Borgarstjórn - 19.5.2020

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2020, þriðjudaginn 19. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sabine Leskopf, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Skúli Helgason, Diljá Ámundadóttir Zoega, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Björn Gíslason, Egill Þór Jónsson, Valgerður Sigurðardóttir, Örn Þórðarson, Katrín Atladóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir og Aron Leví Beck.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagður fram til síðari umræðu samantekinn ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 (A- og B-hluti) ódags. sbr. 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 5. maí 2020, ásamt skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. apríl 2020, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 30 apríl 2020, yfirlýsing um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar Reykjavíkurborgar, dags. 30. apríl 2020, ábyrgða- og skuldbindingayfirlit Reykjavíkurborgar, dags. 30. apríl 2020, endurskoðunarskýrsla Grant Thornton vegna endurskoðunar ársreiknings Reykjavíkurborgar 2019, dags. 30. apríl 2020, skýrsla endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar um ársreikning Reykjavíkurborgar 2019, dags. 28. apríl 2020, og greinargerð um innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, ódags. R19120193

-    Kl. 14:00 tekur Hjálmar Sveinsson sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði. 

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 er samþykktur með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ársreikningur Reykjavíkurborgar ber vitni um styrka fjármálastjórn og sterkan rekstur Reykjavíkurborgar. Þannig er rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir um 9,2 milljarðar. Á sama tíma hefur framkvæmdastig verið gríðarlega hátt og þjónustubæting á öllum sviðum borgarinnar. Niðurstaðan er gott veganesti inn í þær efnahagslegu þrengingar sem allur heimurinn er að sigla inn í núna í kjölfar COVID-19. Borgin mun geta tekið á sig umtalsverðan kostnað vegna faraldursins en ef sveitarfélögin allt landið um kring eiga ekki að fara í niðurskurð á þjónustu þá þarf að koma yfirlýsing frá ríkinu um að það muni standa með sveitarfélögunum í gegnum þennan storm.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ekki tókst að greiða niður skuldir í mesta tekjugóðæri sögunnar og skuldasöfnun A-hluta og samstæðu halda áfram að vaxa á fullu. Uppsveiflan er búin. Skuldir og skuldbindingar samstæðu Reykjavíkurborgar jukust um 21 milljarð á síðasta ári, í góðæri, eða um u.þ.b. tvo milljarða á mánuði. Launakostnaður A-hluta hækkar um 8% á síðasta ári. Í stað þess að greiða niður skuldir eins og ríkissjóður hefur gert hafa skuldir borgarinnar aukist um meira en milljarð á mánuði síðustu árin. Atvinnuleysið er böl sem breiðir úr sér eins og veiran, en aldrei í hagsögunni hafa jafn margir misst vinnuna og nú hefur orðið. Tekjufallið er gríðarlegt og hefur áhrif á margar starfsgreinar. Við verðum að sýna ábyrgð og bregðast við þessu með frekari lækkun á álögum á fyrirtæki og heimili í borginni. Nú þurfum við verulegan viðsnúning og viðspyrnu. Við höfum lagt til sölu eigna eins og Gagnaveituna, Malbikunarstöðina Höfða og eignarhluta borgarinnar í Landsneti til ríkisins en með því móti gæti borgin mætt bæði fólki og fyrirtækjum og lækkað skuldir um leið. Vakin er athygli á því að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins undirrita samstæðureikninginn með fyrirvara (sjá ársreikning).

