Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2018, þriðjudaginn 18. desember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Guðrún Ögmundsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Pawel Bartoszek, Rannveig Ernudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Baldur Borgþórsson, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ragna Sigurðardóttir, Magnús Már Guðmundsson, Ellen Jaqueline Calmon, Skúli Helgason, Alexandra Briem, Björn Gíslason, Örn Þórðarson, Katrín Atladóttir, Marta Guðjónsdóttir, Egill Þór Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram tillaga borgarstjóra um deiliskipulag og þróun samgöngumiðstöðvar og annarrar byggðar á Umferðarmiðstöðvarreit, dags. 12. desember 2018, sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. desember 2018.
Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 8 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Uppbygging alhliða samgöngumiðstöðvar er spennandi og mikilvægt mál fyrir framþróun Reykjavíkur. Núverandi staðsetning samgöngumiðstöðvar er framúrskarandi og felur í sér mikil tækifæri til að efla almenningssamgöngur og auka aðgengi að ólíkum ferðamátum fyrir íbúa og ferðamenn. Umferðarmiðstöðvarreiturinn er miðsvæðis og liggur vel til að þjóna mörgum stærstu vinnustöðum höfuðborgarsvæðisins. Ókostir þess að hafa miðstöðina austar í borginni er sú að það myndi fjölga skiptingum í strætókerfinu sem er mikill ókostur. Áfram verða mikilvægar skiptistöðvar í Mjódd og annars staðar en ný samgöngumiðstöð er bæði aðkallandi og brýnt verkefni sem skilað getur miklu fyrir borgarþróun og samgöngukerfið. Mikilvægt er að nýta það tækifæri til fulls. Næstu skref í málinu er að vísa tillögum starfshópsins til skipulags- og samgönguráðs og stjórnar Strætó til að afla umsagna þeirra vegna málsins. Gerð verði hermun á umferðarflæði á annatíma til að greina flöskuhálsa og í kjölfarið verði hugmyndasamkeppnin sett af stað þar sem ný samgöngumiðstöð og nágrenni hennar eru undir.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Miðflokkurinn fagnar áformum um nýja samgöngumiðstöð enda innanlandsflugi um Reykjavíkurflugvöll ætlaður þar veglegur sess. Samgöngumiðstöð sem sameinar millilandaflug, innlandsflug, rútumiðstöð, strætó og nánast alla ferðamáta sem í boði eru, er klárlega af hinu góða. Hugmyndir um tengingu við flugvöllin um göng undir Hringbraut, sem verða útbúin göngufæriböndum eins og þekkist víða erlendis eru einnig áhugaverðar. Mikilvægt er að tryggja jafnan aðgang allra að mannvirkinu svo jafnræðis sé gætt gagnvart hinum ýmsu aðilum innan ferðaþjónustunnar sem og samgöngugeirans. Mikilvægt er, ef framhald verður, að ofangreindum atriðum sé haldið vel til haga enda forsenda þess að af stað sé lagt.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillagan um að efna til samkeppni um uppbyggingu á BSÍ-reit felur meðal annars í sér að unnið verði að útfærslu samgöngumiðstöðvar. Í skýrslunni Þróun samgöngumiðstöðvar og nánasta umhverfis: þarfagreining og skipulag, er lagt til að óháður aðili/fyrirtæki sjái um rekstur samgöngumiðstöðvar. Viðkomandi fyrirtæki sjái þá m.a. um að „standa fyrir dagskrá í húsinu sem geri það eftirsóknarverðan viðkomustað eins og listsýningum, upplýsingabásum fyrir gesti o.fl. [...] setja reglur um opnunartíma, auglýsingar og reki alla sameiginlega aðstöðu. Fyrirmynd getur verið Kringlan.“ Hér er um almannarými að ræða og því er sérkennilegt að borgin hugi að því að framselja valdið um hvernig almannarými skuli vera, í hendur annarra aðila eða fyrirtækja. Kringlan er dæmi um einkavæðingu almannarýmis í borgarlandinu, þar sem starfsemin byggir á sölu og kaupum á varningi og þjónustu. Það er mikilvægt að rýmið starfi í þágu almennings og því eru athugasemdir settar á bak við það að fyrirtæki eða óháður aðili sjái þar um rekstur samgöngumiðstöðvar. Þá er einnig mikilvægt að skilgreiningin á óháðum aðila sé sett skýrt fram. Borgarfulltrúi sósíalista veltir einnig fyrir sér hví borgin sjái sér ekki fært að reka þessa þjónustu beint sjálf og tryggja að rýmið henti þörfum almennings, óháð fjárhagsstöðu þeirra.