No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2014, þriðjudaginn 2. desember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fjárhagsáætlun 2015; síðari umræða.
Lagt fram að nýju frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 ásamt greinargerð og starfsáætlunum. Jafnframt eru lagðir fram 30. og 32. liður úr fundargerð borgarráðs frá 27. nóvember: Breytingartillögur borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata við frumvarp að fjárhagsáætlun merktar SÆVÞ01-SÆVÞ23 og breytingartillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merktar D01-D15. Einnig er lögð fram greinargerð Bílastæðasjóðs, ódags., og minnisblað fjármálaskrifstofu, dags. 26. nóvember 2014, um fjárhagsáætlanir fyrirtækja í B-hluta samstæðu Reykjavíkurborgar.
Samþykkt með 15 atkvæðum að taka svohljóðandi breytingartillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá:
D16: Úrbætur á Leiknisvelli við Austurberg
Borgarstjórn samþykkir að veita fimmtán milljóna króna framlag til úrbóta við Leiknisvöllinn við Austurberg.
Greinargerð fylgir tillögunni.
D-17: Breytingartillaga Sjálfstæðisflokksins við frumvarp að fjárhagsáætlun 2015. Lagt er til að eftirtalin fjárveiting til byggingaframkvæmda verði felld brott úr frumvarpi að fjárhagsáætlun 2015. Áður en frekari ákvarðanir verði teknar um framkvæmdina verði ýtarlegri kostnaðar- og rekstraráætlun unnin vegna hennar en sú áætlun sem nú liggur fyrir. 200 milljónir. Sundhöll Reykjavíkur, kostnaðarstaður 1105.
D-18: Breytingartillaga Sjálfstæðisflokksins við frumvarp að fjárhagsáætlun 2015. Lagt er til að eftirtalin fjárveiting til byggingaframkvæmda verði felld brott úr frumvarpi að fjárhagsáætlun 2015. Áður en frekari ákvarðanir verði teknar vegna umræddrar framkvæmdar verði ýtarlegri kostnaðar- og rekstraráætlun unnin vegna hennar en sú áætlun sem nú liggur fyrir. 100 milljónir. Varmahlíð 1, Perlan, breytingar. Kostnaðarstaður 1108.
D-19: Breytingartillaga Sjálfstæðisflokksins við frumvarp að fjárhagsáætlun 2015. Lagt er til að eftirtalin fjárveiting til byggingaframkvæmda verði felld brott úr frumvarpi að fjárhagsáætlun 2015. Áður en frekari ákvarðanir verði teknar um þessa framkvæmd verði ýtarlegri kostnaðar- og rekstraráætlun unnin vegna hennar en þær áætlanir sem nú liggja fyrir. 40 milljónir. Grófarhús, viðbygging. Kostnaðarstaður 1103.
D-20: Breytingartillaga Sjálfstæðisflokksins við frumvarp að fjárhagsáætlun 2015. Vegna fyrirhugaðra breytinga á stöðu Félagsbústaða hf., þar sem kaupa á eða byggja 500 nýjar félagslegar leiguíbúðir, samþykkir borgarstjórn að unnin verði óháð úttekt á fjárhag og rekstri félagsins. Staða Félagsbústaða fyrir breytingu er erfið því árlegt veltufé frá rekstri stendur ekki undir árlegum afborgunum lána. Kostnaður vegna úttektarinnar verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð, kostnaðarstað 09205.
Ekki eru gerðar tillögur um aðrar breytingar á frumvarpi að fjárhagsáætlun fyrir árið 2015.
