Borgarstjórn - 20.1.2015

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2015, þriðjudaginn 20. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.04. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

Forseti borgarstjórnar, Sóley Tómasdóttir kveður sér hljóðs utan dagskrár og minnist, fyrir hönd borgarstjórnar, Elínar G. Ólafsdóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa, sem lést þann 5. janúar sl. Borgarstjórn Reykjavíkur sendir fjölskyldu Elínar G. Ólafsdóttur samúðarkveðjur um leið og henni er þakkað fyrir störf sín í þágu Reykjavíkur.

1. Fram fer umræða um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. 

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að taka upp Hafnarfjarðarmódelið hvað varðar fjárhagsaðstoð. Með aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa skilgreindi Hafnarfjarðarbær og tók upp nýjar leiðir við að sinna fjárhagsaðstoð með afar góðum árangri á síðasta ári. Fleiri fengu vinnu og færri þurftu aðstoð sveitarfélagsins eftir að nýtt ferli var tekið í gagnið. Sá undraverði árangur náðist að kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar í nóvember á síðasta ári hafði lækkað um 40% frá því í janúar. Í Reykjavík hefur kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar ekki lækkað síðustu árin. Ljóst er að verulegir hagsmunir eru í húfi til að reyna að ná sama árangri og náðist í Hafnarfirði.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs. 

3. Fram fer umræða um ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina á dagskrá: 

Tillaga Framsóknar og flugvallarvina að símtöl hringjenda í þjónustuver, skv. 3.1.1. í þjónustulýsingu sameiginlegri ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu, verði gert gjaldfrjálst grænt númer án tafar. 

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina á dagskrá: 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja til að borgarstjórn samþykki að skipa tímabundið 3ja manna ad hoc aðgerðahóp án tafar sem leggja skal fram aðgerðaáætlun  fyrir stjórn Strætó bs. til að leysa það vandamál sem byggðasamlagið Strætó stendur frammi fyrir sem er að uppfylla skyldur sínar gagnvart ferðaþjónustumálum fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu. Aðgerðahópinn skipa einn fulltrúi sem tilnefndur er af Sjálfsbjörg, einn fulltrúi tilnefndur af meirihluta borgarstjórnar og einn fulltrúi minnihluta borgarstjórnar. Hópurinn skal skila niðurstöðum eigi síðar en 15. febrúar 2015.

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata  að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá:

Mikilvægt er að læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið með breytingum á ferðaþjónustu fatlaðra og greina sem flesta þætti þess máls. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar er falið að leggja mat á útboðsferli og skilmála vegna útboðs fyrir ferðaþjónustu fatlaðra. Útboðið verði skoðað í heild sinni. Lagt verði til dæmis mat á hvort tími sem gefinn var til fjárfestingar hafi verið fullnægjandi, reynsla bílstjóra og annars starfsfólks hafi verið nægilega hátt metin og hvort gefinn hafi verið nægilegur tími til þjálfunar þess. Þá verði skoðað hvort svigrúm Strætó bs. við mat á þátttakendum í útboðinu hafi verið nægilegt. 

Vísað til borgarráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Innleiðing á nýju skipulagi í ferðaþjónustu fatlaðra hefur gengið of hægt af mörgum ástæðum og því miður ekki hnökralaust. Enn eru vankantar á þjónustunni þótt ferðirnar gangi í flestum tilfellum vel en í hverri viku eru farnar hátt í 7000 ferðir. Símtalsbið hefur styst og bið eftir bílum hefur sömuleiðis minnkað. Ferðaþjónusta fatlaðra er mikilvæg og um leið viðkvæm þjónusta sem verður að vera í lagi. Nauðsynlegt er að fylgst sé grannt með að vel takist til við að koma gæðum þjónustunnar í það horf sem lagt var upp með þegar nýtt fyrirkomulag hennar var tekið upp. Einnig er mikilvægt að allir hlutaðeigandi dragi nauðsynlegan lærdóm af þessu til að fyrirbyggja að slíkt endurtaki sig.

