No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2016, þriðjudaginn 21. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Sabine Leskopf, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Margrét Norðdahl, S. Björn Blöndal, Líf Magneudóttir, Halldór Auðar Svansson, Jóna Björg Sætran, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Áslaug María Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram drög að mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, dags. 10. júní 2016, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. júní.
- Kl. 14.24 tekur Börkur Gunnarsson sæti á fundinum.
Frestað.
2. Fram fer umræða um loftslagsmál.
- Kl. 15.15 tekur Sóley Tómasdóttir sæti á fundinum og Líf Magneudóttir víkur sæti.
- Kl. 15.33 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og Margrét Norðdahl víkur sæti.
3. Fram fer umræða um dóm Hæstaréttar í máli nr. 268/2016 frá 9. júní 2016, íslenska ríkið gegn Reykjavíkurborg vegna Reykjavíkurflugvallar, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. júní 2016.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina hafa verulegar áhyggjur að flugöryggi verði ekki tryggt við lokun brautarinnar. Niðurstaða dómsins byggir nefnilega ekki á flugöryggissjónarmiðum heldur að samningar skuli halda enda snérist dómsmálið um samning frá 2013 milli innanríkisráðherra og borgarstjóra en ekki um flugöryggi. Flugbrautin hefur margítrekað sannað gildi sitt og hafa komið upp tilfelli þar sem ekki hefur verið hægt að lenda sjúkraflugvél í Reykjavík á annarri braut. 30. desember sl. treysti sjúkraflug í hæsta forgangi algjörlega á neyðarbrautina en ekki var hægt að lenda á hinum tveimur brautunum. Hefur Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) lýst yfir verulegum áhyggjum af stöðu flugöryggismála á Reykjavíkurflugvelli í kjölfar dómsins sem og fyrirsvarsmenn Mýflugs. Í niðurstöðu Samgöngustofu frá 1. júní 2015 um áhættumatsskýrslu Isavia segir að áhættumatið nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfið í landinu í heild sinni, neyðarskipulags almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga og þurfi að gera sérstakt áhættumat ef loka á flugbrautinni. Með vísan til þess þarf nú að gera slíkt áhættumat sem m.a. nær til neyðarskipulags almannavarna og áhrifa á sjúkraflutninga. Við gerð áhættumatsins vegna sjúkraflugsins hljóta þær forsendur sem öryggisnefnd FÍA hefur ítrekað bent á að vanti að vera teknar inn í matið, þ.e. að reiknað verði með minni gerðum flugvéla eins og notaðar eru í sjúkraflugið og lægri hliðarvindstuðli, en reikna skal nothæfisstuðul með 10 hnúta hámarks hliðarvindstuðli fyrir slíkar vélar. Svo spurningin er hver nothæfisstuðull flugvallarins verður eftir þá útreikninga.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að niðurstaða Hæstaréttar um að loka beri NA/SV flugbrautinni kalli á að innanríkisráðherra láti sérfræðinga yfirfara flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli. Samkvæmt niðurstöðu Samgöngustofu frá 1. júní 2015 varðandi áhættumatið kemur fram að það nái hvorki til neyðarskipulags, almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga og gera þurfi sérstakt áhættumat sem tekur til allra þessara þátta áður en flugbrautinni er lokað. Við lokun NA/SV brautarinnar verður engin braut með þessa stefnu á suðvesturhorni landsins sem mun geta haft alvarlegar afleiðingar hvað flugöryggi og sjúkraflug varðar. Ekki er búið að vinna að framtíðarstaðsetningu fyrir innanlandsflug en samt er verið að vinna að flutningi Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýri. Fyrsta skref er NA/SV flugbrautin og svo eiga hinar tvær flugbrautirnar að vera farnar skv. aðalskipulagi höfuðborgarinnar árið 2024. Slík stefna væri skiljanlegri væri búið að vinna þetta mál og í augsýn væri nýr innanlandsflugvöllur. Afar brýnt er að Reykjavíkurborg og innanríkisráðuneytið taki upp málefnalegar viðræður um framtíðarstaðsetningu fyrir innanlandsflug. Það styttist í árið 2024, en rannsóknir og undirbúningur vegna framtíðarstaðsetningar geta tekið lengri tíma. Ríkar ástæður eru því til að borgarstjórn Reykjavíkur leggi rækt við það sjálfsagða og mikilvæga hlutverk sem eðlilegt er að krefjast af höfuðborg sem m.a. er fólgið í því að veita nauðsynlegt svigrúm fyrir mótun vandaðs almenningssamgöngukerfis, þar með talið innanlandsflugsins.
4. Fram fer kosning tveggja skrifara til eins árs og tveggja til vara.
Lagt er til að Skúli Helgason og Kjartan Magnússon verði kjörnir skrifarar og að varaskrifarar verði kjörnar þær Heiða Björg Hilmisdóttir og Hildur Sverrisdóttir.
Samþykkt.
5. Kosning sjö borgarráðsfulltrúa til eins árs og sjö til vara. Lagt er til að eftirtaldir borgarfulltrúar taki sæti í borgarráði:
S. Björn Blöndal
Heiða Björg Hilmisdóttir
Sóley Tómasdóttir
Halldór Auðar Svansson
Halldór Halldórsson
Kjartan Magnússon
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir
Jafnframt er lagt til að eftirtalin verði kosin varamenn:
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Hjálmar Sveinsson
Líf Magneudóttir
Þórgnýr Thoroddsen
Áslaug María Friðriksdóttir
Hildur Sverrisdóttir
Jóna Björg Sætran
Einnig er lagt til að S. Björn Blöndal verði kosinn formaður borgarráðs og Halldór Auðar Svansson verði kosinn varaformaður ráðsins.
