Borgarstjórn - 2.11.2021

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, þriðjudaginn 2. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Valgerður Árnadóttir, Aron Leví Beck Rúnarsson, Björn Gíslason, Rannveig Ernudóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Eyþór Laxdal Arnalds, Hjálmar Sveinsson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Ólafur Kr. Guðmundsson, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Örn Þórðarson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Heiða Björg Hilmisdóttir og Pawel Bartoszek.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagt fram til fyrri umræðu frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 ásamt greinargerð fjármála- og áhættustýringarsviðs og starfsáætlunum, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2021. Jafnframt eru lagðar fram tillögur borgarstjóra undir eftirtöldum liðum í fundargerð borgarráðs frá 29. október 2021: 4. liður; tillaga að gjaldskrám árið 2022, 5. liður; tillaga um álagningarhlutfall útsvars 2022, 6. liður; tillaga um álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu 2022, 7. liður; tillaga um gjalddagaskiptingu fasteignaskatta og lóðarleigu 2022, 8. liður; tillaga um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2022 og 9. liður; tillaga að lántökum vegna framkvæmda á árinu 2022.

-    Kl. 12:04 tekur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum.

-    Kl. 12:12 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. 

-    Kl. 15:30 víkur Katrín Atladóttir af fundinum og Þórdís Pálsdóttir tekur sæti. 

-    Kl. 17:11 tekur Pawel Bartoszek sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. 

Lögð fram tillaga borgarstjóra ásamt greinargerð, dags. 26. október 2021, varðandi gjaldskrár Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2021. R21010179

Lögð fram breytingartillaga og greinargerð borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands merkt  J-1 um að afsláttur námsmanna, einstæðra foreldra og öryrkja á leikskólagjöldum nái einnig til gjalda á frístundaheimilum.

Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram breytingartillaga og greinargerð borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands merkt J-2 um að boðið verði upp á árskort fyrir notendur akstursþjónustu fatlaðs fólk líkt og á við um fyrir öryrkja og eldri borgara hjá Strætó bs. 

Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram breytingartillaga og greinargerð borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands merkt J-3 um að falla frá öllum fyrirhuguðum gjaldskrárhækkunum fyrir árið 2022 á þjónustu sem viðkemur börnum.

Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram breytingartillaga og greinargerð borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands merkt J-4 um að gjaldskrá menningar- og ferðamálasviðs endurspegli samþykkt velferðarráðs um að veita öryrkjum gjaldfrjálst menningarkort.

Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram breytingartillaga borgarfulltrúa Miðflokksins merkt M-2 um að samþykkt verði að fresta til fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023 öllum gjaldskrárhækkunum og að þeim verði mætt með sparnaði í rekstri á árinu 2022.

Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram breytingartillaga borgarfulltrúa Miðflokksins merkt M-3 um að hækka upphæð frístundakorts Reykjavíkurborgar miðað við hækkun á vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2017. 

Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram breytingartillaga og greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins merkt F-2 um að fallið verði  frá gjaldskrárhækkunum á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði sem snúa beint að gjöldum vegna þjónustu við fólk um eitt ár vegna aðstæðna þegar samfélagið er að vinna sig út úr aðstæðum vegna COVID-19. 

Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram breytingartillaga og greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins merkt F-3 um að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum. 

Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Tillaga borgarstjóra ásamt greinargerð, dags. 26. október 2021 um gjaldskrár Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2021 er samþykkt. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. október 2021, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2021:

Lagt er til að álagningarhlutfall útsvars tekjuárið 2022 verði 14,52% og er það sama hlutfall og tekjuárið 2021.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21100327

Lögð fram breytingartillaga borgarfulltrúa Miðflokksins merkt M-1 um að fella niður útsvar hjá þeim Reykvíkingum 67 ára og eldri sem njóta eingöngu greiðslna frá Tryggingastofnun og hafa ekki greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. 

Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Tillaga borgarstjóra, dags. 26. október 2021, um álagningarhlutfall útsvars sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2021 er samþykkt.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. október 2021, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2021:

Lagt er til að álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu vegna ársins 2022 verði sem hér segir: 

1. Hlutfall fasteignaskatts skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 0,18%. 

2. Hlutfall fasteignaskatts skv. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 1,32%.

3. Hlutfall fasteignaskatts skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 1,60%.

4. Hlutfall lóðarleigu fyrir íbúðarhúsalóðir verði 0,2% af fasteignamatsverði. 

5. Hlutfall leigu fyrir verslunarlóðir, iðnaðarlóðir og lóðir fyrir opinberar byggingar verði 1,0% af fasteignamatsverði.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21100328

Lögð fram breytingartillaga og greinargerð borgarfulltrúa Miðflokksins merkt M-4 um að samþykkt verði að fella niður fasteignagjöld á Hörpu, Borgarleikhúsið og Þjóðleikhúsið á árinu 2022. 

Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga borgarstjóra um álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu vegna ársins 2022,  dags. 26. október 2021, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2021 er samþykkt. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. október 2021, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2021:

Lagt er til að gjalddagaskipting fasteignagjalda fyrir árið 2022 verði eftirfarandi:

Greiðendur fasteignagjalda skulu gera skil á fasteignagjöldum ársins 2022 með 11 jöfnum greiðslum á eftirfarandi gjalddögum: 30. janúar, 2. mars, 2. apríl, 2. maí, 1. júní, 3. júlí, 2. ágúst, 3. september, 2. október, 1. nóvember og 4. desember.

Þá er lagt til að nemi álagning fasteignagjalda 25.000 kr. eða lægri fjárhæð á fastanúmer greiði gjaldendur þau með einum gjalddaga þann 30. janúar 2022. 

Lagt er til að gjalddagar krafna vegna framkvæmdar afsláttar til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti og fráveitugjaldi verði 1. nóvember, 4. desember og 2. janúar. 

Lagt er til að þeir sem eiga inneignir fái þær greiddar út 7. nóvember 2022. 

Greinargerð fylgir tillögunni. R21100328

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. október 2021, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2021:

Lagt er til að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2022 verði eftirfarandi: 

Viðmiðunartekjur 

I. Réttur til 100% lækkunar 

Einstaklingur með tekjur allt að 4.550.000 kr. Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 6.350.000 kr. 

II. Réttur til 80% lækkunar 

Einstaklingur með tekjur á bilinu 4.550.001 til 5.210.000 kr. Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 6.350.001 til 7.040.000 kr. 

III. Réttur til 50% lækkunar 

Einstaklingur með tekjur á bilinu 5.210.001 til 6.060.000 kr. Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 7.040.001 til 8.410.000 kr. 

Lagt er til að skilyrði lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds fari eftir reglum Reykjavíkurborgar um afslátt af fasteignagjöldum eins og þær eru á hverjum tíma.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21100328

Lögð fram breytingartillaga og greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins merkt F-1 um að samþykkt verði að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega hækki um 6% milli ára.

Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga borgarstjóra um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2022, dags. 26. október 2021, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2021 er samþykkt. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. október 2021, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2021:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki lántökur á árinu 2022 að fjárhæð 25.000 m.kr. til að fjármagna áformaðar fjárfestingar á árinu 2022 og til að fjármagna stofnframlög borgarinnar vegna byggingar og kaupa á almennum íbúðum. Ennfremur verði lántakan nýtt til fjármögnunar á stofnframlögum B-hluta fyrirtækja og hlutdeildarfélaga. Jafnframt er lagt til að veita sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs umboð f.h. Reykjavíkurborgar til þess að undirrita nauðsynlega gerninga sem tengjast skuldabréfaútgáfu borgarsjóðs, sem og til þess að taka á móti og undirrita, gefa út og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar sem tengjast lántökum þessum, enda verði einstakar lántökur lagðar fyrir borgarráð til afgreiðslu.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21100326

