Borgarstjórn - 19.3.2019

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2019, þriðjudaginn 19. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:04. Voru þá komnir til fundar auk Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur staðgengils borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Sabine Leskopf, Guðrún Ögmundsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir, Egill Þór Jónsson, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir, Örn Þórðarson og Björn Gíslason. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagðar fram reglur Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk, sbr. 2. lið fundargerðar velferðarráðs frá 13. mars sl. 

-    Kl. 14:27 tekur Aron Leví Beck sæti á fundinum.  R19030085

Samþykkt. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna fagna því hver hratt og vel hefur gengið að útfæra nýjar reglur um notendastýrða persónulega aðstoð, enda um mikilvæga grunnþjónustu að ræða. Samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila og komu mikilvægar athugasemdir og sjónarmið þar fram. Mikilvægt er að sá innleiðingartími sem nú gengur í garð verði vel nýttur til að afla reynslu og að þessar reglur verði endurskoðaðar með tilliti til þeirrar reynslu. Borgarfulltrúarnir harma þó að bráðabirgðaákvæði laga um notendastýrða persónulega aðstoð skuli takmarka fjölda samninga á þann hátt sem þar er gert. Miðað við reynslu úr tilraunaverkefninu og þær umsóknir sem fyrir liggja er ljóst að sá fjöldi sem áætlaður er muni ekki duga til að koma til móts við þá þörf sem fyrir liggur og þau réttindi sem fólk með sérstakar stuðningsþarfir á sannarlega samkvæmt lögum nr. 38/2018. Borgarfulltrúarnir hvetja því eindregið til þess að fjárheimildir verði auknar og samningum fjölgað, en sé vilji til þess af hálfu ríkisins að fjölga samningum mun það ekki stranda á meirihlutanum í Reykjavíkurborg.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að reglur Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) séu nú loks samþykktar í borgarstjórn. Þrátt fyrir samþykkt á nýjum reglum er afar mikilvægt að á næstu árum innleiðingaferlisins verði hægt að endurskoða reglurnar komi t.d. í ljós augljósir vankantar á þeim. Áframhaldandi samstarf við notendur og hagsmunasamtök er lykilatriði þegar kemur að því að tryggja bestu mögulegu framkvæmd þjónustunnar til framtíðar.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Sósíalistaflokksins fagnar því að notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) sé lögbundið þjónustuform og fagnar því að reglur borgarinnar um þá þjónustu líti nú dagsins ljós. Greinargerð með tillögunni greinir frá því að fjárheimild velferðarsviðs vegna NPA þjónustuforms fyrir árið 2019 sé 445,6 m.kr. Í reglum Reykjavíkurborgar kemur fram að fjármagnið sem er til ráðstöfunar byggi á samþykktri fjárveitingu frá ríkissjóði, sbr. bráðabirgðaákvæði I í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Þar kemur fram að ríkissjóður veiti framlag til ákveðins fjölda NPA samninga á innleiðingartímabilinu frá árinu 2018-2022. Þar stendur einnig að ákvæði þetta og fyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar auk þeirra álitaefna sem upp koma við framkvæmd laga þessara á tímabilinu skuli endurskoða innan þriggja ára frá gildistöku þeirra í ljósi fenginnar reynslu. Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur gríðarlega mikilvægt að fjárheimildir séu ekki til þess fallnar að mögulega leiða til þess að viðkomandi þurfi að bíða til lengdar eftir þjónustu sem hann á rétt á og ítrekar mikilvægi þess að meira fjármagn verði sett í málaflokkinn af hendi ríkisins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) er nú orðin lögbundið þjónustuform. Því ber að fagna að reglur borgarinnar um þá þjónustu hafa verið samþykktar. Ríkissjóður veitir framlag til ákveðins fjölda NPA samninga á innleiðingartímabilinu frá 2018 til 2022. Það er ótækt að bráðabirgðaákvæði laga um notendastýrða persónulega aðstoð skuli takmarka fjölda samninga á þann hátt sem gert er. Eins og þetta lítur út núna eru nokkrar áhyggjur að einhverjir eigi eftir að þurfa að bíða eftir þjónustu. Til að hægt sé að gæta jafnræðis og alls réttlætis þarf nægjanlegt fjármagn að fylgja inn í málaflokkinn. Annars verður þessi þjónusta ekki fullnægjandi. Miðað við reynslu og þær umsóknir sem fyrir liggja er ljóst að sá fjöldi sem áætlaður er muni ekki duga til að koma til móts við þá þörf sem fyrir liggur og þau réttindi sem fólk með sérstakar stuðningsþarfir á samkvæmt lögum nr. 38/2018. Fjölmargir þættir eiga eftir að koma betur í ljós þegar reynsla kemur á reglugerðina og framkvæmdina. Þegar kemur að endurskoðun leggur borgarfulltrúi Flokks fólksins mikla áherslu á að notendur sjálfir og hagsmunasamtök leiði þá endurskoðun.

