Borgarstjórn - 21.4.2015

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2015, þriðjudaginn 21. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Gerðubergi og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason, Björk Vilhelmsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Ilmur Kristjánsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Hjálmar Sveinsson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Jóna Björg Sætran, Halldór Halldórsson, Marta Guðjónsdóttir, Kjartan Magnússon og Hildur Sverrisdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um skýrslu starfshóps um móðurmálskennslu barna með annað móðurmál en íslensku. 

- Kl. 15.00 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og Sabine Leskopf víkur sæti. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir leggja mikla áherslu á jafnræði allra barna til náms og þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða börn sem eiga íslensku sem móðurmál eða eru með annað móðurmál en íslensku. Nauðsynlegt er að styrkja móðurmáls-, málvitundar- og málþroska barna af erlendum uppruna, samhliða því að efla íslenska málvitund þeirra og læsi. Framsókn og flugvallarvinir vilja ennfremur leggja áherslu á að veitt verði fjármagn til íslenskukennslu íslenskra barna sem hafa dvalið í lengri eða skemmri tíma erlendis og standa því ekki jafnöldrum sínum jafnfætis hvað varðar íslenska málvitund og færni í málnotkun.

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata þakka starfshópi um móðurmálskennslu barna með annað móðurmál en íslensku fyrir vandaðar og raunhæfar tillögur um eflingu móðurmálskennslu, áherslu á virkt tvítyngi, markvisst foreldrasamstarf og fræðslu fyrir kennara í leikskólum og grunnskólum. Meirihlutinn fagnar sérstaklega ákvörðun skóla- og frístundaráðs um að hrinda strax í framkvæmd tilraunaverkefni í haust með ráðningu tveggja tvítyngdra grunnskólakennara sem kenni móðurmál en verði nemendum jafnframt stuðningur í íslenskunámi þeirra.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina: 

Lagt er til að samþykkt verði að beina því til borgarráðs að stofna starfshóp til að koma fram með tillögur og leiðir til að auka hlut karlkynskennara í grunnskólum borgarinnar og hafa það þannig að markmiði að auka jafnréttisfyrirmyndir fyrir grunnskólabörn á uppvaxtarárum þeirra.

- Kl. 15.32 tekur Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir sæti á fundinum og Jóna Björg Sætran víkur sæti. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu: 

Lagt er til að tillögu Framsóknar og flugvallarvina um fjölgun karlkyns kennara í grunnskólum borgarinnar verði vísað til mannréttindaráðs sem taki til umfjöllunar kynjahalla meðal kennara og eftir atvikum annarra starfsstétta Reykjavíkurborgar. Ráðið taki til skoðunar hvort ástæða sé til að bregðast við slíkum halla og móti, ef svo ber undir, tillögur í því skyni.

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir undrast að Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstri grænir og Píratar skuli ekki styðja jafnréttistillögu um stofnun starfshóps til að finna leiðir til að auka hlutfall karlkynskennara í borginni, þar sem markmið tillögunnar er fyrst og síðast að auka jafnréttisvitund barna og að þau hafi sem fyrirmyndir uppalendur og fræðendur af báðum kynjum. Í dag eru 82% kennarastöðugilda hjá Reykjavíkurborg skipuð konum, en 18% körlum. Jafnréttisvitund næst ekki aðeins með kennslu og fræðslu, heldur einnig góðum fordæmum og fyrirmyndum og þar byrjum við heima við og í skólunum þar sem börnin dvelja meirihluta dagsins og ársins. Við vonum þó að málsmeðferðartillaga sú sem samþykkt varð leiði til úrbóta og aðgerða en svo virðist sem að markmiðið með málsmeðferðartillögunni hafi verið að fella tillögu Framsóknar og flugvallarvina eingöngu til að eigna sér tillöguna með breyttu orðalagi og því gátum við ekki samþykkt málsmeðferðartillöguna. 

