No translated content text
Borgarstjórn
BORGARSTJÓRN
Ár 2004, þriðjudaginn 18. maí, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Alfreð Þorsteinsson, Stefán Jón Hafstein, Anna Kristinsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Helgi Hjörvar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ólafur F. Magnússon, Kjartan Magnússon, Gísli Marteinn Baldursson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Jórunn Frímannsdóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Kristján Guðmundsson. Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
Í upphafi fundar lagði forseti til að fundargerð borgarráðs frá 18. maí yrði tekin inn á dagskrá sem 3. liður. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.
1. Lagður fram ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003 ásamt endurskoðunarskýrslu; síðari umræða. Áður en umræða hófst tilkynnti forseti að fallið væri frá takmörkun á ræðutíma.
- Kl. 14.52 vék Helgi Hjörvar af fundi og Stefán Jóhann Stefánsson tók þar sæti. - Kl. 16.12 tók Björn Bjarnason sæti á fundinum og Jórunn Frímannsdóttir vék af fundi. - Kl. 17.12 tók Helgi Hjörvar sæti á fundinum og Stefán Jóhann Stefánsson vék af fundi.
Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003 samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað: Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003 ber með sér að sífellt hallar á ógæfuhliðina í fjármálum borgarinnar. Skuldasöfnun vex hratt og útgjaldaþenslan er áberandi. Upphaflegar áætlanir, bæði fjárhagsáætlunin fyrir árið 2003, sem samþykkt var í des. 2002, svo og þriggja ára áætlanir standast ekki. Til marks um þetta segir í 3ja ára áætluninni 2003-2005, sem samþykkt var í mars 2002 að veltufé frá rekstri á samstæðureikningi árið 2003 verði tæpir 9,2 milljarðar króna (hér eftir skammstafað ma.) Í ársreikningi ársins 2003 segir að veltufé á samstæðureikningi sé 6,5 ma. eða tæpum 3 ma. minna en áætlað var í mars 2002. Þessi þróun er einkennandi fyrir það hversu lítið er að marka alla áætlunargerð núverandi meirihluta. Heildarskuldir borgarinnar, á verðlagi ársins 2002, hafa vaxið úr um 19 ma. árið 1994 í um 64 ma. árið 2003 utan lífeyrisskuldbindinga. Hreinar skuldir borgarinnar hafa á sama tíma farið úr 8 ma. í 50 ma. Allir tilburðir R-listans til að tengja þá miklu skuldasöfnun við framkvæmdir Orkuveitunnar á Nesjavöllum fá ekki staðist eins og margoft hefur verið sýnt fram á, enda framkvæmdir við Nesjavallavirkjun árin 1994-2003 einungis um fjórðungur af skuldaaukningu borgarinnar á þessu tímabili, eða um 11 ma. af 45 ma. Rekstrarniðurstaða borgarsjóðs á síðasta ári var neikvæð um 1,2 ma. króna að teknu tilliti til fjármagnsliða. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar var neikvæð um tæpar 650 millj. kr., einnig að teknu tilliti til fjármagnsliða. Á árunum 2002-2003 er rekstrartap borgarsjóðs 7,1 ma. fyrir fjármagnsliði, þar af 3,1 ma. á árinu 2003. Þrátt fyrir yfirlýsingar borgarstjóra um nauðsyn þess að lækka skuldir halda þær áfram að hækka og fátt er um skýringar. Þessi óheillavænlega þróun í fjármálum borgarinnar á sér stað á sama tíma og verðbólgan hefur verið í lágmarki, vextir lækkað, mikill hagvöxtur og skatttekjur á íbúa hækkað úr 173 þús. kr. árið 1997 í 250 þús. kr. árið 2003, hvorutveggja á sama verðlagi. Það er öllum ljóst að R-listinn hefur nú sem fyrr lítil tök á fjármálum borgarinnar. Allar lykiltölur í reikningum sýna, svo ekki verður um villst, áframhaldandi verulega skuldasöfnun og það eina sem 3ja ára fjárhagsáætlanir borgarinnar sýna er það sama - stöðug skuldasöfnun á skuldasöfnun ofan. Ljóst er að lítið má út af bera til að fjármál borgarinnar komist á enn alvarlegra stig. Skýrsla endurskoðenda staðfestir þessa þróun. Lokaorð endurskoðenda í skýrslunni, þar sem þeir lýsa því yfir að skuldir munu enn aukast á næstu árum eru þessi: "Við teljum mikilvægt að forsvarsmenn Reykjavíkurborgar hugi að þessum staðreyndum þegar horft er fram á veginn" Þessi orð þeirra segja sína sögu og eru jafnframt skýr skilaboð til R-listans um að hann fari nú að huga að afleiðingu þeirrar gífurlegu skuldasöfnunar sem átt hefur sér stað í valdatíð R-listans.
Borgarfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað: Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003 ber traustum fjárhag borgarsjóðs og fyrirtækja Reykjavíkurborgar gott vitni. Í tvísýnu efnahagsástandi var afli Reykjavíkurborgar beitt til að bæta atvinnuástand á sama tíma og þjónusta Reykjavíkurborgar var efld. Aðhalds var gætt í rekstrinum, sem sést á því að rekstur stærstu málaflokka var í góðu samræmi við áætlanir og ljóst að hagræðingaraðgerðir borgaryfirvalda hafa skilað sér í sparnaði í rekstri. Áætlun um skatttekjur gekk eftir svo ekki skeikaði nema 93 mkr. eða 0,3%. Nú er lokið þriggja ára ferli innleiðingar nýrra reikningsskilareglna og er þegar ljóst að umræða um fjármál og fjárhag Reykjavíkurborgar er gleggri og meira upplýsandi en áður. Það skiptir miklu máli því Reykjavíkurlistinn lítur á það sem mikla ábyrgð að fara með skattfé Reykvíkinga og þá ekki síður að tryggja gagnsæi í fjármálum Reykjavíkurborgar svo íbúar hafi yfirsýn yfir ráðstöfun sameiginlegra sjóða borgarbúa.
Borgarfulltrúar gengu til áritunar ársreiknings.
- Kl. 18.03 var gert hlé á fundi. - Kl. 18.41 var fundi fram haldið og vék þá Katrín Jakobsdóttir af fundi og Jóhannes Bárðarson tók þar sæti.
2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 11. maí.
3. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 18. maí. Forseti tilkynnti að 15. lið fundargerðarinnar, ályktunartillögu borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlista varðandi fjölmiðlafrumvarp, væri frestað þar til kæmi að 12. lið útsendrar dagskrár. 16. liður fundargerðarinnar, kosning varamanna í hverfisráð Hlíða og Háaleitis, samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.
4. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 12. maí.
5. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 11. maí.
6. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 10. maí. Samþykkt með samhljóða atkvæðum.
7. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 5. maí.
8. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 3. maí.
9. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 4. maí.
10. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 21. apríl. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með samhljóða atkvæðum.
11. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 5. maí. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með samhljóða atkvæðum.
12. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 12. maí. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með samhljóða atkvæðum.
13. Lögð fram svohljóðandi ályktunartillaga Ólafs F. Magnússonar varðandi fjölmiðlafrumvarp:
Borgarstjórn Reykjavíkur lýsir þungum áhyggjum sínum vegna þess frumvarps um fjölmiðla, sem liggur fyrir Alþingi. Fram hafa komið rökstuddar ábendingar um að samþykkt frumvarpsins í óbreyttri mynd geti leitt til atvinnumissis hundraða borgarbúa og skertrar afkomu enn fleiri. Borgarstjórn skorar því á Alþingi og sérstaklega þingmenn Reykvíkinga að koma í veg fyrir samþykkt frumvarpsins.
Jafnframt lagður fram 15. liður fundargerðar borgarráðs frá 18. maí, ályktunartillaga borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlista varðandi fjölmiðlafrumvarp, frestað fyrr á fundinum.
- Kl. 20.10 tók Guðlaugur Þór Þórðason sæti á fundinum og Kristján Guðmundsson vék af fundi. - Kl. 20.40 vék Ingibjörg Sólrún Gísladóttir af fundi og Stefán Jóhann Stefánsson tók þar sæti. Jafnframt vék borgarstjóri af fundi og borgarlögmaður tók þar sæti.
Ályktunartillaga Ólafs F. Magnússonar samþykkt með 9 atkvæðum gegn 6.
15. liður fundargerðar borgarráðs frá 18. maí, ályktunartillaga borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlista, samþykktur með 9 atkvæðum gegn 6.
Fundi slitið kl. 22.15.
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Anna Kristinsdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson