Borgarstjórn - 19.9.2017

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2017, þriðjudaginn 19. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sigurður Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Gréta Björg Egilsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Börkur Gunnarsson, Áslaug María Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir.

Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða, um kaup á Aðalstræti 10 og uppsetningu á sýningu um sögu Reykjavíkur, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. september 2017. R17070029

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Hundrað ára afmæli fullveldis Íslands á næsta ári og nýlegir fornleifauppgreftir í hjarta borgarinnar sem hafa dýpkað og breytt sýn á upphaf byggðar í Reykjavík gefa tilefni til að setja á fót safn um upphaf, sögu og þróun Reykjavíkur frá landnámi til okkar dags. Með því að tengja saman Landnámssýninguna í Aðalstræti við samtengdan kjallara úr viðbyggingu Aðalstrætis 10 verður mögulegt að skapa, í hjarta borgarinnar, einstaka sögusýningu. Þessi nýja sýning mun verða nýr vettvangur til að miðla sögu og minjum sem nýlega hafa komið í ljós í miðborginni, s.s. á Alþingisreit og við Lækjargötu. Um leið mun Reykjavíkurborg eignast eitt elsta hús Reykjavíkur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ekki hafa komið fram nægileg rök fyrir því að Reykjavíkurborg leysi til sín húseignirnar að Aðalstræti 10 og setji þar upp sýningu fyrir að minnsta kosti 450 milljónir króna samtals. Forsendur verkefnisins eru að mörgu leyti óljósar sem og kostnaðaráætlun. Æskilegt er að ýtarlegri kostnaðaráætlun verði unnin fyrir verkefnið áður en bindandi afstaða verður tekin til þess. Þá skýtur skökku við að slík sýning skuli vera skipulögð áður en niðurstöður fornleifarannsóknar á Landsímareit liggja fyrir. Svo virðist sem borgarstjórnarmeirihlutinn ráðist nú í kaup á þessum húsum í miklum flýti til þess að draga athyglina frá óviðunandi vinnubrögðum sínum viðvíkjandi málefnum Víkurkirkjugarðs.

2. Fram fer umræða um aðgerðaáætlun vegna þjónustustefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 53. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. september 2017. R17020227

- Kl. 14.53 tekur Sabine Leskopf sæti á fundinum.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að vísa því til umhverfis- og skipulagsráðs að gera borgarbúum kleift að skoða lifandi upplýsingar um umferð á helstu stofnleiðum borgarinnar á vef borgarinnar eða í sérstöku smáforriti. Ferðatími á annatíma í borginni er gríðarlega misjafn og getur jafnvel tekið hátt í klukkutíma að fara frá Grafarvogi niður í miðbæ á mesta álagstíma. Eins mætti á þann hátt skila mikilvægum upplýsingum um tafir vegna viðgerða eða lokana. Mikilvægt er að aðstoða fólk við að sjá þessar upplýsingar á aðgengilegan hátt svo það í auknum mæli taki ákvarðanir um að forðast mesta álagstímann og nota ætti öll tiltæk ráð til þess.

Samþykkt að vísa tillögunni til umhverfis- og skipulagsráðs. R17090048

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að fela ÍTR að gera tillögu, við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018, um lengri og samræmdari opnunartíma allra sundlauga með það að markmiði að jafnræðis verði gætt í þjónustu við hverfi borgarinnar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R17090182

Samþykkt að vísa tillögunni til gerðar fjárhagsáætlunar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:

Á fundi ÍTR, 6. september sl., var samþykkt tillaga um lengri opnunartíma í vetur í Vesturbæjarsundlaug og Breiðholtslaug. Með þeirri samþykkt verður lengri opnunartími í fjórum sundlaugum því auk fyrrnefndra lauga er auk þess opið lengur í Laugardalslaug og Sundhöllinni. Ekki gætir jafnræðis milli hverfa hvað þessa þjónustu varðar því ekki stendur til að hafa opið lengur á Kjalarnesi, í Grafarvoginum og Árbænum sem þó eru stór og fjölmenn barnahverfi. Sundlaugarnar í þessum hverfum loka kl. 20.00 á föstudögum og kl. 18.00 um helgar þegar hins vegar verður opið til kl. 22.00 þessa daga í öðrum laugum borgarinnar. Til að tryggja að íbúar borgarinnar njóti sambærilegrar þjónustu og þeim ekki mismunað eftir því hvar þeir búa er nauðsynlegt að afgreiðslutíminn verði samræmdur og haft verði jafn lengi opið í öllum hverfislaugunum.

5. Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu forsætisnefndar um fjölda borgarfulltrúa skv. 11. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 20. júní 2017:

Í 11. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sem tóku gildi 1. janúar 2012 er kveðið á um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Þar kemur fram að í sveitarfélögum þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri skal fjöldi fulltrúa vera 23-31. Samkvæmt gildandi samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar nr. 715/2013 er Borgarstjórn Reykjavíkur skipuð 15 borgarfulltrúum, sem er undir lögbundnu lágmarki. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fjöldi borgarfulltrúa verði á næsta kjörtímabili í lögbundnu lágmarki, 23 borgarfulltrúar, við sveitarstjórnarkosningar sem fram fara þann 25. maí 2018. Forsætisnefnd er falið að vinna að nauðsynlegum breytingum á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, samþykkt um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg, sem og öðrum samþykktum eftir því sem við á.

