Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2021, þriðjudaginn 20. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:03. Voru þá komnir til fundar eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Aron Leví Beck, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Borgarstjóri og eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Örn Þórðarson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram tillaga að alþjóðastefna Reykjavíkur til 2030, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. mars 2021. R21010287
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Alþjóðastefna Reykjavíkur er afrakstur vandaðrar vinnu þar sem áskoranir, markmið og tækifæri í alþjóðastarfi borgarinnar voru kortlögð í víðtæku samráði. Framtíðarsýn stefnunnar er að Reykjavík sé græn, opin og alþjóðlega sinnuð friðarborg sem hafi að leiðarljósi grunngildi lýðræðis, mannréttinda og sjálfbærrar þróunar. Lögð er áhersla á að skerpa á utanumhaldi um alþjóðamál og ferðir en einnig er hér verið að setja skýr markmið um alþjóðlegt samstarf borgarinnar í þágu borgarbúa svo að Reykjavík sé og verði borg tækifæranna. Ánægjulegt er að góð samstaða hafi nást um endurskoðaða alþjóðastefnu borgarinnar til 2030 sem tekur við af stefnu í erlendum samskiptum síðan 2005.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er að mörgu að hyggja í alþjóðasamstarfi. Meginmarkmið eftirfarandi stefnu byggir á fjórum þáttum; áhrif, mörkun og ímynd, samkeppnishæfni og þekkingarmiðlun. Þegar leitast er við að efla starf borgarinnar telur fulltrúi sósíalista nauðsynlegt að tryggja að ekki verði opnað á gjaldtöku í grunnkerfum líkt og skólum en einn kafli í alþjóðastefnunni snýr að því að fram fari greining á þörf og rekstrarumhverfi alþjóðaskóla í Reykjavík. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun en liðurinn snýr að því að greina þörf fyrir frekara starf alþjóðaskóla í Reykjavík og skoða rekstrarform alþjóðaskóla erlendis m.t.t. þess hvort um opinberan, blandaðan eða einkarekstur er að ræða, og máta við íslenskan veruleika. Fulltrúi sósíalista tekur undir mikilvægi þess að skoða hvort þörf sé á alþjóðaskóla en telur gríðarlega mikilvægt að skólastarf verði ekki einkavætt. Varðandi framtíðarsýn stefnunnar þá snýr hún m.a. að því að Reykjavíkurborg sé friðarborg, þar væri t.a.m. hægt að taka undir ákall ICAN (International Campaign to Abolish Nuclear Weapons). Þar hafa borgir víðsvegar um heim sameinast í ákalli gegn kjarnorkuvopnum. Reykjavíkurborg er kjarnorkulaust svæði en með þessu mætti hvetja ríkisstjórnina til að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum og þannig myndi borgin leggja sitt lóð á vogarskálina í mikilvægu samstarfi.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Alþjóðastefna Reykjavíkurborgar til 2030 í erlendum samskiptum endurspeglar vart þróun síðustu ára með sístækkandi hlutverki borga á alþjóðavettvangi. Margt er gott í stefnunni en áhyggjur eru af því sem fram kemur t.d. að „sérstaka starfsmenn þarf til að sinna alþjóðlegu samstarfi.“ Auka þjónustu við kjörna fulltrúa – t.d. vegna ferðalaga og móttaka og til að setja þá inn í ýmis alþjóðamál. Hér vill fulltrúi Flokks fólksins minna á að huga þarf að kostnaði eins og í svo mörgu öðru en farið hefur verið offari í sóun þegar kemur að ferðalögum meirihlutans og embættismanna erlendis, fram að COVID. Samskipti eiga að vera í gegnum fjarfundi nema í undantekningartilfellum. Annað sem vekur áhyggjur er að sagt er að nota eigi „skilvirkar snjalllausnir og ráða fleira starfsfólk“. Hér hræða sporin og mikilvægt er að opna ekki enn á ný á stjórnlaus útgjöld eins og nú þegar hefur verið gert á sviði þjónustu og upplýsingatækni í verkefni sem hafa hvorki verið skilgreind til hlítar né hafa sýnileg markmið. Þekkingarmiðlun er í ójafnvægi – miklu er miðlað en minna sótt. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á að hægt er að sækja meiri þekkingu til annarra borga og taka til fyrirmyndar borgir sem viðhafa góða og ábyrga stjórnsýslu.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að hefja undirbúning að snjallvæðingu á grunnskólastarfi í Reykjavík. Snjallvæðingin feli í sér (a) annars vegar uppsetningu sköpunarsmiðja (Fab Lab) í sérhverju borgarhverfi sem samnýttar verði af grunnskólum og almenningi innan hverfa og (b) hins vegar styrkveitingar til allra grunnskóla í Reykjavík, óháð rekstrarformi, til uppsetningar snjallstofa. Snjallvæðingin verði hluti af þeirri stafrænu umbreytingu sem boðuð hefur verið, og ráðgert að verja allt að 10% af þeirri 10 milljarða fjárfestingu til snjallvæðingar á grunnskólastarfi. Skóla- og frístundasviði verði falin nánari útfærsla í samráði við samtök hagaðila og aðra þá sem fara með málefni nýsköpunar, menntunar og tækni.
