No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2020, þriðjudaginn 20. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 14:17. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Kristín Soffía Jónsdóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Aron Leví Beck, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Alexandra Briem, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Örn Þórðarson.
Fundurinn var haldinn sem fjarfundur með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fara óundirbúnar fyrirspurnir.
Eyþór Laxdal Arnalds borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um samgöngumál.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar beinir fyrirspurn til borgarstjóra um stöðu mála vegna COVID-19.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands beinir fyrirspurn til borgarstjóra um leigusamninga í Laugardal.
Borgarfulltrúi Miðflokksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um fjárhagsstöðu Strætó bs.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um velferðarmál.
2. Lögð fram ferðamálastefna Reykjavíkur 2020-2025, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. október 2020, ásamt uppfærðri tillögu að ferðamálastefnu Reykjavíkur, sbr. bréf menningar- og ferðamálasviðs dags. 5. október 2020.
Samþykkt með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Ferðamálastefna var samþykkt í borgarráði í febrúar síðastliðnum í þverpólitískri sátt enda hefur stefnan verið unnin í góðri samvinnu frá upphafi. Stefnan hefur nú verið endurskoðuð m.t.t. COVID-19 og afleiðinga fyrir ferðaþjónustuna. Við endurskoðun stefnunnar höfðu borgarráð og stýrihópur samráð við fulltrúa Samtaka ferðaþjónustunnar og var sérstök ánægja með það í borgarráði. Tekið hefur verið tillit til COVID-19 í uppstillingu aðgerða, skerpt á mikilvægi ferðaþjónustu í borginni og aðgerðum vegna viðspyrnu. Tímasetningar og mælikvarðar hafa verið endurskoðaðir. Ferðaþjónustustefna grundvallast á því að við viljum sjá lifandi, framsækna borgarmenningu og að einstök náttúra geri Reykjavík að eftirsóttum áfangastað. Að ferðaþjónustan ýti undir eflingu og uppbyggingu kraftmikillar borgar. Hún sé jákvæður drifkraftur sem þróist í sátt við íbúa, atvinnulíf, umhverfi og menningu. Stafræn umskipti og sjálfbærar áherslur munu gera Reykjavík að snjallri, aðgengilegri og umhverfisvænni ferðamannaborg. Margir komu að gerð og vinnslu stefnunnar, þ.m.t. íbúar og hagaðilar, og eru þeim færðar miklar þakkir fyrir.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Líkt og fram kemur í ferðamálastefnu hefur ferðaþjónustan skilað miklum tekjum til fyrirtækja, einstaklinga og hins opinbera. Fulltrúi sósíalista ítrekar að ástæða þess að ferðaþjónustan gat vaxið og dafnað er vinnuframlag fjölda starfsfólks. Það er mikilvægt að þegar og ef það kemur að endurreisn ferðaþjónustunnar á sama skala og áður var sendi Reykjavíkurborg frá sér skýr skilaboð um að eftirsóknarvert sé fyrir það starfsfólk að vinna innan ferðamálageirans. Efnahagslegur ávinningur af ferðamannaiðnaðinum skilaði sér ekki hlutfallslega til þeirra sem byggðu upp greinina og mikilvægt er að þeir þættir sem nefndir eru í ferðamálastefnu er varða atvinnulíf, fari fram á forsendum þeirra sem muni koma til með að byggja upp ferðamálagreinina. Sem dæmi má nefna að hótelin myndu ekki vera til án verkafólks og rödd þeirra er mikilvæg við útfærslu þeirra þátta sem hér eru nefndir. Hvað varðar innleiðingu þeirra þátta er tengjast íbúum borgarinnar er mikilvægt að þeim verði gert kleift að taka sem mestan þátt í útfærslu þáttanna sem nefndir eru.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn í starfshópi um mótun ferðamálastefnu fyrir Reykjavíkurborg, með Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur formann borgarráðs í broddi fylkingar, komst að þeirri niðurstöðu með ábatagreiningu að kostnaður Reykjavíkurborgar vegna móttöku ferðamanna væri langtum hærri en tekjurnar. Átti þessi svokallaða ábatagreining að sýna fram á með ótrúlegum reiknikúnstum að beinar og óbeinar tekjur borgarinnar af ferðaþjónustu hafi numið u.þ.b. 10,5 milljörðum króna en kostnaður rúmum 18,7 milljörðum á árinu 2018. Þannig átti kostnaður Reykjavíkurborgar vegna ferðamanna að nema 8,3 milljörðum. Þvílík hneisa og rugl sem þessi niðurstaða er. Þetta hefur formaður hópsins aldrei dregið til baka enda var tilgangurinn að sækja fé til ríkisins og allra skattgreiðenda þessa lands vegna bágrar fjárhagsstöðu Reykjavíkur. Á þessum grunni sé ég mér ekki fært að samþykkja ferðamálastefnuna og greiði atkvæði á móti henni. Stefnan er því ekki samþykkt í þverpólitískri sátt eins og formaður borgarráðs heldur fram.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hvort tímabært sé að leggja þessa stefnu fram núna er spurning. Þegar ferðamenn fara að streyma inn í landið gæti margt verið breytt og endurskoða þarf þá marga þætti og setja ný markmið. Flokkur fólksins telur að Reykjavík verði aftur vinsæl ferðamannaborg þegar bólusett verður fyrir COVID. Þegar ferðamannabylgjan skall á fyrir um 8 árum tókst að hýsa alla ferðamenn ekki síst vegna þess að almennir borgarar opnuðu hús sín og leigðu þau út. Fulltrúi Flokks fólksins telur að borgaryfirvöld eigi að stuðla að því að það kerfi gangi áfram, í það minnsta að ekki verði lagðar neinar hindranir á skammtímaútleigu íbúða í eigu almennings. Stefnumótun í ferðamálum sem öðru hlýtur að þurfa að fela í sér skilgreiningu á aðgerðum og mælikvörðum til framtíðar í hinum nýja veruleika sem við blasir. Núna sem dæmi er erfitt að átta sig á hvað muni styrkja stöðu Reykjavíkur sem ráðstefnu- og viðburðaborgar og auka aðdráttarafl borgarinnar fyrir ráðstefnu-, hvata- og viðburðagesti. Vegna COVID-19 er ólíklegt að mikið verði um ráðstefnur í Reykjavík næstu mánuði. Allt byggist þetta á að bóluefni við veirunni finnist. Samningur við Íslandsstofu verður til bóta. Hvernig borgin muni byggja upp atvinnulíf tengt ferðaþjónustu er spurning sem bíður svars.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að gerð verði úttekt á kynbundnum mun á námsárangri í grunn- og leikskólum borgarinnar. Skóla- og frístundasviði verði falið að vinna að úttekt í samstarfi við fræðimenn á þessu sviði og koma í framhaldi með tillögur til úrbóta. Í þessari vinnu verði ný menntastefna Reykjavíkurborgar höfð til hliðsjónar en þar segir að góð læsisfærni á íslensku sé „lykill að þekkingaröflun og skilningi á umhverfi og samfélagi.“
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
- Kl. 17:30 tekur Egill Þór Jónsson sæti á fundinum og Jórunn Pála Jónasdóttir víkur af fundi.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Lestur drengja er ein stærsta áskorun sem skólakerfið stendur frammi fyrir. Um það er ekki lengur deilt. Aðvaranir um alvarlega stöðu í þessum málum hafa blasað við síðasta áratuginn. Brottfall drengja á efri skólastigum kann að skýrast að miklu leyti af kynbundnum mun í lesskilningi á fyrstu skólastigum. Sú leið að vísa tillögunni til frekari vinnslu kann að tefja málið sem er brýnt. Best væri að samþykkja tillöguna og fara í að vinna það verk sem blasir við að þurfi að fara í. Tölurnar tala sínu máli og hafa þær gert það um langt skeið. Það er hagur alls samfélagsins að ná til þeirra sem dragast aftur úr. Hvert barn skiptir máli. Þegar svo stór hópur stendur höllum fæti eins og raun ber vitni á borgarstjórn að bregðast við af festu og ábyrgð. Lestur og lesskilningur er undirstaða menntunar og framtíðarstarfa.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er staðreynd að ákveðinn kynjamunur birtist í námsárangri sérstaklega í íslensku samkvæmt innlendum og erlendum mælingum. Munurinn fer þó minnkandi í Reykjavík samkvæmt PISA niðurstöðum og er á mörkum þess að vera marktækur í stærðfræði og náttúruvísindum. Reykvískir nemendur tóku framförum í öllum greinum í síðustu PISA-könnun og standa vel í samanburði innanlands. Engu að síður er full ástæða til að skoða vel hvort beita þurfi sértækari aðgerðum út frá stöðu allra kynja í skólakerfinu en þá þarf að skoða málin heildstætt og taka m.a. með í reikninginn fleiri þætti en námsárangur, svo sem kvíða, þunglyndi og andlega heilsu almennt þar sem staða stúlkna á unglingastigi er sérstakt áhyggjuefni.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista styður það að gera úttekt á kynbundnum mun á námsárangri í skólum borgarinnar en telur mikilvægt að bæta við að hlutirnir verði skoðaðir út frá fleiri þáttum sem geta haft áhrif, líkt og stétt og uppruna. Þegar litið er á stéttastöðu þarf t.a.m. að skoða meira en tekjur heimilisins, það þarf líka að skoða hvernig aðstaðan er til þess að lesa og læra heima og hvort fullorðinn einstaklingur sé heima til þess að aðstoða við heimanám og lestur. Varðandi uppruna er mikilvægt að líta til þátta eins og tungumáls og líta til þess hvort náms- og lesefni höfði til fólks út frá uppruna. Þar þurfum við t.a.m. að spyrja okkur hvort að nægilega mikla fjölbreytni sé að finna í les- og námsefni ætluðu börnum. Varðandi kynbundinn mun er alltaf mikilvægt að skoða samspil annarra félagslegra þátta sem geta haft áhrif á stöðu kynjanna.