Greinargerð fylgir tillögunni.  R14010250

Samþykkt með 11 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna Pírata og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillaga um lágmarksfjölda borgarfulltrúa byggist á 11. grein sveitarstjórnarlaga frá árinu 2011. Þar segir að í sveitarfélögum með fleiri en 100.000 íbúa skuli fjöldi fulltrúa vera á bilinu 23-31, og tekur þetta gildi á kjörtímabilinu sem hefst árið 2018. Borgarstjórn getur ekki skorast undan því að ákveða fjölda borgarfulltrúa innan þess lagaramma fyrir næsta kjörtímabil og er það ekki seinna vænna. Nú í sumar lá fyrir að samþykkja að borgarfulltrúar yrðu 23. Því var frestað í  ljósi þess að ráðherra sveitarstjórnarmála hafði boðað enn eitt frumvarp um breytingu á þessum lögum, þar sem lögbundnu lágmarki yrði breytt í 15 fulltrúa. Í ljósi breyttra aðstæðna við stjórn landsins liggur hins vegar nú þegar algjörlega fyrir að frumvarpið mun ekki ná fram að ganga. Stjórnarslit, starfsstjórn og pólitísk upplausn hafa því sjálfkrafa bundið enda á þessar vangaveltur. Reykjavíkurborg, sem fjölskipað lýðræðislegt stjórnvald, getur ekki látið upplausnarástand í landsmálunum ráða því hvort borgin ákveði að fari að lögum eða ekki – hvað sem mismunandi sjónarmiðum innan borgarstjórnar líður.  Rétt er að taka fram að fyrir liggur tillaga um að fjölgun borgarfulltrúa muni fela í sér að föst laun varaborgarfulltrúa og annarra kjörinna fulltrúa í nefndum og ráðum falli niður og myndi sú útfærsla leiða til þess að heildarútgjöld borgarinnar lækki um 28 m.kr. sparnaðar fyrir fjölgun borgarfulltrúa.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Sem fyrr leggjast borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gegn því að borgarfulltrúum í Reykjavík verði fjölgað um 53% við næstu borgarstjórnarkosningar eða úr 15 í 23. Tillaga Sjálfstæðisflokksins felur í sér að Alþingi breyti lagaákvæði í sveitarstjórnarlögum þannig að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað eða ekki. Með því að vísa tillögunni frá en samþykkja um leið tillögu um fjölgun borgarfulltrúa í 23 hafa borgarfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina tekið skýra afstöðu með fjölgun borgarfulltrúa. Þar sem um er að ræða útþenslu kerfisins þarf það ekki að koma á óvart að vinstri flokkarnir líti til fjölgunar borgarfulltrúa með sérstakri velþóknun. Þeir telja slíka fjölgun og kostnaðaraukningu í yfirstjórn vera af hinu góða á sama tíma og ekki tekst að manna stöður lögbundinnar grunnþjónustu í þágu barna og unglinga.

6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Í 5. tölulið 11. greinar sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að fjöldi aðalmanna í sveitarstjórn skuli vera 23-31 í sveitarfélagi með fleiri en 100.000 íbúa. Umrætt ákvæði, sem taka á gildi í síðasta lagi í lok næsta kjörtímabils borgarstjórnar, leggur þær skyldur á herðar Reykjavíkurborgar að fjölga kjörnum borgarfulltrúum um 53-107%. Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á Alþingi að endurskoða umrætt lagaákvæði í því skyni að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað eða ekki.

Samþykkt með 11 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að vísa tillögunni frá. R14010250

7. Fram fer umræða um skýrslu um hlutverk Reykjavíkurflugvallar í öryggiskerfi landsins. R17010040

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu öryggishlutverki og ljóst að þær athuganir og áætlanir varðandi byggingu flugvallar í Hvassahrauni eru ófullkomnar og byggjast á frumgreiningu á mörgum þáttum. Ýmsar rannsóknir þarf að gera áður en ákvörðun er tekin og ef það yrði niðurstaðan að byggja flugvöll í Hvassahrauni væri ekki hægt að loka Reykjavíkurflugvelli fyrr en búið væri að byggja annan flugvöll. Úttekt þarf að gera á veðurfari bæði á jörðu niðri og í lofti á a.m.k. 5 ára tímabili en samanburður á veðurfari Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvallar grundvallaratriði. Gera þarf mælingar í mismunandi flughæðum t.d. varðandi vindafar og ókyrrð sem skiptir máli fyrir flugvélar í aðflugi og fráflugi. Skoða þarf hugsanlegar flugbrautarstefnur með tilliti til langtímaupplýsinga um vindafar. Gera þarf umfangsmiklar jarðvegsrannsóknir til að kanna undirstöður flugbrauta og annarra mannvirkja til að áætla kostnað við framkvæmdina. Mörg atriði varðandi umhverfisvernd eru óviss og ljóst að umhverfismat gæti orðið flókið og tímafrekt, má þar nefna vatnsverndarmál og náttúruvá, með tilliti til gosvirkni og hættu á sprungumyndun. Þá hljóti viðræður við sveitarfélögin Voga og Hafnarfjörð að vera forsenda þess að hefja umfangsmiklar og kostnaðarsamar undirbúningsrannsóknir og þróunarvinnu. Því er óábyrgt að taka ákvörðun um lokun Reykjavíkurflugvallar 2024.