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er húsnæðisskortur í Reykjavík. Skorturinn hefur verið viðvarandi og endurspeglast í mikilli verðhækkun íbúða. Koma þarf jafnvægi á húsnæðismarkaði og draga þannig úr verðhækkunum. Íbúakannanir hafa sýnt að færri geta búið vestarlega í borginni en vilja. Húsnæðisverð í borgarhlutanum er hátt og framboð eigna lítið. Sjálfstæðisflokkurinn vill mæta þessari eftirspurn og telur íbúabyggð á BSÍ-reitnum kjörið tækifæri. Á BSÍ-reitnum í dag er samgöngumiðstöð og bensínstöð. Með hliðsjón af örri þróun umhverfisvænna orkugjafa mun ekki reynast þörf næstu árin á þeim fjölda bensínstöðva sem nú finnast í borgarlandinu. Margar lóðanna mætti heldur nýta til uppbyggingar á hagkvæmu íbúðarhúsnæði. BSÍ-reiturinn er fimm hektarar að stærð og er allur í eigu Reykjavíkurborgar. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík telur rétt að reiturinn verði notaður til uppbyggingar á allt að 600 íbúðum með áherslu á íbúðir fyrir stúdenta og hagkvæmar einingar fyrir ungt fólk í nálægð við Háskóla Íslands, miðborgina og einhverja af stærstu vinnustöðum borgarinnar í stað þess að reisa þar samgöngumiðstöð enda BS á engan hátt miðja höfuðborgarsvæðisins og margir aðrir staðir heppilegir undir slíka starfsemi. Með því að fjölga íbúðum vestarlega og vinnustöðum austarlega í borginni mætti ná betra jafnvægi í samgöngum og borgarskipulagi.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Erfitt er að taka afstöðu til fjölmargra hluta tengdum þessu máli, samkeppni um deiliskipulag og þróun samgöngumiðstöðvar á U-reit enda liggur engin útfærsla fyrir á þessu stigi málsins. Flokkur fólksins sér engu að síður varla fyrir sér hvernig hægt er að streyma enn fleirum á þetta svæði í ljósi þeirra alvarlegu umferðarteppu sem myndast m.a. á Miklubraut og Kringlumýrarbraut í báðar áttir. Umferðaröngþveiti er djúpstæður vandi í Reykjavík og enda þótt hann sé mestur og verstur á háannatíma þá má segja að umferðin sé mikil allan daginn. Rísi samgöngumiðstöð við miðbæinn þarf að taka á umferðarvandanum og mætti sem dæmi létta á umferðinni með því að bæta ljósastýringar, stuðla að færslu einhverra fyrirtækja í úthverfin og gera vinnutíma þeirra sem starfa í miðbænum sveigjanlegri en nú er.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að Reykjavíkurborg stuðli að því að kalla til funda/örnámskeiðs, alla þá sem hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi og sem eru með atvinnuréttindi en eru ekki komnir í vinnu. Á þessum fundi yrði farið með þeim yfir lög um atvinnuleit, atvinnuréttindi, framfærslumál, skattkerfi, samgöngukerfi, skólakerfi og félagslega aðlögun. Hugmyndin er að umgjörð þessara funda verði afslöppuð, skemmtileg þar sem boðið verði upp á kaffi og spjall samhliða fræðslunni. Markmiðið er að hvetja þennan hóp sem á þess kost heilsufarslega til að fara sem fyrst út á vinnumarkaðinn og að þeir komist sem fyrst inn í íslenskt samfélag og geti farið að njóta góðs af öllu því sem það hefur upp á að bjóða. Lagt er til að það verði sérfundir fyrir Kúrda og sérfundir fyrir Araba og einnig aðra hópa eftir atvikum. Hér í borg eru að minnsta kosti tveir túlkar sem tala bæði málin, kúrdísku og arabísku og mætti nýta þá til hvorutveggja. Þessi tillaga, nái hún fram að ganga, myndi létta á Vinnumálastofnun og á starfsmönnum þjónustumiðstöðva svo ekki sé minnst á hvað hún myndi gera mikið fyrir það fólk sem hér um ræðir.
