Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2014, þriðjudaginn 18. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.01. Voru þá komnir til fundar auk borgarstjóra eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Páll Hjaltason, Eva Einarsdóttir, Diljá Ámundadóttir, Stefán Benediktsson, Dagur B. Eggertsson, Hjálmar Sveinsson, Hildur Sverrisdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Björn Gíslason og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn felur skrifstofu borgarstjórnar að semja tillögu til breytingar á samþykkt fyrir skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar, sem miði að því að taka upp virkt samráð við foreldrafélög í borginni við ráðningar skólastjóra. Slíkt samráð feli í sér að í skóla, þar sem ráðning skólastjóra stendur fyrir dyrum, skuli gefa stjórn viðkomandi foreldrafélags kost á að kynna sér helstu upplýsingar um umsækjendur og hitta þá að máli til að kynnast sýn þeirra á starfið. Jafnframt verði stjórn foreldrafélagsins heimilt að efna til fundar, sem opinn verði öllum foreldrum viðkomandi skóla, þar sem umsækjendum, sem fullnægja kröfum til starfsins, verði gefinn kostur á að kynna sig og stefnumál sín. Í framhaldi af slíkum fundi sé stjórn viðkomandi foreldrafélags heimilt að skila umsögn til skóla- og frístundaráðs með áliti um hver umsækjenda sé hæfastur til að gegna viðkomandi starfi. Stjórn foreldrafélagsins verði einnig heimilt að skila umsögn til ráðsins án þess að mælt sé með ákveðnum umsækjanda en með ábendingum um hvaða atriði sé æskilegt að leggja áherslu á þegar ráðið verður í stöðuna, með tilliti til vilja foreldra og aðstæðna í umræddum skóla. Eftir sem áður annist skóla- og frístundaráð ráðningar í stöður skólastjóra og beri ábyrgð á þeim eins og kveðið er á um í samþykktum ráðsins. Umrædd tillaga til breytingar á samþykkt fyrir skóla- og frístundaráð verði lögð fyrir borgarstjórn til samþykktar.
Tillagan er felld með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að borgarstjórnarmeirihluti Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna kjósi að fella tillögu um að tekið verði upp virkt samráð við foreldra vegna ráðninga skjólastjóra. Víða erlendis hefur slíkt samráð verið tekið upp með góðum árangri. Með samþykkt tillögunnar hefði verið brotið í blað varðandi aðkomu foreldra að skólastarfi í Reykjavík með því að þeir hefðu fengið rétt til umfjöllunar og umsagnar áður en nýr skólastjóri væri ráðinn. Hverju foreldrafélagi væri síðan í sjálfsvald sett hvort slík heimild yrði nýtt og með hvaða hætti. Þannig væri kveðið á um rétt foreldra til umsagnar um viðkomandi ráðningu en eftir sem áður myndi skóla- og frístundaráð Reykjavíkur annast sjálfa ráðninguna og bera ábyrgð á henni eins og kveðið er á um í samþykktum ráðsins. Með afgreiðslu tillögunnar sannast enn og aftur að Samfylkingin og Besti flokkurinn hafa ekki áhuga á að auka samráð við foreldra um skólastarf í borginni.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráð hefur samþykkt tillögu sem miðar að því að auka aðkomu foreldra að ráðningum stjórnenda í leik- og grunnskólum. Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar þakka starfsfólki skóla- og frístundasviðs, fulltrúum skólastjórnenda í leikskólum og grunnskólum sem og fulltrúum Samfok og Barnanna okkar fyrir góðar og vandaðar tillögur að aukinni aðkomu foreldra að ráðningum stjórnenda í leik- og grunnskólum í gegnum foreldra- og skólaráð. Tillögunum er fagnað enda stígur Reykjavíkurborg jákvætt skref í lýðræðisátt og skapar frábært tækifæri fyrir foreldra í leikskólum og grunnskólum til að koma sinni sýn á þróun skóla barna sinna á framfæri.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar undrast að upphaflegir tillöguflytjendur, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi ekki samþykkt þetta jákvæða skref sem jafn vandlega var undirbúið af fulltrúum foreldra, stjórnenda og starfsfólki sem best þekkir til. Af þessum ástæðum fallast borgarfulltrúarnir ekki á þá tillögu sem hér liggur fyrir eins og hún er lögð fram.
2. Fram fer umræða um eigendastefnu Félagsbústaða.
3. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 6. febrúar 2014.
4. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 13. febrúar 2014.
Samþykkt með 15 atkvæðum að taka á dagskrá svohljóðandi breytingartillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lögð er til breyting á forvarnastefnu Reykjavíkur, málsgrein á bls. 17 sem hljóðar svo: „Allar samkomur og skemmtanir sem eru sérstaklega ætlaðar börnum og unglingum skulu vera vímuefnalausar. Þær skulu haldnar á forsendum barna og unglinga, vera á forsjá aðila sem hafa þekkingu og reynslu af starfi með börnum og unglingum í húsnæði við hæfi en ekki á vínveitingahúsum.“ verði svohljóðandi „Allar samkomur og skemmtanir sem eru sérstaklega ætlaðar börnum og unglingum skulu vera vímuefnalausar. Þær skulu haldnar á forsendum barna og unglinga, vera á forsjá aðila sem hafa þekkingu og reynslu af starfi með börnum og unglingum í húsnæði við hæfi.“
Samþykkt með 15 atkvæðum.
- 15. liður fundargerðarinnar; forvarnarstefna Reykjavíkurborgar, svo breytt,
samþykktur með 15 atkvæðum.
- 22. liður fundargerðarinnar; tillaga að sameignarsamningi fyrir Orkuveitu Reykjavíkur,
samþykktur með 15 atkvæðum.
- 23. liður fundargerðarinnar; tillaga að eigendastefnu fyrir Orkuveitu Reykjavíkur,
samþykktur með 15 atkvæðum.
- 24. liður fundargerðarinnar; kaup Bílastæðasjóðs á bílastæðum, samþykktur með 13
atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Magnússon og Hildur Sverrisdóttir, sitja hjá við afgreiðslu málsins.
5. Lagðar fram fundargerðir mannréttindaráðs frá 11. febrúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 10. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 5. febrúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 5. og 12. febrúar, velferðarráðs frá 6. og 13. febrúar.
Fundi slitið kl. 17.23
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Eva Einarsdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 18.2.2014 - prentvæn útgáfa