Borgarstjórn - 19.1.2021

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, þriðjudaginn 19. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:01. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Eyþór Laxdal Arnalds, Valgerður Sigurðardóttir, Diljá Ámundadóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Líf Magneudóttir, Örn Þórðarson, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Björn Gíslason. Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sætu á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Hildur Björnsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Skúli Helgason, Egill Þór Jónsson, Alexandra Briem, Marta Guðjónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Sabine Leskopf, Kolbrún Baldursdóttir og Ellen Jacqueline Calmon. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer fyrri umræða um aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum árin 2021-2025. R21010216

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var hér rædd í drögum. Boðaðar eru ítarlegar og metnaðarfullar aðgerðir í loftslagsmálum þar sem áratugur aðgerða er runninn í garð. Víðtækt samráð var haft við mótun aðgerðaáætlunarinnar og mikil þátttaka almennings, félagasamtaka og fagaðila einkenndi ferlið. Nú eru drögin í umsagnarferli um alla borg og er enn hægt að senda ábendingar á usk@reykjavik.is. Má gera ráð fyrir að aðgerðaáætlunin taki frekari breytingum í þessu samráðsferli.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Mikilvægt er að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sé vönduð. Reykjavík hefur verið í fararbroddi í notkun endurnýjanlegrar orku síðan hitaveitan leysti kolakyndingu af hólmi. Þá er kolefnisbinding CarbFix framfaraskref á heimsvísu. Eitt stærsta framlag Reykjavíkurborgar gæti verið að miðla af þekkingu sinni. Hér leggjum við fram nokkrar ábendingar fyrir seinni umræðu. Hér má nefna að rafvæðing hafna er óraunhæft markmið árið 2025 þar sem mjög takmarkað fjármagn er í áætlunum borgar og ríkis. Orkuskiptin eru stórlega vanmetin en þar viljum við gera betur. Raforkuframleiðsla hér á landi er endurnýjanleg og rafvæðing því augljós valkostur í samgöngum. Þá gengur 2% árleg fækkun bílastæða ekki upp með hliðsjón af íbúafjölgun sem er um 3%. Ekkert er minnst á notkun nagladekkja í borgarlandinu. Áform um að ganga á græn svæði í borginni svo sem í Elliðaárdal og Laugardal og fleiri svæðum eru í ósamræmi við plaggið. Við viljum skýr markmið í skógrækt enda er hún hagkvæm og náttúruleg binding. Þá viljum við nefna fækkun olíutanka í Örfirisey en samþykkt var í borgarráði að fækka þeim um 50%. Ýmsar hugmyndir eru reifaðar í skjalinu og er hætta á að lesendur telji þær hluta af aðgerðaáætluninni. Þessu þarf að breyta.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Miðflokksins sem á sæti í stýrihópi um loftslagsstefnu Reykjavíkur þakkar starfsmönnum stýrihópsins fyrir vel unnin störf við gerð stefnunnar. Því er fagnað að tekið var tillit til sjónarmiða borgarfulltrúa Miðflokksins m.a. það að notast við eins nýjar upplýsingar og til voru. Vinna hópsins tafðist um nokkra mánuði vegna þessa en töfin leiddi það af sér að vinna hópsins bætti faglega niðurstöðu skýrslunnar. Auðvitað er það eðlilegt að sjónarmið aðila í stýrihópnum skarist vegna mismunandi pólitískra skoðana. Í heildina er tekið undir margt sem kemur fram í loftslagstefnunni en nokkur atriði er ekki hægt að skrifa undir eins og t.d. meginmarkmið kolefnisbindingar um endurheimt votlendis um 60% og tölusett markmið um loftslagsskóga. Ekki hafa komið fram rök byggð á vísindum sem sanna að plöntun skóga dragi úr losun. Hér er slóð á skýrslu frá IPCC, Intergovernmental Panel on Climate Change sem sannar mál mitt vegna ummæla Lífar Magneudóttur, borgarfulltrúa á borgarstjórnarfundinum að ég færi með staðlausa stafi. Borgarfulltrúi Miðflokksins gerir formlegan fyrirvara á skýrsluna og sat hjá við afgreiðslu hennar úr stýrihópnum. Jafnframt er því fagnað að senda eigi stefnuna aftur til umsagnar áður en hún er endanlega afgreidd í borgarstjórn og legg ég skýrsluna inn í starf hópsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Flokkur fólksins telur að hægt sé að styðjast við margt í aðgerðaáætluninni. Í henni hefði mátt nefna mun fleiri atriði s.s. mengunarsvæði/skotsvæði og fjörufyllingar. Einnig fleiri atriði sem hjálpa til við að gera samgöngur skilvirkar til að draga úr heildarlosun. Hugur er til að nýta metan sem orkugjafa í samgöngum, efni sem nú er brennt á báli. Nú glittir í einhver tækifæri í markaðsmálum. Ekkert er minnst á að í almenningssamgöngum er hægt að beintengja farartækin við rafmagnslínur sem sést víða í Evrópu. Þá þarf ekki að flytja rafmagn með farartækinu í rafgeymum. Hvatt er til hjólreiða og þarf fólk víða að hjóla á göngustígum sem vegna legu sinnar geta ekki orðið góðir hjólreiðastígar. Taka má dæmi um stígana í Breiðholti sem eru margir í grunninn göngustígar en sem nú má einnig hjóla á. Margir eru með þröngu vinkilhorni en fyrir hjólreiðar þarf beygjuradíus að vera 6-8 metrar að lágmarki. Við nýbyggða göngu- og hjólreiðabrú yfir Breiðholtsbraut er t.d mjög þröng beygja. Þarna eru einnig mót stíga og götu sem eru hættuleg þar sem stígaleiðin liggur beint út á götuna en útsýnið takmarkað af stígnum. Ef fólk á að hjóla verður að skapa því öruggar hjólreiðaaðstæður.