Greinargerð fylgir tillögunni. R21040200
Tillögunni er vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks harma að tillaga um snjallvæðingu grunnskólastarfs hafi ekki fengið brautargengi. Áform meirihlutans um óskilgreind verkefni fyrir óskilgreint fé til snjallvæðingar grunnskóla eru ótrúverðugar og vekja réttmætar áhyggjur af ráðstöfun almannafjár við stafræna umbreytingu Reykjavíkurborgar. Stafræna umbreytingin er jákvætt skref, en hún má ekki breytast í stefnulaust rekald – hún verður ávallt að byggja á skýrum áætlunum og fela í sér bætta þjónustu við íbúa og hagræði til lengri tíma. Á þessari stafrænu vegferð verður gríðarlega mikilvægt að innleiða aukna tækni í skólastarf og efla tæknifærni bæði nemenda og kennara. Það er lykilatriði að skólakerfið tryggi jöfn tækifæri fyrir öll börn til að þroska hæfileika sína og finna þeim viðeigandi farveg. Hugmyndum Sjálfstæðisflokks um snjallvæðingu á grunnskólastarfi í Reykjavík var ætlað að mæta áskorunum fjórðu iðnbyltingarinnar og tryggja börnum mikilvæga þjálfun í færniþáttum framtíðar. Grunnskólakerfið verður að bjóða réttu aðstöðuna og verkfærin fyrir nemendur að afla þekkingar í raunvísindum, tækni og sköpun, svo betur megi undirbúa þau undir veruleika framtíðar. Sjálfstæðisflokkurinn kallar eftir meiri metnaði við framþróun skólastarfs í Reykjavík.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Stafræn umbreyting eða snjallvæðing skóla- og frístundastarfs er hluti af stærsta fjárfestingarverkefni borgarinnar þessi misserin og markmiðið er að hraða innleiðingu stafrænnar upplýsingatækni með nýjum búnaði, fjölbreyttri starfsþróun, aukinni kennslufræðilegri ráðgjöf og stuðningi við starfsfólk svo árangurinn verði raunveruleg jákvæð bylting í starfs- og kennsluháttum í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Fjárfestingin nemur 10 milljörðum í borgarkerfinu öllu en talið er að hlutdeild skólasamfélagsins í þessari stafrænu byltingu verði vel á 4. milljarð króna á næstu þremur árum. Stafræna byltingin er því á fullri ferð og er tillögunni vísað frá á þeim forsendum.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista styður mikilvægi snjallvæðingar í grunnskólum og uppbyggingar sköpunarsmiðja (Fab Lab) í sérhverju borgarhverfi, þannig getur almenningur innan hverfa einnig nýtt sér sköpunarsmiðjuna. Hér var lagt til að verja allt að 10% af 10 milljarða fjárfestingu snjallvæðingar í verkefnið. Meirihlutinn vísar tillögunni frá m.a. á grunni þess að fyrirhugað er að verja meira fjármagni í snjallvæðingu grunnskóla en samkvæmt skilningi fulltrúa sósíalista eru það ekki nákvæmlega sömu verkefni og fjallað er um í framlagðri tillögu. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að skýrt sé gagnvart borgarbúum hvernig 10 milljarða fjárfestingin verði útfærð. Skiljanlega þarf að vinna slíkt með skólasamfélaginu en mikilvægt er að það liggi síðan fyrir með aðgengilegum hætti svo að borgarbúar geti kynnt sér málin og fylgst með.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins styður tillögu um snjallvæðingu í grunnskólastarfi í Reykjavík en setja þarf verkefnið í hendur ábyrgra aðila og þeirra sem hafa þekkingu og skilning á snjallvæðingu sem snýr beint að börnunum og námi þeirra. Skilgreind markmið og mælanlegir verkferlar verða að vera til staðar þegar verið er að sýsla með fjármuni borgarinnar. Skynsamlegast væri að færa hluta þessara 10 milljarða sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur fengið nánast frítt spil með yfir á skóla- og frístundasvið sem myndi halda utan um Fab Lab og snjallvæðingu skólanna. Það er aldrei að vita nema að hugmyndaauðgi grunn- og framhaldsskólanema (Fab Lab) myndu skila fyrr af sér lausnum og draga þar með úr milljarða ráðgjafakaupum til einkafyrirtækja. Þrátt fyrir að miklum fjármunum hafi nú þegar verið veitt í stafræna umbreytingu og snjalllausnir er ekki að finna mikið af lausnum. Benda má á þetta fræga gróðurhús en í það hafa farið milljónir ef ekki milljarðar þrátt fyrir að vera aðeins „jarðvegur“ eins og meirihlutafulltrúi lýsir því, eða „prósess þar sem útkoman skiptir engu máli“. Einnig mætti nýta þær lausnir sem til eru nú þegar og hafa virkað vel, t.d. í skólakerfum annarra landa eins og raunin virðist vera með Fab Lab (sköpunarsmiðja).
- Kl. 16:45 víkur Skúli Helgason af fundinum og Dóra Magnúsdóttir tekur þar sæti.
- Kl. 18:50 víkja Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og tengjast honum með fjarfundarbúnaði. Hildur Björnsdóttir víkur af fundi á sama tíma og Þórdís Pálsdóttir tekur sæti í gegnum fjarfundarbúnað.
