Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2018, þriðjudaginn 18. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:04. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Sabine Leskopf, Magnús Már Guðmundsson, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Katrín Atladóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Örn Þórðarson og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Borgarstjórn samþykkir að fela umhverfis- og skipulagsviði að hefja eftirfarandi verkefni til tryggja framgöngu borgarlínu sem hágæðakerfis almenningssamgangna: 1. Klára breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 með samgöngu- og þróunarásum fyrir hágæðakerfi almenningssamgangna – Borgarlínu. 2. Hefja skipulagsvinnu rammaskipulags fyrir hágæðakerfi almenningssamgangna í sérrými með austur-vestur tengingu frá Lækjartorgi upp á Ártúnshöfða og norður-suður tengingu um Vatnsmýri. Drög verði tilbúin í vor og tillaga verði tilbúin næsta haust. 3. Áætlun og eftir atvikum skipulagsvinnu fyrir fjölbreytta húsnæðisuppbyggingu meðfram þróunarásum borgarlínu sem verði unnin samhliða. 4. Tillögur að reitum innan áhrifasvæðis hágæða almenningssamgangna þar sem unnið er sérstaklega með hagkvæmar og nútímalegar lausnir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Til að byggja upp góða þjónustu er nauðsynlegt að fólk sem treystir á almenningssamgöngur komi að skipulagningunni á öllum stigum uppbyggingarinnar og sitji við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar. Rödd almennings sem stólar á almenningssamgöngur á að vera útgangspunktur að framtíðaruppbyggingu þeirra. Í ljósi þess leggur borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands til þess að tillögunni verði vísað frá.
Málsmeðferðartillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks Fólksins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun vegna afgreiðslu málsmeðferðartillögunnar:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins styður frávísunartillöguna á þeim grundvelli að eðlilegt og réttlátt er að gefa borgarbúum tækifæri til að taka afstöðu til borgarlínu með sérstakri kosningu enda er málið umdeilt. Hvað felst í þessari risavöxnu framkvæmd og útfærslu hennar er ekki öllum ljóst. Ekki er hægt að segja að liggi fyrir nægjanlega skýr vilji borgarbúa um að hefja eigi þessa dýru framkvæmd sem borgarlína er núna. Þess utan eru aðrir mikilvægir þættir afar óljósir. Í tillögu borgarmeirihlutans sem nú hefur verið lögð fram í borgarstjórn er ekki stafkrókur um kostnað, skiptingu hans milli ríkis og borgar og hlutfall annarra sveitarfélaga í verkefninu. Skýr vilji borgarbúa þarf að koma fram enda mun bygging borgarlínu koma við pyngju þeirra og hafa áhrif á aðra þjónustu í borginni. R18090163
Tillagan er samþykkt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins; Eyþórs Laxdal Arnalds, Valgerðar Sigurðardóttur, Jórunnar Pálu Jónasdóttur, Mörtu Guðjónsdóttur, Arnar Þórðarsonar og Ragnhildar Öldu Vilhjálmsdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins og borgarfulltrúa Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir og borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ekki er með neinu móti hægt að samþykkja þessa tillögu enda upphaf að óvissuferð. Auk þess er tillagan í mótsögn við annað sem samþykkt hefur verið hingað til. Ekki liggur fyrir hver á að standa að uppbyggingu og rekstri „borgarlínu“, en áður hefur verið talað um samstarfsverkefni sveitarfélaganna. Þá liggur ekki fyrir kostnaðarmat en ljóst er að tillagan kostar hundruð milljóna þó ekkert verði framkvæmt. Enn á að ráða millistjórnendur þrátt fyrir ábendingar um vaxandi bákn. Þá er vægast sagt ótrúverðugt að halda því fram að hér verði unnið að hagkvæmum íbúðum fyrir ungt fólk þegar fyrir liggur stefna borgarinnar um sérstakan skatt; innviðagjald sem á að leggjast á nýjar íbúðir á þessu svæðum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslur á úrbætur í almenningssamgöngum en allar áætlanir um úrbætur undanfarið hafa brugðist. Bæta þarf tíðni almenningssamgangna, nútímavæða og færa inn í framtíðina.