Borgarstjórn - 18.6.2019

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2019, þriðjudaginn 18. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Sabine Leskopf, Hjálmar Sveinsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Jórunn Pála Jónasdóttir, Alexander Witold Bogdanski, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Egill Þór Jónsson, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir, Diljá Mist Einarsdóttir og Þórdís Pálsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram tillaga að nýjum siðareglum kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg, sbr. 9. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 14. júní 2019.

    Samþykkt með 21 atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Árslangri vinnu við endurskoðun siðareglna er nú lokið með samþykkt yfirgnæfandi meirihluta borgarstjórnar. Við vonumst til að þær einföldu og skýru reglur sem þar birtast verði okkur, borgarfulltrúum öllum, mikilvægt leiðarljós í störfum okkar út kjörtímabilið.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Vakin er athygli á því að siðareglur fyrir embættismenn Reykjavíkur eru ekki í samfloti með siðareglum kjörinna fulltrúa eins og minnihlutinn hefur ítrekað óskað eftir og meirihlutinn ítrekað lofað. Kjörnir fulltrúar sækja umboð sitt til kjósenda á fjögurra ára fresti, og ekki til neinna annarra. Þeir eru algjörlega sjálfstæðir í störfum sínum og lúta einungis reglum sem þeir setja sér sjálfir. Siðareglur eru pólitísk og fjölmiðlaleg svipa á kjörna fulltrúa eins og dæmin sanna. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur barist á móti setningu þeirra bæði hjá borg og ríki. Kjósendur einir meta það hvort kjörinn fulltrúi hefur gengið of langt í óskráðum siðareglum. Lagaumgjörð er um störf kjörinna fulltrúa eina og annarra, bæði refsilöggjöf og meiðyrðalöggjöf, sem hægt er að beita brjóti kjörinn fulltrúi lög í störfum sínum. Segja má sem dæmi að borgarstjóri hafi brotið allar greinar þeirra siðareglna sem á að samþykkja nú í braggamálinu, hvað þá þegar litið er til siðareglanna sem eru að falla úr gildi, án þess að bera ábyrgð. Því er spurt, eru siðareglur borgarstjórnar bara fyrir suma?

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er ekki mótfallinn þessum reglum enda listi af almennum kurteisisreglum sem innbyggðar ættu að vera í hverja manneskju. Í umhverfi sem ríkir hér í borgarstjórn hef ég hins vegar ekki trú á að reglur sem þessar verði teknar alvarlega. Alla vega ekki á meðan stjórnunarstíll meirihlutans er litaður af slíkri valdbeitingu sem ég hef áður lýst í bókunum. Það „verkferli“ sem meirihlutinn samþykkti einhliða til að starfsmenn eigi greiða leið að kvarta yfir borgarfulltrúum ber ekki mikinn vott um vilja til góðra samskiptahátta eða samvinnu. Hvað þá sá óhróður sem borgarritari dreifði á sameiginlegu vefsvæði með stuðningi borgarstjóra, um fulltrúa minnihlutans og sagði þá vera „eins og tudda“ með þeim orðum „þeir sem bregðast við þessum orðum eru þeir seku“. Einn fulltrúi meirihlutans kynti undir á sama vefsvæði með því að nafngreina „hrekkjusvínin“ eins og fulltrúinn orðaði það. Varla samræmist þetta nokkrum siðareglum? Borgarmeirihlutinn núverandi sem að hluta til hefur setið í mörg ár hefur heldur ekki sýnt gott fordæmi þegar kemur að reglum um gott siðferði. Í gögnum um úttekt braggans er staðfest að valdhafar hafi farið á svig við siðareglur t.d. þær sem kveða á um að forðast að aðhafast nokkuð sem falið getur í sér misnotkun á almannafé. 

2.    Lögð fram tillaga að nýjum reglum um skráningu fjárhagslegra hagsmuna borgarfulltrúa og trúnaðarstörf utan borgarstjórnar, sbr. 10. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 14. júní 2019.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna á b-lið, 3. liðar, 4. gr. reglnanna: 

b. Heiti félags eða sparisjóðs sem borgarfulltrúi, eða félag í eigu hans, á hlut í og fer yfir einhver eftirtalinna viðmiða.

    

Lögð fram svohljóðandi frávísunartillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur til að reglum um skráningu fjárhagslegra hagsmuna borgarfulltrúa og trúnaðarstörf utan borgarstjórnar, ásamt breytingatillögum sem kynntar hafa verið, verði vísað frá fundi borgarstjórnar

Frávísunartillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun vegna afgreiðslu á frávísunartillögu borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mættu á fund borgarstjórnar tilbúnir að samþykkja reglur um skráningu fjárhagslegra hagsmuna sem forsætisnefnd hafði samþykkt með fyrirvara um samþykki Persónuverndar. Nú ber svo við að meirihlutinn kemur fram með breytingartillögu og vill vísa málinu í borgarráð. Það liðu ekki margar mínútur frá því siðareglurnar voru samþykktar og þangað til þær voru brotnar. Samkvæmt þriðja lið segir: “Við kynnum okkur málin og mætum undirbúin til starfa”. Óhætt er að segja að þessi regla hafi verið rækilega brotin í málinu. Í stað þess að ræða um reglurnar og ástæður þess að meirihlutanum þraut örendi í málinu á síðustu stundu var ræðustóll borgarstjórnar notaður í dylgjur sem lítill sómi var af. Sjálfstæðismenn hafa lagt áherslu á aukið gagnsæi í hagsmunaskráningu og lögðu til aukna skráningu í borgarráði 16. ágúst 2018. Nú nær ári síðar er ekki enn búið að bæta skráninguna þannig að hún nái líka til embættismanna en ekki eingöngu til kjörinna fulltrúa. 

Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins að vísa nýjum reglum um skráningu fjárhagslegra hagsmuna borgarfulltrúa og trúnaðarstörf utan borgarstjórnar og framlagða breytingartillögu til meðferðar borgarráðs. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Reglur um skráningu fjárhagslegra hagsmuna sem vísað var til borgarráðs til fullnaðarafgreiðslu endurspegla að mjög mörgu leyti þær reglur sem Alþingi og alþingismenn hafa sett sér til að skýra frá sínum fjárhagslegu hagsmunum en bæta þó um betur með þeirri breytingartillögu sem lögð var til sem eykur enn frekar á gagnsæi varðandi eignahald. Reglur sem þessar eru afar mikilvægar til þess að auka gagnsæi og miðla upplýsingum til almennings um það hvernig fjárhagslegir hagsmunir borgarfulltrúa eru. Þær eru settar til að auka traust á störfum stjórnsýslunnar og stofnana samfélagsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að álit Persónuverndar liggi fyrir áður en reglur um fjárhagslega hagsmuni taka gildi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins minna á að Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg braut persónuverndarlög fyrir kosningarnar í maí 2018.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur mikilvægt að hafa allt uppi á borðinu hvað varðar skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar. Fulltrúi Sósíalistaflokksins hefði þó endilega viljað sjá umræðu um slíkt og mögulega framtíðarmótun slíkra reglna tekna í borgarstjórn frekar en í borgarráði en borgarstjórn er opnari umræðuvettvangur miðað við borgarráð. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Forseti borgarstjórnar, Dóra Björt Guðjónsdóttir, er ekki starfi sínu vaxin. Framganga hennar á borgarstjórnarfundinum var borgarstjórn til ævarandi skammar. Að efna til pólitískra réttarhalda yfir einum borgarfulltrúa er fordæmalaust. Ekki nóg með að hún sé forseti borgarstjórnar, þá stýrði hún líka vinnu við endurskoðun nýrra siðareglna, sem hún sjálf þverbraut í umræðunni. Sami borgarfulltrúi stýrði líka vinnu við að endurskoða reglur um skráningu fjárhagslegra hagsmuna borgarfulltrúa og trúnaðastörf utan borgarstjórnar. Hún er auk þess formaður mannréttindaráðs. Ekki datt henni í hug að biðjast afsökunar á framferði sínu og er rúin trausti. Meðferð málsins í framhaldinu er röng því meirihlutinn ætlar að vísa því í borgarráð. Málið á að taka aftur fyrir í forsætisnefnd, þar sem það á heima, því forsætisnefnd að minni beiðni óskaði eftir áliti Persónunefndar hvort reglurnar ganga of langt hvað varðar persónuvernd. Einnig lagði ég til að málinu yrði frestað til haustsins og lagt þá fullbúið fyrir borgarstjórn. Í stað þess að játa það að borgarfulltrúi Miðflokksins hafði rétt fyrir sér frá upphafi og breyta málinu í þá veru, var farið í persónuníð á einn borgarfulltrúa. Borgarfulltrúi Miðflokksins greiðir atkvæði á móti málsmeðferðartillögunni. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Undir þessum lið, endurskoðun reglna um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa átti sér stað afar óviðeigandi hlutur þegar forseti borgarstjórnar réðist skyndilega á annan fulltrúa og heimtaði að vita um eignir hans og samhliða dylgja um viðkomandi fulltrúa. Í liðnum á undan var verið að samþykkja siðareglur sem sami fulltrúi meirihlutans hafði rétt svo lesið upp af stolti. Ekki mikið um alvöru þar! Borgarfulltrúi Flokks Fólksins sat hjá undir liðnum um siðareglur enda vissi að valdhöfum er ekki alvara með hvorki þessum né öðrum siðareglum. En að efni liðsins: Afar mikilvægt er að kjörnir fulltrúar skrái fjárhagslega hagsmuni sína. Óskað hefur verið eftir að Persónuvernd veitti Reykjavíkurborg samráð í samræmi við ákvæði 30. gr. laga og er málið eðlilega ekki tækt fyrr en sá úrskurður liggur fyrir. Það er gott að meirihlutinn í borginni hefur séð að sér að ætla að samþykkja þessar reglur hér í borgarstjórn með fyrirvara um úrskurð Persónuverndar eins og til stóð. Nú á að vísa því í borgarráð sem er afar sérkennilegt því málið var á dagskrá forsætisnefndar sl. föstudag. Ekki er alveg ljóst hvaða snúninga verið er að taka hér með því að vísa málinu til borgarráðs og situr því borgarfulltrúi Flokks fólksins hjá við atkvæðagreiðslu. 

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Lagt er til að settar verði upp 50 veðurstöðvar í Reykjavík sem nýtast til að meta betur hvar sé árangursríkast að gróðursetja trjágróður í nágrenni borgarinnar. Ennfremur nýtast þessar mælingar til að kortleggja betur breytileika í veðri eftir borgarhlutum, en slíkar upplýsingar nýtast skipulagsvinnu borgarinnar.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að tillaga um veðurmælingar og markvissa gróðursetningu fái viðeigandi málsmeðferð í umhverfis- og heilbrigðisráði með von um að verkefnið komist á dagskrá 2020. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur ekkert á móti rannsóknum á veðurfari og vera kann að meiri upplýsingar um nærveður muni koma að gagni. Borgarfulltrúi vill þó benda á eftirfarandi atriði. Skógur og skjólbelti draga úr vindhraða. Há skjólbelti hafa veruleg áhrif á vindhraða og þar með vindkælingu og álagi á fasta hluti. Byggingar breyta vindlagi í misjafnar áttir og þau áhrif tengjast hæð og byggingarlagi húsanna. Erfitt kann að vera að meta slík áhrif með veðurstöð. Til að spá fyrir um slík áhrif eru líkanprófanir í vindgöngum betri aðferð. Líkanprófanir eru t.d. vel þekktar áður en hafnir eru gerðar til að mæla áhrif einstakra byggingarhátta svo sem brimvarnargarða. Veðurmælingar á nærveðri verða af ofangreindum ástæðum úreltar um leið og umhverfinu hefur verið breytt og gildir þá einu hvort mælingarnar hafi kostað 10 eða 100 milljónir. Varla verður í framtíðinni unnið með úreltar upplýsingar og leggur borgarfulltrúi Flokks fólksins til að reynt verið að halda kostnaði við upplýsingar um nærveður innan skynsamlegra marka.

