Borgarstjórn - 19.2.2019

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2019, þriðjudaginn 19. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Pawel Bartoszek, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Dóra Magnúsdóttir, Sabine Leskopf, Aron Leví Beck, Ellen Jaqueline Calmon, Ragna Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Jórunn Pála Jónasdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Ólafur Kr. Guðmundsson, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir, Örn Þórðarson og Björn Gíslason.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagðar fram tillögur um breytingar á skipulagi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar dags. 4. febrúar 2019, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. febrúar.

Greinargerð fylgir tillögunum. R19020019

-    Kl. 15:11 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum og Daníel Örn Arnarsson tekur sæti. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingatillögu:

Lagt er til að Borgarskjalasafn verði sjálfstæð eining sem heyrir beint undir borgarráð.

Breytingatillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Tillögur um breytingar á skipulagi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar eru samþykktar með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins. 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Stjórnkerfisbreytingar sem taka gildi 1. júní næstkomandi hafa það að meginmarkmiði að einfalda, skýra og skerpa stjórnarhætti og bæta þjónustu við borgarbúa. Stærsta breytingin er að til verða þrjú ný kjarnasvið, svið þjónustu og nýsköpunar, svið mannauðs og starfsumhverfis og svið fjármála og áhættustýringar. Samhliða því verður skrifstofa eigna og atvinnuþróunar, fjármálskrifstofa og skrifstofa þjónustu og reksturs lagðar niður. Innkauparáð fær aukið hlutverk auk þess sem starf regluvarðar Reykjavíkurborgar verður eflt. Með þessum breytingum er lögð áhersla á vandaða, gagnsæja og skilvirka framkvæmd og ákvarðanatöku ásamt skipulegu og skýru eftirliti.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er mikilvægt að stjórnkerfisbreytingar feli í sér hagræðingu en borgarkerfið hefur blásið út síðustu kjörtímabil. Ekki er ljóst á tillögunum að þær feli í sér leiðir til hagræðingar. Hins vegar er því fagnað að tekið sé mið af tillögum Sjálfstæðisflokks um aukið vægi innkauparáðs og að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar (SEA) verði lögð niður. Með því staðfestir meirihlutinn að starfsemi SEA hafi verið með þeim hætti að réttast sé nú að leggja hana niður. Tillagan um stjórnkerfisbreytingar má ekki verða til þess að rannsókn á þeim fjölmörgu verkefnum sem enn eru til skoðunar í kjölfar skýrslu innri endurskoðunar á framkvæmdum við Nauthólsveg 100 (braggann) verði hætt. Þá er afar gagnrýnisvert að Borgarskjalasafn tilheyri nýju kjarnasviði þjónustu og nýsköpunar, en með réttu ætti skjalasafnið að vera sjálfstætt og óháð öðrum stofnunum Reykjavíkurborgar líkt og innri endurskoðun. Enda hefur safnið eftirlit með skjalasöfnum afhendingarskyldra aðila og lætur þeim í té leiðbeiningar um skjalavörslu. Jafnframt er rétt að geta þess að Borgarskjalasafn Reykjavíkur er héraðsskjalasafn Reykvíkinga en safnið starfar m.a. eftir lögum nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands og reglugerð um héraðsskjalasöfn nr. 283/1994. Eyðing gagna og skjala í braggamálinu undirstrikar mikilvægi framanritaðs. Þá kom fram í skýrslu Borgarskjalasafnsins; Skjalastjórn og skjalavarsla hjá Reykjavíkurborg 2018, að miklar brotalamir séu almennt séð á skjalavörslu innan borgarkerfisins.