Er þá gengið til atkvæða um þær breytingartillögur við frumvarp að fjárhagsáætlun ársins 2015 sem fyrir liggja, sbr. 30. lið, 32. lið og 41. lið fundargerðar borgarráðs 27. nóvember:
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-01, varðandi Félagsbústaði hf., samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-02, varðandi Félagsbústaði hf., bygging á 500 félagslegum íbúðum, samþykkt með 13 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-03, varðandi Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-04, varðandi Bílastæðasjóð, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-05, varðandi framlög til Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-01, varðandi framlög til hráefniskaupa í mötuneytum leikskóla, felld með 9 atkvæðum gegn 6.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-13, varðandi framlög til hráefniskaupa í mötuneytum grunnskóla, felld með 9 atkvæðum gegn 6.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-06, varðandi bættan kost í mötuneytum grunn- og leikskóla, samþykkt með 15 atkvæðum.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-07, varðandi fjölda barna í borgarreknum grunnskólum, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-08, varðandi fjölda barna í sjálfstætt starfandi grunnskólum, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-09, varðandi fjölda barna í borgarreknum leikskólum, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-10, varðandi sértæka sérkennslu grunnskóla, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-11, varðandi sértæka sérkennslu leikskóla, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-12, varðandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-13, varðandi frístund fatlaðra framhaldsskólanema, samþykkt með 15 atkvæðum.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-14, varðandi frístundakort, samþykkt með 15 atkvæðum.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-15, varðandi EM skáklandsliða, samþykkt með 13 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-16, varðandi Smáþjóðaleika, samþykkt með 13 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-17, varðandi aðgerðir gegn heimilisofbeldi, samþykkt með 15 atkvæðum.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-18, varðandi Norrænu höfuðborgarráðstefnuna, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-19, varðandi 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, samþykkt með 15 atkvæðum.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-20, varðandi endurskoðunarnefnd, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-21, varðandi sölu byggingarréttar, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-22, varðandi tilfærslur á innri leigu, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-02, varðandi 70 m.kr. framlag til framkvæmda við frjálsíþróttavöll við Skógarsel, felld með 9 atkvæðum gegn 6.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fyrir liggur í fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 50 milljóna króna framlag vegna framkvæmdaáætlunar verkefnisins. Framkvæmdir geta mögulega hafist á næsta ári.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-23, varðandi tilfærslur innan fjárfestingaáætlunar 2015, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-03, varðandi viðbyggingu við Breiðholtsskóla, felld með 9 atkvæðum gegn 6.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Verið er að rýna hvort nemendafjölgun næstu ára kalli á viðbyggingu við Breiðholtsskóla. Á árunum 2012-2014 hefur um 153 milljónum verið varið í viðhald, endurbætur og búnaðarkaup og er hann sá skóli í borginni sem fengið hefur hæstar fjárveitingar til þess. Tillögunni er vísað til skoðunar við vinnslu viðhalds- og fjárfestingaráætlunar (meiriháttar endurbætur).
Lögð fram breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-04 varðandi afnám fjárhagslegra hvata til að velja leikskóla fram yfir dagforeldra.
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:
Borgarstjórn samþykkir hækkun á niðurgreiðslum vegna dagforeldra um 3,4%, alls 17,2 milljónir.
