Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2014, þriðjudaginn 20. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar auk borgarstjóra eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Sigurður Björn Blöndal, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Dagur B. Eggertsson, Oddný Sturludóttir, Hjálmar Sveinsson, Hildur Sverrisdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram tillaga að menningarstefnu Reykjavíkurborgar 2014-2020, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. maí sl.
Samþykkt með 15 atkvæðum.
2. Lögð fram tillaga að stefnu Reykjavíkurborgar í fjölmenningarlegu skóla- og frístundastarfi, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. maí sl.
Samþykkt með 15 atkvæðum.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarstjórn samþykkir að stofna starfshóp sem hafi það markmið að útfæra tilraunaverkefni um styttingu vinnudags án launaskerðingar. Markmiðið með tilraunaverkefninu verði að kanna áhrifin á heilsu, vellíðan, starfsanda og þjónustuna, bæði með tilliti til gæða og hagkvæmni. Velja skal starfsstað á sviði velferðar eða fræðslu, þar sem starfsfólk vinnur undir miklu álagi. Borgarritara verði falið að skipa starfshópinn en í honum verði, auk kjörinna fulltrúa, sérfræðiþekking á sviði vinnuverndar, lýðheilsu og mannauðsmála. Fulltrúar viðkomandi stéttarfélaga verði hluti af starfshópnum þegar starfsstaður hefur verið ákveðinn. Val á vinnustað og útfærsla verkefnisins verði lögð fyrir borgarráð fyrir 1. október nk.
Samþykkt með 15 atkvæðum.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Í þeim tilgangi að auðvelda einstaklingum og fyrirtækjum að hefja uppbyggingu í Reykjavík er lagt til að reglur um sölu byggingarréttar verði rýmkaðar. Einstaklingum verði aftur boðið að fá 90% af kaupverði byggingarréttar að láni til 8 ára eins og verið hefur. Fyrri ákvörðun um að fella niður lán til einstaklinga verði felld úr gildi. 7% staðgreiðsluafsláttur verði tekinn upp að nýju. Boðinn verði afsláttur til þeirra sem kjósa að byggja minna en byggingaheimildir leyfa þannig að kaupverð byggingarréttar lækki til samræmis við minna byggingarmagn og geti þannig lækkað um allt að 30%. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breyttar reglur um sölu byggingarréttar fyrir fjölbýlishús verði hluti af nýjum og rýmri reglum um sölu byggingarréttar.
Samþykkt með 15 atkvæðum að vísa tillögunni til borgarráðs.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Með nýjum reglum um úthlutun lóða í Reykjavík þrengir meirihluti borgarstjórnar að möguleikum einstaklinga á því að festa kaup á lóðum. Fram til þessa hafa einstaklingar átt þess kost að velja á milli þess að staðgreiða lóðir og fá 7% staðgreiðsluafslátt eða taka lán til átta ára fyrir 90% af andvirði lóðarinnar. Þessi lán hafa verið vaxtalaust fyrstu 6 mánuðina. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu veita þessa þjónustu og bjóða lánafyrirgreiðslu og staðgreiðsluafslátt. Það hefur Reykjavíkurborg líka gert um áratugaskeið en það breyttist í þessum mánuði þegar meirihlutaflokkarnir, Samfylking og Besti flokkur, samþykktu í borgarráði breytingar á úthlutunarreglunum og afnámu lánamöguleika og staðgreiðsluafslátt til einstaklinga. Með þessu er verið að fara í öfuga átt við öll fyrirheit um að styðja við uppbyggingu í borginni. Eiginlega er ótrúlegt að í nýjum úthlutunarreglum skuli lóðarverð í fjölbýlishúsum enn miðast við fjölda íbúða en ekki við fermetrafjölda hússins. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að miða lóðarverð fjölbýlishúsa við fermetrafjölda í stað íbúðafjölda hefur enn ekki tekið gildi. Tillagan mun auðvelda uppbyggingu minni íbúða á lægra verði og kemur til móts við óskir ungs fólks um minni íbúðir á hagstæðu verði. Engar skýringar hafa verið gefnar á því af hverju tillagan er ekki tekin upp í nýjum reglum um sölu byggingarréttar. Í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási eru lausar lóðir fyrir einbýlishús, raðhús og parhús. Alls eru þetta 166 íbúðareiningar. Útboð lóða á miðju síðasta ári í þessum hverfum skilaði litlum árangri en einungis þriðjungur þeirra lóða sem boðnar voru seldist í útboðinu. Með útboðinu var ýtt undir hærra lóðarverð en hlutverk sveitarfélaga við núverandi aðstæður hlýtur að vera að halda lóðarverði eins hagstæðu fyrir húsbyggjendur og kostur er. Frestur til að skila inn tilboðum rann út 1. júlí 2013 og frá þeim tíma hafa engar nýjar lóðir verið seldar á föstu verði í borginni eða í 11 mánuði. Reykjavíkurborg hefur orðið undir í samkeppni um íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Lóðarskortur og hátt verð lóða skýra það að miklu leyti. Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir minni íbúðum aukist. Samkvæmt nýjum reglum um sölu byggingarréttar hækkar lóðaverð einbýlishúsa ef byggt er stærra en 375. Eðlilegra er að lóðarverð lækki vilji húsbyggjendur byggja minna og að lækkun geti numið 30% af lóðarverði og lækki í hlutföllum. Svipaðar reglur hafa gefist vel í öðrum sveitarfélögum.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Lánastarfsemi Reykjavíkurborgar við úthlutanir á lóðum er hugsanlega barn síns tíma. Ný lög um neytendalán leggja miklar og ríkar skyldur á herðar lánveitenda. Er það mat sérfræðinga borgarinnar að umfang slíkrar lánastarfsemi sé það lítil að það réttlæti ekki að byggja upp nauðsynlega sérfræðiþekkingu til að sinna þessari starfsemi. Tillögunni er vísað til borgarráðs til frekari skoðunar en jafnframt er eðlilegt að þeirri spurningu sé velt upp hvort slíkri lánastarfsemi sé ekki betur komið hjá almennum lánastofnunum.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Skipuð verði nefnd sérfræðinga í neytendalánum sem geri tillögur til ráðsins að því hvernig laga má lánastarfsemi borgarinnar vegna sölu byggingarréttar að nýju lagaumhverfi. Nefndin geri einnig tillögur til borgarráðs að því hvernig lán borgarinnar til húsbyggjenda verði sem best útfærð.
Samþykkt með 15 atkvæðum að vísa tillögunni til borgarráðs.
6. Fram fer umræða um skóla- og frístundamál.
- Kl. 17.10 víkur Dagur B. Eggertsson af fundi og Björk Vilhelmsdóttir tekur þar sæti.
7. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 8. maí.
- Kl. 17.20 víkur Kjartan Magnússon af fundi.
8. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 15. maí.
- 18. liður fundargerðarinnar; tillaga um sumarafgreiðslutíma sundstaða, er samþykktur með 14 atkvæðum.
- 25. liður fundargerðarinnar; samþykktir fyrir nýtt borgarsafn, er samþykktur með 14 atkvæðum.
9. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 16. maí, íþrótta- og tómstundaráðs frá 9. maí, mannréttindaráðs frá 25. mars, 8. apríl og 6. maí, skóla- og frístundaráðs frá 7. og 14. maí, umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. og 14. maí og velferðarráðs frá 15. maí.
Fundi slitið kl. 17.39
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Eva Einarsdóttir Áslaug Friðriksdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 20.5.2014 - prentvæn útgáfa