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2019 samanstendur af samstæðuuppgjöri, A- og B-hluta, og uppgjöri A-hluta. Rekstur innan A-hluta er að hluta eða öllu leyti fjármagnaður með skatttekjum. Sé litið til B-hluta fyrirtækja þá eru Félagsbústaðir þar undir í eigu borgarinnar en er gert að vera fjárhagslega sjálfstæð eining. Tekjur þeirra byggja á leigutekjum þeirra sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Fjöldi einstaklinga bíður eftir íbúð hjá Félagsbústöðum eða milliflutningi, þ.e.a.s. íbúð sem hentar betur þörfum einstaklingsins eða fjölskyldunnar og nauðsynlegt er að eyða biðlistum og tryggja öllum viðeigandi húsnæði. Fulltrúi sósíalista vill ítreka skoðun sína á því að rekstrarfyrirkomulag þar sem leigutekjur frá borgarbúum sem standa ekki efnahagslega vel, getur ekki verið meginuppistaða í því að halda uppi félagslegu húsnæðiskerfi. Þá er mikilvægt að hafa margþættar þarfir borgarbúa að leiðarljósi við útdeilingu fjármagns og þar er efnahagslegur veruleiki borgarbúa og stéttastaða nauðsynlegur þáttur. Nauðsynlegt er að hafa fólkið sem þekkir hvað þarf að bæta innan borgarkerfisins með í ráðum svo tryggja megi að útdeiling fjármagns nýtist sem best þörfum borgarbúa. Þetta er ekki síður mikilvægt þegar litið er fram á veginn í því ástandi sem blasir við okkur.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Ég tel vera verulega skekkju í niðurstöðum samstæðureiknings Reykjavíkurborgar. Eignir eru ofmetnar um u.þ.b. 57 milljarða króna og þar af leiðandi er eigið fé ofmetið um 57 milljarða króna. Skekkjan hefur veruleg áhrif við mat á greiðsluhæfi borgarinnar og gefur samstæðureikningurinn þannig ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu borgarinnar. Ég undirrita ársreikninginn því með fyrirvara vegna framangreinds ofmats.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins staðfestir ársreikning 2019 með fyrirvara um að reikningsskilaaðferðir séu viðeigandi og að engar skekkjur séu vegna mistaka eða sviksemi sem endurskoðun hafði ekki upplýsingar um. Með þessu er fylgt fordæmi endurskoðenda sem hafa sjálfir varið sig með fyrirvara um skekkjur vegna mögulegra mistaka eða sviksemi. Þeirra markmið er að afla nægjanlegrar vissu um að ársreikningurinn sé án verulegra annmarka. Nægjanleg vissa er engu að síður sögð ágæt vissa þótt það tryggi ekki að vitað sé um allar skekkjur vegna mistaka eða sviksemi sem kunni að vera til staðar. Fulltrúi Flokks fólksins gerir einnig sérstakan fyrirvara við að reikningsskilaaðferðir Félagsbústaða standist skoðun og lög. Tíðindum sætti þegar Einar S. Hálfdánarson sagði sig úr endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar vegna þeirrar reikningsskilaaðferðar sem brúkuð er hjá Félagsbústöðum, hin svo kallaða gangvirðisaðferð. Þar sem Félagsbústaðir eru félagslegt úrræði en ekki fjárfestingarfélag taldi hann að gera ætti fjárfestingar félagsins upp á kostnaðarvirði. Benti hann á að með því að kjörnir fulltrúar áriti ársreikning kynnu þeir að vera persónulega ábyrgir ef kröfuhafar Félagsbústaða létu á það reyna hvort ársreikningar Félagsbústaða hf. hefðu gefið glögga mynd af rekstri og efnahag félagsins. Þá kynni sú persónulega ábyrgð einnig að ná til endurskoðunarnefndar Félagsbústaða og borgarinnar.

2.    Lögð fram að nýju samþykkt fyrir innkaupa- og framkvæmdaráð, sbr. 5. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 13. mars 2020. R20020154

Samþykkt.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er löngu tímabært að innkauparáð borgarinnar fái aukið vægi í borgarkerfinu enda hafa margar þekktar brotalamir komið í ljós á þessu kjörtímabili. Athygli vekur að nú eru liðnir 16 mánuðir síðan að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu þess efnis í borgarstjórn að innkauparáði yrði gefið aukið eftirlitshlutverk. Þeirri tillögu var vísað inn í vinnu um stjórnkerfisbreytingar sem lagðar voru fram í borgarstjórn 19 feb. 2019. Þá vekur enn fremur athygli að til stóð að nýtt innkaupa- og framkvæmdaráð tæki til starfa fyrir næstum því ári síðan. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vonast til að þessi breyting hafi tilætluð áhrif á innkaupamál borgarinnar og fagna henni. Í samþykktinni er margt til mikilla bóta, t.d. skal ráðið setja reglur um framsetningu skilamata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað kallað eftir skilamati við hinar ýmsu framkvæmdir en rétt er að benda á að í engu þeirra verkefna sem hafa farið mikið fram úr hefur legið fyrir skilamat þvert á reglur borgarinnar. Þá segir einnig í samþykkt: „Verði ráðið þess áskynja að það alvarlegir ágallar séu á meðferð innkaupamáls að þörf sé á íhlutun, vísar ráðið því til borgarráðs með tillögu að afgreiðslu.“ Þetta er til mikilla bóta enda töluðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fyrir daufum eyrum frá árinu 2017 í tengslum við braggamálið.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir góðar undirtektar við þessar mikilvægar breytingar á samþykktum innkaupa- og framkvæmdaráðs sem munu auka skilvirkni í rekstri og innkaupum borgarinnar. Bent er á að tillaga Sjálfstæðisflokks sem hér er vísað til gekk samt einungis út á fjölgun fulltrúa í ráðinu en ekki verulega öflun á hlutverki ráðsins.

