Borgarstjórn - 18.2.2020

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2020, þriðjudaginn 18. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:01. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Alexandra Briem, Dóra Magnúsdóttir, Sabine Leskopf, Hjálmar Sveinsson, Aron Leví Beck, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Þórdís Pálsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir og Katrín Atladóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer umræða um stöðu kjarasamningsviðræðna.

Forseti borgarstjórnar ákveður að umræða sem var númer 6. á dagskrá borgarstjórnar, um lág laun sem Reykjavíkurborg greiðir og áhrif þess á starfsfólk, fari fram samhliða. R20010094 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarstjóri getur á einu augabragði ákveðið að leysa þessa kjaradeilu. Hann neitar að gera það þrátt fyrir vandræðaástand í borginni. Velta má fyrir sér í þessu sambandi hvort borgarstjóri sé með nægjanlega hæfa ráðgjafa sér til handa? Nú er hafinn sá tími sem fólk er farið að nota leyfin sín, sumarleyfi til að vera heima hjá börnum sínum vegna verkfallsins sem þýðir að sumir munu ekki eiga neitt frí eftir í sumar og/eða þurfa að taka frí án launa. Það eiga ekki allir foreldrar varasjóði til að geta gert það. Það væri óskandi að borgarstjóri hlustaði á mann eins og Stefán Ólafsson, prófessor. Fáir eru eins miklir sérfræðingar og hann í þessum málum. Fólk er farið að gera sér grein fyrir að lyfta þarf botninum enda útilokað að lifa á þeim launum sem ófaglærðu starfsfólki Eflingar er ætlað að lifa á. Endurmeta þarf sérstaklega störf er snúast um umönnun barna, aldraðra og sjúkra og hækka laun þessara stétta sérstaklega. Það er öllum ljóst að séraðgerða þarf til ef bæta á jöfnuð. Samfylkingin kynnti sig sem flokkur jöfnunar en fátt minnir á jöfnun við þann Flokk lengur. Flokkur fólksins styður kröfur Eflingar heilshugar. Lyfta þarf botninum með séraðgerð.

2.    Fram fer umræða um Elliðaárdalinn. R19010136

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja ríka áherslu á verndun grænna svæða í borgarlandinu og leggjast gegn hvers kyns húsnæðisuppbyggingu í Elliðaárdalnum. Umsagnir við deiliskipulagið bera með sér mikla andstöðu við uppbyggingaráformin. Landvernd, Hollvinasamtök Elliðaárdalsins og Stangaveiðifélag Reykjavíkur hafa öll gert athugasemdir við skipulagið. Enn fremur hefur Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun gagnrýnt áformin. Það yrði óafturkræft fyrir ósnortna náttúruna ef gengið yrði á dalinn með umfangsmikilli gróðurhvelfingu fyrir verslunarrekstur og atvinnustarfsemi. Gert er ráð fyrir 12.027 fermetra lóð til Aldin BioDome, að gróðurhvelfingin verði 4.500 fermetrar, auk þess verða teknir aukalega 4.432 fermetrar undir bílastæði. Þar með er ekki öll sagan sögð en heildarskipulagssvæðið hljóðar upp á 45.000 fermetra. Kostnaðurinn við verkefnið er sagður 4.500 milljónir króna eða ein milljón á hvern fermetra. Algjör óvissa ríkir um fjármögnun þess hjá borgaryfirvöldum. Hér er borgin að útdeila gæðum í eigu Reykvíkinga – lóð á besta stað – án auglýsingar og án þess að greitt sé fyrir þau að fullu. Skattgreiðendur þurfa að leggja út í mikinn kostnað, sem gæti hlaupið á hátt á milljarði. Ef illa fer er borgin búinn að leggja út í mikinn kostnað við skipulag. Ef eitthvað mál á heima í íbúakosningu þá ætti það einmitt að vera þetta mál, enda er þetta umhverfismál sem varðar alla Reykvíkinga og ætti að vera hafið yfir pólitíska flokkadrætti.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Til stendur að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir dalinn sem festir í sessi stöðu hans sem borgargarðs. Vernda og varðveita á náttúrufar í dalnum um leið og tækifæri til útivistar batna enn frekar. Ekki er gert ráð fyrir nýjum byggingum á svæðinu nema á rafstöðvarsvæðinu og þá aðallega í tengslum við mögulega sögu- og tæknisýningu. Endurbætt stígakerfi mun fjölga fjölbreyttum göngu- og hjólaleiðum og bæta þannig möguleika borgarbúa til að njóta dalsins á umhverfisvænan hátt.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

