Borgarstjórn - 19.1.2016

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2016, þriðjudaginn 19. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Trausti Harðarson, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Áslaug Friðriksdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 18. desember 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 16. desember 2015, á aðgerðaáætlun í úrgangsmálum í Reykjavík til 2020, ásamt fylgiskjölum, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. janúar sl. 

- Kl. 14.24 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum. 

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Aðgerðaáætlun í úrgangsmálum felur í sér aukna flokkun, minni úrgangsmyndun og meiri hagkvæmni í markvissum skrefum til ársins 2020. Fyrsti áfangi er sérsöfnun á plasti í grænar tunnur við heimili. Áfram verður lögð rík áhersla á að taka tillit til mismunandi aðstæðna fólks í borginni enda býður nýtt fyrirkomulag sorphirðu upp á fjölmarga möguleika. Engan veginn er hægt að segja til um hækkun eða lækkun í einstaka tilfellum, enda geta íbúar valið sér þjónustu – allt frá einni lítilli tunnu yfir í margar tunnur af mörgum gerðum. Að fullyrða að um allt að 38% hækkun sé að ræða án þess að forsendur þeirrar tölu séu útskýrðar er því villandi. Borgarbúar eru eindregið hvattir til að fara inn á ekkirusl.is til að skoða hvaða samsetning tunna við heimili hentar þeirra heimilishaldi best og hver kostnaður við hana er.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina telja mikilvægt að auka möguleika borgarbúa á flokkun í úrgangsmálum. Þar sem ekki liggur fyrir hver kostnaðurinn af þessari aðgerðaáætlun er fyrir Reykjavíkurborg og heimili borgarinnar er óábyrgt að samþykkja slíka áætlun. Þegar er ljóst að þær breytingar sem ráðist verður í um áramótin 2015/2016 munu kosta heimili allt að 38% meira. Um leið á að hirða almennt sorp á 14 daga fresti í stað 10 daga frests, auka kostnað borgarbúa og draga úr þjónustu. Þá er einnig gagnrýnt að hvergi er vikið frá þeirri stefnu að borgin ein geti sótt blandaðan úrgang þegar einkaaðilar hafa sýnt áhuga á því verkefni en þannig gætu borgarbúar fyrr hafið flokkun lífræns úrgangs.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina: 

Lagt er til að hætt verði við þrengingu Grensásvegar. Áætlun ársins 2016 gerir ráð fyrir að 170 milljónir renni til þessa verkefnis.

Atkvæðagreiðslan fer fram með nafnakalli og er tillagan felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina, sjá meðfylgjandi fylgiskjal. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir meiri rekstrarvanda en dæmi eru um í langri sögu borgarinnar. Starfsfólki hefur verið falið að leita leiða til að skera niður um 1,8 milljarða. Mestur niðurskurður er á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði. Fjárfrekum verkefnum er slegið á frest, biðlistar eru langir en þrenging Grensásvegar sem áætlað er að kosti 170 milljónir er nú sett í forgang. Reynslan kennir okkur að með þrengingu gatna mun bílaumferð leita inn í nærliggjandi íbúðahverfi þar sem börn eru að leik. Grensásvegur er ekki í flokki hættulegra gatna. Engu að síður er hægt að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda með kostnaðarminni aðgerðum. Þrenging götunnar er ekki forsenda aukins öryggis og 170 milljón króna framkvæmd er ekki í neinum takti við þann niðurskurð sem unnið er að í öllu borgarkerfinu. Flokkarnir styðja hjólreiðaáætlun en á sama tíma og ekki eru til peningar til að sinna grunnþjónustu borgarinnar, biðlistar eru langir og fjármálin slæm þarf að forgangsraða fjármunum og þetta verkefni er ekki slíkt forgangsmál.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Gerð hjólastíga við Grensásveg er í samræmi við samþykkta hjólreiðaáætlun borgarinnar frá 2010 og endurskoðaða áætlun frá 2015. Um báðar áætlanir náðist þverpólitísk sátt í borgarstjórn. Fyrirhugaðar framkvæmdir við Grensásveg munu þó ekki bara nýtast ört vaxandi hópi borgarbúa sem nýtir sér hjólreiðar sem samgöngumáta, heldur munu þær líka leiða til meira öryggis fyrir fótgangandi vegfarendur og íbúa í næsta nágrenni. Í dag skilur aðeins örmjó gangstétt bílaumferðina frá húsgörðum. Það hefur gerst trekk í trekk undanfarin misseri að bílstjórar missa stjórn á bílum sínum og bíll hafnar inn í húsagarði við götuna. Framkvæmdirnar fela í sér að akreinum fyrir bílaumferð er fækkað úr fjórum í tvær. Mælingar á umferðarþunga sýna að ekki er þörf á fjórum akreinum. Umferðarspár sýna að það verður ekki heldur þörf á þeim í framtíðinni. Breytingar sem verða á Grensásvegi munu leiða til þess að hægja mun á bílaumferðinni. Það er mjög æskilegt. Mælingar á umferðarhraðanum sýna að hann nær allt að 70 km á klukkustund. Það er allt of mikið. Vinna við hverfisskipulag Bústaða og Háaleitishverfis leiðir í ljós að hverfin eru umlukin miklum umferðaræðum sem hafa skaðleg áhrif á lífsgæði íbúanna. Undanfarið hefur verið unnið markvisst að því að draga úr þessum neikvæðu áhrifum. Þeirri vinnu verður haldið áfram. Breytingarnar á Grensásvegi eru liður í því.

