Borgarstjórn - 20.03.2018

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2018, þriðjudaginn 20. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:06. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sigurður Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Áslaug María Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer umræða um aðgerðir gegn svifryki. R18030128

Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun: 

Hin mikla svifryksmengun sem leggst reglulega yfir borgina ógnar heilsu borgarbúa. Ekki er hægt að sætta sig við óbreytt ástand. Ljóst er að mikill hluti mengunarinnar kemur frá bílaumferð. Þar munar mest um mikla notkun nagladekkja í borginni og hátt hlutfall díselbifreiða. Götur borgarinnar eru þrifnar reglulega en alltaf er hægt að gera betur. Varanlegur árangur næst þó ekki nema ráðist verði að rót vandans. Borgarstjórn beinir því til umhverfis- og skipulagssviðs að koma með tillögur um það. 

2.    Fram fer umræða um hagkvæmt húsnæði, ungt fólk og fyrstu kaupendur. R17100200

Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Það er ánægjulegt að nú sé loksins verið að skoða lausnir fyrir hagkvæmt húsnæði og ungt fólk og að tillaga okkar Framsóknar og flugvallarvina um deilihúsnæði sem samþykkt var í borgarstjórn sé hluti af þeirri vinnu. Þetta hefði þó þurft að gerast miklu fyrr. Fyrir um 4 árum var t.d. reynt að kynna fyrir borginni svokölluð gámahús, stálgrindarhús, eins og þekkt eru víða erlendis en það var ekki stemming fyrir slíku húsnæði og engar lóðir. Framsókn og flugvallarvinir hafa allt kjörtímabilið bent á það sem betur má fara til að leysa húsnæðisvandann en nú eru t.d. tæp 3 ár síðan við lögðum fram tillögu í borgarráði eða 20. ágúst 2015 um endurskoðun deiliskipulags Úlfarsársdals m.a. með tilliti til ungs fólks, gert yrði ráð fyrir litlum hagkvæmum íbúðum og skoðað hvernig lækka mætti byggingarkostnað við hönnun, útfærslu og byggingu húsanna. Átti öllum að vera ljóst að nauðsynlegt var að fara blandaða leið en ekki einblína eingöngu á þéttingu byggðar á lóðum í höndum annarra aðila en borgarinnar og það átti að úthluta lóðum m.a. undir hagkvæmt húsnæði allt kjörtímabilið. Væri staðan nú allt önnur ef það hefði verið gert eins og ítrekað hefur verið bent á.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir bókun Framsóknar og flugvallarvina undir þessum lið. 

3.    Fram fer umræða um skýrslu innri endurskoðunar um verkferla barnaverndar, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. mars. R18010388

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að æðstu stjórnendur, borgarstjóri og borgarstjórn eigi að axla ábyrgð þegar mistök eiga sér stað þegar kynferðisbrot eru tilkynnt. Þess vegna vilja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins biðja fórnarlömb og aðstendur þeirra opinberlega afsökunar fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Börn eiga rétt á vernd og umönnun og það er mikið áfall þegar ofbeldi gegn börnum þrífst þar sem þau eiga að vera undir vernd. Það er á ábyrgð fullorðinna að bregðast við ef grunur um ofbeldi eða áreitni gegn barni kemur upp og það þarf að tryggja að auðvelt sé að koma á framfæri slíkum ábendingum innan borgarinnar, jafnvel nafnlaust, en borgarstjórn hefur þegar óskað eftir að sá möguleiki verði skoðaður. Mikilvægt er að standa með þolendum ofbeldis og taka frásagnir þeirra trúanlegar og vinna gegn þeirri þöggun sem umlykur kynferðisbrot í okkar samfélagi. Þó svo að úttekt innri endurskoðunar sýni að ferlar hafi reynst í samræmi við barnaverndarlög er ljóst að mistök voru gerð árið 2008 eða 2009 þegar ábending náði ekki til yfirmanna barnaverndar borgarinnar. Mikilvægt er að brugðist verði við þeim ábendingum sem fram koma í úttektinni af festu og fagmennsku. Þar á ekki að álasa einstaka starfsfólki heldur er þetta kerfislæg áskorun. Það stendur á yfirstjórn borgarinnar að tryggja umhverfi þar sem fólki er gert auðvelt að koma ábendingum um brot á framfæri og fá aðstoð. Þeirri áskorun verður mætt til framtíðar þó svo að skaði fortíðar verði ekki bættur.