Sósíalistaflokkurinn leggur áherslu á að náttúran í og við Elliðarárdalinn sem og önnur græn svæði fái að njóta sín án ágengni kapítalista. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Það er mjög sláandi að sjá að við deiliskipulag fyrir Elliðarárdalinn, þá tekur skipulagið skarpa beygju fram hjá þróunarreit Stekkjarbakka Þ73, þar sem fyrirhuguð gróðurhvelfing/Bio Dome á að rísa. Fjármagnsöflin þurfa sitt. Fyrri hugmyndir gengu út á að reiturinn væri innan þessa mikilvæga útivistar- og náttúrusvæðis sem Elliðarárdalurinn er. Mörk deiliskipulags á öðrum stöðum miðast við útlínur dalsins. Elliðaárdalur er eitt mest sótta útivistarsvæðið í borginni og býr yfir afar fjölbreyttu lífríki og því ljóst að ljósmengunin frá gróðurhvelfingunni mun hafa gríðarleg áhrif á allt nærumhverfi dalsins. Verið er að fórna stærstu náttúruperlu Reykvíkinga á altari fjármagnsaflanna sem birtast eða réttara sagt birtast ekki andlitslaus enn á ný. Hér birtist einbeittur vilji meirihlutans að úthluta óskilgreindum aðilum gæðum í formi borgarlands á kostnað náttúrunnar og lífsgæða Reykvíkinga. Ríkið ætti að friðlýsa svæðið strax og taka Elliðarárdalinn úr höndum Reykvíkinga til þess eins að koma dalnum úr klóm meirihlutans. Með friðun er tryggður réttur komandi kynslóða til að njóta ósnortinnar náttúru. Ósnortin náttúra er takmörkuð auðlind. Elliðarárdalurinn er ein stærsta auðlind Reykvíkinga – henni er fórnað.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Málefni Elliðaárdalsins er viðkvæmt enda um einstakt svæði að ræða. Sá hluti hans Stekkjabakki er ekki þar undanskilinn. Verndun svæðisins alls hefði verið besta ákvörðunin og í framhaldinu unnið með Reykvíkingum að mögulegu framtíðarskipulagi á svæðinu. Nú er nýtt hverfi, Vogabyggð, að byggjast upp með 3200 íbúðum. Einnig er fyrirséð að Ártúnshöfðinn muni byggjast upp sem íbúðabyggð með 3-4000 nýjum íbúðum. Gera má ráð fyrir að íbúar þessara nýju hverfa og annarra hverfa í Reykjavík njóti þess að stunda útivist í dalnum. Þeir sem láta sér annt um þetta svæði eru uggandi um að bygging þessa Aldin Biodome sé aðeins upphafið að fleiru sem á eftir að gera þetta svæði að allt öðru en það er? Samkvæmt aðalskipulagi eru nokkrir aðrir þróunarreitir í dalnum sem til stendur að byggja á. Hvað fleira er í bígerð hjá skipulagsyfirvöldum á þessu svæði er ómögulegt að segja til um. Það er erfitt fyrir fólkið í borginni að hafa áhrif á þetta þar sem um 18 þúsund undirskriftir þarf til að fá íbúakosningu. Nú er í gangi undirskriftasöfnun sem kannski aðeins brot af Reykvíkingum vita um. Enn er dágóður hópur í Reykjavík sem ekki notar tölvur til að greiða atkvæði og getur vel verið að hluti þessa hóps sé ekki kunnugt um þessa undirskriftasöfnun.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna: 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að beita sér fyrir stofnun heimavistar fyrir framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við menntamálaráðuneytið og leggja þannig grunn að auknu jafnrétti til náms óháð búsetu. Mögulegar staðsetningar verði í nálægð við framhaldsskóla og góðar almenningssamgöngur og ýti þannig undir fjölbreytta ferðamáta og mannlíf í borginni.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20020184