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Á fundi borgarstjórnar hinn 4. september 2018 lagði borgarfulltrúi Miðflokksins fram tillögu um að fenginn yrði óháður eða utanaðkomandi aðili til að gera úttekt á starfsemi æðstu stjórnar Reykjavíkur og að farið yrði yfir allan kostnað, verkaskiptingu og óskilvirkni í ört vaxandi kostnaði, tíðra mistaka, dóma, kvartana og annarra athugasemda sem komið hafa upp undanfarna mánuði gegn borginni. Tillagan var felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Örfáum vikum seinna fór meirihlutinn í þessa vinnu þrátt fyrir að hafa fellt tillöguna. Borgarfulltrúi Miðflokksins átelur andvara- og áhugaleysi meirihlutans í þeim áfellisdómum sem dunið hafa á borginni undanfarin misseri. Algjört getuleysi blasir við og enginn vilji til að hagræða í rekstri borgarinnar. Sem dæmi má nefna kostar miðlæg stjórnsýsla 4 milljarða á ári og skrifstofa borgarstjóra 800 milljónir. Borgarfulltrúi Miðflokksins lagði einnig fram aðra tillögu á umræddum borgarráðsfundi um að farið yrði tafarlaust í að skilgreina lögbundið hlutverk Reykjavíkur og fjármagni forgangsraðað í grunnþjónustu og að farið yrði tafarlaust í kerfisbundinn niðurskurð á skrifstofu borgarstjóra og í annarri stjórnsýslu borgarinnar. Enginn vilji er til þess að spara í rekstri borgarinnar eða sýna ráðdeild. Það er sorglegt. Á þeim grunni er ekki hægt að styðja tillögu þessa. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tiltekt í borginni er löngu tímabær og stórtækra breytinga er þörf. Strategía segir að skipurit borgarinnar sé flókið og ógegnsætt. Vandamál stjórnsýslunnar hafa ekki farið framhjá neinum. Sannarlega þarf að skerpa á eftirlitshlutverkinu og framkvæmdastjórn sem þarf að vera sýnileg og ábyrg. Skemmst er að minnast braggamálsins, eftirlitslaust, framkvæmdastjórnin týnd. Tekið er undir tillöguna um að innri endurskoðun og umboðsmaður borgarbúa heyri beint undir borgarráð. Það sama ætti að gilda um borgarlögmann og borgarritara en þeir heyra undir borgarstjóra. Þessir embættismenn eiga að vinna fyrir alla borgarfulltrúa og borgarbúa. Meirihlutinn leggur fram 11 tillögur. Borgarfulltrúi vill bóka um 11. tillöguna en hún snýr að skilgreiningu á hlutverki borgarinnar sem eiganda B-hluta fyrirtækja, þar með byggðasamlaga á borð við Strætó. Byggðasamlög eru eins og ríki í ríkinu sem eru ekki undir beinu lýðræði. Þar eru sérstjórnir sem ráðast af fjölda kjósenda. Ef þarf að vera með mörg byggðasamlög, væri ekki nær að sveitarfélög einfaldlega sameinist? B-hluta fyrirtæki eru orðin svo aftengd borginni að fólk gleymir að þau eru borgarfyrirtæki. Vandi hefur verið með sum þessara fyrirtækja. Skemmst er að minnast Orkuveitunnar og Félagsbústaða en það síðara hefur haft á sér slæma ímynd í langan tíma. Áfram munu B-hlutafélög heyra undir einn embættismann, borgarritara. Er það raunhæft?

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

Lagt er til að ákvörðunum og athöfnum Reykjavíkurborgar í tengslum við bréfa- og skilaboðasendingar til tiltekinna kjósendahópa í aðdraganda borgarstjórnarkosninga árið 2018 verði vísað til sveitarstjórnarráðuneytisins til frekari skoðunar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R17090251

-    Kl. 19:10 víkur Líf Magneudóttir af fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir tekur sæti. 

-    Kl. 21:21 víkur Örn Þórðarson af fundinum og Þórdís Pálsdóttir tekur sæti. 

Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

Lagt er til að farið verði í samstarf við sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem farið verður yfir reynslu af verkefnum undanfarinna kosninga til að efla kosningaþátttöku í ljósi ákvörðunar Persónuverndar. Markmiðið með tillögunni er að leggja línur til framtíðar í samráði við viðkomandi stofnanir, ráðuneyti og frjáls félagasamtök til að tryggja með hvaða hætti skuli að hvetja til þátttöku í kosningum. 

-    Kl. 21:52 víkja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins af fundinum.

Breytingatillagan er samþykkt. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við atkvæðagreiðsluna. 

Tillagan er samþykkt svo breytt. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við atkvæðagreiðsluna. 

-    Kl. 21:54 taka borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sæti á fundinum að nýju.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun vegna fundarskapa: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins telja „breytingatillögu“ meirihlutans á engan hátt taka til þeirra atburða sem leiddu til lögbrota borgarinnar í borgarstjórnarkosningunum 2018. Fullyrða má að ekki sé hægt að tala um breytingatillögu þar sem hin svokallaða „breytingatillaga“ er alls óskyld þeirri tillögu sem minnihlutinn lagði fram. Tillaga minnihlutans hljóðaði svo: „Lagt er til að ákvörðunum og athöfnum Reykjavíkurborgar í tengslum við bréfa- og skilaboðasendingar til tiltekinna kjósendahópa í aðdraganda borgarstjórnarkosninga árið 2018 verði vísað til sveitarstjórnarráðuneytisins til frekari skoðunar.“ Á meðan breytingatillaga meirihlutans var svohljóðandi: „Borgarstjórn samþykkir að farið verði í samstarf við sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem farið verður yfir reynslu af verkefnum undanfarinna kosninga til að efla kosningaþátttöku, m.a. í ljósi ákvörðunar Persónuverndar. Markmiðið með samstarfinu er að leggja línur til framtíðar í samráði við viðkomandi stofnanir, ráðuneyti og frjáls félagasamtök og gera tillögur um með hvaða hætti er fært að hvetja til þátttöku í kosningum.“ Meirihlutinn gat ekki tekið afstöðu til tillögu minnihlutans um að beina málinu í farveg skv. 11. kafla sveitarstjórnarlaga en sá kafli er sérstaklega til þess að virkja eftirlit sveitarstjórnarráðuneytisins með sveitarfélögum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ákvörðun Persónuverndar liggur fyrir og ber að taka hana alvarlega. Ákvörðunin vekur upp mikilvægar spurningar um með hvaða hætti verður hægt að hvetja til kosninga og hvernig er hægt að vekja áhuga þeirra hópa sem síst kjósa á því að taka þátt. Það hafa allir flokkar verið sammála um að sé mikilvægt að gera. Ráðuneytin, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög hafa hvatt til kosninga með einum eða öðrum hætti í aðdraganda kosninga. Breytingatillagan gerir ráð fyrir að komast að því hvernig hægt er að leggja línur til framtíðar í samráði við viðkomandi stofnanir, ráðuneyti og frjáls félagasamtök til þess að gæta að nýrri löggjöf um persónuvernd en um leið með hvaða hætti er hægt auka þátttöku í kosningum. Ásakanir um kosningasvindl eru grafalvarlegar og eiga ekkert erindi í sali borgarstjórnar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ákvörðun Persónuverndar er áfellisdómur yfir þeim aðgerðum sem Reykjavíkurborg stóð að til að auka kosningaþátttöku. Sjálfstæðisflokkur telur sjálfsagt að styðja frjáls félagasamtök til almennra aðgerða sem miða að aukinni kosningaþátttöku og samþykkti að leggja drög að slíkum aðgerðum en með fyrirvara. Þegar útfærslan lá fyrir í apríl 2018 töldu fulltrúar Sjálfstæðisflokks auðsýnt að hún væri varasöm og aðkoma meirihluta borgarstjórnar sem pólitískt kjörins stjórnvalds óeðlileg. Töldu fulltrúarnir því nauðsynlegt að afla álits Persónuverndar á aðgerðunum. Þar sagði borgarstjóri allt málið hafa verið „unnið eftir réttum leiðum og leikreglum“. Það samræmist ekki ákvörðunarorðum Persónuverndar en verulegar brotalamir voru á upplýsingagjöf til stofnunarinnar varðandi framkvæmdina. Í annan stað sagði borgarstjóri þetta „almenna aðgerð“, sem er einnig rangt. Var um sértækar aðgerðir að ræða eins og bent er á í ákvörðuninni. Um svipað leyti sá Persónuvernd ástæðu til að gera dómsmálaráðuneytinu og umboðsmanni Alþingis viðvart um aðgerðirnar. Ráðuneytið benti á að ungir kjósendur væru ekki upplýstir um að þeir væru andlag rannsóknar. Þá væri í einu bréfanna að finna rangar upplýsingar um borgaralega skyldu til að kjósa. Meirihluti borgarstjórnar virti að vettugi athugasemdir opinberra eftirlitsaðila. Það er nauðsynlegt að fá ráðuneyti sveitastjórnamála til að fara yfir þetta mál og hvernig það gat endað svo illa sem raun ber vitni. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Stofnunum ríkisins, Persónuvernd, Hagstofu Íslands, Þjóðskrá, dómsmálaráðuneytinu, Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Póst- og fjarskiptastofnun og vísindasiðanefnd var þvælt inn í hina svokölluðu „kosningarannsókn“ sem Reykjavíkurborg stóð fyrir í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Aldrei fyrr á Íslandi hefur verið gerð álíka árás á lýðræðið í landinu. Dómsmálaráðuneytið gerði alvarlegar athugasemdir auk Persónuverndar. Póst- og fjarskiptastofnun hafnaði beiðni Reykjavíkur um að senda smáskilaboð til kjósenda með þessum ákvörðunarorðum: Umsókn Reykjavíkurborgar í samstarfi við Háskóla Íslands, um að fá undanþágu frá banni við óumbeðnum fjarskiptum samkvæmt 46. gr. laga um fjarskipti 81/2003 er hafnað. En áfram var haldið. Ekkert í þessu máli varðar almannahagsmuni eins og það hugtak er skýrt í lögum. Það er kristaltært að viljinn til þess að hafa áhrif á kosningarnar var keyrður áfram af ásettu ráði og verknaðurinn var fullframinn og tókst. Reykjavíkurborg hylmdi yfir að svokölluð rannsókn var útvíkkuð á skrifstofum Ráðhússins þegar ákveðið var að bæta konum yfir áttrætt við og öllum útlendingum með lögheimili í Reykjavík skilaboð/bréf. Það hefur verið metið ólögmætt. Að auki telur Persónuvernd það ámælisvert að Reykjavíkurborg hafi ekki veitt stofnuninni upplýsingar um alla þætti málsins eftir að stofnunin óskaði sérstaklega eftir því með bréfi hinn 14. maí 2018.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Fullyrðingar í bókun fulltrúa Miðflokksins eru ýmist rangar, hæpnar eða mjög gildishlaðnar. Ákvörðun Persónuverndar lýtur að meðferð persónuupplýsinga, ekki öðrum atriðum. Fullyrðingar sem draga í efa úrslit lýðræðislegra kosninga eru hins vegar jafnalvarlegar og þær eru fordæmalausar. Hafi einhver grun um að ágallar á framkvæmd kosninga séu með þeim hætti að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna þarf að meðhöndla þær ávirðingar í samræmi við gildandi lög. Gildishlaðnar fullyrðingar um kosningasvik, líkt og bornar hafa verið fram í opinberri umræðu, eru ábyrgðarhluti í lýðræðissamfélagi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgin braut lög og það þarf að skoða af þar til bærum yfirvöldum sem er í þessu tilfelli sveitarstjórnarráðuneytið. Þeir sem brutu lög reyna allt hvað þeir geta til að dreifa athygli borgarbúa frá alvarleika málsins. Ákvörðun Persónuverndar er skýr og rakin í fjórum liðum. Upplýsingar um veigamikil atriði voru ekki send Persónuvernd sem er ámælisvert. Í bréfi til unga fólksins var talað um skyldu þeirra að kjósa ella væri lýðræðinu ógnað. Með þessum orðum er verið að leggja óþarfa ábyrgð á herðar þeirra. Eins og lýðræðið hvíli á þeirra herðum ella væri það í hættu. Konur yfir áttrætt er hópur sem var aldrei hluti af þessari rannsókn. Engin rök eru fyrir að upplýsa konur yfir áttrætt um kosningarétt þeirra, heldur virkar það frekar niðurlægjandi. Fram kemur hjá Persónuvernd að rannsóknin var ekki til „að skilja lága og minnkandi kjörsókn ungs fólks“ enda skilaboðin gildishlaðin og röng. Hér er aðeins eitt orð sem lýsir þessu best, sem er enska orðið „manipulation“, en ekkert íslenskt orð nær nákvæmlega þeirri merkingu. Aðkoma sveitarfélags að könnun sem þessari rétt fyrir kosningar gerir fátt annað en að skapa tortryggni. Þetta er réttlætt með því að segja þetta í þágu almannahagsmuna. Ekki er almennur skilningur manna að hér hafi almannahagsmunir verið í húfi.

