Borgarstjórn - 21.12.2021

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, þriðjudaginn 21. desember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:10. Voru þá komnir til fundar eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Aron Leví Beck Rúnarsson, Björn Gíslason, Rannveig Ernudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Borgarstjóri tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar ásamt eftirtöldum borgarfulltrúum; Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Pawel Bartoszek, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir og Þorkell Heiðarsson. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer umræða um deiliskipulag Elliðaárvogs – Ártúnshöfða – svæði 1, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. desember 2021. USK21120103

-    Kl. 14:25 tekur Þórdís Pálsdóttir sæti á fundinum. 

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Hér er verið að samþykkja deiliskipulag fyrir Ártúnshöfða, svæði 1 sem gerir ráð fyrir 1.570 nýjum íbúðum í grænu, umhverfisvænu og nútímalegu hverfi. Á svæðinu verður til nýtt torg, Krossamýrartorg, umkringt íbúðum, verslun, þjónustu og menningartengdri starfsemi. Skipulagið allt hvetur til fjölbreyttra ferðamáta. Við Krossamýrartorg verður upphafsstöð fyrsta áfanga borgarlínu, gert er ráð fyrir mikilli samnýtingu bílastæða, hjólastígar verða beggja vegna gatna í flestum götum og gönguleiðum gert hátt undir höfði. Við leggjum áherslu á að endanleg hönnun gatnamóta í húsagötum hvetji til hægaksturs og setji öryggi og þægindi gangandi og hjólandi í forgang. Þá er áhersla lögð á að samsíða bílastæði verði meginregla nema þegar aðgengisrök mæla með öðru. Þá er mikilvægt að öll hönnun komi í veg fyrir hringsól bíla um hverfið. Með þessu skipulagi hefur Ártúnshöfðinn alla burði til að verða grænasta hverfi landsins á besta stað í borginni.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Íbúabyggð við Ártúnshöfða er lykilsvæði í húsnæðisáætlun meirihlutans. Þessi uppbygging gerir ráð fyrir því að fyrirtæki þurfi að fara annað. Það mun því taka tíma að rýma svæðið og má því ætla að uppbyggingin taki langan tíma. Meirihlutinn í borginni gerir ráð fyrir því að Ártúnshöfðinn og Vatnsmýrin séu lykilsvæði en uppbygging á þeim mun taka lengri tíma en áætlað hefur verið. Það er ekki nóg að treysta á þéttingarreitina þegar kemur að því að leysa húsnæðisskortinn í borginni. Það þarf að brjóta nýtt hagstætt byggingarland undir byggð. Þá er ljóst að 6.000 íbúðir kalla á samgöngulausnir og munu almenningssamgöngur hrökkva skammt til að leysa það aukna álag sem óhjákvæmilega fylgir uppbyggingunni.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Hverfi sem eru byggð upp út frá núverandi húsnæðisstefnu borgarinnar munu alltaf skilja ákveðna hópa eftir. Núverandi húsnæðisáætlun miðar að því að einungis 25% nýrra íbúða verði á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Í gögnum með liðnum um deiliskipulag Elliðaárvogs – Ártúnshöfða – svæði 1 kemur fram að um 20% íbúða skuli vera leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf., búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða. Í samræmi við samningsmarkmið Reykjavíkurborgar hafa Félagsbústaðir hf. kauprétt á 5% íbúða í húsum á hverri lóð. Það er ekki nóg miðað við þá húsnæðiseklu sem nú er og bitnar á hinum verst stöddu. Breyta þarf stefnunni svo að hún þjóni markmiðum þeirra sem eru í þörf fyrir húsnæði, þar sem félagslegar áherslur eru leiðarljósið. Þegar litið er til allra biðlista borgarinnar eru 870 umsóknir. 524 eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði, 136 bíða eftir húsnæði sem hentar þörfum fatlaðs fólks, 72 eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og 138 bíða eftir þjónustuíbúð fyrir aldraða. Stefna um að í kringum fjórðungur húsnæðis skuli vera utan hagnaðarsjónarmiða dugar ekki, þar sem líta ber á húsnæði sem mannréttindi en ekki hagnaðarsjónarmið fyrir ákveðna aðila. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fram kemur í gögnum að byggja á allt að 8.000 íbúðir þegar allt er komið og er markmið deiliskipulagsins að „sjá til þess að uppbygging svæðisins hafi ekki neikvæð áhrif á lífríki svæðisins og lágmarka á sjónmengun frá ofanvatnskerfinu í viðtaka, við árbakka Elliðaáa og strandlengju Elliðaárvogs.“ Hér er um öfugmæli að ræða að mati fulltrúa Flokks fólksins. Uppbyggingin eins og hún er hér framsett mun einmitt hafa mikil áhrif á lífríkið. Sagt er að „þörf“ sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin „þörf“ á landfyllingu. Það á að vera hægt að skipuleggja án þess að þurfa alltaf að ganga á fjörur. Hætta ætti því við landfyllingar. Þétting byggðar tekur of mikinn toll af náttúru. Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverðum ósasvæðum hennar. Allt of mikið er manngert, búin til gerviveröld. Af hverju mega ekki fágætir fjörubútar fá að vera í friði? Fáar ósnortnar fjörur eru eftir í Reykjavík. Árbakkarnir til sjávar meðfram Sævarhöfða eru þegar manngerðir. Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á borgarlína að skera Geirsnef í tvennt og sá möguleiki því ekki lengur til. Forsendur fyrir þéttingu byggðar eiga ekki að byggjast á að raska lífríkustu svæðum Reykjavíkur.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að myndaður verði formlegur samráðsvettvangur milli Reykjavíkurborgar og aðila vinnumarkaðarins um skipulags- og samgöngumál. Hópurinn verði skipaður tveimur fulltrúum atvinnulífsins, tveimur fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar og fjórum fulltrúum borgarinnar. Lagt er upp með að Samtök atvinnulífsins skipi einn fulltrúa, Samtök iðnaðarins einn, ASÍ skipi einn og VR einn. Borgarstjórn skipi síðan fjóra fulltrúa.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS21120294