Tillagan er samþykkt með 21 atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Þessi tillaga snýst um að styðja við aukið jafnrétti til náms óháð búsetu og efnahag. Margir framhaldsskólanemar af landsbyggðinni sækja sér menntun til höfuðborgarsvæðisins enda framboð af námi hér meira en annarsstaðar á landinu. Við teljum rétt að Reykjavíkurborg lýsi yfir skýrum vilja til að liðka fyrir og taka þátt í stofnun heimavistar fyrir framhaldsskólanemendur á höfuðborgarsvæðinu og fjölgi þannig húsnæðisvalkostum fyrir ungt fólk sem hyggst stunda nám í borginni.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja tillöguna með því fororði að ekki sé verið að samþykkja útgjöld, enda framhaldsskólastigið á forræði ríkisins. Enn fremur að málið verði unnið í góðu samráði við önnur sveitarfélög.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

Tillagan gengur út á að borgarstjórn samþykki að beita sér fyrir stofnun heimavistar fyrir framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við menntamálaráðuneytið og leggi þannig grunn að auknu jafnrétti til náms óháð búsetu. Í greinargerð stendur að „Það getur reynst ungu fólki erfitt og kostnaðarsamt að finna sér örugga búsetu við flutninginn. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að þau geti öll búið hjá ættingjum eða kunningjum sem leiðir til þeirrar stöðu að þurfa að búa ein síns liðs frá því um 16 ára aldurinn sem er mun fyrr en hjá flestum ungmennum sem alin eru upp á höfuðborgarsvæðinu og geta búið í foreldrahúsum meðfram námi.“ Tillagan er góðra gjalda verð en fulltrúi Sósíalista vill nefna að borgin þarf á sama tíma að líta inn á við og bæta húsnæðisstöðu þeirra sem búa hér í borginni og eru hluti af fjölskyldum sem eru að eiga við sligandi leiguverð og eru á lágum tekjum. Þó að margt ungt fólk í borginni geti dvalið í foreldrahúsum endurgjaldslaust á meðan á námi stendur, þá á slíkt ekki alltaf við, sumir þurfa að greiða heim vegna erfiðrar fjárhagsstöðu foreldra. Fulltrúi Sósíalista leggur áherslu á að ef heimavist verði að veruleika verði hún ekki einkarekin. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Það er fáránlegt að Reykjavíkurborg sé farin að huga að því að byggja upp heimavistir fyrir ólögráða börn. Borgarfulltrúi Miðflokksins bendir á að borgin nær á engan hátt að halda í við að útvega lóðir fyrir uppbyggingu stúdentaíbúða þrátt fyrir að í borginni séu tveir stærstu háskólarnir. Þvílík útópía.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er sérkennilegt af meirihlutanum að koma með tillögu um heimavist fyrir framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekkert sem leggur skyldu á Reykjavík til að koma á fót svona heimavist en það er ekki heldur neitt sem bannar Reykjavík að gera það. Alla vega er ekki séð að þessi umræða eigi heima í borgarstjórn. Flokkur fólksins hefur sannarlega ekkert á móti heimavist og finnst miður að borgarstjórn hafi eytt tíma í að þrasa um þetta mál á fundi borgarstjórnar. Segir í tillögunni að „mögulegar staðsetningar verði í nálægð við framhaldsskóla og góðar almenningssamgöngur“. Hvaða framhaldsskóla? Á borgarstjórn að fara að ræða um það líka? Lög um framhaldsskóla gera ráð fyrir því að ríki og sveitarfélag geti staðið saman að stofnun skóla, m.a. með því að ríkið greiði hluta stofnkostnaðar. Flokkur fólksins hvetur ríki og sveitarfélög endilega til að gera það. Ákvæðin í lögum um framhaldsskóla fjalla ekki beint um hvort þau taki einnig til þegar sveitarfélag vill byggja heimavist án þess að það tengist stofnun skóla en þar sem ákvæðin gera ráð fyrir samkomulagi milli ráðherra og sveitarfélags getur ráðherra án efa gert samning um aðkomu ríkisins að rekstri slíkrar heimavistar?

