Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2016, þriðjudaginn 18. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.02. Voru þá komin til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Magnea Guðmundsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Hildur Sverrisdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram drög að Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, dags. 16. október 2016. R14090109
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram þá málsmeðferðartillögu að atkvæðagreiðslu um málið verði frestað og að stefnan verði sérstaklega sett til heildstæðrar yfirferðar hjá borgarlögmanni áður en atkvæðagreiðsla fer fram.
Tillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Lagt er til að stefnan breytist sem hér segir: undir 1.3.: Settur sé punktur eftir „varpað geti rýrð á störf þess“.
Breytingartillagan er samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Lagt er til að stefnan breytist sem hér segir: undir 1.3.: Út falli setningin sem byrjar: „Ekki verður vikið frá þeirri vernd…“.
Tillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Lagt er til að stefnan breytist sem hér segir: undir 2.1.3: Setningin hljómi: „Reykjavíkurborg einsetur sér að vinna gegn hverskyns kynferðislegu ofbeldi og mansali. Af þeim sökum er mikilvægt, í samvinnu við lögreglu, að sporna gegn rekstri staða þar sem kynferðisofbeldi þrífst.“
Tillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar svo breytt, er samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna nýsamþykktri mannréttindastefnu. Í svo yfirgripsmiklu plaggi er það aldrei svo að allir geti verið fyllilega sammála um alla þætti þess en telja borgarfulltrúarnir að þar sé að mestu leyti að finna heildstæða stefnu til gagns og góðs grunns að mannréttindavernd á vegum borgarinnar. Borgarfulltrúarnir fagna að breytingartillaga þeirra varðandi tjáningarfrelsi starfsmanna hafi verið samþykkt og telja að stefnan njóti góðs af því að svo mikilvæg réttindamál séu skýr og að tjáningarfrelsi starfsmanna utan vinnutíma sé engum lagalegum vafa undirorpið.
2. Fram fer umræða um bætt starfsumhverfi kennara og aðgerðir til að auka nýliðun í kennarastéttinni. R16100278
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Nýliðun og bætt starfsumhverfi kennara er eitt mikilvægasta verkefni menntamála á komandi árum. Reykjavíkurborg tekur nú af skarið með því að bjóða fulltrúum kennara, háskóla og ríkisins til samstarfs um mótun aðgerða til að mæta nýliðunarþörf kennara. Borgin gekk fram fyrir skjöldu í samstarfi við önnur sveitarfélög strax í upphafi kjörtímabilsins með verulegum leiðréttingum á kjörum kennara í samanburði við aðra háskólamenntaða með sambærilega menntun. Í þeirri vinnu sem framundan er verður m.a. leitað leiða til að draga úr brotthvarfi kennara, efla kennaramenntun og starfsþróun, auka aðsókn í kennaranám og bæta sjálfsmynd og vinnuumhverfi kennara með markvissum aðgerðum.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Ótímabært og gríðarlega mikið brotthvarf kennara úr starfsstétt sinni er staðreynd, sem og lítil nýliðun. Þessi staðreynd er ekki ný af nálinni, þar sem í samstarfssáttmála meirihlutans frá 2014 er þetta eitt af markmiðum sem stefnt skuli að vinna að því að breyta. Við teljum það því miður hve mjög hefur dregist að setja þetta brýna mál á oddinn og bregðast við með beinum aðgerðum miklu fyrr á kjörtímabilinu. Óheyrilegt vinnuálag sem má að einhverju leyti rekja til skóla án aðgreiningar, sem og skorti á stuðningi og sérkennslu, andlegt álag, félagslegt andstreymi, léleg vinnuaðstaða og skortur á jákvæðum samskiptum innan skólastofnunar hafa áhrif en allt eru þetta þættir sem þarf að skoða. Er ástæða þessa mikla brottfalls stefna um skóla án aðgreiningar? Mikilvægt er að í þeirri vinnu sem lagt verður af stað með nú og formaður skóla- og frístundaráðs hefur boðað, verði leitað eftir afstöðu kennara borgarinnar til þess.
3. Fram fer umræða um húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík. R16100263
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Lóðaskortur borgarinnar hefur skapað mikil vandamál. Þó svo að met hafi verið í útgáfu byggingarleyfa á síðasta ári þá tekur tíma að byggja. Íbúðum hefur einungis fjölgað um 1082 í Reykjavík á 5 ára tímabili, þ.e. frá árslokum 2010 til ársloka 2015, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Þjóðskrár. Þær lóðir sem verið er að byggja á eða til stendur að byggja á eru flestar í höndum fasteignafélaga og banka á dýrustu stöðunum í borginni og hæpið að þar verði byggðar litlar og ódýrar íbúðir en mikil þörf er á slíkum íbúðum. Það gengur of hægt að byggja til að mæta þeirri miklu eftirspurn sem er og slíkt leiðir af sér verðhækkanir. Lítið lóðaframboð borgarinnar og þétting byggðar miðsvæðis leiðir af sér hærra verð þar sem verið er að byggja á dýrustu stöðum bæjarins allt á kostnað unga fólksins sem hefur ekki ráð á því húsnæði sem er í boði.
