Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2015, þriðjudaginn 20. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Eva Einarsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Jóna Björg Sætran, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug María Friðriksdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum 2015-2019, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. október 2015.
- Kl. 14.06 tekur Hildur Sverrisdóttir sæti á fundinum.
Samþykkt.
2. Fram fer umræða um samstarfsverkefni um átak gegn heimilisofbeldi: Saman gegn ofbeldi.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Vert er að þakka fyrir ítarlegt og vel unnið áfangamat á verkefninu Saman gegn ofbeldi. Matið sýnir að verkefnið hefur þegar skilað umtalsverðum árangri, en þar eru jafnframt mikilvægar ábendingar um það sem betur má fara. Þær verða teknar alvarlega því brýnt er að tryggja öryggi fólks í hvívetna, ofbeldi á aldrei að líðast.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Drög að skýrslu um Saman gegn ofbeldi eru vel unnin og mikilvægt skref í að sporna gegn ofbeldi í Reykjavík. Halda þarf áfram að greina verklag og aðferðir og safna upplýsingum um hvernig best má ná árangri. Fulltrúarnir sakna þess þó að ekki sé horft til þess hvernig skima megi eftir og meðhöndla það ofbeldi sem á sér stað innan heimila og stofnana sem rekin eru af Reykjavíkurborg. Stofnanabundið ofbeldi er mjög alvarlegt og dæmin sýna að þöggun innan ramma hins opinbera á sér ekki síður stað þar en annars staðar.
3. Fram fer umræða um Úlfarsárdal, styrkleika, áskoranir og tækifæri.
Fellt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá:
Borgarráð samþykkti í síðustu viku tillögu um að endurskoða deiliskipulag Úlfarsárdalshverfis. Tillögunni fylgir greinargerð og í henni er að finna helstu stefnuatriði nýs deiliskipulags sem mun vera langt komið. Henni fylgdi einnig umsögn sem er í raun skipulagslýsing en það er fyrsta skrefið í skipulagsferlinu. Hvorki í greinargerð með tillögunni né í umsögn er fjallað um samráð við íbúa Úlfarsárdals. Ljóst má vera að nýtt deiliskipulag getur haft veruleg áhrif á gæði núverandi byggðar og hag þeirra sem þarna búa. Lagt er til að efnt verði til upplýsinga- og samráðsfundar með íbúum Úlfarsárdals í þessum mánuði um hugmyndir um framtíð byggðar og þjónustu á svæðinu.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt samþykkt um stjórn og fundarsköp Reykjavíkurborgar ber borgarfulltrúum að tilkynna forsætisnefnd fyrir kl. 11 á föstudegi fyrir borgarstjórnarfund um mál á dagskrá. Dagskrá og fundargögn eru send út á föstudögum. Þetta er gert til að borgarfulltrúar geti undirbúið sig og tekið upplýsta afstöðu til allra þeirra mála sem liggja fyrir fundinum. Á fundi forsætisnefndar 30. janúar sl. var lögð fram bókun þar sem þeim tilmælum var sérstaklega beint til borgarfulltrúa að undirbúa borgarstjórnarfundi vel og rökstyðja óskir um afbrigði þegar svo ber undir. Ákvæði um afbrigði eru til þess ætluð að hægt sé að setja mál á dagskrá ef nýjar upplýsingar koma fram eða aðstæður breytast frá því að fresturinn rennur út þar til fundur er settur. Ekki verður séð að nokkuð slíkt hafi gerst í þessu tilfelli. Eðli málsins samkvæmt verður haldinn íbúafundur í Úlfarsárdal þegar lögboðin skipulagslýsing liggur fyrir.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er dapurlegt að fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar skuli hafa fellt tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að haldinn verði upplýsinga- og samráðsfundur með íbúum Úlfarsárdals um fyrirhugað deiliskipulag hverfisins. Þegar hafa helstu markmið með nýju deiliskipulagi verið lögð fram og kynnt í borgarráði. Höfuðtilgangurinn liggur því fyrir. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks styðja frekari uppbyggingu og fjölgun íbúða í Úlfarsárdal og vilja að það sé gert í góðu samráði við þá sem í hverfinu búa. Mörg dæmi eru um að samráðs sé leitað áður en endanlegur uppdráttur hefur verið gerður að skipulagi. Einmitt þá getur verið best að hafa samráð og fá allar hugmyndir fram sem nýtast síðan við skipulagsgerðina. Reynslan sýnir að best er að hefja samvinnu við borgarbúa á þessu stigi enda þekkja þeir sem búa í hverfinu aðstæður best.