Borgarstjórn - 21.1.2014

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2014, þriðjudaginn 21. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar, auk staðgengils borgarstjóra Dags B. Eggertssonar, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Margrét Kristín Blöndal, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Diljá Ámundadóttir, Oddný Sturludóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Líf Magneudóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um stefnu í málefnum utangarðsfólks 2014-2018, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. janúar sl. 

- Kl. 14.45 víkur Oddný Sturludóttir af fundi og Hjálmar Sveinsson tekur þar sæti.

2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 9. janúar.

24. liður fundargerðarinnar, breyting á 3. og 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð, samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun vegna 24. liðar fundargerðarinnar:

Fulltrúi Vinstri grænna getur með engu móti samþykkt að skilyrða eigi fjárhagsaðstoð með nokkrum hætti. Vissulega er af því góða að bjóða fólki ýmis úrræði til að bæta stöðu sína og auka lífsgæði en margar ástæður geta legið að baki því að fólk sjái sér ekki fært að þiggja þau. Að beita viðurlögum og svipta fólk bótum ef það hlýðir ekki yfirvaldinu er fortakslaust og óásættanlegt og vísað er í aðrar bókanir á vettvangi velferðarráðs og borgarráðs um þetta mál. 

Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun vegna 24. liðar fundargerðarinnar:

Með þessum breytingum er verið að vinna að því að hjálpa fólki af fjárhagsaðstoð til að bæta lífsgæði þeirra. Gerðar eru kröfur um að þeir sem fá fjárhagsaðstoð á grundvelli læknisvottorða vinni í að ná bata og sinni einstaklingsáætlun í samvinnu við félagsráðgjafa. Ef fólk neitar að sinna slíkri einstaklingsáætlun verður heimilt að skerða fjárhagsaðstoð í hámark tvo mánuði. Í þessum tilfellum verður stuðst við svokallað „Eigið mat á starfsgetu“ og ef fólk hefur veigamiklar ástæður gegn skerðingu fjárhagsaðstoðar, svo sem þegar um er að ræða mjög erfiðar félagslegar aðstæður, húsnæðisleysi og skyndileg áföll eins og skilnað, dauðsfall í fjölskyldu og erfiðleika barna, verður tekið tillit til þess. Jafnframt getur verið um að ræða veikindi sem eru þess eðlis að viðkomandi getur ekki sinnt einstaklingsáætlun tímabundið.

Ákvörðun um skerðingu mun ætíð verða tekin á fagfundi þjónustumiðstöðva. Þeirri ákvörðun verður unnt að skjóta til áfrýjunarnefndar velferðarráðs og kæra ákvarðanir áfrýjunarnefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Því eru réttindi fólks tryggð og fólk hvatt að leita réttar síns.

3. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 16. janúar sl. 

4. Lagt er til að Þóroddur Þórarinsson taki sæti Ingu K. Gunnarsdóttur í hverfisráði Grafarholts og Úlfarsárdals.

Samþykkt. 

5. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu í mannréttindaráð. Lagt er til að Heimir Janusarson taki sæti Snærósar Sindradóttur sem varamaður í mannréttindaráði.

Samþykkt.

6. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 17. janúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 13. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 15. janúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. og 15. janúar og velferðarráðs frá 16. janúar. 

Fundi slitið kl. 16.15

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Eva Einarsdóttir    Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 21.1.2014 - prentvæn útgáfa