Borgarstjórn - 2.1.2003

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2003, fimmtudaginn 2. janúar, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 17.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Árni Þór Sigurðsson, Anna Kristinsdóttir, Alfreð Þorsteinsson, Stefán Jón Hafstein, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Ólafur F. Magnússon, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Björn Bjarnason og Kjartan Magnússon. Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

Í uppphafi fundar kvaddi Ólafur F. Magnússon sér hljóðs og gerði að umtalsefni fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun. Jafnframt kvaddi Björn Bjarnason sér hljóðs og lagði fram svohljóðandi bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks varðandi stjórn borgarinnar: Síðan 1994 hefur verið staðið þannig að stjórn mála undir forystu R-listans í borgarstjórn, að borgarstjóri hefur verið úr hópi kjörinna borgarfulltrúa og haft skýrt pólitískt umboð samstarfsmanna sinna sem málsvari þeirra. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur sagt af sér sem borgarstjóri og þar með gengið á bak orða sinna og yfirlýsinga við kjósendur og samstarfsmenn sína fyrir síðustu kosningar um, að hún mundi gegna störfum borgarstjóra þetta kjörtímabil og ekki bjóða sig fram til þings. Í Morgunblaðinu 19. maí 2002 sagði hún: ,,Ég er ekki á leið í þingframboð að ári” og þetta loforð ítrekaði hún á kosninganótt í viðtali í Ríkisútvarpinu: ,,Ég fullyrði algerlega að ég er ekki að fara í þingframboð að ári.” Við þessar aðstæður hefur R-listinn ákveðið að ráða Þórólf Árnason borgarstjóra en hann er ekki kjörinn borgarfulltrúi. Síðast þegar vinstri flokkarnir stóðu að sambærilegri ráðningu árin 1978 til 1982 gaf þessi skipan alls ekki góða raun. Innan borgarstjórnar var óvissa um, hvar ábyrgð hvíldi í mikilvægum pólitískum álitaefnum. Erfiðar spurningar vöknuðu um valdmörk milli kjörinna fulltrúa og embættismanna. Í raun átti Reykjavíkurborg engan málsvara með ótvírætt umboð frá borgarbúum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa andstöðu við þá ákvörðun R-listans að hverfa frá þeirri skipan að velja borgarstjóra með ótvírætt pólitískt umboð. Með því er ekki aðeins vegið að góðum stjórnarháttum í borgarstjórn heldur brýtur R-listinn enn á ný loforð til kjósenda. Ráðning Þórólfs Árnasonar sýnir, að mikill glundroði ríkir í hópi borgarfulltrúa R-listans og ekkert gagnkvæmt traust er þeirra á milli. Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, þ.m.t. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fráfarandi borgarstjóri, höfnuðu tillögu borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um Árna Þór Sigurðsson sem borgarstjóra. Spyrja má, hvort Stefán Jón Hafstein, Alfreð Þorsteinsson eða Steinunn Valdís Óskarsdóttir hafi aldrei komið til álita í embættið. Atburðarásin frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ákvað að bjóða sig fram til þings, glundroðinn og illindin milli Samfylkingar, Framsóknarflokks og Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs og ráðning borgarstjóra án pólitísks umboðs sýnir, að R-listinn er í raun úr sögunni. Forseti borgarstjórnar segir í Fréttablaðinu í morgun: „Pólitísk stefnumótun verður í höndum kjörinna fulltrúa og borgarráðsliða en ekki borgarstjóra.” Óhjákvæmilegt er, að krefjast þess af forseta borgarstjórnar, að hann greini borgarstjórn frá því, hver verði málsvari Reykjavíkurborgar vegna póltískrar stefnumótunar. Borgarfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað: Vegna bókunar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er rétt að geta þess að borgarstjóri í Reykjavík er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og hún er talsmaður borgarinnar og Reykjavíkurlistans meðan hún gegnir því embætti. Jafnframt er rétt að minna á að Reykjavíkurlistinn starfar á grundvelli málefnasamnings og markvissrar stefnu sem er óbreytt. Nýr borgarstjóri verður ráðinn til að vinna að framkvæmd hennar. Hinn nýi borgarstjóri mun hafa umboð hins pólitíska meirihluta og tala fyrir þeirri stefnu og verkum hans eins og eðlilegt er að borgarstjóri á hverjum tíma geri. Að sjálfsögðu verður engin breyting á því að formenn nefnda og ráða eru talsmenn, hver í sínum málaflokki, eins og verið hefur frá því að Reykjavíkurlistinn tók við árið 1994 og staðfest var í upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar.

