Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2020, þriðjudaginn 21. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Þórgnýr Thoroddsen, Dóra Magnúsdóttir, Sabine Leskopf, Hjálmar Sveinsson, Aron Leví Beck, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Björn Gíslason, Örn Þórðarson, Katrín Atladóttir, Marta Guðjónsdóttir og Egill Þór Jónsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
Í upphafi fundar minntist forseti borgarstjórnar, Guðrúnar Ögmundsdóttur borgarfulltrúa sem lést 31. desember sl.
1. Fram fer umræða um uppfærða húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar. R19110076
- Kl. 15.30 tekur Rannveig Ernudóttir sæti á fundinum og Þórgnýr Thoroddsen víkur af fundi.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er lögð fram að nýju uppfærð frá fyrra ári. Í nýjum tölum kemur meðal annars fram að fjölgun nýrra íbúða er að eiga sér stað í nær öllum póstnúmerum í Reykjavík og uppbygging íbúða er langmest í Reykjavík af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Það er engin tilviljun enda hefur borgin fylgt húsnæðisáætlun markvisst á undanförnum árum. Íbúðir fyrir almennan markað eru fjöldamargar og á sama tíma sjáum við að stúdentaíbúðum, íbúðum fyrir eldri borgara og íbúðum verkalýðshreyfingarinnar fer hratt fjölgandi. Húsnæðisáætlun er í samræmi við fyrirætlanir borgarinnar í Aðalskipulagi 2010-2030 og er uppbyggingin í miklu samræmi við þróunarás borgarlínu. Áherslur húsnæðisáætlunar er að byggja upp íbúðir í samstarfi við óhagnaðardrifin uppbyggingarfélög en nú þegar er fjöldi íbúða tilbúin og enn fleiri í uppbyggingu.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Enn er mikill skortur á hagstæðu húsnæði á almennum húsnæðismarkaði í Reykjavík og fólk flytur áfram í nágrannasveitarfélög og jaðarkjarna. Eykur þessi þróun enn á samgöngu- og húsnæðisvandann. Fermetraverð nýbygginga er tæplega 380.000 kr. í Árborg en fer varla undir 600.000 kr. í Reykjavík. Dæmi eru um 100% hærra fermetraverð í Reykjavík en í Árborg. Fjölgun í Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og Garðabæ á síðustu árum er margföld á við íbúaþróun í Reykjavík. Þá er fjölgun í Árborg og Reykjanesbæ enn meiri með tilheyrandi álagi á samgöngur. Á meðan húsnæðisverð er svona hátt í Reykjavík útilokar það stóran hluta af kaupendamarkaðnum: Venjulegt fólk.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg var höfð í heimatilbúinni skortstöðu hvað varðar lóðaframboð í fleiri, fleiri ár. Í framsöguræðu borgarstjóra var hins vegar hruninu að venju kennt um og gagnaskorti. Hvaða stjórnsýsla er það að heildaryfirsýn vanti vegna vöntunar gagna? Nú eru mikil fagnaðarlæti hjá meirihlutanum að uppbygging er farin af stað. Því miður er það of seint og þar að auki er nær einungis byggt upp á þrengingarreitum í skugga þar sem fermetraverð er mjög hátt. Reykjavíkurborg er að missa heila kynslóð í önnur sveitarfélög. Heila kynslóð. Minnt er á að Reykjavíkurborg lét prenta og dreifa fasteignabæklingi á kostnað útsvarsgreiðenda upp á níu milljónir til að vekja athygli á miklu magni tómra íbúða í eigu fjármagnseiganda. Það er panikkástand.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þétting byggðar er aðaláhersla meirihlutans í miðju umferðaröngþveiti miðbæjarins. Er ekki nær að byrja á umferðarmálunum áður en byggð eru síldartunnuhverfi, hverfi sem fólk kemst varla inn eða út úr. Fólk lokast af á sama bletti, kemst orðið illa inn og út úr miðbænum því ekki eru allir svo heppnir að vinna við hliðina á heimili sínu. Fólk hefur ólíkar þarfir og væntingar. Enn eru þeir til sem ala þá von í brjósti að fá lóð til að byggja sitt eigið hús. Er það liðin tíð? Einnig er ómögulegt að fá iðnaðarhúsnæði í Reykjavík annars staðar en á Esjumelum. Í dag er ekki til húsnæði fyrir alla. Síðastliðinn október voru 267 á biðlista eftir hjúkrunarými á höfuðborgarsvæðinu, 560 bíða eftir hvíldarinnlögn. Eftir húsnæði fyrir fatlað fólk bíða enn 162. Aðeins er um 99 rými að ræða við Sléttuveg fyrir eldri borgara og á áætlun er að byggja 450 íbúðir fyrir eldri borgara. Þetta dugar bara ekki til. Þjóðin er að eldast og þessi rými rétt taka biðlistann sem nú er. Sama gildir um húsnæði fyrir fatlað fólk. Nú bíða yfir 160 manns eftir slíku húsnæði en á áætlun er að byggja aðeins um helminginn af því sem þarf.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að fallið verði frá að skerða þjónustutíma leikskóla Reykjavíkur en þess í stað er lagt til að opnunartími leikskólanna verði sveigjanlegur og hverjum og einum leikskóla verði falið að skipuleggja lengd leikskóladagsins með þarfir þeirra foreldra í huga sem eru ekki með sveigjanlegan vinnutíma, sem og hagsmuni barna og starfsfólks. Slík ráðstöfun myndi gera leikskólana sjálfstæðari og á sama tíma myndi skapast tækifæri til að bjóða upp á sveigjanlegan vinnutíma í leikskólunum.
