Borgarstjórn - 21.2.2023

BORGARSTJÓRN

Ár 2023, þriðjudaginn 21. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:10. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kolbrún Baldursdóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer umræða um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. MSS23020136

-    Kl. 12:20 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum og Helgi Áss Grétarsson víkur af fundi.
-    Kl. 14:15 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Helgi Áss Grétarsson tekur sæti. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Samgöngusáttmálinn er tímamótasamkomulag milli ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þar er sett fram sameiginleg sýn og forgangsröðun, með áherslu á bættar almenningssamgöngur, betri hjóla- og göngustíga, en líka lykilumbætur í vegakerfinu. Þarna er um að ræða málamiðlun þar sem allir aðilar gefa eitthvað eftir en helsti ávinningurinn er löngu tímabær uppfærsla á samgönguinnviðum borgarinnar. Þrátt fyrir einhverjar tafir, meðal annars af sökum heimsfaraldurs, er ágætis gangur í framkvæmdum og deiliskipulag langt komið víða. Sannarlega er nauðsynlegt að klára samkomulag um rekstur Borgarlínu milli ríkis og sveitarfélaganna en það er óskynsamleg notkun á orku og tíma að ráðast í endurskoðun samgöngusáttmála sem stendur fyllilega fyrir sínu.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

Mikilvægt er að bæta samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega almenningssamgöngur. Á meðan unnið er að útfærslu framtíðarsýnar þarf einnig að bæta núverandi samgöngur. Byggja þarf upp almenningssamgöngur út frá þörfum og væntingum þeirra sem treysta á þær. Erfitt er að sjá fyrir sér hvernig stuðningur við framtíðarkerfi fáist þegar núverandi kerfi er ófullnægjandi og óáreiðanlegt. Sósíalistar leggjast gegn veggjöldum og lögðu á sínum tíma til fyrirvara, m.a. um að skilyrði fyrir samþykkt samgöngusáttmálans væru engin veggjöld. Sameiginlegir sjóðir eiga að standa undir grunninnviðum og uppbyggingu almenningssamgangna, en ekki gjöld sem leggjast þyngst á þau efnaminni.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Samgöngur ganga illa í Reykjavík. Umferðartafir eru hvert sem litið er og almenningssamgöngur í ólestri. Hér er rætt um samgöngusáttmála og því hlýtur kjarninn að vera sá hvernig fólki tekst að komast á milli staða. Staðreyndin er að fólk kemst illa milli staða í Reykjavík. Endalausar umferðartafir með löngum bílaröðum. Reykvíkingar eru orðnir langþreyttir á aðgerðarleysi meirihlutans við þessum vanda. Um flýtingar framkvæmda er rætt en ekkert bólar á þeim. Umferðarstýringar eru óbreyttar en það væri hægðarleikur að ráðast í að bæta umferðarstýringar til hagsbóta fyrir vegfarendur. Ekkert bólar á stokkum Miklubrautar og Sæbrautar. Eina sem er á áætlun er að þröngva Arnarnesvegi á framkvæmdarstig þrátt fyrir mótmæli mörg hundruð manns í Reykjavík og víðar. Hönnunarkostnaður hefur farið langt fram úr áætlun. Við viljum öll góðar og öflugar almenningssamgöngur. Borgarlína hefur tafist og verður auk þess mun dýrari en áætlað var. Á meðan er ekki verið að reyna að laga Strætó. Strætó þyrfti að vera eingöngu rekinn af Reykjavík. Það gekk ágætlega áður en bs fyrirkomulagið tók yfir. Hugmynd meirihlutans um flýti- eða tafagjöld mun mæta harðri andstöðu. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur bent á að langeinfaldast sé að greitt sé samkvæmt notkun bíla með þeirri innheimtutækni að lesið sé af ökumæli við almenna bifreiðaskoðun.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna minnir á að samgöngusáttmáli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er eitthvert merkasta spor sem stigið hefur verið í átt til uppbyggingar á nútímalegum almenningssamgöngum hér á landi. Framkvæmd sáttmálans mun auka lífsgæði borgarbúa og auðvelda Íslandi að standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Vitaskuld má sitthvað bæta í sáttmálanum sem gefur tilefni til þess að taka hann til athugunar, má þar nefna að tilefni kann að vera til að auka vægi hjólreiða í samgöngukerfinu. Endurskoðun sem hefði þann tilgang að sópa fótunum undan meginmarkmiðum sáttmálans kæmi hins vegar engum að gagni.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að óska eftir viðræðum um að ákvæði samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins frá 26. september 2019 verði endurskoðuð, ekki síst hvað varðar framkvæmda- og fjárstreymisáætlun, með það fyrir augum að tryggja farsæla framvindu og framkvæmd nauðsynlegra samgöngubóta í Reykjavík.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan er felld með fjórtan atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23020137

