Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2013, þriðjudaginn 19. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Óttarr Ólafur Proppé, Diljá Ámundadóttir, Einar Örn Benediktsson, Dagur B. Eggertsson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Sóley Tómasdóttir. Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn setji sér almenningssamgöngustefnu Reykjavíkur. Í henni verði stefna borgarinnar í málefnum almenningssamgangna mörkuð til næstu ára eða áratuga. Borgarráði verði falið að skipa vinnuhóp um málið sem skili stefnunni innan árs.
- Kl. 14.04 tekur Björk Vilhelmsdóttir sæti á fundinum.
- Kl. 14.06 tekur Júlíus Vífill Ingvarsson sæti á fundinum.
- Kl. 14.08 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
- Kl. 14.09 tekur Oddný Sturludóttir sæti á fundinum.
- Kl. 14.10 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundi og Hjálmar Sveinsson tekur þar sæti.
Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að leggja fram svohljóðandi viðaukatillögu borgarfulltrúa Besta flokksins og borgarfulltrúa Samfylkingarinnar:
Stefnan byggi meðal annars á stefnumörkun borgarinnar sem birtist í tillögu að umverfis- og auðlindastefnu borgarinnar, drögum að aðalskipulagi Reykjavíkur til 2030, tíu ára samstarfssamningi Sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins um eflingu almenningssamgangna og þeim tölulegu markmiðum sem þar komi fram, nýrri eigendastefnu Strætó, auk tillagna um aukið hlutverk BSÍ. Þá verði gerð heildstæð tillaga að forgangsreinum Strætó og forgangsljósum fyrir strætó í Reykjavík. Tillögur hópsins liggi fyrir 1. september 2013.
Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.
Viðaukatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar samþykkt með 10 atkvæðum.
2. Fram fer umræða um aðalskipulag Reykjavíkur – borg fyrir fólk.
3. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu fulltrúa í menningar- og ferðamálaráði.
Lagt er til að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir taki sæti Mörtu Guðjónsdóttur í menningar- og ferðamálaráði og að Marta taki sæti Jóns Karls Ólafssonar sem varamaður í ráðinu.
Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.
4. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu fulltrúa í skóla- og frístundaráði.
Lagt er til að Líf Magneudóttir taki sæti Sóleyjar Tómasdóttur í skóla- og frístundaráði.
Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.
5. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu fulltrúa í umhverfis- og skipulagsráði.
Lagt er til að Sóley Tómasdóttir taki sæti Torfa Hjartarsonar í umhverfis- og skipulagsráði og að Torfi taki sæti Sóleyjar sem varamaður í ráðinu.
Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.
6. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 7. mars.
7. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 14. mars.
10. liður fundargerðarinnar, Perlan – leigusamningur, samþykktur með 10 atkvæðum gegn 5.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Afhendingaröryggi hitaveitunnar til borgarbúa er algjört forgangsmál. Ríkir almannahagsmunir búa þar að baki. Það er með miklum ólíkindum að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins skuli ásamt Vinstri grænum koma í veg fyrir að borgarfulltrúar og almenningur geti með viðhlítandi hætti kynnt sér mikilvæg gögn þess máls sem til afgreiðslu er og varðar afhendingaröryggi. Sú leyndarhyggja, sem borgarstjórnarmeirihlutinn hefur að leiðarljósi með svo vafasömum vinnubrögðum vekur enn frekari spurningar um málið, raunverulegan tilgang þess og forsendur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa stutt sölu eigna OR og studdu að Perlan yrði seld á frjálsum markaði en með skýrum ákvæðum um nýtingu og skipulag. Meirihluti Samfylkingar, Besta flokksins og Vinstri grænna vill kaupa Perluna af Orkuveitu Reykjavíkur á 950 milljónir króna. Hafa ber í huga að Reykjavíkurborg á 93,5% í Orkuveitunni og því er hér aðeins um að ræða flutning fjár úr einum vasa í annan. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja þetta óverjandi aðgerð, sem ekki tekur mið af fjárhagslegum hagsmunum Reykvíkinga. Perlan var ekki byggð sem náttúruminjasafn og ábendingar hafa komið fram frá fagmönnum um að ráðast þurfi í kostnaðarsamar framkvæmdir svo húsið henti til slíkra nota. T.d. skal efast um að sú áætlun standist að einungis kosti 100 milljónir króna að smíða milliloft o.fl. í þessu sérstæða húsi en samkvæmt gögnum málsins er ljóst að allur kostnaður við breytingar á því lendir á Reykjavíkurborg.
8. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 14. mars, skóla- og frístundaráðs frá 6. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. og 13. mars og velferðarráðs frá 28. febrúar og 7. mars.
Fundi slitið kl. 16.54
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Hildur Sverrisdóttir Karl Sigurðsson
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 19.03.13