3. Lögð fram tillaga að nýju deiliskipulag fyrir Skerjafjörð Þ5 ásamt fylgiskjölum, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. mars 2021. R20060271
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram málsmeðferðartillögu um að málinu verði frestað. Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir Skerjafjörð Þ5 er samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum Eyþórs Laxdals Arnalds, Mörtu Guðjónsdóttur, Björns Gíslasonar, Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur, Þórdísar Pálsdóttur, Valgerðar Sigurðardóttur og Arnar Þórðarsonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins ásamt borgarfulltrúum Miðflokksins og Flokks fólksins.
Katrín Atladóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Deiliskipulag fyrir fyrsta áfanga uppbyggingar nýs Skerjafjarðar felur í sér sjálfbæra, blandaða byggð með um 690 íbúðum, leik- og grunnskóla, verslun, þjónustu og útivistarsvæði. Íbúðirnar verða af öllum stærðum og gerðum, m.a. undir hatti verkefnisins Hagkvæmt húsnæði þar sem byggt verður fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur, ásamt því sem Bjarg byggir íbúðir fyrir sína félagsmenn og Félagsstofnun stúdenta fyrir stúdenta. Í hverfinu verður áhersla lögð á forgang gangandi og hjólandi, hæga umferð og öflugar tengingar við almenningssamgöngur. Öll bílastæði lóða verða í miðlægu bílastæðahúsi þar sem verður matvöruverslun og þjónusta á jarðhæð. Sérbýli og raðhús verða í nýja hverfinu og tengja þau nýja hverfið við gróna byggð í Skerjafirði. Innar í nýja hverfinu verða námsmannaíbúðir og hagkvæmt húsnæði. Gert er ráð fyrir grænu neti opinna svæða og gönguleiðum í gegnum inngarða í anda Þingholtanna. Tenging nýja Skerjafjarðar við atvinnukjarna, háskóla og vistvæna samgöngumáta gerir hann enn fremur að eftirsóknarverðum stað til að búa á. Við fögnum þeirri uppbyggingu sem áætluð er í fyrsta áfanga deiliskipulagsins og samþykkjum tillöguna.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ótímabært að tekin sé endanleg ákvörðun um nýja byggð í Skerjafirði þar sem ýmsum rannsóknum og álitamálum er ólokið. Í fyrsta lagi eru áformaðar landfyllingar komnar í umhverfismat sem er ólokið og því alger óvissa um stærð skipulagssvæðisins og þar með fjölda íbúða og íbúa. Þá er Náttúrufræðistofnun með það til skoðunar að strandlengjan við Skerjafjörð verði friðuð í samræmi við samþykkt Alþingis frá 2004. Í öðru lagi hefur Vegagerðin óskað eftir að fram fari heildrænt samgöngumat en því er enn ólokið, en gert er ráð fyrir þreföldun íbúa í hverfinu með tilheyrandi álagi á umferð.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista leggur áherslu á mikilvægi þess að húsnæðisuppbygging verði aftengd markaðsvæðingu, á þessum reitum sem og öðrum, þ.e.a.s. að litið verði á uppbyggingu á heimilum fólks sem réttindi en ekki tækifæri til gróðasjónarmiða. Enda er húsnæði ein grunnforsenda velferðar. Í gögnum með tillögunni kemur fram að „Íbúðir eru ætlaðar fyrir almennan markað og einnig til úthlutunar til húsnæðisfélaga án hagnaðarsjónarmiða í samræmi við hússnæðisstefnu Reykjavíkurborgar.“ Í ljósi þess að fjöldi Reykvíkinga er á bið eftir húsnæði hjá borginni og margir greiða mjög hátt hlutfall ráðstöfunartekna sinna í húsnæði telur fulltrúi sósíalista mikilvægt að tryggja að enn fleiri íbúðir verði utan almenna markaðarins. Núverandi húsnæðisstefna hefur greinilega ekki mætt öllum íbúum en grundvallarmarkmið í húsnæðisstefnunni er: „Öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir alla borgarbúa.“ Staðan er greinilega ekki þannig nú og því eðlilegt að endurskoða húsnæðisstefnuna svo að þörfum allra borgarbúa sé mætt.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Nýtt deiliskipulag fyrir Skerjafjörð Þ5 er til afgreiðslu og hefur verið samþykkt af meirihlutanum. Með því að samþykkja tillöguna er stoppað í hvert gat í kringum flugvöllinn. Skerjafjörðurinn og málefni hans hafa verið lengi á dagskrá í borgarstjórn og þá ekki síst vegna fyrirhugaðra landfyllinga og auðvitað vegna flugvallarins. Þótt ákvörðun um landfyllingu sé ekki hluti af þessari afgreiðslu þá eru áform um landfyllingar á þessum stað óásættanlegar enda skerðing á fjöru. Skerjafjörðurinn og uppbygging hans hefur margar hliðar. Umferðarmálin er einn flötur sem dæmi og einnig hvort flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni til langs tíma eða verði fluttur annað eftir 10-20 ár. Ekki er hægt að segja til um hvað verður á þessu stigi máls. Fulltrúi Flokks flokksins hafnar ekki alfarið að einhver uppbygging eigi sér stað í Skerjafirði en í raun er erfitt að fullgera nokkuð skipulag á meðan framtíð flugvallarins er óljós. Það væri þroskamerki hjá þessum meirihluta að ákveða ekki neitt með Skerjafjörðinn nú þegar aðeins eitt ár er eftir af valdatíð hans. Fari flugvöllurinn þá verður allt annað landrými undir til skipulagningar fyrir húsabyggð. Eðlilegt væri að meirihlutinn leyfði þeim næsta að taka þennan bolta. Skerjafjörðurinn er verðmætt svæði með blómlega náttúru og hefur tilfinningagildi fyrir fjölmarga.