-    Kl. 16:30 víkur Líf Magneudóttir af fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir tekur sæti.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að hefja strax skipulagningu atvinnulóða fyrir stofnanir og fyrirtæki í Keldnalandinu. Fyrstu drög verði kynnt í umhverfis- og skipulagsráði í lok mars 2021.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21010217

-    Kl. 18:00 víkja Kristín Soffía Jónsdóttir og Egill Þór Jónsson af fundi og Dóra Magnúsdóttir og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taka sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði.

-    Kl. 18:30 taka Hildur Björnsdóttir, Alexandra Briem, Marta Guðjónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Sabine Leskopf, Kolbrún Baldursdóttir og Ellen Jacqueline Calmon sæti á fundinum í Borgarstjórnarsalnum. Valgerður Sigurðardóttir, Diljá Ámundadóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Örn Þórðarson, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Björn Gíslason taka sæti með fjarfundarbúnaði.

Tillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Nauðsynlegt er að Reykjavíkurborg, sem er höfuðborg, sé í fararbroddi þegar kemur að framboði lóða fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi. Meirihluti borgarstjórnar hefur því miður ekki lagt áherslu á skipulagningu hentugra lóða fyrir atvinnustarfsemi. Til marks um það má nefna fjölda fyrirtækja og stofnanna sem hafa leitað annað. Þetta eru fyrirtæki og stofnana á borð við Íslandsbanka, Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu, Tryggingastofnun ríkisins og Icelandair. Þá er Tækniskólinn mögulega á förum. Loks er löngu tímabært að hefja staðarval fyrir nýtt sjúkrahús en engin lóð er tiltæk í borgarlandinu sem stendur. Til að sporna við þessari þróun leggja Sjálfstæðismenn í Borgarstjórn Reykjavíkur til að hafist verði handa þegar í stað við að skipuleggja atvinnulóðir fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi að Keldum ásamt íbúðabyggð. Í tengslum við lífskjarasamning átti að skipuleggja hagstætt húsnæði. Það hefur verið vanrækt. Fyrir liggur í samgöngusáttmála að hraða eigi skipulagningu svæðisins „eins og kostur er“. Það hefur ekki verið gert. Það er því löngu kominn tími á að skipuleggja Keldur. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Svæðið í landi Keldna er í eigu ríkisins og er uppbygging þess hluti af fjármögnun samgöngusáttmálans. Eðlilegt er að vinna deiliskipulag á svæðinu í samráði við lóðarhafa og verður það gert. Tillögur um tafarlausa skipulagningu atvinnulóða á svæðinu eru hins vegar ekki tímabærar og myndu ekki falla vel að því samkomulagi sem gert hefur verið við ríkið. Tillagan er felld.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Keldnalandið hefur verið rætt í samhengi við íbúðauppbyggingu með verkalýðshreyfingunni og mikilvægt er að einblína á það.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Keldnalandið hentar mjög vel sem íbúasvæði og er jafnvel enn dýrmætara svæði en M22. Á þessu svæði verður að vera mikið af fólki, fjölbreytni og fullt af lífi, eins og gaman væri að sjá í öllum hverfum borgarinnar. Tengja má Keldnalandið við Grafarholt og Úlfarsárdal með göngum eða brúm yfir Vesturlandsveginn. Talsvert er um atvinnusvæði í Höfðahverfinu sem tengist Keldnalandinu vel. Margt styður íbúðabyggð í Keldnalandi, s.s. veðursæld og nálægð við atvinnu á Höfðanum. En almennt á að reyna að blanda saman atvinnu- og íbúðasvæði ásamt samgöngumiðstöðvum í hverfum borgarinnar. Að skipuleggja stórar atvinnulóðir í Keldnalandinu sem kalla á stóra vinnustaði á þessu svæði er varhugavert að mati fulltrúa Flokks fólksins.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjórnar: 

Í ljósi upplýsinga sem benda til illrar meðferðar á heimilisfólki á vistheimilinu Arnarholti fyrr á árum er lagt til að borgarstjórn samþykki að borgarstjóri fari þess á leit við forsætisráðherra að fram fari heildstæð athugun á starfsemi vistheimilisins Arnarholts og eftir atvikum annarra meðferðar- eða vistheimila á tilteknu árabili.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20110211

Samþykkt.

4.    Fram fer umræða um úrskurð kærunefndar útboðsmála í máli nr. 32/2019 varðandi útboð vegna stýribúnaðar umferðarljósa. R21010218