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Metnaðarleysi borgarstjóra og meirihlutans í Reykjavík er dæmalaust þegar kemur að þessum málaflokki. Leikskólar og grunnskólar eru á ábyrgð sveitarfélaganna. Í mörg ár hefur úrræðaleysi einkennt það vandamál að stór hluti drengja getur ekki lesið sér til gagns. Ábyrgðin á skólamálum í Reykjavík er á herðum borgarstjóra og þeirra flokka sem hafa nær óslitið setið við völd í 10 ár og borgarstjóri sjálfur verið kjörinn fulltrúi í nær 20 ár. Áhugaleysið er algjört þegar kemur að lögbundinni þjónustu og grunnþjónustu. Ég er mótfallin því að meirihlutinn sé sífellt að koma sér hjá því að afgreiða góðar tillögur frá minnihlutanum á borgarstjórnarfundum og vísar þeim inn í nefndir og ráð borgarinnar, þ.e. lægra setts stjórnvalds, til úrlausnar. Það er alls ekki í lagi. Ég samþykki í þetta sinn að vísa tillögunni til skóla- og frístundaráðs vegna mikilvægi hennar. Samt er hætt við að meirihlutinn geri hana að sinni en það er auðvitað á ábyrgð tillöguflytjanda að passa upp á að svo verði ekki.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Breytingar á skólastarfi eiga að hagnast öllum nemendum. Börn hagnast mest ef öllum líður vel í skólanum. Kynjamunur á námsárangri í Reykjavík er mestur í lestri og kemur fram í lesskimunum í 2. bekk grunnskóla og er viðvarandi til loka grunnskólans. Árið 2018 lásu 34% drengja 14-15 ára sér ekki til gagns og 19% stúlkna. Slæm staða drengja í lestri á sér rót sem skólayfirvöldum í Reykjavík hefur ekki tekist að greina. Mörg börn eru með lesblindu. Til eru tugir afbrigða. Skoða þarf hvernig sérkennslan er að skila sér til nemenda því allt hangir þetta saman. Börn með lesblindu lesa ekki hratt. Mikil áhersla er á hraðlestrarpróf um þessar mundir og þau geta auðveldlega brotið börn niður sem eru með lesblindu eða eru hæglæs. Það sem mæla þarf er hvort barn hafi náð að brjóta lestrarkóðann og hvar þau eru stödd í lesskilningi í lok 2. bekkjar. Sérstök styrking á lestrarhæfni drengja sem verst eru staddir gæti dregið úr þessum kynjamun en aðrir áhrifavaldar eru margir. Kennsluhættir geta skipt máli til að bæta stöðu drengja, en um leið stöðu stúlkna. Staða drengja er ekki verri en stúlkna í öllum þáttum. Stúlkur á unglingastigi sem dæmi sýna meiri kvíðaeinkenni, verða fyrir meira einelti og hafa minna sjálfsálit en drengir samkvæmt rannsóknum.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Lagt er til að velferðarsviði verði falið að ganga til viðræðna við heilbrigðisráðuneytið um sameiginlegan rekstur á neyslurými í Reykjavík. Í framhaldinu verði lögð fram kostnaðarmetin tillaga til meðferðar velferðarráðs og samþykktar í borgarráði.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Við viljum stuðla að því að neyslurými opni í Reykjavík. Markmið okkar er að halda áfram innleiðingu skaðaminnkandi hugmyndafræði í þjónustu Reykjavíkurborgar sem er mannréttindamiðuð nálgun sem byggist á því að draga úr skaða og aðstoða einstaklinga á þeirra eigin forsendum. Til að neyslurými verði að veruleika og nái þeim árangri sem lagt er upp með þarf samstarf við heilbrigðisráðuneyti um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Reynsla annarra landa sýnir að opnun neyslurýma dregur úr skaðlegum afleiðingum sem fylgja neyslu ávana- og fíkniefna. Neyslurými stuðla einnig að því að færri neyta slíkra efna utandyra á almannafæri og hafa neyslurými því einnig jákvæð áhrif á nærsamfélagið.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarstjórn samþykkti stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar stuðningsþarfir um mitt ár 2019. Eitt af markmiðum stefnunnar var að hefja formlegar viðræður við ríkið um neyslurými og heilbrigðisþjónustu fyrir þennan hóp sem um ræðir. Ákall er eftir fjölbreyttum úrræðum fyrir fólk með fíknivanda og það styður Sjálfstæðisflokkurinn. Útgefnar skýrslur Reykjavíkurborgar sýna fram á að fíknivandi hafi aukist gríðarlega síðustu ár auk þess fjölgaði heimilislausum í Reykjavík um 95% á árunum 2012-2017. Það er jákvætt að sjá ríkið og sveitarfélagið vinna að lausn fyrir þá einstaklinga sem hafa miklar og flóknar þjónustuþarfir. Í gegnum tíðina hafa einstaklingar með bæði félagslegan og heilbrigðisvanda fallið milli kerfa með þeim afleiðingum að þjónusta við hæfi er ekki til staðar. Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu í borgarstjórn á haustmánuðum 2018 til að koma m.a. í veg fyrir að einstaklingar með fíknivanda falli milli kerfa, auk þess að leggja meiri áherslu á forvarnir. Þeirri tillögu var vísað frá af meirihlutanum. Hins vegar er ánægjulegt að vinna sé hafin við að finna lausnir á þeim í þjónustu við einstaklinga með fíkni- og félagslegan vanda.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Miðflokksins samþykkir þessa tillögu sem gengur út á viðræður milli velferðarsviðs og heilbrigðisráðuneytisins. Það er sjaldséð í rekstri borgarinnar að lagt sé til að kostnaðarmeta verkefni sem hugsanlega á að ráðast í. Heilbrigðisráðuneytið er hvatt til að finna annað nafn á þessa þjónustu því „neyslurými“ er mjög neikvætt heiti fyrir þjónustu sem þessa og viðkvæman notendahóp. Einnig er ráðuneytið hvatt til þess að taka þetta samtal á víðari grunni við öll sveitarfélög, Landspítala og aðra aðila sem málið snýr að til að fá heildarsýn yfir málaflokkinn og umfangið en ekki bara Reykjavík eitt sveitarfélaga. Frú Ragnheiður er t.d. með þjónustu á þremur stöðum á landinu sem dæmi, ekki bara í Reykjavík. Nú stendur yfir vinna við reglugerð sem setja á á grunni breytinga á lögum um ávana- og fíkniefni, sem samþykktar voru fyrr á þessu ári. Hvet ég alla til að fara á samráðsgátt stjórnarráðsins og lesa umsagnir eða koma fram með athugasemdir um reglugerðina sem er í vinnslu.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Auðvitað styður borgarfulltrúi Flokks fólksins þessa tillögu enda er þetta tillaga sem Flokkur fólksins lagði fyrir borgarstjórn 20. nóvember 2018 sem meirihlutinn felldi þá. Hún hljóðaði svo: Lagt er til að velferðarsviði verði falið að ganga til viðræðna við heilbrigðisráðuneytið um sameiginlegan rekstur á neyslurými í Reykjavík. En þá var öldin önnur hjá meirihlutanum því tillögunni var hent út eins og hverju öðru úrkasti með þeim orðum að „Það hafi verið skýr afstaða borgarinnar frá upphafi að um heilbrigðisþjónustu sé að ræða sem er á ábyrgð ríkisins en Reykjavíkurborg veitir notendum þjónustunnar félagslega þjónustu og ýmsan stuðning“. Nú er afstaða þeirra breytt eins og hendi sé veifað. Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði áherslu í tillögu sinni árið 2018 á að mjög brýnt væri að opna rými í Reykjavík til að þjónusta þennan afar viðkvæma hóp, þar sem vímuefnanotendur geta komið í hreint og öruggt athvarf, haft aðgang að heilbrigðisþjónustu og jafnframt fengið aðra aðhlynningu sem þeir þarfnast með skaðaminnkun og mannúð að leiðarljósi. Sama ár, þann 10. ágúst, lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu í velferðarráði að hugtakið utangarðsfólk verði ekki notað frekar hjá velferðarsviði og velferðarráði borgarinnar. Sú tillaga varð hins vegar að veruleika og því ber að fagna.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Öldin var ekki önnur, lögin voru önnur. Árið 2018 var ekki lagaheimild til að opna neyslurými.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Meirihlutinn/velferðaryfirvöld geta ekki breitt yfir þá afstöðu sem með svo skýrum hætti er birt í bókun þeirra 2018 þegar tillaga Flokks fólksins um neyslurými var felld með því að vísa í lög. Tillagan var um að velferðarsviði væri falið að ganga til viðræðna við heilbrigðisráðuneytið um sameiginlegan rekstur á neyslurými í Reykjavík. Afstaða þeirra var kýrskýr það að „neyslurými sé heilbrigðisþjónusta sem er á ábyrgð ríkisins“. Það hljóta allir að sjá að nú skýtur skökku við að meirihlutinn komi nú sjálfur með þessa sömu tillögu og gjörbreytta afstöðu. Hvernig á að túlka þetta? Var þessi tillaga ekki nógu góð af því að hún kom frá borgarfulltrúa Flokks fólksins? Eða er einhver hentugleikastefna í gangi núna hjá velferðaryfirvöldum, eitthvað „show off“? Fulltrúi Flokks fólks hvetur þennan meirihluta til að mæta ekki öllum málum minnihlutans með endalausri neikvæðni og hafa manndóm í sér að sjá þegar minnihlutinn leggur fram góð mál í þágu fólksins í borginni. Auðvitað fagnar borgarfulltrúi Flokks fólksins þessu frumkvæði en það hefði mátt hafa fyrr og fljótlega í kjölfar framlagningar tillögunnar 2018. Um er að ræða mjög þarft mál. Þetta er okkar viðkvæmasti hópur sem þarfnast að komast í öruggt athvarf þar sem hægt er að fá aðhlynningu.