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata telja brýnt að brjóta upp staðalmyndir um kynhlutverk, stuðla að auknu frelsi til náms- og starfsvals og þannig jafnari þátttöku kynjanna á vinnumarkaði. Vandinn er þó stærri og viðameiri en svo að lausnin felist í því að fara í átaksverkefni í þágu einnar starfsstéttar og því er eðlilegt að fela mannréttindaráði að fjalla um málið í víðara samhengi. Ekki er ætlun meirihlutans að eigna sér þá tillögu sem fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram enda uppruni hennar mjög greinilegur í gögnum fundarins.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Lagt er til að eftirfarandi málsgrein bætist við 10. gr. samþykktar um skóla- og frístundaráð: Við ráðningu í stöðu skólastjóra og leikskólastjóra skal skóla- og frístundasvið gefa foreldrafélagi og skólaráði/foreldraráði viðkomandi skóla kost á virku samráði um málið. Þar sem ráðning skólastjóra eða leikskólastjóra stendur fyrir dyrum, skal gefa stjórn viðkomandi foreldrafélags og skólaráði/foreldraráði kost á að hitta að máli þá umsækjendur sem metnir hafa verið hæfastir, til að kynnast sýn þeirra á starfið. Heimilt er að hafa slíkan fund opinn öllum foreldrum viðkomandi skóla. Að undangengnu slíku samráði er þessum aðilum, þ.e. stjórn foreldrafélags og skólaráði/foreldraráði, heimilt að skila umsögn til skóla- og frístundasviðs með áliti um hvaða umsækjandi sé hæfastur til að gegna viðkomandi starfi. Umræddum aðilum er einnig heimilt að skila umsögn til sviðsins án þess að mælt sé með ákveðnum umsækjanda en með ábendingum um hvaða atriði sé æskilegt að leggja áherslu á þegar ráðið verður í stöðuna með tilliti til aðstæðna í umræddum skóla og vilja foreldra.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja til að settur verði á fót starfshópur á vegum skóla- og frístundasviðs sem fjalli um það hvernig auka megi samráð við foreldra varðandi meiriháttar ákvarðanir sem tengjast skólahaldi í grunnskólum og leikskólum borgarinnar. Starfshópurinn leggi fram tillögur um hvernig auka megi virkni og aðkomu skólaráða að meiriháttar verkefnum í leikskólum og grunnskólum borgarinnar. Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum foreldra, skólastjórnenda, kennara og nemenda auk embættismanna og sérfræðinga.

Greinargerð fylgir breytingartillögunni. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir að það verði fært í fundargerð að þeir óski þess að gengið verði til atkvæða um framlagða tillögu þeirra þrátt fyrir framkomna breytingartillögu. 

Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata samþykkt með 9 atkvæðum þeirra. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Upphafleg tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins kemur því ekki til atkvæðagreiðslu samkvæmt ákvörðun forseta borgarstjórnar samkvæmt 2. og 3. mgr. 26. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. 