-    Kl. 15:35 tekur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sæti á fundinum og Pawel Bartoszek víkur af fundi. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Frá undirritun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrikað mikilvægi þess að gætt verði að tímaáætlun framkvæmda og ráðdeild hvað varðar framkvæmdakostnað. Með sáttmálanum þyrfti að tryggja frelsi og val í samgöngum – einn fararmáti skyldi ekki útiloka annan – framtíðin ætti að fela í sér valfrelsi og sveigjanleika. Tæpum fjórum árum eftir undirritun sáttmálans ríkir hins vegar enn mikil óvissa um fjármögnun hans. Jafnframt kom nýverið í ljós að tilteknar framkvæmdir reyndust stórlega vanáætlaðar, langt umfram verðbætur. Að auki hefur ekki verið lokið við neina þeirra flýtiframkvæmda sem tilgreindar voru sem forgangsverkefni í sáttmálanum. Telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks því ærið tilefni fyrir ríki og sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins að hefja tafarlaust viðræður um endurskoðun þeirra framkvæmda- og kostnaðaráætlana sem liggja til grundvallar sáttmálanum. Það þarf ávallt að viðhafa ábyrgð og ráðdeild þegar sýslað er með almannafé.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Samgöngusáttmálinn er tímamótasamkomulag milli ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þar er sett fram sameiginleg sýn og forgangsröðun, með áherslu á bættar almenningssamgöngur, betri hjóla- og göngustíga, en líka lykilumbætur í vegakerfinu. Þarna er um að ræða málamiðlun þar sem allir aðilar gefa eitthvað eftir en helsti ávinningurinn er löngu tímabær uppfærsla á samgönguinnviðum borgarinnar. Þrátt fyrir einhverjar tafir, meðal annars af sökum heimsfaraldurs, er ágætis gangur í framkvæmdum og deiliskipulag langt komið víða. Sannarlega er nauðsynlegt að klára samkomulag um rekstur Borgarlínu milli ríkis og sveitarfélaganna en það er óskynsamleg notkun á orku og tíma að ráðast í endurskoðun samgöngusáttmála sem stendur fyllilega fyrir sínu.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