5. Fram fer umræða um tilraun Samtaka sjálfstætt starfandi skóla til félagslegra undirboða.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Leitast var við að fá fram umræðu um tilraun Samtaka sjálfstætt starfandi skóla til félagslegra undirboða í kjarasamningsviðræðum við Eflingu. Það tókst ekki. Skilaboðin voru á þann veg að þessi mál ættu ekki heima inni á borði borgarstjórnar. Sjálfstætt starfandi skólar í Reykjavík fá greitt framlag úr borgarsjóði og þegar tillögur um kjaraskerðingar eru lagðar fram er ekki hægt að líta undan.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn fari þess á leit við innri endurskoðun að hún geri úttekt á sérkennslu leik- og grunnskóla í Reykjavík. Stór hópur reykvískra barna eru í sérkennslu, sum í fáeina tíma á viku en önnur eru í sérkennslu alla grunnskólagönguna. Óljóst er hvort nokkuð sem tengist sérkennslu í reykvískum skólum sé samræmt; greiningar á námsgetu, sérkennslan sjálf eða mat á árangri. Fjölmörg rök hníga að gerð heildstæðrar úttektar á sérkennslu í skólum Reykjavíkur. Fullnægjandi upplýsingar um sérkennslumál skortir. Íslensk börn standa verr að vígi í lestri og lesskilningi samanborið við nágrannalönd. Samkvæmt PISA 2018 lesa um 34% drengja 14-15 ára sér ekki til gagns og 19% stúlkna. Samkvæmt lesskimun 2019 lesa aðeins 61% barna í Reykjavík sér til gagns eftir 2. bekk. Mikilvægt er að fá úr því skorið hvort sérkennslan skili tilætluðum árangri. Í úttektinni felst að skoða hvort: 1. Nemendur í sérkennslu séu að fá einstaklingsmiðaða sérkennslu byggða á faglegu mati sérfræðinga skólaþjónustu og í samræmi við skilgreindar þarfir þeirra 2. Greiningar sem liggja til grundvallar sérkennslu séu unnar af fagaðilum skólaþjónustu og séu samræmdar milli skóla 3. Til staðar sé samræmt eftirlit með sérkennslunni og eftirfylgni 4. Að fjármagninu sé varið í þeim tilgangi sem því er ætlað.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins að vísa tillögunni til meðferðar stýrihóps um heildstæða þjónustu við börn með sérstakar þjónustuþarfir.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins telur það farsælast að innri endurskoðun fái það verkefni að gera úttekt á sérkennslumálum í Reykjavík eins og lagt er til. Fjöldi raka hnígur að úttekt af þessu tagi. Hér er um viðkvæman hóp að ræða og staða barna í lestri og lesskilningi fer versnandi eins og sjá má af niðurstöðum PISA könnunar og lesskimun síðustu ára. Málsmeðferðartillaga meirihlutans er að vísa tillögunni inn í vinnuhóp sem er að rýna þessi mál. Borgarfulltrúi telur málið brýnt og að ekki dugi að skoða það einungis af vinnuhópi. Hlutfall barna sem er í sérkennslu hefur haldið áfram að hækka, var 26% árið 2011 og er um 30% 2020. Síðustu 20 árin eða svo hefur skóla- og frístundasvið misst yfirsýn og utanumhald sérkennslumála í Reykjavík. Tímabært er að fá heildstæða úttekt/rannsókn á málaflokknum af óháðum aðila svo byggja megi á henni tillögur að heildstæðri stefnu um sérkennslumál borgarinnar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vonar að innri endurskoðandi taki ákvörðun um að gera úttekt/rannsókn á sérkennslumálum enda þótt meirihluti skóla- og frístundaráðs telji það ekki vera verkefni á hans borð. Innri endurskoðun hefur faglegt sjálfstæði í störfum gagnvart allri stjórnsýslu borgarinnar eins og segir í starfsreglum innri endurskoðunar.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan er gagnleg viðbót við þá vinnu sem nú stendur yfir við að greina framkvæmd og skipulag sérkennslu og stuðnings í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Mikilvægt er að einfalda og skerpa á samþættingu þess stuðnings við skólaþjónustu velferðarsviðs eins og byrjað er að gera í Breiðholti undir merkjum verkefnisins Betri borg fyrir börn. Markmiðið er að veita börnum stuðning snemma á skólagöngunni, fylgjast vel með árangri inngripa og endurskoða eftir þörfum til að börnin taki marktækum framförum í námi.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ég segi já við þessari góðu tillögu en nei við málsmeðferð hennar í borgarstjórn.
