Borgarstjórn - 20.6.2017

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2017, þriðjudaginn 20. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Sigurður Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir.

Fundarritari var Kristbjörg Stephensen.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar um fjölda borgarfulltrúa samkvæmt 11. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011:

Í 11. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sem tóku gildi 1. janúar 2012 er kveðið á um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Þar kemur fram að í sveitarfélögum þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri skal fjöldi fulltrúa vera 23-31. Samkvæmt gildandi samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar nr. 715/2013 er Borgarstjórn Reykjavíkur skipuð 15 borgarfulltrúum, sem er undir lögbundnu lágmarki. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fjöldi borgarfulltrúa verði á næsta kjörtímabili í lögbundnu lágmarki, 23 borgarfulltrúar, við sveitarstjórnarkosningar sem fram fara þann 25. maí 2018. Forsætisnefnd er falið að vinna að nauðsynlegum breytingum á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, samþykkt um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg, sem og öðrum samþykktum eftir því sem við á.

Greinargerð fylgir tillögunni.

- Kl. 14.05 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Í 5. tölulið 11. greinar sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að fjöldi aðalmanna í sveitarstjórn skuli vera 23-31 í sveitarfélagi með fleiri en 100.000 íbúa. Umrætt ákvæði, sem taka á gildi í síðasta lagi í lok næsta kjörtímabils borgarstjórnar, leggur þær skyldur á herðar Reykjavíkurborgar að fjölga kjörnum borgarfulltrúum um 53-107%. Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á Alþingi að endurskoða umrætt lagaákvæði í því skyni að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað eða ekki.

Samþykkt með 15 atkvæðum að taka tillöguna á dagskrá.

Samþykkt  með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina að vísa tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins til forsætisnefndar.