4. Fram fer umræða um innkaup Reykjavíkurborgar.

Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina á dagskrá: 

Framsókn og flugvallarvinir leggja hér fram tillögu um að innkauparáði verði falið að gera nýja innkaupastefnu Reykjavíkurborgar þar sem tekið verði tillit til þeirra athugasemda sem koma fram í eftirfylgniskýrslu innri endurskoðenda Reykjavíkurborgar í janúar 2015 og að ný innkaupastefna verði lögð fyrir borgarráð fyrir 1. mars 2015. 

Vísað til borgarráðs. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Innri endurskoðun hefur fellt mikinn áfellisdóm yfir því hvernig staðið hefur verið að innkaupamálum hjá borginni. Innri endurskoðun gagnrýnir harðlega skort á eftirfylgni og utanumhaldi á þessum útgjaldalið. Innkaup sem voru rúmlega 9 milljarðar á síðasta ári eru meðal fjárfrekustu útgjaldaliða borgarinnar en enginn einn aðili hefur yfirsýn yfir öll innkaup og miðlæg stýring er takmörkuð. Í skýrslu innri endurskoðunar frá árinu 2010 voru settar fram 12 mjög skýrar ábendingar um úrbætur í innkaupamálum en þeim ábendingum hefur í engu verið sinnt. Á sama tíma vann innri endurskoðun með starfsfólki innkaupaskrifstofu að áhættumati og út úr þeirri vinnu komu 22 skilgreind umbótaverkefni. Ekkert hefur heldur verið gert með þessa vinnu. Verulega skortir á að upplýsingar um innkaup séu fullnægjandi og er það meðal þess sem er gagnrýnt. Unnin var samantekt og greining á innkaupamálum árið 2008 af Capacent en þar kemur fram að einungis 14% af innkaupum eru gerð með rammasamningum og miðlægum samningum. Nákvæmari upplýsingar liggja ekki fyrir en talið er að hlutfallstalan hafi hækkað. Um 1.200 starfsmenn hjá Reykjavíkurborg virðast hafa heimild til þess að gera innkaup upp á 7 milljarða á ári. Eins furðulegt og það kann að hljóma liggja ekki fyrir upplýsingar um það hversu mörg innkaupakort eru í notkun í Reykjavíkurborg. Lang stærstur hluti innkaupa er sem sagt án alls eftirlits. Ekki er gerð áætlun um innkaup í fjárhagsáætlun næsta árs sem dregur enn frekar úr utanumhaldi og gegnsæi.

5. Fram fer umræða um sorphirðu Reykjavíkurborgar.  

6. Fram fer umræða um hlutverk formanna fagráða á borgarstjórnarfundum.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir þakka góðar undirtektir borgarstjórnar varðandi hugmyndir sínar um að tryggja aðkomu formanna fagráða, sem eru varaborgarfulltrúar, að borgarstjórnarfundum þar sem málefnaleg umræða fer fram um stjórnun, stefnumörkun og eftirlit með starfsemi Reykjavíkurborgar. Til að tryggja lýðræðislega umræðu, samvinnu og beint aðgengi kjörinna fulltrúa verður að tryggja aðkomu formanna fagráða, sem eru varaborgarfulltrúar, að umræðunni vegna málefna viðkomandi fagráða.

7. Fram fer umræða um flugbraut NA-SV (06/24), svokallaða neyðarbraut.

- Kl. 21.58 víkur Áslaug Friðriksdóttir af fundi og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti. 

8. Lagt er til að Tomasz Chrapek og Björn Jón Bragason taki sæti í fjölmenningarráði og Kjartan Jónsson og Hildur Sverrisdóttir taki sæti varamanna í ráðinu.

Einnig er lagt til að Tomasz Chrapek verði kosinn formaður ráðsins. 

Samþykkt. 

9. Lagt er til að Guðrún Ágústsdóttir og Kjartan Magnússon taki sæti í öldungaráði og Helga Kristín Hjörvar og Áslaug Friðriksdóttir taki sæti varamanna í ráðinu. 

Einnig er lagt til að Guðrún Ágústsdóttir verði kosin formaður ráðsins.