Forseti borgarstjórnar ákveður að umræða um styttingu á opnunartíma leikskóla sem var númer 6 á dagskrá borgarstjórnar fari fram samhliða.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:
Að borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að fresta ákvörðun um skerðingu á þjónustutíma leikskóla Reykjavíkur þar til ákvörðun um styttingu vinnuvikunnar liggur fyrir og leggi þess í stað áherslu á að leysa mannekluvanda leikskólanna með því að bjóða starfsmönnum þar betri launakjör. Vitað er að það eru hagsmunir barna og foreldra að vera sem mest saman. Hópur foreldra, ekki síst einstæðra, munu lenda í vandræðum þegar opnunartími leikskólanna styttist um hálftíma. Ekki allir geta unnið vinnu sína með sveigjanlegum hætti. Líkur eru því að með þessari ákvörðun munu einhverjar foreldrar missa vinnu sína eða lækka í launum. Ekki dugar að setja ábyrgðina um sveigjanleika á herðar leikskólanna eins og Sjálfstæðisflokkur leggur til heldur þarf borgin fyrst að vinna þessa tillögu í samvinnu við atvinnulífið t.d. samhliða ákvörðun um styttingu vinnuvikunnar. Rót vanda leikskólanna er mannekla og rót mannekluvandans eru kjör leikskólakennara. Lítið pláss og mannekla einkennir leikskóla og það hefur neikvæð áhrif á börn og starfsfólk. Það ætti að vera áherslan að tryggja að slíkar aðstæður séu aldrei til staðar í leikskólastarfi. Þetta þarf að vinnast í frekari sátt við foreldra. Safna þarf meiri gögnum og vinna undirbúningsvinnuna betur. Ríkuleg gæðasamvera barna og foreldra er mikilvæg en það þýðir ekki að fjarvera barns frá foreldrum sé slæm. R20010279
Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðiflokksins og Miðflokksins að vísa tillögunni frá.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins kemur ekki til afgreiðslu.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillögunni er vísað frá á grundvelli þess að skóla- og frístundaráð vísaði tillögum stýrihópsins til borgarráðs. Eins og fram hefur komið í umræðum um tillöguna mun borgarráð í samráði við stýrihópinn láta vinna ítarlegt jafnréttismat á tillögunni sem feli í sér samráð við foreldra. Samhliða verði veittur aukinn aðlögunartími að breytingunum sem miða að því að minnka álag á börn og starfsfólk leikskóla og standa þannig vörð um gæði leikskólastarfs sem er á heimsmælikvarða en glímir við tímabundinn vanda vegna skorts á leikskólakennurum eftir að kennaranám var lengt í fimm ár á sínum tíma.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skerðingin sem ákveðin var af skóla- og frístundaráði varðar 938 börn hið minnsta. Auk þess snertir breytingin um 2.000 foreldra í borginni beint en fjölskyldur þessara barna munu að óbreyttu missa þjónustu sem borgin er nú þegar að bjóða upp á. Þetta þýðir skerðingu á þjónustu fyrir u.þ.b. 18% barna á leikskólum Reykjavíkurborgar og fjölskyldur þeirra. Barnafjölskyldur. Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu utan eitt eru nú með opið til fimm á daginn. Það er ekki ásættanlegt að stærsta sveitarfélagið, sem á að vera leiðandi, skerði þessa grunnþjónustu við fjölskyldur í borginni. Við leggjum því til að fallið verði frá styttingu á opnunartíma og að hann verði gerður sveigjanlegur og hverjum og einum leikskóla verði falið að skipuleggja lengd leikskóladagsins með þarfir þeirra foreldra í huga sem eru ekki með sveigjanlegan vinnutíma, sem og hagsmuni barna og starfsfólks.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sósíalistaflokksins tekur undir mikilvægi þess að fallið verði frá því að skerða þjónustutíma leikskólanna en telur mikilvægt að samræmi sé í opnunartíma þeirra.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er lúalegt af meirihlutanum að treysta sér ekki til að fella tillöguna um að falla frá skerðingu á þjónustutíma leikskóla Reykjavíkur í stað þess að vísa henni frá. Meirihlutinn ætlar sér að útkljá málið á lokuðum fundi borgarráðs enda þolir málið ekki dagsljósið. Það er lúalegt af meirihlutanum að ala á samviskubiti foreldra segir Kvenréttindafélags Íslands í bréfi til borgarfulltrúa. Það er lúalegt að taka ákvörðun um styttingu án samráðs við foreldra. Það er lúalegt að gefa foreldrum svo stuttan aðlögunartíma að lokun. Þetta er lúalegur meirihluti sem vinnur ekki fyrir fólkið í borginni.