2.    Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aðgerðaáætlun í loftgæðamálum:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki stefnumörkun í loftgæðamálum í fimm liðum svo unnt sé að fylgja eftir samþykkt borgarstjórnar frá því fyrir rúmu hálfu ári síðan um að svifryk fari ekki yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík.

1) Lagt er til að gerð verði endurskoðun á efnisvali borgarinnar varðandi gæði efna.

2) Þrif verði aukin á umferðaræðum; sópun, þvottur og rykbinding.

3) Frítt í strætó á „gráum dögum“, takmörkun þungaflutninga með efni sem valdið geta svifryksmengun á „gráum dögum“, dregið úr notkun nagladekkja í borgarlandinu og að íbúar í fjölbýlishúsum geti hlaðið rafbíla með auðveldum hætti.

4) Nýting affallsvatns í auknum mæli til að hita upp göngu- og hjólastíga borgarinnar.

5) Unnið gegn dreifingu byggðar.

Tillagan er birt í heild sinni í fylgiskjali. Greinargerð fylgir tillögunni.

-    Kl. 17:05 tekur Ragna Sigurðardóttir á fundinum og Ellen Jacqueline Calmon víkur sæti.  

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs. R19030213

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarstjórn samþykkti samhljóða 4. september síðastliðinn að svifryk fari ekki yfir heilsuverndarmörk. Talið er að 80 ótímabær dauðsföll eigi rót sína að rekja til þessa á Íslandi. Þrátt fyrir fögur fyrirheit fer svifryk ítrekað yfir heilsuverndarmörk. Tillögur Sjálfstæðismanna eru ekki ný vísindi. Ekki hefur verið farið í að hvetja fólk til að nota strætó á gráum dögum en hér er lagt til að hafa frítt í strætó á þeim dögum. Enn vantar áætlun um hleðslu rafbíla en orkuskipti verða ekki með tilraunaverkefni eingöngu. Nýting affallsvatns er hagkvæm lausn sem minnkar þörf fyrir sand og saltaustur. Bætt efnanotkun í malbiki, minni losun jarðefna og bætt gæði sands eru atriði sem tekið er á í tillögunni. Þrifum gatna og stíga hefur verið ábótavant og undir því sem við sjáum hjá erlendum borgum. Þá er mikilvægt að borgarfulltrúar átti sig á afleiðingum núverandi húsnæðisstefnu. Aldrei hefur meiri fjölgun verið á landsbyggðinni frá lýðveldisstofnun. Dreifing byggðar hefur aukið umferðarþungann á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur notkun nagladekkja aukist úr 32% í 47% á síðustu fjórum árum. Fyrsta skrefið er að horfast í augu við staðreyndirnar. Jafnframt að grípa til þeirra aðgerða sem eru mögulegar. Þannig tillögur eru lagðar til hér í dag og samþykktar til frekari úrvinnslu. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Nú þegar er yfirstandandi vinna sem lýtur að loftgæðum og aðgerðum til að bæta þau. Er þessari tillögu vísað til heildstæðrar skoðunar í yfirstandandi vinnu og til afgreiðslu í umhverfis- og heilbrigðisráði.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Enginn vafi leikur á mikilvægi þess að fyrirbyggja alvarlegar afleiðingar svifryksmengunar. Það er sennilega enginn hér sem efast um að þetta sé vandamál og að það sé hægt að vinna á þessu gríðarstóra vandamáli. Vandamáli sem kemur verst niður á þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu okkar. Mikilvægt er að sett verði fram skýr heildstæð aðgerðaáætlun í þessum málum og að henni verið fylgt eftir. Einnig þarf að tryggja meira fjármagn í málaflokkinn til þess að hægt sé að innleiða hugmyndir skrifstofu reksturs og umhirðu Reykjavíkurborgar. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er löngu tímabær. Borgarstjórn samþykkti hinn 4. september 2018 tillögu um markmið að magn svifryks fari ekki yfir heilsuverndarmörk og að nýta mætti tiltæk úrræði sem bæta loftgæði í borginni. Lítið hefur gerst síðan þá. Borgin kemur mjög skítug undan vetrinum. Veðrið er búið að vera með þeim hætti undanfarnar vikur að hæglega hefði verið hægt að ljúka vorþvotti og sópun bæði gatna og gangstétta. Það er meira talað en gert hjá meirihlutanum, sérstaklega í umhverfismálum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það eru margir samtvinnandi þættir sem valda mengun og þá fyrst og fremst malbikið og síðan útblástur bifreiða. Aðrir þættir eins og sandur og salt sem borið er á götur og gangstíga yfir veturinn eiga sinn þátt í menguninni sem og slit á dekkjum. Nauðsynlegt er að horfa til slits á malbiki sem ekki er af bestu gæðum og mengunar sem af því hlýst, en einnig vegna þeirrar hættu sem skapast þegar malbik er orðið illa slitið eins og víða er í Reykjavík. Helstu skaðvaldar eru þungaflutningabílar, rútur og strætó. Fólksbílar slíta malbiki sáralítið í samanburði við þungaflutningsbíla eftir því sem rannsóknir sérfróðra sýna. Flokkur fólksins leggur til að leitað verði leiða til að draga úr mengun af völdum umferðar með því að skoða betur samsetningu malbiks og þá sérstaklega íblöndunarefnin, hvetja bíleigendur til að velja annað en nagladekk geti þeir það vegna aðstæðna sinna og öryggisþátta á ferðaleiðum þeirra. Einnig verður að gæta að tegundum salts og sands sem notað er til hálkuvarna á veturna. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur jafnframt til að mynduð verði gróðurskjólbelti barrtrjáa meðfram götum. Barrtré halda ögnum, sem mynda svifryk, kyrrum. Mikilvægt er jafnframt að gera allt til að rafbílar verði gerðir að fýsilegum kosti.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