Samþykkt. 

10. Lagt er til að Gústaf Níelsson taki sæti Katrínar Salimu Daggar Ólafsdóttur sem varamaður í mannréttindaráði.

Samþykkt með 10 atkvæðum.

Eftirtaldir borgarfulltrúar sitja hjá við afgreiðslu málsins: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dagur B. Eggertsson og Halldór Auðar Svansson. 

11. Lagt er til að Kjartan Þór Ingason taki sæti Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur sem varamaður í velferðarráði.

Samþykkt.

12. Samþykkt að taka kosningar í hverfisráð Laugardals á dagskrá. 

Lagt er til að Kristín Elfa Guðnadóttir taki sæti Björn Birgis Þorlákssonar í hverfisráði Laugardals og að Björn Birgir taki sæti Kristínar Elfu sem varamaður í ráðinu. 

Samþykkt.

13. Samþykkt að taka kosningar í heilbrigðisnefnd Reykjavíkur á dagskrá. 

Lagt er til að Björn Birgir Þorláksson taki sæti Viktors Orra Valgarðssonar í heilbrigðisnefnd. 

Samþykkt.

14. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 18. desember, 8. og 15. janúar. 

- 16. liður fundargerðarinnar frá 8. janúar, Laugavegur 120, breyting á deiliskipulagi, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

- 35. liður fundargerðarinnar frá 8. janúar, gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, samþykktur með 9 atkvæðum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðsluna. 

- 43. liður fundargerðarinnar frá 8. janúar, viðauki við fjárhagsáætlun vegna Atvinnutorgs, samþykktur. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram 

svohljóðandi bókun undir 16. lið fundargerðarinnar frá 8. janúar: 

Í gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir 1.000 fermetra bílakjallara undir þeim hluta lóðarinnar að Laugavegi 120 sem enn er óbyggður. Í nýrri tillögu að deiliskipulagi sem nú er send í auglýsingu hefur krafa um bílakjallara verið felld niður en byggingarmagn ofanjarðar aukið um þriðjung. Einungis er gert ráð fyrir 17 bílastæðum á lóð 7.000 fermetra hótels sem þarna mun rísa verði tillagan samþykkt. 30 bílastæði sem nú eru á lóð Laugavegar 120 eru felld niður í deiliskipulagstillögunni en auk þess stendur til að fella niður aðliggjandi 25 bílastæði sem eru á borgarlandi við Hlemm. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina telja að ekki eigi að fella niður kröfu um bílakjallara. Með nýju aðalskipulagi er verulega slakað á kröfum um bílastæði og eru afleiðingar þess þegar komnar í ljós. Enda þótt framkvæmdum við uppbyggingu á Hlemmssvæðinu sé einungis að hluta lokið hafa komið fram mjög ákveðnar raddir frá íbúum og þeim sem starfa á svæðinu um að skortur sé á bílastæðum og kröfur um að borgin bregðist við því. Ekki hafa verið mótaðar reglur Reykjavíkurborgar um greiðslur fyrir aukinn byggingarrétt á þegar byggðum lóðum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina telja að lóðarhafar eigi að greiða fyrir aukinn byggingarrétt hvort heldur er við úthlutun nýrra lóða eða þar sem byggingarmagn er aukið verulega í eldri hverfum.

15. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 16. janúar, íþrótta- og tómstundaráðs frá 12. og 19. desember, mannréttindaráðs frá 10. og 17. desember, menningar- og ferðamálaráðs frá 18. desember, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 15. desember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. desember, 7. og 14. janúar og velferðarráðs frá 18. desember og 8. janúar. 

- 3. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 16. janúar, breyting á samþykkt fyrir innkauparáð Reykjavíkurborgar, samþykktur með 9 atkvæðum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðsluna. 

- 4. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 16. janúar, ný samþykkt fyrir Borgarbókasafn Reykjavíkur, samþykktur með 13 atkvæðum. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðsluna.

Fundi slitið kl. 22.09

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Sóley Tómasdóttir

Skúli Helgason Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 20.1.2015 - prentvæn útgáfa