Borgarstjórn - 20.9.2016

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2016, þriðjudaginn 20. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Trausti Harðarson, Jóna Björg Sætran, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Hildur Sverrisdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fer umræða um aðgerðaáætlun í skólamálum í Reykjavík, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. september.

Borgarfulltrúar Framsóknar- og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Umbætur í skólamálum þurfa að vera raunhæfar og vera samstíga við þær kröfur sem gerðar eru til uppeldis- og menntamála í aðalnámskrá sem gefin er út af yfirstjórn menntamála á Íslandi. Þær aðgerðir sem nú hafa verið kynntar í skólamálum eru jákvæðar og munu minnka ýmsa rekstrarerfiðleika í leikskólum og grunnskólum um tíma, þó enn meira fé og öflugri aðgerðir þurfi til að tryggja traustan rekstur starfsstaðanna til framtíðar sem og framsækið uppeldis- og menntunarstarf í þágu æsku borgarinnar, menntun sem tryggir þeim traustan grunn inn í framtíðina.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Komið hefur í ljós að með fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2016 gerði meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna algerlega óraunhæfar hagræðingarkröfur til leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar. Með framlögðum tillögum um viðbótarframlög viðurkennir meirihlutinn loks að skólakerfi borgarinnar er gróflega undirfjármagnað og ekki seinna vænna í ljósi þess að rúmlega tveir þriðju fjárhagsársins eru nú að baki. Mikill tvískinnungur felst í því að halda því fram að um ný framlög til skólamála sé að ræða í þessu sambandi því að langstærstum hluta er verið að viðurkenna þann hallarekstur, sem orðinn er að veruleika vegna óraunhæfrar fjárhagsáætlunar, og Reykjavíkurborg hefur ekki tök á að víkja sér undan, t.d. vegna sérkennslu, langtímaveikinda, skólaaksturs og skólamáltíða. Við vinnslu fjárhagsáætlunar 2016 bentu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og skólastjórar á að ýmsar niðurskurðartillögur meirihlutans væru óraunhæfar. Á yfirstandandi ári hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað fylgt þessum ábendingum eftir í umræðum, sem efnt hefur verið til í borgarstjórn, að frumkvæði þeirra. Til dæmis myndi niðurskurður á fæðisgjaldi leikskóla og grunnskóla óhjákvæmilega bitna á gæðum skólamáltíða. Það hefur því miður gerst. Komið hefur í ljós að hluta af fæðisgjaldi leikskólanna er nú ráðstafað til annars en matarinnkaupa og segir formaður Félags leikskólakennara að þar með hafi botninum verið náð. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um málið frá kennurum, skólastjórnendum og öðrum starfsmönnum brást meirihlutinn ekki við þessari alvarlegu stöðu fyrr en málið hafði hlotið mikla og endurtekna umfjöllun í fjölmiðlum. Brýnt er að tryggja að hækkun á fæðisgjaldi nemenda skili sér að öllu leyti til hráefniskaupa og munu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fylgjast með því. Athygli vekur að meirihlutinn gerir ekki ráð fyrir neinum aðgerðum í því skyni að styrkja rekstur frístundaheimila Reykjavíkurborgar þrátt fyrir að niðurskurður hafi jafnvel verið hlutfallslega meiri þar á undanförnum árum en í leikskólum og grunnskólum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn sýnir nú skýra forgangsröðun sína í verki með því að nýta stóran hluta af auknu svigrúmi borgarinnar í aðgerðaáætlun í skólamálum þar sem fjárveitingar til leikskóla og grunnskóla hækka um tæpan milljarð króna strax í haust og enn frekar á næsta ári. Framlög hækka m.a. til sérkennslu og fagstarfs í leikskólum og grunnskólum, skólaaksturs og kaupa á námsgögnum til skapandi starfs í leikskólum. Börnum sem fædd eru í mars og apríl 2015 verður boðin leikskólaþjónusta frá og með áramótum 2017. Fæðisgjöld vegna mataráskriftar hækka til að bæta skólamáltíðir og renna tekjurnar alfarið til skólamötuneyta í kaup á hráefni. Þá verður hluta af hagræðingu matarinnkaupa skilað til baka. Reykjavík verður nú með mjög sambærileg framlög og þau sveitarfélög sem leggja mest í hráefnisframlög til skólamötuneyta. Leikskólagjöld og önnur gjöld vegna skólagöngu barna í borginni verða áfram með þeim lægstu á landinu. Með þessum fyrstu aðgerðum er með kröftugum hætti snúið vörn í sókn í skólamálum í borginni eftir aðhald síðustu ára og stefnan sett á að skóla- og frístundastarf borgarinnar verði ótvírætt í fremstu röð.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:
Lagt er til að fæðisgjald í grunnskólum og leikskólum verði hækkað um 100 kr. á dag. Þetta felur í sér að gjaldskrá viðkomandi liða verði skv. hjálögðum töflum, en þar er að finna til samanburðar núverandi gjald og hlutfallslega hækkun.