3.    Lagt til að Sabine Leskopf, Alexandra Briem, Elín Oddný Sigurðardóttir, Björn Gíslason og Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti sem aðalmenn í innkaupa- og framkvæmdaráði. Jafnframt er lagt til að Þorkell Heiðarsson, Rannveig Ernudóttir, Pawel Bartoszek, Örn Þórðarson og Egill Þór Jónsson taki sæti sem varamenn. Einnig er lagt til að Sabine Leskopf verði kjörin formaður ráðsins. R20030171

Samþykkt. 

4.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 7. og 14. maí. R20010001

11. liður fundargerðarinnar frá 7. maí, tillaga að göngugötum er samþykktur með 13 atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 8 atkvæðum Eyþórs Laxdals Arnalds, Mörtu Guðjónsdóttur, Björns Gíslasonar, Egils Þórs Jónssonar, Valgerðar Sigurðardóttur og Arnar Þórðarsonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R19040106

20. lið fundargerðarinnar frá 7. maí; reglur um innritun og útskrift á táknmálssviði Hlíðaskóla er vísað til síðari umræðu í borgarstjórn. R20050016

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. maí:

Reynsla síðustu 9 ára af Laugavegi sem göngugötu á sumrin hefur verið góð. Enda hefur það fyrirkomulag notið stuðnings mikils meirihluta borgarbúa ef marka má fjölda kannana sem gerðar hafa verið. Göngugötur eru mjög algengar víða um heim. Það hefur nær alls staðar sýnt sig að þær efla mannlíf, minnka mengun og styrkja rekstraraðila. Tillagan er í takt við stefnu meirihlutans í borgarstjórn. Hún byggir á deiliskipulagi Laugavegs sem göngugötu, 1. áfanga, samþykkt 18. febrúar 2020. Göturnar verða opnar fyrir akstur vegna vöruafgreiðslu, virka daga frá kl. 7:00 til 11:00 og laugardaga frá kl. 8:00 til 11:00. Í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, hefur tillagan þegar verið borin undir Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur samþykkt hana.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðarinnar frá 7. maí:

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarsstjórn sagði í grein í Fréttablaðinu þann 12. maí sl. að hún væri „að laga Laugaveginn með því að gera hann að göngugötu.“ Jafnframt heyrði hún fortíðarskvaldrið óma þar sem klappstýrur afturhaldsins halda áfram að því er virðist endalausum svanasöng bílaborgarinnar í takt við dauðateygjur arfleifðar borgarstjórnartíðar Davíðs Oddssonar. Meirihlutinn er með hann og Sjálfstæðisflokkinn á heilanum og ef þau komast í vörn, sem er alltaf að verða algengara, þá er allt Sjálfstæðisflokknum að kenna. Meira að segja er uppgerð Óðinstorgs fyrir framan heimili borgarstjóra upp á hundruði milljóna Sjálfstæðisflokknum að kenna. Síðan segir píratinn að meirihlutinn vilji minni losun gróðurhúsalofttegunda, auka samkeppnishæfni og meira valfrelsi fyrir betri, skemmtilegri og manneskjulegri borg. Fagnaðarlætin eru eftirtektarverð þegar hún lýsir því yfir að borgarbúar völdu umhverfið, grósku og sjálfbæra og nútímalega framtíðarsýn fyrir fólk fyrst og fremst, þar sem líffræðilegur fjölbreytileiki, lýðheilsa og lifandi og opið samfélag fær að blómstra, í síðustu borgarstjórnarkosningum. Einmitt! Meirihlutinn féll í annað sinn og er viðreistur með Viðreisn sem seldi sig fyrir nefndarlaun og stjórnarsetur í dótturfélögum borgarinnar til að fá þykkara launaumslag. Í kosningunum 2014 voru það Píratar sem voru í þessu hlutverki. Það þarf ekki fleiri vitnanna við.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. og 11. lið fundargerðarinnar frá 7. maí:

Hér er borin upp tillaga að varanlegum göngugötum og einnig er í bígerð að gera viðbót, sumargötur, og þar með stækka göngugötusvæðið. Þetta er gegn vilja og samráðs hagsmunaaðila og borgarbúa. Verslun virðist ekki þrífast eins eftir að lokað var fyrir alla umferð. Fólk vill koma í verslanir, það hafa kannanir sýnt. Nú eftir að létt hefur á samkomubanni kom í ljós að netverslun heldur ekki því flugi sem hún náði í aðstæðum Covid. En það er ekki sama hvar verslanir eru staðsettar. Ef aðgengi er erfitt og fólki finnst langt að ganga í þær koma færri. Ekki hefur verið rætt við Miðbæjarfélagið í Reykjavík sem telur tugi hagsmunaaðila. Ekkert heyrist heldur frá borgarmeirihlutanum um heimild í umferðarlögum sem snýr að akstri fatlaðra á göngugötum. Orlofsdagar: Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að koma eigi á móts við foreldra/forsjáraðila sem hafa þurft að ganga á orlofsdaga vegna skerðingar á leikskólaþjónustu í samkomubanni vegna COVID-19. Á sama tíma vill fulltrúi Flokks fólksins nefna að gengið var á orlofsdaga foreldra þegar verkfallið var. Verkfallið dróst á langinn vegna þvermóðsku borgaryfirvalda að semja sem leiddi til ómældra erfiðleika hjá mörgum fjölskyldum. Ætlar skóla- og frístundaráð ekki að bæta þeim foreldrum og börnum skerðingar sem hlutust af verkfallinu?

5.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 15. maí, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 14. maí, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 11. maí, skipulags- og samgönguráðs frá 6., 8. og 13. maí, skóla- og frístundaráðs frá 12. maí, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 8. maí og velferðarráðs frá 6. maí. R20010285

-    Kl. 17:40 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Dóra Magnúsdóttir tekur sæti í fjarfundarbúnaði.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gera athugasemdir við að mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar hafi ekki svarað þeim spurningum sem eftir var óskað með skýrum hætti, þ.e. hvort íþróttafélagið hafi með ákvörðun sinni brotið mannréttindastefnu borgarinnar, brotið samning þess við borgina með ákvörðun sinni og hvort það hafi áhrif á samningssamband við borgina að félagið brjóti jafnréttisstefnu. Í ljósi þess að um fordæmisgefandi og leiðbeinandi svör til íþróttafélaga er að ræða, er þess óskað að ofangreindum spurningum verði svarað með skýrum hætti og þau svör kynnt íþróttafélögum í borginni.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa brást við með skýrum hætti og í kjölfarið var ákveðið að falla frá athæfinu sem erindið varðaði. Í minnisblaði sem sent var út með fundarboði var farið ítarlega yfir stöðu málsins. Þar voru hins vegar ekki lögð fyrir svör sem send höfðu verið tilkynnanda um meðal annars hvort um brot á samningssambandi væri að ræða. Þau svör voru unnin eftir að fundarboð var sent út. Svörin voru hinsvegar kynnt munnlega fyrir fundarmönnum á fundinum. Svörin verða kynnt íþróttafélögunum í kjölfarið í samstarfi við Íþróttabandalag Reykjavíkur eins og kom fram.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 13. maí:

Verið er að smygla nýju hringtorgi á Bústaðastaðavegi rétt ofan núverandi gatnamóta við Reykjanesbraut. Reykjavíkurborg er að brjóta samgöngusáttmálann enn einu sinni. Er það gert til að hindra og tefja að mislæg gatnamót komi á mótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, en það eru önnur slysamestu gatnamót landsins. Ekki er hægt að upplýsa á fundinum hvað fyrirhugað hringtorg muni kosta en Bústaðavegur austan Kringlumýrarbrautar er á ábyrgð Reykjavíkurborgar. Sífellt er klifað á því af meirihlutanum að sækja eigi allt fjármagn til ríkisins í gegnum samgöngusáttmálann. Þar er stór forsendubrestur fyrst af hálfu borgarinnar vegna brots á samningnum m.a. vegna ljósastýringarútboðs sem að vísu var dæmt ólöglegt og svo af hendi ríkisins sem ekki getur selt Íslandsbanka og Keldnalandið í þessum aðstæðum sem var forsenda samgöngusáttmálans.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

Borgarfulltrúar meirihlutans árétta að ekkert í þeim áformum sem hér hafa verið rædd gengur gegn samgöngusáttmála. Hringtorg við Bústaðaveg brýtur ekki gegn sáttmálanum enda er það hannað í samráði við Vegagerðina.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