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins: 

Flokkur fólksins leggur til að borgarráð samþykki að þjónustusamningur sem til stendur að endurnýja við Leikni feli í sér fjölgun stöðugilda um eitt og hálft. Leiknir er með aðeins eina deild og því ekki skilgreint sem hverfisfélag. Félagið hefur ekki fjárhagslega burði til að fjölga íþróttagreinum til að geta kallast hverfisfélag. Eini starfsmaður Leiknis gengur í öll störf. Sérstaða Leiknis er að félagið er í hverfi 111 en það hverfi er með hæsta hlutfall fjölskyldna á fjárhagsaðstoð og hæsta hlutfall borgara af erlendum uppruna. Æfingagjöld Leiknis eru lág og eru að upphæð kr. 50.000/ári fyrir yngstu iðkendurna. Forsenda þess að hægt sé að efla starfið er að fjölga stöðugildum og að öll börn án tillits til efnahags foreldra geti notað rétt sinn til Frístundakortsins samkvæmt upphaflegum tilgangi þess. Ein af ástæðum fyrir fáum iðkendum hjá Leikni er að Frístundakortið nýtist illa í hverfi 111. Fátækir foreldrar hafa þurft að nota Frístundakortið til að t.d. greiða fyrir frístundaheimili, tungumálakennslu auk þess sem það er sett sem skilyrði fyrir að sækja um fjárhagsaðstoð, skuldaskjól og afskriftirskulda. Börn þessara foreldra hafa því ekki sömu tækifæri og önnur börn að nota rétt sinn til Frístundakortsins til að niðurgreiða íþróttaiðkun.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20020185

Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gen 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillaga um að fjölga stöðugildum Leiknis hefur verið felld. Það er ljóst að þetta litla íþróttafélag sem nú berst í bökkum á sér engan talsmann í borginni. Sérstaða félagsins er mikil enda mitt í hverfi þar sem félagsleg blöndun hefur mistekist. Í hverfi 111 býr hæsta hlutfall fjölskyldna með fjárhagsaðstoð og hæsta hlutfall borgara af erlendum uppruna. Þar er einnig lægsta hlutfall barna sem stunda íþróttir en í þessu hverfi er jafnframt Frístundakortið minnst nýtt af öllum hverfum eða innan við 70%. Leiknir er ekki félag sem getur treyst á að æfingagjöld borgi launakostnað þjálfara yngri flokka. Hækki gjöldin eru líkur á að færri börn stundi íþróttir í Efra-Breiðholti. Ávallt eru einnig einhver börn sem mæta en geta ekki greitt félagsgjald. Til stendur að endurnýja 12 ára samning en í nýjum drögum eru viðbótin aðeins 56. þús. á mánuði. Það er ekki í samræmi við kröfur um lágmarksskyldur félags sem nú er einnig gert að kaupa ábyrgðartryggingu og greiða sorpgjöld. Sjálfsagt er að félög greiði slíkt en það þarf þá að fylgja því fjármagn. Mannauður Leiknis, sem er einn starfsmaður er þurrmjólkaður og haldi sem horfi með óbreyttar reglur um frístundakortið verður gengið að félaginu endanlega dauðu.

5.    Fram fer umræða um skýrslu Borgarskjalasafns um frumkvæðisathugun á skjalastjórn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar í tengslum við Nauthólsveg 100. R20010220