Samþykkt.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

3. Lagður fram viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2016 vegna breytinga á útsvarstekjum og aðgerða í skólamálum. Greinargerð fylgir viðaukanum.

Samþykkt.
4. Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá:

Lagt er til að boðið verði upp á sams konar mat í Ráðhúsinu og í leik- og grunnskólum borgarinnar og tekið mið af matseðlum þeirra.
Greinargerð fylgir tillögunni.

Tillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Fyrr á þessu ári var farið, með tilheyrandi tíma og kostnaði, í útboð á sameiginlegri mötuneytisþjónustu fyrir stjórnsýsluhús borgarinnar, Ráðhús og Höfðatorg. Tilgangurinn með því að sameina rekstur mötuneytanna og bjóða hann út var að draga úr sveiflum í rekstri, auka gæði, bæta þjónustu og hagræða til lengri tíma litið. Eðli málsins samkvæmt fól það ferli meðal annars í sér gerð ítarlegra útboðsskilmála og samningsgerð á grundvelli þeirra til minnst tveggja ára. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerðu enga athugasemd við þetta fyrirkomulag heldur greiddu þvert á móti tveir fulltrúar flokksins atkvæði með því á fundi borgarráðs þann 28. apríl síðastliðinn. Því skýtur skökku við að nú fáeinum mánuðum síðar leggi fulltrúar flokksins til í borgarstjórn að þessu samningsbundna fyrirkomulagi sé breytt verulega, í þá veru að matseðlar mötuneytis Ráðhússins séu samræmdir við skólamatseðla. Betur væri hægt að ná fram yfirlýstu markmiði tillögunnar með því að kjörnir fulltrúar borgarinnar kynntu sér frá fyrstu hendi hvernig staðið er að matarþjónustu í skólum borgarinnar.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Lagt er til að framkvæmd verði skoðanakönnun hjá foreldrum og starfsmönnum leikskóla, grunnskóla og frístund um gæði þjónustu, þ.m.t. gæði matar. Mælingin skal framkvæmd nú í september og sú síðari 12 mánuðum síðar.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundasviðs.

6. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar um samkomulag vegna kaupa á 89 bílastæðum við Austurbakka 2 og samkomulag um kostnaðarhlutdeild Reykjavíkurborgar vegna flutnings götustæðis Geirsgötu, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. september 2016.
Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá:

Borgarstjórn samþykkir að óska eftir viðræðum við ríkisvaldið og húsfélagið Austurbakka 2 í því skyni að aflétta meintri kvöð Reykjavíkurborgar á kaupum á 89 bílastæðum í hluta bílakjallara á lóðinni Austurbakka 2, nánar tiltekið á reit nr. 11. Kaupverð umræddra 89 bílastæða er rúmlega 620 milljónir króna samkvæmt fyrirliggjandi drögum að samkomulagi en í því er vísað til samninga frá árinu 2004 og 2006. Í viðræðunum verði það m.a. kannað hvort unnt sé að bjóða út eða úthýsa fjármögnun og rekstri umræddra bílastæða.
Tillögunni er vísað frá með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna kjósi að vísa frá tillögu um viðræður í því skyni að aflétta meintri kvöð Reykjavíkurborgar vegna kaupa á 89 bílastæðum. Kaupverð umræddra stæða nemur 629 milljónum króna eða sem nemur tæpum sjö milljónum króna á hvert bílastæði. Í tillögunni er einnig kveðið á um að skoðaðir verði möguleikar á að úthýsa fjármögnun og rekstri umræddra bílastæða. Við núverandi aðstæður er mikilvægt að sem flestar leiðir verði skoðaðar til að draga úr fjárfestingu og rekstrarkostnaði á vegum borgarinnar og er því slæmt að meirihlutinn vilji ekki einu sinni skoða möguleika á því. Rétt er að taka fram að þeir samningar, sem vísað er í varðandi gerð umræddra bílastæða, eru frá árunum 2004 og 2006 en frá þeim tíma hafa viðhorf að ýmsu leyti breyst í bílastæðamálum.