3.    Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu, 147. þingmál, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. febrúar 2019. Einnig er lögð fram umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um sama mál, dags. 8. febrúar 2019. R19010349

-    Kl. 22:13 víkur Jórunn Pála Jónasdóttir af fundinum.

-    Kl. 22:30 tekur Diljá Mist Einarsdóttir sæti á fundinum. 

-    Kl. 23:09 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum. 

Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins

-    Kl. 23:12 tekur Vigdís Hauksdóttir sæti á fundinum að nýju. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tekið er undir afgreiðslu borgarráðs og umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið. Frumvarpið felur í sér mjög alvarlegt inngrip í skipulagsvald Reykjavíkur, sem lagt er til að færist úr höndum lýðræðislegra kjörinna fulltrúa í borgarstjórn og yfir til nefndar á vegum ríkisins. Við leggjumst eindregið gegn því að frumvarpið verði að lögum. Afstaða Sjálfstæðisflokks og Miðflokks er alvarleg í ljósi þess að kjörnir fulltrúar í borgarstjórn hafa alltaf staðið vörð um skipulagsvald Reykjavíkur og sjálfsstjórnarrétt þess.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Skipulagsvaldið er eitt mikilvægasta vald sveitarfélaga. Það ber að virða. Því miður hafa dæmin sannað að stundum hefur verið farið ógætilega með það. Í einstaka tilfellum þarf að friðlýsa svæði og takmarka þannig möguleika sveitarfélags til að skipuleggja viðkvæm svæði. Í því sambandi má nefna að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til að friðlýsa Elliðaárdalinn. Það er gert í þeirri viðleitni að takmarka vald borgarinnar til að fara illa með skipulagsvaldið í og við dalinn. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Miðflokksins frábiður sér því að Ráðhúsið og borgarstjórn verði notuð sem önnur málstofa Alþingis. Frumvarp um sama efni var lagt fram á Alþingi á 141. löggjafarþingi af þáverandi forseta Alþingis, Ástu R. Jóhannesdóttur, þáverandi þingmanni Samfylkingarinnar. Því er ánægjulegt að sjá að frumvarp þetta er endurflutt á þessu þingi. Að ræða umsagnir við frumvörp frá Reykjavíkurborg í borgarstjórn þegar búið er að taka þær fyrir í nefndum og borgarráði er óþarft og einungis í þessu tilfelli a.m.k. notaðar til að slá pólitískar keilur og búa til smjörklípu til að beina athyglinni frá stórum málum sem skipta máli.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er rétt að frumvarpið sem hér liggur að baki þessari umsögn er í andstöðu við meginregluna um sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga. Einhver ástæða liggur fyrir framlagningu þess og kannski er hún sú að þegar kemur að skipulags- og mannvirkjamálum á Alþingisreitnum hefur verið farið offari og farið gegn vilja fjölmargra borgarbúa, hagsmunaaðila og jafnvel sérfræðinga sbr. Víkurgarðsmálið. Álitamál hafa risið um fyrirkomulag skipulags- og mannvirkjagerðar á svæðinu sem hér um ræðir og þá er alveg ljóst að ekki fara saman hagsmunir Alþingis og Reykjavíkur. Segja má að Reykjavíkurborg með hinum ýmsu aðgerðum sínum á þessu svæði sem vakið hafa deilur og óánægju hafi sjálf kallað yfir sig frumvarp af þessu tagi.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

