Borgarstjórn - 21.10.2014

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2014, þriðjudaginn 21. október var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.04. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Björk Vilhelmsdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Jóna Björg Sætran, Halldór Halldórsson, Marta Guðjónsdóttir og Áslaug María Friðriksdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina: 

Lagt er til að borgarstjórn feli skóla- og frístundasviði, velferðarsviði og mannréttindaskrifstofu að endurskoða gildandi verklagsreglur sem samþykktar voru 2012 um þjónustu við grunnskólanemendur með fjölþættan vanda. Sérstökum sjónum verði beint að nemendum í vímuefnavanda, auk annarra þeirra þátta sem taka þarf tillit til í þessum efnum.

- Kl. 14.10 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum. 

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. 

2. Fram fer umræða um Intercultural cities, samstarfsvettvang sveitarfélaga um fjölbreytileika. 

3. Fram fer umræða um opinn íbúafund vegna deiliskipulags á Nýlendureit, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. október sl. 

- Kl. 15.30 tekur Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sæti á fundinum og Jóna Björg Sætran víkur sæti. 

- Kl. 16.35 víkur Kjartan Magnússon af fundi og Elísabet Gísladóttir tekur þar sæti. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Opnir íbúafundir eru ein helsta leið borgarbúa til að láta rödd sína heyrast. Þegar óskir berast um að slíkir fundir verði haldnir ætti borgin að taka því fagnandi og bregðast við. Það vekur því furðu að tekið skuli neikvætt í að halda fund um skipulag Nýlendureits og næsta nágrennis og tillögu um slíkt vísað frá í borgarráði. Reynslan sýnir að íbúafundir geta verið uppspretta góðra hugmynda og oft hafa skoðanaskipti á milli borgar og borgarbúa við slík tækifæri skýrt það sem hefur verið óljóst. Þó ferli máls sé langt er það ekki rökstuðningur fyrir því að ekki megi gera breytingar eða halda íbúafund til að útskýra niðurstöðu í máli. Borgarfulltrúar eru þjónar borgarbúa en ekki þrælar úreltra ákvarðana og gamalla fundargerða. Meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata sem hefur lagt sig í líma við að kenna sig við lýðræði hafnar nú í annað skipti á skömmum tíma að funda með borgarbúum þrátt fyrir að óskir berist um slíkt.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Í samstarfssáttamála meirihlutans er auknu íbúalýðræði gert hátt undir höfði og sagt berum orðum að kynning og upplýsingagjöf til íbúa verði bætt í tengslum við skipulagsmál, stór og smá.  Út frá því trausti sem við vonumst til að geta lagt í yfirlýsingar samstarfssáttmálans teljum við Framsókn og flugvallarvinir það mjög ótrúverðugt að meirihlutinn vísi tillögu um íbúafund frá, án þess að hafa kjark til að hafna henni þá. Enn og aftur kemur meirihlutinn sér undan því að taka ákvarðanir, með frávísun og stjórna þannig í þögn. Verður ekki annað séð en að meirihlutinn ætli aðeins að hlusta á sumar raddir borgarbúa, þær sem hentar að hlusta á hverju sinni. Yfirlýsingar um aukið íbúalýðræði, samráð og aukan upplýsingagjöf eru því einungis, því miður, aðeins útvatnað stjórntæki til að slá ryki í augu borgarbúa, þegar hentar.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Þar sem ekki hefur verið tekið undir hugmyndir um nýja staðsetningu Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar eftir skoðun umhverfis- og skipulagssviðs féll hugmynd um íbúafund um hana um sjálfa sig. Eðlilegast hefði verið að draga tillögu um fund til baka en þar sem það var ekki gert var henni vísað frá.

4. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 9. október 2014. 

18. liður fundargerðarinnar, viðauki við fjárhagsáætlun 2014 vegna kjarasamninga við BHM-félög, samþykktur.

27. liður fundargerðarinnar, ályktunartillaga borgarráðs um flutning ríkisstofnana, samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Sjálfstæðisflokksins gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun undir 27. lið fundargerðarinnar:

Framsókn og flugvallarvinir telja að hagsmunum borgarbúa sé betur borgið með því að huga að atvinnuuppbyggingu á svæðinu og að halda áfram þeim fyrirtækjum sem eru starfandi í borginni. Í því samhengi er sérstakt að meirihluti borgarstjórnar taki undir tillöguna þegar þeir hafa þegar samþykkt skipulag sem kveður á um niðurrif fluggarða og alla þeirra starfsemi og miklum fjölda starfa sem þar eru, þ.m.t. verslun, þjónusta, viðhald og kennsla. Við styðjum að sjálfsögðu vandaða stjórnsýslu á öllum stigum en teljum að Reykjavík þurfi að huga að sínum nánustu innviðum áður en við skiptum okkur af byggðastefnu ríkisvaldsins.  

5. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 16. október 2014.

11. liður fundargerðarinnar, viðauki við fjárhagsáætlun 2014 vegna kjarasamninga við Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda á leikskólum, samþykktur. 

6. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 17. október, íþrótta- og tómstundaráðs frá 3. október, mannréttindaráðs frá 23. september, menningar- og ferðamálaráðs frá 13. október, skóla- og frístundaráðs frá 15. október, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 6. október, umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. og 15. október og velferðarráðs frá 2. og 16. október. 

Fundi slitið kl. 17.04

Sóley Tómasdóttir

Skúli Helgason Áslaug María Friðriksdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 21.10.2014 - prentvæn útgáfa