Borgarstjórn samþykkir að marka stefnu í launamálum sem kveður á um að hæstu laun þeirra sem starfa fyrir Reykjavíkurborg verði aldrei hærri en þreföld lægstu laun starfsmanna borgarinnar. Tillagan nær til alls starfsfólks Reykjavíkurborgar og kjörinna fulltrúa borgarinnar. Í launum eru t.a.m. meðtaldar þær greiðslur sem kjörnir fulltrúar fá ofan á grunnlaun sín vegna setu í nefndum og ráðum. Með því að tengja upphæð hæstu launa við lægstu launin tryggjum við að ákveðið samhengi sé á milli launagreiðslna Reykjavíkurborgar og að launabil á milli hinna hæst launuðu og lægst launuðu verði ekki margfalt. Sem dæmi má nefna að ef lægstu mánaðarlaun miðast við 425.000 krónur eftir þrjú ár, líkt og kröfur Starfsgreinasambandsins gera ráð fyrir, yrðu hæstu mánaðarlaun ekki hærri en 1.275.000 krónur. Lagt er til að fjármálaskrifstofu verði falið að hefja undirbúning að innleiðingu í samvinnu við mannauðsdeild og kjaranefnd Reykjavíkurborgar sem komi með tillögur að útfærslu hvað varðar launabil þeirra ólíku starfstétta sem starfa hjá Reykjavíkurborg. Í þeirri vinnu verði unnið með stjórnum og framkvæmdastjórum b-hluta fyrirtækja. Verði þeirri vinnu ekki lokið fyrir 1. júní nk., þegar nýtt stjórnskipulag Reykjavíkurborgar tekur gildi og fjármálaskrifstofa verður lögð niður, er lagt til að fjármála- og áhættustýringarsvið taki við þeirri vinnu.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19030214