4. Fram fer umræða um Elliðaárdalinn, tæmingu Árbæjarlóns og framtíð Árbæjarstíflu. Einnig er lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 7. lið á dagskrá borgarstjórnar:
Borgarstjórn samþykkir og sammælist um að óskað verði eftir því við stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur að Árbæjarlónið verði fyllt að nýju í sumarstöðu í samræmi við gildandi deiliskipulag. Borgarstjóra verði falið að ræða við stjórnendur Orkuveitunnar hið fyrsta og fara fram á þessa ósk borgarstjórnar enda er Reykjavíkurborg eigandi Elliðaánna og fer með níutíu og þriggja prósenta hlut í Orkuveitu Reykjavíkur. Með þessu sýnir borgarstjórn vilja til þess að skapa frið um málið.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20110182
Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokks og Flokks fólksins að vísa tillögunni til meðferðar stýrihóps um Elliðaárdal.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Elliðaárdalurinn er lungu Reykjavíkur. Það er gerræðisleg aðgerð að tæma Árbæjarlón í skjóli nætur án tilskilinna leyfa eða í samráði við íbúa. Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur bendir á undirmenn sína. Það er ekki stórmannlegt ekki frekar en það er stórmannlegt af borgarstjóra að fría sig ábyrgð af þessum ólöglega gjörningi. Allir sem þekkja til í borginni vita að svona ákvarðanir eru ekki teknar nema með vilja, vitund og tilmælum frá borgarstjóra. Þetta er bara byrjunin. Nú er borgarstjóri að fara af stað með „stóra planið“ sem byrjar með tæmingu Árbæjarlóns. Næst verður hin 100 ára stífla rifin þrátt fyrir menningargildi hennar. Borgarstjóri ber það fyrir sig að Minjastofnun telji hana friðaða. Það breytir engu fyrir borgarstjóra, sbr. Þerneyjarsund í Álfsnesi. Atlagan er byrjuð að Árbæjarsafni með greinarskrifum um að Dillonshús þurfi að víkja. Skipulag byggðar neðan Ártúnsholts að Elliðaám – að Rafveituvegi þar sem fyrrum starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur fengu starfsmannabústaði rafstöðvarinnar ódýrt – er lengra komið að mínu mati en okkur er sýnt. Stórkostlegt jarðrask er búið að eiga sér stað sem liggur í útjaðri hinnar svokölluðu borgarlínu hægra megin þegar keyrt er austur Árbæjarbrekku. Ekki má gleyma í þessu samhengi stóru innrásinni í Elliðarárdalinn með leyfisveitingu fyrir BioDome.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Engin ástæða er til annars en að borgarstjórn taki afstöðu til þessarar tillögu, enda löngu tímabært að taka á þessu vandræðamáli af festu. Ákvörðun um tæmingu lónsins var og er raunar með hreinum ólíkindum enda voru ýmis lög brotin, þar með talið skipulagslög, en lónið er sýnt í sumarstöðu í deiliskipulagi og er því óheimilt að hrófla við lóninu án undangenginnar breytingar á deiliskipulagi og að fyrir liggi byggingar- eða framkvæmdaleyfi. Þetta staðfesti skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar, sem er einn æðsti embættismaður borgarinnar í skipulagsmálum í umsögn sinni til stýrihópsins um Elliðaárdalinn, dags. 4. desember, og einnig í samtali við Fréttablaðið 5. desember á síðasta ári en hann sagði að ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur um að tæma Árbæjarlón varanlega hafi ekki samræmst deiliskipulagi. Hann sagði enn fremur að ekki hefði verið haft neitt samráð við skipulagsyfirvöld í Reykjavík vegna málsins. Sé litið til nýs deiliskipulags Elliðaárdals sem samþykkt var í borgarstjórn 15. desember á síðasta ári má sjá að lónið er þar sýnt í sumarstöðu eins og var í deiliskipulagi frá 1994. Í nýja deiliskipulaginu er því gert ráð fyrir vatnsyfirborði ofan stíflunnar. Það er því ljóst að varanleg tæming lónsins er í andstöðu við deiliskipulagið.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í borgarráði 12. nóvember sl. var samþykkt einróma tillaga um að skipa stýrihóp sem hefur það hlutverk að vinna að tillögu í samráði við helstu hagsmunaaðila um mótvægisaðgerðir í kjölfar tæmingar lóns Árbæjarstíflu sem horfi m.a. til fuglalífs, annarrar náttúru og mannlífsins í dalnum. Einnig verði gerðar tillögur um framtíðarumhverfi svæðisins kringum Árbæjarstíflu og framtíð hennar nú þegar raforkuframleiðslu hefur verið hætt. Þá er hópnum ætlað að gera tillögur að forgangsröðun innviða til útivistar sem og framkvæmda tengdum bættu aðgengi á grundvelli nýs deiliskipulags og stöðu Elliðaárdals sem verndaðs svæðis, borgargarðs. Leiðarljós hópsins er að hafa hagsmuni lífríkisins og útivistar að leiðarljósi enda Elliðaár og dalurinn allur einstök náttúru- og útivistarperla. Þessi hópur er enn að störfum og hefur til 31. maí nk. til að skila tillögum til borgarstjóra um næstu skref í málinu. Það er við hæfi að leyfa þeim hópi að ljúka vinnunni áður en farið er fram með tillögur um fyllingar eða tæmingar á lóninu í Elliðaárdal.