Borgarstjórn - 18.11.2014

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2014, þriðjudaginn 18. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Eva Einarsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Hildur Sverrisdóttir, Börkur Gunnarsson og Áslaug Friðriksdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík. 

- Kl. 15.22 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum og Börkur Gunnarsson víkur af fundi.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja stefnu meirihluta borgarstjórnar í húsnæðismálum ekki skýra og aðgengilega enda stefnumótunarvinna meirihlutans lítt eða ekki aðgengileg minnihlutanum. Langflestar framkvæmdir sem kynntar hafa verið sem framtak meirihlutans í borginni eru að sjálfsögðu á vegum einkaaðila en ekki borgarinnar. Ljóst er eftir umræður í borgarstjórn að kosningaloforð snerust um að eigna sér uppbyggingu einkaaðila á allt að 3.000 leiguíbúðum á kjörtímabilinu. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á eðlilega samkeppni á leigumarkaði og telur að ekki eigi að handvelja samstarfsaðila eins og nú virðist raunin. Reykjavíkurborg ætti frekar að bjóða út lóðir gegn því að lóðarhafar gangi að ákveðnum skilyrðum sem fallin eru til þess að fjölga leiguíbúðum. Aðalmarkmið borgarinnar á að vera að skapa ramma sem auðveldar einkaaðilum að byggja og leigja út ódýrari íbúðir.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Uppbyggingaráætlun borgarinnar er í hæsta máta ótrúverðug og lýsum við yfir vonbrigðum okkar með þá aðferðarfræði að meirihlutinn í borginni sé að treysta nánast alfarið á framkvæmdir einkaaðila/fasteignafélaga sem kaupa lóðir af fjármálafyrirtækjum og dótturfélögum þeirra við framkvæmd kosningaloforðs ársins um 2500-3000 nýjar leigu- og búseturéttaríbúðir. Kjósendur stóðu velflestir í þeirri trú að meirihlutinn ætlaði að framkvæma eitthvað sjálfur. Það er staðreynd að núverandi meirihluti ætlar næstu árin að reyna að sinna, að hluta til, þeirri lögbundnu skyldu sinni skv. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sem hann vanrækti svo alvarlega á síðasta kjörtímabili með því að bæta við 500 félagslegum leiguíbúðum næstu 5 árin þrátt fyrir að í dag séu um 850 manns á biðlista. Ekki er gert ráð fyrir því að koma til móts við þörfina sem mun skapast næstu 3-5 árin hjá Félagsbústöðum. Þrátt fyrir yfirlýsingar um fjölgun félagslegra leiguíbúða til að bæta upp þörfina á tímabilinu 2010-2014, þá söknum við þess að sjá enga stefnu um kaup eða uppbyggingu á félagslegum leiguíbúðum á vegum Félagsbústaða í þeim fasteignaverkefnum sem kynnt hafa verið og allt er á reiki um fjölda íbúða, tímasetningar og útfærslu og kostnað hinna svokölluðu Reykjavíkurhúsa. Við fögnum að Reykjavíkurborg ætli að úthluta lóðum fyrir stúdenta, aldraða, öryrkja og fatlaða og vonumst til þess að lóðunum verði úthlutað sem fyrst. Í húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar frá 2011 er fjallað um að sérstakur stuðningur í formi lóðaúthlutana verði endurskoðaður þannig að húsnæðissamvinnufélög og félagasamtök, sem munu bjóða upp á leigu- og búseturéttaríbúðir á viðráðanlegum kjörum ætlað ungu fólki og tekjulægra fólki, fái forgang á úthlutun lóða að uppfylltum þeim skilyrðum sem Reykjavíkurborg setur. Slíkt er varla að finna í uppbyggingaráætlun meirihlutans né heldur liggja fyrir upplýsingar um framboð á lausum lóðum sem Reykjavíkurborg gæti úthlutað fyrir slíkt húsnæði.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Uppbygging húsnæðis í Reykjavík ber þess merki að miklar framkvæmdir einkaaðila standa fyrir dyrum. Það er jákvætt. Það er einnig mikilvægt að áform meirihlutans um 2.500-3.000 leigu- og búseturéttaríbúðar í samstarfi við ýmsa aðila gangi eftir. Hvort tveggja skiptir miklu máli í þeim úrbótum sem nauðsynlegar eru á húsnæðismarkaði. 