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Viðbrögð meirihlutans við þessum tveimur tillögum, annars vegar er varða sérstaka fræðslu fyrir innflytjendur og hins vegar íslenskunámskeið fyrir Kúrda og Araba og fleiri hópa eru mikil vonbrigði. Hér er verið að koma til skila ákalli fólks um nánari fræðslu, sértækari fræðslu og að komast sem fyrst á íslenskunámskeið þar sem það getur fengið útskýringar á sínu eigin tungumáli. Íslenskunámskeið eru haldin m.a. hjá Mími og Rauða krossinum en þar hefur stundum myndast bið. Aðilar og stofnanir þar með taldir félagsráðgjafar á þjónustumiðstöðvum sem vinna með innflytjendur eru flestir undir miklu álagi og myndu báðar þessar tillögur létta á þeim. Í andsvari meirihlutans má heyra bæði fáfræði og óvenjumikla neikvæðni gagnvart þessum málum. Það mætti jafnvel álykta að lítil tenging sé við líf og líðan t.d. þessara hópa sem nú eru orðnir nýir Íslendingar, fólk sem flúið hefur óbærilegar aðstæður í leit að öryggi. Fyrir það skiptir félagsleg aðlögun, atvinna og tungumálið mestu máli. Borgarfulltrúi Flokks fólksins veit það af reynslu vegna vinnu með hælisleitendum, sumum sem nú hafa fengið stöðu á Íslandi, að bæta má upplýsingagjöfina til muna m.a. um vinnumál, skattamál, framfærslumál, samgöngukerfi og fleira. Upplýsingar þurfa að vera veittar á forsendum hvers og eins ef eiga að nýtast viðkomandi.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan miðar að því að stuðla að því að komið verði á fót námskeiðum fyrir þá útlendinga „sem hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi og sem eru með atvinnuréttindi en eru ekki komnir í vinnu“. Fullyrða má að sá hópur sé ekki mjög fjölmennur í ljósi þess að þeir sem á annað borð þurfa atvinnuréttindi fá þau ekki nema að fá vinnu fyrst. Almennt verður að minna á að atvinnuleysi á Íslandi mælist undir 3% og atvinnuþátttaka erlendra ríkisborgara hefur alla tíð verið há. Sjálfsagt er að leita leiða til að bæta upplýsingagjöf til nýrra Reykvíkinga og vinna áfram að því með stofnununum borgarinnar, grasrótarsamtökum og tungumálaskólum án þess þó að einblína sérstaklega á ákveðna þjóðernishópa eða fólk í atvinnuleit.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að íslenskunámskeið fyrir Kúrda og Araba verði sett á laggirnar. Sem stendur eru íslenskunámskeið hjá Mími, hjá kirkjunni og hjá Rauða krossinum. Þetta er ekki nóg. Hér er verið að tala um námskeið þar sem Kúrdar fá meiri útskýringar á kúrdísku við málanámið. Sem stendur eru um það bil 100 Kúrdar á Íslandi. Lagt er til að samskonar íslenskunámskeið yrði fyrir Araba. Arabar eru fjölmargir hér á Íslandi og myndu njóta góðs af því komast á íslenskunámskeið af þessu tagi. Aðrir hópar sem þyrfti að huga að eru Persar og Afganar. Oft eru þessi námskeið þannig að margar þjóðir eru saman. Kennarar hafa ekki alltaf verið íslenskumælandi Kúrdar sem dæmi. Gera má því ráð fyrir að þessi námskeið sem hafi verið í boði séu ekki nægjanlega markviss og skilvirk. Vinnumálastofnun er að sinna mörgu en getur ekki sinnt öllu. Þessi tillaga, nái hún fram að ganga, myndi létta á Vinnumálastofnun og á starfsmönnum þjónustumiðstöðva og gera mikið fyrir það fólk sem hér um ræðir.