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er ljóst að borgarmeirihlutinn ætlar að hefja uppbyggingu borgarlínu þrátt fyrir að mörg óleyst önnur brýn verkefni sem varða grunnþarfir borgarbúa hafa ekki verið leyst. Er ekki nær að byrja á fæði, klæði og húsnæði fyrir alla áður en ráðist er í slíkt mannvirki sem borgarlína er? Að koma þaki yfir höfuð allra í Reykjavík, að eyða biðlistum svo börn fái þá þjónustu sem þau þurfa. Að setja þarfir borgarbúa í fyrsta sæti. Fólkið fyrst! Í tillögunni er ekki stafkrókur um kostnað, skiptingu hans milli ríkis og borgar og hlutfall annarra sveitarfélaga í þessari risaframkvæmd. Og enn skal þenja báknið með ráðningu verkefnastjóra. Það er virðingarvert að ætla að efla almenningssamgöngur í borginni en Flokkur fólksins vill vita hvar á að taka þessa. Hvað segja borgarbúar? Vita þeir allir út á hvað þetta verkefni gengur, hvernig það muni koma við pyngju þeirra og hvaða áhrif það kann að hafa á aðra þjónustu í borginni? Áður en ráðist verður í þetta verkefni er það lágmarksvirðing við borgarbúa að þeir verði upplýstir af óháðum aðilum um hvert einsta smáatriði þessu tengdu og í kjölfarið gefist þeim kostur á að kjósa um hvort hefjast eigi handa við þetta verkefni í samræmi við tillögu borgarmeirihlutans.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarlína er notuð sem alfa og omega alls hjá meirihlutanum. Borgarlína á að leysa öll mál sem hrjá borgarbúa svona svipað eins og ESB á að bjarga landsmálunum að mati Samfylkingarinnar. Í meirihlutasáttmálanum kemur t.d. fram að leggja eigi sérstaka áherslu á hagkvæmar og nútímalegar lausnir í húsnæðisuppbyggingu og setja aukinn kraft í lausnir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í tengslum við borgarlínu. Sífellt er vísað á ríkið og flugvöllurinn settur í gíslingu því í sáttmálanum segir að lokun hans verði frestað þegar samningar hafa náðst við ríkið um borgarlínu. Áhugi ríkisins er við frostmark og sagði fjármálaráðherra í þingræðu þann 27. maí 2018 að hvorki ríkið né Reykjavíkurborg eða önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hefðu sýnt fram á að þau hefðu úr þeim fjármunum að spila sem þyrftu til þess að hrinda borgarlínu í framkvæmd. Miðflokkurinn leggur áherslu á alla ferðamáta því fjölbreytileikinn tryggir að allir geti notað þann kost sem hentar og styður allar góðar lausnir í almenningssamgöngum. Tillagan er útbólgin kostnaðartillaga og innifelur að ráða þurfi tvo nýja verkefnisstjóra og fjölga skrifborðum í stjórnsýslunni. Áætla má að launakostnaður einn verði um 30 milljónir á ári fyrir utan allan annan kostnað sem kynntur er í tillögunni.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er mikið gleðiefni að samþykkja borgarlínu í borgarstjórn í dag. Borgarlína er burðarásinn í framtíðarþróun samgangna og húsnæðisuppbyggingu í borginni. Hún er grundvallarforsenda þess að breyta ferðavenjum og jafna möguleika allra á aðgengi að hagkvæmum og vistvænum samgöngum. Eftir uppbyggingartímabil gríðarlega stórra samgöngumannvirkja með mislægum gatnamótum sem eru að mestu gerð fyrir einn fararmáta erum við komin í öngstræti. Við getum ekki endalaust ausið peningum í samgöngukerfi sem er mengandi og gerir lítið annað en framkalla aukna þörf á bílaumferð. Það er ósjálfbær fjárfesting fyrir samfélagið. Við erum hér í dag að samþykkja tillögu um uppbyggingu borgarlínu vegna þess að það er besta leiðin til þess að bæta skilvirkni samgangna á höfuðborgarsvæðinu, bæta loftgæði og draga úr loftslagsáhrifum. Það er einnig besta leiðin til þess að byggja húsnæði, bæði fyrir íbúa og atvinnulíf. Það er mikill samgöngubati af bættum samgönguvenjum og þar felast mikil tækifæri fyrir vaxandi borg að gera betur í baráttunni við loftslagsbreytingar. Tökum framtíðinni fagnandi og hefjumst handa.