Tillögunni er vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Hæstu laun æðstu stjórnenda, þ.e.a.s. embættismanna, og hæstu laun kjörinna fulltrúa þarf að lækka til að halda launabili hæstu og lægstu launa innan sómasamlegra marka. Þau laun eru ekki ákveðin í samningum milli stéttarfélaga og vinnuveitenda eins og meirihlutinn heldur fram. Sem dæmi má nefna að árið 2017 ákvað borgarstjórn að breyta launaþróun borgarfulltrúa og hafnaði tillögum kjararáðs um launahækkanir og tengdu laun þess í stað við launavísitölu. Þá ákveður kjaranefnd Reykjavíkurborgar laun æðstu stjórnenda Reykjavíkurborgar en launakjör þeirra embættismanna sem heyra undir kjaranefnd eru að hámarki 1.500.000 krónur. Þá er rétt að nefna að borgarstjórn hefur samþykkt breytingar á fjárheimildum fagsviða vegna launahækkana samkvæmt ákvörðun kjaranefndar. Ef umræða um ásættanlegt launabil á milli hæstu og lægstu launa á ekki heima í borgarstjórn, hvar á hún þá heima? Miðað við núverandi stöðu eru laun hinna hæst launuðu innan borgarinnar margfalt hærri en lægstu launin og rúmlega sexfaldur munur er á launum borgarstjóra og lægstu launum innan borgarinnar. Meirihlutinn vísar til almennra sátta vegna núverandi samningsfyrirkomulags í launamálum en það ríkir engin sátt um ofurlaun í samfélaginu. Sé ekki vilji til að lækka hæstu laun, má alltaf hækka þau allra lægstu sem mun að öllum líkindum leiða til fagnaðar hjá mörgum. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Almenn sátt er um það í íslensku samfélagi að samningar um kaup og kjör fari fram á milli vinnuveitenda og stéttarfélaga launafólks sem fara með samningsumboðið. Rétt er að nefna að í samstarfssáttmála meirihlutans segir: „Við ætlum að eyða launamun kynjanna hjá starfsfólki Reykjavíkurborgar, móta kjarastefnu og halda áfram tilraunaverkefninu um styttingu vinnuvikunnar.“ Það er að okkar mati rétt nálgun. Þar sem ekki þykir rétt að sveitarfélag beiti sér í kjaramálum með þeim beina hætti sem mælt er fyrir um í tillögunni er lagt til að tillögunni verði vísað frá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Þetta er hreint prinsippmál sem öllum ætti að þykja sjálfsagt. Hæstu laun þeirra sem starfa fyrir Reykjavíkurborg ættu aldrei að vera hærri en þreföld lægstu laun starfsmanna borgarinnar. Þetta ætti ekki síður að vera regla hjá ríkinu enda þótt borgarstjórn geti vissulega ekki beitt sér fyrir því. Borgin gæti hins vegar riðið á vaðið með góðu fordæmi og hafið vinnu við að marka stefnu í launamálum sem kveður á um einmitt þetta. Þeir sem eru á lægstu laununum eru margir hverjir sárfátækir, þeir ná engan veginn endum saman. Húsnæðiskostnaður tekur iðulega stóran hluta lágra launa. Þetta hefur verið barátta fólks árum saman og virðist ekki bóla á lausnum. Bilið milli ríkra og fátækra er orðið geigvænlegt og sértækra aðgerða er löngu þörf. Einblína þarf á jöfnuð umfram allt og grípa til aðgerða sem rétta kjör þeirra verst settu og sérstaklega barnafjölskyldna, öðruvísi næst jöfnuður ekki. Sú tillaga sem hér er lögð fram er liður í að einhver skynsemi komi inn í þessi mál og styður borgarfulltrúi Flokks fólksins hana heils hugar.

4.    Fram fer umræða um Gagnaveitu Reykjavíkur. R19030215

-    Kl. 19:30 víkur Jórunn Pála Jónasdóttir af fundinum og Ólafur Kr. Guðmundsson tekur sæti. 