Mikilvægt er að bæta samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega almenningssamgöngur. Á meðan unnið er að útfærslu framtíðarsýnar þarf einnig að bæta núverandi samgöngur. Byggja þarf upp almenningssamgöngur út frá þörfum og væntingum þeirra sem treysta á þær. Erfitt er að sjá fyrir sér hvernig stuðningur við framtíðarkerfi fáist þegar núverandi kerfi er ófullnægjandi og óáreiðanlegt. Sósíalistar leggjast gegn veggjöldum og lögðu á sínum tíma til fyrirvara, m.a. um að skilyrði fyrir samþykkt samgöngusáttmálans væru engin veggjöld. Sameiginlegir sjóðir eiga að standa undir grunninnviðum og uppbyggingu almenningssamgangna, en ekki gjöld sem leggjast þyngst á þau efnaminni.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Með sáttmálanum var ákvörðun tekin um að ráðast í ríflega 52 milljarða króna fjárfestingu í ellefu stofnvegaframkvæmdum, 50 milljarða króna fjárfestingu í borgarlínu og fimmtán milljarða í hjóla- og göngustígum auk búnaðar í umferðarstýringu. Í ljós hefur komið að framkvæmdaáætlun samgöngusáttmálans er þegar komin 50 milljarða fram úr áætlun, þótt framkvæmdir séu vart hafnar. Stokkur við Sæbraut er ein framkvæmdanna sem nú er metin ríflega fimmtán milljarða umfram upphaflega áætlun þessa verkefnis. Brýnt er að kanna hvort slíkar vanáætlanir eigi við um önnur verkefni sáttmálans. Ef svo er þarf að taka ákvörðun um hvernig skuli bregðast við því. Hefur Reykjavíkurborg staðið við ákvæði sáttmálans, m.a. um þær framkvæmdir sem átti að flýta sérstaklega samkvæmt efni hans? Ríkið fjármagnar sáttmálann að mestu leyti og þarf því að hafa virkt og öflugt eftirlit með því að Reykjavík standi við samkomulagið. Þetta kemur m.a. fram í grein sem þingmaður skrifar í dag. Að minnsta kosti tvö sveitarfélög eru með spurningar um samkomusáttmálann. Flokkur fólksins vill að áætlanir verði endurmetnar. Borgarlína eða ekki þá viljum við öll samgöngur sem virka. Tímabært er að endurmeta stöðuna í ljósi vanáætlunar. Flokkur fólksins vill að horft sé til betri strætó samgangna og losa Strætó úr bs-kerfinu.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna minnir á að samgöngusáttmáli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er eitthvert merkasta spor sem stigið hefur verið í átt til uppbyggingar á nútímalegum almenningssamgöngum hér á landi. Framkvæmd sáttmálans mun auka lífsgæði borgarbúa og auðvelda Íslandi að standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Vitaskuld má sitthvað bæta í sáttmálanum sem gefur tilefni til þess að taka hann til athugunar, má þar nefna að tilefni kann að vera til að auka vægi hjólreiða í samgöngukerfinu. Endurskoðun sem hefði þann tilgang að sópa fótunum undan meginmarkmiðum sáttmálans kæmi hins vegar engum að gagni.

3.    Fram fer umræða um hlutfall félagslegs húsnæðis í borginni.

-    Kl. 16:05 víkur Magnea Gná Jóhannsdóttir af fundinum og Þorvaldur Daníelsson tekur sæti. MSS23020138

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar byggir á húsnæðisstefnu borgarinnar og mati á þörf fyrir húsnæði. Reykjavíkurborg hefur verið í forystu í uppbyggingu félagslegs húsnæðis síðustu ár og yfir 5% íbúða í borginni eru í eigu Reykjavíkurborgar og leigðar út í gegnum Félagsbústaði. Þá hefur Reykjavíkurborg um langt skeið verið leiðandi á höfuðborgarsvæðinu en 78% alls félagslegs leiguhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er í Reykjavík á sama tíma og hlutfall íbúa Reykjavíkur er 56% af íbúum alls höfuðborgarsvæðisins. Undanfarin fjögur ár hefur íbúðum í eignasafninu fjölgað um yfir 100 á ári og árlega hefur verið úthlutað að meðaltali í 160 almennar félagslegar íbúðir, 40 íbúðir fyrir fatlað fólk, 60 þjónustuíbúðir og 30 íbúðir fyrir heimilislaust fólk.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