1. Lagt fram til síðari umræðu frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2003, b-hluta, og ásamt samantekinni fjárhagsáætlun.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vara eindregið við útgjaldaþenslu og skuldasöfnun Reykjavíkurborgar. Greinilegt er, að taka þarf fjármál borgarsjóðs og fyrirtækja Reykjavíkurborgar nýjum tökum. Við brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur úr stóli borgarstjóra er eðlilegt, að gerð sé úttekt á þróun fjármála Reykjavíkurborgar í hennar tíð. Slíkt er til þess fallið að auðvelda nýjum borgarstjóra að horfast í augu við hina ótrúlegu skuldasöfnun borgarinnar undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem lofaði kjósendum árið 1994 að skuldir Reykjavíkurborgar yrðu lækkaðar undir hennar forystu. Samstæðureikningur Reykjavíkurborgar sýnir, að frá árinu 1993 til ársins 2003 hafa skuldir Reykvíkinga án lífeyrisskuldbindinga hækkað um 12,7 milljónir króna hvern einasta dag á verðlagi í árslok 2002. Hrein skuldastaða borgarinnar á hvern íbúa hefur um það bil tífaldast á þessu tímabili. Nettóskuld Reykjavíkurborgar hefur á verðlagi í árslok 2002 hækkað úr 4 milljörðum króna í árslok 1993 í 48 milljarða króna í árslok 2003 samkvæmt fjárhagsáætlun. Heildarskuldir Reykjavíkurborgar án lífeyrisskuldbindinga hafa á sama tíma hækkað úr 14 milljörðum króna í 60 milljarða eða um hvorki meira né minna um 46 milljarða króna. Heildarskuldir Reykjavíkurborgar með lífeyrisskuldbindingum stefna í 83,5 milljarða króna eða um 729 þús. kr. á hvern borgarbúa. Skuldir borgarinnar aukast nú mun meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Skuldirnar vaxa með meiri hraða en nokkru sinni fyrr. Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2002 sem samþykkt var í borgarstjórn í desember 2001 var gert ráð fyrir því að hreinar skuldir borgarinnar í árslok 2002, án lífeyrisskuldbindinga, yrðu 33,2 milljarðar króna. Útkomuspá fyrir árið 2002 gerir nú ráð fyrir því að niðurstaðan verði rúmir 43 milljarðar króna eða tæpum 10 milljörðum hærri. Frávikið er því "aðeins" 30% miðað við það sem áætlunin gerði ráð fyrir. Í því góðæri sem ríkt hefur í valdatíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem borgarstjóra hefur henni tekist að setja Reykjavík, sem skuldaði sáralítið í árslok 1993, í hóp allra skuldsettustu sveitarfélaga. Þessi meginniðurstaða einkennir þá fjárhagsáætlun, sem nú er verið að afgreiða fyrir árið 2003. Hér er um blákaldar staðreyndir að tefla, sem allir ábyrgir borgarfulltrúar verða að horfast í augu við. Fráfarandi borgarstjóra var orðið um megn að taka á fjármálum Reykjavíkurborgar og snúa af skuldabrautinni. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla þeirri aðferð, sem notuð hefur verið við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003. Með öllu er óviðunandi að leggja áætlunina fram í bútum og gera þar með borgarfulltrúum ókleift að sjá samstæðureikning borgarinnar í heild við tvær umræður um fjárhagsáætlunina eins og mælt er fyrir um í lögum. Með þeirri aðferð, sem beitt er við afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar fyrir árið 2003 er ekki farið að vönduðum stjórnsýsluháttum og er lýst undrun yfir því, að félagsmálaráðuneytið hafi lagt blessun sína yfir þessi vinnubrögð, þvert á yfirlýst markmið ráðuneytisins frá 18. apríl 2000 um að það ætlaði að herða kröfur um vönduð vinnubrögð við gerð fjárhagsáætlana hjá sveitarfélögunum. Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003 byggist á veikum forsendum. Við gerð hennar var forðast að taka erfiðar ákvarðanir um sparnað og stöðvun á útgjaldaþenslu. Jafnframt var lagst gegn tillögum sjálfstæðismanna um að stórlækka fasteignaskatta á eldri borgara og öryrkja og að lækka holrsæsagjald. Þessi veikburða fjárhagsáætlun er alfarið á ábyrgð R-listans.

