Borgarstjórn - 20.9.2001

Borgarstjórn

3

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2001, fimmtudaginn 20. september, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar, Helgi Hjörvar, Árni Þór Sigurðsson, Sigrún Magnúsdóttir, Helgi Pétursson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Anna Geirsdóttir, Alfreð Þorsteinsson, Kjartan Magnússon, Eyþór Arnalds, Jóna Gróa Sigurðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Ólafur F. Magnússon. Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 14. september. 23. liður fundargerðarinnar, framlenging ráðningarsamnings framkvæmdastjóra miðborgar, samþykktur með 8 atkv. gegn 6.

2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 18. september. 13. liður fundargerðarinnar, varðandi minnisblað borgarlögmanns frá 3. þ.m. um rekstrarform Orkuveitu Reykjavíkur, samþykktur með 8 atkv. gegn 7.

3. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 5. september.

4. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs 12. september.

5. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 10. september.

6. Lögð fram fundargerð leikskólaráðs frá 5. september.

7. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 5. september.

8. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 5. september. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með samhljóða atkvæðum.

9. Lögð fram fundargerð stjórnar veitustofnana frá 11. september.

10. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 13. september.

11. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans um viðræður um flutning staðbundinnar löggæslu frá ríki til borgar; frestað á fundi borgarstjórnar 6. september:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að óska eftir viðræðum við ríkisstjórnina um að stjórn staðbundinnar löggæslu í Reykjavík flytjist hið fyrsta frá ríki til borgar.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Borgarstjórn samþykkir að leita eftir samstarfi við dómsmálaráðuneytið um að skipuð verði nefnd þar sem að fulltrúar þessara aðila og lögreglunnar í Reykjavík eiga sæti í. Æskilegt er að fulltrúar nágrannasveitarfélaga eigi sæti í nefndinni. Hlutverk nefndarinnar verði að fjalla um stöðu löggæslumála í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu, hugsanlega þátttöku og/eða samstarf borgaryfirvalda í staðbundinni löggæslu og setja fram tillögur, t.d. hvað varðar hverfisbundna löggæslu. Nefndin skili tillögum sínum fyrir 1. janúar árið 2002.

- Kl. 16.24 var gert hlé á fundi. - Kl. 16.49 var fundi fram haldið og vék þá Steinunn Valdís Óskarsdóttir af fundi og Guðrún Jónsdóttir tók þar sæti.

Tillaga borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans samþykkt með 8 atkv. gegn 7.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Tillaga fulltrúa Reykjavíkurlistans ber merki um flaustursleg viðbrögð við þeim vanda, sem blasir við í miðborg Reykjavíkur eftir tæplega átta ára valdatíma R-listans. Í stað þess að koma með raunhæfar tillögur eins og ábyrg stjórnvöld eiga að gera grípur borgarstjóri til þess að kenna öðrum um. Nú á allt í einu að leysa vandann með því að flytja starfsemi lögreglunnar hið fyrsta yfir til borgarinnar. Ekki minnsta tilraun er gerð til að skilgreina hvernig núverandi meirihluti hyggst bæta eða auka löggæslu. Í dagblaðsviðtali nýlega gaf borgarstjóri ekkert út á að Reykjavíkurborg væri tilbúin að setja meira fé í löggæslu og lét þau orð falla „að við gætum samþætt löggæsluna betur með annarri hverfaþjónustu og þar með næðist hagræðing og sveigjanleiki.” Þessi viðbrögð sýna í hnotskurn hinn raunverulega hug R-listans. Tillagan er því ekkert annað en sýndarmennska og hluti af pólitísku upphlaupi. Hana er því ekki hægt að taka alvarlega. Á sama tíma hefur meirihlutinn í raun hafnað tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um nýja miðbæjardeild, sem ætlað er að vera samstarfsvettvangur borgaryfirvalda, lögreglu og hagsmunaaðila í miðborginni. Væri meirihlutanum í mun að sýna í verki vilja til að bregðast við vandanum hefði sú tillaga verið samþykkt. Það er skoðun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að borgaryfirvöld megi einskis láta ófreistað til að bæta öryggi fólksins í borginni m.a. með aukinni hverfabundinni löggæslu. Það verður einungis gert með traustu og yfirveguðu samstarfi borgaryfirvalda og löggæsluyfirvalda. Í stað frumkvæðis og samstarfs hefur borgarstjóri átt í stöðugum erjum við yfirvöld löggæslu og dómsmála. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Hroðvirknisleg vinnubrögð eins og birtast í tillöguflutningi R-listans eru ekki til þess fallin að leysa málin. Þeim er einungis ætlað að þjóna pólitískum stundarhagsmunum borgarstjóra. Sjálfstæðismenn taka ekki þátt í þeim leik og greiða atkvæði gegn þessari tillögu.