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Reykjavíkurborg þarf að horfa til mjög langs tíma, jafnvel langt fram eftir þessari öld, hvað varðar þróun og uppbyggingu mikilvægrar starfsemi á höfuðborgarsvæðinu svo sem sjúkrahúsþjónustu. Meta þarf búsetuþróun, skipulagningu margvíslegra innviða svo sem gatna og veitukerfa og ekki síst öryggissjónarmiða og þróunar í tækni- og heilbrigðisvísindum. Borgarstjórn samþykkir að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að velja heppilegan stað fyrir uppbyggingu á öðru sjúkrahúsi í Reykjavík með tilliti til samgangna, íbúa- og atvinnuþróunar og öryggismála og hvers konar starfsemi ætti að vera í slíku sjúkrahúsi. Lagt er til að þetta verði unnið í samstarfi við erlenda og innlenda sérfræðinga, ekki síst Landspítala háskólasjúkrahús (LSH), stjórnvöld, nágrannasveitarfélögin, heilsugæslustöðvar og sjálfstætt starfandi lækna. Skipaður verði samstarfshópur undir forystu Reykjavíkurborgar til að vinna þetta verkefni með það í huga að niðurstaða geti legið fyrir um mitt ár 2019. Þá verði niðurstaða kynnt fyrir hagsmunaaðilum og almenningi og þá eftir atvikum horft til mögulegra breytinga á svæðaskipulagi og aðalskipulagi hvað þetta varðar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18090164
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að sátt sé um tillögu um staðarvalsgreiningu og að unnið verði í verkefninu á vegum borgarráðs. Við treystum því að sú vinna verði unnin einarðlega. Lengi hafa verið deilur um staðsetningu Landspítala háskólasjúkrahúss og það sama gildir um ýmsar aðrar stórframkvæmdir. Reykjavík er ung borg og oft hefur skort á að ákvarðanataka byggi á langtíma stefnumörkun varðandi þróun borgarinnar. Framtíðarsýn og langtímahugsun er nauðsynlegur þáttur við alla innviðauppbyggingu. Þetta verður sífellt mikilvægara eftir því sem borgin stækkar. Fyrir höfuðborg landsins er grundvallaratriði að faglega sé unnið að málum og horft sé yfir eða fram hjá pólitískum deilumálum á hverjum tíma.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að Reykjavíkurborg verði í fararbroddi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu með framtíðarskipulag fyrir staðsetningu nýs þjóðarsjúkrahúss. Reykjavík er höfuðborg landsins og ber skyldur umfram önnur sveitarfélög. Einnig ber höfuðborginni að vera leiðandi og hafa forystu um svo stórt verkefni sem nýtt þjóðarsjúkrahús er fyrir landsmenn alla. Engum dylst að uppbygging Landspítalans við Hringbraut er óráðsía. Fréttir undanfarnar vikur hafa leitt í ljós óbærileg óþægindi fyrir inniliggjandi sjúklinga, aðstendur þeirra og ekki síður starfsfólk sem reynir að sinna sínum verkum af natni. Þingsályktunartillaga um staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús var felld á Alþingi á síðasta þingi en hefur nú verið lögð fram að nýju. Reykjavíkurborg verður að taka forystu meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hefja strax undirbúning og skipulag að því að finna nýjum spítala nýjan stað. Beinast liggur við að staðsetja nýjan spítala á Keldum og hefja þarf strax viðræður við ríkið um að kaupa Keldnalandið og var tillaga þess efnis lögð fram af áheyrnafulltrúa Miðflokksins á fundi borgarráðs 6. september 2018 en hlaut hún ekki brautargengi. Því fagna ég þessum umræðum í dag. Uppbygging nýs þjóðarsjúkrahúss þolir enga bið.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Staðsetning sjúkrahúss við Hringbraut sem nú rís er niðurstaða umfangsmikils samstarfs ríkis, borgar og LSH. Þegar þörf er á staðarvali fyrir enn nýrri spítala þarf að fara í samráð vegna þess líka og lykilatriði að afla upplýsinga um afstöðu ríkisins sem er byggingaraðili Landspítalans til þeirrar vinnu. Á þeim grunni er henni vísað til borgarráðs til nánari skoðunar.