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata lýsa yfir ánægju með þá ákvörðun skóla- og frístundaráðs að ráðningar skólastjórnenda verði í framtíðinni á forræði fagsviðsins en ekki kjörinna fulltrúa til að hafið sé yfir vafa að faglegt samanburðarmat á hæfni umsækjenda en ekki pólitísk sjónarmið ráði för við ráðningarnar. Það er í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga og ábendingar úttektarnefndar um stjórnsýslu borgarinnar. Meirihlutinn undirstrikar með breytingartillögu sinni þá stefnu að auka aðkomu foreldra að meiriháttar ákvörðunum og verkefnum í skólum borgarinnar, jafnt leikskólum sem grunnskólum. Mikilvægt er að skýra og skerpa á hlutverkum foreldraráða, skólaráða og foreldrafélaga í þeirri vinnu sem framundan er.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma andstöðu borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna við tillögur Sjálfstæðisflokksins um virkt foreldrasamráð við ráðningu skólastjóra. Slíkt samráð hefur gefist vel víða erlendis og er haft til fyrirmyndar um framsækið skólastarf og gott foreldrasamstarf. Fulltrúar vinstri meirihlutans tala jafnan fjálglega um opnari stjórnsýslu og aukna aðkomu borgarbúa að ákvörðunum en treysta sér ekki til að samþykkja tillögur Sjálfstæðisflokksins um að auka aðkomu foreldra að skólamálum samkvæmt aðferðum sem eru þrautreyndar erlendis og hafa gefið góða raun. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlega athugasemd við stjórn fundarins. Teljum við að forseta hafi borið að koma til móts við ósk um að tillaga Sjálfstæðisflokksins kæmi til atkvæða enda var tillaga borgarstjórnarmeirihlutans í raun ný tillaga en ekki breytingartillaga á tillögu Sjálfstæðisflokksins um breytingu á samþykkt um skóla- og frístundaráð. Ekkert er því til fyrirstöðu að samþykkja báðar tillögurnar enda útilokar hvorug hina óbreytta. Tillaga meirihlutans um stofnun starfshóps um foreldasamstarf er góð í sjálfu sér en með því að leggja hana fram í þeim tilgangi að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um breytingar á samþykktum um skóla- og frístundaráð, var fulltrúum flokksins gert ókleift að styðja hana. Ljóst er að tilgangurinn með svonefndri breytingartillögu Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna var að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um virkt samráð við foreldrafélög vegna ráðningar skólastjóra, þó án þess að taka beina afstöðu gegn tillögunni heldur með breytingartillögu sem ekki verður séð að sé í samræmi við fundarsköp. 

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Í því skyni að ná sátt um kirkjubyggingu á Nýlendureit, felur borgarstjórn umhverfis- og skipulagssviði að hefja formlegar samningaviðræður við aðstandendur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar um að velja fyrirhugaðri kirkjubyggingu hennar nýjan og betri stað á horni Mýrargötu og Seljavegar í stað núverandi byggingarreits að Mýrargötu 21. Samráð verði haft við íbúa hverfisins við vinnslu málsins.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

Lagt er til að afgreiðslu tillögunnar verði frestað til borgarstjórnarfundar 19. maí 2015 og í millitíðinni mun umhverfis- og skipulagssvið standa fyrir íbúafundi um málið.

Málsmeðferðartillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Við hörmum að borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna skuli fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um endurskoðun á staðsetningu nýbyggingar rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Nýlendureit. Markmið tillögunnar er að ná sátt um bygginguna en fjölmargar athugasemdir hafa komið fram frá íbúum í nærliggjandi hverfi um stærð hennar, hæð og arkitektúr. Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur ítrekað hafnað því að halda íbúafund um málið og segir það meira en mörg orð um afstöðu hans til íbúasamráðs. 

5. Fram fer umræða um Reykjavíkurhúsin. 

- Kl. 19.59 víkur Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir af fundi og Trausti Harðarson tekur þar sæti. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Í skýrslu starfshóps um Reykjavíkurhúsin kemur fram að sú nálgun sem sem lagt var upp með gengur ekki og því hafi hópurinn skilgreint fimm ólíkar leiðir að útfærslu Reykjavíkurhúsa. Þrjár þeirra ganga ekki upp en tvær gætu gengið en það á eftir að útfæra þær hugmyndir. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvaða leið skuli farin svo ákvörðun hefur ekki enn verið tekin um útfærsluna. Er því verið að byrja á öfugum enda eins og svo oft áður. Mikilvægt er að klára vinnuna sem fyrst en þar sem málið er enn það óljóst sitjum við hjá við úthlutun tveggja lóða og auglýsingu eftir samstarfsaðilum.

6. Lagt er til að Hildur Hrönn Oddsdóttir taki sæti Kristínar Þórhöllu Þórisdóttur sem aðalmaður í hverfisráði Árbæjar og að Kristín taki sæti Hildar sem varamaður í ráðinu.