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Bragginn: lögbrot, hylming, framúrkeyrsla og lygar. Óheimilt er að víkja frá fjárhagsáætlun skv. sveitastjórnarlögum nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina. Meirihlutinn hefur ekki enn getað útskýrt fjárheimildaleysi upp á 73 milljónir – það er lögbrot. Vöntun á skjölun gagna er lögbrot. Engin útboð, engar verðfyrirspurnir, engir skriflegir samningar og óskráðir munnlegir samningar. Eyðing tölvupósta og passað upp á að fjölmiðlar kæmust ekki í gögn. Borgarstjóri vill ekki gefa upp nöfnin á þeim sem unnu við Braggann sem eru hættir nema hann. Hann setur alla starfsmenn ráðhússins undir sök því hann talaði um þetta fyrstur í fjölmiðlum. Hann svarar ekki fyrir 73 milljónirnar sem voru greiddar út án heimildar úr borgarsjóði. Hann svarar ekki fyrir eyddu tölvupóstana. Hann svarar engu með lögbrotin. Hann boðar hvítþvottaskýrslu frá borgarlögmanni. Það er ekki hægt að þvæla þessu meira innanhúss. Opinberir aðilar verða að koma að málinu og rannsaka ofan í kjölinn. Eftir á að elta reikningana og sannreyna vinnu og verk- og vörukaup. Borgarstjóri er komin upp að vegg og kýs í lokinn að ráðast að persónu minni með því að lesa upp níðfrétt sem birt var um mig á RÚV árið 2016. Vel gert borgarstjóri – borgarstjóri hefur sér engar málsbætur.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Brugðist hefur verið við ábendingum úr skýrslu Innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100, en þessi skýrsla fer enn nánar í skjalamálin og eru þær ábendingar kærkomnar í áframhaldandi vinnu. Viðbrögð vegna skjalamála hafa verið eftirfarandi: Hafin er innleiðing nýs og öflugs upplýsingastjórnunarkerfis sem ber nafnið Hlaðan sem leysir af hólmi eldra skjalakerfi sem var í notkun á þeim tíma er skýrslan nær til. Það er fjárfesting upp á 1,3 milljarða. Sett hefur verið sérstakt fjármagn á fjárfestingaráætlun til að minnsta kosti næstu fimm ára í átak í skjala- og upplýsingastjórnun. Þar af eru settar 88 milljónir í innleiðingu upplýsingastjórnunarkerfisins á þessu ári. Stjórnkerfisbreytingarnar á síðasta ári skýrðu og útvíkkuðu umboð við innleiðingu góðrar skjalastýringar hjá stofnunum borgarinnar með því að færa Borgarskjalasafnið á nýtt svið þjónustu- og nýsköpunar sem þverar önnur svið. Skjalamál hafa verið færð inn í nýstofnaða gagnaþjónustu borgarinnar sem gefur þeim enn frekara vægi en áður og undirstrikar mikilvægi skjala sem gagna. Ráðinn hefur verið gagnastjóri Reykjavíkurborgar til að stuðla að auknu gagnsæi og betri meðferð skjala og gagna og markvissri hagnýtingu þeirra til að styðja við upplýsta ákvarðanatöku í borgarkerfinu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Skýrsla borgarskjalavarðar staðfestir að lög voru brotin í braggamálinu, en í henni segir orðrétt: „Niðurstaða frumkvæðisathugunar Borgarskjalasafns Reykjavíkur er að skjalavarsla og skjalastjórn SEA í tengslum við Nauthólsveg 100 var ekki í samræmi við lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og reglur settar á grundvelli þeirra.“ Þessi skýrsla gefur því fullt tilefni til að málið sé skoðað nánar, en enn hefur Borgarskjalavörður ekki fengið að kynna niðurstöður skýrslunnar fyrir borgarráði. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er nú staðfest að skjalastjórnun var ekki samkvæmt lögum í braggamálinu. Við lestur skýrslna Innri endurskoðunar og Borgarskjalavarðar er ekki erfitt að fá það á tilfinninguna að lög hafi verið brotin af ásettu ráði í braggaverkefninu. Þetta er áfellisdómur yfir borgarstjóra og borgarritara ekki síst vegna þess að engin skjöl fundust um upplýsingar og samskipti milli þeirra og SEA. Einnig hafi það ekki verið í samræmi við 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga að færa ekki inn munnlegan samning við Arkitektabúlluna. Þetta hefði þurft óháða rannsókn og því hefði verið réttast að samþykkja tillögu Flokks fólksins og Miðflokksins frá því 15. janúar 2019 „um að fela embætti borgarlögmanns að vísa skýrslu innri endurskoðunar til þar til bærra yfirvalda til yfirferðar og rannsóknar.“ Segir í tillögunni að jafnframt verði sama embætti falið að senda niðurstöður Borgarskjalasafns á skjalamálum í sama máli áfram þegar þær liggja fyrir. Að vísa málinu til borgarlögmanns er galin hugmynd. Að sjálfsögðu getur engin í Ráðhúsinu rannsakað þetta mál. Það væri eins og borgarstjóri væri að rannsaka það sjálfur. Allt gerist þetta á vakt hans og borgarritara. Hans niðurstöðum væri því erfitt að treysta í ljósi tengsla, nálægðar og hvernig ráðning hans bar að en þar voru jafnréttislög brotin.