4.    Fram fer umræða um raunhæfa möguleika á því að sameina fjármálaskrifstofur þeirra byggðasamlaga sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga og reka, þ.e. Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Sorpu bs. og Strætó bs. R18020049

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókun: 

Ég skora á borgarstjóra að hafa frumkvæði og forgöngu um það að ná fram rekstrarhagræði í byggðasamlögum Strætó, Sorpu og SHS með sameiningu á fjármáladeildum þessara félaga í ljósi rekstrarúttektar á byggðasamlögunum sem unninvar af Ágústi Þorbjörnssyni rekstrarráðgjafa. Markmiðið á að vera til hagsbóta fyrir alla eigendur byggðasamlaganna með því að spara allt að 60-70 milljónir á ári með rekstrarhagræðingunni og takmarka áhættu. 

5.    Fram fer umræða um málefni Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfis. R16040046

-    Kl. 18:35 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundi og Dóra Magnúsdóttir tekur sæti. 

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa: 

Borgarstjórn felur skóla- og frístundasviði að setja reglur í samráði við skólastjórnendur, kennara, frístundaráðgjafa, skólasálfræðinga og hagsmunaaðila nemenda og foreldra, sem miða að því að banna með öllu snjallsímanotkun nemenda á skólatíma og í frístundastarfi í grunnskólum borgarinnar. R18030009

Frestað. 

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga fosætisnefndar: 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar sem halda skal þann 3. apríl 2018 með vísan til heimildar í 2. mgr. 14. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 139/2011. Einnig er lagt til að borgarstjórn samþykki að boða til aukafundar borgarstjórnar þann 10. apríl nk. R18010003

Samþykkt. 

8.    Lagt er til að Herdís Anna Þorvaldsdóttir taki sæti í stjórnkerfis- og lýðræðisráði í stað Láru Óskarsdóttur og að Elísabet Gísladóttir taki sæti Herdísar sem varamaður í ráðinu. R14060144

    Samþykkt. 

9.    Lagt er til að Björn Jón Bragason taki sæti sem varamaður í mannréttindaráði í stað Láru Óskarsdóttur. R14060108

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Kristín Soffía Jónsdóttir og Skúli Helgason, sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

10.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 8. og 15. mars 2018. R18010002

- 16. liður fundargerðarinnar frá 8. mars, auglýsing á breytingu á deiliskipulagi Óðinstorgs, reitur 1.181.0, er samþykktur. R18030026

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir óháður borgarfulltrúi sitja hjá við afgreiðsluna. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bóka að betur væri að fresta breytingum á skipulagi við Óðinstorg og úttekt unnin á bílastæðamálum í borginni. Með tillögunni er samþykkt að bílastæðum fækki um 12 talsins. Bílastæðamál íbúa í miðborginni þarf að skoða á heildrænan hátt. Flestir íbúar hafa nú þegar greitt fyrir götustæði og eiga rétt á að þau stæði séu í boði við heimili þeirra. Einnig er ekki annað ásættanlegt en að tekið verði tillit til þess að svæðið er mikið ferðamannasvæði. Sanngjarnt og eðlilegt er því að áður en ákvarðanir eru teknar liggi fyrir hvort fækkun götustæða við heimili sé farin að nálgast þessi mörk og þess gætt að ekki sé gengið á rétt íbúanna.

Dagur B. Eggertsson víkur af fundi undir umfjöllun um þennan lið. 

- 19. liður fundargerðarinnar frá 8. mars; breyting á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis – Frakkastígur-Skúlagata, er samþykktur með tíu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn fimm atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa. R17100354

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Margt gott er í fyrirliggjandi tillögu til dæmis hvað varðar umferð gangandi og hjólandi, yfir Sæbraut og að göngustíg við Sólfarið og notkun lóðanna milli Sæbrautar og Skúlagötu. Mótmæli íbúa eru þó gríðarlega hávær hvað varðar 8 hæða nýbyggingu sem er hluti tillögunnar á horni Skúlagötu og Frakkastígs og betur þarf að huga að samráði við þá. Ekki er mikið svigrúm á horninu og að baki þess stendur hús Tónmenntaskólans í Reykjavík sem opnar inn á gömlu byggðina fyrir ofan Skuggann. Ástæða er til að skoða betur hvernig nýta má lóðina.