3. Fram fer umræða um stöðu hverfisráða borgarinnar. R18030194
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Meðhöndlun meirihlutans á hverfisráðum borgarinnar er með öllu óskiljanleg. Þau voru svæfð á einni nóttu eftir kosningar nú þrátt fyrir fjögurra ára vinnu síðastliðið kjörtímabil í endurskoðun á þeim til valdeflingar borgarbúa. Verið er að færa valdið frá fólkinu í borginni og slíta á öll tengsl almennings við Ráðhúsið. Hvar eru allar yfirlýsingarnar um lýðræðið, gegnsæið og valdið til fólksins sem talað er um á tyllidögum? Lögheimili þeirra yfirlýsinga er ekki hjá meirihlutanum í Ráðhúsinu.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna kemur fram að hverfisráðin verði endurskoðuð með skilvirkni, eflingu lýðræðis og bætt samstarf við íbúa að leiðarljósi. Á fyrsta borgarstjórnarfundi þessa kjörtímabils samþykkti borgarstjórn að fresta kosningum í öll hverfisráð Reykjavíkurborgar til áramóta 2018-2019 og jafnframt leysa sitjandi hverfisráð frá störfum. Skýrsla um framtíðarsýn fyrir hverfisráðin hefur verið í vinnslu og umsagnarferli. Endanlegar tillögur verða unnar á vettvangi mannréttinda- og lýðræðisráðs og lagðar fyrir borgarstjórn fyrir lok þessa árs. Sl. fimmtudag skipaði mannréttinda- og lýðræðisráð stýrihóp sem vinna mun málið áfram og skoða álitamál og mismunandi tillögur skýrslunnar í samráði við borgarbúa. Það er stefnt að því að þessari vinnu verði lokið í nóvember. Fyrsti fundur stýrihópsins er á morgun, miðvikudag. Stefnt er að því að stýrihópurinn muni hefja umfangsmikla samráðsvinnu á næstunni og funda vikulega með hagsmunasamtökum og íbúum hverfanna.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Hverfisráð hafa ekki verið starfandi frá því í maí sl. og samkvæmt yfirlýsingum meirihlutans munu þau í fyrsta lagi hefja störf að nýju í janúar 2019. Ákvörðun um að svæfa starfsemi þeirra var tekin án fyrirvara, mikillar yfirlegu eða samráðs við þá sem störfuðu í hverfisráðum. Sum hverfisráð voru virkari en önnur og þar sem þau voru virk er mikil eftirsjá af þeim. Hugmyndir og tillögur sem bárust hverfisráðunum í gegnum Betri Reykjavík eða komu beint til ráðanna hafa því ekki farið í viðeigandi ferli innan stjórnsýslunnar. Þverpólitísk vinna fór fram í ráðunum með hagsmuni íbúa hverfanna að leiðarljósi. Það er ekki góður bragur á því að leysa upp hverfisráðin fyrr en ákvörðun hefur verið tekin um aðra útfærslu. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að stýrihópur um hverfisráð sem hefja mun vinnu sína á næstu dögum kanni fleiri og kostnaðarminni möguleika við það að styrkja íbúalýðræði en að hafa starfandi hverfisráð. Starfsemi þeirra hefur hingað til verið kostnaðarsöm eða um 40 milljónir ár hvert. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að fjármununum eigi frekar að verja til þeirra sem á þurfa að halda.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins leggur til að borgin tryggi öllum börnum sem þess þurfa biðlistalaust aðgengi að skólasálfræðingum. Ástandið hefur lengi verið slæmt í þessum efnum. Í nýrri skýrslu Embættis landlæknis kemur fram að almenn vanlíðan barna hefur aukist og aukning hefur orðið á tíðni sjálfskaða og sjálfsvígshugsana stúlkna. Borginni ber skylda til að tryggja öllum börnum biðlistalaust aðgengi að skólasálfræðingum. Borgin getur axlað ábyrgð hér í mun ríkari mæli, annars vegar með því að sálfræðingar hafi aðsetur í skólunum í stað þjónustumiðstöðva og hins vegar með því að fjölga sálfræðingum í skólum.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18090165
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs.