Samþykkt með 15 atkvæðum.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Hækkun meirihlutans mun engan veginn afnema fjárhagslegan hvata fjölskyldna til að velja leikskóla fram yfir dagforeldra.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-05, varðandi sveigjanleika í þjónustu vegna þrifa, felld með 9 atkvæðum gegn 6.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð hefur falið velferðarsviði að koma með tillögur að mögulegri útfærslu á sveigjanleika varðandi þjónustu við þrif. Forsendan er að tímagjald á klukkustund verði miðað út frá þeim kostnaði sem sviðið ber við þjónustuna þegar það veitir hana sjálft. Því er ekki um kostnaðarauka að ræða fyrir velferðarsvið.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vita að unnið er að þessu á velferðarsviði, en telja þörf á að leggja enn meiri áherslu á verkefnið. Nauðsynlegt er að fylgjast með ánægju með þjónustu fyrir og eftir breytingar.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-06, varðandi sveigjanleika í heimaþjónustu, felld með 9 atkvæðum gegn 6.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú þegar eru breytingar fyrirhugaðar á félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun í hverfum borgarinnar með það að markmiði að veita notendum heildstæða þjónustu. Með breytingum er komið til móts við þá kröfu samfélagsins að fólk geti búið lengur heima þrátt fyrir færniskerðingu og fjölþætt heilbrigðisvandamál auk þess sem betri yfirsýn næst yfir þarfir hvers og eins. Frekari sameining þjónustunnar er fyrirhuguð í byrjun árs 2015.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vita að unnið er að þessu á velferðarsviði, en telja þörf á að leggja enn meiri áherslu á verkefnið. Nauðsynlegt er að fylgjast með ánægju með þjónustu fyrir og eftir breytingar.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-07, varðandi tímabundna undanþágu fatlaðra ungmenna frá 6. gr. húsaleigubótalaga, felld með 9 atkvæðum gegn 4.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Tekið er undir sjónarmið tillögunnar en undanþágur þótt tímabundnar séu frá húsaleigulögum verða aðeins afgreiddar á Alþingi.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-08, varðandi aukna vitund um velferðarþjónustu í borginni óháð rekstraraðila, felld með 9 atkvæðum gegn 4.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú þegar er vinna hafin við aukna upplýsingagjöf og miðlun velferðarsviðs á þjónustu sinni.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ekki rétt að unnið sé með eins markvissum hætti og tillagan gengur út á inn á velferðarsviði. Hér er um að ræða gríðarlega gott dæmi um verkefni sem nýst getur mörgum og styttir verulega þann tíma sem það tekur fólk að finna ráðgjöf eða meðferð við hæfi. Verkefnið er einnig sérstaklega markvisst til að bregðast við biðlistum eftir úrræðum. Með markvissu framboði af velferðarúrræðum, hvort sem um opinbera eða einkaaðila er að ræða, er hægt að kynna fyrir fólki þá þekkingu og aðferðir sem því býðst í borginni. Hvetja þarf fjölskyldur og einstaklinga að leita sér aðstoðar um leið og grunur um þörf kviknar. Ná þarf enn frekar til þeirra sem ekki skila sér í ráðgjöf eða meðferð nógu snemma. Of mikið er um að fólk telji sig ekki vera í hópi þeirra sem þarf meðferð. Breyta þarf viðhorfi fólks til velferðarþjónustu og vinna að því að eðlilegt sé að hver sem er nýti sér velferðarþjónustu. Því miður sér meirihlutinn ekki ástæðu til að vinna að þessu mikilvæga máli.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-09, varðandi innleiðingu nýsköpunarumhverfis í velferðarþjónustu, felld með 9 atkvæðum gegn 6.
Tillögunni er vísað til frekari skoðunar velferðarráðs og velferðarsviðs.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Því miður tekur meirihlutinn ekki undir þessa mikilvægu tillögu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að sviðið er engan veginn besti aðilinn til að fjalla um hvort gera eigi úttekt á eigin vinnu. Nauðsynlegt er að slík úttekt verði gerð af utanaðkomandi aðilum.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-10, varðandi rafræn samskipti til að draga úr heimsóknarþörf í velferðarþjónustu, samþykkt með 13 atkvæðum. Tillögunni er vísað til meðferðar velferðarsviðs.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-11, varðandi velferðartæknilausnir í heimaþjónustu, heimahjúkrun og öldrunarþjónustu, felld með 9 atkvæðum gegn 6.