7. Fram fer umræða um göngubrú yfir Miklubraut.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

17. nóvember 2015 lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu í borgarstjórn um að gripið yrði til aðgerða í því skyni að tryggja börnum og ungmennum örugga göngu- og hjólaleið yfir Miklubraut á kaflanum milli Lönguhlíðar og Kringlumýrarbrautar. Samþykkt var að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs á sínum tíma en lítið virðist þó hafa verið unnið með hana og var hún til að mynda ekki tekin til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði fyrr en í síðustu viku í kjölfar fyrirspurnar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um málið. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir vonbrigðum með þann hægagang sem viðhafður hefur verið í þessu máli og hvetja til þess að úr því verði bætt svo þetta mikilvæga mál fái farsæla úrlausn sem fyrst.

8. Lagt er til að Elín Oddný Sigurðardóttir taki sæti í mannréttindaráði í stað Sóleyjar Tómasdóttur. Jafnframt er lagt til að hún verði formaður ráðsins.

Samþykkt.
9. Lagt er til að Björn Birgir Þorláksson taki sæti sem varamaður í menningar- og ferðamálaráði í stað Þuríðar Bjargar Þorgrímsdóttur.

Samþykkt.

10. Lagt er til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti sem varamaður í velferðarráði í stað Láru Óskarsdóttur.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.
11. Lagt er til að Sigurður Hólm Gunnarsson taki sæti í hverfisráði Grafarvogs í stað Bergvins Oddsonar. Jafnframt er lagt til að hann verði formaður ráðsins.

Samþykkt.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

12. Lagt er til að Þórarinn Snorri Sigurgeirsson taki sæti sem varamaður í hverfisráði Breiðholts í stað Magnúsar Guðmundssonar.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.
- Kl. 17. 20 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundi og Björn Gíslason tekur sæti.
13. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 8. og 15. september.

- 20. liður fundargerðar borgarráðs frá 8. september sl.; Félagsstofnun stúdenta, lóðir undir stúdentaíbúðir í Skerjafirði er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja að Félagsstofnun stúdenta eigi aðkomu að mögulegu skipulagi í Skerjafirði en benda á að framundan eru viðræður vegna framtíðarstaðsetningar Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri.

- 14. liður fundargerðar borgarráðs frá 15. september; deiliskipulag Keilugrandi, Boðagrandi, Fjörugrandi, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
- 23. liður fundargerðar borgarráðs frá 15. september; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2016 vegna Breiðagerðisskóla samþykktur.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
- 33. liður; umboðsmaður borgarbúa, tillaga forsætisnefndar er vísað til borgarráðs

Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá:
Borgarstjórn samþykkir að stjórnskipuleg staða umboðsmanns borgarbúa innan borgarkerfisins verði endurskoðuð með það að markmiði að gera hann að eins óháðum og sjálfstæðum aðila innan stjórnsýslunnar eins og frekast er unnt.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Vísað til borgarráðs
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Eðli máls samkvæmt er mjög mikilvægt að í störfum sínum sem umboðsmaður borgarbúa sé hann eins óháður stjórnmála- og embættismönnum þeim sem hann hlutast til um í störfum sínum. Það er því stór ástæða til að kanna betur hvar umboðsmaður sé best stjórnskipunarlega staðsettur í samræmi við þá hugmyndafræði að hann sé óháður og sjálfstæður aðili innan stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Því fagna borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að meirihlutinn hafi horfið frá tillögu meirihlutans, að sinni, um að umboðsmaður heyri undir stjórnkerfis- og lýðræðisráð og heyri embættislega undir borgarstjóra með að samþykkt tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að málið verði skoðað og unnið betur.
Fram fer kynning á dagskrá ferðar borgarstjóra til Búkarest á ráðstefnu Youth in Europe frá 22. október 2016. Borgarstjóri mun þar halda opnunarerindi í tilefni af því að tíu ár eru síðan forvarnarverkefnið Youth in Europe fór af stað.

14. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 16. september, íþrótta- og tómstundaráðs frá 2. september, mannréttindaráðs frá 6. september, menningar- og ferðamálaráðs frá 12. september, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 5. og 12. september, umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. og 14. september.

15. Lögð fram lausnarbeiðni borgarfulltrúa Vinstri grænna, Sóleyjar Tómasdóttur.

Samþykkt.
- Kl. 18.00 víkur Sóley Tómasdóttir af fundi og Elín Oddný Sigurðardóttir tekur sæti.

16. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu forseta borgarstjórnar til eins árs.

Forseti er kosinn Líf Magneudóttir með 9 atkvæðum.
17. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í borgarráð.

Lagt er til að Líf Magneudóttir taki sæti í borgarráði í stað Sóleyjar Tómasdóttur og að Elín Oddný Sigurðardóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Lífar.

Samþykkt.
Fundi slitið kl. 18.22

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Elsa H. Yeoman

Kjartan Magnússon Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 20.9.2016 - prentvæn útgáfa