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er forkastanlegt að nefndarmenn í innkauparáði skuli verja þau lögbrot sem fram koma í úrskurði kærunefndar útboðsmála í ljósastýringarmálum. Það er fordæmalaust í rekstri Reykjavíkur að borgin sé dæmd til stjórnvaldssektar vegna ólöglegra innkaupa. Sektarfjárhæð sem er mjög á háum skala því hún var miðuð við 8% af heildarfjárhæð samninganna en samkvæmt lögunum getur sekt aldrei orðið meiri en 10%. Nefndin tekur sérstaklega fram að Reykjavíkurborg hefði þurft að rökstyðja það með tilhlýðilegum hætti að nauðsynlegt hafi verið að kaupa búnað án þess að fara í útboð og ganga beint til samninga við Smith&Norland. Kaup á þessum stýribúnaði er nú lykillinn að framtíðar ljósastýringum á höfuðborgarsvæðinu. Undir stjórn borgarstjóra sleit Reykjavíkurborg sig frá samkomulagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins í væntanlegum samgöngusáttmála og auglýst var útboð sem var sérhannað fyrir þennan eina aðila og voru þeir ólögmætu útboðsskilmálar kærðir og var þá útboðið fellt niður af hálfu borgarinnar. Í vörn sinni reyndi Reykjavíkurborg að bera fyrir sig margar mismunandi, misgáfulegar málsástæður og hafnaði úrskurðarnefndin þeim öllum lið fyrir lið og benti jafnframt á röksemdir borgarinnar hefðu stangast á innbyrðis. Úrskurðurinn er afdráttarlaus og er bara byrjunin á risastórum málum sem í vændum eru.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti borgarstjórnar hefur á kjörtímabilinu tekið innkaupamál Reykjavíkurborgar föstum tökum. Eftirlit með innkaupum og framkvæmdum hefur verið eflt með stofnun innkaupa- og framkvæmdaráðs auk þess sem innkaupareglur hafa verið styrktar. Þá hefur innkaupamáttur borgarinnar verið nýttur með markvissum hætti til þess að ná fram betri kjörum og stuðla að grænum áherslum. Þegar álit borgarlögmanns á niðurstöðu kærunefndar útboðsmála liggur fyrir verður vandlega farið yfir hvort ástæða sé til að skerpa enn betur á verkferlum borgarinnar en óvarlegt er að taka afdráttarlausa efnislega afstöðu áður en það álit liggur fyrir.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Lagt er til að hluti leigunnar sem leigjendur Félagsbústaða greiða fari til hagsmunasamtaka leigjendanna. Fram hefur komið að erfitt getur verið fyrir leigjendur að ná sínum málum í gegn og upplifun þeirra sé sú að ekki sé alltaf hlustað á þau. Sem dæmi má nefna að viðhaldsmálum er ekki sinnt sem skyldi. Því er lagt til að 0,7% af mánaðarlegum leigugreiðslum leigjenda hjá Félagsbústöðum fari til hagsmunasamtaka leigjenda hjá Félagsbústöðum. Þannig má auðvelda hagsmunasamtökunum að halda utan um samskipti og skipulag þeirra krafna sem þarf að koma á framfæri til Félagsbústaða. Fyrirkomulagið svipar til þess sem á sér stað á vinnumarkaði þar sem hluti af launum launafólks fer til greiðslu stéttarfélagsgjalda. Erfitt getur verið fyrir leigjanda einn og sér að koma málum sínum á framfæri en slíkt er auðveldara í félagi. Með því að gera leigjendum kleift að koma sinni rödd á framfæri er einnig verið að tryggja hag Félagsbústaða til lengri tíma. Þar sem Félagsbústaðir gera ráð fyrir umræddum tekjum, er lagt til að Reykjavíkurborg bæti Félagsbústöðum upp tapið og að það verði tekið af liðnum ófyrirséð.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21010219