- Kl. 17.14 vék Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi og Helga Jóhannsdóttir tók þar sæti.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Sú samþykkt sem hér hefur verið gerð felur í sér ósk af hálfu Borgarstjórnar Reykjavíkur um viðræður við ríkisstjórnina um flutning hinnar staðbundnu löggæslu til Reykjavíkurborgar. Hún er efnislega samhljóða tillögu sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fluttu í nóvember 1994 þegar Þorsteinn Pálsson var dómsmálaráðherra. Þá töldu sjálfstæðismenn fullreynt að ríkið gæti sinnt þessari löggæslu með þeim hætti sem borgaryfirvöld gerðu kröfu til eða eins og framsögumaður tillögunnar orðaði það: „Við hljótum einhvern tíman að þurfa að standa upp og segja bara einfaldlega: Ríkisvaldið hefur brugðist skyldum sínum. Við viljum taka þetta verkefni að okkur.” Ekki verður séð að þessar forsendur hafi breyst. En núna er dómsmálaráðherrann annar, og forystunni líklega betur þóknanlegur, og er helst að sjá sem skipt hafi verið um forrit í borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Er lítil reisn yfir því hvernig borgarfulltrúarnir leggja á flótta undan fortíð sinni samkvæmt fyrirmælum ráðherra. Þarf varla frekari vitna við um þá staðreynd að stjórnarandstaðan í borgarstjórn hefur heimilisfestu í stjórnarráðinu.

Borgarstjórn Reykjavíkur hefur nú ályktað í þessu máli og er þess vænst að ríkisstjórnin taki fullt tillit til þess lýðræðislega vilja sem þar kemur fram og taki ósk borgarstjórnar til efnislegrar umfjöllunar en láti ekki svigurmæli dómsmálaráðherra duga.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks til borgarráðs.

12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að breyta Orkuveitu Reykjavíkur í hlutafélag:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að hefja nú þegar undirbúning að því að breyta Orkuveitu Reykjavíkur í hlutafélag. Þriggja manna undirbúningshópi verði falið að vinna tillögur og leggja fyrir borgarráð ekki síðar en 1. nóvember n.k. Hópurinn láti vinna úttekt á reynslu af sameiningu veitufyrirtækjanna í OR og hagkvæmni þess að breyta fyrirtækinu í eitt hlutafélag eða fleiri. Sérstaklega verði skoðað hvort rétt sé að vatnsveitan sé með í nýju hlutafélagi.

Greinargerð fylgir tillögunni.

- Kl. 17.26 vék Sigrún Magnúsdóttir af fundi og Guðrún Erla Geirsdóttir tók þar sæti. - Kl. 17.40 vék Jóna Gróa Sigurðardóttir af fundi og Snorri Hjaltason tók þar sæti. - Kl. 18.14 vék Helgi Pétursson af fundi og Pétur Jónsson tók þar sæti.

Samþykkt með 8 atkv. gegn 7 að vísa tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks til meðferðar stjórnar veitustofnana.

Fundi slitið kl. 19.25.

Foseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Helgi Hjörvar

Anna Geirsdóttir Ólafur F. Magnússon