Samþykkt. 

7. Lagt er til að Ilmur Kristjánsdóttir taki sæti S. Björns Blöndal sem aðalmaður í velferðarráði og að S. Björn Blöndal taki sæti Nínu Daggar Filippusdóttur sem varamaður í ráðinu.

Samþykkt. 

8. Lagt er til að Ilmur Kristjánsdóttir taki sæti Evu Einarsdóttur sem varamaður í borgarráði.

Samþykkt. 

9. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 19. og 26. mars, 9 og 16. apríl. 

- 36. liður fundargerðarinnar frá 26. mars, heildarendurskoðun vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu, samþykktur. 

- 14. liður fundargerðar borgarráðs frá 9. apríl, breyting á deiliskipulagi vegna Laugavegs 120, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Í eldri deiliskipulagsáætlunum er gert ráð fyrir 1.000 fermetra bílakjallara undir þeim hluta lóðarinnar að Laugavegi 120 sem enn er óbyggður. Nú er lagt til að bílakjallarinn verði felldur niður en byggingarmagn ofanjarðar aukið um þriðjung. Einungis er gert ráð fyrir 17 bílastæðum á lóð 7.000 fermetra hótels sem þarna mun rísa. 30 bílastæði sem nú eru á lóð Laugavegar 120 eru felld niður en auk þess stendur til að fella niður aðliggjandi 25 bílastæði sem eru á borgarlandi við Hlemm. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að ekki eigi að fella niður kröfu um bílakjallara undir nýbyggingu á lóð Laugavegar 120 enda verði að taka tillit til alvarlegs skorts á bílastæðum á svæðinu. Með nýju aðalskipulagi er stefnt að því að fækka bílastæðum í borginni án tillits til aðstæðna og hefur sú stefna víða skapað veruleg vandræði og óhagræði fyrir íbúa og aðra hagsmunaaðila.

- 17. liður fundargerðar borgarráðs frá 9. apríl, Vesturbugt og Kirkjusandsreitur, auglýsing eftir samstarfsaðilum um húsnæðisuppbyggingu samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu tillögu um auglýsingu eftir samstarfsaðilum og vegna úthlutunar lóða í Vesturbugt. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að ekki verði óþarfa tafir í því mikilvæga máli að byggja íbúðarhúsnæði í Reykjavík og sitja því hjá. Tillögur um Reykjavíkurhús hafa breyst í rétta átt að mati borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þannig að meira verður leitað til einkaaðila á markaði en áður voru tillögur um.

- 18. liður fundargerðar borgarráðs frá 9. apríl, Vesturbugt, úthlutun tveggja lóða, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til í borgarráði að tillaga um úthlutun lóða fengi umfjöllun í umhverfis- og skipulagsráði áður en hún væri endanlega samþykkt. Það var ekki samþykkt af meirihluta borgarráðs. Til þess ætti þó að vinnast nægur tími því sérstakur starfshópur á að vinna að frekari útfærslu á tillögu um úthlutun lóðanna áður en af úthlutun verður.

- 27. liður fundargerðar borgarráðs frá 16. apríl, kvörtun og ósk um endurupptöku afgreiðslu velferðaráðs vegna Þorrasels, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

- 39. liður fundargerðar borgarráðs frá 16. apríl, viðauki við fjárhagsáætlun 2015 vegna kaupa á landi í Varmadal, samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

10. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 27. mars og 16. apríl, íþrótta- og tómstundaráðs frá 27. febrúar, 12. og 27. mars og 9. apríl, mannréttindaráðs frá 27. mars og 14. apríl, menningar- og ferðamálaráðs frá 23. mars og 13. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 1. og 15. apríl, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 16. og 30. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 18., 23., 25. mars og 1. og 15. apríl. 

Fundi slitið kl. 21.13

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Sóley Tómasdóttir

Skúli Helgason Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 21.4.2015 - prentvæn útgáfa