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina að vísa tillögu forsætisnefndar til forsætisnefndar að nýju.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Samkvæmt núgildandi sveitarstjórnarlögum ber Reykjavíkurborg að fjölga borgarfulltrúum við næstu kosningar í 23-31. Borgarstjórn ákveður ekki fjöldann, það er Alþingis, svo borgarstjórn hefur bara val um 23-31. Það er því ekki hægt að samþykkja eitthvað allt annað en rúmast innan gildandi laga. Borgarstjórn á að taka umræðuna í sal borgarstjórnar og afgreiða fyrirliggjandi tillögur enda ljóst að ekki er lýðræðislegt eða rétt að fresta ákvörðun um gildandi lög í því ljósi að kannski, mögulega verði ákvæðum sveitastjórnarlaga breytt. Slík stjórnsýsla telst ekki góð. Það þarf að taka afstöðu í málinu. Skýrar leikreglur, gagnsæi og lýðræðissjónarmið leiða til þess að ákvörðun eigi að vera tekin nú á borgarstjórnarfundi um þær tillögur sem nú liggja fyrir í stað þess að vísa málinu aftur til forsætisnefndar enda er búið að ræða málið ítrekað þar. Vandræðagangur meirihlutans við stjórnun borgarinnar er með ólíkindum og er það öllum ljóst að hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir. Að senda eigin tillögu aftur til málsmeðferðar, ber vott um illa ígrunduð vinnubrögð og er ákvarðanatökufælni meirihlutans staðfest, sérstaklega þegar haft er í huga að lagaákvæðið um skyldu sveitarfélagsins er algerlega skýrt. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Sem fyrr leggst Sjálfstæðisflokkurinn gegn því stefnumáli Samfylkingar og Vinstri grænna að borgarfulltrúum í Reykjavík verði fjölgað úr 15 í 23 eða um 53% við næstu borgarstjórnarkosningar sem fram munu fara í maí 2018. Fyrirliggjandi tillaga Sjálfstæðisflokksins felur í sér að Alþingi endurskoði umrætt lagaákvæði þannig að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað eða ekki. Það vekur athygli að í stað þess að taka efnislega afstöðu til málsins skuli meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn enn einu sinni kjósa að vísa slíkri tillögu til forsætisnefndar þar sem hún hefur þegar verið til skoðunar árum saman. En þar sem um er að ræða útþenslu kerfisins þarf það ekki að koma á óvart að vinstri flokkarnir líti til fjölgunar borgarfulltrúa með sérstakri velþóknun. Á fundinum hefur Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ítrekað viðhaft þær fullyrðingar að umrædd fjölgun hafi verið samþykkt með stuðningi allra flokka á Alþingi á árinu 2011. Þessar fullyrðingar borgarstjóra eru alrangar. Sérstök atkvæðagreiðsla fór fram á Alþingi 17. september 2011 um 11. grein frumvarps til sveitarstjórnarlaga sem fól í sér áðurnefnda fjölgun. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðust gegn umræddri grein en hún var samþykkt, aðallega með atkvæðum þingmanna Samfylkingar og Vinstri grænna, þar á meðal atkvæði Skúla Helgasonar, þáverandi þingmanns en núverandi borgarfulltrúa Samfylkingarinnar.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Fyrir liggur í sveitarstjórnarlögum að borgarfulltrúum í Reykjavík skuli fjölga á bilinu frá 23 til 31 í næstu sveitarstjórnarkosningum en í dag eru fulltrúarnir 15 talsins. Fyrir lá tillaga forsætisnefndar um að fjölga þeim í lægsta mögulegan fjölda sem lögin heimila, þ.e.a.s. úr 15 í 23. Á vorþingi lagði ráðherra sveitarstjórnarmála fram frumvarp á Alþingi sem ætlað var að afnema skyldu borgarinnar til að fjölga borgarfulltrúum en frumvarpið er fast í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins. Nú boðar þessi sami ráðherra að hann ætli að klára málið í haust. Mikil óvissa er þó um afdrif málsins á þinginu og óvíst hvort þingmeirihluti er fyrir málinu. Í því skyni að hægt sé að halda áfram undirbúningi við lágmarksfjölgun borgarfulltrúa þarf að liggja fyrir sem fyrst hvort lögum verði breytt eða hvort þau standi óbreytt þegar gengið verður til kosninga næsta vor.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að mötuneytisþjónusta við eldri borgara skerðist ekki vegna sumarlokana nú í sumar.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt  með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina að vísa tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins til velferðarráðs.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar samþykkti ekki tillögu Sjálfstæðisflokksins um að mötuneytisþjónusta við eldri borgara skerðist ekki vegna sumarlokana nú í sumar. Fulltrúum Sjálfstæðisflokksins þótti mjög mikilvægt að borgarstjórn gæfi með slíku samþykki einföld og skýr skilaboð um að þjónusta vegna mötuneyta eldri borgara sé grunnþjónusta sem meðhöndla eigi sem forgangsverkefni. Þetta töldu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að yrði auðsótt. Svo var hins vegar ekki og fyrirstaðan sú að ekki lægi fyrir hvað verkefnið kostar og að velferðarráð yrði að fjalla nánar um verkefnið. Slík röksemdafærsla á sér enga stoð enda er það borgarstjórn sem ber endanlega ábyrgð á því að fjármunir renni til þjónustunnar og algjörlega er ljóst að ekki yrði um neinar stórar fjárhæðir að ræða. Velferðarráð gæti hins vegar í kjölfar slíkrar samþykktar unnið mun hraðar að því að koma í veg fyrir sumarlokanir því skammur tími er til stefnu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þurfa vart að vekja athygli borgarbúa á því að kostnaðarvitund meirihlutans hefur ekki látið mikið á sér kræla á kjörtímabilinu. Afgreiðsla málsins sýnir að meirihlutinn á í erfiðleikum með að taka skýra afstöðu til þess hvort grunnþjónusta við aldraða eigi að vera í forgangi eða ekki á meðan hvergi var hikað þegar samþykktar voru ferjusiglingar milli Reykjavíkur og Akraness án þess að kostnaðarmat lægi fyrir. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillaga um að afnema sumarlokanir vegna matarþjónustu á félagsmiðstöðvum velferðarsviðs er á dagskrá fundar velferðarráðs næstkomandi fimmtudag. Því er réttast að vísa tillögunni til velferðarráðs, þar sem á þeim vettvangi er hægt að taka endanlega afstöðu út frá fyrirliggjandi gögnum málsins.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að hafist verði handa sem fyrst við viðgerð og endurbætur á útilistaverkum í eigu borgarinnar. Mörg verkanna eru í mjög slæmu ásigkomulagi, afar illa farin og liggja undir skemmdum. Veruleg hætta er á að menningarleg verðmæti þeirra glatist. Listasafni Reykjavíkur verði falið að forgangsraða endurbótum og viðgerðum þeirra eftir ásigkomulagi og ástandi verkanna.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt að vísa tillögunni til borgarráðs.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir harma það hversu illa viðhaldi á útilistaverkum í eigu Reykjavíkurborgar hefur verið sinnt og mikilvægt er að ráðast í gerð aðgerðaáætlunar um hvernig komið verði í veg fyrir frekari skemmdir á þeim verkum borgarinnar sem virkilega eru farin að láta á sjá. Augljóst er að 1 milljón króna á ári nægir engan veginn til þess að sinna viðhaldi á þeim 148 verkum sem eru á viðhaldslista Reykjavíkurborgar og mikilvægt er tryggja strax fé til viðgerða á þeim listaverkum sem eru í þörf fyrir bráðaviðgerð til þess að koma í veg fyrir eyðileggingu og til að tryggja öryggi borgarbúa.