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Borgarstjórn samþykkir að innheimta ekki gjald fyrir leikskóladvöl, grunnskólamáltíðir, og frístundastarf á vegum borgarinnar, hjá þeim sem eru með minni tekjur en lágmarkslaun. Lágmarkstekjur fyrir fullt starf miðast nú við 351.000 krónur á mánuði. Á meðan tekjur öryrkja, fólks á fjárhagsaðstoð og annarra lágtekjuhópa eru svo lágar, samþykkir Reykjavíkurborg að gjaldtaka fari ekki fram fyrir þá þjónustu sem hún veitir til barna þeirra. Nú þegar hefur verið samþykkt að afnema gjaldtöku fyrir hvert barn sem er með lögheimili og á framfæri foreldris sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu. Um þjónustugreiðslur er að ræða þar sem verið er að tryggja börnum notenda fjárhagsaðstoðar aðgang að ákveðinni þjónustu borgarinnar. Sú tillaga er tilkomin úr vinnu stýrihóps sem fjallaði um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. Fátækt og skortur er víða í samfélaginu og það sem Reykjavíkurborg getur gert til að sporna gegn því er að afnema gjaldtöku hjá þeim fjölskyldum sem hafa lágar tekjur. Lagt er til að fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að útfæra efni tillögunnar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R21040201
Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista telur að þessi þjónusta eigi að vera gjaldfrjáls fyrir öll börn. Slíkar tillögur hafa ekki hlotið brautargengi og nú var leitast við að afnema gjaldtökuna hjá tekjulægstu borgarbúunum. Það var ekki meirihluti fyrir því.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Allar tillögur sem styðja við bakið á fátæku fólki eru tillögur sem Flokkur fólksins styður. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt mýmargar sambærilegar tillögur fram í borgarstjórn en þær ýmist felldar eða vísað frá. Ljóst er að grípa þarf til sértækra aðgerða ef vinna á að jöfnuði. Hvort sem ákveðið er að hafa þjónustu gjaldfrjálsa eð tekjutengda þá liggur fyrir að það þarf að gera meira fyrir foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði til að létta af þeim álagi sem fylgir því að vera fátækur. Eðlilegt er í samfélagi eins og okkar að lágtekjufólk sem oft eru einstæðir foreldrar, öryrkjar og námsmenn sem eru undir lánsviðmiðunarmörkum borgi minna eða ekkert fyrir þjónustu eins og leikskóla og frístund og þeir efnaðri borgi meira. Jöfnuður er ein mikilvægasta forsenda þess að öll börn nái að vaxa og dafna í samfélaginu. Dæmi um ójöfnuð er að börn tekjulágra foreldra stunda síður skipulagðar íþróttir og annað tómstundastarf. Foreldrar hafa þurft að grípa til frístundakorts barna sinna til að greiða frístundaheimili og þar með nýtist kortið ekki fyrir barnið til að velja sér tómstund eða íþrótt. Útbúa þarf tekjuviðmið til að hægt verði að styðja við tekjulágar fjölskyldur með viðbótarniðurgreiðslu á t.d. gjöldum frístundaheimila. Samfylkingin í borginni ætti að styðja þessa tillögu vilji hún vera samkvæm þeirri stefnu sem Samfylkingin boðar sem er jú að auka jöfnuð.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Samkvæmt kröfulýsingu fyrir hjúkrunar- og dvalarrými eiga heimilin að hafa hugmyndafræðilegar forsendur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að þau tvö hjúkrunarheimili sem borgin rekur verði rekin með Eden-hugmyndafræðina að leiðarljósi og samþykki einnig að hvetja hjúkrunarheimili í Reykjavík sem eru sjálfseignarstofnanir til að taka upp hugmyndafræðina hafi þau ekki gert það. Nokkur dvalar- og hjúkrunarheimili á landinu eru rekin sem Eden-heimili, t.d. Ás í Hveragerði og dvalar- og hjúkrunarheimilið á Akureyri. Eden-hugmyndafræðin snýst um að fólk haldi sjálfræði sínu og reisn þó flutt sé á hjúkrunarheimili og að heimilisfólk taki sjálfstæðar ákvarðanir um daglegt líf sitt. Líklegt þykir að á hjúkrunarheimilum í dag sé reynt að stuðla að því að fólk haldi sjálfstæði sínu en hugmyndafræði Eden gengur lengra og þá sérstaklega í áherslu sinni á lifandi umhverfi. Sérstök áhersla er lögð á samneyti kynslóðanna. Einnig er áhersla á að hver íbúi hafi eigin húsgögn/eigur, rík samskipti við yngri kynslóðina, nálægð við líffræðilegan fjölbreytileika/ræktun plantna og grænmetis auk þess sem íbúar hafa heimild til að halda gæludýr. Samneyti dýra og manna umbreytir hjúkrunarheimili í fjölbreytilegt og líflegt heimili. Að halda gæludýr dregur úr streitu, einmanaleika og þunglyndi og eykur gleði og samskiptahæfni meðal aldraðra.