Tillögunni er vísað frá með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Hér er lagt til að myndaður verði formlegur samráðsvettvangur milli Reykjavíkurborgar og aðila vinnumarkaðarins um skipulags- og samgöngumál, enda húsnæðiskostnaður heimilanna eitt stærsta kjaramál launafólks. Tryggt framboð á hagstæðu byggingarlandi er forsenda þess að jafnvægi náist á markaði. Samráðsvettvangurinn myndi bæta upplýsingaöflun og upplýsingagjöf milli aðila. Áætlanagerð borgarinnar hefur áhrif á húsnæðisverð og samgönguþróun. Vanmat á fjölgun íbúa hefur orðið til þess að húsnæðisverð hefur hækkað langt umfram verðlagsþróun og framboð íbúða hefur minnkað mjög mikið á síðustu árum. Þá hefur umferð aukist langt umfram spár borgarinnar og tafatími hefur aukist. Með tillögunni væri kominn samráðsvettvangur með nýjustu upplýsingum og talnaefni sem væri uppfærður mánaðarlega þannig að aðilar vinnumarkaðarins og borgin verði upplýst um stöðu mála hverju sinni. Fólksfjölgun í landinu hefur verið langt umfram spár og eru líkur á að svo verði áfram næstu áratugi. Gera þarf langtímaspár varðandi íbúaþróun, húsnæði og samgöngur byggða á reynslu síðustu ára og horfum um vöxt, en í háspá Hagstofunnar sem birt var í gær 20. desember er því spáð að íbúar landsins geti orðið 500 þúsund árið 2040. Miðspá Hagstofunnar er mun hógværari en samkvæmt henni myndi íbúum fjölga um meira en 4.000 á hverju ári. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna beina þeirri áskorun til ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins að aðgerðir í húsnæðismálum verði að veruleika í aðdraganda kjarasamninga eða sem hluti af þeim. Óskar Reykjavíkurborg eftir beinni aðild að undirbúningi þeirra aðgerða og umræðu um þær, enda hefur borgin verið í fararbroddi í uppbyggingu íbúðahúsnæðis og aðgerðum á húsnæðismarkaði undanfarin ár.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins styður tillögu um samráðshóp um húsnæðisuppbyggingu og samgöngur með fyrirvara um að allir stjórnmálaflokkar borgarstjórnar hefðu þar aðkomu auk fulltrúa frá atvinnulífinu, verkalýðshreyfingunni, öðrum samtökum sem nefnd eru í tillögunni og jafnvel fleirum.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Skóla- og frístundasviði er falið að útbúa aðgerðaáætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar. Hún verði nýtt þegar rasísk atvik eiga sér stað í skólaumhverfinu og verði jafnframt vegvísir fyrir þá fræðslu og símenntun sem þarf að eiga sér stað innan skólasamfélagsins. Markmiðið með aðgerðaáætluninni er að skýrir verkferlar séu til staðar um hvernig skuli bregðast við rasískum atvikum svo það lendi ekki á börnum eða foreldrum þeirra að bregðast við kynþáttafordómum og kynþáttahyggju í skólaumhverfinu. Þegar slík atvik eiga sér stað er mikilvægt að skólasamfélagið bregðist skjótt og vel við. Aðgerðaáætlunin þarf einnig að vera sýnileg. Þar sem ekki er hægt að sjá fyrir um öll atvik sem geta átt sér stað eða undir hvaða kringumstæðum rasismi getur komið fram, er mikilvægt að samtal og fræðsla fari reglulega fram og að úrbætur verði gerðar á því sem þarf að laga. Aðgerðaáætlunin fari yfir skóla- og frístundastarf og starf í félagsmiðstöðvum og tryggi að ekkert í starfinu sé útilokandi fyrir börn og ungmenni með dökkan húðlit. Aðgerðir tryggi að allt starfsfólk og stjórnendur fái reglulega fræðslu. Lagt er til að skóla- og frístundasvið leiti til aðila með reynslu á þessu sviði, t.a.m. aktívista og þeirra sem hafa séð um fræðslu á þessu sviði, og óski eftir liðsinni þeirra við mótun aðgerðaáætlunarinnar. Þau sem komi að vinnunni fái greidda þóknun fyrir starfsframlag sitt. Kostnaðarauki verði samþykktur með viðauka við fjárhagsáætlun.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS21120296