895 manneskjur bíða eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá borginni. Fjárhagsleg og félagsleg staða þeirra sem bíða hefur verið metin þannig að þau séu í þörf fyrir félagslegt húsnæði. Sé litið til meðalbiðtíma eftir félagslegu leiguhúsnæði má sjá að þörf er á breytingum. Fulltrúar Sósíalista óskuðu eftir umræðu um hvernig væri fyrirséð að mæta þessum fjölda. Fulltrúar meirihlutans telja enga þörf á að bregðast við og segja eðlilegt að það séu biðlistar eftir félagslegu húsnæði. Þau vilja halda áfram á sömu braut sem nú skilur 216 barnafjölskyldur eftir á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Á meðan er beðið við ótryggar húsnæðisaðstæður. Hér er rétt að taka fram að sé litið til allra biðlista borgarinnar þá eru fleiri sem bíða eftir viðeigandi húsnæði.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Reykjavíkurborg hefur sett fram samningsmarkmið vegna uppbyggingarsvæða í Reykjavík. Í nýjum byggingarreitum er oft samið um kauprétt Félagsbústaða á 5% íbúða og að 20% íbúða verði skilgreindar sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf., búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða. Flokkur fólksins hefur verið með tillögur um að skilgreina hærra hlutfall sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir og leiguíbúðir Félagsbústaða vegna langra biðlista í slíkt húsnæði. Gott er að heyra að samningsmarkmiðin hafi náð fram að ganga. Fram kemur í svari að fjöldi íbúða til Félagsbústaða frá 2018-2022 er 177. Vandinn er sá að það dugar ekki til. Sama má segja um 698 íbúðir Félagsbústaða. Nú bíða mörg hundruð manns eftir leiguhúsnæði hjá Félagsbústöðum. Húsnæðisástandið kemur hvað verst niður á leigjendum og efnaminna fólki. Í svörum hefur komið fram að samningsmarkmið hafi verið endurskoðuð þegar ástæða hefur þótt til frá því þau voru fyrst samþykkt árið 2014. Flokkur fólksins áttar sig ekki alveg á hvað það þýðir „þegar ástæða hefur þótt til“. Sjálfsagt er að hækka þessi viðmið enn meira nú þegar svo illa árar í samfélaginu og verðbólga er há.

4.    Fram fer umræða um orsakir skólaforðunar og viðbrögð skólayfirvalda og fagfólks. MSS23020044

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Hver er ábyrgð velferðarkerfisins á skólaforðunarmálum? Hafa viðbrögð borgaryfirvalda við þessum erfiðu málum verið viðunandi? Öll mál af þessu tagi þarf að vinna á einstaklingsgrunni og engin tvö mál eru eins. Svona mál verða ekki unnin án aðkomu fagfólks. Fagfólki hefur ekki fjölgað í skólum borgarinnar í samræmi við fjölgun nemenda. Laun sálfræðinga hafa ekki verið leiðrétt í samræmi við menntunarstig þeirra. Öll þekkjum við biðlistann sem fengið hefur að lengjast stjórnlaust. Finna þarf og fjarlægja hindrunina/ógnina sem skólaforðun byggir á hvort sem hún er innra með barninu eða í umhverfinu nema hvort tveggja sé. Miðlægt viðmiðunarkerfi hefur nú verið við lýði í fjögur ár sem á að greina á milli ástæðu fjarvista. Kerfið hefur ekki hugnast öllum skólum vegna þess að ekki er gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, s.s. vegna veikinda annars vegar og óleyfilegra fjarvista hins vegar. Það þarf að lagfæra kerfið svo það nýtist öllum skólum. Ef barni er ekki hjálpað úr skólaforðunaraðstæðum mun það hafa áhrif á fjölmargt annað í lífi barnsins til skemmri og lengri tíma. Það er ekki í boði að bara bíða. Afleiðingar langvinnrar skólaforðunar geta leitt til félagslegrar fötlunar sem kemur niður á möguleikum einstaklinga að stunda nám og vinnu.