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að skipaður verði stýrihópur um hagræðingar- og niðurskurðaraðgerðir vegna fjármálastöðu Reykjavíkurborgar. Stýrihópurinn skal vera skipaður átta kjörnum fulltrúum, einum frá hverjum flokki sem fulltrúa á í borgarstjórn. Verkefni stýrihópsins er að rýna fjárhagsáætlanir borgarinnar og skila tillögum að verulegri hagræðingu næstu þrjú árin án þess að til skerðinga komi á lögbundinni þjónustu eða grunnþjónustu. Skulu verklok stýrihópsins fyrir fjárhagsáætlun 2021 vera 15. nóvember 2020 og 1. október næstu ár á eftir.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér var gerð tilraun til þess að opna augu borgarstjóra og meirihlutans um alvarlega fjárhagsstöðu Reykjavíkur. Skuldir samstæðunnar í heild eru 390 milljarðar og eru sífellt að aukast. Hæglega má gera ráð fyrir að skuldirnar fari yfir 400 milljarða á þessu ári. Meirihlutinn hafnar því að skipa fjármálastýrihóp allra flokka í borgarstjórn um hagræðingar- og niðurskurðaraðgerðir. Þau neita að horfast í augu við vandann. Það má túlka sem algjöra uppgjöf fyrir rekstrarstöðunni. Í staðinn er farið með betlistaf til ríkisins um fjármagn inn í reksturinn upp á fleiri tugi milljarða til að halda fjármálasukkinu áfram. Í umsögn Reykjavíkurborgar til Alþingis kemur fram að gera má ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði neikvætt 2020-2022 og á sama tíma aukist reiknuð fjármögnunarþörf borgarsjóðs langt umfram fjárhagsáætlanir eða um 39 milljarða samanlagt árin 2020 og 2021 og einnig mjög háar fjárhæðir 2022-2024 eða um 36,5 milljarða. Síðan segir í umsögninni: „Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára.“ Frekari skýringar eru óþarfar. Borgarstjóri hefur sjálfur gefið rekstur borgarinnar upp til ríkisins. Reykjavíkurborg er ógjaldfær að mati borgarstjóra. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur bent á þá staðreynd lengi.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að heimsfaraldur COVID-19 hefur veruleg áhrif á fjármál sveitarfélaga. Tekjur dragast mikið saman á meðan kostnaður eykst. Nú er fjárhagsáætlun 2021 og 5 ára áætlun í undirbúningi. Í þeirri vinnu er litið til fjármálaáætlunar ríkisins og tekið undir að hið opinbera auki ekki á þann samdrátt sem nú á sér stað í samfélaginu. Talið er þjóðhagslega hagkvæmt að tryggja fjárfestingar til uppbyggingar innviða og stefnum við á að gera það með sérstakri áherslu á græna fjárfestingu skv. græna planinu. Í forsendum fjárhagsáætlunar er þrátt fyrir það gerð krafa um 1% hagræðingu en litið til þess að styðja við velferð og menntun og gera einungis 0,5 % hagræðingarkröfu á þá þjónustuþætti. Ljóst er að til að halda úti þeirri þjónustu og fjárfestingum sem þarf, munu skuldir aukast en borgin er vel í stakk búin fyrir það enda langt undir öllum viðmiðum hvað það varðar. Tillaga Miðflokksins fjallar um að farið verði í mikinn niðurskurð og atvinnuleysi aukið, sem vinnur á móti þeim markmiðum sem ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa lýst yfir að þau vilja ná. Ljóst er að tilgangur Miðflokksins er ekki borginni til heilla heldur er hér markmið um að lama þjónustu og uppbyggingu innviða. Á það getum við ekki fallist.
8. Umræðu um samgöngusáttmála er frestað.
9. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 17. september, 1. október og 15. október.
27. liður fundargerðarinnar frá 17. september, framlenging á tímabundnum göngugötum í miðborginni, er samþykktur með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum Eyþórs Laxdal Arnalds, Egils Þórs Jónssonar, Valgerðar Sigurðardóttur, Mörtu Guðjónsdóttur og Arnar Þórðarsonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.
Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
30. liður fundargerðarinnar frá 17. september, Grófarhús við Tryggvagötu, er samþykktur með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
8. liður fundargerðarinnar frá 1. október, 2. áfangi Laugavegar sem göngugötu – deiliskipulag, er samþykktur með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum Eyþórs Laxdal Arnalds, Egils Þórs Jónssonar, Valgerðar Sigurðardóttur, Mörtu Guðjónsdóttur og Arnar Þórðarsonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.
Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
9. liður fundargerðarinnar frá 1. október, Brynjureitur – deiliskipulag, er samþykktur með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum Eyþórs Laxdal Arnalds, Egils Þórs Jónssonar, Valgerðar Sigurðardóttur, Mörtu Guðjónsdóttur og Arnar Þórðarsonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.
Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
10. liður fundargerðarinnar frá 1. október, Frakkastígsreitur – deiliskipulag, er samþykktur með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum Eyþórs Laxdal Arnalds, Egils Þórs Jónssonar, Valgerðar Sigurðardóttur, Mörtu Guðjónsdóttur og Arnar Þórðarsonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.
Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
11. liður fundargerðarinnar frá 1. október, Laugavegur, Frakkastígur, Grettisgata, Klapparstígur – deiliskipulag, er samþykktur með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum Eyþórs Laxdal Arnalds, Egils Þórs Jónssonar, Valgerðar Sigurðardóttur, Mörtu Guðjónsdóttur og Arnar Þórðarsonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.
Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
13. liður fundargerðarinnar frá 1. október, viðauki við fjárhagsáætlun 2020, er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 27. lið fundargerðarinnar frá 17. september og 8. lið fundargerðarinnar frá 1. október:
Fram kemur í meirihlutasáttmála flokkanna sem mynda meirihlutann í borgarstjórn: „Við ætlum að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið og fjölga göngusvæðum í Kvosinni.“ Það á því ekki að koma á óvart að verið sé að hrinda því í framkvæmd. Kannanir sýna að meirihluti íbúa er jákvæður gagnvart göngugötum og að jákvæðust séu þau sem heimsækja svæði göngugatna að minnsta kosti vikulega.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. september:
Svo virðist sem margir lausir endar séu á tillögunni. Lykilforsendur vantar, m.a. liggur ekki fyrir hvert Borgarskjalasafn fer. Nauðsynlegt er að grunnforsendur liggi fyrir í þessu stóra verkefni, en endurbæturnar eiga að kosta 4,4 milljarða skv. frumkostnaðaráætlun eða 590 þúsund krónur á m2 vegna endurbóta. Ljóst er að kostnaður við flutning Borgarskjalasafns er þó ekki inni í þessum tölum. Rétt væri að ljúka þarfagreiningunni áður en farið er af stað með hönnunarsamkeppni um verkefnið.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðum 9, 8-11 og 13 í fundargerð borgarráðs frá 1. október og lið 2 í fundargerð borgarráðs frá 15. október:
Deiliskipulag Laugavegar og nágrennis; Fulltrúi Flokks fólksins getur ekki stutt deiliskipulag Laugavegar og nágrannareita vegna þeirrar aðferðafræði sem meirihlutinn í borginni hefur notað og ekki síst vegna vanvirðingar sem hagaðilum svæðisins hefur verið sýnd í gegnum allt skipulagsferlið. Margsinnis var beðið um að ekki verði lokað alfarið fyrir umferð, a.m.k. að ákveðnir götubútar yrðu opnaðir aftur eftir sumarlokun eins og lofað var. Eins og göngugötur geta verið skemmtilegar, ríki um þær sátt, þá umlykur þessar skuggi vonbrigða og reiði. Það sem eftir situr er galtómur miðbær með tugi lausra rýma sem ekki er hægt að kenna COVID alfarið um.Viðauki við fjárhagsáætlun 2020; Lagt til að fjárheimildir velferðarsviðs hækki um 20.300 þ.kr. vegna tilraunaverkefnis um frístundir í Breiðholti. Verkefnið ætti auðvitað að ná til allra hverfa og vera varanlegt ef ekki á að mismuna börnum. Það eru fátæk börn í öllum hverfum. Skilyrði fyrir að námskeið þurfi að vara í 10 vikur til að nota frístundakort er ósanngjarnt.Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030; leggja á hraðbraut þvert yfir Vatnsendahvarf sem eyðileggja mun eitt helsta náttúrulífs- og útsýnissvæði Reykjavíkur. Hægt er að þyrma hæðinni með því að tengja Arnarnesveginn inn á Tónahvarf og gera hringtorg við Breiðholtsbrautina/Vatnsendahvarf-götuna en á það er ekki hlustað.
10. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 5. og 15. október, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 8. október, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 12. október, skipulags- og samgönguráðs frá 7. og 14. október, skóla- og frístundaráðs frá 13. október og velferðarráðs frá 7. október.
3. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 15. október; breyting á samþykkt fyrir mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð, er samþykktur.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 15. október:
Hér er verið að breyta samþykktum í samræmi við samþykkt borgarráðs um sameiningu eftirlitseininga Reykjavíkurborgar og verið að ávarpa þá þætti sem tengjast umboðsmanni borgarbúa og mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. Þegar breytingarnar voru kynntar á sínum tíma lagði fulltrúi sósíalista áherslu á mikilvægi þess að tryggja að það væri auðvelt og aðgengilegt fyrir borgarbúa að leita til umboðsmanns borgarbúa með mál en hingað til hefur hann verið með sérrými á Tjarnargötu. Í sameiningu eftirlitseininga er um þrjá mikilvæga þætti að ræða; umboðsmann borgarbúa, innri endurskoðun og persónuverndarfulltrúa, og mikilvægt er að útfæra framtíðartilhögun þannig að innleiðingin verði borgarbúum fyrir bestu.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 8. október og 11. lið fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 13. október:
Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð; Flokkur fólksins lagði til að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Í svörum hefur komið fram að lagaheimildir skorti sem er alvarlegt. Að borginni snýr ákveðinn veruleiki, vitneskja og meðvitund um að því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku fólki aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði. Skóla- og frístundaráð; stofnun framtíðarhóps í menntamálum sem fjalla á um m.a. álitamál og umbótaverkefni í skóla- og frístundastarfi er án efa hið mesta þarfaþing gefið að eitthvað komið út úr slíkri hópvinnu annað en orð á blaði. Stutt er í næstu PISA könnun. Bregðast verður við versnandi árangri barna í lestri. Aðeins tæp 61% lesa sér til gagns 2019 en 65% 2018 samkvæmt lesskimunarprófi sem notað hefur verið í áratug. Hringlandaháttur er með lestraraðferðir. Önnur, hljóðaaðferðin, er gagnreynd en árangur hinnar, byrjendalæsis, er dreginn í efa af ýmsum fræðingum. Í sérkennslumálin vantar heildstæða stefnu og hefur Flokkur fólksins lagt til að innri endurskoðun geri úttekt á sérkennslumálum. Á vakt þessa og síðasta meirihluta hefur ekki tekist að greina rót vandans.