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R21010179

Samþykkt að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 til síðari umræðu í borgarstjórn sem fram fer 7. desember nk.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Kraftmikill vöxtur Reykjavíkur mun gera borginni kleift að vaxa út úr þeim vanda sem COVID hefur skilið eftir sig. Niðurstöður áætlunarinnar eru í samræmi við græna planið sem lagt var fram í fyrra og er sýn borgarinnar til skamms tíma og langs tíma. Grænum fjárfestingum hefur verið flýtt og bætt er sérstaklega við viðhaldsfé í skóla- og frístundahúsnæði þar sem 25-30 milljörðum á næstu 5-7 árum verður varið til þeirra 136 bygginga þar sem skólastarf fer fram í Reykjavík. Það mun duga til að vinna upp það viðhald sem var sparað á árunum eftir hrun. Þá verður grunnskólinn betur fjármagnaður á grunni nýs úthlutunarlíkans sem er gegnsætt og skoðar fleiri breytur en núverandi líkan. Um leið mun velferðarsvið fá fjármuni til að mæta áskorunum og aukinni þjónustu. Borgin er að sækja fram og næsti áratugur verður áratugur Reykjavíkur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Í upphafi kjörtímabils voru heildarskuldir borgarinnar 299 milljarðar króna sem greiða átti niður samkvæmt sáttmála meirihlutans. Í dag eru skuldir borgarinnar komnar yfir 400 milljarða og fara vaxandi. Þessi fimm ára áætlun er því markviss sóknaráætlun í gríðarlegar skuldir. Þá má ráðgera að fjörutíu milljarða gat sé á áætlun borgarinnar. Áætlun gerir ráð fyrir því að skuldir borgarinnar fari vaxandi og verði 453 milljarðar árið 2025. Inni í þeirri tölu er ekki gert ráð fyrir að greiða skuld Orkuveitunnar við Glitni banka, endurnýjun hreinsistöðva skólps og nýrri brennslustöð. Til að bæta gráu ofan á svart er ekki gert ráð fyrir rekstrarkostnaði borgarinnar vegna borgarlínu. Þá er viðhaldskostnaður við félagslegt húsnæði í eigu borgarinnar vanáætlaður. Kostnaður við alla þessa þætti getur numið 40 milljörðum króna á tímabilinu. Það þýðir að skuldir í lok tímabilsins gætu farið yfir 500 milljarða sem er þá u.þ.b. 250 milljörðum meira en að var stefnt í upphafi. Rétt er að geta þess að tekjur borgarinnar jukust um 7,5% á árinu 2021 og varð því ekki tekjufall hjá borginni eins og hjá ríkinu. Rekstrarkostnaður borgarinnar er hlutfallslega hærri en hjá nágrannasveitarfélögunum. Launakostnaður borgarinnar hefur hækkað um 15% á tveimur árum. Matsbreytingar á félagslegu húsnæði halda uppi pappírshagnaði en nú er gert ráð fyrir því að endurmeta íbúðir Félagsbústaða um 17,4 milljarða á árinu.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarsjóður verður af mörgum milljörðum þar sem útsvar er ekki lagt á fjármagnstekjur. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg leiti eftir stuðningi hinna sveitarfélaganna til að koma breytingum á svo að innheimta megi útsvar af fjármagnstekjum en slíkt verður ekki gert án laga frá Alþingi. Í þessari fyrstu umræðu lagði borgarfulltrúi sósíalista fram tillögur sem sneru að því að létta gjaldtöku af þeim sem geta síst borið hana, að sá afsláttur sem á við í leikskólum eigi einnig við á frístundaheimilum, að notendur akstursþjónustu fatlaðs fólks geti keypt afsláttarkort eins og á við um aðra notendur samgönguþjónustu hjá borginni, að gjaldskrárhækkanir nái ekki til barna og að gjaldskrá menningar- og ferðamálasviðs endurspegli þá samþykkt velferðarráðs að öryrkjar fái gjaldfrjálst menningarkort. Ekkert af þessu var samþykkt. Í síðari umræðu mun fulltrúi sósíalista leggja fram tillögur sem snúa að húsnæðismálum og skólamálum en þar er mikilvægt að mæta öllum og tryggja að efnahagur íbúa hafi ekki áhrif á þjónustuveitingu. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg var búin að gefa sig upp til ríkisins sem ógjaldfæra í umsögn dags. 27. apríl 2020 til Alþingis eða í upphafi COVID-faraldursins. Sjá þessa slóð: https://www.althingi.is/altext/erindi/150/150-1904.pdf. Alvarleg fjárhagsstaða Reykjavíkur er því ekki COVID að kenna. Í umsögninni kom fram að gera mætti ráð fyrir að veltufé frá rekstri Reykjavíkurborgar yrði neikvætt 2020-2022 og á sama tíma myndi reiknuð fjármögnunarþörf borgarsjóðs aukast langt umfram fjárhagsáætlanir eða um 75,5 milljarða samanlagt árin 2020-2024. Síðan segir í umsögninni: „Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára.“ Frekari útskýringar eru óþarfar. Reykjavíkurborg er löngu ógjaldfær að mati borgarstjóra. Í árslok 2022 verða skuldir á hvern Reykvíking 1.290.000 kr. eða rúmar 5 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu sé litið til A-hlutans og 3,1 milljónir eða 12,5 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu vegna samstæðunnar í heild. Í árslok 2022 er áætlað að skuldir A-hluta verði 173 milljarðar og skuldir samstæðunnar samtals 423 milljarðar. Lántaka næstu 5 ár er áætluð 100 milljarðar í A-hlutanum og því má áætla að í árslok 2026 verði skuldir komnar yfir 530 milljarða. Til samanburðar er áætlað að nýi Landspítalinn kosti 55 milljarða. Skuldastaðan er ógnvekjandi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það eru ýmis atriði sem gera það að verkum að það er rétt að hafa áhyggjur af fjárhagslegri stöðu A-hluta Reykjavíkurborgar. Veltufé frá rekstri er óásættanlega lágt. Það er neikvætt á árinu 2021 og einungis er gert ráð fyrir að það verði um 1,9% af heildartekjum á árinu 2022. Á sama tíma vaxa skuldir verulega. Lántaka vex úr 9,4 ma.kr. á árinu 2020 í 25 ma.kr. á árinu 2021. Þessi þróun heldur áfram á árinu 2022 en þá er gert ráð fyrir nýrri lántöku upp á 25 ma.kr. Afborganir langtímalána tvöfaldast milli áranna 2020 og 2022. Þær hækka úr 1,8 ma.kr. í 3,6 ma.kr. Veltufjárhlutfall lækkar og er komið undir 1,0 á árinu 2022. Á sama tíma er áætlað að fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum tvöfaldist. Kostnaður við þær vex úr 15,6 ma.kr. í 32,4 ma.kr. Vitaskuld þarf að standa að fjárfestingum en aukning þeirra má ekki vera úr öllum takti við fjárhagslega getu borgarinnar. Mikil aukning skulda eykur óöryggi í rekstri hennar og gerir borgina viðkvæmari fyrir því að geta alltaf staðið undir skuldbindingum sínum. Ástæða er til að gera þá kröfu til meirihluta borgarstjórnar að hann geri skýra grein fyrir hvernig fyrrgreindri þróun í fjármálum Reykjavíkurborgar skuli mætt.