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Sjálfstæðismanna um að opnunartími leikskólanna verði á ábyrgð leikskólann með þarfir foreldra í huga er erfið í framkvæmd. Flokkur fólksins sat því hjá við málsmeðferðartillögu meirihlutans um frávísun. Flokkur fólksins var með breytingartillögu þess efnis að fresta skuli ákvörðun sem þessari og nota tímann til að leysa mannekluvandann með því að bjóða starfsmönnum betri kjör. Aðstæður eru ólíkar hjá foreldrum og hætta á mismunun nema öllum standi til boða sami opnunartíminn. Rót vandans er mannekla vegna þess að launin eru lág og álagið mikið. Væri launin hækkuð og störfin t.d. vaktaskipt myndi álagið minnka. Fleiri myndu sækja um og mannekluvandi væri úr sögunni. Þá fyrst gætu leikskólar sinnt sínu hlutverki í þágu barna og foreldra og hagað mönnun þess vegna þannig að opnunartími haldist eins þrátt fyrir styttingu á vinnuviku, t.d. með því að hluti starfsmanna mætti fyrr og hætti snemma og hluti mæti seint og hætti við lokun. Eins og breytingartillaga Flokks fólksins fjallar um þá er leiðin ekki að setja þetta á herðar leikskólanna heldur fresta ákvörðun sem þessari þar til stytting vinnuviku liggur fyrir. Nota á tímann til að vinna í launamálum, vaktamálum og gera störf leikskóla enn meira aðlaðandi.
- Kl. 18.50 víkur Egill Þór Jónsson af fundi og Jórunn Pála Jónasdóttir tekur þar sæti.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að farið verði tafarlaust í að bæta umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda yfir umferðarmiklar stofnbrautir þar sem slysatíðni er há. Lausnirnar skulu annað hvort vera göngubrýr, undirgöng eða annars konar þveranir. 1. Hringbraut við Bræðraborgarstíg. 2. Hringbraut við Gamla garð. 3. Miklubraut við Klambratún. 4. Miklubraut við Stakkahlíð. 5. Kringlumýrarbraut við Suðurver.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19110181
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er nauðsynlegt að bæta umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfaranda á stofnbrautum. Við verðum að gera allt til að fyrirbyggja slys og beita til þess öllum ráðum. Það er mjög sárt að horfa upp á andvara- og áhugaleysi meirihlutans að greiða leið þessara aðila yfir eða undir þungar umferðagötur eins og segir í tillögunni: Hringbraut við Bræðraborgarstíg, Hringbraut við Gamla garð, Miklubraut við Klambratún, Miklubraut við Stakkahlíð og Kringlumýrarbraut við Suðurver. Meirihlutinn vill ekki gangandi og hjólandi vegfarendur af þessum ljósastýrðu gangbrautum vegna hræðslu á að fjölskyldubíllinn fá þá aukið rými á þessum stofnæðum. Fari gangandi og hjólandi vegfarendur af þessum götum eykst hinsvegar flæði umferðar með minni mengun því þá er umferðin ekki stappföst á ljósum. Því má segja að gangandi og hjólandi vegfarendur í Reykjavík séu mannlegur skjöldur meirihlutans á móti fjölskyldubílnum, því þessir hópar eru tilneyddir að þvera þessar hættulegu götur. Þessi staðreynd er sorglegri en orð fá lýst.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Ekki er sjálfgefið að tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins tryggi öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Henni virðist aðallega ætlað að tryggja óheft flæði bílaumferðar um borgina. Nú er unnið að nýrri umferðaröryggisáætlun fyrir Reykjavík og hafa drög að henni farið til umsagnar hjá Vegagerðinni, Samgöngustofu og Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægt er að ljúka áætluninni, taka hana til umræðu hér í borgarstjórn og framfylgja henni næstu árin.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Brýnt er að bæta umferðaröryggi vegfarenda, þá sérstaklega m.t.t. umferðaröryggis yngstu vegfarenda borgarinnar. Mikilvægt er að þessi mál verði skoðuð í tengslum við nýtt heildstætt umferðarmódel líkt og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa margoft lagt til og bent á. Þá er mikilvægt að samhliða því fari fram arðsemismat á framkvæmdunum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja sérstaka áherslu á snjallvæddar gangbrautir. Tillaga þar að lútandi var samþykkt samhljóða á fundi borgarstjórnar í maí sl. en ráðgert er að búið verði að koma upp tækninni á þessu ári á fimm stöðum í borginni. Snjalltækni þessi gerir gangandi vegfarendur sýnilegri þegar þeir fara yfir gangbrautir og er mikilvægur þáttur í umferðaröryggi gangandi vegfarenda.