Borgarstjórn samþykkir að fara í auglýsingaherferð með það að markmiði að gera réttindi leigjenda sýnilegri. Leigjendum hefur fjölgað mikið á síðustu árum og eftirspurnin eftir húsnæði er gríðarleg. Skortur á íbúðum hefur leitt til þess að leigjendur hafa margir hverjir sætt sig við erfiðar aðstæður á leigumarkaði og gengist við kröfum leigusala, sem ganga gegn réttindum þeirra, af ótta við að missa húsnæðið. Reglulega birtast okkur frásagnir um skyndilegar og miklar leiguverðshækkanir og ótta leigjenda við fyrirvaralausri uppsögn leigusamnings. Þá eru dæmi um að tryggingafé sé haldið eftir af leigusölum með ólögmætum hætti og að óíbúðarhæf rými séu leigð út sem íbúðir. Mögulega óttast margir leigjendur að greina frá slæmum aðstæðum sínum, af ótta við að glata leiguhúsnæði sínu. Mikilvægt er að réttindi leigjenda séu tryggð og því er nauðsynlegt að þau séu sýnileg. Hér er lagt til að Reykjavíkurborg hefji fræðsluátak um réttindi leigjenda og stuðli þar að leiguvernd. Lagt er til að velferðarsviði í samvinnu við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu verði falið að útfæra ítarlegri hugmyndir að framsetningu auglýsingaherferðarinnar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19020165

Frestað. 

5.    Umræðu um nýja starfsemi sem heldur utan um stuðningsþjónustu á vegum velferðarsviðs, sbr. 3. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. febrúar 2019, er frestað. R19020100

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins: 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fara þess á leit við skóla- og frístundasvið: 

a) að borgin móti sér heildstæða stefnu í sérkennslumálum, b) að árangur sérkennslu verði mælanlegur á einstaklingsgrunni og milli skóla, c) að fjármagn sérkennslu til skóla byggist á mælingum (fjölda, þörf o.s.frv.), d) að sérkennslan verði skilgreind að fullu þannig að skýr greinarmunur verði á stuðningskennslu annars vegar og hins vegar sérkennslu sem kemur alfarið í staðinn fyrir bekkjarnámsefni jafningja (hve margir nemendur eru í hvorum hóp, hvað er á bak við hvern hóp (greiningar, skimanir o.s.frv.)).

Greinargerð fylgir tillögunni. R19020166

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundasviðs.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vinna við endurskoðun á fyrirkomulagi sérkennslu stendur yfir. Í samræmi við niðurstöður Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar frá 2017 er unnið með að minnka tengsl milli úthlutunar fjármagns og greininga. Mörg þeirra álitaefna sem tillagan reifar eiga erindi í þá vinnu og því er henni vísað til meðferðar hjá skóla- og frístundasviði, þar sem þessi vinna stendur yfir.