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að skipulagið verði unnið í samráði við íbúa hverfisins. Nauðsynlegt er að fjölga íbúum frá því sem nú er m.a. til þess að þær framkvæmdir sem fara á í næstu árin svo sem við skóla, íþróttamannvirki o.fl. nýtist. Lagt er til að skoðað verði að skipuleggja fjölbreytta byggð fyrir ofan Mímisbrunn, m.a. húsnæði, í samræmi við tillögu okkar sem lögð var fram á fundi borgarráðs 20. ágúst sl. og að í boði verði lóðir fyrir félög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Íbúar í Grafarholti-Úlfarsárdal hafa sýnt Reykjavíkurborg ríkulegan samstarfsvilja og biðlund vegna seinkunar, sem varð á uppbyggingu vegna efnahagsáfalla í þjóðfélaginu á sínum tíma. Ljóst er að frekari metnaðarfull uppbygging í Úlfarsárdal mun leiða til þéttingar byggðar sem er jákvætt í sjálfu sér. Sú ákvörðun vinstri meirihlutans í borgarstjórn að draga verulega úr íbúabyggð í Úlfarsárdal frá því sem áður var ákveðið, dregur mjög úr möguleikum hverfisins á að vera sjálfbært varðandi ýmsa þjónustu og á það ekki síst við um íþrótta- og æskulýðsstarf. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja því enn og aftur til að skipulag í Úlfarsárdal verði endurskoðað og íbúum fjölgað með það að markmiði að þar skapist góð skilyrði til að reka fjölbreytilega þjónustu. Stækkun hverfisins er einnig mikilvægur þáttur í því að gera fólki á öllum aldri auðveldara að koma sér þaki yfir höfuðið.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Í 5. tölulið 11. greinar sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að fjöldi aðalmanna í sveitarstjórn skuli vera 23-31 í sveitarfélagi með fleiri en 100.000 íbúa. Umrætt ákvæði, sem taka á gildi við næstu borgarstjórnarkosningar, leggur þær skyldur á herðar Reykjavíkurborgar að fjölga kjörnum borgarfulltrúum um 53-107%. Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á Alþingi að endurskoða umrætt lagaákvæði í því skyni að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað eða ekki.
- Kl. 20.27 tekur Ilmur Kristjánsdóttir sæti á fundinum og Eva Einarsdóttir víkur sæti.
Samþykkt með 11 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina að vísa tillögunni til forsætisnefndar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Í lok síðasta kjörtímabils kom meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna sér undan því að taka afstöðu til þess hvort fjölga ætti borgarfulltrúum með því að vísa tillögu Sjálfstæðisflokksins um að Alþingi veitti borgarstjórn sjálfsákvörðunarrétt í þessu efni til nefndar með þeim orðum að rétt væri að málið biði nýrrar borgarstjórnar. Svo virðist sem sextán mánuðir hafi ekki dugað nýjum meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata til að móta afstöðu í málinu þar sem því er nú á ný skotið til forsætisnefndar. Þessi vinnubrögð benda til þess að fulltrúar vinstri flokkanna líti sem fyrr með velþóknun til þess að borgarfulltrúum í Reykjavík verði fjölgað úr 15 í 23-31 eða um 53-107%.
5. Lagt fram að nýju, til seinni umræðu í borgarstjórn, bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 30. september 2015, varðandi breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar þar sem við samþykktina bætast átta viðaukar um fullnaðarafgreiðslur samkvæmt 48. gr. sveitarstjórnarlaga, ásamt tillögu að viðaukum og öðrum fylgigögnum. Málið var tekið til fyrri umræðu á fundi borgarstjórnar 6. október sl.
Samþykkt.
6. Lagt er til að Hildur Sverrisdóttir taki sæti Áslaugar M. Friðriksdóttur í umhverfis- og skipulagsráði.
Samþykkt.
Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.
7. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 8. og 15. október.
8. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 9. október, íþrótta- og tómstundaráðs frá 2. október, mannréttindaráðs frá 13. október, skóla- og frístundaráðs frá 14. október, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 5. október, umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. og 14. október og velferðarráðs frá 1. október.
Fundi slitið kl. 21.10.
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 20.10.2015 - prentvæn útgáfa