Borgarstjórn - 21.3.2002

Borgarstjórn

3

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2002, fimmtudaginn 21. mars, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Helgi Hjörvar, Kolbeinn Proppé, Sigrún Magnúsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Kristín Blöndal, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Ólafur F. Magnússon, Helga Jóhannsdóttir, Snorri Hjaltason, Júlíus Vífill Ingvarsson, Guðrún Pétursdóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Guðlaugur Þór Þórðarson. Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

Í upphafi fundar kvaddi Guðlaugur Þór Þórðarson sér hljóðs og gerði að umtalsefni kostnað í tengslum við breytingar á rekstrarfyrirkomulagi, m.a. Strætó bs.

1. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 12. mars. Sú leiðrétting var gerð við 2. lið fundargerðar borgarráðs, fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 11. mars, að bókun tillögu Jónu Gróu Sigurðardóttur og Hauks Leóssonar, undir 8. lið fundargerðar stjórnarinnar orðist svo: JGS og HL báru fram þá tillögu að tveimur lægstu tilboðunum í hreinlætispappír verði tekið.

Þá var sú leiðrétting gerð við 9. lið fundargerðar borgarráðs, að erindi borgarverkfræðings var samþykkt með 4 atkv. gegn 3.

Forseti tilkynnti að 13. lið fundargerðar borgarráðs, samþykkt um friðun trjáa, væri frestað þar til síðar á fundinum.

- Kl. 15.23 vék Sigrún Magnúsdóttir af fundi og Guðrún Jónsdóttir tók þar sæti. - Kl. 15.48 tók Anna Geirsdóttir sæti á fundinum og Guðrún Jónsdóttir vék af fundi. Jafnframt vék Guðrún Pétursdóttir af fundi og Kristján Guðmundsson tók þar sæti.

9. liður fundargerðar borgarráðs, sala byggingarréttar í Grafarholti, samþykktur með 8 atkv. gegn 6. 16. liður fundargerðar borgarráðs, kaup á hreinlætisvörum, samþykktur með 8 atkv. gegn 6.

2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 19. mars. Forseti tilkynnti að 23. lið fundargerðarinnar, þriggja ára áætlun, væri frestað þar til síðar á fundinum.

- Kl. 16.58 vék Árni Þór Sigurðsson af fundi og Guðrún Erla Geirsdóttir tók þar sæti.

Vilhjálmur Þ. Vilhjámsson lagði fram svohljóðandi breytingartillögu við 18. lið fundargerðarinnar, umferð og geymsla kjarnorku-, efna- og sýklavopna í borgarlandinu:

Í stað orðanna “borgarlandið verði friðlýst fyrir umferð og geymslu” komi “bönnuð verði í borgarlandinu umferð og geymsla”.

10. liður fundargerðarinnar, auglýsing deiliskipulags reits sem afmarkast af Lækjargötu, Bankastræti, Þingholtsstræti og Amtmannsstíg, samþykktur með 9 atkv. gegn 6.

11. liður fundargerðarinnar, auglýsing deiliskipulags reits sem afmarkast af Bankastræti, Ingólfsstræti, Amtmannsstíg og Þingholtsstræti, samþykktur með 9 atkv. gegn 6.

Breytingartillaga Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar við 18. lið fundargerðarinnar, umferð og geymsla kjarnorku-, efna- og sýklavopna í borgarlandinu, samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum. 18. liður fundargerðarinnar, svo breyttur, samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum. 37. liður fundargerðarinnar, samþykkt fyrir jafnréttisnefnd, samþykktur með 8 samhljóða atkvæðum.

38. liður fundargerðarinnar, samþykkt fyrir skipulags- og byggingarnefnd, samþykktur með 8 samhljóða atkvæðum.

39. liður fundargerðarinnar, samþykkt fyrir íþrótta- og tómstundaráð, samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

40. liður fundargerðarinnar, samþykkt fyrir menningarmálanefnd, samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

41. liður fundargerðarinnar, samþykkt fyrir leikskólaráð, samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa 42. lið fundargerðarinnar, samþykkt fyrir stjórn Innkaupastofnunar, til frekari skoðunar borgarráðs.

3. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 13. mars.

4. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 11. mars.

5. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 11. mars.

Júlíus Vífill Ingvarsson lagði fram svohljóðandi tillögu undir 6. lið fundargerðarinnar:

Borgarstjórn telur að heimila eigi Jörundi Guðmundssyni að starfrækja Tívolí á Miðbakkanum í sumar. Borgarstjórn beinir því þess vegna til hafnarstjórnar að veita leyfi til starfrækslu Tívolís á umbeðnum stað í 18 daga eins og sótt er um.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka tillöguna á dagskrá. Tillaga Júlíusar Vífils Ingvarssonar samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum. Fundargerð hafnarstjórnar samþykkt að öðru leyti með samhljóða atkvæðum.

6. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 7. mars.

7. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 15. mars.

8. Lögð fram fundargerð leikskólaráðs frá 6. mars.

9. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 6. mars.

10. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 11. mars.

11. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 6. mars. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

12. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 13. mars. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

13. Lögð fram þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál Reykjavíkurborgar 2003-2005; síðari umræða. Jafnframt lagður fram 23. liður fundargerðar borgarráðs frá 19. mars, breyting á frumvarpi að þriggja ára áætlun, frestað fyrr á fundinum.