Tillagan er felld með 21 atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við atkvæðagreiðsluna.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Hér var lagt til að hluti leigunnar sem leigjendur Félagsbústaða greiða, fari til hagsmunasamtaka leigjendanna. Fram hefur komið að erfitt getur verið fyrir leigjendur að ná sínum málum í gegn og upplifun þeirra sú að ekki sé alltaf hlustað á þau. Því var lagt til að 0,7% af mánaðarlegum leigugreiðslum leigjenda hjá Félagsbústöðum fari til hagsmunasamtaka leigjenda hjá Félagsbústöðum. Þannig má auðvelda hagsmunasamtökunum að halda utan um samskipti og skipulag þeirra krafna sem þarf að koma á framfæri til Félagsbústaða. Í umræðum um málið kom fram hjá fulltrúa meirihlutans að upphæðin teldist há. Fulltrúa sósíalista þykir miður að heyra að tillaga með það að markmiði að raddir leigjenda fái brautargengi, sé talin of kostnaðarsöm.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fyrirséð er að kostnaður við hagsmunasjóð sem þennan mun gera lítið annað en renna beint í leiguverðið þar sem gert er ráð fyrir að 0,7% af leigugreiðslum fari í þetta nýja verkefni eða yfir 30 milljónir árlega. Hætt er við að gjaldið verði íþyngjandi fyrir leigjendur. Þá eru starfandi leigjendasamtök, Samtök leigjenda á Íslandi, en allir geta gerst félagar í samtökunum. Þá reka Neytendasamtökin sérstaka leigjendaaðstoð samkvæmt samningi við félagsmálaráðuneytið. Þjónustan er leigjendum að kostnaðarlausu. Það er því ekki ástæða til að gera enn ein samtök sem kosta munu tugi milljóna á ári.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Flokkur fólksins leggur til að sálfræðingar skólaþjónustu hafi aðsetur í þeim skólum sem þeir sinna. Einnig er lagt til að skólasálfræðingar heyri undir skólastjórnendur sem ákvarði í samráði við nemendaverndarráð verkefnalista sálfræðings án miðlægra afskipta. Fjarlægð skólasálfræðinga frá skólunum dregur úr skilvirkni. Biðlisti til skólasálfræðinga er í sögulegu hámarki. Nú í janúar 2021 bíða 837 börn ýmist eftir fyrstu eða frekari þjónustu. Barn bíður mánuðum saman eftir að hitta skólasálfræðing og foreldrar hafa upp til hópa ekki hugmynd um hver sálfræðingur skólans er. Með því að færa aðsetur sálfræðinga til skólanna væru þeir í daglegri tengingu við börnin og kennara og yrðu hluti af skólasamfélaginu. Skilvirkni yrði meiri og þjónusta við börnin betri. Þverfaglegt samstarf sálfræðinga á þjónustumiðstöð gæti haldið áfram engu að síður, nú t.a.m. einnig í gegnum fjarfundarbúnað. Lagt er jafnframt til að yfirboðarar skólasálfræðinga verði skólastjórnendur en ekki þjónustumiðstöðvar. Enda þótt nemendaverndarráð hafi áhrif á verkefnalista sálfræðingsins, er nærtækast að skólastjórnendur og nemendaverndarráð stýri beiðnum til skólasálfræðingsins. Fram hefur komið hjá einstaka skólastjórnendum að þeir upplifi að þeir fái litlu ráðið um forgang mála til sálfræðings, jafnvel í brýnum málum.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21010220