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð hefur falið velferðarsviði að kanna hvaða velferðartæknilausnir eru á markaðnum sem gætu nýst fólki á heimilum sínum með markmið um aukið öryggi og lífsgæði. Nú þegar tekur velferðarsvið þátt í þremur verkefnum sem varða nýsköpun og tæknilausnir.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan hljóðar upp á nauðsynlega vinnu við að innleiða velferðartækni á heimilum þeirra sem hana þurfa. Þau verkefni sem velferðarsvið vinnur að nú ná ekki yfir það verkefni sem tillagan kveður á um. Mjög mikilvægt er að flýta fyrir og undirbúa enn frekari innleiðingu velferðartækni inn á heimili og í störf velferðarsviðs.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-12, varðandi aukna virkni og þátttöku, felld með 9 atkvæðum gegn 6.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Í samstarfsyfirlýsingu meirihlutaflokkanna frá júní 2014 kemur fram að áhersla verði lögð á einstaklingsbundinn stuðning til sjálfshjálpar og virkni. Þeim sem þarfnast fjárhagslegrar aðstoðar verði boðin tækifæri til vinnu, náms, starfsendurhæfingar eða meðferðar. Unnið er að því innan velferðarsviðs að auka þátttöku og virkni eins og gert hefur verið með góðum árangri.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Því miður eru allar líkur á að meirihlutinn haldi áfram með sama hraða og árangri og fyrri meirihluti er þekktur fyrir. Sá árangur er ekki ásættanlegur fyrir borgarbúa né þá sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-14, varðandi styrk til KFUM og K, felld með 9 atkvæðum gegn 6.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Byggingastyrkir til KFUM og K á árunum 2008-2009 nema tæpum 57 milljónum. Á síðastliðnum sex árum hefur borgin styrkt KFUM og K um rúmar 20 milljónir á ári.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-15, varðandi framlag til Kirkjubyggingarsjóðs, felld með 9 atkvæðum gegn 5.
Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, situr hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-16, varðandi framlag til úrbóta við Leiknisvöllinn við Austurberg, er vísað til meðferðar ÍTR með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Viðræður standa yfir við ÍR og Leikni um eflingu íþróttastarfs í Breiðholti. Úrbætur við Leiknisvöll eru hluti þeirra viðræðna. Tillögunni er vísað til umfjöllunar ÍTR.
Breytingartillaga Sjálfstæðisflokksins merkt D-17, varðandi niðurfellingu 200 milljón króna fjárveitingar til byggingaframkvæmda Sundhallar Reykjavíkur, felld með 9 atkvæðum gegn 4.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga Sjálfstæðisflokksins merkt D-18, varðandi niðurfellingu 100 milljón króna fjárveitingar til byggingaframkvæmda Varmahlíðar 1, Perlan, felld með 9 atkvæðum gegn 4.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga Sjálfstæðisflokksins merkt D-19, varðandi niðurfellingu 40 milljón króna fjárveitingar til byggingaframkvæmda viðbyggingu Grófarhúss, felld með 9 atkvæðum gegn 4.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Samþykkt með 15 atkvæðum að vísa breytingartillögu Sjálfstæðisflokksins merkt D-20, varðandi úttekt á Félagsbústöðum hf., til meðferðar borgarráðs.
Þá er gengið til atkvæða um frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 með áorðnum breytingum.
Atkvæðagreiðsluskrá - Mynd
Hér á að vera mynd af atkvæðagreiðsluskrá sem hægt er að sjá í pdf-útgáfu af fundargerðinni hér hægra megin á síðunni.
Lögð fram svohljóðandi bókun borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:
Fjárhagsáætlun Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, VG og Pírata endurspeglar áherslur meirihlutans sem finna má í samstarfssáttmála hans. Námsgjöld leikskóla lækka um rúm 6%, frístundastyrkur hækkar og systkinaafslættir þvert á skólastig verða að veruleika. Milli umræðna hækkar framlag borgarinnar til að auka gæði skólamáltíða, framlög til sérkennslu í leik- og grunnskólum eru aukin og ráðist verður í sérstök verkefni til að ná til þeirra hópa barna og ungmenna sem nú njóta með takmörkuðum hætti niðurgreiðslna og kosta frístundakortsins. Auk þess mun Reykjavíkurborg og lögreglan fara í aðgerðir gegn heimilisofbeldi ásamt því að uppbygging 500 nýrra félagslegra íbúða er fyrirhuguð á næstu fimm árum. Fyrsta áætlun nýs meirihluta er því varfærin og endurspeglar sterkan rekstur Reykjavíkur með sérstaka áherslu á uppbyggingaráform og að létta undir með barnafjölskyldum í borginni.