6.    Fram fer umræða um lág laun sem Reykjavíkurborg greiðir og áhrif þess á starfsfólk. R20010094

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Samfylkingin hefur ávallt gefið sig út fyrir að vera jafnaðarmannaflokkur en er nú sá flokkur sem stendur í vegi fyrir að laun þeirra lægstu hækki. Hér er um að ræða störf sem snúast um ummönnun barna, aldraðra og sjúkra. Ef á að auka jöfnuð þá verður að hækka laun þessara stétta sérstaklega. Auðvitað getur borgarstjóri ákveðið að þetta gerist án þess að launahækkanirnar hlaupi upp launastigann í svokölluðu höfrungahlaupi, enda væri um sérstaka aðgerð að ræða, þar sem þetta fólk hefur dregist aftur úr. Þessar stéttir sem hér um ræðir hafa litla möguleika á aukatekjum eins og aðrar stéttir hafa möguleika á. Það er útilokað að lifa á þessum lægstu launum hjá borginni. Stefán Ólafsson prófessor hefur bent á að ef ófaglærður starfsmaður sem færi að vinna á kassa í Bónus fengi hann 130.000 krónum meira á mánuði og ef hann færi í sorphreinsun þá fengi hann 201.000 krónum meira á mánuði. Þegar fólk er búið að greiða leigu eða lán og helstu reikninga er ekki mikið eftir. Ef fólk á ekki fyrir mat dugar skammt að ræða um lífskjarasamninga. Hér vill Flokkur fólksins einnig minna á samstarfssáttmála meirihlutans en í honum stendur að það „eigi að leiðrétta laun kvennastétta“.

7.    Fram fer umræða vegna óvissustigs almannavarna vegna kórónaveiru og hugsanlegra eldsumbrota. R20010188

8.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 6. og 13. febrúar. R20010001

22. liður fundargerðarinnar frá 6. febrúar; endurgreiðsluhlutfall vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar er samþykktur. R20010166

11. liður fundargerðarinnar frá 13. febrúar; deiliskipulag, Laugavegur sem göngugata – deiliskipulag er samþykktur með 15 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, J og Vinstri grænna og Hildar Björnsdóttur og Katrínar Atladóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins gegn 8 atkvæðum Eyþórs Laxdals Arnalds, Valgerðar Sigurðardóttur, Ragnhildar Öldu Vilhjálmsdóttur, Þórdísar Pálsdóttur, Mörtu Guðjónsdóttur og Jórunnar Pálu Jónasdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins auk borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins. R19070069

12. liður fundargerðarinnar frá 13. febrúar; synjun borgarráðs vegna breytinga á deiliskipulagi vegna Tryggvagötu 13 er staðfest með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. R19010281

24. liður fundargerðarinnar frá 13. febrúar; viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 er samþykktur. R20010161

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðarinnar frá 13. febrúar:

Í sáttmála flokkanna sem mynda meirihluta í Reykjavík segir: „Við ætlum að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið og fjölga göngusvæðum í Kvosinni.“ Hér er verið að samþykkja 1. áfanga af varanlegri göngugötu á Laugaveginum, áfanga sem nær meðal annars frá Ingólfsstræti að Klapparstíg. Aukin áhersla á göngusvæði er hluti af þróun sem á sér stað víða um heim, í mörgum borgum á ólíkum lengdar og breiddargráðum. Þegar sífellt fleiri keppa um sama svæðið verður mikilvægara að við gefum gangandi og hjólandi aukið pláss. Með göngugötum erum við að styðja við umhverfisvænni ferðamáta og skapa líflegri borg til framtíðar fyrir fólk og umhverfi. Við fögnum þessum áfanga.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 12. lið fundargerðarinnar frá 13. febrúar: 

Mikilvægt er að auka sveigjanleika íbúana varðandi atvinnustarfsemi og notkun húsnæðis í borginni. Á samdráttartímum er enn mikilvægara að aðilar hafi möguleika til að nýta eignir sínar í stað þess að þær standi tómar. Með húsnæðisstefnu sinni hefur meirihlutanum tekist að skapa á sama tíma skort á hentugu húsnæði og offramboð af ákveðnum tegundum eigna. Með því að heimila fjölbreyttari not húsnæðis minnkar höggið sem orðið hefur vegna misheppnaðrar stefnu meirihlutans.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðarinnar frá 13. febrúar: 