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Viðbrögð meirihlutans við þessum tveimur tillögum, annars vegar er varða sérstaka fræðslu fyrir innflytjendur og hins vegar íslenskunámskeið fyrir Kúrda og Araba og fleiri hópa eru mikil vonbrigði. Hér er verið að koma til skila ákalli fólks um nánari fræðslu, sértækari fræðslu og að komast sem fyrst á íslenskunámskeið þar sem það getur fengið útskýringar á sínu eigin tungumáli. Íslenskunámskeið eru haldin m.a. hjá Mími og Rauða krossinum en þar hefur stundum myndast bið. Aðilar og stofnanir þar með taldir félagsráðgjafar á þjónustumiðstöðvum sem vinna með innflytjendur eru flestir undir miklu álagi og myndu báðar þessar tillögur létta á þeim. Í andsvari meirihlutans má heyra bæði fáfræði og óvenjumikla neikvæðni gagnvart þessum málum. Það mætti jafnvel álykta að lítil tenging sé við líf og líðan t.d. þessara hópa sem nú eru orðnir nýir Íslendingar, fólk sem flúið hefur óbærilegar aðstæður í leit að öryggi. Fyrir það skiptir félagsleg aðlögun, atvinna og tungumálið mestu máli. Borgarfulltrúi Flokks fólksins veit það af reynslu vegna vinnu með hælisleitendum, sumum sem nú hafa fengið stöðu á Íslandi, að bæta má upplýsingagjöfina til muna m.a. um vinnumál, skattamál, framfærslumál, samgöngukerfi og fleira. Upplýsingar þurfa að vera veittar á forsendum hvers og eins ef eiga að nýtast viðkomandi.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt heimasíðu Mímis eru íslenskunámskeið fyrir arabísku- og kúrdískumælandi íbúa í boði næstu önn, þriðjudaga og fimmtudaga, 17:10 til 19:20. Fulltrúar meirihluta í borgarstjórn geta ekki að óathuguðu máli tekið undir fullyrðingar tillögutextans um að framboð námsins eigi að vera meira eða fellt dóma um gæði þess.