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tillagan ávarpar skuggahlið samfélagsins, sem eru kynþáttafordómar, einelti og ofbeldishegðun sem á rætur í kynþáttahyggju. Dæmi eru um slík tilvik á skólalóðum og ákveðnar vísbendingar um að slík hegðun fari vaxandi. Mikilvægt er að rannsaka tíðni þeirra og kortleggja viðeigandi viðbrögð. Víða er unnið að mótun aðgerða til að mæta ofbeldi og fordómum í borgarkerfinu, þar á meðal á vettvangi skóla- og frístundasviðs, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, fjölmenningarráðs og ofbeldisvarnarnefndar. Þá eru nýsamþykktar almennar aðgerðir menntastefnu til næstu þriggja ára þar sem sérstaklega er kveðið á um að sporna eigi við fordómum í skóla- og frístundastarfi og huga sérstaklega að börnum sem eiga á hættu að vera jaðarsett m.a. á grundvelli uppruna, kynhneigðar, félagslegrar stöðu eða annars. Tillaga Sósíalistaflokksins er gott innlegg í vinnu við útfærslu þessara aðgerða og er því lagt til að henni verði vísað til skóla- og frístundaráðs sem hafi samráð við mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð, fjölmenningarráð og ofbeldisvarnarnefnd.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Mikilvægt er að aðgerðaáætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi verði sett fram. Hún verði nýtt þegar rasísk atvik eiga sér stað í skólaumhverfinu og verði jafnframt vegvísir fyrir þá fræðslu og símenntun sem þarf að eiga sér stað innan skólasamfélagsins. Markmiðið með aðgerðaáætluninni er að skýrir verkferlar séu til staðar um hvernig skuli bregðast við rasískum atvikum svo það lendi hvorki á börnum né foreldrum þeirra að bregðast við kynþáttafordómum og kynþáttahyggju í skólaumhverfinu. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins styður tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um aðgerðaáætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir ræðu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks og tekur einnig undir margt í bókun meirihlutans í þessu máli. Þetta eru flókin mál og afar viðkvæm. Sýnilegir verkferlar eru afar mikilvægir. Á þessari vakt megum við aldrei sofna. 