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar stýrihóps um heildstæða þjónustu við börn.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillögu Flokks fólksins um að skólasálfræðingar hafi aðsetur í skólum og heyri undir skólastjórnendur hefur verið vísað í stýrihóp. Af reynslu líður fulltrúa Flokks fólksins ekki nógu vel með það því venjulega hefur slík vísun engu skilað. Undrun sætir að ekki skuli hafa verið hlustað á ákall skólastjórnenda sem fram kom í skýrslu innri endurskoðunar 2019 um að fá sálfræðinga meira út í skólana. Til hvers er innri endurskoðun að skrifa skýrslu sem þessi meirihluti tekur síðan ekki mark á? Nær öll snerting skóla við skólasálfræðinga er í gegnum þjónustumiðstöð og lúta þeir miðlægu valdi. Sálfræðiþjónusta skóla getur ekki verið með puttann á púlsinum á meðan fyrirkomulagið er með þessum hætti. Fulltrúi Flokks fólksins hefur rætt þessi mál ótal sinnum en engu skilað. Ekkert hefur breyst árum saman, biðlistinn lengist og lengist. Viðbrögð meirihlutans við tillögunni bera vott um áhugaleysi og andvaraleysi. Foreldrar sem hafa efni á, leita til sjálfstætt starfandi sálfræðinga eftir aðstoð fyrir börn sín. Börn efnaminni foreldra verða bara bíða og óvíst er hvort þau komist nokkurn tímann að. Þess utan er biðlistinn misjafn eftir hverfum. Með því er vissulega verið að mismuna börnum eftir því hvar þau búa. Aðgengi að sálfræðiþjónustu barna á hvorki að vera háð efnahag né búsetu.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Unnið er að markvissri samþættingu á stuðningi skóla og skólaþjónustu velferðarsviðs við börn og er samstarfsverkefnið Betri borg fyrir börn skýrasta dæmið um það. Full samstaða er um að skólasálfræðingar vinni sem mest úti í skólunum í samvinnu við kennara og annað fagfólk skólanna.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Sjálfstæðisflokkurinn styður þá tillögu að sálfræðingar skólaþjónustu hafi aðsetur í þeim skólum sem þeir sinna, enda ber að forgangsraða fjármunum í þágu barna. Ennfremur er tillagan til þess fallin að efla gæði þjónustunnar, minnka óþarfa töf, bæta afköst og upplýsingaflæði milli starfsfólks skólanna og sálfræðinganna. Við bindum vonir við að stýrihópurinn muni innleiða samhljóða breytingu og gert er ráð fyrir í tillögunni.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi sósíalista styður það heilshugar að skólasálfræðingar hafi aðsetur í skólum. Það er mjög mikilvægt að sálfræðingar séu í nálægð við börn og ungmenni. Í þessu samhengi telur fulltrúinn mikilvægt að útfæra vel hvernig beiðnum til skólasálfræðings verði háttað.