Fulltrúi Sósíalistaflokksins fagnar áformum um Laugaveg sem göngugötu þar sem algild hönnun með aðgengi fyrir alla verður höfð að leiðarljósi. Vegna Tryggvagötu vil fulltrúi sósíalista koma því á framfæri að: Það að fjármagnseigendur byggi óþarfar, allt of dýrar, lúxus íbúðir sem ekki seljast er ekki vandamál borgarinnar. Það væri óviðeigandi og óþolandi að fjármagnseigendur þyrftu enn og aftur ekki að taka afleiðingum ákvarðanna sinna. Það væri jákvætt og eðlilegt næsta skref að sjá borgina tryggja aukna félagsvæðingu húsnæðiskerfisins, nú þegar svo margir eru í þörf fyrir húsnæði á viðráðanlegu verði, með því að tryggja að þeir sem koma að uppbyggingu með það eitt að markmiði að græða komi ekki að húsnæðisuppbyggingu í borginni með ríkum hætti. Það er mikilvægt að húsnæðisuppbygging í borginni endurspegli raunverulega þörf og að í framtíðinni verði skrúfað fyrir uppbyggingu á íbúðum sem enginn er að kalla eftir. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 13. lið fundargerðarinnar frá 11. febrúar: 

Svik, lygar og prettir lýsa best vinnubrögðum meirihlutans í þessu máli. Að engu voru höfð fyrirheit borgaryfirvalda til rekstraraðila og eiganda atvinnuhúsnæðis á svæðinu að göturnar yrðu opnaðar á nýjan leik hinn 1. október sl. Farið var þess í stað í varanlega skyndilokun. Það mætti halda að fulltrúar meirihlutans séu bæði blindir og heyrnarlausir. Í það minnsta hefur gegndarlaus gagnrýni á að loka hluta Laugavegs, Skólavörðustígs og Vegamótastígs fyrir bílaumferð og gera þær götur að varanlegum göngugötum ekki farið framhjá almenningi. Boðað er að unnið verði að hönnun ýmissa lausna til að bæta götuna og umhverfið og gert er ráð fyrir að endurnýja allt yfirborð, gróður, götugögn og lýsingu m.m. Útsvarsgreiðendur eru hér með upplýstir að samkvæmt fyrstu kostnaðaráætlun átti það verk að kosta 600 milljónir. Frá því hefur nú verið fallið og boðið upp á smáskammtalækningar með minni kostnaði. Kjarkurinn er að bresta. Með Tryggvagötu, Óðinstorgi og Hverfisgötu eru lagfæringar í 101 komnar langt yfir 2 milljarða. 2.000 milljónir í vita gagnslaus gæluverkefni á meðan grunnstoðir svelta. Fjárheimild fyrir árið 2020 í Laugavegsverkefnið er 100 milljónir. 100 milljónir í að leika sér með blómaker, bekki og blúndur. Þvílík sóun á fjármunum. Minnt er á að nýbúið er að taka Laugarveginn allan í gegn með tilheyrandi kostnaði fyrir útsvarsgreiðendur. Þetta er nokkurskonar hreinræktuð þráhyggja gagnvart þessu svæði.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 29. lið fundargerðarinnar frá 13. febrúar:

Niðurstaða frumkvæðisathugunar Borgarskjalasafnsins á skjalavörslu og skjalastjórn SEA er að skjalavarsla skrifstofunnar hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur um skjalavörslu og skjalastjórn og að margvíslegir vankantar hafi verið á framkvæmd hennar. Málið er ekki búið í hugum borgarbúa þótt allir þeir sem þarna komu að séu hættir. Þannig ganga hlutir ekki fyrir sig í siðmenntuðu samfélagi. Alvarleikinn felst í mörgu, að skjöl skyldu hafi verið vistuð löngu eftir að þau voru mynduð, m.a. var mikill fjöldi skjala vistaður í skjalavistunarkerfi eftir að Borgarskjalasafn hóf athugun sína, segir að eftiráreddingar hafi verið í gangi. Langur listinn er yfir hvaða reglur voru brotnar (farið á sveig við lög. 77/2014 um opinber skjalasöfn). Engir póstar fundust í pósthólfi borgarstjóra og borgarritara varðandi Nauthólsveg 100. Hvernig var þá upplýsingum komið til yfirmanna, ábyrgðarmannanna? Munnlega, bara svona spjall yfir kaffibolla? Bragginn var kannski ekki milljarða verkefni en er eitt alvarlegasta mál sem upp hefur komið hjá þessum og síðasta meirihluta. Samt mun engin axla ábyrgð. Því miður náðist aldrei að koma þessu máli í frekari rannsókn til óháðra aðila eins og tillaga frá í jan. 2019 Flokks fólksins og Miðflokksins gekk út á. Enn liggur því í loftinu að þarna hafi verið um mögulegt misferli að ræða og slík staða er óþolandi.