Samþykkt.
6. Lagt er til að Jódís Bjarnadóttir taki sæti Margrétar Norðdahl sem varamaður í skóla- og frístundaráði.
Samþykkt.
Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.
7. Lagt er til að Margrét Norðdahl taki sæti Jódísar Bjarnadóttur sem varamaður í velferðarráði.
Samþykkt.
Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.
8. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 9. og 16. júní.
- Kl. 18.00 víkur Börkur Gunnarsson af fundi og Björn Gíslason tekur sæti.
- 25. liður fundargerðarinnar frá 9. júní, brú yfir Fossvog, er samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina telja að hugmynd að brú yfir Fossvog sem skilgreind er í aðalskipulagi Reykjavíkur sé þess eðlis að óþarfi sé að fara í frekari skoðun á málinu. Brúin leysir ekki úr neinum aðkallandi umferðarmálum akandi, gangandi eða hjólandi og styttir vegalengdir ekki sem neinu nemur. Hins vegar skerðir brúin notkunarmöguleika fyrir siglingastarfsemi í Fossvoginum.
- 22. liður fundargerðar borgarráðs frá 16. júní, viðauki við fjárhagsáætlun vegna landakaupa í Skerjafirði, er samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja lykilatriði að áður en tillagan er tekin til afgreiðslu í borgarstjórn liggi fyrir hvaða verkefni frestast af þeirri fjárhagsáætlun sem nú liggur fyrir ef af landakaupum verður á árinu 2016. Fjárhagsvandi steðjar að borginni og mikill niðurskurður á sér stað og því er erfitt að sjá hvernig standa á að kaupum á landi öðruvísi en með enn frekari niðurskurði.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina telja málið algjörlega ótímabært enda á enn eftir að gera áhættumat vegna lokunar brautarinnar, þ. á m. vegna sjúkraflugs. Ekki liggur fyrir til hvaða mótvægisaðgerða er mögulegt að grípa. Þá á eftir að kanna fullyrðingar öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna um að útreikningur nothæfisstuðuls í skýrslu Eflu sé rangur en það hlýtur að verða skoðað við gerð áhættumatsins vegna sjúkraflugsins, þ.e. að reiknað verði með minni gerðum flugvéla eins og notaðar eru í sjúkraflugið og lægri hliðarvindstuðli. Þó dómur sé fallinn þá á eftir að klára áhættumatið m.a. vegna sjúkraflugsins. Gæti niðurstaða þess jafnvel orðið til þess að Alþingi myndi telja nauðsynlegt að taka svæðið eignarnámi. Í niðurstöðu héraðsdóms segir: „Í krafti almennra heimilda sinna getur Alþingi einnig, ef því er að skipta, gefið ráðherra fyrirmæli um framkvæmd málefna Reykjavíkurflugvallar, svo og sett sérstök lög um málefni vallarins, þ. á m. um stærð og umfang flugvallarins, eftir atvikum þannig að kveðið sé á um heimildir til eignarnáms vegna ákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995, og forgang laganna gagnvart hvers kyns áætlunum sveitarstjórna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.
- 25. liður fundargerðarinnar frá 16. júní breytingartillaga um endurnýjun á gervigrasvöllum er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins minna á fyrri tillögur um að endurnýjun gervigrasvalla verði sett í forgang og gúmmíkurli úr dekkjum skipt út fyrir hættuminni efni á þeim völlum, þar sem það er nú að finna, fyrir árslok 2016. Tillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hafa þannig gengið lengra en breytingartillaga meirihlutans sem gengur út á að dreifa þessu nauðsynlega verkefni á fleiri ár.
9. Fram fer kosning forseta borgarstjórnar til eins árs og tveggja varaforseta.
Forseti er kosinn Sóley Tómasdóttir með 9 atkvæðum
1. varaforseti er kosinn Elsa Hrafnhildur Yeoman með 9 atkvæðum
2. varaforseti er kosinn Halldór Auðar Svansson með 9 atkvæðum
10. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 16. júní.
- 2. liður, tillögur að breytingum á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, er vísað til síðari umræðu.
- 5. liður, beiðni borgarfulltrúa Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um tímabundna lausn frá störfum ,er samþykktur.
- 6. liður, endurskoðuð samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs m.a. vegna Bílastæðasjóðs, er samþykktur.
Lagðar fram fundargerðir mannréttindaráðs frá 7. júní, skóla- og frístundarráðs frá 8. júní, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 13. júní og fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. og 15. júní.
11. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fella niður reglulega borgarstjórnarfundi í júlí og ágúst nk. skv. heimild í 4. mgr. 8. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. Í sumarleyfi borgarstjórnar fer borgarráð með sömu heimildir og borgarstjórn hefur ella.
Samþykkt.
Fundi slitið kl. 18.38
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Sóley Tómasdóttir
Heiða Björg Hilmisdóttir Halldór Halldórsson
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 21.6.2016 - prentvæn útgáfa