Greinargerð fylgir tillögunni. R21040202
Vísað til meðferðar velferðarráðs.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillögu Flokks fólksins um að borgarstjórn samþykki að hjúkrunarheimili starfi eftir Eden hugmyndafræði hefur verið vísað í velferðarráð. Það boðar ekki gott því að í öll þau skipti sem tillögum Flokks fólksins hefur verið vísað til velferðarráðs beint úr borgarstjórnarsal þá eru þær felldar eða vísað frá á einhverjum næstu funda ráðsins. Hér er meirihlutinn að kaupa sér tíma því málið er viðkvæmt og treystir meirihlutinn sér ljóslega ekki til að fella tillöguna eða vísa henni frá hér og nú. Það hefði verið meirihlutanum að meinalausu að samþykkja þessa tillögu og verið sómi af. Þá hefðu hjúkrunarheimili borgarinnar tækifæri til að að skoða hana fyrir alvöru og hin heimilin sem eru sjálfseignastofnanir fengju hvatningu til að gera það saman. Í andmælum meirihlutans fær borgarfulltrúinn tvö valmöguleika, að samþykkja að vísa henni í velferðarráð eða draga hana til baka. Fulltrúi Flokks fólksins vill aftur leggja áherslu á að Eden hugmyndafræðin er einstök. Allmörg heimili vinna eftir Eden hugmyndafræðinni og hafa sum gert lengi við mikla ánægju heimilisfólks, aðstandenda og starfsfólks. Ástæðan fyrir því að Eden er svo vinsæl er að hún felur í sér áhersluna á hlýju, nánd, sjálfstæði og valdi yfir eigin lífi. Rúsínan í hugmyndafræðinni er áherslan á samneytið við lífríkið, börn og dýr.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Eden-hugmyndafræðin er áhugaverð og byggir á fjölbreytileika til að auðga daglegt líf hvers íbúa. Meirihluti borgarstjórnar lagði til að tillögunni yrði vísað til velferðarráðs til umfjöllunar og samráðs. Ákvörðun um að innleiða hugmyndafræði þarf alltaf að taka í nánu samráði við stjórnendur, starfsfólk og íbúa hjúkrunarheimila.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Það hefði verið meirihlutanum að meinalausu að samþykkja þessa tillögu og verið sómi af. Þá hefðu hjúkrunarheimili borgarinnar fengið tækifæri til að skoða hana fyrir alvöru og hin heimilin sem eru sjálfseignarstofnanir fengið hvatningu til að gera það saman. Að vísa tillögunni í velferðarráð boðar ekki gott því að í öll þau skipti sem tillögum Flokks fólksins hefur verið vísað til velferðarráðs beint úr borgarstjórnarsal þá eru þær felldar eða vísað frá á einhverjum næstu funda ráðsins. Hér er meirihlutinn að kaupa sér tíma því málið er viðkvæmt og treystir meirihlutinn sér ljóslega ekki til að fella tillöguna eða vísa henni frá hér og nú.
7. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í skipulags- og samgönguráð. Lagt til að Aron Leví Beck taki sæti í skipulags- og samgönguráði í stað Rögnu Sigurðardóttur. Jafnframt er lagt til að Heiða Björg Hilmisdóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Arons. R18060086
Samþykkt.
8. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í velferðarráð. Lagt er til að Ellen Jacqueline Calmon taki sæti í velferðarráði í stað Rögnu Sigurðardóttur. R18060089
Samþykkt.
9. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 18. og 25. mars og 15. apríl. R21010001
- 13. liður fundargerðarinnar frá 18. mars; Laugavegur sem göngugata – deiliskipulag er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna á móti 9 atkvæðum Eyþórs Laxdals Arnalds, Mörtu Guðjónsdóttur, Björns Gíslasonar, Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur, Þórdísar Pálsdóttur, Valgerðar Sigurðardóttur, og Arnar Þórðarsonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins ásamt borgarfulltrúum Miðflokksins og Flokks fólksins. R19070069 Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
- 19. liður fundargerðarinnar frá 18. mars; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021, er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R21010107
- 40. liður fundargerðarinnar frá 15. apríl; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021, er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R21010107
- 41. liður fundargerðarinnar frá 15. apríl; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021 vegna COVID-19, er samþykktur. R21010107
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
- 43. liður fundargerðarinnar frá 15. apríl; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021 vegna fjárfestingaáætlunar 2021, er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R21030150
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. mars:
Tillagan er í samræmi við samþykkta stefnu borgarstjórnar frá september 2018 um að gera Laugaveginn að varanlegri göngugötu allt árið. Hér er verið að samþykkja annan áfanga sem nær yfir Laugaveg frá Klapparstíg að Frakkastíg auk Vatnsstígs. Tillagan gerir ráð fyrir auknum gróðri og mun stuðla að bættu umferðaröryggi fyrir gangandi vegfarendur sem fara um svæðið. Algild hönnun verður höfð að leiðarljósi við hönnun svæðisins sem mun hafa í för með sér bætt aðgengi fyrir allt fólk. Við fögnum þessum áfanga og samþykkjum tillöguna að lokinni auglýsingu.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. mars:
Frumdragaskýrsla hinnar svokölluðu borgarlínu kostaði tæpar 136 milljónir og er það ekki endanlegur kostnaður. Í svari frá Vegagerðinni kemur fram að ekki liggi fyrir nákvæmar vinnustundir hjá teyminu sem vann skýrsluna. Hvernig er þá hægt að skrifa á verkefnið 136 milljónir? Fjórir aðilar frá Vegagerðinni, Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ unnu að frumdrögunum og samkvæmt svarinu „stóð verkefnið straum af launakostnaði þeirra“ sem reynist vera 31 milljón. Þetta eru nýjar upplýsingar sem fara þvert á það sem kjörnum fulltrúum var áður sagt, þ.e. að þessir aðilar væru „lánaðir“ inn í verkefnið. Voru þessir aðilar á tvöföldum launum frá sínum vinnuveitenda og verkefninu? Mikils ósamræmis gætir í svarinu þegar spurt var um hvort farið hafi verið í útboð varðandi vinnu utanaðkomandi aðila. Fyrst er sagt að þeir hafi verið valdir eftir að leitað var tilboða gegnum rammasamning Ríkiskaupa og síðan segir að farið hafi verið í útboð. Augljóst er að ekki stendur steinn yfir steini á fjármálahlið þessarar frumdragaskýrslu. Hér hefur verið um galopinn tékka að ræða og margir sem hafa makað krókinn á grunni samtryggingar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. mars:
Borgarráð samþykkti nýlega að heimila þjónustu- og nýsköpunarsviði að hefja verkefnaklasa í stafrænum umbreytingum. Sjálfsagt er að veita fé í stafræna umbreytingu enda er borgin eftir á með flest í þeim efnum enn sem komið er. Eins og komið hefur fram í fjölda bókana Flokks fólksins telur borgarfulltrúinn að afar frjálslega sé farið með það fé sem veitt hefur verið í málaflokkinn. Ekki er gætt aðhalds og ráðvendni. Starfsfólk var rekið og verkefnum útvistað. Ráðgjafakaup eru óeðlilega mikil í þessum málaflokki, fram úr öllu hófi. Sett er fé í tilraunastarfsemi á stafrænum verkefnum án þess að skilgreina hvert það leiðir. Minnt er á að til eru þessar lausnir nú þegar hjá flestum fyrirtækjum, stórum og smáum. Að verja milljörðum í hugmyndasmiðjur og nýsköpunarverkefni sem óvíst er að eitthvað komi út úr, er óverjandi. Með fagurgala og háfleygum lýsingum sem sjá má í svörum við fyrirspurnum, er reynt að fá fólk til að kaupa þá ímynd að verið sé að gera hér einhverja tímamótahluti sem leiði borgina á toppinn í stafrænni umbreytingu svo aldrei hafi sést annað eins. Allt er þetta undir merkjum græna plansins. Grænt eða ekki grænt, þá er þetta sóun og bruðl. Illa er farið með fjármuni borgarinnar sem ekki er hægt að horfa upp á.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Mikill undirbúningur liggur til grundvallar stafrænni umbreytingu borgarinnar. Að sjálfsögðu er ráðvendni gætt og er fullyrðingum um annað vísað á bug. Verið er að hraða stafrænni umbreytingu í þjónustu borgarinnar um fjöldamörg ár með það að markmiði að bæta þjónustu við borgarbúa. Liggur fyrir að þessi stafræna vegferð mun kalla á um 60-80 ársverk sem mun skiptast í aðkeypta þjónustu og tímabundin stöðugildi eftir því hvað hagkvæmast er hverju sinni. Tilbúnar lausnir eru keyptar þar sem það er skynsamlegt. Hér er um að ræða fjárfestingu sem mun spara mikið til lengri tíma eins og verkefni sem þegar hafa verið unnin hafa sýnt. Þjónustuþörfin er stanslaust að aukast og til að fletja út kúrvuna á aukinni þörf á fjölgun starfa er hægt að mæta aðstæðunum með nútímavæðingu þjónustu og stafrænni umbreytingu um leið og þetta leiðir til betri þjónustu sem er aðgengilegri, hagkvæmari og umhverfisvænni. Það gengur ekki að fullyrða að það þurfi nauðsynlega að ráðast í stafræna umbreytingu en halda því svo fram að það sé algjör vitleysa að fjárfesta í nákvæmlega þessu.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Það fjáraustur og ábyrgðarleysi þjónustu- og nýsköpunarsviðs undir verndarvæng formanns mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og borgarstjóra sem fulltrúi Flokks fólksins hefur marglýst í bókunum sínum er með eindæmum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið það óþvegið fyrir að gagnrýna þetta, sökuð um vanþekkingu og fleira hálfu verra. Fulltrúi Flokks fólksins ætlar ekki að fara niður á þetta plan en biðlar þess í stað til formannsins að axla ábyrgð og spyrna við fótum. Spyrna átti við fótum þegar hópur kerfisfræðinga var rekinn og verkefnum þeirra útvistað. Ekki hefur verð sýnt fram á hagkvæmni með þeirri aðgerð. Einnig átti að spyrna við fótum þegar milljarðar streymdu til ráðgjafafyrirtækja greiðslur sem eru sumar ekki sundurliðaðar í opnu bókhaldi á vef borgarinnar. Spyrna átti við fótum þegar sérstakar skrifstofur voru settar á laggirnar í kringum ákveðin tilraunaverkefni sem jafnvel er hægt að fá fullbúin annars staðar eða hefði mátt setja í hendur nemenda grunn- og framhaldsskólanna (Fab Lab) til að þróa frekar. Reykjavík er sveitarfélag en ekki hugbúnaðarfyrirtæki eða hönnunar- og nýsköpunarfyrirtæki á heimsmælikvarða. Hér er ekki um að ræða milljónir heldur milljarða, vel á annan tuga milljarða þegar allt er tiltekið. Og hvað svo? Er þetta botnlaus brunnur sem halda á áfram að hella í?