-    Kl. 20:07 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir tekur sæti.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Sú staðreynd að Gagnaveita Reykjavíkur hefur fjárfest fyrir um 30 milljarða að núvirði frá árinu 2006 er mjög sláandi sérstaklega í ljósi aðdraganda stofnunar félagsins. Hluti fjárins kom frá OR, hluti úr rekstrinum og hluti var lán frá Landsbankanum. Félagið hefur kosið að vera dreift í virðiskeðjunni og vera í samkeppni á hröðum fjarskiptamarkaði. Borgarfulltrúa Miðflokksins er það til efs að slíkt standist samkeppnisreglur og því síður styrkjareglur opinberra aðila er snúa að EES samningnum. Nokkur samhljómur myndaðist á fundi borgarráðs er snýr að því að fá utanaðkomandi aðila til að skoða rekstur Gagnaveitunnar. Sú skoðun/úttekt gæti snúið að mati á því hvert virði Gagnaveitunnar er miðað við núverandi stöðu og viðskiptamódel félagsins. Eins mætti setja upp sviðsmyndir um hver arðsemi Gagnaveitunnar verði til næstu áratuga miðað við að félagið haldi óbreyttu fyrirkomulagi og selji eingöngu virka þjónustu, selji virkan og óvirkan aðgang eða selji eingöngu óvirkan aðgang. Ein sviðsmyndin gæti verið sú að selja eigi Gagnaveitu Reykjavíkur. Það er löngu tímabært að borgarstjórn fái faglega ytri ráðgjöf í þessum málum og einnig verður að velta því alvarlega upp hvort það sé eðlilegt að kjörnir fulltrúar framselji pólitískt vald sitt til ókjörinna fulltrúa þegar svo gríðarlegir fjármunir og ábyrgð er undir eins og í þessum rekstri.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Þörf borgarinnar, eins og allra annarra sem veita fólki þjónustu, fyrir öflug fjarskipti hefur vaxið stöðugt. Samkeppni við að veita fjarskiptaþjónustu hefur komið til og við búum að því að á síðasta áratug eða svo hafa verið byggðir upp öflugir innviðir fjarskipta í borginni. Uppbygging innviða á borð við þá sem Gagnaveitan hefur byggt upp er ekki á færi margra einkaaðila, það sanna dæmin. Sú innviðauppbygging Gagnaveitunnar sem átt hefur sér stað í grunnnetum hefur því tryggt samkeppni þannig að þegar Reykjavíkurborg býður út kaup á fjarskiptaþjónustu eru t.d. nokkrir aðilar um hituna. Framtíðarsýn Gagnaveitu Reykjavíkur er að styðja við snjallsamfélag framtíðarinnar fyrir borgarbúa og fyrirtæki þar sem boðið er uppá einfalda og fljótvirka gæðaþjónustu. Kerfi Gagnaveitunnar stuðlar einnig að öryggi í rekstri fjarskipta en það er vaxandi þörf fyrir slíkt. Það eru 135 þúsund nettengingar til heimila og af þeim komast um 110 þúsund á ljósleiðara alla leið. Reykjavík er meðal fremstu höfuðborga heims hvað þetta varðar með því að hverjum íbúa í þéttbýli standi til boða 1 gb tenging við netið. Þetta öfluga grunnnet eflir stöðu Reykjavíkur í samkeppni um fólk og fyrirtæki miðað við borgir í útlöndum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram tillögu þess efnis í desember sl. að Gagnaveita Reykjavíkur ehf. yrði seld og að söluandvirðið yrði nýtt til að lækka skuldir og fjármagnskostnað í samstæðu Reykjavíkurborgar. Sú tillaga mun verða lögð fram að nýju. Sala á nettengingum er hvorki hluti af grunnrekstri Reykjavíkurborgar né hefðbundnum grunnrekstri Orkuveitunnar. Miklir fjármunir liggja bundnir í dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur, Gagnaveitunni, og eru fjárfestingar frá upphafi verkefnisins yfir 30 milljarðar króna að núvirði. Borgarstjórn samþykkti hinn 16. október 2012 að selja allt að 49% hlut í félaginu og var því haldið opnu að selja meira síðar. Þrátt fyrir þessa samþykkt borgarstjórnar hefur áfram verið fjárfest í verkefninu fyrir meira en ellefu milljarða króna. Nú hafa liðið sex ár og margir milljarðar farið í að þróa verkefnið enn frekar. Nær tuttugu ár eru síðan Orkuveitan fór að fjárfesta í nettengingum og síðan þá hafa öflugir aðilar í fjarskiptum búið til samkeppnismarkað. Það er því engin þörf fyrir opinber borgarfyrirtæki í þróun markaðar í fjarskiptum. Sú leið að losa landfestar á Gagnaveitu Reykjavíkur og láta hana standa á eigin fótum myndi minnka áhættu í rekstri borgarinnar, lækka vaxtagjöld og stuðla að eðlilegu samkeppnisumhverfi á fjarskiptamarkaði.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Gagnaveitan er eitt af þessum ,,byggðasamvinnufélögum“ þriggja sveitarfélaga sem borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst vera eins og ríki í ríkinu. Kjörnir fulltrúar hafi lítið um ákvarðanir Gagnaveitunnar að gera sem og annarra b-hluta fyrirtækja borgarinnar. Gagnrýnin umræða um Gagnaveitu Reykjavíkur er nauðsynleg og löngu tímabær. Hér er um að ræða fyrirtæki sem mörgum finnst að hafi dottið úr tengslum við eiganda sinn, borgina. Þessi b-hluta fyrirtæki eru í eigu borgarinnar og eiga að lúta sömu reglum og verða að taka mið af vilja borgarbúa og ábendingum kjörinna fulltrúa. Skýrt dæmi um tengslaleysi borgarinnar við b-hluta fyrirtæki var þegar óhreinsuðu skolpi var hleypt í sjó. Borgarstjóri var sannarlega ekki fyrsti maðurinn til að fá upplýsingar um það ófremdarástand sem ríkti. Vandamál hafa komið upp hjá fleirum af þessum fyrirtækjum og þá hafa borgaryfirvöld engan veginn náð að beita sér eins og þurft hefði.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að grunnskólar í Reykjavík sjái börnum fyrir áframhaldandi talmeinaþjónustu í grunnskóla sé það faglegt mat að frekari þjónustu sé þörf. Þegar kemur að frávikum í máli og tali eins og öðrum vanda eða röskun sem börn kunna að glíma við skiptir snemmtæk íhlutun miklu máli. Ekki er síður mikilvægt að barn sem glímir við röskun af einhverju tagi, þ.m.t. málþroskaröskun, eða ef það stamar eða á í erfiðleikum með framburð að það fái fullnægjandi þjónustu eins lengi og þurfa þykir að mati fagaðila. Málþroski snertir við fjölmörgu í lífi barnsins. Góður málþroski er undirstaða bóklegs náms og hefur áhrif á tjáningu og almenn félagsleg samskipti. Það eru grundvallarmannréttindi að geta tjáð sig og skilið aðra. Málþroskaröskun eða önnur talmein sem ekki fá fullnægjandi meðhöndlun geta haft afar neikvæð áhrif á sjálfsmynd barnsins og dregið úr félagslegu öryggi þess. Undanfarin ár hefur orðið aukning á tilvísunum til talmeinafræðinga og til sérfræðiteyma þjónustumiðstöðvanna. Talið er að um 10% barna á hverjum tíma þurfi aðkomu talmeinafræðings vegna vægari eða alvarlegri vanda. Biðlisti til talmeinafræðinga hefur verið vandamál í Reykjavík eins og í aðra þjónustu á vegum borgarinnar. Annar vandi er að þegar barnið kemur í grunnskóla fær það ekki lengur þjónustu talmeinafræðinga á vegum skólans.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19030216