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Fjölgun eldri íbúa er eitt af þeim verkefnum sem Reykjavíkurborg þarf að takast á við. Hugmyndir nútímans ganga út á að eldra fólk geti búið sem lengst í eigin húsæði og það er hlutverk okkar í Reykjavíkurborg að aðstoða og skipuleggja slíka byggð. Töluverður hluti húsnæðis í Reykjavíkurborg hefur ekki verið hugsaður til slíks. Stoðþjónusta er einfaldlega ekki til staðar. Þar þarf að hugsa til útivistar, áhugamála, félagslegrar þjónustu, heilsugæslu o.s.frv. Með slíku er hægt að styðja við að eldast heima. Ýmis vandamál geta komið í veg fyrir það að eldra fólki líði vel í núverandi húsakynnum. Húsnæðið getur verið of stórt, of dýrt sé að flytja, fólkið vill komast í rólegt umhverfi, langt er í þjónustu við eldri borgara o.s.frv. Þetta er atriði sem við í Flokki fólksins viljum taka á.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS21120297

Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillaga Flokks fólksins um skipulagða byggð fyrir eldra fólk hefur verið felld nánast með þeim rökum að þetta sé hvorki það sem þessi hópur þarf né vill. Tillagan gekk út á að farið yrði í samkeppni um sérstaka uppbyggingu svæða víðs vegar sem yrðu sérsniðin fyrir eldra fólk. Markmiðið er að gefa sem flestum tækifæri til að geta elst heima hjá sér við góðar aðstæður og er það hlutverk Reykjavíkurborgar að aðstoða og skipuleggja slíka byggð. Töluverður hluti húsnæðis í Reykjavíkurborg hefur ekki verið hugsaður til slíks. Stoðþjónusta er einfaldlega ekki til staðar. Það þarf að hugsa til útivistar, áhugamála, félagslegrar þjónustu, heilsugæslu o.s.frv. Þjóðin er að eldast og því þarf að horfa til þess hvernig Reykjavíkurborg ætlar sér að þjónusta eldri borgara sem best. Það er ekki seinna vænna en að fara að hugsa það strax. Borgarskipulag á að vera lifandi, breytilegt og taka tillit til allra hópa. Ef ekki er hugsað til þarfa eldri borgara strax í skipulagi er slíkt einungis ávísun á óþarfa vandamál síðar meir. Flokkur fólksins hefur þegar kynnt þetta mál og rætt við hagsmunasamtök og hugnast mörgum svæði sem þessi.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir uppbyggingu í þágu allra borgarbúa. Í núverandi húsnæðisáætlun er sérstaklega getið um samstarf og uppbyggingu við þá aðila sem standa að uppbyggingu fyrir eldra fólk í Reykjavík. Byggingu 246 íbúða fyrir eldri borgara er lokið, þá eru 120 íbúðir á framkvæmdastigi og samþykkt deiliskipulag til fyrir 162 íbúðir til viðbótar. Tillagan sem hér er lögð fram samræmist hvorki hugmyndafræði um kynslóðablöndun, né uppfyllir hún skilyrði um algilda hönnun í borgarskipulagi. Mikil uppbygging í þágu eldra fólks er í gangi í Reykjavík en slík uppbygging er ávallt hluti af uppbyggingu fjölbreyttra hverfa fyrir allskonar fólk. Afmörkun samfélagshópa veldur frekar einangrun sem getur þá ýtt enn frekar undir einmanaleika og að mismunandi samfélagshópar tengist ekki sín á milli. Frekar ætti að stuðla að enn frekari blöndun milli mismunandi aldurshópa með því að byggja upp borg sem er m.a. aldursvæn og heilsueflandi, en slíkar hugmyndir falla vel undir algilda hönnun. Kynslóðablöndun er lýðheilsumál því hún ýtir undir vellíðan, viðheldur og stuðlar að auknum þroska og færni. Tillagan er því felld.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikil þörf er fyrir íbúðir til handa eldri borgurum í Reykjavík. Samtök eldri borgara í Reykjavík hafa óskað eftir lóðum en ekki fengið viðunandi svör. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt áherslu á að skipulagðar verði lóðir fyrir eldri borgara. En hér er lagt til að gríðarlega mikill fjöldi íbúða verði byggður á einum stað með þjónustukjarna, eða 2-3.000. Heppilegra væri að skipuleggja 100-300 íbúðir á ákveðnum svæðum þannig að félagsleg blöndun haldist í hverfum borgarinnar.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins: 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að hækka tafarlaust birtustig götulýsingar í 50 lúx.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS21120298

Frestað. 

