Borgarstjórn - 19.5.2015

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2015, þriðjudaginn 19. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.04. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Björk Vilhelmsdóttir, S. Björn Blöndal, Líf Magneudóttir, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug María Friðriksdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Reykjavíkurborg greiðir 18% af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands samkvæmt lögum frá árinu 1982. Sinfóníuhljómsveitin er þjóðarhljómsveit sem hefur aðsetur í Hörpu. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru 211.000 en 42% þeirra búa í öðrum sveitarfélögum en í Reykjavík. Borgarstjórn lýsir sig reiðubúna til að styðja við Sinfóníuhljómsveit Íslands en þó einungis 58% af núverandi framlagi enda muni önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu greiða 42% af því framlagi sem Reykjavíkurborg hefur greitt fram til þessa. Borgarstjórn lýsir yfir að skylduþátttaka borgarinnar í rekstri hljómsveitarinnar með lögum sé ósanngjörn enda koma áheyrendur hennar af öllu suðvesturhorni landsins. Borgarstjórn sættir sig ekki við að Reykjavík, eitt sveitarfélaga, beri þennan kostnað og lítur svo á að annað hvort geri það öll sveitarfélögin á svæðinu eða ekkert þeirra. Borgarstjórn felur borgarstjóra að taka þetta mál upp við ríkisstjórn Íslands og óska eftir því að önnur sveitarfélög taki þátt í rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar, eins og heimilt er í lögum, en ella að lagðar verði til breytingar á lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem jafnræði verði gætt meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem standa eiga að rekstrinum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu: 

Sinfóníuhljómsveit Íslands gegnir lykilhlutverki í menningar- og tónlistarlífi landsins og eru ríki og Reykjavíkurborg aðalbakhjarlar hljómsveitarinnar. Upphaflega hugmyndin var að fleiri sveitarfélög styrktu einnig starfsemi hljómsveitarinnar enda starfsemi hennar eða aðdáendahópur alls ekki bundinn við borgarmörkin. Borgarstjórn skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að vinna að því að önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu taki þátt í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands, eins og heimilt er í lögum. Takist það ekki er því beint til ráðherra að leggja fyrir Alþingi að gera breytingar á lögum nr. 36/1982 með það fyrir augum að endurskoða ákvæði um fjármögnun Sinfóníuhljómsveitar Íslands til að breikka hóp bakhjarla sveitarinnar og skjóta þannig öflugri stoðum undir starfsemi hennar. Borgarstjórn felur borgarstjóra að fylgja málinu eftir. 

- Kl. 14.58 víkur Áslaug María Friðriksdóttir af fundinum og Hildur Sverrisdóttir tekur þar sæti. 

Afgreiðslu málsins er frestað á fundinum og fer atkvæðagreiðsla fram kl. 17.04. Þá hafa Júlíus Vífill Ingvarsson og Björk Vilhelmsdóttir vikið af fundinum og Marta Guðjónsdóttir og Heiða Björg Hilmisdóttir tekið sæti í þeirra stað. 

Framlögð breytingartillaga samþykkt. 

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að beina þeim tilmælum til ríkisvaldsins að rýmka reglur um hollustuhætti og matvæli svo það sé hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvernig það kýs að haga reglum um á hvaða stöðum sé leyfilegt að hafa dýr, svo sem á kaffihúsum, veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum, samkomuhúsum o.s.frv. Það er réttlætismál að sveitarfélög hafi svigrúm gagnvart eigendum slíkra staða að leyfa dýrahald ef þeir óska.

- Kl. 15.40 víkur Júlíus Vífill Ingvarsson af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti. 

Samþykkt.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

3. Fram fer umræða um upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar.

- Kl. 16.37 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundi og Heiða Björg Hilmisdóttir tekur þar sæti. 

4. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 7. maí. 

- 31. liður, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkur vegna starfsmats samþykktur með 9 atkvæðum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Óskað er eftir því að þeim borgarfulltrúum sem þess óska verði afhent eintak af ársreikningi Reykjavíkurborgar 2014 þar sem sýndar verði tölur úr upphaflegri fjárhagsáætlun, sem samþykkt var í desember 2013, samhliða niðurstöðutölum ársreiknings 2014.

Frestað.

5. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 15. maí, menningar- og ferðamálaráðs frá 4. og 11. maí, skóla- og frístundaráðs frá 13. maí, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 4. maí, umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. og 13. maí og velferðarráðs frá 7. maí.

- 2. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 24. apríl; breytingar á samþykktum skóla- og frístundaráðs og á viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar samþykktur með 9 atkvæðum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

- 3. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 24. apríl; breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna fundargerða borgarstjórnar samþykktur með 11 atkvæðum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Fundi slitið kl. 17.09

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Skúli Helgason Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 19.5.2015 - prentvæn útgáfa