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er nauðsynlegt að bæta umferðaröryggi gangandi og hjólandi og til þess þarf að skoða heildarmyndina til að tryggja bestu útfærslur að því.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins styður þessa tillögu. Umferðarmannvirki í borginni hafa tekið litlum sem engum breytingum um árabil og engann vegin verið tekið tillit til þeirra auknu umferðar á öllum sviðum ásamt fjölgun íbúa. Meirihlutinn sýnir í þessum málum fullmikinn hroka. Flokkur fólksins leggur til að stórátak verði gert í að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á stofnbrautum. Hjá því verður ekki litið að bifreiðafloti borgarbúa hefur aukist til muna og hjólreiðar að sama skapi. Meirihluti borgarinnar hefur ekki séð neina ástæðu til að tryggja öryggi gangandi vegfarenda með því að bæta umferðarmannvirki um helstu þveranir stærstu umferðaræða borgarinnar. Enn fremur eykur það slysahættu og mengun í borginni að meirihlutinn vill ekki greiða fyrir umferðinni með bættri ljósastýringu á helstu umferðartoppum. Það þolir enga bið að hugað sé að velferð gangandi vegfarenda. Þar á meðal eru sérhvern dag fjöldi barna og eldri borgara. Er það raunverulega stefna meirihlutans í borginni að hunsa þennan vanda sem og hunsa jafnan rétt fólks til að komast á milli staða af öryggi og án óþarfa tafa?
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að Reykjavíkurborg framkvæmi úttekt á afleiðingum þess ef að stærstu fyrirtækin í Reykjavíkurborg sem hafa fengið úthlutað fiskikvóta í gegnum skip sín, flyttu starfsemi sína úr sveitarfélaginu. Úttektin verði framkvæmd með það að leiðarljósi að kanna áhrif þess á atvinnuöryggi þeirra sem starfa hjá umræddum sjávarútvegsfyrirtækjum og í fyrirtækjum sem þjónusta þau. Þá er einnig lagt til að úttektin feli í sér yfirlit um gjöld sem fyrirtækin hafa greitt til Reykjavíkurborgar vegna stöðu sinnar hér og yfirlit yfir mögulegar sviðsmyndir skyldi sú atvinnustarfsemi hverfa skyndilega úr sveitarfélaginu. Við gerð úttektarinnar er lagt til að kallað verði eftir mati verkalýðshreyfingarinnar, þ.m.t. samtaka sjómanna, háskóla- og fræðasamfélaginu og annarra sem hafa þekkingu og reynslu af byggðarrannsóknum í tengslum við umrætt málefni. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að halda utan um úttektina.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20010280
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillagan fól í sér að úttekt yrði gerð á afleiðingum þess ef að stærstu fyrirtækin í Reykjavíkurborg sem hafa yfirráð yfir fiskikvóta, flyttu starfsemi sína úr sveitarfélaginu. Úttektin yrði framkvæmd með það að leiðarljósi að kanna áhrif þess á atvinnuöryggi þeirra sem starfa hjá umræddum sjávarútvegsfyrirtækjum og í fyrirtækjum sem þjónusta þau. Reynslan hefur sýnt okkur að þessar breytingar geta átt sér stað fyrirvaralaust og þá er mikilvægt að borgin sé tilbúin og ræði hvernig skuli bregðast við ef slíkt ætti sér stað. Eftir því sem aflaheimildir hafa þjappast saman á færri hendur, hefur auðurinn af sjávarútvegi færst á hendur fárra sem fara með stjórn útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja. Þetta skapar viðkvæma stöðu fyrir starfsfólk fyrirtækjanna þar sem valdið er í höndum eigenda útgerðanna. Það er mikilvægt að ræða þetta ítarlega á vettvangi borgarstjórnar og því miður að tillagan hafi ekki hlotið brautargengi hjá meirihlutanum.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fjölbreytileiki í störfum í Reykjavík gerir það að verkum að Reykjavíkurborg er ekki jafn viðkvæm fyrir tilfærslum fiskveiðiheimilda eins og mörg önnur sveitarfélög. Þrátt fyrir að um 10,6 % fiskveiðiheimilda sé úthlutað til skipa sem eiga hér heimahöfn er einungis um 2% atvinnutekna borgarbúa sem stafar af fiskveiðum og vinnslu. Því er það ekki forgangsmál að rannsaka þessa kerfislegu áhættu.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins styður tillögu um könnun á kerfislegri áhættu vegna kvótakerfisins. Það er mikilvægt að vita um mögulegar hættur. Könnun sem þessi gæti varpað ljósi á hagnað útgerðar og hvert arðurinn fer? Það þarf ekki alltaf að bíða eftir að teikn séu á lofti heldur þarf að vera alltaf á tánum og vel vakandi þegar mikið er undir eins og í þessum málum.