4. Fram fer umræða um loftslagsbreytingar af mannavöldum.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru eitt stærsta viðfangsefni stjórnmálanna. Við þeim verður að bregðast tafarlaust og þar geta borgir gegnt lykilhlutverki. Þétting byggðar, vistvænar samgöngur og breyttar ferðavenjur, sjálfbær innviðauppbygging, minni neysla, umhverfisvæn innkaup, betri úrgangsstjórnun, varðveisla líffræðilegs fjölbreytileika og grænna svæða, endurheimt votlendis, öflug skógræktarstefna og vitundarvakning meðal borgarbúa eru aðgerðir sem hafa áhrif. Til að ná kolefnishlutleysi fyrir 2040 þarf að hafa skýr og róttæk markmið og framfylgja þeim til hins ítrasta. Það er mikilvægt að það náist góð samstaða um að gera það.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja nauðsynlegt að fara í markvissar aðgerðir í loftslagsmálum. Þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur þéttingarstefna meirihlutans snúst upp í andhverfu sína. Há gjöld, skortur á hagstæðum byggingarlóðum og þungir skilmálar hafa skilað sér í því að meiri fjölgun hefur verið á landsbyggðinni en í höfuðborginni. Þessi dreifing byggðar veldur síðan þyngri umferð sem veldur mikilli losun. Þessari þróun þarf að snúa við. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til að minnka kolefnisspor með tillögum um að Reykjavík verði leiðandi í rafbílavæðingu. Stórbæta þarf aðgengi að hleðslustöðvum fyrir íbúa borgarinnar, ekki síst þá sem búa í fjölbýlum. Þannig auðveldum við fólki að nýta hreina íslenska orku. Reykjavík er í kjöraðstöðu sem helsti eigandi Orkuveitu Reykjavíkur til að leiða þetta verkefni. Það er mikilvægt að Reykjavíkurborg gangi fram með góðu fordæmi og leggi ríka áherslu á að ná settum markmiðum um rafbílavæðingu eigin bílaflota.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins styður allar aðgerðir sem eru til þess fallnar að berjast gegn loftlagsbreytingum. Það eru ótal aðgerðir sem tengjast samgöngum sem koma til greina bæði er varða samgöngur á jörðu og í lofti. Áherslan í þessari umræðu eins og meirihlutinn leggur hana upp einskorðast við aðeins fá atriði og þá langoftast við notkun einkabílsins í borginni. Flokkur fólksins vill líka benda á samgöngur í lofti. Ef horft er til þess mættu allir sem einn draga úr ferðum sínum til útlanda til að leggja sitt af mörkum í þessari baráttu. Flugvélar nota mikið eldsneyti og er útblástur þeirra gríðarmikill. En aftur að bílasamgöngum í borginni, þá má hnykkja á þeirri alkunnu staðreynd að aðgerðir sem miðast að því að leysa umferðarteppur og auka flæði umferðar í borginni eru vísar til að bæta loftgæði.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að innleiða forritunarkennslu í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Lagt er til að skipaður verði stýrihópur með fulltrúum meirihluta og minnihluta. Starfsmaður skóla- og frístundasviðs vinni með hópnum sem kalli til samstarfs sérfræðinga og fagaðila eftir þörfum. Stýrihópurinn skili niðurstöðum sínum fyrir 1. maí 2019 og innleiðing hefjist þá um haustið.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Borgarstjórn samþykkir að auka framboð á forritunarnámi og -kennslu í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Sérstök áhersla verði lögð á að veita kennurum í grunnskólum Reykjavíkur rík tækifæri til starfsþróunar í forritunarkennslu í tengslum við innleiðingu menntastefnu Reykjavíkur. Skóla- og frístundasviði verði falið að útfæra tillöguna í samræmi við áherslur menntastefnunnar á læsi sem einum af grundvallar hæfniþáttum stefnunnar, eflingu náttúruvísinda og stærðfræði og heildstæða innleiðingu stafrænnar tækni.
Greinargerð fylgir breytingartillögunni.
Samþykkt.