Lögð fram svohljóðandi bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Hálfs milljarðs króna halli á aðalsjóði borgarinnar, útsvarið áfram í hæstu mögulegu hæðum og skortur á nýrri hugsun er einkenni á fyrstu fjárhagsáætlun meirihlutaflokkanna fjögurra í Reykjavík. Hallarekstur aðalsjóðs kemur í veg fyrir að eignasjóður borgarinnar geti staðið undir þeim verkefnum sínum að halda við eignum borgarinnar eins og sjá má á skólahúsnæði og öðru mikilvægu húsnæði í eigu Reykjavíkurborgar. Eignasjóður fær það verkefni að standa undir halla aðalsjóðs í stað þess að nýta leigutekjur sínar frá einstökum stofnunum eins og skólum til að sinna viðhaldi þeirra. Stofnanir borga leigu til eignasjóðs en fá ekki eðlilega þjónustu til baka því eignasjóður er upptekinn við að bjarga aðalsjóði sem á að standa undir rekstri með skatttekjum. Samkvæmt nýrri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 heldur meirihlutinn í Reykjavík áfram að reka sömu stefnu og frá síðasta kjörtímabili. Kostnaður meðalfjölskyldu í Reykjavík með þrjú börn er 2,2 milljónir sem hún greiðir til borgarinnar á ári að meðtöldu útsvari. Núverandi meirihluti ætlar að halda áfram að auka álögur á fjölskyldur borgarinnar líkt og síðasti meirihluti gerði. Þriggja barna fjölskylda þarf nú að greiða 25,5% meira fyrir þjónustu Reykjavíkurborgar en hún gerði árið 2010. Fjölskyldan borgar 561.000 kr. meira á næsta ári en hún gerði árið 2010 eða nálægt 10% meira en hækkun verðlags á sama tíma. Áfram er haldið að þenja út kerfið á kostnað almennings eins og stofnun nýs stjórnkerfis- og lýðræðisráðs sem mun kosta allt að 250 m.kr. á kjörtímabilinu ber með sér. Nær hefði verið að nýta þau úrræði sem þegar eru til staðar innan borgarkerfisins fyrir þessi verkefni og lækka álögur á borgarbúa frekar en að stækka kerfi sem þegar er orðið of stórt. Skattgreiðendur í Reykjavík borga.
2. Fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar 2015-2019; síðari umræða.
Lagt fram að nýju frumvarp að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2015-2019.
Er þá gengið til atkvæða um þær breytingartillögur við frumvarp að fimm ára áætlun sem fyrir liggja:
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-01, varðandi Félagsbústaði hf., leiðrétting, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-02, varðandi Félagsbústaði hf., 500 íbúðir, samþykkt með 13 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-03, varðandi Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, merkt SÆVÞ-04, varðandi Bílastæðasjóð, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Þá er gengið til atkvæða um frumvarp að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2015-2019 með áorðnum breytingum:
Samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
3. Lögð fram endurskoðuð tillaga að gjaldskrám Reykjavíkurborgar 2015, dags. 25 nóvember 2014, um breytingar á áður framlögðum tillögum um gjaldskrárhækkanir og afleiddar breytingar á frumvarpi að fjárhagsáætlun 2015, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember sl.
Samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
4. Lögð fram tillaga að gjaldskrá heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember sl.
Samþykkt með 9 atkvæðum gegn 1 atkvæði borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, sitja hjá við afgreiðslu málsins.
5. Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir hundahald, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember sl. Samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
6. Lögð fram tillaga að sorphirðugjaldskrá, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember sl. Samþykkt með 9 atkvæðum gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
7. Lögð fram tillaga að gjaldskrá skipulagsfulltrúa, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember sl. Samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Atkvæðagreiðsla undir liðum 3-7 um gjaldskrár Reykjavíkurborgar fóru fram á undan atkvæðagreiðslu um fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 og fimm ára áætlun 2015-2019.
8. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 20. nóvember.
21. liður fundargerðarinnar, heimild til skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til að ganga til kaupa á leiktækjum í Fjölskyldu- og húsdýragarði, skv. framlögðum kaupsamningum, samþykktur með 9 atkvæðum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
22. liður fundargerðarinnar, breyting á samþykkt fyrir skóla- og frístundaráð vegna áheyrnar Reykjavíkurráðs ungmenna í ráðinu, samþykktur með 13 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
9. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 27. nóvember.
11. liður fundargerðarinnar, samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 5. nóvember um samþykkt á breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda í Vatnsmýri, samþykktur með 9 atkvæðum gegn 6.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Með samkomulagi Reykjavíkurborgar, innanríkisráðuneytisins og Icelandair var gerð þverpólitísk sátt um að setja á laggirnar nefnd sem hefur það verkefni að finna framtíðarstaðsetningu innanlandsflugvallar. Nefndin hefur nýlega greint frá þeim fimm mögulegu flugvallarstæðum sem hún hefur nú til skoðunar og er Vatnsmýrin eitt af þeim. Rögnunefndin, eins og hún hefur verið kölluð, er enn að störfum og hefur formaður hennar óskað eftir svigrúmi til að klára vinnuna. Í síðasta mánuði sagði innanríkisráðherra varðandi deiliskipulag Hlíðarenda og áhrif þess á Reykjavíkurflugvöll eftirfarandi: „Reykjavíkurborg og ríki voru sammála um að taka ekki stefnumótandi ákvarðanir er varða þetta mál fyrr en Rögnunefndin hefur lokið störfum“. Icelandair gerir athugasemd við deiliskipulag Hlíðarenda og telur „óviðunandi að afkastageta og áreiðanleiki núverandi flugvallarstæðis verði skert með óafturkræfum hætti“ á meðan verið er að vinna að staðarvali fyrir innanlandsflugið. Það er því ljóst að þrír af fjórum fulltrúum í Rögnunefndinni telja að bíða verði þar til niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir. Einungis einn nefndarmanna, Dagur B. Eggertsson, skilur samkomulagið með öðrum hætti. Til að virða þá tímabundnu þverpólitísku sátt varðandi nefndarvinnuna, framtíðarstaðsetningu flugvallararins og öryggi hans, greiða borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins atkvæði gegn tillögunni, þar sem ekki er tímabært að skipuleggja svæði með óafturkræfum hætti þegar óvissa ríkir að þessu leyti. Ástæða er til þess að hvetja til þess að Rögnunefndin ljúki störfum sem fyrst.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan snýst um breytingu á þegar samþykktu deiliskipulagi Hlíðarendasvæðis, þar sem gert er ráð fyrir að flugbraut 06-24 víki. Breytingin felur eingöngu í sér fjölgun íbúða og breytta tilhögun á atvinnuhúsnæði. Hún fellur vel að meginmarkmiðum nýs aðalskipulags að þétta íbúðarbyggð í vesturhluta borgarinnar og stytta vegalengdir í Reykjavík eins og kostur er. Umhverfis- og skipulagsráð hefur nýtt tímann til að fara í saumana á helstu umhverfisþáttum skipulagsins.