2.    Lagt fram til fyrri umræðu frumvarp að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2022-2026 sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október sl. R21010179

Samþykkt að vísa frumvarpinu til síðari umræðu í borgarstjórn sem fram fer 7. desember nk.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Í upphafi kjörtímabils voru heildarskuldir borgarinnar 299 milljarðar króna sem greiða átti niður samkvæmt sáttmála meirihlutans. Í dag eru skuldir borgarinnar komnar yfir 400 milljarða og fara vaxandi. Þessi fimm ára áætlun er því markviss sóknaráætlun í gríðarlegar skuldir. Þá má ráðgera að fjörutíu milljarða gat sé á áætlun borgarinnar. Áætlun gerir ráð fyrir því að skuldir borgarinnar fari vaxandi og verði 453 milljarðar árið 2025. Inni í þeirri tölu er ekki gert ráð fyrir að greiða skuld Orkuveitunnar við Glitni banka, endurnýjun hreinsistöðva skólps og nýrri brennslustöð. Til að bæta gráu ofan á svart er ekki gert ráð fyrir rekstrarkostnaði borgarinnar vegna borgarlínu. Þá er viðhaldskostnaður við félagslegt húsnæði í eigu borgarinnar vanáætlaður. Kostnaður við alla þessa þætti getur numið 40 milljörðum króna á tímabilinu. Það þýðir að skuldir í lok tímabilsins gætu farið yfir 500 milljarða sem er þá u.þ.b. 250 milljörðum meira en að var stefnt í upphafi. Rétt er að geta þess að tekjur borgarinnar jukust um 7,5% á árinu 2021 og varð því ekki tekjufall hjá borginni eins og hjá ríkinu. Rekstrarkostnaður borgarinnar er hlutfallslega hærri en hjá nágrannasveitarfélögunum. Launakostnaður borgarinnar hefur hækkað um 15% á tveimur árum. Matsbreytingar á félagslegu húsnæði halda uppi pappírshagnaði en nú er gert ráð fyrir því að endurmeta íbúðir Félagsbústaða um 17,4 milljarða á árinu.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg var búin að gefa sig upp til ríkisins sem ógjaldfæra í umsögn dags. 27. apríl 2020 til Alþingis eða í upphafi COVID-faraldursins. Sjá þessa þessa slóð: https://www.althingi.is/altext/erindi/150/150-1904.pdf. Alvarleg fjárhagsstaða Reykjavíkur er því ekki COVID að kenna. Í umsögninni kom fram að gera mætti ráð fyrir að veltufé frá rekstri Reykjavíkurborgar yrði neikvætt 2020-2022 og á sama tíma myndi reiknuð fjármögnunarþörf borgarsjóðs aukast langt umfram fjárhagsáætlanir eða um 75,5 milljarða samanlagt árin 2020-2024. Síðan segir í umsögninni: „Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára.“ Frekari útskýringar eru óþarfar. Reykjavíkurborg er löngu ógjaldfær að mati borgarstjóra. Í árslok 2022 verða skuldir á hvern Reykvíking 1.290.000 kr. eða rúmar 5 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu sé litið til A-hlutans og 3,1 milljónir eða 12,5 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu vegna samstæðunnar í heild. Í árslok 2022 er áætlað að skuldir A-hluta verði 173 milljarðar og skuldir samstæðunnar samtals 423 milljarðar. Lántaka næstu 5 ár er áætluð 100 milljarðar í A-hlutanum og því má áætla að í árslok 2026 verði skuldir komnar yfir 530 milljarða. Til samanburðar er áætlað að nýi Landspítalinn kosti 55 milljarða. Skuldastaðan er ógnvekjandi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Í fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2022-2026 kemur fram sýn meirihluta borgarstjórnar á hvernig fjármál A-hluta borgarsjóðs þróast á komandi árum. Þar kemur fram að reksturinn muni fara batnandi á komandi árum. Í því sambandi er eðlilegt að velta fyrir sér hvort kostnaður við kaup á vörum og þjónustu sé vanmetinn þar sem hann hækkar mun minna en bæði launakostnaður og tekjuhliðin. Á þessu tímabili er reiknað með að taka 91,6 ma.kr. að láni. Á sama tíma er áætlað að greiða í afborganir lána um 34,6 ma.kr. Langtímaskuldir hækka úr 97,4 ma.kr. í 131,7 ma.kr. Fyrirhugaðar fjárfestingar eru 141,6 ma.kr. Sala byggingaréttar er áætluð 25 ma.kr. Árlegar afborganir langtímalána hækka um 129%. Veltufé frá rekstri sem hlutfall af heildartekjum er öll árin undir því sem talið er ásættanlegt. Það sem vekur sérstaka athygli er að veltufjárhlutfall lækkar úr 1,0 niður í 0,7. Einnig er handbært fé í árslok undir lok tímabilsins einungis 58% af því sem það er í upphafi. Hvort tveggja þýðir að lausafjárstaða borgarinnar mun versna verulega. Það gerist vegna mikillar skuldaaukningar samtímis því að reksturinn skilar minna upp í afborganir lána og fjárfestingar en nauðsynlegt er. Flokkur fólksins varar við að halda óbreyttri stefnu í fjármálastjórn borgarinnar.