Tillagan er samþykkt svo breytt.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Full ástæða er til að hvetja til aukins framboðs á forritunarnámi og kennslu í grunnskólum borgarinnar. Börn og ungmenni eru virkir neytendur upplýsingatækni og fjölbreyttra snjalltækja en verkefnið er að virkja þau og valdefla sem skapandi og ábyrga notendur slíkra verkfæra. Það samræmist vel áherslum nýrrar menntastefnu um annars vegar aukið vægi náttúrugreina og stærðfræði og hins vegar heildstæða innleiðingu stafrænnar tækni. Mikilvægar forsendur þess að hægt verði að innleiða með markvissum hætti forritunarkennslu í skólum borgarinnar eru stuðningur stjórnenda og þekking kennara á þeim námslegu og kennslufræðilegu tækifærum sem liggja í fjölbreyttri forritunarkennslu sem fléttað er inn í kennslu mismunandi námsgreina. Því er brýnt að auka tækifæri kennara til starfsþróunar í forritunarkennslu með það að markmiði að fjölga í kjölfarið námstækifærum nemenda á þessu sviði.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Miðflokkurinn tekur heils hugar undir tillögu Sjálfstæðisflokks um innleiðingu forritunarkennslu í grunnskólum borgarinnar og telur að hér sé stigið mikilvægt skref í framþróun námskrár. Mikilvægt er að halda tímalínu tillögu svo nám geti hafist á haustönn 2019.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:
Lagt er til að upplýsingar um öll laun og kostnaðargreiðslur borgarfulltrúa verði gerðar aðgengilegar almenningi á vef Reykjavíkurborg.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 18.00 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum og Gunnlaugur Bragi Björnsson tekur sæti.
- Kl. 18.35 víkja Eyþór Laxdal Arnalds og Hildur Björnsdóttir af fundinum og Jórunn Pála Jónasdóttir og Ragnheiður Alda María Vilhjálmsdóttir taka sæti.
Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni til meðferðar forsætisnefndar.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Gegnsæi er núverandi meirihluta ákaflega mikilvægt, enda kemur sá vilji skýrt fram í meirihlutasáttmála. Nú ætti það að vera fullljóst að vinna stendur yfir á skrifstofu borgarstjórnar við að setja launakjör borgarfulltrúa á vefsíðu borgarinnar á aðgengilegu og auðlesanlegu formi, þar sem fram komi bæði laun, álagsgreiðslur og greiðslur fyrir stjórnarsetu á vegum b-hluta fyrirtækja. Sú undirbúningsvinna er unnin af forseta borgarstjórnar og forsætisnefnd, og ætti það ekki að hafa dulist neinum sem sæti á í forsætisnefnd að þessi vinna er á undirbúnings- og framkvæmdastigi. Bréf þess efnis var lagt fram á fundi forsætisnefndar 14. desember sl. og þar segir orðrétt: „Samkvæmt ósk forseta borgarstjórnar frá því í september sl. hefur skrifstofa borgarstjórnar unnið að því á síðustu vikum að setja upp sérstaka síðu með upplýsingum um þær reglur sem gilda um laun kjörinna fulltrúa ásamt fjárhæðum. Hér með tilkynnist forsætisnefnd að upplýsingasíðan sem verður vistuð undir síðu borgarstjórnar, verður birt á næstu dögum. Upplýsingarnar sem birtar verða hafa lengi verið aðgengilegar á heimasíðu Reykjavíkurborgar en ekki settar fram á jafnskýran hátt og nú verður gert. Á síðunni verður jafnframt tengill á gildandi samþykkt um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg og skyld gögn.“
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að skóla- og frístundasvið kanni hve mikill kostnaður var innheimtur af börnum og foreldrum og/eða forráðamönnum þeirra á síðasta ári vegna skemmtana, viðburða og ferða á vegum grunnskóla borgarinnar. Óskað er eftir upplýsingum um fjölda þeirra barna sem tóku þátt í skemmtunum, viðburðum og ferðum á vegum grunnskólanna á síðasta ári og fjölda þeirra sem ekki tóku þátt. Með því má áætla heildarkostnað fyrir þátttöku allra grunnskólabarna í öllum skemmtunum, viðburðum og ferðum á vegum skólanna. Óskað er eftir þessum upplýsingum svo hægt sé að meta það hvort innleiða megi þann lið inn í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, svo að félagslegir viðburðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsir. Hér er mikilvægt að taka fram að um er að ræða alla þá viðburði sem eru á einn eða annan hátt á vegum grunnskólanna, þ.m.t. skólaferðir, dansleiki, bekkjarkvöld og viðburði foreldrafélaga. Þá er einnig óskað eftir því að skóla- og frístundasvið kanni hvort munur sé á milli hverfanna í borginni hvað varðar útlagðan kostnað nemenda og foreldra og/eða forráðamanna þeirra vegna viðburða, skemmtana og ferða.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Lagt er til að skóla- og frístundasvið láti kanna á næsta skólaári umfang þess kostnaðar sem börn og forráðamenn þeirra þurfa að greiða vegna skemmtana, viðburða og ferða á vegum grunnskóla borgarinnar. Óskað verði eftir upplýsingum um þátttöku barna og kostnað þeirra af slíkum viðburðum, sundurliðað eftir skólum og hverfum borgarinnar.