5. Fram fer umræða um niðurstöðu PISA 2018 og frammistöðu íslenskra nemenda í lesskilningi. R18020179
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningi samkv. niðurstöðum PISA hefur ekki breyst marktækt frá síðustu könnun PISA. Nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings hefur fjölgað hlutfallslega. Í nýrri menntastefnu til 2030 eru lausnir á þessum vanda ekki ávarpaðar. Augsýnilega hefur eitthvað brugðist í les- og lesskilningsstefnu og framkvæmdum í því sambandi hjá ríki og borg. Skóla- og frístundarsvið veit að lesskilningur er ekki ófrávíkjanlegt framhald af leshraða. Í hópi barna er lestrarfærni mismikil. Öll börn fara í skoðun á heilsugæslu um fjögurra ára aldur þar sem fyrir þau eru lagðir þroskamatslistar. Þá kemur í ljós hvaða börn eru líkleg til að eiga í vanda með lestur og lesskilning. Strax og börnin hefja skólagöngu er því hægt að hefja einstaklingsmiðaða þjónustu við börn sem þess þurfa. Mæla þarf árangur með reglulegum hætti. Samvinna skólasviðsins við heilsugæslu liggur ekki fyrir. Leggja þarf meiri áherslu á lesskilning og slaka á með áherslu á hraða og í því sambandi þarf skólasvið borgarinnar að leggja skýrar línur. Þjálfun er vissulega forsenda alls þessa en hvert barn finnur sér sinn hraða. Veita þarf kennurum svigrúm, sveigjanleika og næði til að nýta það efni sem þó er til og fylgja nemendum sínum eftir.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Niðurstöður PISA könnunar 2018 eru áhyggjuefni fyrir íslenskt menntakerfi og sýna að verk er að vinna ekki síst í íslensku og náttúruvísindum. Það er jákvætt að árangur reykvískra nemenda batnar frá síðustu könnun árið 2015 í öllum þremur námsgreinum, einkum í stærðfræði og náttúruvísindum og er borgin leiðandi á landsvísu þegar kemur að námsárangri ef marka má þessa könnun. Mikilvægt er að rýna vel kennsluaðferðir og leita allra leiða til að styðja betur við nemendur varðandi lesskilning sem er nauðsynlegur grundvöllur frekara náms.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
PISA könnunin er eina alþjóðlega samanburðarmælingin sem gerð er hér á landi á skólakerfinu. Hún gefur veigamiklar og samræmdar upplýsingar um þróun skólastarfs frá einum tíma til annars. Hún er gerð á þriggja ára fresti og niðurstöður hennar voru síðast birtar 2016. Þá gaf hún ótvíræðar vísbendingar um að nemendur hér séu heilu skólaári á eftir jafnöldrum sínum í öðrum löndum og að árangur íslenskra grunnskóla sé sá lakasti á Norðurlöndum. Niðurstöður Pisakönnunar sýna nú að staðan hefur breyst lítið til batnaðar og að lesskilningi hefur hrakað þegar litið er til langtímaleitni. Samkvæmt niðurstöðunum ná 26% nemenda ekki grunnhæfni í lesskilningi. Þriðji hver drengur eða 34% og fimmta hver stúlka geta ekki lesið sér til gagns. Umræddar niðurstöður þarf að greina frekar í því skyni að skýra betur stöðu skólakerfisins í Reykjavík sem og stöðu einstakra skóla. Ljóst er að niðurstöður um árangur eru ekki viðunandi og mikilvægt er að þegar í stað verði ráðist í aðgerðir til úrbóta í þeim þremur greinum sem könnunin nær til, lesskilningi, náttúruvísindum og stærðfræði.