9.    Lagðar fram fundargerðir skipulags- og samgönguráðs frá 5. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 28. janúar og 11. febrúar og velferðarráðs frá 31. janúar og 5. og 12. febrúar. R20010285

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 5. febrúar: 

Enn er þrengt að fjölskyldubílnum, umferð í miðbænum og fyrirtækjum í rekstri. Bent er á að á síðasta ári voru miklar framkvæmdir við Óðinstorg, Týsgötu, Þórsgötu og Óðinsgötu til mikils ónæðis fyrir þá sem lifa og starfa á þessu svæði. Þeim framkvæmdum er þar að auki ekki lokið og mjög lítið samráð var haft við útfærslu þeirra. Þessar breytingar urðu til þess að almenn gjaldskyld bílastæði voru fjarlægð og í staðinn kom stæði til vöruafgreiðslu. Þetta eru fráleit vinnubrögð og eru einungis til þess fallin að grafa undan atvinnurekstri í miðbænum – en til þess virðist leikurinn gerður. Bent er á að hinum megin við Óðinstorg var bætt við bílastæðum á einni lóðinni – en þar býr borgarstjórinn sjálfur. Það er ekki sama að vera Jón eða séra Jón.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. og 7. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 28. janúar og 4. lið í fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 11. febrúar:

Tillaga um stækkun Brúarskóla hefur verið felld. Í bókun meirihlutans er gefið i skyn að ekki sé lengur þörf fyrir úrræði eins og Brúarskóla vegna m.a. stofnun farteyma og aukna þjónustu talmeinafræðinga. Samt bíða 111 börn eftir þjónustu talmeinafræðinga í leikskóla. Sagt er að stækkun skólans sé ekki tímabær. Samt bíða 19 börn eftir plássi í Brúarskóla. Á fimmta hundrað barna eru á biðlista eftir skólaþjónustu. Börn sem mörg hver fá ekki aðstoð fyrr en seint og um síðir. Tillögur Flokks fólksins um aukna og bætta þjónustu fyrir börn með geðraskanir er einnig felldar án skýringa. Samt eru dæmi um að börn séu sett í óviðunandi skólaaðstæður þar sem þeim líður illa þar sem öll sértæk skólaúrræði þ.m.t. Klettaskóli hefur ekki pláss. Einnig að barni sé vikið úr skóla vegna hegðunarfrávika enda þótt annað sé fullyrt í svari. Í annarri tillögu Flokks fólksins um að hafa foreldra meira í ráðum segir í svari borgarinnar að alltaf sé verið að spyrja foreldra. Hvar eru þau svör? Hvar eru viðhorf og skoðanir foreldra þegar verið er að taka stórar ákvarðanir er varða börn þeirra? Það verður að taka meira mark á foreldrum ekki síst í ljósi skýrslna landlæknis og annarra um aukna vanlíðan barna og sjálfskaða.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

Fulltrúar meirihlutans árétta að í skóla- og frístundaráði var tillögu flokks fólksins um sérskóla vísað til sameiginlegs stýrihóps velferðar- og skóla og frístundasviða um bætta þjónustu við börn og tekið undir að mikilvægt væri að setja þennan málaflokk í forgang. Mikilvægt er að aðferðafræði snemmtækrar íhlutunar sé lögð til grundvallar þjónustu sem veitt er börnum og að hún sé á forsendum barnsins.

Fundi slitið kl. 22:26

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Pawel Bartoszek

Hjálmar Sveinsson    Sanna Magdalena Mörtudóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarstjorn_1802_1.pdf