Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2019, þriðjudaginn 19. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:04. Voru þá komin til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Sigríður Arndís Jóhannesdóttir, Líf Magneudóttir, Diljá Ámundadóttir, Alexandra Briem, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Dóra Magnúsdóttir, Sabine Leskopf, Hjálmar Sveinsson, Aron Leví Beck, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Egill Þór Jónsson, Katrín Atladóttir, Marta Guðjónsdóttir, Örn Þórðarson og Björn Gíslason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 12. nóvember 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 12. nóvember 2019 á tillögu um breytingar á skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi, sbr. 15. liður fundargerðar borgarráðs frá 14. nóvember sl. R19110090
Greinargerð fylgdi tillögunni.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Lagt er til að ákvörðun um breytingar á skólastarfi í norðanverðum Grafarvogi og lokun Korpuskóla verði frestað vegna þeirra fjölda athugasemda og mótmæla sem þessi ákvörðun hefur mætt.
Málsmeðferðartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Tillaga um breytingar á skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi er samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan um breytingar á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi byggir á faglegum, félagslegum og fjárhagslegum rökum sem fram komu í skýrslum starfshóps fagfólks sem hafði skýrt markmið - að bæta menntun og félagslegan aðbúnað nemenda. Lagt hefur verið fram álit borgarlögmanns sem undirstrikar að gagnrýni sem hefur verið áberandi í opinberri umræðu er reist á mjög veikum grunni, s.s. um að áformin kalli á breytingar á deiliskipulagi eða séu líkleg til að skapa borginni skaðabótaskyldu. Borgarlögmaður telur hvorugt vera fyrir hendi. Þá kemur vel fram í minnisblaði sviðsins að mikil fækkun nemenda á undanförnum árum í Korpu stafar ekki af ákvörðunum borgaryfirvalda heldur vali foreldra og forráðamanna. Mikil áhersla verður lögð á að tryggja fjármagn til þeirra brýnu samgöngubóta sem eru mikilvæg forsenda breytinganna því þær miða að því að tryggja öryggi þeirra nemenda sem velja að fara fótgangandi eða hjólandi í skólann. Skólaakstur verður tryggður fyrir þau börn úr Staðarhverfi sem velja þann kost. Meirihlutinn þakkar skólaráðum og foreldrafélögum Kelduskóla og Vættaskóla fyrir margar góðar ábendingar í umsögnum þeirra sem munu fá faglega og góða umfjöllun í þeirri vinnu innleiðingarhópanna sem framundan er.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggjast alfarið á móti fyrirhuguðum tillögum um breytingar á skólastarfi í norðanverðum Grafarvogi. Hér er lagt til að fresta ákvörðuninni vegna fjölda athugasemda og mótmæla foreldra enda hefur ekkert raunverulegt samráð átt sér stað við foreldra, nemendur og starfsfólk skólanna eins og umsagnir, greinaskrif og tölvupóstar frá skólasamfélaginu vitna um. Þá hafa nemendur bent á að lýðræðisleg aðkoma þeirra sé ekki virt og séð ástæðu til að stíga fram í fjölmiðlum til að biðla til skólayfirvalda í borginni um að loka ekki skólanum. Ekkert er hlustað á vilja allra þessara aðila og keyra á þessa ákvörðun í gegn þvert á vilja íbúa. Að auki hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn komið með ýmsar tillögur til að tryggja áframhaldandi skólastarf s.s. samrekstur leik- og grunnskóla, fjölgun árganga í skólanum og að byggð verði þétt í Staðahverfi. Ekkert hefur heldur verið hlustað á þessar hugmyndir. Það ætti að vera sjálfsagður hlutur að til staðar sé skóli í hverju hverfi enda um lögboðna þjónustu að ræða. Það skýtur svolítið skökku við að á sama tíma og verið er að leggja niður skóla í einu hverfi er verið að fara í hönnunarsamkeppni með skóla í hverfi sem enn er ekki til eins og nýtt hverfi í Skerjafirði.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að tala um stóra breytingu sem snertir marga borgarbúa og margir hafa mótmælt. Þegar um grunnskóla og fyrirhugaða lokun hans er um að ræða er nauðsynlegt að leita lausna í samvinnu við íbúa hverfisins í stað þess að keyra breytingar svo fljótlega í gegn, þvert gegn vilja svo margra. Með því að fresta tillögunni gæfist frekari tími til þess að leita annarra lausna sem gætu hentað. Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur mikilvægt að tryggja hverfaskóla í nálægð við heimili barna.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Valdbeiting meirihlutans gagnvart íbúum Grafarvogs í málinu er á þessa leið: Að strá salti í sárin, svikin loforð, blaut tuska í andlitið, skilningsleysi, samráðsleysi, forherðing, yfirgangur, frekja, að snúa hnífnum í sárinu, tillitsleysi, siðferðisskortur, brot á deiliskipulagi hverfisins, vanvirðing fyrir börnum, vanvirðing fyrir foreldrum, vanvirðing fyrir starfsmönnum skólans, vanhæfni, hroki, ósvífni, fótum troðið lýðræði og úthverfaandúð. Meirihlutanum var boðið upp á frestun ákvörðunartöku til að ná sáttum við íbúa hverfisins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins er ósáttur við hvernig staðið hefur verið að málum um breytingu á skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi. Þessi ákvörðun er ekki tekin í sátt við samfélagið. Skólaráð, kennarar, íbúar og nemendur hafa mótmælt þessum breytingum harðlega. Í ferlinu hefur verið rætt um að útfæra breytingar í samráði við hagsmunaaðila en það hefur ekki verið gert. Stærstu hagsmunaðilarnir eru henni mótfallnir og því varla hægt að tala um samráð í þeim efnum. Það stingur sérstaklega í stúf þegar í meirihluta borgarstjórnar sitja flokkar sem hafa lagt mikla áherslu á aukið íbúalýðræði. Ýmislegt hefði mátt útfæra betur í þessum breytingum á skólaskipulagi. Lokun skóla er stór breyting fyrir hverfi og er sá þáttur í breytingunum sem veldur mestu vonbrigðunum. Aðrar leiðir voru í boði sem hefðu verið í meiri sátt við samfélagið. Ekki vantar börn í hverfið í það minnsta. Þessu hefði verið hægt að fresta til að skoða betur, til að geta rætt betur saman. Í svona máli er betra að fara sér hægt en að ana áfram þegar svo mikill mótbyr er. Það er alveg sama hvernig á málið er litið, hverju er lofað, hvað mynd er dregin upp, það er hæpið að þegar farið er gegn svo mörgum að gott hljótist af.
- Kl. 17.15 taka Heiða Björg Hilmisdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Dóra Björt Guðjónsdóttir sæti á fundinum. Aron Leví Beck, Diljá Ámundadóttir Zoega og Alexandra Briem víkja af fundi á sama tíma.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins:
Borgarstjórn samþykkir að fram fari almenn atkvæðagreiðsla meðal íbúa Reykjavíkur um deiliskipulag við Stekkjarbakka Þ73 svo borgarbúum verði gert kleift að koma á framfæri afstöðu sinni til gróðurhvelfingar og atvinnureksturs á reitnum. Lagt er til að allir þeir sem hafi kosningarétt í sveitarfélaginu verði kjörgengir. Þá er lagt til að atkvæðagreiðslan verði rafræn og Þjóðskrá Íslands verði falið að annast atkvæðagreiðsluna. R19010136
Lögð fram svohljóðandi breytt tillaga flutningsmanna og er samþykkt að hún komi til atkvæðagreiðslu í stað upphaflegrar tillögu:
Borgarstjórn samþykkir að efna til almennrar atkvæðagreiðslu í samræmi við ákvæði 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna uppbyggingar við Stekkjarbakka Þ73 sem samþykkt var í borgarráði 4. júlí sl. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar skal vera bindandi fyrir borgarstjórn. Borgarstjórn samþykkir jafnframt að óska eftir því við ráðherra að kosningin fari fram eingöngu með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna kosningarinnar verði rafræn. Að fenginni heimild ráðherra er borgarráði falið að undirbúa atkvæðagreiðsluna með vísan til ákvæða í reglugerð nr. 966/2018 um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár. Borgarstjórn samþykkir að eftirfarandi spurning verði lögð fyrir íbúa: Ert þú hlynnt/ur eða andvíg/ur tillögu að breytingu að deiliskipulagi Elliðaárdals vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar við Stekkjarbakka (merkt svæði Þ73 í Aðalskipulagi Reykjavíkur). Hlynnt/ur/Andvíg/ur.
- Kl. 18.30 víkur Pawel Bartoszek af fundinum og Geir Finnsson tekur sæti.
- Kl. 18.35 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir tekur sæti.
- Kl. 18.40 víkur Björn Gíslason af fundinum og Jórunn Pála Jónasdóttir tekur sæti.
- Kl. 19.10 víkur borgarstjóri af fundinum og Þorkell Heiðarsson tekur sæti.