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Meirihluti borgarstjórnar er metnaðarfullur þegar kemur að þjónustu við fólk. Þess vegna er verið að endurhanna þjónustuna á forsendum notandans. Tilbúnar lausnir eru keyptar þar sem það er hagkvæmt. Verkefnum er ýmist útvistað eða unnin innanhús byggt á því hvað er hagkvæmt fyrir útsvarsgreiðendur Reykjavíkurborgar og byggt á því hvaða þekking er til staðar innan kerfis. Öll stór fyrirtæki og stofnanir sem veita mikilvæga þjónustu og taka sig alvarlega eru að vinna að stafrænni umbreytingu. Einfaldlega vegna þess að nútíminn krefst þess í takt við væntingar íbúa. Þessi fjárfesting kostar en sparar gríðarmikið til lengri tíma. Talið er að hagræðið af þessari stafrænu umbreytingu muni skapast á þremur til fimm árum eða jafnvel hraðar. Verkefni sem hefur verið lokið sýna mikinn ábata.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúi Flokks fólksins biðlar aftur til meirihlutans um að sýna hér ábyrgð, viðhafa gagnrýna hugsun og almenna heilbrigða skynsemi. Meirihlutanum sem völdin hafa er skylt að gæta þess ávallt að farið sé vel með fjármuni borgarinnar og gæta að hagræðingu og hagkvæmni. Standa þarf einnig vörð um störfin, ekki síst á þeim erfiðu tímum sem nú ríkja vegna kórónuveirufaraldursins. Minnt er á stöðu mála á biðlistum borgarinnar í hina ýmsu þjónustu. Á velferðarsviði og skóla- og frístundasviði vantar sárlega fjármagn. Rík ástæða er því að horfa í hverja krónu og finna ávallt hagkvæmustu leiðirnar að markmiðunum. Hér er um gríðarlega fjármuni að ræða.
10. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 16. apríl, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 11. og 25. mars og 8. apríl, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 22. mars og 12. apríl, skipulags- og samgönguráðs frá 24. mars og 7. og 14. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 23. og 25. mars og 13. og 14. apríl, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 17. mars og velferðarráðs frá 17. og 26. mars og 14. apríl. R21010063
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs:
Frá upphafi 20. aldar hafa miklar landfyllingar verið gerðar við strandlengju Reykjavíkurborgar og í dag eru náttúrulegar og óskertar fjörur lítill hluti strandsvæði borgarinnar. Áætlað er að fara í 13 hektara landfyllingu austan megin á ósasvæði Elliðaáa og reisa þar íbúðabyggð. Er stærðin á landfyllingunni langt yfir þeim mörkum sem krefst umhverfismats. Lýst er yfir miklum áhyggjum vegna villtra fiskitegunda í Elliðaám og er ljóst að um mikil og stórtækt inngrip er að ræða í þá einstöku náttúruperlu sem árnar eru inni í miðri höfuðborg landsins. Skipulagsstofnun telur að ekki sé unnt að taka afstöðu til þess hvort ásættanlegt sé að fara í 2. og 3. áfanga landfyllingar. Umhverfissóðarnir sem stjórna Reykjavík eira engu.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. og 10. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 23. mars og 7. og 8. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs 13. apríl:
Liður 9. og 10. í fundargerð 23. mars: Tillögur Flokks fólksins um hagsmuni barna af erlendum uppruna í leik- og grunnskóla voru felldar í skóla- og frístundaráði. Sláandi er hversu mörg þessara barna, sem hafa alist upp í Reykjavík eru illa stödd í íslensku. Skortur er á fjölbreyttari bjargráðum fyrir tvítyngd börn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur einnig gagnrýnt vöntun á samræmdum árangursmælingum í sérkennslu og öðrum úrræðum. Liðir 7. og 8. í fundargerð 13. apríl: Fulltrúi Flokks fólksins lagði til breytingar á niðurgreiðslum vegna þjónustu við dagforeldra. Ekki gengur upp að fólki sé refsað fyrir hvenær árs þau eignast börn og þurfi að greiða meira vegna dagvistunar barna því þau komast ekki í leikskóla. Tekið er undir með áheyrnarfulltrúa foreldra leikskólabarna að fagna beri endurskoðun gjaldskrár. Hvatt er til samræmingar skólastiga í gjaldtöku og að forráðafólk beri ekki aukinn kostnað þegar skortur er á leikskólaplássum. Einnig var tillaga að gjald skólamáltíða í leik- og grunnskólum verði lækkað hjá þeim verst settu felld með þeim rökum að „lækkun á gjaldi kæmi niður á gæðum máltíða.“ Fulltrúi Flokks fólksins er ósammála. Lækkun gjalds þýðir vissulega að hækka þarf framlag til sviðsins en ekki að dregið verði úr gæðum máltíða. Skárra væri það nú.
Fundi slitið kl. 23:12
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð
Pawel Bartoszek
Hjálmar Sveinsson Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjorn 20.4.2021 - prentvæn útgáfa