Borgarstjórn - 19.2.2013

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2013, þriðjudaginn 19. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Óttarr Ólafur Proppé, Páll Hjalti Hjaltason, Einar Örn Benediktsson, Oddný Sturludóttir, Hjálmar Sveinsson, Gísli Marteinn Baldursson, Áslaug Friðriksdóttir, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir, Björn Gíslason og Sóley Tómasdóttir. Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um aðalskipulag Reykjavíkur – skapandi borg.

- Kl. 14.04 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum.

2. Fram fer umræða um málefni miðborgarinnar.

- Kl. 15.50 víkur Gísli Marteinn Baldursson af fundinum og Hildur Sverrisdóttir tekur sæti.

3. Lagt er til að Margrét Kristín Blöndal taki sæti Óttars Proppé í hverfisráði miðborgar og að Óttarr taki sæti Hugleiks Dagssonar sem varamaður í ráðinu.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

4. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 14. febrúar.

Lögð er fram að nýju svohljóðandi bókun borgarráðs vegna 12. liðar fundargerðarinnar að beiðni allra borgarfulltrúa:

Borgarráð fagnar því að náðst hafi þriggja ára samstarfssamningur milli borgaryfirvalda og íþróttahreyfingarinnar þar sem skýrt er tekið á styrkveitingum, eftirliti og öðrum samskiptamálum Reykjavíkurborgar, Íþróttabandalags Reykjavíkur og íþróttafélaganna í Reykjavík. Vakin er sérstök athygli á nýju verklagi varðandi aðkomu borgarinnar að styrkjum til viðhaldsverkefna íþróttamannvirkja sem íþróttafélög eiga eða reka samkvæmt sérstökum samningum þar um. Gert er ráð fyrir að sérstakar fjárveitingar komi vegna viðhaldsverkefna árin 2014 og 2015, líkt og á þessu ári. Til að undirbúa umfjöllun og skilgreina brýnustu verkefni er nú gert ráð fyrir að félögin og forsvarsmenn fasteigna leggi fram umsókn um styrki vegna viðhalds og er gert ráð fyrir að umsóknir liggi fyrir eigi síðar en 15. mars nk. Í umsókn komi fram hvernig viðhaldi hefur verið háttað undanfarin ár, mat á ástandi viðkomandi fasteignar, skipting á milli meiriháttar viðhalds og almenns viðhalds og áform viðkomandi félaga um framlög til viðkomandi verkefna á móti þeim styrk sem sótt er um. Til grundvallar umfjöllun um umsóknir skulu ÍTR og USK taka saman yfirlit um fyrirliggjandi skýrslur og greinargerðir varðandi ástand og viðhaldsþörf íþróttamannvirkja félaga, viðhald á umliðnum árum og forgangsröðun til framtíðar. Rétt er að undirstrika að þessir styrkir líkt og aðrir eru háðir ákvörðun á fjárhagsáætlun og framkvæmdaáætlun hvers árs.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun vegna 12. liðar fundargerðarinnar:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa á kjörtímabilinu bent á að viðhaldi margra íþróttamannvirkja sem eru í eigu hverfisíþróttafélaga í Reykjavík sé ábótavant og lagt fram tillögur til úrbóta. Brýnt er að brugðist verði við og ráðist í mest aðkallandi verkefnin áður en tjón hlýst af, sem myndi leiða af sér meiri kostnað til framtíðar. Við gerð fjárhagsáætlana 2012 og 2013 lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að fimmtíu milljónum króna yrði varið til viðhalds mannvirkja íþróttafélaga og slíkar úrbætur yrðu fjármagnaðar með tilflutningi fjár á milli viðhaldsliða en samkvæmt úttekt Almennu verkfræðistofunnar er það sú upphæð sem þarf til að standa straum af allra brýnustu úrbótum vegna umræddra mannvirkja. Sú tillaga hlaut ekki náð fyrir augum meirihluta borgarstjórnar en með tuttugu milljóna framlagi í fjárhagsáætlun 2013 til viðhaldsverkefna íþróttafélaga er þó komið til móts við áðurnefndar tillögur sjálfstæðismanna og ber að fagna því.

5. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 14. febrúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 28. janúar og 11. febrúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. febrúar og velferðarráðs frá 17. janúar.

Fundi slitið kl. 17.50

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Áslaug Friðriksdóttir Karl Sigurðsson

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 19.02.13