5.    Umræðu um hvernig borgarstjórn endurheimti traust almennings er frestað. MSS23020139

6.    Fram fer umræða um málefni Árbæjar og Norðlingaholts. MSS23020140

7.    Lagt er til Björn Gíslason taki sæti í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur.
Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins að fresta kosningunni. 
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060045

8.    Lagt er til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í stafrænu ráði í stað Björns Gíslasonar. Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins að fresta kosningunni. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060158

9.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 9. og 16. febrúar. MSS23010001

7. liður fundargerðarinnar frá 9. febrúar; talgreining borgarstjórnarfunda – heimild til að hefja verkefni, er samþykktur með sextán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. ÞON22090061
7. liður fundargerðarinnar frá 16. febrúar; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022, er samþykktur. FAS22010035
8. liður fundargerðarinnar; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023, er borinn upp til atkvæða í þrennu lagi: FAS22010035
5. liður viðaukans, hækkun greiðslna vegna orlofsskuldbindinga Jafnlaunastofu, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
6. liður viðaukans, hækkun á árgjaldi hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Aðrir liðir viðaukans eru samþykktir. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar frá 16. febrúar:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokksins og Vinstri grænna beina þeim tilmælum til borgarstjóra að hann aflétti nú þegar leynd af tillögu sinni um framtíðartilhögun starfsemi Borgarskjalasafns Reykjavíkur, dags. 14. febrúar 2023, ásamt fylgiskjölum. Afar óeðlilegt er að leynd ríki um slíka tillögu og þau gögn málsins sem kynnt voru í borgarráði 16. febrúar, menningar-, íþrótta-og tómstundaráði 10. febrúar og stafrænu ráði 8. febrúar. Óviðunandi er að slíkt mál sé sveipað leyndarhjúpi enda ljóst að hvorki fjárhagslegum hagsmunum né viðkvæmum persónuverndarhagsmunum væri stefnt í hættu með tafarlausri birtingu umræddra gagna. Þar sem tillagan felur í sér verulega breytingu á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar, er mikilvægt að gögnin verði birt sem fyrst til að tryggja gagnsæi. Þá er rétt að upplýstar umræður geti átt sér stað um tillöguna og afleiðingar hennar áður en kjörnir fulltrúar taka afstöðu til hennar í viðkomandi fagráðum. Síðast en ekki síst er mikilvægt að starfsfólki Borgarskjalasafns og öðrum hagsmunaaðilum verði gefinn kostur á að kynna sér tillöguna ásamt fyrirliggjandi sviðsmyndagreiningum og skila formlegum umsögnum áður en afstaða verður tekin til tillögunnar í borgarráði og borgarstjórn.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar frá 9. febrúar: 

Við síðustu fjárhagsáætlun lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks til niðurskurð í stafrænni umbreytingu, sem nema myndi einum og hálfum milljarði króna árið 2023. Ekki verður séð að talgreining borgarstjórnarfunda geti talist forgangsverkefni við núverandi aðstæður, þar sem útkomuspá fyrir árið 2022 gerði ráð fyrir 15,3 milljarða rekstrarhalla. Betur færi á því að halda áfram tilraunaverkefni um rauntímatextun, sem myndi nægja tímabundið til að gera fundi borgarstjórnar aðgengilega öllum, en fresta frekari fjárfestingu þar til fjárhag borgarinnar hefur verið komið í betra horf.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 31. lið fundargerðarinnar frá 16. febrúar:

Tillaga meirihlutans um að leggja niður Borgarskjalasafn hefur verið á öllum fréttamiðlum. Staldra þarf við og leita umsagna hagsmunaaðila eins og lagt er til. Víkur sögunni aftur til 2020 en þá gerði borgarskjalavörður frumkvæðisathugun á braggamálinu. Niðurstaðan var að lög voru brotin í endurgerðarferli braggans. Fulltrúi Flokks fólksins hugsar hvort verið sé að refsa borgarskjalaverði fyrir niðurstöðu sína. Flokkur fólksins bókaði þá: „Hér er verið að draga niður frumkvæðisathugun borgarskjalavarðar sem kemst að þeirri niðurstöðu að farið var á svig við lög við endurgerð braggans. Borgarskjalavörður fær bágt fyrir að vera fagaðili, nákvæmur og athugull, og tók ákvörðun um að gera frumkvæðisathugun í óþökk meirihlutans.“ Að sömu niðurstöðu kemst Björn Bjarnason í pistli á heimasíðu sinni, bjorn.is.: „Nú réttum þremur árum frá því að sviðsstjórinn (ÞON) gagnrýndi safnið vegna frumkvæðis í braggamálinu vilja hann og borgarstjóri bara loka borgarskjalasafninu – helst með hraði og leynd. Í braggamálinu svonefnda fyrir réttum þremur árum fann Óskar Jörgen að því opinberlega sem sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg að af hálfu Borgarskjalasafns skyldi vakin athygli á að skjalameðferð vegna framkvæmda við bragga í Nauthólsvík stæðist ekki lög um skjalavörslu og skjalastjórn (dv.is 13. febrúar 2020). Sviðsstjórinn sagðist ósammála niðurstöðu Borgarskjalasafnsins um lögbrot.“

10.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 17. febrúar, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 9. febrúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 6. og 15. febrúar, stafræns ráðs frá 8. febrúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. og 15. febrúar og velferðarráðs frá 15. febrúar. MSS23010061

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. febrúar og stafræns ráðs frá 8. febrúar:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokksins og Vinstri grænna beina þeim tilmælum til borgarstjóra að hann aflétti nú þegar leynd af tillögu sinni um framtíðartilhögun starfsemi Borgarskjalasafns Reykjavíkur, dags. 14. febrúar 2023, ásamt fylgiskjölum. Afar óeðlilegt er að leynd ríki um slíka tillögu og þau gögn málsins, sem kynnt voru í borgarráði 16. febrúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráði 10. febrúar og stafrænu ráði 8. febrúar. Óviðunandi er að slíkt mál sé sveipað leyndarhjúpi enda ljóst að hvorki fjárhagslegum hagsmunum né viðkvæmum persónuverndarhagsmunum væri stefnt í hættu með tafarlausri birtingu umræddra gagna. Þar sem tillagan felur í sér verulega breytingu á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar, er mikilvægt að gögnin verði birt sem fyrst til að tryggja gagnsæi. Þá er rétt að upplýstar umræður geti átt sér stað um tillöguna og afleiðingar hennar áður en kjörnir fulltrúar taka afstöðu til hennar í viðkomandi fagráðum. Síðast en ekki síst er mikilvægt að starfsfólki Borgarskjalasafns og öðrum hagsmunaaðilum verði gefinn kostur á að kynna sér tillöguna ásamt fyrirliggjandi sviðsmyndagreiningum og skila formlegum umsögnum áður en afstaða verður tekin til tillögunnar í borgarráði og borgarstjórn. 

Helgi Áss Grétarsson og Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 6. febrúar:

Fyrir liggur svar skóla- og frístundasviðs um meðalaldur barna við inngöngu í borgarreknum leikskólum á hausti hverju frá og með árinu 2011. Tilgangurinn með því að afla upplýsinga um þessi atriði var að fá rauntölur um þetta efni á meðan Samfylkingin hefur verið ráðandi flokkur við stjórn Reykjavíkurborgar. Niðurstaðan er sú að meðaldur barna var að meðaltali yfir 20 mánaða við inngöngu í borgarreknum leikskólum á árunum 2019-2022 en upplýsingar um þessi atriði fyrir haustið 2019 eru ótiltækar. Það skýtur skökku við að skortur sé á upplýsingagjöf af þessu tagi þegar ráðandi flokkur í borgarstjórninni tímabilið 2011-2022, Samfylkingin, hefur í aðdraganda þrennra borgarstjórnarkosninga í röð (2014-2022) lofað tilteknum lausnum í leikskólamálum með tilliti til meðalaldurs barna sem komast að í leikskólum. Þau loforð hafa aldrei verið efnd, t.d. í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna sl. vor laut síðasta svikna loforðið að því að öll 12 mánaða börn í Reykjavík myndu fá leikskólavist 1. september 2022. Það loforð var frá öndverðu reist á hæpnum forsendum og það máttu allir vita sem kynntu sér málin ofan í hörgul, líkt og sést á því svari sem hér hefur verið lagt fram, sem sýnir að meðalaldur við inntöku barna í borgarreknum leikskólum hefur ekki lækkað undanfarin ár.