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að skóla- og frístundasviði verði falið að vinna að útfærslu á því hvernig hægt er að stýra notkun snjallsíma á skólatíma. Markmiðið væri að ýta undir ábyrga notkun og koma í veg fyrir truflandi áhrif þegar á kennslu stendur. Reykjavíkurborg væri með því að taka ábyrga afstöðu til notkunar snjallsíma barna og ungmenna og áhrifa snjalltækja á félagsfærni og þátttöku barna í skólastarfi. Lagt er til að skóla- og frístundasvið skili niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. júlí 2019 þannig að breyttar reglur geti tekið gildi á haustönn 2019. 

Greinargerð fylgir tillögunni. R19020167

Frestað. 

8.    Umræðu um innviðagjöld sem Reykjavíkurborg innheimtir er frestað. R19020168

9.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 7. og 14. febrúar. R19010002

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. febrúar:

Fulltrúi fjármálaskrifstofu gat ekki gert grein fyrir þeim 73 milljónum sem greiddar hafa verið út á braggann án heimilda eins og borgarfulltrúi Miðflokksins hefur haldið á lofti. Úr skýrslu innri endurskoðanda: Á árunum 2016-2018 samþykkti borgarstjórn þannig 202 m.kr. til Nauthólsvegar 100 á fjárhagsáætlun og borgarráð samþykkti 150 m.kr. til viðbótar 16. ágúst 2018 í viðauka við áætlun. Heildarúthlutað fjármagn til Nauthólsvegar 100 er því samtals 352 m.kr. en stórum hluta þess var úthlutað í viðaukum eftir að stofnað hafði verið til kostnaðarins (eftiráheimild). Raunkostnaður endurgerðarinnar var í byrjun desember 2018 um 425 m.kr. og því ljóst að enn hefur ekki verið óskað eftir fjármagni fyrir um það bil 73 m.kr. af heildarútgjöldunum. Borgarráð var blekkt 2017 og einnig 2018 varðandi stöðu verkefnisins. Staðfest var að fjármálaskrifstofan hefur ekki heimildir til að breyta fjárheimildum aftur í tímann og viðaukum við fjárhagsáætlun er lokað í desember ár hvert. Slíkt var staðfest af innanríkisráðuneytinu þegar óskað var eftir áliti um þetta efni 2013. Þegar ársreikningur er lagður fram þá staðfestir hann útgjöld og rekstur liðins árs og þar með er reikningsárinu lokað. Í ljósi þessa sér borgarfulltrúi Miðflokksins sig knúinn að vísa þessu máli til sveitastjórnarráðuneytisins til frekari skoðunar og rannsóknar.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Minnisblað fjármálaskrifstofu gerir góða og ítarlega grein fyrir málinu og hvernig kostnaður er færður í ársreikninga borgarinnar í tilvikum sem þessum. Það er skýr niðurstaða að ekki sé þörf á frekari samþykktum. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er rangt og út af því stendur að enn vantar heimildir fyrir 73 milljónum. Þegar skýrsla innri endurskoðunar er lesin, sjá bls. 21-26 á þessari slóð: https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/i... og tafla á bls. 22 og graf á bls. 23 er alveg ljóst að enn vantar fjárheimildir fyrir þessari upphæð. Það er lokaniðurstaða þessa fundar og ítrekað er að vísa verður málinu til sveitastjórnarráðuneytisins til frekari skoðunar og rannsóknar.

10.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 15. febrúar, mannréttinda- og lýðræðisráðs frá 14. febrúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 11. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 12. febrúar, skipulags- og samgönguráðs frá 6. og 13. febrúar, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 13. febrúar og velferðarráðs frá 6. febrúar. R19010073

-    6. liður fundargerðar forsætisnefndar; samþykkt fyrir ofbeldisvarnarnefnd, er samþykktur. R18070083

Fundi slitið kl. 00:03

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Dóra Björt Guðjónsdóttir

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir    Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 19.2.2019 - prentvæn útgáfa