- Kl. 17.28 var gert hlé á fundi.

- Kl. 17.49 var fundi fram haldið.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003 endurspeglar að Reykjavíkurborg er gríðarlega sterkt sveitarfélag með mikla framkvæmdagetu og mikla getu til að greiða skuldir sínar. Þannig gæti borgarsjóður greitt allar skuldir sínar, þar með talda lífeyrisskuldbindingar á 7 árum ef því fé sem handbært er frá rekstri væri varið með þeim hætti. Samkvæmt árbók sveitarfélaga árið 2002 eru skuldir á íbúa í Reykjavík lægri en í nokkru öðru sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu, að Seltjarnarnesi frátöldu. Ef litið er til samantekinnar fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar sést að á mælikvarða fyrirtækjareksturs er staða borgarinnar slík að fá, ef nokkur, fyrirtæki standast samjöfnuð við borgina. Þannig er veltufé frá rekstri 17.89% af tekjum, veltufjárhlutfall 1.35 og eiginfjárhlutfall 53%. Athyglisvert væri í þessu tilliti að bera borgina saman við ríkið en því miður fylgir fjárlögum ríkisins engin samantekt um efnahag í upphafi eða við lok árs og engin samantekin áætlun um fjármál ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja eins og raunin er hjá Reykjavíkurborg. Reykjavíkurlistinn hefur í rúm 8 ár tekið á fjármálum borgarinnar af festu og ábyrgð og búið svo um hnútana að borgarsjóður fjármagnar að jafnaði framkvæmdir sínar með þeim tekjum sem hann hefur til ráðstöfunar en ekki, eins og í tíð sjálfstæðismanna, þegar þær voru fjármagnaðar að fullu með lánum.

Þá var gengið til atkvæða um frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, b-hluta, og samantekinni fjárhagsáætlun. Frumvarp að fjárhagsáætlun Afgreiðsla Fráveita Reykjavíkur Rekstrartekjur 1.045.000 Samþykkt 8-0

Rekstrargjöld 651.820 Samþykkt 8-0

Fjármagnsgjöld 443.561 Samþykkt 8-0

Sjóðstreymi Fjárfestingahreyfingar 1.045.000 Samþykkt 8-0

Fjármögnunarhreyfingar 660.780 Samþykkt 8-0

Niðurstaða eftir eignabreytingar sýnir hækkun (lækkun) á handbæru fé 0 Samþykkt 8-0

Bílastæðasjóður Rekstrartekjur 436.330 Samþykkt 8-0

Rekstrargjöld 351.522 Samþykkt 8-0

Fjármagnsgjöld 45.725 Samþykkt 8-0

Sjóðstreymi Fjárfestingahreyfingar 759.000 Samþykkt 8-0

Fjármögnunarhreyfingar 610.407 Samþykkt 8-0

Niðurstaða eftir eignabreytingar sýnir hækkun (lækkun) á handbæru fé 0 Samþykkt 8-0

Reykjavíkurhöfn Rekstrartekjur 1.126.031 Samþykkt 8-0

Rekstrargjöld 1.131.448 Samþykkt 8-0

Fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur 8.000 Samþykkt 8-0

Sjóðstreymi Fjárfestingahreyfingar 455.000 Samþykkt 8-0

Fjármögnunarhreyfingar 0 Samþykkt 8-0

Niðurstaða eftir eignabreytingar sýnir hækkun (lækkun) á handbæru fé 50.141 Samþykkt 8-0

Reykjavíkurborg – samantekin fjárhagsáætlun Rekstrartekjur 51.234.902 Samþykkt 8-0

Rekstrargjöld 48.586.075 Samþykkt 8-0

Fjármagnsliðir 1.122.659 Samþykkt 8-0

Hlutdeild minnihluta í afkomu dótturfélaga 74.830 Samþykkt 8-0

Niðurstaða eftir eignabreytingar sýnir hækkun (lækkun) á handbæru fé 71.400 Samþykkt 8-0

Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2003 í heild með áorðnum breytingum Samþykkt 8-0 2.

Lögð fram fundargerð leikskólaráðs frá 16. desember.

Fundi slitið kl. 17.58.

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Árni Þór Sigurðsson Anna Kristinsdóttir Kjartan Magnússon