Tillögunni er vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Með því að vísa þessari tillögu frá finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins borgarmeirihlutinn ekki skilja mikilvægi þess að börn sem þarfnast talmeinaþjónustu fái áframhaldandi þjónustu í grunnskóla þarfnist þau þess að mati fagaðila. Börn sem þarfnast þjónustu eins og þessarar líða fyrir alla bið og verði þjónustan endasleppt vegna þess að þau útskrifast úr leikskóla getur orðið heilmikill skaði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill bara leggja áherslu á þá vanlíðan sem börn eru oft í sem glíma við vanda af þessu tagi. Þetta er spurning um að geta tjáð sig án erfiðleika, félagslegt öryggi og sjálfsmyndina. Staða barna sem þurfa áframhaldandi þjónustu í grunnskóla en fá hana ekki er grafalvarleg. Er það virkilega niðurstaða borgarmeirihlutans að skilja þessi börn eftir í lausu lofti, sérstaklega börnin sem foreldrar hafa ekki efni á að greiða fyrir talmeinaþjónustu á stofu út í bæ? 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Talmeinaþjónusta er mikilvægur þáttur í velferð og námi barna. Vinnan við að skerpa á ábyrgðarþáttum Reykjavíkurborgar hófst árið 2016 með skipan starfshóps um samræmda talmeinaþjónustu í leik- og grunnskólum og ráðningu talmeinafræðinga á þjónustumiðstöðvar. Einnig hefur samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga skilað af sér tillögu sem enn bíður afgreiðslu. Það væri því óábyrgt ef Reykjavíkurborg tæki einhliða ákvörðun um þessi mál og án þess að kostnaðarskipting liggi fyrir, og kúvendi þeirri stefnu sem mörkuð var árið 2016 og unnið er eftir í dag.

6.    Lagt er til að Sólrún Sverrisdóttir taki sæti í barnaverndarnefnd Reykjavíkurborgar í stað Katrínar Helgu Hallgrímsdóttur. Jafnframt er lagt til að Erla María Jónsdóttir Tölgyes taki sæti sem varamaður í nefndinni í stað Sólrúnar. R18060091

Samþykkt.