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Íbúalýðræði er fyrir íbúa og á að vera á forsendum íbúa, að beiðni íbúa. Ekki á forsendum kjörinna fulltrúa sem, á allra síðustu stundu, hlaupa til og leggja fram tillögu um íbúakosningu til þess að reyna að skapa sem mest moldviðri í von um að borgarbúar bíti á agnið og sjái ekki að verið er að andmæla grænni uppbyggingu á Stekkjabakka. Tillagan var ekki betur undirbúin en svo að minnihlutinn þurfti sjálfur að skila breytingatillögu við eigin tillögu.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja ríka áherslu á verndun grænna svæða í borgarlandinu og leggjast gegn hvers kyns húsnæðisuppbyggingu í Elliðaárdalnum. Umsagnir við deiliskipulagið bera með sér mikla andstöðu við uppbyggingaráformin. Landvernd, Hollvinasamtök Elliðaárdalsins og Stangaveiðifélag Reykjavíkur hafa öll gert athugasemdir við skipulagið. Enn fremur hefur Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun gagnrýnt áformin. Það yrði óafturkræft fyrir ósnortna náttúruna ef gengið yrði á dalinn með umfangsmikilli gróðurhvelfingu fyrir verslunarrekstur og atvinnustarfsemi. Gert er ráð fyrir 12.027 fermetra lóð til Aldin BioDome, að gróðurhvelfingin verði 4.500 fermetrar, auk þess verða teknir aukalega 4.432 fermetrar undir bílastæði. Þar með er ekki öll sagan sögð en heildarskipulagssvæðið hljóðar upp á 45.000 fermetra. Kostnaðurinn við verkefnið er sagður 4.500 milljónir króna eða ein milljón á hvern fermetra. Algjör óvissa ríkir um fjármögnun þess hjá borgaryfirvöldum. Hér er borgin að útdeila gæðum í eigu Reykvíkinga – lóð á besta stað – án auglýsingar og án þess að greitt sé fyrir þau að fullu. Skattgreiðendur þurfa að leggja út í mikinn kostnað, sem gæti hlaupið á hátt á milljarði. Ef illa fer er borgin búinn að leggja út í mikinn kostnað við skipulag. Ef eitthvað mál á heima í íbúakosningu þá ætti það einmitt að vera þetta mál, enda er þetta umhverfismál sem varðar alla Reykvíkinga og ætti að vera hafið yfir pólitíska flokkadrætti.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er um að ræða svæði sem skiptir miklu máli í hugum margra borgarbúa, náttúruperlu sem margir líta á sem hluta af Elliðarárdalnum, þó að umrætt svæði hafi verið skilgreint af borginni utan Elliðarárdalsins. Hér er m.a. verið að heimila uppbyggingu á atvinnustarfsemi á þessu svæði, þar sem reisa á stóra gróðurhvelfingu þar sem fyrirhugað er að bjóða upp á vörur og þjónustu. Þegar við skoðum myndir af skipulaginu og hvernig gróðurhvelfingin á eftir að koma til með að líta út þá sést að þetta mun að öllum líkindum hafa mikil áhrif á upplifun fólks af dalnum og af svæðinu. Við höfum heyrt raddir sem mótmæla þessari uppbygginu og ég tel það ekki jákvæða þróun þegar við erum farin að heimila fyrirtækjum að byggja upp atvinnustarfsemi á svæðum sem margir borgarbúar hafa lengi vel litið á sem útivistarsvæði. Hérna er um stórt mál að ræða og eðlilegt að íbúar fái að segja sitt í þessu máli.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Biodome í Elliðarárdal er keyrt áfram af offorsi af meirihlutnum. Nú eru komnar skýringar á því. Einn borgarfulltrúi Samfylkingarinnar ber kápuna á báðum öxlum. Hann fór fyrir verkefninu „Spor í sandinn“ árið 2015 í samstarfi við Eflu verkfræðistofu og fleiri aðila. Þegar Spor í sandinn er googlað leiðir leitin viðkomandi á https://aldin-biodome.is/ sem er jú Biodome verkefnið sem meirihlutinn er að berjast fyrir að komi í Elliðarárdalinn. Þegar tímalína verkefnisins er skoðuð er alveg ljóst að borgarfulltrúi Samfylkingarinnar Aron Leví Beck var með í verkefninu frá byrjun. Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi tók til varna fyrir hann og sagði að hann hafi ekki verið í stjórnmálum þegar verkefnið komst á laggirnar 2015. Öllu alvarlegra er að viðkomandi er í stjórnmálum núna og það í borgarstjórn fyrir Samfylkinguna til að fylgja verkefninu eftir af fullum þunga. Borgarfulltrúinn vék af borgarstjórnarfundi undir umræðunum sem sannar tengsl hans við verkefnið. Það breytir því ekki að á fundi skipulags- og samgönguráðs hinn 27. júní 2018 sat borgarfulltrúinn þegar deiliskipulag fyrir svæðið var kynnt og bókaði hann m.a.s. um málið. Já Samfylkingarspillingin er góð. Já Samfylkingin sér um sína. Þessi tengsl eru afar afhjúpandi en alveg í samræmi við öll spillingarmálin í Reykjavík undir stjórn borgarstjóra.