3. Fram fer umræða um hátíðahöld Reykjavíkurborgar í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna árið 2015. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Afmælisárið 2015 var bæði gefandi og hvetjandi í jafnréttisbaráttunni, konur og femínískar áherslur voru sýnilegri en áður í starfsemi borgarinnar, viðburðum á hennar vegum og samfélaginu öllu. Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggur ríka áherslu á að svo verði áfram og að unnið verði að jafnrétti kynjanna á öllum sviðum, þ.m.t. að útrýma kynbundnum launamun og kynbundnu ofbeldi. Stór skref hafa verið stigin í þessum efnum en betur má ef duga skal. Borgarstjórn hefur einsett sér að sporna gegn kynjamisrétti á öllum sviðum og mun halda því áfram uns jafnrétti verður raunverulegt í samfélaginu. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Það er miður að meirihluti borgarstjórnar skipaður af Vinstri grænum, Samfylkingunni, Pírötum og Bjartri framtíð skyldi ekki nýta tækifærið á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna að tryggja að Reykjavíkurborg fengi jafnlaunavottun á afmælisárinu, þ.e. staðfest væri að konum væru greidd sömu laun fyrir sömu vinnu hjá Reykjavíkurborg í samræmi við tillögu Framsóknar og flugvallarvina á borgarstjórnarfundi 17. mars 2015.

- Kl. 20.10 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Magnús Már Guðmundsson tekur þar sæti. 

4. Fram fer umræða um landsleik í lestri, Allir lesa. 

Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarstjórn hvetur íbúa borgarinnar til þátttöku í verkefninu Allir lesa – landsleikur í lestri. Því er ætlað að auka lestur hjá fólki á öllum aldri en borgarstjórn hvetur foreldra, afa og ömmur sérstaklega til að gefa sér tíma til að lesa með börnum sínum og barnabörnum. Borgarstjórn mun skrá sig til leiks í keppninni og skorar jafnframt á aðrar sveitarstjórnir að gera slíkt hið sama.

5. Fram fer umræða um fyrirhugaðar byggingar á Austurbakka eða svokölluðu Hafnartorgi. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Eftir áramót birtust myndir af fyrirhuguðum byggingum á Austurbakka í fjölmiðlum. Hvorki borgarfulltrúum né borgarbúum voru kynntar endanlegar teikningar áður en þær voru samþykktar af byggingarfulltrúa. Þá voru endanlegar teikningar ekki lagðar fyrir svokallaðan fagrýnihóp áður en þær voru endanlega samþykktar. Þó svo að verið sé að byggja í samræmi við gamalt deiliskipulag þar sem umfang bygginga er ákveðið þá er þetta einhver mesta uppbygging í miðbænum í langan tíma. Húsin munu gjörbreyta ásýnd svæðisins. Útlit þeirra þarf þess vegna að rýna vel og leita eftir samráði við borgarbúa. Þarf að kynna slíkar byggingar fyrir borgarbúum fyrr í skipulagsferlinu og leita álits fagrýnihópsins áður en teikningar eru endanlega samþykktar. Nauðsynlegt er að setja skýrar verklagsreglur um málsmeðferð byggingarleyfa þegar um svo áberandi byggingar í borgarlandslaginu er að ræða.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Í framhaldi af kynningu í umhverfis- og skipulagsráði á ásýnd og yfirbragði Hafnartorgs í október 2014 leitaði byggingarfulltrúi álits fagrýnihóps arkitekta. Hópurinn skilaði áliti sínu dagsettu 20. mars 2015 og var það sent á arkitekt verkefnisins. Í kynningu í ráðinu þann 16. september 2015 var komið til móts við þetta álit með þrívíddarteikningum og greinargerð fyrir efnisnotkun, yfirbragði nýbygginganna og samspili við umhverfið. Þar var einnig gerð grein fyrir því hvernig göngugata sem nefnd er Steinbryggja verður lífæð svæðisins, ásamt Reykjastræti, með virkum og opnum jarðhæðum.