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að ráðist verði í átak til að stemma stigu við veggjakroti og öðrum óþrifnaði í Reykjavík. Sérstök athygli verði vakin á því að samkvæmt lögreglusamþykkt Reykjavíkur sé veggjakrot bannað að viðlögðum sektum, sem og að fleygja rusli á almannafæri nema í þar til gerð ílát. Leitast verði við að virkja sektarákvæði lögreglusamþykktarinnar gagnvart slíkum óþrifnaði og gera þannig þá, sem slík umhverfisspjöll vinna, ábyrga gerða sinna.

Samþykkt að vísa tillögunni til umhverfis- og skipulagsráðs og umhverfis- og skipulagssviðs.

5. Fram fer umræða um lóðaúthlutanir Reykjavíkurborgar á fyrstu þremur árum kjörtímabilsins á lóðum fyrir fjöleignarhús með fleiri en fimm íbúðum.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Einstrengisleg þéttingar- og lóðarskortsstefna meirihlutans í borginni hefur valdið miklum húsnæðisvanda og hækkun húsnæðisverðs. Fasteignafélögin hafa ráðið ferðinni í borginni á lóðum sem hafa verið í höndum þessara félaga eða banka í mörg ár enda hefur stefna meirihlutans verið sú að úthluta helst ekki fjölbýlishúsalóðum. Aðgerðarleysið við lóðaúthlutanir hefur skapað mikinn vanda. Uppbyggingin hefur gengið hægt og eftirspurnin er langt umfram framboð sem hefur haft í för með sér hærra húsnæðisverð. Þétting byggðar á lóðum sem eru í höndum annarra aðila hefur ekki leyst húsnæðisvandann. Staðan í dag væri allt önnur ef það hefði verið farið strax í upphafi kjörtímabilsins í að skipuleggja meiri byggð í Úlfarsárdal og úthluta fjölbýlishúsalóðum þar eins og minnihlutinn hefur ítrekað bent á. Á þessu kjörtímabili var úthlutað lóð undir eitt fjöleignarhús með fleiri en 5 íbúðum 2014, fyrir eitt slíkt hús 2015, 4 lóðum 2016 og í mars á þessu ári var tveimur slíkum lóðum úthlutað og fimm í maí. Ekkert þessara húsa á lóðunum sem úthlutað hefur verið á kjörtímabilinu, þ.e. á síðastliðnum þremur árum, er komið lengra en á byggingarstig 4 sem er fokheldi. Þetta er nú öll framtakssemi meirihlutans í borginni á fyrstu 3 árum kjörtímabilsins í einum mesta húsnæðisvanda í Reykjavík í áratugi.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Fjöldi lóðaúthlutana endurspeglar ekki á nokkurn hátt umfang uppbyggingarinnar í Reykjavík þar sem metár í uppbyggingu á íbúðarhúsnæðis standa nú yfir. Þúsundir íbúða eru í byggingu á reitum sem áður hefur verið úthlutað í tengslum við þéttingu byggðar. Fagaðilar spá því að innan fárra ára verði jafnvægi náð á húsnæðismarkaði þar sem Reykjavík dregur vagninn í uppbyggingunni.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir bókun borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina í húsnæðismálum og lóðaúthlutunum.

6. Kosning forseta borgarstjórnar til eins árs og tveggja varaforseta.

   Forseti er kosinn Líf Magneudóttir með 9 atkvæðum.

1. varaforseti er kosinn Elsa Hrafnhildur Yeoman með 9 atkvæðum.

- Kl. 17.55 víkur Dagur B. Eggertsson af fundinum og Dóra Magnúsdóttir tekur þar sæti.