8. Fram fer umræða um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar. R17010040

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og  Pírata og leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn fagna því að ráðherra samgöngumála hafi tekið af skarið með það að markmiði að ná sáttum í málefnum Reykjavíkurflugvallar með hliðsjón af fyrri samningum og skýrslum sem unnar hafa verið um flugvallarmálið. Borgarstjóri hefur þegar tekið sæti í viðræðunefnd ríkis, Reykjavíkurborgar og fleiri aðila sem munu ákveða næstu skref í málinu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ýmsar hugmyndir hafa komið upp í gegnum tíðina um nýja staðsetningu fyrir innanlandsflugið en í ljós hefur komið eftir miklar athugnar að þær hafa ekki verið raunhæfar. Rögnunefndin komst svo að þeirri niðurstöðu að Hvassahraunið væri álitlegur þróunarkostur fyrir nýjan flugvöll og að flugvallarskilyrði þar yrðu könnuð með nauðsynlegum rannsóknum. Langt er í land að þeirri vinnu ljúki og ekki hefur verið sannað að þessi staður uppfylli þær kröfur sem gera verður til arftaka Reykjavíkurflugvallar varðandi flugskilyrði. Það vill stundum gleymast að einnig kom fram í niðurstöðum Rögnunefndar að tryggja verður rekstur Reykjavíkurflugvallar á meðan, nýjum flugvelli, til að taka við hlutverki hans hefur ekki verið fundinn staður og hann byggður. Eitt mikilvægasta atriðið sem fram kemur í skýrslu um Öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar er að flugvellinum í Vatnsmýrinni verði ekki lokað fyrr en nýr flugvöllur til að taka við hlutverki hans er tilbúinn til notkunar. Með allar þessar staðreyndir í huga hlýtur borgarstjóri að ganga til viðræðna við samgönguráðuneytið um að tryggja að flugöryggi sé ekki skert.

9. Fram fer umræða um kostnaðarskiptingu vegna borgarlínu. R16110082

10. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 7. og 14. september 2017. R17010001

27. liður fundargerðarinnar frá 7. september, samþykkt um verkefnisstjórn miðborgarmála, samþykktur. R17030286

28. liður fundargerðarinnar frá 7. september, viðaukar við fjárhagsáætlun, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sáru hjá við afgreiðslu málsins. R17020176

29. liður fundargerðarinnar frá 7. september, breytingar á fjárfestingaáætlun A-hluta,  samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá við afgreiðslu málsins. R17020176

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir lið 30 fundargerðarinnar frá 14. september, um viðræður við Víking: R17070084

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja að borgarráð taki upp formlegar viðræður við Knattspyrnufélagið Víking um aðstöðumál félagsins o.fl. í trausti þess að farið verði í slíkar viðræður af alvöru af hálfu borgarinnar og að þær skili fljótlega niðurstöðum svo hægt sé að láta verkin tala. Enn einu sinni skal minnt á fyrirheit Reykjavíkurborgar um stækkun athafnasvæðis Víkings í samræmi við samþykkt borgarráðs 10. júlí 2008. Umrætt fyrirheit var samþykkt samhljóða í borgarráði á sínum tíma og síðan hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði, borgarstjórn og íþrótta- og tómstundaráði margoft minnt á tilvist þess og hvað eftir annað flutt tillögur um að það verði efnt með formlegum hætti. Hingað til hafa borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna ekki viljað samþykkja slíkar tillögur og þannig komið sér undan því að efna áðurnefnda samþykkt borgarráðs frá árinu 2008 með ómerkilegum undanbrögðum. Vonandi er að þær viðræður, sem nú er lagt til að verði farið í, séu ekki enn eitt bragð Samfylkingarinnar og samstarfsflokka hennar til að tefja löngu tímabærar úrbætur í aðstöðumálum Víkings. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja mikla áherslu á að þessar viðræður skili skjótum og góðum niðurstöðum og að á grundvelli þeirra verði Víkingi gert kleift að efla enn frekar starf sitt í þágu íþrótta- og æskulýðsmála í Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfum.

11. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 15. september, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. september, mannréttindaráðs frá 12. september,  menningar- og ferðamálaráðs frá 11. september, skóla- og frístundaráðs frá 23. ágúst og 13. september, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 4. september og umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. og 13. september. R17010084

Fundi slitið kl. 17.55

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Líf Magneudóttir

Marta Guðjónsdóttir Magnús Már Guðmundsson

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 19.9.2017 - Prentvæn útgáfa