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Ásakanir borgarfulltrúa Miðflokksins eru úr lausu lofti gripnar og jaðra við persónuníð og atvinnuróg. Árið 2015 fékk Aron Leví Beck tækifæri til að vinna rannsókn sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir fyrirtækið Spor í sandinn. Markmið rannsóknarinnar var að skoða forsendur þess og hagkvæmni að flétta saman góðurhvelfingar og sundlaugar. Ekkert varð af því verkefni sem þá var fyrirhugað í næsta nágrenni við Laugardalslaugina. En rannsóknin var engu að síður tilnefnd til verðlauna forseta Íslands. Aron Leví var ekki félagi í Samfylkingunni á þessum tíma. Hann hefur alltaf vikið af fundum skipulags og samgönguráðs og borgarstjórnar þegar deiliskipulagið og Biodome við Stekkjarbakka hefur verið til umræðu, jafnvel þótt rannsókn hans hafi ekki fjallað um það mál. Eina undantekningin er fyrsti fundur skipulagsráðs á þessu kjörtímabili þegar málið var til kynningar en ekki afgreiðslu. Hann lét vita af rannsókninni sem hann vann að en ekki var talin ástæða til að hann viki af fundi. Ásakanir um spillingu eru rætnar og fáránlegar.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Eitthvað er nú málið viðkvæmt fyrir meirihlutann. Enda upplýsist alveg um málið þegar gögn eru skoðuð á vef Biodome, áður Spor í sandinn. Á síðunni er sýnt myndrænt hver tímalína verkefnisins er og byrjar það 2013 og áætluð verklok eru 2022. Athygli vekur að umræddur borgarfulltrúi sjái sig knúinn til að víkja af fundum vegna vanhæfis en afneitar á sama tíma aðkomu að verkefninu. Það segir sína sögu. Eins og áður segir er mun verra að ganga í Samfylkinguna og ná frama þar eftir að verkefnið komst á skrið og fylgja því eftir pólitískt. Einnig vekur athygli aðkoma sama aðila að stjórn/varastjórn Hollvinasamtaka Elliðaársdalsins. Eins og áður segir tók umræddur borgarfulltrúi þátt í bókun um þetta svæði á fyrsta fundi skipulags- og samgönguráðs. Í umræddri bókun er varað við því að ef dalurinn yrði friðlýstur skv. náttúruverndarlögum væri rétt að árétta að borgin myndi missa yfirráð yfir dalnum og þau myndu færast til ríkisins. Hann s.s. leggur þunga áherslu á að umráð dalsins haldist í höndum borgarinnar. Allt ber hér að sama brunni og borgarfulltrúi Miðflokksins frábiður sér að um persónuníð og atvinnuróg sé að ræða. Hér er einungis haldið á sannleikanum.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Borgarfulltrúi sem víkur sæti í máli tekur hvorki þátt í meðferð þess né umræðum um það, hvað þá að hann stjórni framvindu þess eins og er staðhæft í málflutningi borgarfulltrúa Miðflokksins. Það sér hver maður að borgarfulltrúinn seilist langt í að afbaka það sem satt er og er með beinar árásir, atvinnuróg og persónuníð í garð umrædds borgarfulltrúa. Slík framkoma er borgarfulltrúanum Vigdísi Hauksdóttur til minnkunar.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Borgarfulltrúi sem víkur sæti í máli og tekur hvorki þátt í meðferð þess né umræðum um það, hvað þá að hann stjórni framvindu þess á pólitískum vettvangi hefur persónulega hagsmuni af málinu því hann gerir sig vanhæfan í málinu á þeim grunni. Vanhæfi kjörinna fulltrúa er skilgreint mjög þröngt samkvæmt lögum því kjörnir fulltrúar fara með vald til að taka ákvarðanir. Þetta er staðreynd málsins. Meirihlutinn getur ekki svarað efnislega bókunum borgarfulltrúa Miðflokksins og grípur því til gömlu úreltu vinnubragðanna að skjóta sendiboðann og reynir að dreifa umræðunni í uppeldisátt. Ótrúlega dapurt en kunnuglegt.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þetta er stórmál sem varðar fjölmarga. Þess vegna er bæði sjálfsagt og eðlilegt að það verði íbúakosning um þetta nýja deiliskipulag fyrir nýtt þróunarsvæði á Stekkjarbakka. Elliðaárdalurinn skiptir fjölmarga máli, tilfinningamáli. Þetta er eitt stærsta græna svæðið í Reykjavík. Um þetta verður aldrei friður nema að haft verði fullt samráð við áhugahópa, hagsmunahópa og aðra sem óska eftir að hafa skoðun á málinu. Borgarráð hefur samþykkt að veita félaginu Spor í sandinn vilyrði fyrir lóð í Stekkjarbakka í Breiðholti til að byggja þar gróðurhvelfingu fyrir Aldin Biodome. Þetta er umdeilt enda stórt og mikið mannvirki í miðri náttúrunni og eru t.d. áhyggjur af ljósmengun af því. En aðalatriðið er þó að eiga samtal við fólkið. Þetta er enn eitt stórmálið þar sem kallað er eftir samtali og samráði og þar sem fólki finnst það vera hundsað. Borgarfulltrúi vill minna hér á tilmæli umboðsmanns borgarbúa. Þau eiga vel við í þessu máli og þess vegna er lagt til að íbúakosning eigi sér stað. Nóg er komið af samráðsleysi. Hvert málið hefur rekið annað þar sem farið er í framkvæmdir þrátt fyrir hávær mótmæli og ákall um hlustun. Snúa umkvörtunarefnin að skorti á árangursríku samráði og skort á upplýsingaflæði í aðdraganda framkvæmda og á verktíma eins og segir í tilmælum umboðsmanns borgarbúa.
