Borgarstjórn - 1.9.2015

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2015, þriðjudaginn 1. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug María Friðriksdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagt er til að tillaga borgarstjórnar Reykjavíkur um viðræður við ríkisvaldið um móttöku flóttafólks verði tekin inn með afbrigðum á dagskrá fundarins.

Samþykkt.

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Magnússon situr hjá við afgreiðsluna.  

Tillagan er svohljóðandi: 

Borgarstjórn samþykkir að óska eftir viðræðum við ríkisvaldið um hlutverk og aðkomu borgarinnar að móttöku flóttafólks og lýsir sig reiðubúna til að leggja sitt af mörkum til að tryggja sem flestum öruggt skjól. Borgarstjóra er falið að hefja viðræðurnar, upplýsa borgarráð um framgang þeirra á meðan á viðræðunum stendur og leggja svo fram útfærða, tímasetta og kostnaðarmetna áætlun þegar niðurstaða liggur fyrir.

Samþykkt.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Framsókn og flugvallarvina, Vinstri grænna og Pírata ásamt borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins; Júlíusi Vífli Ingvarsyni, Hildi Sverrisdóttur og Herdísi Önnu Þorvaldsdóttur leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúarnir fagna samþykkt þessarar tillögu og því að Reykjavíkurborg leggi þannig sitt af mörkum til að bregðast við þeirri neyð sem steðjar að flóttafólki í heiminum.

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Magnússon situr hjá við afgreiðslu málsins og leggur fram svohljóðandi bókun: 

Íslendingar hafa farsæla reynslu af því að taka á móti flóttamönnum og rétt er að halda því áfram eftir því sem efni og aðstæður leyfa. Sjálfsagt er að vera í góðu samstarfi við ríkisvaldið um móttöku slíkra flóttamanna hér eftir sem hingað til. Hins vegar skal varað við því að borgarstjórn skuli að óathuguðu máli hvetja til fjöldaflutninga á flóttamönnum til Reykjavíkur umfram þann fjölda sem nú þegar hefur verið ákveðinn og án þess að ljóst sé með hvaða hætti það verður gert. Áður en slík hvatning er samþykkt hefði verið eðlilegt að byrja verkefnið á réttum enda og kanna raunverulegt svigrúm og getu borgar og ríkis til að taka við stórauknum fjölda flóttamanna í borginni. T.d. þarf að athuga hvernig skólar borgarinnar, velferðarþjónusta og sjúkrahús eru í stakk búin til að auka umsvif sín í samræmi við slíkan fjölda. Þekkt er að nú þegar eru langir biðlistar eftir margvíslegri opinberri þjónustu í Reykjavík. Einnig þarf að meta hvernig húsnæðismarkaðurinn í borginni er í stakk búinn til að taka á móti slíkum fjölda. Ekkert liggur fyrir um kostnað við slíkan fjöldaflutning né kostnaðarskiptingu ríkis og borgar. Sá fjöldi sýrlenskra flóttamanna, sem komist hefur til Evrópu er aðeins lítill hluti vandans eða um 2% af þeim 10 milljónum sem talið er að hafi flúið heimili sín vegna borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi. Bent hefur verið á að það sé mun líklegra til árangurs að Vesturlönd auki hjálparstarf sitt sem næst átakasvæðinu og leggi þannig áherslu á að hjálpa sem flestum, þ.e. þeim milljónum sem búa við erfiðar aðstæður í flóttamannabúðum í Tyrklandi, Jórdaníu, Líbanon og Sýrlandi sjálfu.

2. Fram fer umræða um árshlutauppgjör Reykjavíkurborgar janúar – júní. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Uppgjör fyrir rekstur fyrstu 6 mánuði ársins sýnir að tekjur borgarinnar duga ekki fyrir útgjöldum þrátt fyrir að útsvar sé í botni. Mikið tap er á A-hluta eða sem nemur 3 milljörðum og rekstrarniðurstaða A- og B- hluta er 86% undir áætlun. Afkoma samstæðunnar er 3.420 m.kr. verri í ár en á sama tíma í fyrra. Engin rekstrarhagræðing hefur farið fram né forgangsröðun fjármuna. Borgin er að ganga á eigið fé og uppgreiðslutími skulda er orðin 34 ár. Veltufé frá rekstri er 1,4% en þarf að vera lágmark 9% að mati fjármálaskrifstofu samkvæmt síðasta ársreikningi. Það þarf að lækka rekstrarkostnað um a.m.k. 10%. Sala á byggingarrétti gengur ekki eftir. Það þarf að hafa til sölu lóðir sem fólk hefur áhuga á að kaupa. Það er staðreynd að borgin er illa rekin og meirihlutinn hefur enn ekki komið með neinar tillögur að hagræðingu og áætlanir ganga ekki eftir. Bendir fjármálaskrifstofa á það í skýrslu sinni að þessi slæma niðurstaða kalli á viðbrögð í fjármálastjórnun borgarinnar. Á það ber að hlusta. Það þarf að taka strax á rekstrarvanda borgarinnar og gera raunhæfar áætlanir. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Uppgjör fyrir rekstur fyrstu 6 mánuði ársins 2015 sýnir mjög alvarlega stöðu sem bregðast þarf við af einurð og alvöru. Tap á A-hluta árshlutareikningsins nemur rúmum 3 milljörðum króna sem er næstum tvöfalt verri staða en reiknað var með í fjárhagsáætlun. Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar segir í skýrslu sinni að þessi slæma niðurstaða kalli á viðbrögð í fjármálastjórn borgarinnar. Mikill þungi er í þeim orðum fjármálaskrifstofunnar og undirstrikar þörf þess að markviss vinna verði sett af stað og að tekið verði á rekstrarvandanum án tafar. 