7.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 7. mars og 14. mars. R19010002

45. liður fundargerðarinnar frá 7. mars; endurskoðuð stefna Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er samþykktur. R18060221

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 45. lið fundargerðarinnar frá 7. mars:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill byrja á að þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að stýra þessum hópi sem hafði það hlutverk að endurskoða stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi og endurskoða jafnframt verklag með stefnunni. Sem sálfræðingur í hartnær 30 ár hafa eineltismál verið einn af mínum aðalmálaflokkum og hef ég sinnt þeim, forvörnum jafnt sem úrvinnslu innan skólasamfélagsins, á vinnustöðum í íþrótta- og æskulýðsfélögum jafnframt því að skrifa ótal greinar, pistla auk einnar bókar um þennan málaflokk. Í hópnum voru fulltrúar minni- og meirihlutans og langar mig að þakka þeim öllum samstarfið. Sérstakar þakkir fær starfsmaður hópsins, Lóa Birna Birgisdóttir, verkefnastjóri á mannauðsskrifstofu. Í endurskoðaðri stefnu og verklagi var tekið tillit til ábendinga sem borist hafa frá aðilum mála af þessu tagi sem og til umsagna og ábendinga frá starfsfólki með reynslu af vinnslu þessara mála í borginni. Leiðsögn er varðar persónuverndarmál sótti hópurinn til Persónuverndar. Í nýrri endurskoðaðri stefnu og verklagi eru nokkrar afar góðar breytingar. Ríkari áhersla er lögð á forvarnir en í fyrri stefnu. Skilgreining á einelti er víkkuð, sérstakur kafli er um úrræði og leiðir til lausna. Allt verkferli er gegnsærra og sett eru inn skýr tímamörk rannsóknar. Gerð er skýrari grein fyrir því hvað felst í frumkvæðisathugun og settur er inn texti um óhæði rannsakenda. Það er von okkar að stefna þessi og verklag sem nú hefur fengið samþykki borgarstjórnar eigi eftir að nýtast.

47. liður fundargerðarinnar frá 7. mars; persónuverndarstefna Reykjavíkurborgar, er samþykktur. R17050041

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundargerðarinnar frá 14. mars:

Það eru grafalvarleg tíðindi sem hafa borist í gegnum fréttir af heilsuspillandi rakaskemmdum í húsnæði sem heyrir undir skóla- og frístundasvið Reykjavíkur. Það vekur einnig óhug að slíkum tilfellum hefur fjölgað nokkuð að undanförnu, rétt eins og einhvers konar myglufaraldur sé í uppsiglingu á þeim stöðum sem mygla ætti einna síst að fá að grassera. Enda er um að ræða a.m.k. fjóra grunnskóla sem vitað er um og þrjár til fjórar frístundamiðstöðvar. Því má segja að þetta ástand snerti á annað þúsund börn, fjölskyldur þeirra og allt það starfsfólk sem vinnur á þessum starfsstöðvum. Langvarandi fjársvelti meirihlutans í Reykjavík hvað snýr að viðhaldi á húseignum borgarinnar er nú að birtast í þeirri myrku mynd sem nú blasir við. Þetta ástand er afleiðing af uppsöfnuðum viðhaldsskorti og rangri forgangsröðun í stjórn borgarinnar. Ljóst er að endurskoða þarf alla verklagsþætti og verkferla er varða úttektir á skólahúsnæði og setja fram raunhæfa áætlun um endurbætur og viðhald. Ljóst er að fara þarf í allsherjarúttekt á skólahúsnæði í borginni í ljósi þeirra tilvika sem komin eru upp. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa nú þegar lagt fram tillögu þess efnis í borgarráði.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundargerðarinnar frá 14. mars:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill benda á að langvarandi skortur á viðhaldi og að ekki hafi verið sett fjármagn í þennan flokk er nú illilega að koma í bakið á borgaryfirvöldum með mögulega miklum tilkostnaði og ómældum óþægindum fyrir foreldra og börn, sbr. Fossvogsskóla. Útsvarsfé borgarbúa hefur sannarlega ekki verið sett í viðhald á húsnæði þar sem börnin í borginni sækja nám sitt. Hér hefur verið flotið sofandi að feigðarósi. Staðan væri ella ekki svona slæm og þessi vandi varð ekki til í gær heldur er uppsafnaður til margra ára. Lengi var ekki hlustað á kvartanir, ábendingar og upplýsingar og ýmis einkenni hafa verið hunsuð. Hefði viðhaldi verið sinnt og brugðist strax við fyrstu mögulegu vísbendingum hefði vandinn ekki orðið svona djúpstæður. Ljóst er að umfangsmikilla framkvæmda er þörf. Hvernig á að bæta börnunum, foreldrum og starfsfólki þetta upp? Fram hefur komið að það er foreldri sem knúði á um úttekt á skólahúsnæði Fossvogsskóla. Það þurfti að knýja sérstaklega á um þetta, berjast fyrir að fá almennilega skoðun þegar börnin voru farin að veikjast vegna myglu og raka. Borgaryfirvöldum ber að hlusta á borgarbúa, heyra raddir þeirra þegar koma mikilvægar upplýsingar og ábendingar. Annað sýnir virðingarleysi gagnvart borgarbúum, foreldrum, börnum og starfsfólkinu. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundargerðarinnar frá 14. mars:

Ástand fasteigna er metið reglulega í tengslum við árlega fjárhagsáætlunargerð og brugðist er við ábendingum þess á milli. Umsjón með viðhaldi er sinnt frá fjórum hverfastöðvum undir handleiðslu fasteignastjóra á hverjum stað. Árlega er farið yfir ástand þeirra mannvirkja sem borgin rekur og verkefnum forgangsraðað eftir fjármagni sem er til umráða hverju sinni. Í viðhald hefur verið varið um þremur milljörðum á ári undanfarin þrjú ár og hefur meirihluti runnið til viðhalds leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Eftir að nýjar niðurstöður mælinga sýndu að húsnæði Fossvogsskóla væri ekki hæft til kennslu hefur starfsfólk borgarinnar unnið baki brotnu við að leysa tímabundinn vanda skólans. Eru öllu starfsfólki færðar bestu þakkir fyrir það. Því skal halda til haga að Heilbrigðiseftirlitið gerir kröfur um úrbætur þar sem þess er þörf og fylgir leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og samræmdum leiðbeiningum Umhverfisstofnunar þegar kemur að eftirliti skólahúsnæðis. Það er mikilvægt að allt skólahúsnæði uppfylli ítrustu kröfur um heilnæmt umhverfi fyrir fullorðna og börn. R19010098

22. liður fundargerðarinnar frá 14. mars; ábyrgð á lántöku Félagsbústaða hjá Lánasjóði sveitarfélaga, er samþykktur. R18100327

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 22. lið fundargerðarinnar frá 14. mars:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks vara við því að verið sé að veðsetja tekjur borgarsjóðs enn og aftur fyrir dótturfyrirtæki borgarinnar. Í þessu tilfelli fyrir þrjá milljarða króna. Lánið er á mun betri kjörum en Félagsbústöðum býðst annars og léttir á vaxtakostnaði félagsins. Rétt er að árétta að fjármálaskrifstofa borgarinnar vekur athygli á því í umsögn sinni að aðgengi borgarinnar að hagstæðum lánum Lánasjóðs sveitarfélaga lækkar um þriðjung.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 22. lið fundargerðarinnar frá 14. mars:

Í erindi Félagsbústaða kemur fram að fyrirhugaðri lántöku er að hluta ætlað að endurfjármagna óhagstæð eldri lán Félagsbústaða sem tekin voru til kaupa og viðhalds á félagslegu húsnæði og þjónustuíbúðum fyrir aldraða. Lántaka þessi er hluti af lántökuáætlun Félagsbústaða en hún nemur 6.500 m.kr. fyrir árið 2019 og samhliða þessari lántöku áformar félagið að gefa út skuldabréf í eigin nafni sem verða skráð í Kauphöll Íslands án ábyrgða eða veða í öðru en eignum félagsins. Meirihluti borgarstjórnar samþykkir erindið og vísar í umsögn fjármálastjóra.

23. liður fundargerðarinnar frá 14. mars; viðaukar við fjárhagsáætlun, er samþykktur. R19010200

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

8.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 15. mars, mannréttinda- og lýðræðisráðs frá 7. og 14. mars, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 11. mars, skóla- og frístundaráðs frá 28. febrúar og 12. mars, skipulags- og samgönguráðs frá 6. og 13. mars, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 6. mars og velferðarráðs frá 6. og 13. mars. R19010073

2. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 15. mars; samþykkt fyrir aðgengis- og samráðsnefnd Reykjavíkurborgar í málefnum fatlaðs fólks, er samþykktur. R19020099

Fundi slitið kl. 23:40

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Dóra Björt Guðjónsdóttir

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir    Björn Gíslason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 19.3.2019 - Prentvæn útgáfa