- 33. liður fundargerðarinnar frá 8. mars; úthlutun lóðar og sala byggingarréttar til Bjargs fyrir lóð 1.-1. við Kleppsmýrarveg í Vogabyggð ,er samþykktur. R18020230

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir óháður borgarfulltrúi sitja hjá við afgreiðsluna. 

- 21. liður fundargerðarinnar frá 15. mars; borgarstjórnarkosningar 26. maí 2018, kjörstaðir í Reykjavík, þóknanir til kjörstjórna og umboð borgarstjórnar til borgarráðs, er samþykktur. R17040014

- 28. liður fundargerðarinnar frá 15. mars; stefna um nýtingu upplýsingatækni hjá Reykjavíkurborg 2018-2022, er samþykktur. R17020072

11.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 16. mars, íþrótta- og tómstundaráðs frá 23. febrúar og 9. mars, mannréttindaráðs frá 13. mars, menningar- og ferðamálaráðs frá 12. mars, skóla- og frístundaráðs frá 14. mars, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 12. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. og 14. mars og velferðarráðs frá 15. mars. R18010074

- 3. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 16. mars; lausnarbeiðni Láru Óskarsdóttur varaborgarfulltrúa, er samþykktur. R18030113

- 8. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 16. mars; síðari umræða um endurskoðun á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, er samþykktur. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R17100263

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 14. mars: 

Það er ótrúverðugt að skóla- og frístundasvið ákveði að vísa frá tillögu sem snýr að því að skoða þætti sem misfórust í uppbyggingu og innleiðingu Reykjavík International School RIS þannig að áhersla væri lögð á hvað betur mætti fara og hvernig Reykjavíkurborg getur stutt við nýja skóla og veitt þeim leiðbeiningar svo að menntahagsmunir barna séu ætíð í hávegum hafðir. Að vísa til þess að umræddur borgarfulltrúi hafi fengið fullnægjandi upplýsingar um málið hljómar nákvæmlega eins og það eigi að breiða yfir eitt allsherjar klúður í uppbyggingu og innleiðingu skólans. Málið er greinilega pólitískt viðkvæmt þar sem það snertir bæði borgarfulltrúa meiri- og minnihlutans, enda var fyrrum skólastjóri á framboðslista sjálfstæðismanna til alþingiskosninga og varaborgarfulltrúi sjálfstæðismanna og fyrrum varamaður í skóla- og frístundaráði stjórnarmaður í skólanum á tímabili. Þá vék fyrrum borgarfulltrúi Vinstri grænna sæti í borgarráði þegar mál skólans voru til umræðu þar.

12.    Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Óskað er eftir upplýsingum um heildarlaunakostnað, ásamt launatengdum gjöldum, hvers stjórnmálaflokks á árinu 2015, 2016 og 2017. Svarið skal taka yfir greiðslur til allra fulltrúa stjórnmálaflokkanna í nefndum og ráðum á vegum Reykjavíkurborgar, sem og stjórnun B-hluta fyrirtækja og byggðasamlaga. Þá skal sundurliðað hversu margir einstaklingar þiggja launagreiðslur fyrir pólitíska setu sína í nefndum og ráðum sundurliðað eftir stjórnmálaflokkum. Einnig skal gerður greinarmunur í svarinu á kjörnum fulltrúum, þ.e.a.s. borgarfulltrúum, 1. varaborgarfulltrúum og síðan öðrum. R18020049

13.    Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Á haustmánuðum 2017 framkvæmdi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tvisvar sinnum hraðakönnun með myndavélabílum í Álmgerði. Niðurstöður þeirra kannana leiddu í ljós hátt brotahlutfall og talsverðan hraða. Þessar niðurstöður voru sendar til Reykjavíkurborgar. Óskað er eftir upplýsingum um hvaða meðferð þessi ábending frá lögreglunni til Reykjavíkurborgar hefur fengið í stjórnkerfinu og til hvaða aðgerða borgaryfirvöld ætla að grípa til og telja sig geta gripið til, til að tryggja öryggi við þessa götu. R18020049

14.    Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Óskað er eftir upplýsingum hvort að Reykjavíkurborg eða félög í hennar eigu eigi og reki bifreiðar sem keyra um á nagladekkjum á vetrarmánuðum og hversu margar þær eru. R18020049

Fundi slitið kl. 20:23

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Líf Magneudóttir

Kristín Soffía Jónsdóttir    Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 20.03.2018 - prentvæn útgáfa