4.    Fram fer umræða um hlutverk Reykjavíkurflugvallar í öryggiskerfi landsins. 

-    Kl. 17:30 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Ragna Sigurðardóttir tekur sæti. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Skýrsla Þorgeirs Pálssonar er um margt mikilvægt framlag inn í umræðu um hlutverk Reykjavíkurflugvallar í öryggiskerfi landsins. Meðal niðurstaðna í skýrslunni er að uppbygging nýs flugvallar í Hvassahrauni myndi efla hlutverk þess flugvallar sem varaflugvallar fyrir millilandaflug. Hvassahraun myndi tengja alþjóðaflugið í Keflavík við innanlandsflug í Hvassahrauni. Þá er ótalin sá mikli ávinningur sem uppbygging íbúða í Vatnsmýri myndi hafa í för með sér. Nægir þar að líta til fyrstu áfanga uppbyggingarinnar í Vatnsmýri sem nú á sér stað á Hlíðarenda, í 102 Reykjavík. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurflugvöllur gegnir ótvíræðu öryggishlutverki fyrir landsmenn alla. Sú aðför sem átt hefur sér stað að flugvellinum frá pólitískt kjörnum fulltrúum sl. rúman áratug er með ólíkindum. Algjört skilningsleysi ríkir gagnvart landsbyggðinni og landsmönnum öllum. Auk þess er hlutverk flugvallarins að vera mikilvægur hluti af almannasamgöngum milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Stærsti öryggishlutinn sem þó lítið hefur verið ræddur sá að öryggishlutverk hans er ótvírætt þegar kemur að náttúruvá, ófyrirséðra atburða og annarar ógnar sem steðjað geta að á höfuðborgarsvæðinu með rýmingu svæðisins í huga. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er grunnstoð í öryggiskerfi samfélagsins. Líffæraflutningar og líffæraþegaflutningar eru stórvaxandi þó það sé ekki mikið í umræðunni. Það er mikið ábyrgðarleysi hjá meirihlutanum að gera allt sem hann getur til að þrengja að vellinum og í raun að koma honum í burtu úr Vatnsmýrinni. Það er hægt að snúa þessari ógæfuþróun við. Til þess þurfum við nýjan meirihluta.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi getur tekið undir margt í umræðunni um mikilvægi flugvallarins í Vatnsmýri. Flugvöllurinn er í það minnsta ekki að fara neitt næstu árin enda enginn staður fundinn sem hentar. Helstu mótrök sem hér eru lögð fram er að það bráðvanti land fyrir húsnæði. Hægt er að byggja víða annars staðar nær og fjær en í Vatnsmýrinni. Talað er um vistvænan ferðamáta í þessu sambandi. Vistvænn ferðamáti getur orðið þótt ekki sé byggt á sama bletti. Hvernig væri að setja kraft í að efla almenningsvagnakerfið þannig að það laði mögulega fleiri að? Meirihlutinn talar um kolefnissporin en gerir ekkert til að hvetja þá sem vilja aka einkabíl til að fjárfesta í vistvænum bílum. Hugmynd um þéttingu byggðar er komin út í öfgar hjá þessum meirihluta og fátt er um samráð við fólkið í borginni. Byggð í miðbænum er auk þess hugsuð mestmegnis fyrir þá efnameiri. Meðalstór 4 herbergja íbúð kostar vel yfir 100 m.kr. Könnun Zenter sýnir skýrt að bærinn er að verða afar einsleitur. Ferðamenn og búendur miðborgarinnar njóta hans og aðrir sem leggja leið sína í bæinn eru að sækja skemmtanalífið frekar en að versla enda tugir verslana farnir af svæðinu. Verði haldið áfram að keyra þessa stefnu verður ekkert eftir í bænum nema veitingastaðir, barir og minjagripabúðir. 

5.     Fram fer umræða um tafa- og mengunargjöld sem fela munu í sér aukna gjaldtöku á umferð og auknar álögur á borgarbúa.    

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Rík samstaða hefur verið um nauðsyn þess að fara í stórfellda innviðauppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu í hjólastígum, borgarlínu og stofnvegaframkvæmdum en heildarfjárfestingarþörfin inn á svæðið hefur verið metin á rétt um 100 milljarða á næstu árum. Í skýrslu viðræðuhóps samgönguráðuneytisins og samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu voru nýjar fjármögnunarleiðir ávarpaðar sem eru jafnframt hluti af þeim formlegu viðræðum sem nú eiga sér stað milli forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis annarsvegar og SSH hinsvegar.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tafa- og mengunargjöld/vegtollar eru komin á dagskrá meirihlutans. Komist slíkt til framkvæmda felur það í sér auknar álögur fyrir borgarbúa og landsmenn alla. Fyrst er götum lokað eða þær þrengdar, götuljósin eru ekki höfð á bestun til að greiða umferð og hraðahindranir eru út um allt. Hvernig væri að opna götunar fyrst, útrýma töfum og gera umferðina greiða áður en farið er í íþyngjandi gjaldtöku? Fyrst er þrengt að fjölskyldubílnum og þegar umferðin er komin í hnút þá á taka gjöld af því. Þetta er svo arfavitlaust að flestir eru orðlausir. Vegatollar leggjast jafnt á alla og taka ekki tillit til ráðstöfunartekna og hafa því hlutfallsmeiri áhrif á lægri tekjuhópa. Meirihlutinn þekkir ekki muninn á gjöldum og sköttum. Ekki má innheimta gjöld nema heimild sé fyrri þeim í lögum. Slíkt gjald verður ekki innheimt nema það standi straum af þeim kostnaði sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem gjaldtökuheimildin nær til. Miðflokkurinn hafnar alfarið öllum hugmyndum um slík gjöld. Hlutdeild bifreiða í heildarlosun gróðurhúsaloftegunda hér á landi er einungis 6% og nú er rétt að aðförinni að fjölskyldubílnum í Reykjavík ljúki. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tafagjöld sem stýritæki á umferð er aðför að bílaeigendum. Hafa verður í huga að almenningsamgöngur í borginni eru langt frá því að vera viðunandi. Jafnvel þótt þær væru skárri hentar sá ferðamáti ekki öllum. Andúð þeirra sem skipa meirihlutann í borginni gagnvart „bílum“ líka þeim vistvænu er hrein þráhyggja. Bíllinn skal úr miðborginni. Nú hefur einnig verið bannað að leyfa fornbílaeigendum að aka niður Laugaveginn í sýningarskyni á 17. júní, sýning sem glatt hefur augu margra áratugum saman. Að setja á tafagjöld í andstöðu við borgarbúa er kúgun. Þær borgir sem sett hafa á slík gjöld í óþökk borgarbúa vara við slíku og tala þá af reynslu. Þær borgir geta þó í það minnsta státað af góðu almenningsamgöngukerfi. Hvað með þá sem minna hafa milli handanna og þá sem eiga erfitt með hreyfingu? En annað gjald mun síður en svo vera hvatning fyrir þennan hóp. Nógu slæmt er aðgengi þótt komuskattur bætist ekki við. Eins mikið og borgaryfirvöld hjala um samráð sést það sjaldan í reynd. Nýjasta dæmið um skort á samráði eru lokanir gatna í miðbænum. Í nýrri könnun Zenter og SVÞ sýna niðurstöður almenna óánægju meirihluta rekstraraðila með lokun gatna fyrir umferð. Æ færri sækja miðbæinn nema til að njóta skemmtanalífs. 

