Borgarstjórn - 18.4.2002

Borgarstjórn

5

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2002, fimmtudaginn 18. apríl, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Helgi Hjörvar, Hrannar Björn Arnarsson, Helgi Pétursson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Ólafur F. Magnússon, Jóna Gróa Sigurðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Guðlaugur Þór Þórðarson. Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

Í upphafi fundar tilkynnti forseti að 21. liður fundargerðar borgarráðs frá 16. apríl, Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024, yrði ræddur sem sérstakur dagskrárliður.

1. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 9. apríl.

- Kl. 14.07 tók Kjartan Magnússon sæti á fundinum. - Kl. 15.17 vék Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi og Eyþór Arnalds tók þar sæti. - Kl. 15.30 vék Guðrún Jónsdóttir af fundi og Pétur Jónsson tók þar sæti.

Samþykkt með samhljóða atkvæðum að vísa 27. lið fundargerðar borgarráðs, samþykkt fyrir kirkjubyggingarsjóð, til síðari umræðu.

2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 16. apríl.

- Kl. 16.13 vék Árni Þór Sigurðsson af fundi og Óskar Bergsson tók þar sæti. - Kl. 16.30 vék Alfreð Þorsteinsson af fundi og Árni Þór Sigurðsson tók þar sæti. - Kl. 16.44 vék Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi og Guðrún Pétursdóttir tók þar sæti. - Kl. 16.58 tók Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sæti á fundinum og Eyþór Arnalds vék af fundi. - Kl. 17.07 tók Anna Geirsdóttir sæti á fundinum og Pétur Jónsson vék af fundi.

5. liður fundargerðarinnar, ráðning endurskoðanda Leikskóla Reykjavíkur, samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

10. liður fundargerðarinnar, samþykkt fyrir umhverfis- og heilbrigðisnefnd, samþykktur með 8 samhljóða atkvæðum.

11. liður fundargerðarinnar, samþykkt fyrir stjórn Vinnuskólans, samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

22. liður fundargerðarinnar, tillaga um eftirlit og endurskoðun, samþykktur með 14 samhljóða atkvæðum.

29. liður fundargerðarinnar, verð byggingarréttar og deiliskipulag Grænlandsleiðar, samþykktur með 8 atkvæðum gegn 6.

3. Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024; lokaumræða. Lögð fram, að lokinni auglýsingu, tillaga að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, dags. í janúar 2002, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 15. nóvember og 18. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 20. desember. Jafnframt lagður fram 21. liður fundargerðar borgarráðs frá 16. apríl, frestað fyrr á fundinum. Forseti tilkynnti að fallið verði frá takmörkun á ræðutíma, sbr. 2. mgr. 30. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

- Kl. 17.45 vék Guðlaugur Þór Þórðarson af fundi og Helga Jóhannsdóttir tók þar sæti.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Borgarstjórn samþykkir tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, greinargerð – stefnumótun, þéttbýlis- og sveitarfélagsuppdrætti, með þeim breytingum sem samþykktar voru á fundi skipulags- og byggingarnefndar 10. þ.m. og þeirri breytingu á afmörkun landnotkunarreita í miðborg sem fram kemur í tillögu í umsögn skipulags- og byggingarsviðs frá 15. þ.m.

- Kl. 17.03 var gert hlé á fundi. - Kl. 17.31 var fundi fram haldið. - Kl. 19.02 tók Guðlaugur Þór Þórðarson sæti á fundinum og Helga Jóhannsdóttir vék af fundi.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi breytingatillögur við tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024:

A. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að breyta landnotkun á Geldinganesi þannig að svæðið allt verði skipulagt íbúðasvæði.

B. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að falla frá 40 hektara landfyllingu við Eiðsgranda. Samkvæmt tillögu að Aðalskipulagi er ekki gert ráð fyrir að svæðið verði tekið í notkun fyrr en 2012-2024. Engar upplýsingar liggja fyrir um umhverfisáhrif landfyllingar, áhrif nýrrar íbúabyggðar á umferð, kostnað við landgerð og tæknileg úrlausnarefni. Ljóst er að allar forsendur skortir til að grundvalla ákvörðun um landfyllingu við Eiðsgranda.

C. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að breyta landnotkun í Laugardalnum til að tryggja að allt ónotað svæði í dalnum verði nýtt fyrir íþróttir og útivist. Landnotkun á svæði því sem afmarkast af Suðurlandsbraut, Engjavegi og Múlavegi verði breytt í grænt svæði.

D. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að sýna á aðalskipulagsuppdrætti möguleika á byggingu smábátahafnar í Hofsvík við Grundarhverfi á Kjalarnesi.

Greinargerðir fylgja tillögum A, C og D.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka breytingatillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks á dagskrá.

- Kl. 19.21vék borgarstjóri af fundi og Guðrún Erla Geirsdóttir tók þar sæti. Jafnframt tók borgarlögmaður sæti á fundinum. - Kl. 20.35 vék Guðlaugur Þór Þórðarson af fundi og Helga Jóhannsdóttir tók þar sæti. Jafnframt vék Árni Þór Sigurðsson af fundi og Kolbeinn Óttarsson Proppé tók þar sæti.

Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks merkt D, smábátahöfn við Grundarhverfi, samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum.

Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks merkt A, landnotkun í Geldinganesi, felld með 8 atkvæðum gegn 7.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Skipulagstillagan gerir ráð fyrir að í Geldinganesi verði annars vegar skipulagt hafnar- og atvinnusvæði og hins vegar íbúðabyggð en ekki er gert ráð fyrir iðnaðarsvæði í Geldinganesi. Ljóst er að Geldinganesið er afar ákjósanlegt fyrir atvinnustarfsemi í nágrenni við höfn og meginumferðarleiðir norður, suður og austur. Reykjavíkurhöfn er helsta höfn landsins og um hana fer megnið af inn- og útflutningi landsmanna auk þess sem hún er einnig ein stærsta verstöð landsins. Á hafnarsvæði Reykjavíkur starfa um 3000 manns og svæðið er mikilvægur hlekkur í atvinnustarfsemi í borginni og raunar landinu öllu. Því er augljóst að gefa þarf höfninni vaxtarrými til framtíðar en enn sem komið er hefur ekki verið sýnt fram á betri kosti í hafnargerð í Reykjavík og því er tillaga D-listans um að henda höfninni burt með einu pennastriki fullkomnlega ábyrgðarlaus.

Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks merkt B, landfylling við Eiðsgranda felld með 8 atkvæðum gegn 7.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Í þeirri tillögu að aðalskipulagi sem hér liggur fyrir hefur verið komið til móts við athugasemdir íbúa og KR. Fyrir liggur að áður en til framkvæmda kemur mun fara fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sem kynnt verðu íbúum svæðisins sérstaklega.

Breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks merkt C, landnotkun í Laugardal, felld með 8 atkvæðum gegn 7.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Tillaga D-listans tryggir á engan hátt að ekki verði byggt á umræddu svæði enda heimilt að byggja íþróttamannvirki á opnum svæðum sem ætluð eru íþróttastarfsemi. Enda þótt engin áform séu uppi um skipulagða stofnanabyggð meðfram Suðurlandsbraut þykir ekki rétt að breyta landnotkun þar.

Tillaga borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans um samþykki tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sbr. einnig áður samþykkta tillögu um smábátahöfn við Grundarhverfi, samþykkt með 8 atkvæðum gegn 6.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Við erum í veigamiklum atriðum ósammála tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024. Tillagan sem nú hefur verið samþykkt gengur alvarlega gegn hagsmunum Reykvíkinga. Þar skal fyrst telja að samþykkt um stórskipahöfn í Eiðsvík og á Geldinganesi ásamt iðnaðar- og athafnasvæði á stærstum hluta Geldinganess byggir á forsendum gærdagsins. Geldinganesið er tvímælalaust eitt fallegasta byggingarland borgarinnar. Það er 220 hektarar að stærð þar sem skipuleggja má byggð fyrir 8-10.000 manns, verði gæði svæðisins ekki rýrð enn frekar með umfangsmiklu grjótnámi. Grjótnámið er þegar orðið að mestu náttúruspjöllum sem unnin hafa verið innan borgarmarkanna og er í beinni andstöðu við margendurtekið markmið skipulagstillögunnar um sjálfbæra þróun.

Stefnumörkun R-listans felur í sér eyðileggingu á einu glæsilegasta íbúðabyggingarlandi í Reykjavík þar sem breyta á suðurhluta þess í risastóra grjótnámu. R-listinn stendur þar með að umhverfisskemmdum á einum fegursta stað á strandlengju Reykjavíkur. Sjálfstæðismenn leggja áherslu á að íbúðabyggð hafi forgang á Geldinganesi og að byggðin fái að þróast meðfram ströndinni í eðlilegu framhaldi af byggðinni í Grafarvogi. Viðey, Eiðsvík og Leiruvogur eru náttúruperlur sem ásamt íbúðarbyggð í Geldingarnesi, Grafarvogi, Gufunesi og Gunnunesi munu mynda glæsilega strandbyggð í Reykjavík. Samþykkt um að næsta íbúðarbyggð í Reykjavík verði í Hamrahlíðarlöndum en ekki á Geldinganesi mun óhjákvæmilega hafa í för með sér að umferð mun aukast verulega í gegnum Grafarvog eftir Hallsvegi þegar Sundabrautin verður komin í gagnið. Það leiðir aftur til þess að þörf verður á tvöföldun Hallsvegar en um það hafa staðið miklar deilur. R-listinn hefur einnig ákveðið að eyðileggja strandlengju við Eiðisgranda með miklum landfyllingum. Ekki er hlustað á tæplega 400 íbúa í næsta nágrenni svæðisins, sem mótmælt hafa harðlega fyrirhuguðum landfyllingum. Við vekjum athygli á því að Nátturuvernd ríkisins leggst eindregið gegn þessum áformum um landfyllingar vegna þeirra umhverfisspjalla sem þær munu valda. Eyðileggingin á strandlengju borgarinnar með landfyllingum og grjótnámi í Geldinganesi eru umhverfisskemmdir sem eru í hróplegri mótsögn við yfirlýst markmið um umhverfisvernd og vistvæna borg. Kosningar R-listans um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugvallar eftir árið 2016 snérust upp í langdregnar sjónhverfingar. Ómarkviss vinnubrögð í þessu mikilvæga máli lýsa stefnuleysi og skorti á pólitískum heilindum. Vatnsmýrin verður ekki byggð upp í bútum í kringum leifar af flugvelli. Slíkt skipulag verður hvorki fugl né fiskur. Samkvæmt aðalskipulagstillögunni verður hvorki hægt að byggja upp í Vatnsmýrinni með viðunandi hætti né hægt að starfrækja þar flugvöll. Full ástæða er til að vekja athygli borgarbúa á því að ákvörðun um eina flugbraut mun óhjákvæmilega hafa í för með sér lengingu flugbrautarinnar út í Skerjafjörð til vesturs, yfir Suðurgötu og göngustíginn á einu fegursta útivistarsvæði Reykvíkinga. Einnig verður væntanlega að rífa og fjarlægja mörg hús í Skerjafirði og á milli Starhaga og sjávar ef af þessum áformum verður. mislægum gatnamótum á Kringlumýrarbraut og Miklubraut og lagningu Hlíðarfótar við Öskjuhlíð og Fossvogsbrautar í göngum. R-listinn felldi úr gildandi aðalskipulagi þessi mikilvægu samgöngumannvirki, sem munu auka umferðaröryggi verulega mikið, en hefur nú séð að sér vegna mikils þrýstings frá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Samkvæmt tillögunni er stefnt að því að Reykjavík verði “vistvæn borg”. Mestu undirskriftir í sögu borgarinnar fóru af stað árið 1999 til þess að mótmæla fyrirhuguðum stórbyggingum á útivistarsvæði í Laugardalnum. 35.000 manns skrifuðu undir mótmælaskjal. Þrátt fyrir fögur fyrirheit er ekkert mark tekið á vilja borgarbúa. Enn er gert ráð fyrir því að byggt verði á þeim sama stað og krafist var að haldið yrði frá fyrir íþróttir, útivist og fjölskylduna. Tveir þriðju hlutar íbúa á höfuðborgarsvæðinu búa í Reykjavík enda þótt uppbygging atvinnu- og íbúðarhúsnæðis á svæðinu hafi í tíð R-listans farið að mestu fram hjá höfuðborginni og beinst yfir til nágrannasveitarfélaga hennar. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að hlutdeild Reykjavíkur í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu verði aðeins í kringum 50%. Það er því af og frá að með tillögunni sé fullnægt lóðarþörf fjölskyldna og fyrirtækja í Reyjavík á skipulagstímabilinu. Stefna R-listans að viðhalda lóðarskorti í borginni er því enn einu sinni staðfest með þessari tillögu að aðalskipulagi. Metnaður fyrir hönd borgarinnar er augljóslega lítill. Þetta mun m.a. valda tekjumissi fyrir Reykjavík og mun torvelda að halda uppi þeirri þjónustu sem ætlast er til af höfuðborg.