2. varaforseti er kosinn Halldór Auðar Svansson með 9 atkvæðum

7. Kosning tveggja skrifara til eins árs og tveggja til vara.

Lagt er til að Magnús Már Guðmundsson og Marta Guðjónsdóttir verði kjörnir skrifarar og að varaskrifarar verði kjörin þau Heiða Björg Hilmisdóttir og Kjartan Magnússon.

Samþykkt.

8. Kosning sjö borgarráðsfulltrúa til eins árs og sjö til vara. Lagt er til að eftirtaldir borgarfulltrúar taki sæti í borgarráði:

   S. Björn Blöndal

   Heiða Björg Hilmisdóttir

   Líf Magneudóttir

   Halldór Auðar Svansson

   Halldór Halldórsson

   Kjartan Magnússon

   Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Jafnframt er lagt til að eftirtalin verði kosin varamenn:

   Elsa Hrafnhildur Yeoman

   Hjálmar Sveinsson

   Elín Oddný Sigurðardóttir

   Þórgnýr Thoroddsen

   Áslaug María Friðriksdóttir

   Marta Guðjónsdóttir

   Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir

Samþykkt.

9. Kosning fimm manna í stjórn Faxaflóahafna sf. til eins árs og fimm til vara; formannskjör. Lagt er til að eftirtalin verði kosin í stjórnina:

Dagur B. Eggertsson

Líf Magneudóttir

S. Björn Blöndal

Þórlaug Ágústsdóttir

Marta Guðjónsdóttir

Jafnframt er lagt til að eftirtalin verði kosin varamenn:

Gunnar Alexander Ólafsson

Elín Oddný Sigurðardóttir

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Eva Lind Þuríðardóttir

Halldór Halldórsson

Samþykkt með 13 atkvæðum. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.

Formaður er kjörinn án atkvæðagreiðslu Dagur B. Eggertsson.

10. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 8. og 15. júní.

- 26. liður fundargerðarinnar frá 15. júní, tillaga að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2017 vegna SFS o.fl., samþykktur.

- 35. liður fundargerðarinnar frá 15. júní, tillaga borgarstjóra vegna Víkings, samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. júní:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins árétta þá skoðun sína að mikilvægt sé að grípa sem fyrst til úrbóta í húsnæðismálum Melaskóla. Ljóst er að þær sjálfsögðu viðhaldsframkvæmdir sem unnið verður að í skólanum í sumar, t.d. málning veggja og gólfbón, duga ekki til að leysa þann bráðavanda sem við er að etja. Margt mælir með því að þessi vandi verði helst leystur með því að bæta við tveimur færanlegum kennslustofum og/eða skoða leigu á rýmum í nágrenni skólans sem nefnd hafa verið í þessu sambandi. Umrætt viðbótarhúsnæði yrði tímabundin bráðabirgðalausn þar til viðbygging leysir vandann til framtíðar. Vel þarf að standa að verki ef leysa á vandann fyrir skólabyrjun í haust og það veldur því vonbrigðum að fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans skuli ítrekað fresta afgreiðslu málsins. Óska fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir því að málinu verði ekki frestað frekar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. júní:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja fyrirliggjandi tillögu sem felur m.a. í sér óhjákvæmilegar viðgerðir og endurbætur vegna leka í kjallara íþróttahúss Knattspyrnufélagsins Víkings. Jafnframt óska fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir því að sem fyrst verði staðið við það fyrirheit sem borgarráð gaf Víkingi um stækkun athafnasvæðis félagsins á aldarafmæli þess árið 2009. Í þessum mánuði verða átta ár liðin frá því að umrætt fyrirheit var samþykkt samhljóða í borgarráði og sætir furðu að enn hafi ekki verið gengið formlega frá því.

11. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 16. júní, íþrótta- og tómstundaráðs frá 9. júní, mannréttindaráðs frá 13. júní, menningar- og ferðamálaráðs frá 12. júní, skóla- og frístundaráðs frá 7. júní, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 12. júní, umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. og 14. júní og velferðarráðs frá 1. júní.

12. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fella niður reglulega borgarstjórnarfundi í júlí og ágúst nk. skv. heimild í 4. mgr. 8. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. Í sumarleyfi borgarstjórnar fer borgarráð með sömu heimildir og borgarstjórn hefur ella.

Samþykkt.

Fundi slitið kl. 18.25

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Líf Magneudóttir

Magnús Már Guðmundsson    Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 20.6.2017 - prentvæn útgáfa