- Kl. 21.00 víkur Sigríður Arndís Jóhannesdóttir af fundinum og Aron Leví Beck tekur sæti.
3. Umræðu um uppfærða húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. nóvember 2019 er frestað. R19110076
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að Reykjavíkurborg stofni óhagnaðardrifið íbúðafélag ætlað tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum sem uppfylla ekki skilyrði Félagsbústaða um félagslegt leiguhúsnæði. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að útvega lóðir og leita að samstarfsaðilum til uppbyggingar á einingahúsum (e. modular housing) fyrir íbúðafélagið, þar sem leitast verði við að tryggja fjölbreyttar stærðir af íbúðum. Einingahús hafa vakið athygli fyrir að vera hagkvæm, vönduð og fljót í uppsetningu. Því er lagt til að Reykjavíkurborg leiti að slíkum einingahúsum til að tryggja hraða og hagstæða en jafnframt vandaða uppbyggingu á húsnæði fyrir þá sem eru í þörf fyrir leiguíbúðir á viðráðanlegu verði. Lagt er til að að framtíðar útfærsla á íbúðafélaginu fari fram í samvinnu við framtíðarleigjendur. Upphaf verkefnisins verði fjármagnað af liðnum ófyrirséð eftir því sem fjárheimildir leyfa og framtíðar ákvarðanir um fjármögnun verða teknar á vettvangi borgarstjórnar og borgarráðs eftir því sem við á.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19110179
Samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins að vísa tillögunni til meðferðar borgarstjóra gegn atkvæði Miðflokksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg rekur þegar Félagsbústaði og er í samstarfi við óhagnaðardrifinn félög á borð við Búseta, Bjarg og Félagsstofnun stúdenta um uppbyggingu alls konar húsnæðis. Talsverður áhugi er meðal margs konar félaga að taka þátt í uppbyggingu af þessum toga. Þörfina á nýjum opinberum aðilum þarf að skoða í samhengi við það. Tillögunni er vísað til borgarstjóra.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er jákvætt að samþykkt hafi verið að vinna áfram með tillöguna og rýna í hana en fulltrúi Sósíalistaflokksins leggur áherslu á að ef unnið verði frekar áfram með framtíðartillögu að það fari þá fram á vettvangi borgarstjórnar þar sem allir hafa atkvæðarétt en ekki innan borgarráðs þar sem ekki allir hafa atkvæðarétt. Þannig getur tillöguflytjandi fylgt tillögu sinni eftir og þar sitja líka allir borgarfulltrúar ólíkt borgarráði.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er kominn tími til að Reykjavíkurborg stofni óhagnaðardrifið íbúðafélag ætlað tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum sem uppfylla ekki skilyrði Félagsbústaða um félagslegt leiguhúsnæði. Flokkur fólksins styður þessa tillögu. Skilyrði fyrir félagslegt húsnæði eru ströng og fjöldi manns uppfylla ekki skilyrðin. Á biðlista fyrir félagslegt húsnæði eru um 750 manns. Nauðsynlegt er að annar valmöguleiki komi hér til. Félagsbústaðir er hlutafélag um eignarhald og rekstur félagslegs leiguhúsnæðis á vegum borgarinnar. Félagsbústaðir eru í talsverðri þenslu núna en á sama tíma liggja margar eignir félagsins undir skemmdum því Félagsbústaðir hafa ekki ráðið við að halda þeim við.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að velferðarráð og skóla- og frístundaráð sameinist í að setja á stofn stuðningsþjónustu eyrnamerkta börnum alkóhólista. Stuðningurinn sé í formi sálfræðiþjónustu, persónulegrar ráðgjafar, hópastarfs og fræðslu. Úrræðið standi öllum börnum alkóhólista til boða án tillits til hvort barn búi hjá foreldrinu sem glímir við sjúkdóminn eða hefur umgengni við það og án tillits til þess hvort börnin sjálf séu metin í áhættuhópi eða ekki. Stuðningsúrræðið er hugsað sem styrking og til að hjálpa börnum alkóhólista að hlúa að eigin sjálfsmynd, rækta félagslega færni og fræðast. Börn alkóhólista lifa oft við óvissu og óöryggi vegna neyslu foreldris. Mikilvægt er að aðgengi sé gott að úrræðinu og að ekki sé þörf á tilvísun. Láta skal nægja að forsjáraðili óski eftir stuðningi fyrir barnið og að hjálpin sé veitt eins lengi og barnið þarf og vill. Stuðningsþjónustunni er ætlað að veita börnunum viðurkenningu á stöðu sinni og aðstæðum í fjölskyldum þar sem áfengis- og vímuefnavandi er til staðar. Meðal markmiða er að hjálpa börnum alkóhólista að skilja aðstæður sínar, m.a. að greina á milli fíknisjúkdómsins og persónunnar sem glímir við hann. Stuðningsþjónustunni yrði jafnframt ætlað að styðja við foreldrana með ráðgjöf og fræðslu eftir atvikum.