- Kl. 15.55 tekur Hjálmar Sveinsson sæti á fundinum og Heiða Björg Hilmisdóttir víkur sæti. 

- Kl. 18.55 víkur Halldór Halldórson af fundinum og Hildur Sverrisdóttir tekur þar sæti. 

3. Fram fer umræða um upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar.

- Kl. 19.05 víkur Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir af fundinum og Jóna Björk Sætran tekur þar sæti. 

4. Fram fer umræða um nemendamiðað skólastarf. 

- Kl. 19.39 víkur Áslaug María Friðriksdóttir af fundinum og Herdís Anna Þorvaldsdóttir tekur þar sæti. 

5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Í því skyni að auka gagnsæi og eftirlit við ráðstöfun almannafjár beinir borgarstjórn því til borgarritara að bæta eftirfarandi texta við lið 1.4. í reglum um ferðaheimildir og greiðslu ferðakostnaðar í ferðum á vegum Reykjavíkurborgar: „Ákvarðanir um ferðir starfsmanna og ráðgjafa á vegum borgarráðs eða borgarstjórnar skulu kynntar í borgarráði en aðrar ferðir starfsmanna og ráðgjafa skulu kynntar á fundi þeirrar nefndar eða ráðs, sem viðkomandi svið heyrir undir.“

Tillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tillagan sem hér liggur fyrir er samhljóða tillögu sem var afgreidd í borgarráði á fundi þess þann 18. júní síðastliðinn. Lögð var fram og samþykkt sú breytingartillaga að ársfjórðungslegir listar yfir allar samþykktar ferðaheimildir yrðu lagðir fram á fundum fagráða og borgarráðs. Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata telja rétt að láta reyna á það verklag áður en farið er í frekari breytingar á því og umfang þess, flækjustig og kostnaður við það aukið. 

6. Lagt er til að Jónas Þór Jónasson taki sæti Guðjóns Ebba Guðjónssonar sem varamaður í stjórnkerfis- og lýðræðisráði.

Samþykkt. 

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.  

7. Lagt er til að Aðalsteinn Haukur Sverrisson taki sæti Gretu Bjargar Egilsdóttir sem varamaður í íþrótta- og tómstundaráði.

Samþykkt. 

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

8. Lagt er til að Diljá Ámundadóttir taki sæti Ingu Maríu Leifsdóttur sem varamaður í hverfisráði Laugardals.

Samþykkt.

9. Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarstjóra dags. 31. ágúst 2015: 

Borgarstjórn samþykkir að veita fjármálastjóra framlengda heimild til að greiða tónlistarskólum í Reykjavík, sem eru í tímabundnum greiðsluvanda, fyrirfram áætlað framlag Jöfnunarsjóðs vegna kennslukostnaðar vegna nemenda á miðstigi í söngnámi og/eða framhaldsstigi í söng- og tónlistarnámi, vegna september 2015, alls um 16,6 m.kr. Eigi síðar en 1. október 2015 verður aftur horfið til eftirágreiðslu framlags og kemur þá til uppgjörs á ofangreindu fyrirkomulagi.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt. 

10. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 18. júní, 2., 9., 16., 17. júlí, 13., 20., og 27.ágúst. 

Samþykkt að vísa 2. lið fundargerðarinnar frá 27. ágúst; skjalastefnu Reykjavíkurborgar, aftur til meðferðar borgarráðs.

11. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 28. ágúst, íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. og 21. ágúst, mannréttindaráðs frá 24. ágúst, menningar- og ferðamálaráðs frá 10. og 24. ágúst, skóla- og frístundaráðs frá 12. og 26. ágúst, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 24. ágúst, umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. og 26. ágúst og velferðarráðs frá 13. ágúst.

Fundi slitið kl. 20.30

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Sóley Tómasdóttir

Skúli Helgason Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 1.9.2015 - prentvæn útgáfa