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Í umsögn skipulagsfulltrúa við athugasemdum sem bárust um breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda er vísað til þeirra athugasemda um að flugbraut 06-24 eigi ekki við rök að styðjast þar sem flugbrautina sé ekki lengur að finna á skipulagi þar sem í gildi sé deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem tók gildi 6. júní 2014 sem ekki gerir ráð fyrir flugbrautinni. Við teljum að umræddu deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var í borgarstjórn 1. apríl 2014 og tók gildi 6. júní 2014 sé verulega áfátt, bæði varðandi málsmeðferð og efni, og eigi þeir ágallar að leiða til ógildingar deiliskipulagsins en umrætt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar hefur verið kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Eftir samþykkt deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar í borgarstjórn þann 1. apríl 2014 voru ýmis gögn og breytingar gerðar sem aldrei voru lagðar fram, ræddar eða samþykktar í sveitarstjórn. Áhættumat vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautar 06-24 liggur ekki fyrir né afstaða Samgöngustofu til lokunarinnar. Þegar þessi atriði liggja fyrir væri fyrst hægt að taka upplýsta ákvörðun um hvaða áhrif slík lokun hefði á umhverfi innanlandsflugs og sjúkraflugs. Er því órökrétt og óábyrgt að gera ráð fyrir byggingum sem teppa aðflug að flugbrautinni og loka henni áður en slíkar upplýsingar liggja fyrir. Þá er nefnd sem skipuð var um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugs enn að störfum og hefur formaður nefndarinnar óskað eftir svigrúmi til að klára þá vinnu og styðjum við það. Þá hörmum við að borgarráð hafi ekki tekið til afgreiðslu tillögu Framsóknar og flugvallarvina frá 23. október 2014, áður en tillaga sú sem hér er til afgreiðslu er afgreidd.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Meintum formgöllum við samþykkt deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar hefur verið mætt, sbr. fundargerð borgarráðs 5. júní 2014 og bréf Skipulagsstofnunar, dags 4. júní 2014.
34. liður fundargerðarinnar, heimild til Félagsbústaða til að fjölga félagslegum leiguíbúðum borgarinnar um 500 á næstu fimm árum 2015-2019, samþykktur með 13 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:
Við fögnum því að Reykjavíkurborg sé búin að gera tillögu um uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis og styðjum við hana sem slíka, en vegna aðferðafræðinnar sem fram kemur í greinargerð getum við ekki samþykkt tillöguna eins og hún er og sitjum því hjá við afgreiðslu hennar, með eftirfarandi rökstuðningi: Ótækt er að Reykjavíkurborg byggi tillögu sína um kaup á 500 félagslegum leiguíbúðum næstu 5 árin á þeirri forsendu að Reykjavíkurborg leggi til 10% eigið fé í kaupin og ríkið leggi til 20% eigið fé í kaupin, í samræmi við hugmyndir um framtíðarskipan húsnæðismála. Verður að gera þær kröfur til stjórnvalds að það fari eftir gildandi lögum og reglum í verkefnum og áætlanagerð sinni, eins og lög, faglegt verklag og 2. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir. Getur Reykjavíkurborg ekki ákveðið hvernig fjárlög verða næstu 5 árin og byggt stefnu sína á því. Því er stefna miðuð við framangreint ómöguleg í framkvæmd fyrr en til koma aðgerðir ríkisvaldsins við að uppfylla tillögu þessa. Við gerum þær kröfur að við áætlanagerð og tillögur sé farið að gildandi lögum og reglum við yfirlýsingar og stefnumörkun Reykjavíkurborgar. Ljóst er að þarfagreining velferðarsviðs, sem tillagan byggist á, á ekki við rök að styðjast og vísum við til bókunar í borgarráði frá 13. nóvember 2014 undir lið 14.
10. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 28. nóvember, menningar- og ferðamálaráðs frá 27. október, 10. og 24. nóvember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. og 26. nóvember, skóla- og frístundaráðs frá 19. nóvember, íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. nóvember, mannréttindaráðs frá 11. og 25. nóvember, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 17. nóvember og velferðarráðs frá 17. nóvember.
Fundi slitið kl. 00.02
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 2.12.2014 - prentvæn útgáfa