- Kl. 21.50 víkur Jórunn Pála Jónasdóttir af fundinum og Inga María Hlíðar Thorsteinsson tekur sæti.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19110180
Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni frá.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Þjónusta við börn í Reykjavíkurborg er samvinnuverkefni allra þeirra aðila sem koma að kennslu eða hvers kyns þjónustu við þau þar með talið stuðningsþjónustu. Leiðarljós þjónustu við börn eru forvarnir og snemmtæk þjónusta á vettvangi barna. Í því felst að veita börnum og fjölskyldum þeirra viðeigandi stuðning þar sem börnin eru á grundvelli þeirra þarfa og óska til að gera þeim kleift að nýta styrkleika sína og láta drauma sína rætast. Reykjavíkurborg býður nú þegar fjölbreytta þjónustu fyrir börn og er í miklu þróunarstarfi með framkvæmdaáætlun í barnavernd, samstarfsneti um stuðningsþjónustu og verkefninu Betri borg fyrir börn svo eitthvað sé nefnt. Tillögu um að setja upp sérstaka stuðningsþjónustu er því vísað frá. Tekið er undir mikilvægi þess að Reykjavíkurborg er að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að við ætlum að tileinka okkur barnaréttindanálgun í okkar verkefnum, stefnumótun og ákvörðunum, það er einmitt okkar markmið með eflingu þjónustu við börnin í borginni.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagt var til að borgin setji á laggirnar sértækt úrræði fyrir börn alkóhólista og auðvitað öll börn sem eiga foreldra sem glíma við neysluvanda. Eina sérhæfða úrræðið sambærilegt þessu sem lagt er til hér býðst hjá SÁÁ. Vissulega hefur þessum börnum verið hjálpað í Reykjavík þótt ekki sé vitað í hvað miklum mæli né hversu markviss vinnan er. Reykjavíkurborg hefur alla burði til að stofna sérhæft metnaðarfullt úrræði fyrir börn alkóhólista þeim til hjálpar. Tillögunni um sérhæft úrræði fyrir þennan hóp var ekki vel tekið sem slíkri af formanni velferðrráðs sem lagði til að henni yrði vísað frá. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi nefna að í vikunni skrifaði barnamálaráðherra og framkvæmda¬stjóri UNICEF á Íslandi, undir samning um stuðning félagsmálaráðuneytisins við innleiðingu á verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Með samningnum er stefnt að því að íslensk stjórnvöld og öll sveitarfélög á Íslandi hafi á næsta áratug hafið mark¬vissa innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og tileinki sér barnaréttinda¬nálgun í verkefnum, stefnumótun og ákvörðunum. Þessi tillaga um að borgin setji á laggirnar sérstakt úrræði fyrir börn alkóhólista samrýmist vel verkefninu um Barnvæn sveitarfélög. Hér er um að ræða eitt verkfæri í verkfærakistu innleiðingar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga. Borgarmeirihlutinn þarf nauðsynlega að fara að setja börn og þarfir þeirra, þ.á.m. þessara barna í enn meiri forgang en gert hefur verið.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að farið verði tafarlaust í að bæta umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda yfir umferðarmiklar stofnbrautir þar sem slysatíðni er há. Lausnirnar skulu annað hvort vera göngubrýr, undirgöng eða annars konar þveranir. 1. Hringbraut við Bræðraborgarstíg. 2. Hringbraut við Gamla garð. 3. Miklubraut við Klambratún. 4. Miklubraut við Stakkahlíð. 5. Kringlumýrarbraut við Suðurver.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19110181
Tillögunni er frestað.
- Kl. 22.05 víkur Aron Leví Beck af fundinum og Sigríður Arndís Jóhannesdóttir tekur sæti.
7. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 7. og 14. nóvember. R19010002
8. liður fundargerðarinnar frá 7. nóvember; umsögn skipulagsfulltrúa um deiliskipulag Stekkjarbakka Þ73 er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. R19010136
18. liður fundargerðarinnar frá 14. nóvember; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019. R19010200
Samþykkt að greiða atkvæði um viðauka 2. vegna reksturs á neyðarskýli við Grandagarð 1a og er hann samþykktur.