6.    Samþykkt að taka kosningu í menningar-, íþrótta- og tómstundaráð á dagskrá. MSS21120108

Lagt er til að Baldur Borgþórsson taki sæti Jórunnar Pálu Jónasdóttur sem aðalmaður í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði.

Samþykkt.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Einnig er lagt til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti Kolbrúnar Baldursdóttur sem varamaður í ráðinu.

Samþykkt.

7.    Samþykkt að taka kosningu í umhverfis- og heilbrigðisráð á dagskrá. MSS21120109

Lagt til að Baldur Borgþórsson taki sæti sem varamaður í umhverfis- og heilbrigðisráði í stað Kolbrúnar Baldursdóttir.

Samþykkt.

8.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 9. og 16. desember 2021. MSS21120111

- 1. liður fundargerðarinnar frá 16. desember sl.; uppfærsla á aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040, er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS21120152

- 11. liður fundargerðarinnar frá 16. desember sl.; ábyrgð á lántökum Strætó bs., er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS21120106

- 14. liður fundargerðarinnar frá 16. desember sl.; viðauki við fjárhagsáætlun 2021 er borinn upp í tvennu lagi; 1. liður: Innri leiga gatna er samþykktur. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

2. liður: Betri vinnutími – VEL er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS21120098

- 15. liður fundargerðarinnar frá 16. desember sl.; viðauki við fjárfestingaáætlun 2021, er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS21120113

- 41. liður fundargerðarinnar frá 16. desember sl.; gjaldskrá velferðarsviðs fyrir stuðningsþjónustu, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS21120177

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 16. desember.

Aðalskipulag Reykjavíkur hefur verið leiðarljós meirihlutans í borgarstjórn allt frá árinu 2014. Hér er verið að lengja í því skipulagi til 2040 og styrkja grunn þess sem fyrir var. Þéttleiki verður mikill meðfram borgarlínu, íbúðum verður fjölgað og atvinnuhúsnæði sömuleiðis. Aðalskipulagið gerir ráð fyrir meiri metnaði í breytingu ferðavenja þar sem gert er ráð fyrir að fleiri hjóli, gangi og noti almenningssamgöngur. Þá er í aðalskipulaginu gert ráð fyrir samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og grænni borg.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 16. desember:

Aðalskipulag til 2040 er gallað. Ekki síst í húsnæðismálum. Nauðsynlegt er að íbúðaframboð sé fullnægjandi og raunsætt á tímabilinu. Ef spá um vöxt rætist er árleg þörf 1.210 íbúðir á ári til 2040. Að óbreyttu mun þessi tala ekki nást og húsnæðisverð í Reykjavík því áfram vera undir þrýstingi vegna skorts á fjölbreyttu framboði bygginga. Áhyggjur vekur að ekki er áformað að heimila uppbyggingu á Keldum fyrr en eftir áratug. Ekki er gert ráð fyrir uppbyggingu á Geldinganesi og möguleikar lítið nýttir á Kjalarnesi. Ekki er gert ráð fyrir íbúðum í Örfirisey né á BSÍ-reit. Hætta er því á að áfram skorti hagkvæma reiti til fjölbreyttrar húsnæðisuppbyggingar og óvissa er um uppbyggingu í Úlfarsárdal. Þá er beinlínis gengið út frá því að yfir 4.000 íbúðir verði byggðar á skipulagstímanum þar sem flugbrautir Reykjavíkurflugvallar eru. Það er með öðrum orðum gat í húsnæðisáætlun borgarinnar upp á þúsundir íbúða. Gengið er á græn svæði og er gert ráð fyrir fjögurra hæða húsum efst í Laugardalnum upp á 30.000 m2 (á reit M2g). Þá er þrengt verulega að þróunarmöguleikum Borgarholtsskóla í Grafarvogi. Af þessum sökum og öðrum leggjumst við gegn aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðarinnar frá 16. desember.