4. Fram fer umræða um friðarborgina Reykjavík. R16100264
- Kl. 19.22 víkur Halldór Auðar Svansson af fundinum og Þórgnýr Thoroddsen tekur sæti.
5. Fram fer umræða um umferðaröryggismál. R16100265
6. Fram fer umræða um veikindahlutfall starfsmanna Reykjavíkurborgar. R16010159
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Hátt veikindahlutfall starfsmanna Reykjavíkurborgar er áhyggjuefni. Bæði vegna þeirra sem í hlut eiga og kostnaðarins sem af því hlýst. Þumalputtareglan hefur verið sú hjá atvinnurekendum að ef veikindahlutfallið sé komið yfir 4% á ársgrundvelli þá sé það á rauðu svæði en helst vilji atvinnurekendur sjá tölur frá 0 upp í 2-3% yfir árið. Veikindahlutfall starfsmanna Reykjavíkurborgar var langt yfir því eða 5,9% árið 2015. Ljóst er að aðgerðir meirihlutans frá því að rauðar tölur birtust 2014 hafa engan árangur borið miðað við þær tölur sem hér liggja fyrir.
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja til að í ljósi starfsemi þeirrar sem Hjálpræðisherinn stendur fyrir og hefur staðið fyrir í Reykjavík í rúma öld verði samtökin undanþegin byggingarréttargjaldi vegna úthlutunar lóðar við Suðurlandsbraut 72-74. R16020171
Tillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Hjálpræðisherinn hefur í meira en 120 ár staðið fyrir umfangsmikilli hjálpar- og góðgerðastarfsemi í Reykjavík. Samtökin hófu að veita heimilislausu fólki mat og húsaskjól auk margvíslegrar annarrar þjónustu löngu áður en eiginlegri velferðarþjónustu var komið á í borginni og hafa gert það með öflugum hætti allar götur síðan. Hjálpræðisherinn hyggst nú flytja á nýjan stað í borginni og efla um leið starfsemi sína. Í ljósi þessarar starfsemi er því rétt að samtökin verði undanþegin byggingarréttargjaldi vegna úthlutunar lóðar við Suðurlandsbraut 72-74 en greiði hins vegar gatnagerðargjald. Við hörmum að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna skuli kjósa að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina um að samtökin verði undanþegin byggingarréttargjaldi vegna umræddrar byggingar. Til samanburðar má nefna að árið 2013 ákvað meirihluti Samfylkingar og Bjartrar framtíðar að úthluta öðru skráðu trúfélagi, Félagi múslíma, lóð undir moskubyggingu við sömu götu og var sú lóðarúthlutun undanþegin bæði byggingarréttargjaldi og gatnagerðargjaldi, ásamt því að í því tilviki voru engar kvaðir um skil lóðar ef frestir væru ekki virtir.
8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Borgarstjórn samþykkir að fara í aðgerðir til að auðvelda yfirsýn yfir framræst land innan borgarmarkanna með það að markmiði að hvetja til samstarfs um aukinn árangur í loftslagsmálum. R16100267
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar í loftslagshópi borgarstjóra.
9. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 6. og 13. október. R16010001
- 13. liður fundargerðarinnar frá 6. október; viðbótarfjárveiting til skóla- og frístundasviðs vegna aukins kostnaðar íþróttafélaga við frístundaakstur fyrir yngstu nemendur grunnskólanna samþykktur.
- 15. liður fundargerðar borgarráðs frá 13. október; viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2016 vegna flutnings á afgangi og halla ársins 2015, vegna endurskoðunar á hagræðingu skóla- og frístundasviðs og vegna afskrifta sviðsins samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata.
10. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 7. október, fundargerð mannréttindaráðs frá 11. október, fundargerð menningar- og ferðamálaráðs frá 10. október, fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 12. október, fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 5. og 12. október, fundargerð velferðarráðs frá 6. október. R16010116
Fundi slitið kl. 21.15
Líf Magneudóttir
Kjartan Magnússon Skúli Helgason
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 18.10.2016 - Prentvæn útgáfa