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Viðbrögð meirihlutans við tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um biðlistalaust aðgengi að skólaþjónustu og að sálfræðingar hafi aðsetur í skóla er að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins veikburða málflutningur með útúrsnúningaívafi. Það er ekki verið að biðja um mikið með þessari tillögu, aðeins að sálfræðingar skóla sæki vinnu sína í skólana þar sem þeirra rétti staður er, við hliðina á börnunum og starfsfólkinu. Tillögunni er vísað til velferðarráðs þar sem borgarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins vona að fulltrúar í ráðinu, allir sem einn, láti verkin tala í þágu barnanna með því að gera þær breytingar sem tillagan gengur út á.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Borgarstjórn samþykkir að fela skóla- og frístundasviði að hefja undirbúning að tilraunaverkefni um að að jafnaði einn leikskóli í hverju hverfi skuli vera opinn allt sumarið 2019.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18090042
Samþykkt.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Sú tillaga sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir tilraunaverkefni um sumaropnun hluta borgarrekinna leikskóla. Markmiðið er að veita reykvískum börnum og foreldrum þeirra aukið frelsi og aukinn sveigjanleika um hvenær þau taka sér sumarleyfi.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillagan að sumaropnun leikskóla er jákvætt skref í átt að aukinni þjónustu borgarinnar við barnafjölskyldur. Hvað varðar áætlanir um sumaropnun leikskóla telur borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins að hefjast þurfi handa við að laga þann vanda sem steðjar nú að leikskólum borgarinnar; láglaunastefnuna, mannekluna og starfsumhverfið áður en litið er til frekari uppbygginga. Í framhaldi væri sennilega hentugra að lengja sumaropnun allra leikskóla frekar en að að aðlaga fjölda barna að nýjum deildum leikskóla til skamms tíma. Nauðsynlegt er að breytingar á opnunartíma leikskólanna séu unnar út frá hluteigandi aðilum, þ.e.a.s. starfsfólki og foreldrum barnanna á leikskólum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að komið sé til móts við hugmyndir um sveigjanleika í leikskólastarfi þannig að barnafjölskyldur hafi val um hvenær börnin fari í sumarleyfi. Tillaga um þetta tilraunaverkefni samræmist vel stefnu Sjálfstæðisflokksins um sveigjanleika og val í skólastarfi eins og við sjálfstæðismenn höfum oft rætt um og bent á áður. Sumir foreldrar hafa ekki tækifæri á að velja hvenær þeir fara í frí og því er nauðsynlegt að hafa þennan valmöguleika. Mikilvægt er að foreldrar og börn geti tekið sumarfrí á sama tíma þannig að fjölskyldan geti varið sumarleyfinu saman. Mikilvægt er að fjármögnun verkefnisins sé tryggð.