7.    Umræðu um mansal er frestað. R21010221

8.    Lagt til að Kolbrún Baldursdóttir taki sæti í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði í stað Þórs Elíss Pálssonar. Jafnframt er lagt til að Ásgerður Jóna Flosadóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Kolbrúnar. R18060083

Samþykkt.

9.    Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur. Jafnframt er lagt til að Egill Þór Jónsson taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Ragnhildar. R18060085

Samþykkt.

10.    Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur. R20030171

Samþykkt.

11.    Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í öldungaráði í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur. R18060107

Samþykkt.

12.    Lagt til að Ólafur Örn Ólafsson taki sæti sem varamaður í íbúaráði Miðborgar og Hlíða í stað Sigfúsar Ómars Höskuldssonar. R19090040

Samþykkt.

13.    Lagt er til að Marta Guðjónsdóttir taki sæti í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins í stað Eyþórs Laxdal Arnalds. R18060117

Samþykkt.

14.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 7. og 14. janúar. R21010001

22. liður fundargerðarinnar frá 7. janúar; samningur Reykjavíkurborgar og Sjúkratryggingar Íslands um heimahjúkrun, er samþykktur. R21010100

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar:

Í fundargerð hinnar svokölluðu neyðarstjórnar, dags. 4. janúar 2021, má glöggt sjá að farið er freklega yfir valdmörk skóla- og frístundasviðs því í 3. lið fundargerðarinnar stendur: „Rætt um breytingar á starfi grunnskóla í Reykjavík næstu tvo mánuði vegna ákvæða reglugerða um takmarkanir á skólahaldi vegna farsóttar.“ Sjá ekki allir hvað er í gangi? Hvernig geta borgarstjóri, formaður borgarráðs og undirmaður formanns skóla- og frístundaráðs gengið svo freklega yfir formann ráðsins, Skúla Helgason, auk allra kjörinna fulltrúa sem þar sitja? Reglugerðin var birt 21. desember 2020 og því hefði verið í lófa lagið að boða ráðið til fundar bæði fyrir jól, milli hátíðanna og strax eftir áramót, en ekki verður fundur í ráðinu fyrr en 12. janúar nk. löngu eftir að skólahald er hafið á nýju ári. Hvers vegna var ekki boðað til aukafundar í skóla- og frístundaráði í stað þessa að hin svokallaða neyðarstjórn fjalli um viðbrögð stjórnvaldsins Reykjavíkurborgar við breytingum á skólahaldi vegna breyttrar reglugerðar? Ráðsmenn voru ekki einu sinni upplýstir um gang mála. Það er orðið óhjákvæmilegt að senda sveitarstjórnarráðuneytinu erindi sem inniheldur þetta fordæmalausa ástand sem uppi er í Reykjavík þar sem sveitastjórnarlög, stjórnsýslulög og samþykktir borgarinnar um störf borgarstjórnar, borgarráðs og fagráða eru þverbrotin.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. janúar:

Tillagan að breyttri vinnutilhögun mátti ekki fela í sér aukinn kostnað eða skerðingu á þjónustu eins og meirihlutinn lagði hana upp. Það er ámælisvert að fullnægjandi fjármagn skuli ekki fylgja styttingu vinnuvikunnar þar sem líklegt er að álag verði meira á starfsfólk jafnvel þótt reynt verði að finna leiðir til að finna betri nýtingu á vinnutíma. Talað er um eins og nýting vinnutímans hafi verið slæm. Þetta er í andstöðu við boðun meirihlutans sem er að halda vel utan um starfsfólk og gæta þess að ofgera því ekki. Stytting vinnuvikunnar er kjarabót og því mikilvægt að afleiðan verði ekki neikvæð og þess vegna lagði fulltrúi Flokks fólksins til að áhrifin verði skoðuð. Eftir þessu hefur lengi verið beðið en ekki var reiknað með að styttingin mætti ekki kosta neitt. Því er ekki hægt að stóla á að foreldrar sæki börn sín fyrr enda er stytting á vinnuviku ekki alls staðar og þar sem hún er, er útfærslan ólík milli stétta og stofnana.

15.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 15. janúar, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. desember 2020 og 14. janúar 2021, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 30. nóvember og 14. desember 2020 og 11. janúar 2021, skipulags- og samgönguráðs frá 16. desember 2020 og 13. janúar 2021, skóla- og frístundaráðs frá 8. desember 2020 og 12. janúar 2021, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 9. desember 2020 og 8. janúar 2021 og velferðarráðs frá 4. og 16. desember 2020.R21010063

4. liður fundargerðar forsætisnefndar; lausnarbeiðni Magnúsar Más Guðmundssonar, er samþykktur. R19010159

5. liður fundargerðar forsætisnefndar; lausnarbeiðni Alexanders Witold Bogdanski, er samþykktur. R20010362

6. liður fundargerðar forsætisnefndar; tillaga um framlengingu á heimildum til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna notkunar fjárfundarbúnaðar til 10. mars nk., er samþykktur. R18060129

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1., 10. og 11. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 12. janúar:

Liður 1, skýrsla um tónlistarnám; skýrslan um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík er ágætlega unnin. Fulltrúi Flokks fólksins telur þó að það hefði verið nauðsynlegt að taka samhliða inn í vinnu hópsins uppbyggingu tónlistarkennslu í grunnskólum til að skoða leiðir til að draga úr ójöfnuði. Þegar kemur að tónlistarnámi á ójöfnuður rætur sína að rekja aðallega til bágs efnahags foreldra og skorts á eftirspurn. Flokkur fólksins tekur ekki undir að mismunandi áhugi barna á tónlist sé grundvöllur ójöfnuðar. Liður 10, frístundaheimili og vanskil, á haustönn 2020 voru sendar út 39 uppsagnir vegna vanskila á frístundavistun. Foreldrar 10 barna athuguðu ekki með frekari aðstoð og hefur börnum þeirra verið vísað úr frístundaheimilisdvölinni. Ekki er vitað hvar þessi börn dvelja nú eftir skóla. Finna þarf leið, gera samning eða veita sérstaka aðstoð til þess að opna aftur fyrir möguleika þessara barna að koma í frístundina að nýju óski foreldrar þess. Liður 11, biðlisti í sérskólaúrræði, á þriðja tug barna bíða eftir sérskólaúrræði. Í Klettaskóla er sagður enginn biðlisti en fulltrúi Flokks fólksins telur það vera vegna þess að inntökuskilyrðin eru of ströng/stíf sem fælir foreldra frá því að sækja um.

Fundi slitið kl. 22:57

Forsetar gengu frá fundargerð

Pawel Bartoszek

Sabine Leskopf    Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 19.1.2021 - Prentvæn útgáfa