6. Fram fer umræða um styttingu á opnunartíma leikskóla. R20010279
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Skert þjónusta bitnar verst á þeim sem þurfa mest á þjónustunni á að halda. Í stað þess að draga úr þjónustu er mikilvægt að veita meira fjármagn í leikskólanna til þess að bæta kjör og aðstæður starfsfólks á leikskólum borgarinnar og koma í veg fyrir manneklu til að létta álagi af starfsfólki á leikskólum borgarinnar. Það er nauðsynlegt að taka mið af þeim veruleika sem blasir við foreldrum í borginni í dag sem margir hverjir eru ekki í þeirri stöðu að geta brugðist við styttri opnun leikskóladagsins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Er meirihlutinn að guggna á þessari ákvörðun sinni? Það væri óskandi enda ákvörðun sem tekin er undir fölsku flaggi. Börnunum og samverustund þeirra með foreldrum sínum er beitt til að fela vangetu og skort á vilja meirihlutans að leysa mannekluvanda leikskólanna. Meirihlutinn vill ekki fjármagna bætt laun og aðstæður leikskólakennara. Foreldrana átti bara að hunsa. Svona breyting þarf að vera tekin í takt við atvinnulífið og umræðuna um styttingu vinnuvikunnar sem nú er eitt helsta baráttumál verkalýðshreyfingarinnar í þeim kjarasamningaviðræðum sem nú standa yfir. Rökin fyrir ákvörðunni er sett í tilfinningalegan búning, hvað sé barninu fyrir bestu. Um það er einfaldlega enginn ágreiningur. Sjái foreldrið að 9 tímar eru erfiðir barninu bregðast margir foreldrar við því með því að sækja það fyrr alltaf þegar þau geta. Skóla- og frístundarráð á ekki að ala upp foreldra. Aðstæður foreldra eru mismunandi. Þess vegna er rúmt val nauðsynleg. Þessar kerfisbreytingar munu leiða til aukins ójafnvægis og álags ekki síst hjá einstæðum foreldrum sem þurfa að leita annarra leiða ef daglegur vinnutími fellur ekki nákvæmlega að opnunartíma leikskólans.
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að áformum um nýja íbúðabyggð í Skerjafirði verði frestað á meðan rannsóknir á möguleikum á nýjum flugvelli í Hvassahrauni fara fram og tekin hefur verið ákvörðun um nýjan innanlandsflugvöll og hann tilbúinn til notkunar enda kemur fram í nýlegu samkomulagi ríkis og borgar að miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur er fullbúinn til notkunar. Samkvæmt samningi ríkis og borgar þarf að fara í aðalskipulagsbreytingu en sú vinna er eftir. Þá liggur einnig fyrir að fara á í gerð hverfisskipulag árið 2022 fyrir Vesturbæinn sem kallar á mikið samráð við íbúa varðandi skipulag hverfisins. Fyrir liggur að óskað hefur verið eftir að fram fari umhverfismat á svæðinu sem gæti haft áhrif á skipulag hverfisins en því er ólokið. Með alla ofangreinda þætti í huga er eðlilegt og skynsamlegt að fresta uppbyggingaráformum á svæðinu. R20010283
Frestað.
8. Lögð fram beiðni Magnúsar Más Guðmundssonar dags. 17. desember 2019, um tímabundna lausn frá störfum í borgarstjórn til 1. janúar 2021. R19010159
Samþykkt.
9. Lagt er til að Þór Elís Pálsson taki sæti í mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráði í stað Ásgerðar Jónu Flosadóttur. R18060083
Samþykkt.
10. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 9. og 16. janúar.
51. liður fundargerðarinnar frá 9. janúar; gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins fyrir árið 2020 er samþykktur. R20010085
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við asfgreiðslu málsins.