- Kl. 22:00 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Ragna Sigurðardóttir tekur sæti.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að sá afsláttur sem námsmenn, einstæðir foreldrar og öryrkjar geta fengið af leikskólagjöldum barna sinna, nái einnig til gjalds vegna dvalar barna á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18090166
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
7. Fram fer umræða um stöðu mönnunar á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst. Einnig er lagt fram minnisblað skóla- og frístundasviðs, dags. 17. september 2018. R17090049
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Vetrarstarfið er nú hafið í leik- og grunnskólum og enn vantar í margar stöður. Eftir er að ráða í 38 stöðugildi í leikskólum, í frístundinni vantar í rúmlega 64 stöðugildi. Á biðlista eftir leikskólaplássi eru 186 börn. Þessi staða er enn með öllu óásættanleg. Mannekla í leikskólum er ekki nýtt vandamál og því sætir það furðu að borgin hafi ekki getað tekið á því með mannsæmandi hætti fyrir löngu. Álagið sem þessu fylgir hefur ekki verið og er ekki boðlegt börnunum og foreldrum þeirra hvað þá starfsfólki leikskólanna. Allt of lengi hefur borgin hunsað þetta vandamál eða í það minnsta ekki tekið það nægjanlega föstum tökum. Veigamestu atriðin sem skipta máli hér eru launamálin sem eru óviðunandi. Inn í þetta spilar starfsálag sem hefur verið enn frekar íþyngjandi vegna langvarandi manneklu. Allt spilar þetta saman. Það er ekkert sem skiptir meira máli en börnin okkar og allt sem varðar þau á borgin að setja í forgang þegar kemur að úthlutun fjármagns. Hækka þarf launin enn frekar og breyta vinnutímafyrirkomulagi til að létta á og jafna álag á starfsmönnum.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það gengur mun betur að manna lausar stöður í leikskólum og frístundastarfi en á sama tíma í fyrra. Búið er að manna 97,5% stöðugilda í leikskólum, 99% stöðugilda í grunnskólum og 82% stöðugilda í frístund. Nú á eftir að manna 39 stöðugildi í leikskólum samanborið við 96 á sama tíma í fyrra. Fjölmargar aðgerðir sem gripið hefur verið til frá sumri 2017 eru farnar að skila árangri og talsverð breyting verður milli mælinga í rétta átt. Sterk viðbrögð eru við nýjasta úrræðinu, afleysingastofu fyrir leikskóla, og komu 50 umsóknir inn fyrstu dagana sem hún var starfrækt. Fækkað hefur mjög í hópi barna sem fengið hafa boð um leikskólavist en ekki fasta dagsetningu á inntöku, þau eru nú 59 en voru 128 fyrir mánuði. Þá hefur einnig fækkað um helming á biðlista í frístundastarfinu á hálfum mánuði og eru þar þriðjungi færri börn en á sama tíma í fyrra. Áfram verður unnið af miklum krafti við að fullmanna lausar stöður og tryggja öllum börnum fulla þjónustu sem allra fyrst.
- Kl. 22:30 víkur Skúli Helgason af fundi og Ellen Calmon tekur sæti.
8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að veita jöfn fjárframlög úr borgarsjóði með hverjum nemanda sem lögheimili á í Reykjavík og sækir þar grunnskóla og/eða frístundaheimili. Skal sama upphæð opinbers fjár því fylgja hverju barni í skólakerfinu, óháð rekstrarformi viðkomandi grunnskóla eða frístundaheimilis. Þiggi sjálfstætt rekinn grunnskóli þessi auknu fjárframlög getur skólinn ekki innheimt skólagjöld af nemendum búsettum í Reykjavík.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18090167
Frestað.
9. Umræðu um stefnu Reykjavíkurborgar í erlendum samskiptum er frestað. R18090019
10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að öllum leik- og grunnskólum borgarinnar verði gert kleift m.a. fjárhagslega sem og hvattir til að taka þátt í verkefninu skólar á grænni grein (grænfáninn). Vissulega geta skólar verið grænir, heilsueflandi og í miklu umhverfisstarfi þótt þeir séu ekki grænfánaskólar. Fáninn er engu að síður góður og skýr mælikvarði og merki um að skóli hafi náð ákveðnu viðmiði í umhverfismálum. Borgin ætti því hiklaust að nota þennan mælikvarða sem nú þegar hefur verið búinn til og þróaður og styðja og styrkja alla skóla til að taka upp græna fánann. Eitt af markmiðum skóla á grænni grein er að fræða börnin um matarsóun og mikilvægi þess að hætta notkun einnota plasts s.s. plastpoka. Að vera skóli á grænni grein gefur börnunum tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttum verkefnum sem vekur þau til vitundar um umhverfið og hvernig þau geta hlúð að því. Verkefnin hjálpa börnunum að skynja mikilvægi þess að sporna gegn matarsóun í nærumhverfinu og setja sér skýr markmið í umhverfismálum. R18090168
Frestað.