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Lagt er til að Reykjavíkurborg endurgreiði útsvar til tekjulægstu borgarbúanna á mánaðarfresti. Miðað skal við að þeir sem eru einungis með mánaðartekjur upp á 300.000 krónur eða minna fyrir skatt fái útsvarið að fullu endurgreitt. Endurgreiðslan skal skerðast með auknum tekjum með það að markmiði að tryggja að sem fæstir séu með lægri ráðstöfunartekjur en 300.000 krónur á mánuði. Miðað er við að endurgreiðsla útsvars falli niður þegar því takmarki er náð. Hér er þó rétt að nefna að mánaðartekjur margra ná ekki 300.000 þúsund krónum og þar er miðað við fulla endurgreiðslu útsvars. Þar má nefna einstaklinga sem eru á fjárhagsaðstoð til framfærslu, eftirlaunafólk með lágar tekjur, eldri borgara og öryrkja með lítinn sem engan lífeyrissjóðsrétt og lífeyrisþega með skertar greiðslur frá almannatryggingum vegna fyrri búsetu erlendis. Allt eru þetta dæmi um borgarbúa sem greiða skatt til Reykjavíkurborgar og lifa við knöpp kjör og er þessi tillaga lögð fram til að bæta fjárhagsstöðu þeirra sem hafa lægstu tekjurnar. Lagt er til að fjármála- og áhættustýringarsviði verið falið að útfæra efni tillögunnar og koma henni í framkvæmd. Þá er einnig lagt til að endurgreiðsluviðmið þróist í takt við upphæðir lægstu launa og tekna.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Tillagan er felld með 21 atkvæði Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Umræddar hugmyndir myndu hafa veruleg áhrif á fjárhag borgarsjóðs og kalla á miklar breytingar á samþykktum fjárhagsáætlunum borgarinnar. Það er stefna meirihlutans að útsvar skuli haldast óbreytt á kjörtímabilinu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á lægri skatta og hefur ítrekað lagt til lækkun á útsvari sem er í hæstu hæðum í Reykjavík. Almenn lækkun útsvars myndi skila sér til allra launþega auk þess sem sú leið er heimil í lögum. Útsvar er lægra hjá öllum nágrannasveitarfélögunum en í Reykjavík og væri fyrsta skrefið að lækka það. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna kemur fram að markmiðið sé að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Skal það m.a. gert með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti og að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál. Margir borgarbúar lifa við fátækt og slíkt tekur heldur betur á. Fulltrúi Sósíalista telur að borginni beri siðferðisleg skylda til að gera allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja að enginn búi við fátækt. Þó að meirihluti borgarstjórnar hafa ákveðið að gera engar breytingar á útsvari á þessu kjörtímabili þá er vel hægt að skoða þessa leið sem sértækan fjárstuðning við hina verst settu. Enginn á að þurfa að búa við fátækt og borgin getur gert ýmislegt til að létta byrðum af þeim sem búa við erfiðar fjárhagslegar aðstæður. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er hægt að fara ýmsar leiðir til að ná fram jöfnuði. Tillaga Sósilalista er ein leiðin. Koma þarf með sértækar aðgerðir fyrir skilgreindan hóp sem berst við fátækt. Flokkur fólksins var einnig með tillögu um að gripið verði til sértækra aðgerða til að létta undir með fátækum barnafjölskyldum en henni var vísað frá. Núna er hópur að störfum sem skoðar sárafátækt og mættu tillögur sem lúta að leiðum til að jafna kjör borgarbúa gjarnan vera vísað í hópinn til frekari útfærslu í stað þess að hafna þeim. Raunveruleikinn er blákaldur og hefur verið skilgreindur m.a. af fjármálastjóra borgarinnar. Skóinn kreppir víða og ekki síst í velferðarmálum, heilbrigðis- og öldrunarmálum. Á 9. hundrað umsókna eru eftir félagslegri leiguíbúð í Reykjavíkurborg, tæp 500 börn búa undir fátæktarmörkum og tæp 800 börn eru börn foreldra sem fá fjárhagsaðstoð í Reykjavík. Hópur efnaminna fólks og fátækra hefur orðið útundan í Reykjavík síðustu ár. Hátt leiguverð og gríðarlega erfiður húsnæðismarkaður étur upp það sem fólk þénar á mánuði. Þeir flokkar sem ríkja nú, utan Viðreisnar og Pírata, hafa skilgreint sig sérstaklega sem jafnaðarflokkar með stefnu sem einmitt átti að bæta kjör þeirra verst settu.