Samþykkt.
Tillagan er samþykkt svo breytt.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Ekki liggja fyrir samræmdar upplýsingar um kostnað nemenda vegna skemmtana, ferða eða annarra viðburða sem þeir taka þátt í á vegum grunnskólanna í borginni. Hins vegar má gjarnan safna slíkum upplýsingum fram í tímann og leggur meirihlutinn til að það verði gert á næsta skólaári, svo fyrir liggi mat á umfangi þess kostnaðar og jafnframt hvort munur sé á þátttöku og kostnaði nemenda eftir hverfum í borginni.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er mikilvægt að félagslegir viðburðir á vegum grunnskólanna verði gjaldfrjálsir sérstaklega fyrir þau börn foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins. Í Reykjavík eru um 800 börn sem eiga foreldra sem eru í fjárhagserfiðleikum af ýmsum ástæðum. Sama ætti að gilda um gjöld vegna alls kyns annarra viðburða í skólatengdum þáttum eins og félagsmiðstöðvum borgarinnar. Það má aldrei verða svo að barn geti ekki tekið þátt í skólatengdum viðburðum vegna þess að foreldri getur ekki greitt uppsett gjald. Öll mismunun fer illa með börn. Flokkur fólksins styður því þessa tillögu að kannað verði hve mikill kostnaður er innnheimtur af foreldrum vegna skemmtanna, viðburða og ferða á vegum grunnskóla borgarinnar
8. Umræðu um niðurstöður viðræðuhóps um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu er frestað.
9. Fram fer umræða um tillögu Sósíalistaflokks Íslands um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013 og málsmeðferð hennar.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hin upprunarlega tillaga Sósíalistaflokks Íslands hefði falið í sér umtalsverðan kostnaðarauka í borgarkerfinu bæði vegna launakostnaðar áheyrnarfulltrúa og lengdra ráðsfunda. Leitað var leiða til að ná saman um tilraunir til að koma til móts við hugmyndirnar en ekki náðist saman í þeim efnum. Öll framboð hafa áfram, lögum samkvæmt, fulltrúa í borgarráði og öðrum ráðum sem fara með fullnaðarafgreiðsluheimildir. Þannig er tryggt að þau geti haft innsýn og aðkomu á öllum málum í borgarkerfinu, óháð því fagráði sem fer með stefnumótun hvers málaflokks.
10. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 6. og 13. desember sl.
14. liður fundargerðarinnar frá 13. desember sl.; viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2018, er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
15. liður fundargerðarinnar frá 13. desember sl.; viðauki við fjárfestingaáætlun Reykjavíkurborgar 2018, er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
11. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 14. desember, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 26. nóvember og 10. desember og skipulags- og samgönguráðs frá 5. og 12. desember.
2. liður fundargerðar forsætisnefndar, samþykkt fyrir umhverfis- og heilbrigðisráð, er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
3. liður fundargerðar forsætisnefndar, samþykkt fyrir skipulags- og samgönguráð, er samþykktur.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Fundi slitið kl. 19:40
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Pawel Bartoszek
Björn Gíslason Alexandra Briem
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 18.12.2018 - prentvæn útgáfa