11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins:
Lagt er til að Reykjavíkurborg hækki lágmarkslaun í áföngum, þannig að enginn verði með lægri laun en 350 þúsund krónur 1. desember 2018 og enginn með lægri laun en 400 þúsund krónur 1. apríl 2019.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18090169
Frestað.
12. Umræðu um matvöruverslanir í miðborginni er frestað. R18090170
- Kl. 23:00 víkur Sigurborg Ósk Haraldsdóttir af fundi og Alexandra Briem tekur sæti.
13. Lagt er til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti í fjölmenningarráði í stað Hildar Björnsdóttur. R18060104
Samþykkt.
14. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 6. og 13. september. R18010002
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. september:
Margir komu að áminningarferli fjármálastjóra Ráðhússins sem endaði fyrir Héraðsdómi og hafði fjármálastjórinn fullan sigur. Borgarstjóri, borgarritari, borgarlögmaður, starfsmannastjóri Reykjavíkur, lögmenn hjá embætti borgarlögmanns auk Antons Björns Markússonar hrl. vissu öll um áminninguna og veittu ráð um ferlið. Nú hefur komið í ljós að málarekstur borgarinnar í máli 3132/2017 hefur kostað 3.743.750 krónur. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð og borgarfulltrúi Miðflokksins kallar eftir því að einhver axli ábyrgð á þessu alvarlega máli. Það virðist vera meðvituð ákvörðun þeirra sem stjórna borginni að bregðast ekki við dómi Héraðsdóms og er það mjög alvarlegt sérstaklega í ljósi þeirra mála sem nú skekja Orkuveitu Reykjavíkur.
15. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 14. september.
Samþykkt að vísa 4. lið fundargerðarinnar; tillögu að breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, til síðari umræðu.
Lagðar fram fundargerðir mannréttinda- og lýðræðisráðs frá 13. ágúst, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 3. september, skóla- og frístundaráðs frá 11. september, skipulags- og samgönguráðs frá 5. og 12. september, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 5. september og velferðarráðs frá 3. september. R18010074
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 11. september:
Í minnisblaði skóla- og frístundaráðs sem fylgir rökstuðningi meirihlutans fyrir að fella þessa tillögu kemur fram að hún hafi verið óljós. Borgarfulltrúa þykir þetta útúrsnúningur þar sem hringt var í hann þegar tillagan var í vinnslu til að fá nánari útskýringar sem voru veittar með fullnægjandi hætti eftir því sem best var skilið. Í tillögunni felst að þeir sálfræðingar sem fyrir eru dreifist til skólanna í 40% stöðugildi og til að það næðist myndi án efa þurfa að ráða fleiri sálfræðinga. Enn og aftur vill Flokkur fólksins leggja áherslu mikilvægi þess að sálfræðingar séu sýnilegir á göngum skólanna og að börnin og foreldrar þeirra viti hverjir þeir eru.
16. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 14. september. R18060129
Samþykkt að vísa 4. lið fundargerðarinnar; tillögu að breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, til síðari umræðu.
17. Samþykkt að taka kosningu í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar á dagskrá. R18060110
Samþykkt að Katrín Atladóttir taki sæti sem varamaður í stjórninni í stað Valgerðar Sigurðardóttur.
18. Fram fer umræða um fundarsköp. R18010003
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Að gefnu tilefni verða borgarfulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur að gera alvarlegar athugasemdir við að borgarfulltrúum meirihlutans líðist að taka sér dagskrárvald og ræða um mál sem er alls ekki á dagskrá fundarins. Tekið er til máls undir fundargerðum án þess að geta um undir hvaða fundargerð, dagsetningu eða lið fundargerðarinnar málið er. Gera verður þá kröfu til allra borgarfulltrúa að þeir fari að fundarsköpum og að fundinum sé stýrt í samræmi við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Fundi slitið kl. 23:42
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Dóra Björt Guðjónsdóttir
Björn Gíslason Sigurborg Ósk Haraldsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 18.9.2018 - prentvæn útgáfa