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Áætlanir um að starfrækja eina flugbraut í Vatnsmýri eftir árið 2016 skerðir að mínu mati flugöryggi verulega. Slík millileið í skipulagsmálum Vatnsmýrarinnar er óheppileg og er afleiðing þess að R-listinn samþykkti fyrst að endurbyggja Reykjavíkurflugvöll en efndi strax í kjölfarið til atkvæðagreiðslu um að flytja flugvöllinn á brott frá Reykjavík. Þessi vinnubrögð R-listans eru forkastanleg og dýrkeypt fyrir Reykvíkinga og aðra landsmenn, sem munu sitja uppi með ónothæfan flugvöll og ósamhæfða byggð í Vatnsmýrinni. Að mínu mati er hér um að ræða einhver stærstu skipulagsmistök í Reykjavík á síðari árum. Ýmis fleiri skipulagsmistök má nefna s.s. á Geldinganesi, í Laugardalnum og við Suðurhlíðar. Jafnframt er brýnt að tryggja framkvæmd mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, þar sem umferðarflæði er tryggt til vesturs eftir Miklubrautinni.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 sem nú hefur verið samþykkt byggir á þeirri framtíðarsýn að Reykjavík sé öflug og gróskumikil höfuðborg landsmanna allra og forystuafl á sviði þekkingar og alþjóðavæðingar. Framtíðarsýn aðalskipulagsins byggir á þremur stoðum: - að styrkja Reykjavík í sessi sem höfuðborg og efla miðborgina sem aðsetur stjórnsýslu, viðskipta, atvinnulífs og menningar - að Reykjavík verði efld sem útvörður Íslands í vaxandi alþjóðlegri samkeppni borga um fyrirtæki, vinnuafl og ferðamenn - að skipulag byggðar og umhverfi stuðli að sjálfbærri þróun þar sem bætt lífsgæði borgarbúa og fjölbreytt mannlíf væri í fyrirrúmi í sátt og samlyndi við land og lífríki. Með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á aðalskipulagstillögunni að lokinni auglýsingu hefur verið komið til móts við fjölmargar athugasemdir og ábendingar almennings. Er þar einkum um að ræða að: - Íbúðum á landfyllingu við Eiðsgranda/Ánanaust er fækkað úr um 900 í um 6-700 í staðinn fyrir að afmarka íþrótta- og útivistarsvæði á móts við Keilugranda/Rekagranda. Þá verður aðgengi gangandi vegfarenda bætt á tveimur stöðum með göngubrú eða undirgöngum. - Að kannaður verði möguleiki á að framlengja fyrirhugaðan stokk á Miklubraut milli Reykjahlíðar og Snorrabrautar lengra til austurs eftir Miklubraut. Einnig verða kannaðir til hlítar möguleikar á að gera göng eða stokk fyrir bílaumferð eftir Hringbraut frá Sæmundargötu vestur fyrir Suðurgötu. - Þar sem ekki er hægt að koma fyrir stígum vegna hljólreiða í þéttbýli verður komið fyrir hjólreiðareinum í götustæðum. Þetta á sérstaklega við í miðbænum og eldri borgarhlutum og þar sem byggðin er þéttust. - Reiðleiðin meðfram Vesturlandsvegi á Kjalarnesi er sett inn í þéttbýlisuppdrátt og lega stofnstíga, tengistíga og reiðstíga á Hólmsheiði verður endurskoðuð og bætt. Einnig verður gerð göngubrú/undirgöng á Breiðholtsbraut á móts við Norðlingaholt annars vegar og á Suðurlandsvegi við Rauðavatn hinsvegar. - Athafnasvæði vestan Vesturlandsvegar verður minnkað að sunnan- og norðanverðu og í staðinn verður þar blönduð byggð eftir 2024. Þá verða settir strangari skilmálar um starfsemi á svæðinu. - Skýrð er nánar stefnumótun borgarinnar vegna uppbyggingar í Vatnsmýri á skipulagstímabilinu. Í nýju aðalskipulagi er sú stefna mörkuð að borgin styrki hlutverk sitt sem höfuðborg og sem alþjóðleg vistvæn borg á íslenskum grunni þar sem hlúð er að nýjum og hefðbundnum atvinnuvegum og umhverfi borgarbúa með sjálfbæra þróun, hagkvæma uppbyggingu og gæði byggðar að leiðarljósi. Samþykkt borgarstjórnar á nýju Aðalskipulagi Reykjavíkur markar tímamót.

4. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 10. apríl.

5. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 10. apríl.

6. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 5. apríl.

7. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 8. apríl.

8. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 10. apríl B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með samhljóða atkvæðum.

9. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 11. apríl.

Fundi slitið kl. 20.56.

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Helgi Hjörvar

Hrannar Björn Arnarsson Guðlaugur Þór Þórðarson