Úr greinargerð: „Í lok júní 2021 nema ábyrgðir Reykjavíkurborgar á skuldum B-hluta fyrirtækja rúmum 94 milljörðum króna. Þar af eru ábyrgðir með veði í útsvarstekjum um 12 milljarðar. Ábyrgð Reykjavíkurborgar vegna Strætó bs. m.v. lok júní sl. nemur um 629 m.kr. og þar af um helmingur með veði í útsvarstekjum. Heildarábyrgð Reykjavíkurborgar á skuldum Strætó bs. verði ábyrgð á þessum lánum samþykkt verður því um 1.024 m.kr.“ Miklum áhyggjum er lýst yfir með rekstur Strætó bs. Betlistafur til ríkisins upp á 900 milljónir króna bar ekki árangur. Ríkisstyrkurinn endaði í 120 milljónum sem í fundargerð Strætó kemur fram sem „780 milljóna króna minna framlag en áætlað var“. Fjárhagsáætlun Strætó fyrir árið 2021 var sem sagt byggð á óraunhæfum væntingum um ríkisfé til viðbótar við þá áætluðu 15 milljarða sem ríkið ætlar að leggja í til ársins 2025 og allt frá 2010. Lántakan skiptist svona: 300 milljóna yfirdráttarlán og 400 milljóna lán frá Lánasjóði sveitarfélaga og er það kúlulán. Öllum má vera ljóst að Strætó bs. er kominn í þrot í rekstri sínum og skuldsetningu sem er velt á komandi kynslóðir. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðarinnar frá 16. desember:

Reykjavíkurborg er beðin um að veita Strætó bs. ábyrgð með veði í útsvarstekjum borgarsjóðs vegna lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að fjárhæð 400.000 þ.kr og vegna lántöku hjá Arion banka hf. að fjárhæð 300.000 þ.kr. Staða Strætó er alvarleg og það er áhyggjuefni. Fram undan eru lántökur upp á 700 milljónir. Minna má á að A-hlutinn er fjárhagslegur bakhjarl fyrirtækja borgarinnar ef í harðbakka slær. Ítrekað hefur verið óskað eftir því að borgarráð samþykki veð í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar til tryggingar á ábyrgð bs. fyrirtækja. Þetta þarf að horfa á, ekki síst í ljósi þess að fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er óviðunandi. Gert er ráð fyrir sjö milljörðum í halla hjá A-hlutanum. Veltufé frá rekstri er neikvætt sem þýðir að tekjur A-hlutans nægja ekki til að greiða útgjöld hans.

10.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 16. desember, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 9. desember, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 6. desember, skipulags- og samgönguráðs frá 8. og 15 desember, skóla- og frístundaráðs frá 14. desember, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 15. desember og velferðarráðs frá 26. nóvember og 8. desember. MSS21120113

- 2. liður fundargerðar forsætisnefndar; tillaga um að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar 4. janúar 2022, er samþykktur. MSS21120192

- 6. liður fundargerðar forsætisnefndar; breytt samþykkt fyrir mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð, er samþykktur. Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS21120197

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 16. desember og 16. og 18. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 14. desember:

Samkvæmt 3. gr. samþykktar segir: „Þá fer mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð með það verkefni að hafa umsjón með stafrænni umbreytingu“, Fulltrúa Flokks fólksins líst illa á þetta því skort hefur alla gagnrýna hugsun um hvernig verkefnum er forgangsraðað og fé sóað í tilraunir á gæluverkefnum. Allt sem kemur frá ÞON er samþykkt gagnrýnislaust. Fundargerð skóla- og frístundaráðs 14. desember, liður 16: Við lestur svarsins um fjárhagslegan ávinning við sameiningu skóla í norðanverðum Grafarvogi fæst sú upplifun að allir séu ánægðir með þetta fyrirkomulag og breytingar hafi heppnast vel. Hvergi kemur t.d. fram hvað breytingar á mannvirkjum og umferðarmannvirkjum vegna sameiningarinnar kostuðu. Hægt gekk að fá samgöngurnar í lag og nú eru börnin keyrð á milli hverfa. Borgin vill draga úr umferð og mengun, svo þetta er ákveðin þversögn. Liður 18: Það er léttir að fá það staðfest að engum áskriftum á skólamáltíðum hefur verið sagt upp vegna vanskila sem þýðir þá að börn fá að borða þótt foreldrar séu með áskriftina í vanskilum. Af 9.514 útgefnum reikningum í hverjum mánuði fóru 4,2% til Momentum og voru 1,5% ennþá ógreiddir þann 1. nóvember 2021. Ef foreldrar geta ekki greitt safnast dráttarvextir sem elta fátæka foreldra næstu árin.

Fundi slitið kl. 18:01

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Alexandra Briem

Rannveig Ernudóttir    Kolbrún Baldursdóttir

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 21.12.2021 - Prentvæn útgáfa