3.    Lagt til að Teitur Atlason taki sæti sem varamaður í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Arons Levís Beck Rúnarssonar. R20030171

Samþykkt.

4.    Lagt til að Baldur Borgþórsson taki sæti sem varamaður í íbúaráði Breiðholts í stað Jóns Hjaltalín Magnússonar. R19090034

Samþykkt.

5.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 28. og 29. október sl. R21010001

21. liður fundargerðarinnar frá 28. október; breyting á samþykkt fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna Reykjavíkurborgar er samþykktur. R21090067

6.    Lagðar fram fundargerðir mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 14. október, skipulags- og samgönguráðs frá 20. október, skóla- og frístundaráðs frá 12. október, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 20. október og velferðarráðs frá 20. október. R21010063

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 12. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs og 10. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum um hversu margir læsisfræðingar starfa í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Það er vissulega rétt í svari sviðsstjóra að það eru til margir sérfræðingar sem hafa góða og haldbæra þekkingu á læsi en þeir hafa í fæstum tilvikum menntað sig sérstaklega í læsisfræðum og eru því sjaldnast með yfirgripsmikla menntun á sviði læsis og læsisfræðingar. Félag læsisfræðinga, sem er ársgamalt, hefur verið að kynna möguleg hlutverk læsisfræðinga. Félagið fylgir viðmiðum Alþjóðlegu læsissamtakanna. Vettvangur læsisfræðinga er kennsla nemenda sem eiga erfitt með lestur og ritun, umsjón með skimun og prófunum og greiningar á lestrarvanda. Margir tjá sig um lestur og læsi enda ekki vanþörf á í ljósi fyrri PISA kannanna. Nú styttist í næstu PISA og eru margir uggandi um hver útkoma hennar verður. Bókun við lið 10 í fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 20. október. Fuglalíf í og við Reykjavík er skráð og varðveita ber þann þátt umhverfisins eins og kostur er. Náttúrulega fuglalífið tengist mjög votlendinu í borginni. Í skýrslu um vöktunina kemur m.a. fram að grunnu strandsvæðin, sérstaklega leirur, eru einstaklega mikilvæg svæði fyrir fugla. Taka á mið af þessu þegar t.d. farið er í landfyllingar.

Fundi slitið kl. 17:50

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Sabine Leskopf

Elen Jacqueline Calmon    Kolbrún Baldursdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 2.11.2021 - Prentvæn útgáfa