- Kl. 18.03 tók Sigrún Magnúsdóttir sæti á fundinum og Alfreð Þorsteinsson vék af fundi.

- Kl. 18.08 var gert hlé á fundi. - Kl. 18.42 var fundi fram haldið og tók þá Guðrún Pétursdóttir sæti á fundinum og Kristján Guðmundsson vék af fundi. - Kl. 19.30 tók Árni Þór Sigurðsson sæti á fundinum og Guðrún Erla Geirsdóttir vék af fundi.

Þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál Reykjavíkurborgar, 2003-2005, samþykkt með 8 samhljóða atkvæðum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Þegar þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál Reykjavíkurborgar er skoðuð er ljóst að áfram á að safna skuldum, þrátt fyrir að tekjur borgarinnar hafi aldrei verið meiri.

Skatttekjur borgarinnar þau tvö kjörtímabil sem R-listinn hefur farið með völd hafa numið 157 milljörðum, sem er 50 milljörðum hærra á sama verðlagi en þær skatttekjur sem sjálfstæðismenn höfðu úr að spila síðastu tvö kjörtímabilin sem þeir sátu við völd. Þegar tekið er tillit til yfirfærslu grunnskóla til sveitarfélaga nemur þessi munur u.þ.b. 30 milljörðum króna. Þar að auki hafa borgaryfirvöld aukið fé á milli handa vegna þess að þeir hafa stóraukið skuldir borgarinnar og vegna nýrra gjalda m.a. holræsagjalds sem nemur um 5 milljörðum króna frá 1995. Fjármunir sem færðir hafa verið frá fyrirtækjum borgarinnar í borgarsjóð til að fegra stöðu hans, nema um 14 milljörðum króna. Lauslega má ætla að þessar fjárhæðir nemi samtals u.þ.b. 19 milljörðum króna til viðbótar við skatttekjurnar.

Engu að síður er metnaður borgaryfirvalda til að lækka skuldir ekki meiri en svo, að það er ekki fyrr en árið 2005 sem áformað er að lækka skuldir lítillega. Fram að því er stefnt að sífelldri skuldaaukningu.

Hvernig hafa áætlanir svo staðist? Í þriggja ára áætluninni sem lögð var fram í fyrra, var gert ráð fyrir að í árslok 2004 yrðu skuldir borgarinnar komnar niður í 30% af skatttekjum. Nú, ári síðar, er lögð fram ný áætlun sem gerir ráð fyrir að 2004 verði skuldir ekki 30% heldur 52% af sömu skattttekjum. Það munar ekki litlu, á þetta að heita góð áætlanagerð? Hvernig standa svo þessi hlutföll í dag? Nú eru skuldir tæplega 60% af skatttekjum. Það má því mikið gerast ef takast á að koma þeim niður í 30% eftir aðeins tvö ár, - engin slík teikn eru á lofti.

Menn hljóta að líta mjög til þeirrar forgangsröðunar sem fram kemur í áætluninni. Þar vekur sérstaka athygli hve lágt framlagið verður til byggingar stofnana í þágu aldraðra, m.a. hjúkrunarrýma fyrir aldraða. Sjálfstæðismenn hafa um árabil lagt mikla áherslu á þennan málaflokk. Í valdatíð sjálfstæðismanna 1987-1994 var varið 3,6 milljörðum króna í þennan málaflokk, en í valdatíð R-listans hefur aðeins verið varið 600 milljónum í þágu aldraðra. R-listinn áformar nú smáhækkun frá því sem áður var, eða úr 40 milljónum í 90 milljónir, en það er hverjum manni ljóst að þessar fjárhæðir duga hvergi til að mæta þeirri brýnu þörf sem þessir borgarar Reykjavíkur standa frammi fyrir.

Byggingar leik- og grunnskóla eru og hafa verið stór útgjaldaliður hjá Reykjavíkurborg, vegna lögboðinnar einsetningar skóla. Sjálfstæðismenn hafa bent á það hvernig hefði mátt fara hagkvæmari leið í byggingarmálum t.d. með því að nýta kosti einkaframkvæmdar.

Þriggja ára áætlunin sýnir jafnframt að borgarstjóri og aðrir borgarfulltrúar R-listans hirða lítt um að standa við gefin loforð. Þar má til dæmis nefna að áfram á að halda með stórfelldar arðgreiðslur frá Orkuveitu Reykjavíkur sf. inn í borgarsjóð. Auk þess er vert að benda á, að í þessari áætlun er reiknað með að holræsagjald verði innheimt áfram með sama hætti og verið hefur, þrátt fyrir skýlaus loforð í aðdraganda síðustu kosninga um að það yrði lækkað í áföngum og síðan fellt alveg niður.

14. Lögð fram samþykkt um friðun trjáa í Reykjavík; síðari umræða. Jafnframt lagður fram 13. liður fundargerðar borgarráðs frá 12. mars, frestað fyrr á fundinum. Samþykk um friðun trjáa í Reykjavík samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

Fundi slitið kl. 20.16.

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Helgi Hjörvar

Guðlaugur Þór Þórðarson Anna Geirsdóttir