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að álykta um að SORPA hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti, t.d. á metanvagna Strætó bs.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar hjá stjórn Strætó. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Best fer á því að stjórn Strætó meti hvaða leiðir eru hagkvæmastar til að nýta vistvæna orkugjafa og efla þjónustu Strætó.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Hinn 15. maí sl. birti varaborgarfulltrúi Miðflokksins eftirfarandi færslu á facebooksíðu sinni: „Reykjavíkurborg er aðaleigandi Sorpu og Strætó. Ákveðið var að stækka jarðgasgerðarstöð Sorpu og þrefalda þannig framleiðslumagn á metangasi. Framleiðslan fer við það úr 6.600 bílaígildum á ári í 19.800 bílaígildi. Í dag er aðeins markaður fyrir sölu 1.600 bílaígilda árlega og því er 5.000 bílaígildum brennt og mun sú tala nú hækka í 18.200 bílaígildi. Fagnandi hélt meirihlutinn á næsta fund og nú var það Strætó: Ákveðið var að halda áfram „vistvænni skynsemisstefnu“ Sorpufundar, og ákveðið var að kaupa umhverfisvæna strætisvagna. Fyrir valinu urðu kínverskir rafvagnar, fjórtán talsins og verðmiðinn var 1.500 milljónir og innifalin var eitt stykki hleðslustöð. Rafvagnar þessir er slík gæðatæki að „aðeins“ þarf að skipta þeim út 2-3 sinnum á vakt í hleðslu. Hefði ekki verið ráð að sleppa kaupum á 14 rafvögnum og kaupa í staðinn 30 metanvagna fyrir peninginn? Metanvagna sem geta keyrt allar vaktir án vandræða og skila þannig hið minnsta þreföldum afköstum rafvagna? Eitthvað segir okkur að Sorpa, systir Strætó, hefði fagnað því, svo við tölum ekki um umhverfið.“

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill binda vonir við að tillaga Flokks fólksins um að nýta metangas sem Sorpa framleiðir á metanvagna Strætó bs. fái upplýsta umræðu í stjórn Strætó bs. Borgarfulltrúa brá talsvert við að frétta að Strætó hafi gert tilboð í vetnisbíl og vonar að það tilboð sé runnið út í sandinn enda ekki mjög skynsamleg ráðstöfun. Eftir tilraun með vetnistrætó upp úr árinu 2000 ætlar borgarfulltrúi að vona að stjórnvöld láti ekki plata sig aftur enda er það þannig að framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr en það er eina leiðin til að búa það til hér á landi. Þess vegna myndi þurfa að flytja vetnið inn. Það er sárt að sjá hvernig metan er á söfnunarstað verðlaust og brennt á báli þegar hægt væri að nýta það sem orkugjafa á strætisvagna.  Nefnt hefur verið að metanvagnar séu „hávaðasamir“. Borgarfulltrúi hefur ekki heyrt að það sé vandamál en svo fremi sem ekki sé um að ræða þess meiri hljóðmengun hlýtur sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ráða hér.

9.    Fram fer kosning tveggja skrifara borgarstjórnar til eins árs og tveggja til vara. 

Kosin voru án atkvæðagreiðslu Hjálmar Sveinsson og Sanna Magdalena Mörtudóttir

Varaskrifarar voru kosin með sama hætti Skúli Helgason og Örn Þórðarson.

10.    Fram fer kosning sjö borgarráðsfulltrúa til eins árs og sjö til vara. Lagt er til að eftirtaldir borgarfulltrúar taki sæti í borgarráði:

    Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir

Líf Magneudóttir

Eyþór Laxdal Arnalds

Hildur Björnsdóttir

Valgerður Sigurðardóttir

Jafnframt er lagt til að eftirtalin verði kosin varamenn:

Pawel Bartoszek

Elín Oddný Sigurðardóttir

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir

Skúli Helgason

Marta Guðjónsdóttir

Egill Þór Jónsson

Katrín Atladóttir

Jafnframt er lagt til að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verði formaður ráðsins. 

Samþykkt. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við atkvæðagreiðsluna. 

11.    Fram fer kosning varamanna í forsætisnefnd. Lagt er til að eftirtaldir borgarfulltrúar taki sæti sem varamenn í forsætisnefnd:

Gunnlaugur Bragi Björnsson

Elín Oddný Sigurðardóttir

Hildur Björnsdóttir

Alexandra Briem

Valgerður Sigurðardóttir

Samþykkt.

12.     Fram fer kosning í menningar- íþrótta- og tómstundaráð og formannskjör. Lagt er til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti varamanns í ráðinu í stað Arnar Þórðarsonar. Jafnframt er lagt til að Hjálmar Sveinsson verði kjörinn formaður ráðsins í stað Pawels Bartoszek.

Samþykkt. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við atkvæðagreiðsluna. 

13.    Fram fer kosning í barnaverndarnefnd. Lagt er til að Eldey Huld Jónsdóttir taki sæti í barnaverndarnefnd í stað Sólveigar Ásgrímsdóttur. Jafnframt er lagt til að Sólveig taki sæti sem varamaður í stað Eldeyjar og að Þórarinn Snorri Sigurgeirsson taki sæti sem varamaður í stað Þórarins Þórssonar.

Samþykkt. 

14.    Fram fer kosning í stjórn Faxaflóahafna til eins árs. Lagt er til að Kristín Soffía Jónsdóttir, Þórdís Lóa Þorhallsdóttir, Skúli Helgason, Marta Guðjónsdóttir, og Örn Þórðarson taki sæti í stjórninni og Sabine Leskopf, Pawel Bartoszek, Guðrún Ögmundsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, og Hildur Björnsdóttir taki sæti til vara. 

Jafnframt er lagt til að Kristín Soffía Jónsdóttir verði formaður stjórnarinnar.

Samþykkt. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við atkvæðagreiðsluna. 

15.    Fram fer kosning í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur til eins árs. Lagt er til að Brynhildur Davíðsdóttir, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Gylfi Magnússon, Eyþór Laxdal Arnalds og Hildur Björnsdóttir taki sæti í stjórninni og Auður Hermannsdóttir, Margrét Björnsdóttir, Páll Gestsson, Katrín Atladóttir og Björn Gíslason taki sæti til vara. 

Jafnframt er lagt til að Brynhildur Davíðsdóttir verði formaður stjórnarinnar og Gylfi Magnússon verði varaformaður.

Samþykkt. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við atkvæðagreiðsluna. 

16.    Samþykkt að taka kosningu í umhverfis- og heilbrigðisráð á dagskrá. Lagt er til að Örn Þórðarson taki sæti varamanns í umhverfis- og heilbrigðisráði í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur.