2. Lögð fram svohljóðandi ályktunartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn skorar á Alþingi að samþykkja áfengisfrumvarpið svokallaða sem kveður á um að áfengi verði selt í verslunum. Slík breyting á verslun með áfengi er mikið og mikilvægt hagsmunamál fyrir borgina og borgarbúa þar sem hún mun stuðla að markmiðum nýs aðalskipulags borgarinnar um sjálfbærni hverfa svo að borgarbúar geti nálgast daglega verslun og þjónustu í nærumhverfi sínu. Áfengi er hluti af neysluvöru borgarbúa og ljóst að fáar og illa staðsettar áfengisverslanir ríkisins vinna gegn þeirri þróun. Verslun með áfengi í hverfisverslunum mun hins vegar stuðla að því markmiði aðalskipulags að umhverfi daglegrar verslunar borgarbúa verði hverfisvæddara í nærumhverfi borgarbúa á sjálfbærari og samkeppnis- og umhverfisvænni hátt.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. 

3. Fram fer umræða um íþrótta- og æskulýðsmál í Fossvogi og Bústaðahverfi. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja tillögu um viðræður við Knattspyrnufélagið Víking varðandi viðhaldsmál, húsnæðismál, skipulagsmál o.s.frv. sem samþykkt var í bogarráði 6. nóvember sl. og fagna því að útfærsla málsins sé unnin í samráði við Kópavogsbæ. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að staðið verði við fyrirheit sem Reykjavíkurborg gaf Víkingi í júlí 2008 um stækkun athafnasvæðis félagsins eftir að leigusamningur um lóð við Stjörnugróf rennur út árið 2016. Er því lagst gegn því að umræddur lóðarleigusamningur verði framlengdur og skýr fyrirvari gerður við það atriði í umræddri tillögu. Æskilegt er að úrlausn lóðamála vinnist í góðu samstarfi Víkings, Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Gróðrarstöðvarinnar Markar og starfsemi gróðrarstöðvarinnar verði fundinn nýr staður.

4. Fram fer umræða um opna fundi ráða og nefnda Reykjavíkurborgar. 

5. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 4. nóvember 2014, ásamt undirrituðu samkomulagi um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli, dags. 19. apríl 2013, sbr. 10. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. nóvember 2014. 

- Kl. 20.00 víkur Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir af fundinum og Greta Björg Egilsdóttir tekur þar sæti. 

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks staðfesta ekki samkomulag sem Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, taldi sig vera að gera við innanríkisráðherra fyrir einu og hálfu ári – einni viku fyrir alþingiskosningar. Samkomulagið var reyndar ekki tekið alvarlegar en svo af þáverandi formanni borgarráðs að það var aldrei borið upp í borgarráði til samþykktar eða synjunar og hefur því ekki hlotið gildi. Það er vægast sagt undarlegt að staðfesta samkomulag við Ögmund Jónasson einu og hálfu ári eftir að hann hefur látið af embætti innanríkisráðherra. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að ekki verði teknar ákvarðanir varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar eða fleiri samningar gerðir meðan svokölluð Rögnunefnd er að störfum.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Við höfnum því að samþykkja samkomulag það sem lagt er hér fram undir heitinu „Samkomulag um endurbætur á aðstöðu farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli“ dagsett 19. apríl 2013. Það er ótækt að núverandi borgarstjóri leggi fram fyrir nýja borgarstjórn samkomulag til staðfestingar sem undirritað var af fyrrverandi borgarstjóra sem fór fyrir fyrrverandi meirihluta við fyrrverandi innanríkisráðherra fyrrverandi ríkisstjórnar. Slík vinnubrögð eru með öllu óásættanleg fyrir meirihluta sem ætlar að hafa stjórnsýsluna opnari, samræðuna upplýstari og sáttina meiri. Borgarstjóri verður að fara að samningaborðinu aftur með umboð núverandi borgarstjórnar til að ná samkomulagi við núverandi innanríkisráðherra svo að samningur verði gildur. Að leggja fram til samþykktar 18 mánaða gamalt samkomulag milli aðila sem ekki eru við völd í dag er ótækt. Þá hefur fyrrverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, ritað grein þar sem hann lýsir því að samkomulagið sé með öllu ómerkt.  

6. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 6. og 13. nóvember.

7. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 14. nóvember, íþrótta- og tómstundaráðs frá 31. október, skóla- og frístundaráðs frá 5. nóvember, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 3. nóvember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 5. og 12. nóvember og velferðarráðs frá 5. nóvember. 

Fundi slitið kl. 21.17

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Sóley Tómasdóttir

Áslaug Friðriksdóttir Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 18.11.2014 - prentvæn útgáfa