það minnsta á gráu svæði. Fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs 20. janúar, liður 5: Skotsvæði í Álfsnesi. Fulltrúi Flokks fólksins skilur vel vonbrigði og óánægju og áhyggjur ábúenda og landeigenda í Kollafirði/Kjalarnesi vegna málefna sem tengjast skotsvæðinu. Það er ólíðandi að skotsvæði sé við fjöru og á „rólegum stað“. Þarna er bæði hávaðamengun, blýmengun og vanvirðing við náttúru og mannlíf. Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 26. janúar, liður 5: Sumaropnun leikskóla. Mikilvægt er að foreldrum leikskólabarna standi til boða sveigjanleiki og val um sumarleyfi fyrir börn sín þannig að fjölskyldan geti verið í sumarfríi á sama tíma. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með áheyrnarfulltrúa leikskólastjóra sem hefur áhyggjur af auknu álagi á stjórnendur sem er ekki á bætandi þegar skólastigið býr við kennaraskort og mikla starfsmannaveltu. Hvernig stytting vinnuvikunnar mun koma inn í sumaropnunina er með öllu óljóst.

Fundi slitið kl. 20:50

Forsetar gengu frá fundargerð

Pawel Bartoszek

Kristín Soffía Jónsdóttir    Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjorn 2.2.2021 - prentvæn útgáfa