Kjartan Magnússon og Björn Gíslason, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. febrúar:

Íbúum fer nú fjölgandi við Brautarholt og verslunar- og atvinnurekstur hefur jafnframt aukist töluvert í nálægum götum. Samhliða færist umferð á svæðinu í aukana og eftirspurn eftir bifreiðastæðum hefur reynst mikil. Það er líklegt að eftirspurnin muni vaxa töluvert á næstu árum og hafa afleiðingar í næsta nágrenni. Því er mikilvægt að fyrirliggjandi tillaga, sem felur meðal annars í sér fækkun bílastæða, sé kynnt fyrir íbúum og atvinnurekendum í Brautarholti og nálægum götum og þeim gefinn kostur á að tjá sig um þær áður en lengra er haldið. Samhliða þarf að rýna aðgengi að svæðinu fyrir þau sem ferðast með Strætó, á reiðhjóli eða öðrum hætti. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Píratar og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Eins og skýrt kom fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 15. febrúar var skipulagsferlið og kynning gagnvart íbúum sem fór fram á sínum tíma ásamt umsagnarfresti, kynnt fyrir ráðinu. Þessu var lýst vel í yfirferð sviðsins 15. febrúar, enda var málinu frestað á fundi 8. febrúar og ítarleg kynning útbúin, og má finna þá yfirferð í gögnum fundarins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. og 7. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs:

Tillögur Flokks fólksins sem lagðar hafa verið fram í mannréttindaráði hafa iðulega verið felldar með þeim rökum að þær séu ekki nógu sértækar, ekki framkvæmanlegar og stundum er einnig kvartað yfir að þær séu ekki kostnaðarmetnar. Dæmi um tillögur sem meirihlutinn í ráðinu taldi ekki nógu sértækar eru að mannréttindaráð beiti sér þegar kemur að því að standa vörð um aðgengi fatlaðra, fólk með skerta hreyfigetu, að miðbænum á tyllidögum annars vegar og hins vegar að ráðið bregðist við og beiti sér gegn ofbeldi gagnvart fötluðu fólki t.d. með því að bjóða upp á fræðslufundi eða málþing. Þessar tillögur taldi ráðið ekki vera framkvæmanlegar. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þessar tillögur gætu varla verið sértækari, t.d. sú síðari. Halda mætti að meirihlutinn í ráðinu telji að minnihlutaflokkur eigi að útfæra hvert snifsi fyrir meirihlutann. Minnihluti á samt aldrei neina aðkomu að ákvörðunum meirihlutans. Það er mat Flokks fólksins að meirihlutinn sé kominn með svona frasa sem hann beitir án tillits til efnis tillagna. Það er ekki hlutverk minnihlutans að kostnaðarmeta tillögur. Minnihlutinn fær ekki mannafla í slíkt. Flokkur fólksins hefur lagt til að hann fái aðgang að starfsmanni á fjármálasviði til að kostnaðarmeta tillögur hans en fékk synjun.

11.    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að leitað verði afbrigða til að taka á dagskrá borgarstjórnar tillögu varðandi breytingar á götukafla við Brautarholt. MSS23020149
Tillaga um að leita afbrigða er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna.

Fundi slitið kl. 19:30

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Aðalsteinn Haukur Sverrisson    Trausti Breiðfjörð Magnússon