6. Fram fer umræða um skerðingu á þjónustu við aldraða. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Skerðing matarþjónustu við aldraða leggst þungt í notendur hennar og borgarbúa alla. Fagfólk bendir á að ekki verði sú hagræðing af skerðingunni eins og meirihluti borgarstjórnar áætlaði og að áhrif hennar hafi verið vanmetin. Erfitt er að skilja forgangsröðun meirihluta Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar í Reykjavík. Grunnþjónustu við aldraða er fórnað án þess að gefa notendum svigrúm til andmæla og án þess að nauðsynlegt mat á áhrifum aðgerða liggi fyrir. Margsinnis hefur meirihlutanum í Reykjavík verið bent á að slök fjármálastefna geti ógnað velferðarþjónustu og því miður virðist þeirra áhrifa farið að gæta.  

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Á vegum velferðarsviðs er veitt margvísleg þjónusta fyrir eldri borgara sem veitt er í samræmi við stefnu og aðgerðaáætlun.  Það er heimahjúkrun, hjúkrunarheimili, félagsstarf, þjónustuíbúðir, félagsleg heimaþjónusta, akstursþjónusta fyrir aldraða og margt fleira.  Matarþjónusta er veitt á 17 félagsmiðstöðvum velferðarsviðs á virkum dögum, alla daga ársins á Vitatorgi og í heimsendingu. Við undirbúning á opnun nýrrar félagsmiðstöðvar í Borgum, Spöng, var miðað við að rekstur matsals yrði með sama þjónustustigi og aðrar félagsmiðstöðvar í borginni, þ.e. að starfrækt væri mótttökueldhús og matur kæmi frá Vitatorgi alla virka daga. Þá var gert ráð fyrir að íbúar gætu fengið heimsendan mat um helgar og með því fyrirkomulagi væri gætt jafnræðis meðal borgarbúa.  Myndaður hefur verið viðræðuhópur með starfsmönnum þjónustumiðstöðvarinnar Miðgarðs, hjúkrunarheimilinu Eir og fulltrúi íbúa í Eirborgum sem hefur það verkefni að finna viðeigandi lausn fyrir þá íbúa Eirborga sem vilja fá þjónustu á matmálstímum um helgar.

7. Fram fer umræða um málefni Norðlingaholts. 

8. Lagt er til að Þorkell Heiðarsson taki sæti sem varamaður í skóla- og frístundaráði í stað Hilmars Sigurðssonar.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins. 

9. Lagt er til að Skúli Helgason taki sæti sem aðalmaður í stjórnkerfis- og lýðræðisráði í stað Hilmars Sigurðssonar. 

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins. 

10. Lagt er til að Bergþór Heimir Þórðarson taki sæti sem aðalmaður í hverfisráði Breiðholts í stað Hreiðars Eiríkssonar. Jafnframt er lagt til að Magnús Sigurjón Guðmundsson taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Omars Ahmed Awad. 

Samþykkt.

11. Lagt er til að G. Svala Arnardóttir taki sæti sem aðalmaður í hverfisráði Hlíða í stað Hilmars Sigurðssonar og að Eva Baldursdóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað G. Svölu Arnardóttur.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins. 

12. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 7. janúar og 14. janúar 2016. 

13. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 15. janúar, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. janúar, mannréttindaráðs frá 10. desember og 12. janúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 11. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 13. janúar, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 11. janúar og umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. og 13. janúar. 

Fundi slitið kl. 00.08

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Sóley Tómasdóttir

Halldór Halldórsson Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 19.1.2016 - prentvæn útgáfa