21. liður fundargerðarinnar frá 16. janúar; ábyrgð á lántöku Félagsbústaða hf. er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins. R19100128
Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. R20010001
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 51. lið fundargerðarinnar frá 9. janúar og 21. lið fundargerðarinnar frá 16. janúar:
Varðandi gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins; líkt og fram kemur í erindi slökkviliðsstjóra er megintilgangur hækkunarinnar að gera slökkviliðsstjóra mögulegt að taka gjald skv. heimild í 3. mgr. 29. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000 þegar þarf að beita þvingunarúrræðum og/eða viðurlögum. Varðandi lántöku Félagsbústaða: Framundan er veruleg stækkun á íbúðasafni Félagsbústaða. Ef áætlunin gengur eftir mun fjöldi íbúða fara úr rúmlega 2.600 íbúðareiningum í lok árs 2019 í ríflega 3.100 íbúðareiningar í lok árs 2023. Þetta kallar á fjárfestingar sem fyrst og fremst eru fjármagnaðar með lántöku en einnig stofnframlögum frá bæði ríki og úr borgarsjóði. Það er því fagnaðarefni að sjá hve góð kjör Félagsbústaðir eru að fá með útgáfu félagslegra skuldabréfa sem eru skráð á Nasdaq. Það sýnir að rekstur félagsins er sterkur sem auðveldar félaginu að ná markmiðum Reykjavíkurborgar um að fjölga eignum á félagslegum leigumarkaði og koma í veg fyrir að leiga hækki samhliða eins og sést hefur í nágrannasveitarfélögum okkar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. janúar og 21. lið fundargerðarinnar frá 16. janúar:
Varðandi gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins 2020 er vakin er athygli á að hér er um gjaldskrárhækkun að ræða sem er tvöfalt hærri en lífskjarasamningurinn kveður á um. Varðandi ábyrgð á lántöku Félagsbústaða hf., enn og aftur er verið að fara fram á að Reykjavíkurborg gangist í ábyrgð fyrir milljarða skuldir dótturfyrirtækis sem er greinilega ekki með sjálfbæran rekstur. Hér er verið að leggja til viðbótarábyrgð Reykjavíkurborgar fyrir 3.500 milljónir króna skuldum Félagsbústaða hf.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundargerðarinnar frá 16. janúar:
Enn á ný koma Félagsbústaðir og óska eftir ábyrgð Reykjavíkur til lántöku. Lánsfjáráætlunin nemur 3,5 milljörðum króna og er ráð fyrir að hún verði fjármögnuð með útgáfu félagslegra skuldabréfa/grænna skuldabréfa sem er einungis ný lántökuleið til skuldsetningar borgarinnar og B-hluta félaga hennar. Vitað er að mikil viðhaldsþörf er undirliggjandi í eignasafni Félagsbústaða sem ekki er verið að taka á. Ekki hefur verið gerð formleg úttekt á því hvort hagstæðara gæti reynst fyrir Félagsbústaði að leigja eignir til útleigu frekar en eiga þær. Það er skrýtin áhersla svo ekki sé meira sagt sér í lagi þegar harmsaga Félagsbústaða er skoðuð. Án veðs í framtíðar útsvari Reykvíkinga er félagið ekki gjaldfært. Á meðan þessi meirihluti situr við stjórn í Reykjavík verður lítilla tíðinda að vænta að fara í þetta mat, því uppgjörsreglur Félagsbústaða fegra bókhald Reykjavíkurborgar. Það er löngu tímabært að skoða fyrir alvöru hvort ekki komi betur út fjárhagslega fyrir Reykjavík að selja drjúgan hluta af þessu eignasafni og losna við í leiðinni óbærilegan fjármagnskostnað, ábyrgðir og viðhaldskostnað og niðurgreiða ístaðinn enn frekar leigu skjólstæðinga Félagsbústaða sem nemur fjármagnskostnaði lánanna sem á Félagsbústöðum hvíla. Eftir lántökuna eru skuldir Félagsbústaða 45 milljarðar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 21. lið fundargerð borgarráðs frá 16. janúar:
Meirihlutanum í borginni finnst ekkert tiltökumál að fljúga til útlanda á kostnað borgarbúa. Dæmi eru um að hópur embættismanna og borgarfulltrúa allt frá sama ráði/sviði og jafnvel að forseti borgarráðs og formaður úr öðru ráði skelli sér með til gamans í margra daga skoðunarferð. Hvernig væri að fara að sýna samfélagslega ábyrgð og það að þessu sinni í verki? Sambærileg tillaga liggur fyrir þinginu og býður fjármálaskrifstofa þingsins þingmönnum aðstoð sína við kolefnisjöfnuð. Kostnaður við kolefnisjöfnuð nemur um 1000 krónur per ferð. Auðvitað eiga borgarfulltrúar að greiða þetta úr eigin vasa og sýna með því viðhorf sitt í verki til mikilvægis umhverfisverndar. Ekki hefur heyrst í einum einasta þingmanni kvarta. Með þessari lántöku eru skuldir Félagsbústaða komnar í 44.5 ma.kr. Árum saman var trassað að kaupa íbúðir og lengi voru um 1000 fjölskyldur á biðlista. Á sama tíma og lítið var keypt var íbúðum heldur ekki haldið við nema til bráðabirgðar. Nú er sannarlega keypt og hefur biðlistinn eitthvað styst en leigan hefur hins vegar hækkað. En er viðhald ábótavant og kvörtunum vegna heilsuspillandi húsnæðis hefur ekki fækkað. Stjórn Félagsbústaða og velferðarsvið verður að fara að horfast í augu við ímyndavanda fyrirtækisins og almennt séð taka betur utan um leigjendahópinn.
13. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 17. janúar, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 12. desember 2019 og 9. og 15. janúar 2020, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 9. og 16. desember 2019, skipulags- og samgönguráðs frá 11. og 18. desember 2019 og 8. og 15. janúar 2020, skóla- og frístundaráðs frá 10. desember 2019 og 14. janúar 2020, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 18. desember 2019, velferðarráðs frá 18. desember 2019 og 15. janúar 2020. R20010285
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðar skóla- og frístundasviðs frá 14. janúar:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka góða kynningu á fjárhagsáætlun og fjárhagsuppgjöri sviðsins. Ljóst er að skólarnir eru alvarlega vanfjármagnaðir og enn er vinnu við reiknilíkan skólanna ekki lokið. Yfirlitið ber með sér að ábendingar innri endurskoðunar um að rekstur skóla- og frístundastarfs Reykjavíkur væri vanfjármagnaður síðustu árin, áttu fullan rétt á sér og kallar á viðbrögð án tafa. Athugasemdir og ábendingar sem koma fram í meðfylgjandi yfirliti eru þær sömu og komið hafa fram árlega síðustu árin án þess að meirihluti borgarstjórnar hafi brugðist við. Þessi vanfjármögnun veldur stjórnendum skóla borgarinnar erfiðleikum sem bitna á skólastarfi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gera alvarlegar athugasemdir við vinnulagið og kalla enn og aftur eftir breyttum vinnubrögðum í fjárhagsáætlanagerð skóla- og frístundasviðs, núverandi ástand er algjörlega óviðunandi og til skaða fyrir skólastarf í borginni. Sem dæmi má nefna að í dag geta margir skólar ekki lengur fjármagnað forfallakennslu og þurfa því að senda nemendur heim. Það er gert þó lögboðin sé sú skylda grunnskólanna og fræðsluyfirvalda í borginni að sjá til þess að nemendur fái forfallakennslu.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 15. janúar:
Það er mjög sláandi eftir kynninguna á deiliskipulagi fyrir Elliðaárdal að sjá að skipulagið taki skarpa beygju fram hjá þróunarreit Stekkjarbakka Þ73, þar sem fyrirhuguð gróðurhvelfing/Bio Dome á að rísa. Fyrri hugmyndir gengu út á að reiturinn væri innan þessa mikilvæga útivistar- og náttúrusvæðis sem Elliðaárdalurinn er. Mörk deiliskipulags á öðrum stöðum miðast við útlínur dalsins. Farið var yfir afar fjölbreytt lífríki dalsins og því ljóst að mengunin frá gróðurhvelfingunni mun hafa gríðarleg áhrif á dalinn allan og þá sérstaklega ljósmengunin sem af henni hlýst. Það er mat borgarfulltrúa Miðflokksins að svæðið innan deiliskipulagsins ætti allt að njóta hverfisverndar í stað þess að marka það innan þeirra stíga sem liggja meðfram ánni á báða bóga. Hér er verið að fórna stærstu náttúruperlu Reykvíkinga kinnroðalaust. Hér birtist einbeittur vilji meirihlutans að úthluta óskilgreindum aðilum gæðum í formi borgarlands á kostnað náttúrunnar og lífsgæða Reykvíkinga.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 16. desember, 19. lið fundargerðar skipulags og samgönguráðs frá 11. desember og 16. lið frá 15. janúar og 7. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs 14. janúar:
Tillaga um endurskinsmerki felld. Flokkur fólksins leggur áherslu á mikilvægi þess að leita leiða til að hvetja til aukinnar notkunar endurskinsmerkja og auka fræðslu til að tryggja enn frekari umferðaröryggi barna. Flokkur fólksins fagnar stýrihópi um frístundarkort sem vonandi tekur á agnúum kortsins þannig að það fái aftur sinn upphaflega tilgang en sé ekki notað sem gjaldmiðill fyrir pláss eða skuld við frístundaheimili. Af hverju skyldu skipulagsyfirvöld ekki vilja bæta ljósastýringu og auka flæði umferðar? Hér er um öryggi allra borgarbúa að ræða auk þess sem stórlega myndi draga úr mengun. Ljósastýring er víða í borginni í miklum ólestri. Er aðgerðarleysið af ásetningi, til að fæla þá frá sem hyggjast koma akandi í bæinn? Sú tillaga sem hér um ræðir var unnin í samvinnu við framkvæmdastjórn Kolaportsins sem saknar íslendinga sem fjölmenntu áður í Kolaportið. Hugsunin með tillögunni var að laða að fólk sem öllu jafna treystir sér ekki til að fara með bíl sinn í bílastæðahús og fá þá e.t.v. leiðsögn um greiðslukerfið. Rök skipulagsyfirvalda gegn tillögunni eru að bílastæðasjóður yrði fyrir tekjutapi. Halda þau virkilega að með því að samþykkja þessa tillögu myndu eldri borgarar fjölmenna í bæinn um helgar í slíkum mæli að rekstrargrundvelli bílastæðasjóðs væri ógnað?
Fundi slitið kl. 22:11
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Pawel Bartoszek
Hjálmar Sveinsson Sanna Magdalena Mörtudottir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjorn 21.1.2020 - prentvæn útgáfa