11. Samþykkt að taka á dagskrá fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 22. september og fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 30. september sem lagðar voru fram á fundi borgarstjórnar 6. október sl.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs og 26. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs:
Skóla- og frístundaráð; með ákvörðun um breytingu á viðmiðunarstundaskrá er verið að bregðast við versnandi árangri barna í lestri í grunnskólum Reykjavíkur. Lesskimun 2019 sýnir að aðeins 61% nemenda lesa sér til gagns en 2018 gátu 65% lesið sér til gagns. Hringlandaháttur er með lestraraðferðir. Önnur, hljóðaaðferðin, er gagnreynd en árangur hinnar, byrjendalæsis, er dreginn í efa af ýmsum fræðingum. Skóla- og frístundaráði/-sviði hefur ekki tekist að ná markmiðum sínum í lestrarkennslu. Umhverfis- og heilbrigðisráð; í umsögn er vísað í útboð sem átti að fara fram í september 2020 og ljúka fyrir varp fugla næsta vor. Samkvæmt útboði á verktaki að gera tjarnir og loka skurðum, en ekki er sagt hvernig móta á landið. Það er ekki sama hvernig tjarnir eru gerðar, t.d. skiptir máli hvort hólmi er í tjörninni og hvort hún sé nógu stór til að veita fuglum vernd. Þá er erfitt að tegundagreina votlendisplöntur um hávetur og þar af leiðandi er ekki hægt að taka tillit til mikilvægra tegunda. Skynsamlegra væri að fresta verkinu og að unnin verði í vetur áætlun um endanlegt útlit og þá metið að hvaða gagni framkvæmdin verði með tilliti til verndar lífríkis. Verkið mætti síðan vinna með sóma veturinn 2021-2022.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans gagnrýna tillögur menntamálaráðuneytis um breytingar á viðmiðunarstundaskrá og þá sérstaklega þann mikla niðurskurð á vali nemenda á öllum stigum grunnskólans sem þeim fylgja. Í tillögunni er gengið svo langt í skerðingu á vali að spyrja má hvort í reynd sé verið að taka úr sambandi 26. grein grunnskólalaganna. Í lögunum segir að markmiðið með valinu sé að gera nemendur ábyrga fyrir eigin námi og skapa aukinn sveigjanleika í skólastarfi. Valstundir eiga því bæði að stuðla að því að skóli hafi sveigjanleika til að mæta staðbundnum og samfélagslegum aðstæðum og eins að nemendur hafi val um námsgreinar og viðfangsefni. Það er fagnaðarefni að ráðuneytið grípi til aðgerða til að styrkja stöðu íslensku og náttúruvísinda en mikilvægt er að greina nákvæmlega hvar skóinn kreppir í kennslu þessara greina svo úrbæturnar skili tilætluðum árangri.
12. Lagt er til að kosning í endurskoðunarnefnd og innkaupa- og framkvæmdaráð verði tekin á dagskrá með afbrigðum.
Dagskrártillagan er felld með tólf atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir furðu sinni á því að meirihlutinn reyni að koma í veg fyrir að stærsti flokkurinn fái að manna endurskoðunarnefnd. Hefð er fyrir því að breytingar í nefndum séu teknar fyrir í borgarstjórn. Þá var þessi beiðni send á fimmtudag og rökstuðningur um að beiðnin hafi komið seint fram stenst því enga skoðun. Það eru hreinar rangfærslur. Venja hefur verið að forsætisnefnd afgreiði dagskrá borgarstjórnar á föstudegi. Beiðnin var send á fimmtudegi, eða degi fyrr en vant er. Það er mikilvægt að minnihlutinn fái að skipa sinn fulltrúa í endurskoðunarnefnd borgarinnar án tafar, enda eru stór álitaefni undir í þeim málefnum sem heyra undir nefndina.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Miðflokksins tekur undir bókun Sjálfstæðisflokksins.
Fundi slitið kl. 21:58
Forsetar gengu frá fundargerð.
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 20.10.2020 - Prentvæn útgáfa