Samþykkt að greiða atkvæði um viðauka 1, vegna samgöngusamninga tímabilið júlí til desember 2019 og viðauka 3, tillögur samráðsnefndar um forvarnir í tengslum við borgarhátíðir sumarið 2019. Viðaukarnir eru samþykktir.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar frá 7. nóvember:
Um er að ræða raskað svæði við Stekkjarbakka þar sem lagt er til að fara í græna uppbyggingu sem byggir á nýsköpun og mun hvetja til enn frekara lífs í dalnum. Umrætt svæði liggur ekki í dalnum heldur við hliðina á umferðargötu og stendur fyrir utan aðalgöngu- og hjólaleiðina í Elliðaárdalnum. Með uppbyggingunni mun þjónustan við nálæg hverfi eins og Breiðholt aukast og aðgengi að dalnum verður mun betra. Hér er ákveðið er að fylgja lægri gildum í flokki E2 í birtumagni en sá flokkur er viðmið fyrir utanhússlýsingu á dreifbýlissvæðum. Í raun er verið að ganga lengra sem nemur raunverulegum myrkurgæðum í dalnum og stífari kröfur gerðar til myrkurverndunar en tíðkast hefur hér á landi.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar frá 7. nóvember:
Margar athugasemdir hafa komið fram varðandi uppbyggingu á atvinnustarfssemi í Elliðaárdal, t.d. varðandi fráveitu og ljósmengun. Borgaryfirvöld ættu ekki að gleyma því að Elliðaárdalurinn er einstakur í sinni röð á heimsvísu, með ótal fallegum gönguleiðum, fjölbreyttu lífríki og ómengaðri laxveiðiá. Hugsanlega er hætta á því, m.v. athugasemdir skipulagsstofnunar að áburður og annað sem fylgir starfsemi gróðurhvelfingarinnar muni mögulegu geta skaðað og haft áhrif á lífríki Elliðaánna og dalsins. Hvað varðar ljósmengun er Elliðaárdalurinn skilgreindur sem það svæði sem hefur og á að hafa sem minnsta ljósmengun í skipulagi Reykjavíkurborgar. Í deiliskipulagi fyrir dalinn er gert ráð fyrir að ljósmengun sé ekki umfram E3 skilgreiningu sem þýðir að dalurinn á að vera með minni ljósmengun en önnur svæði í Reykjavík. Sú ákvörðun að setja á fót atvinnustarfssemi og þar að auki stórt gróðurhús gengur þvert gegn skilgreiningu í deiliskipulagi Elliðaárdals. Þá er ljóst að Skipulagsstofnun fékk ekki gögn um að inn í hvelfingunni eigi að reka hátt í eitt þúsund fermetra verslunar- og veitingarými. Hefðu þeir fengið þau gögn má leiða að því líkur að þeir hefðu gert athugasemd um formgalla í deiliskipulaginu. Enda gerir aðalskipulagið eingöngu ráð fyrir uppbyggingu sem tengist útivist, íþróttastarfsemi eða samfélagsþjónustu eins og segir á bls. 274 í aðalskipulaginu.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar frá 7. nóvember:
Valdbeiting meirihlutans gagnvart íbúum Grafarvogs í málinu er á þessa leið: Að strá salti í sárin, svikin loforð, blaut tuska í andlitið, skilningsleysi, samráðsleysi, forherðing, yfirgangur, frekja, að snúa hnífnum í sárinu, tillitsleysi, siðferðisskortur, brot á deiliskipulagi hverfisins, vanvirðing fyrir börnum, vanvirðing fyrir foreldrum, vanvirðing fyrir starfsmönnum skólans, vanhæfni, hroki, ósvífni, fótum troðið lýðræði og úthverfaandúð. Meirihlutanum var boðið upp á frestun ákvörðunartöku til að ná sáttum við íbúa hverfisins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar frá 7. nóvember:
Þetta er stórmál sem varðar fjölmarga. Þess vegna er bæði sjálfsagt og eðlilegt að það verði íbúakosning um þetta nýja deiliskipulag fyrir nýtt þróunarsvæði á Stekkjarbakka. Elliðaárdalurinn skiptir fjölmarga máli, tilfinningamáli. Þetta er eitt stærsta græna svæðið í Reykjavík. Um þetta verður aldrei friður nema að haft verði fullt samráð við áhugahópa, hagsmunahópa og aðra sem óska eftir að hafa skoðun á málinu. Borgarráð hefur samþykkt að veita félaginu Spor í sandinn vilyrði fyrir lóð í Stekkjarbakka í Breiðholti til að byggja þar gróðurhvelfingu fyrir Aldin Biodome. Þetta er umdeilt enda stórt og mikið mannvirki í miðri náttúrunni og eru t.d. áhyggjur af ljósmengun af því. En aðalatriðið er þó að eiga samtal við fólkið. Þetta er enn eitt stórmálið þar sem kallað er eftir samtali og samráði og þar sem fólki finnst það vera hundsað. Borgarfulltrúi vill minna hér á tilmæli umboðsmanns borgarbúa. Þau eiga vel við í þessu máli og þess vegna er lagt til að íbúakosning eigi sér stað. Nóg er komið af samráðsleysi. Hvert málið hefur rekið annað þar sem farið er í framkvæmdir þrátt fyrir hávær mótmæli og ákall um hlustun. Snúa umkvörtunarefnin að skorti á árangursríku samráði og skort á upplýsingaflæði í aðdraganda framkvæmda og á verktíma eins og segir í tilmælum umboðsmanns borgarbúa.