Hvernig má það vera að veitt sé framkvæmdaleyfi á svo stóru máli á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur samkvæmt viðauka 2.4 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar, þann 15. maí sl. án staðfestingar skipulags- og samgönguráðs? Í fundargerðinni stendur: „Bústaðavegur 151-153, framkvæmdaleyfi. Lögð fram umsókn skrifstofu framkvæmda og viðhalds dags. 8. maí 2020 um framkvæmdaleyfi vegna m.a. byggingu undirganga fyrir gangandi og hjólandi umferð undir Bústaðaveg, gerð hringtorgs á Bústaðaveg, hækkun Bústaðavegar, gerð nýrrar götu frá Bústaðavegi til norðurs vestan við Sprengisand og hesthús, gerð göngu- og hjólreiðastígs frá Miklubraut meðfram rampa að Reykjanesbraut, gerð tengistíga o.fl. Einnig er lagt fram teikningasett dags. í maí 2020. Vísað til umsagnar verkefnisstjóra.“

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

Viðkomandi framkvæmd byggir á nýju deiliskipulagi sem staðfest hefur verið af þar til bærum aðilum. Jafnframt hefur borgarráð samþykkt að bjóða verkið út. Útgáfa framkvæmdaleyfa byggir á skipulagi og heimild til útboðs og hefur farið sinn eðlilega farveg.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 14. maí og 8. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:

Það eru sterkar líkur á að brotið hafi verið gegn jafnrétti- og aðgengismálum þegar konum/stúlkum var úthýst úr kvennaklefa Sundhallarinnar og settar í klefa nýbyggingar þar sem þær þurfa að ganga í blautum sundfötum langa leið utandyra frá klefa í laug. Karlar héldu sínum. Hér er auk þess um lýðheilsumál að ræða. Tugir kvartana um þetta eru í Maskínu. Konur eiga að að sjálfsögðu að fá aftur fullan aðgang að endurgerðum kvennaklefa. Skóla- og frístundarráð: Meirihlutinn lagði fram breytingatillögu við tillögu Flokks fólksins um að „Að kerfisbundið verði farið yfir viðbrögð grunnskóla gagnvart einelti" sem er orðrétt eins nema örlítið stytt og gerði þar með tillöguna að sinni. Hér hefði verið lag til einingar og samvinnu og einfaldast að samþykkja tillögu Flokks fólksins. Vel hefði mátt skerpa á henni í framhaldinu. Í það minnsta hefði mátt bjóða Flokki fólksins að vera með í breytingartillögunni sem væri þá lögð fram í nafni allra. Í borgarráði lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að breyta verklagi á meðferð og afgreiðslu tillagna frá minnihluta til að koma í veg fyrir höfnun tillagna minnihlutans sem síðan eru lagðar fram í nafni meirihlutans eingöngu. Sú tillaga var felld. Vilji til að breyta þessu úrelta verklagi er því lítill hjá meirihlutanum

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

Niðurstaða skoðunar á því hvort endurgerð á Sundhöll Reykjavíkur sé í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttis- og aðgengismálum er sú að breytingarnar uppfylli stefnu borgarinnar í jafnréttis- og aðgengismálum. Nú hafa fatlaðar konur meðal annars mun betra aðgengi að kvennaklefanum en áður.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

Í fundargerð mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráðs frá 11. maí kemur skýrt fram að gera á skoðun á því hvort endurgerð á Sundhöll Reykjavíkur sé í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttis- og aðgengismálum og fagnar Flokkur fólksins því. Viðurkennist þó að umsögn mannréttindastjóra er mjög neikvæð og ekki í samræmi við þá breytingatillögu sem hér er lögð fram af meirihlutanum við tillögu Flokks fólksins, þ.e. að gera eigi skoðun á því hvort endurgerð á Sundhöll Reykjavíkur sé í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttis- og aðgengismálum. Flokkur fólksins og fjöldi kvenna og foreldra stúlkna bíða nú spenntar eftir niðurstöðu skoðunar enda margir afar ósáttir við með hvaða hætti kvenfólk hefur verið úthýst úr búningsklefum Sundhallarinnar og þurfa nú að ganga langa leið í blautum sundfötum frá klefa í laug Sundhallar auk þess sem mikil þrengsl eru á sturtusvæði kvenna. Vísað er í fundargerð frá 11. maí þar sem breytingartillagan er birt með skýrum hætti. „Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs: Lagt er til að mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð samþykki að láta fara fram skoðun á því hvort endurgerð á Sundhöll Reykjavíkur sé í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttis- og aðgengismálum. Breytingartillagan er samþykkt samhljóða. Tillagan samþykkt svo breytt.“

6.    Samþykkt að taka á dagskrá beiðni Rögnu Sigurðardóttur borgarfulltrúa um tímabundna lausn frá störfum sínum í borgarstjórn til 16. ágúst 2020. R19090098

Samþykkt.

Fundi slitið kl. 18:35

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Pawel Bartoszek

Skúli Helgason    Sanna Magdalena Mörtudóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 19.5.2020 - Prentvæn útgáfa