Samþykkt. 

17.    Samþykkt að taka kosningu í skóla- og frístundaráð á dagskrá. Lagt er til að Marta Guðjónsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Valgerðar Sigurðardóttur. Jafnframt er lagt til að Valgerður taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Mörtu. 

Samþykkt. 

18.     Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 6. júní. 

- 29. liður; tillaga að gjaldskrá tungumálavers er samþykktur. 

- 31. liður; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019 er samþykktur. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. júní:

Lagt er til að borgarráð samþykki að greiða kostnað vegna stofnunar nýs póstnúmers í Vatnsmýrinni að upphæð 2.320.000 kr. auk virðisaukaskatts. Kostnaðurinn verði tekin af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. júní:

Borgarstjórn Reykjavíkur fellur frá því óska eftir breytingu á póstnúmeri í Skerjafirði og vestan Njarðargötu að Suðurgötu úr 101 í 102. Þannig heldur svæðið póstnúmerinu 101 en Hlíðarendasvæðið verði 102. Með slíku fyrirkomulagi yrði komið til móts við íbúa á báðum svæðum, bæði í Skerjafirði og á Hlíðarendasvæðinu.

Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins

35. liður fundargerðar borgarráðs frá 6. júní; Vatnsmýri, póstnúmer 102, er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.

Aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 35. lið fundargerð borgarráðs:

Um 18 ár eru síðan hugmyndin um 102 Reykjavík fæddist í aðdraganda íbúakosninganna um Reykjavíkurflugvöll árið 2001. Í kjölfar skipulagssamkeppni var gefin út vegleg bók um deiliskipulagið í Vatnsmýri undir heitinu 102 Reykjavík. 102 Reykjavík er eitt mesta uppbyggingarsvæðið í núverandi vaxtarskeiði borgarinnar. Nú þegar póstnúmerið er orðið að veruleika tekur 102 Reykjavík við af 101 Reykjavík sem það póstnúmer þar sem mesta uppbygging landsins á sér stað. Innan póstnúmersins eru Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík. Stúdentagarðar Háskóla Íslands, háskólagarðar HR og Vísindagarðasvæðið allt rúmast innan póstnúmersins ásamt gömlu og nýju byggðinni í Skerjafirði, nýju byggðinni á Hlíðarenda og útivistarperlunni Nauthólsvík.

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarráð kallaði eftir sjónarmiðum íbúa en það er marklaust ef ekkert tillit er tekið til athugasemda. Hægðarleikur hefði verið að koma til móts við alla aðila með því að breyta póstnúmerinu í 102 á Hlíðarenda og leyfa póstnúmerinu í Skerjafirði og vestan Njarðargötu að halda sér meðan flugvöllurinn er enn í Vatnsmýrinni. Íbúar í Skerjafirði hafa margítrekað komið þeim sjónarmiðum sínum á framfæri við borgaryfirvöld að óeðlilegt sé að breyta póstnúmeri hverfisins úr 101 í 102 til samræmis við Hlíðarendasvæðið. Íbúar telja að á meðan flugvöllurinn er enn í Vatnsmýrinni sé ekki tímabært að breyta póstnúmerinu enda þá um tvö aðskilin hverfi að ræða sem sækja alla sína þjónustu á sitt hvoru svæðinu og eiga lítið sameiginlegt. Þá benda íbúar í Skerjafirði réttilega á að þeir sæki sína þjónustu í Vesturbæinn sem tilheyrir póstnúmerinu 107. Með breytingu á póstnúmeri Skerjafjarðar er farið þvert gegn vilja íbúa og sannar eina ferðina enn að allt tal meirihlutaflokkanna í borgarstjórn um íbúalýðræði er innantómt orðagjálfur á tyllidögum. Ljóst er að eingöngu er komið til móts við vilja uppbyggingaraðila á Hlíðarendasvæðinu en ekki vilja íbúa í gömlu rótgrónu hverfi og engin rök styðja að ekki hafi verið hægt að koma til móts við vilja beggja aðila.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 35. lið fundargerð borgarráðs:

Borgarstjóra voru afhentar tæplega 300 undirskriftir íbúa Skerjafjarðarsvæðisins í upphafi borgarstjórnarfundar þar sem því er mótmælt að breyta eigi póstnúmerinu í 102 auk Vatnsmýrarinnar. Þetta svæði er allt sunnan Hringbrautar, en mörk póstnúmera 105 og 107 haldist óbreytt. Þessi mótmæli eru að engu höfð hjá meirihlutanum. Það er til skammar hvernig haldið hefur verið á málinu þvert á vilja íbúanna. Íbúalýðræði er bara upp á punt og notað í ræðu og riti á tyllidögum. Borgarbúar verða að vita það að þessi þvingaða póstnúmerabreyting kostar þá tæpar 3 milljónir og skal kostnaðurinn tekinn af kostnaðarliðnum ófyriséð. Meirihlutinn velur ætíð ófrið þegar friður er í boði. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 35. lið fundargerðar borgarráðs:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill styðja íbúa svæðisins í þessu máli vegna þess að yfir þá hefur verið valtað af borgaryfirvöldum. Þetta er enn eitt dæmið um að loforð um samráð er að mestu bara í orði en ekki á borði hjá meirihlutanum. Dæmin eru víðar t.d. er gróft dæmi um yfirgang og skort á samráði hvað varðar lokanir gatna í miðborginni og ákvörðun um varanlega lokun sumra þeirra allt árið án samráðs við rekstraraðila og borgarbúa. Vel kann að vera að stundum sé kallað eftir sjónarmiðum íbúa og þá kannski meira til að geta sagst hafa gert það en síðan eru sjónarmið eða athugasemdir einfaldlega hunsaðar. Flokkur fólksins tekur undir með borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að á meðan flugvöllurinn er enn í Vatnsmýrinni breytir engu þótt þetta póstnúmer sé áfram það sama. Hér er ekki um neins konar forgangsmál að ræða og óþarfi að verja fé í þetta núna sem betur mætti nota til að styrkja grunnþjónustu.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 30. lið fundargerðar borgarráðs:

Innri endurskoðun eru þökkuð afar fagleg vinnubrögð í ábendingum sínum sem hafa birst í skýrslum embættisins, þá einkum í skýrslunni um Nauthólsveg 100 – braggaskýrslan. Fjármálaskrifstofa Reykjavíkur hefur nú orðið tvísaga í túlkun sinni á hvernig fara eigi með útgreiðslur úr borgarsjóði án fenginna heimilda. Í minnisblaði sem barst borgarráði hinn 5. febrúar að beiðni borgarfulltrúa Miðflokksins kom fram sú túlkun fjármálaskrifstofu að: „Þegar ársreikningur er lagður fram og samþykktur í maímánuði fyrir næstliðið ár er borgarstjórn að samþykkja útgjöld og rekstur borgarinnar fyrir árið.“ Þessari túlkun hafnaði borgarfulltrúi Miðflokksins samdægurs. Mikil umræða varð í kjölfarið í stofnunum borgarinnar þar sem kjörnir fulltrúar eiga sæti um þessa túlkun allt fram yfir samþykkt ársreiknings fyrir árið 2018. Nú hefur borist ný túlkun fjármálaskrifstofu: „Til að taka af allan vafa lítur fjármálaskrifstofa svo á að ekki felist í afgreiðslu borgarstjórnar á ársreikningi afstaða til einstakra fjárhagslegra ráðstafana.“ Eftir stendur sú staðreynd að Reykjavíkurborg braut sveitarstjórnarlög með útgreiðslu án fjárheimilda í bragganum. Í stað þess að viðurkenna brotið er skotið í allar áttir og gert lítið úr ábendingum eftirlitsaðila með fjármálum borgarinnar og álit sérfróðs fræðimanns dregið í efa. Svona vinnubrögð eru Reykjavíkurborg ekki til sóma.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 30. lið fundargerðar borgarráðs:

Minnisblað fyrrverandi fjármálastjóra Reykjavíkurborgar vegna álitsgerðar Trausta Fannars Valssonar, sem hann vann að beiðni endurskoðunarnefndar, staðfestir með skýrum hætti að verklag og reglur Reykjavíkurborgar um fjárhagsáætlanir og viðauka er í fullu samræmi við lög. Jafnframt er þar enn og aftur staðfest með skýrum hætti hvað áritun ársreiknings Reykjavíkurborgar felur í sér og hvað ekki. Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur sinnt fjölbreyttu hlutverki sínu gagnvart borgarráði og borgarstjórn með einstaklega góðum hætti, m.a. með ítarlegum skýrslum og frávikagreiningum, umfram þær skyldur sem lög og reglur gera í þeim efnum eins og þar er rakið.

19.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 14. júní, skóla- og frístundaráðs frá 11. júní, skipulags- og samgönguráðs frá 5. júní, og velferðarráðs frá 5. júní. 

- 2. liður fundargerðar forsætisnefndar; breyting á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar ásamt viðaukum, er vísað til síðari umræðu.

Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

- 4. liður fundargerðar forsætisnefndar; samþykkt fyrir mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð, er samþykktur með 20 atkvæðum. 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

- 3. liður fundargerðar forsætisnefndar; samþykkt fyrir skipulags- og samgönguráð, er samþykktur með 21 atkvæði. 

Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

- 5. liður fundargerðar forsætisnefndar; samþykkt fyrir skóla- og frístundaráð, er samþykktur með 20 atkvæðum.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

- 7. liður fundargerðar forsætisnefndar; samþykkt fyrir umhverfis- og heilbrigðisráð, er samþykktur með 20 atkvæðum.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

- 6. liður fundargerðar forsætisnefndar; samþykkt fyrir velferðarráð, er samþykktur með 20 atkvæðum.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

- 8. liður; samþykkt fyrir íbúaráð, er samþykktur með 20 atkvæðum. 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 2., 4., 5. og 6. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 14. júní: 

Fyrir borgarstjórnarkosningar á síðusta ári voru gerðar breytingar á samþykktum borgarstjórnar sem felldu burtu rétt þeirra flokka sem ekki náðu kjöri í ráð og nefndir að skipa áheyrnarfulltrúa með tillögurétt og málfrelsi. Með því lokaðist að mestu aðgengi fámennra borgarstjórnarflokka að ýmsum ráðum og nefndum í stjórnkerfi borgarinnar. Nú nýlega hafa verið miklar umræður í borgarstjórn og lagðar fram tillögur í borgarráði sem hafa það að markmiði að gera kerfið skýrara og skilvirkara og fulltrúi Sósíalistaflokksins leggur áherslu á mikilvægi þess að þeir flokkar sem ekki náðu kjöri í ráð og nefndir fái að skipa þar áheyrnafulltrúa (hér er mikilvægt að taka fram að ekki er um barnaverndarnefnd að ræða heldur aðrar nefndir og ráð). Þannig má auka skilvirknina ef fulltrúar allra flokka eru meðvitaðir um hvað fer fram innan ráðanna á þeim tíma sem slíkt á sér stað og slíkt tryggir að þeir geti þar lagt fram spurningar til að setja sig inn í málin. Slíkt tryggir líka að tæplega 10 þúsund Reykvíkinga sem kusu þrjá minnstu flokkanna sem sitja í borgarstjórn fái að hafa sinn fulltrúa í ráðum og nefndum borgarinnar og slíkt tryggir þar með lýðræðislega aðkomu að því að taka þátt í umræðum í ráðum og nefndum og slíkt eykur líka gegnsæi. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2.-8. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 14. júní: 

Borgarstjórn er fjölskipað stjórnvald, eða á að vera það en þannig er það ekki beinlínis í praksís. Sem dæmi hefur borgarfulltrúa Flokks fólksins ekki tekist að hafa aðkomu að breytingum á samþykktum. Þær tillögur sem lagðar hafa verið fram í þeim efnum hafa ýmist verið felldar eða vísað frá. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr því hjá við atkvæðagreiðslu um samþykktir. Af hálfu minnihlutafulltrúa hafa oft verið lagðar fram tillögur að góðum breytingum í vetur, t.d. að áheyrnafulltrúar minnihlutans fái að sitja í öllum ráðum og nefndum nema Barnaverndarnefnd til að geta betur fylgst með öllum málum. Annað dæmi er tillaga um að borgarstjórnarfundir hefjist fyrr en oft þarf að fresta helming af málum fundarins vegna þess að langt er liðið fram á kvöld og jafnvel fram yfir miðnætti. Þetta er einungis brot af tilraunum minnihlutans sem lagðar hafa verið fram til að stuðla að jákvæðum breytingum á samþykktum í stjórnsýslu borgarinnar.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 14. júní: 

Sósíalistaflokkurinn telur eðlilegra að íbúaráðin kjósi sjálf formann ráðsins í stað þess að það sé í höndum borgarstjórnar sem kýs formann úr hópi kjörinna fulltrúa. Til að færa valdið til íbúaráðanna og auka á lýðræðistöku innan þeirra telur Sósíalistaflokkurinn að ráðin sjálf eigi að fá að kjósa sinn formann. 