- Kl. 22.25 tekur Aron Leví Beck sæti á fundinum og Sigríður Arndís Jóhannesdóttir víkur af fundi.
8. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 15. nóvember, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 14. nóvember, menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 11. nóvember, skipulags- og samgönguráðs frá 6. og 13. nóvember, skóla- og frístundaráðs frá 12. nóvember og velferðarráðs frá 13. nóvember. R19010073
Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 15. nóvember:
Rangur titill var settur á tillögu Flokks fólksins á fundum forsætisnefndar 11. október og 15. nóvember. Réttur titill er: “Tillaga Flokks fólksins um að fengið verði mat hjá ráðuneyti um ýmis álitaefni tengd siðareglum og skyldu borgarfulltrúa til að fara eftir þeim”. Ekkert í tillögu Flokks fólksins var um “afnám á skyldu til að fylgja siðareglum“ eins og tillagan var óvart titluð.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs:
Í tilefni þess að í dag, 19. nóvember er alþjóðlegi klósettdagurinn vill borgarfulltrúi Flokks fólksins bóka við fundargerð mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs 14. nóvember undir lið 8 sem er framlagning skoðunarskýrslu Vinnueftirlitsins á salernum í Borgartúni 12 -14. Bókun Flokks fólksins er eftirfarandi: Flokkur fólksins telur það nauðsynlegt að áður en kyngreining salerna hjá Reykjavikurborg sé framkvæmd verði lögum og reglum breytt hvað þetta varðar. Vænlegast er að fylgja fyrirmælum Vinnueftirlitsins þar til Alþingi hefur tekið á málinu. Kyngreining salerna hefur fengið mikla athygli meirihlutans í borginni sem lagt hefur sérstaka áherslu á málið. Í þessu sambandi má nefna í tilefni þess að klósettdagurinn er í dag að það eru minnst fjórir og hálfur milljarður manna í heiminum sem hafi ekki aðgang að salerni sem tengt er við öruggt fráveitukerfi.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 8. lið fundargerðar mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs:
Kyngreining salerna myndi þýða að setja aftur upp merkingar þar sem að salernin eru nú ókyngreind. Því er örlítið óljóst hvort borgarfulltrúinn vill setja aftur upp merkingar eða ekki því báðar hugmyndir koma fram í bókun fulltrúa Flokks fólksins. Mikilvægt er að það sé yfir allan vafa hafið hvernig aðhafast skuli í málinu til að koma í veg fyrir óþægindi fyrir viðkvæma hópa eins og transfólk og fólk sem skilgreinir sig ekki byggt á hinu hefðbunda tvíhyggjukynjakerfi. Okkur hefur bæði borist sú athugasemd frá Vinnueftirlitinu að það sé í lagi að hafa salernin ókyngreind og svo að okkur beri að hengja aftur upp merkingar. Mikilvægt er að fá úr því skorið hvort álitið skuli standa. Þess ber að merkja að reglurnar sem um ræðir eru frá árinu 1995 og því nærri 25 ára gamlar - og því er spurning hvort það væri ekki vænlegast að uppfæra þær byggt á nýjum lögum um kynrænt sjálfræði eins og ráðuneytið hefur sagt að það sé að skoða. Reykjavík er mannréttindaborg og leggur metnað sinn í að tryggja aðgengi allra að samfélaginu.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun undir 8. lið fundargerðar mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs:
Þessi kyngreiningarmál salerna er áherslumál meirihlutans í borginni sem sett hefur þetta mál á oddinn. Flokkur fólksins er flokkur sem styður jafnrétti í einu og öllu og leggur mikla áherslu á að öllum líði vel í samfélaginu. Varðandi salernismálin og kyngreiningu þeirra þá hafa heyrst raddir þeirra sem vilja gjarnan halda aðskildum klósettum, annars vegar fyrir þá sem setjast á klósettsetuna til að pissa og hins vegar fyrir þá sem pissa standandi. Skoðanir allra þarf að virða gagnvart þessu sem öðru og hlusta þarf á raddir allra hópa. Flokkur fólksins skilur að málið getur verið flókið og vonandi finnst viðundandi lausn sem flestir geta sætt sig við. En fyrst er að fá lögin á hreint.
Fundi slitið kl. 23:27
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð
Sabine Leskopf
Hjálmar Sveinsson Sanna Magdalena Mörtudóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 19.11.2019 - Prentvæn útgáfa