- 13. liður fundargerðar forsætisnefndar; svohljóðandi tillaga um sumarleyfi borgarstjórnar: 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fella niður reglulega borgarstjórnarfundi í júlí og ágúst nk. skv. heimild í 4. mgr. 8. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. Í sumarleyfi borgarstjórnar fer borgarráð með sömu heimildir og borgarstjórn hefur ella.

Samþykkt. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 13. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 14. júní: 

Þó að borgarráð fari með sömu heimildir og borgarstjórn í sumarleyfi þess, þá er mikilvægt að taka fram að ekki allir fulltrúar borgarráðs hafa sömu heimildir innan borgarráðs miðað við innan borgarstjórnar. Í borgarstjórn hafa allir fulltrúar atkvæðarétt en slíkt á ekki við innan borgarráðs. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs: 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins þykir leitt að þessi tillaga skyldi ekki fá náð fyrir augum meirihlutans. Hér er um mikilvægt verkefni að ræða þ.e. innleiðing á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem lagt er sérstaklega til að fjallað verði um þau í leikskólum borgarinnar. Þessi tillaga getur alveg fallið að menntastefnunni sem kemur einnig inn á heimsmarkmiðin. Flokkur fólksins er hér að huga að þeim yngstu enda geta flestir verið sammála því að með því að byrja snemma og einmitt á leikskólaaldri er líklegt að börnin meðtaki fræðsluna og geti byrjað að taka þátt á eigin forsendum allt eftir aldri, getu og þroska. Allt efni er hægt að fá að kostnaðarlausu hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna og á netinu. Mikilvægt er ekki síður að grunnskólar leggi áherslu á heimsmarkmiðin í sinni almennu kennslu, starfi og leik. Það er því leitt að þessi tillaga fékk ekki brautargengi eins og hún væri ekki þess verð að fá nánari skoðun. Vel hefði mátt leyfa henni að fljóta með samhliða innleiðingu menntastefnu. Borgin á að vera frumkvöðull hvað þetta varðar, draga vagninn og gera það með reisn.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 4. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:

Vinna við innleiðingu menntastefnunnar er í fullum gangi og sú stefna endurspeglar með mjög markvissum hætti þá grundvallarsýn sem birtist í heimsmarkmiðunum. Rétt þykir að setja innleiðingu menntastefnu í forgang og það er mat okkar að ekki sé skynsamlegt að ráðast í viðamikið innleiðingarferli á hliðstæðum markmiðum samhliða þeirri vinnu. Af þeim praktísku ástæðum greiðum við atkvæði gegn tillögunni, þótt málefnið sé sannarlega mikilvægt. Þá skal því haldið til haga að ýmsar starfsstöðvar sviðsins eru í reynd að innleiða heimsmarkmiðin að eigin frumkvæði, m.a. undir merkjum Réttindaskóla Sameinuðu þjóðanna og liggur fyrir að þeim muni fjölga talsvert strax á næsta skólaári.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 20. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs: 

Tillögu eða kröfu Flokks fólksins um að haft verði samráð við rekstraraðila og borgarbúa vegna lokana í miðbænum var frestað í skipulagsráði 5. júní. Um þriðja hundrað rekstraraðila við Laugaveg hafa með undirskrift sinni mótmælt ákvörðun um lokanir og óttast um afkomu sína. Fyrir liggur tvíþætt viðhorfskönnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdi fyrir Miðborgina okkar og Samtök verslunar og þjónustu. Niðurstöður sýna mikla óánægju hjá rekstraraðilum og hjá borgarbúum sem búa ekki miðsvæðis. Fyrirtæki sem þjónusta mat, drykki og selja minjagripi ganga vel og ánægja er helst meðal yngra fólks og þeirra sem sækja skemmtanalífið. Það stefnir í einsleitan miðbæ bæði hvað varðar rekstur og mannlíf. Niðurstöður hljóta að vera áfall fyrir borgaryfirvöld og Miðborgina okkar sem greinilega væntu þess að sjá stuðning við stefnuna. Þvert á móti sýna niðurstöður að göngugötur eru að fæla fólk frá. Verði ekki horfið frá þessari stefnu er bærinn að missa af 4. hverjum viðskiptavini. Ekki eru allir undrandi því sterkar vísbendingar voru um að stór hluti fólks er hættur að sækja miðbæinn heim. Samráð hefur verið lítið sem ekkert. Sérstakt er að skoða kynjamismun í þessu sambandi en 25% karla og 21% kvenna myndu koma sjaldnar ef göngugötur væru varanlegar. Rekstraraðilar í miðbænum hafa ekki efni á því að missa svona stóran viðskiptavinahóp.

20.    Fram fer kosning forseta borgarstjórnar til eins árs og fjögurra varaforseta. 

Forseti er kosinn Pawel Bartoszek með 22 atkvæðum. 

1. varaforseti er kosin Sabine Leskopf. 

2. varaforseti er kosinn Eyþór Laxdal Arnalds. 

3. varaforseti er kosin Guðrún Ögmundsdóttir. 

4. varaforseti er kosin Marta Guðjónsdóttir. 

Fundi slitið kl. 22:10

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Pawel Bartoszek

Sanna Magdalena Mörtudóttur    Hjálmar Sveinsson

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 18.6.2019 - Prentvæn útgáfa