Borgarstjórn - 18.03.2014

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2014, þriðjudaginn 18. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar auk borgarstjóra eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, S. Björn Blöndal, Páll Hjaltason, Eva Einarsdóttir, Diljá Ámundadóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Oddný Sturludóttir, Dagur B. Eggertsson, Marta Guðjónsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um ályktunartillögu borgarstjórnar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna Íslands að Evrópusambandinu.

Samþykkt með 15 atkvæðum að taka svohljóðandi ályktunartillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna þeim vilja sem fram hefur komið að ná sem breiðastri sátt um næstu skref í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Með því getur Alþingi leitast við að vinna gegn þeirri tortryggni sem einkennt hefur umræðuna um málið frá því að ríkisstjórn Samfylkingar og VG hóf aðildarviðræður á árinu 2009 án þess að vísa þeirri ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Trúverðugleiki borgarfulltrúa Samfylkingar og Bjartrar framtíðar/Besta flokksins er lítill þegar kemur að lýðræðislegum vinnubrögðum í ljósi þess m.a. að mótmæli 70.000 einstaklinga gegn því að Reykjavíkurflugvöllur yrði færður úr Vatnsmýrinni í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur voru höfð að engu fyrir fáeinum mánuðum. Eins var farið með mótmæli foreldra vegna sameiningar skóla í Reykjavík. Ítrekuð er sú stefna borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins að vinna að niðurstöðum allra mála í góðri sátt við borgarbúa og að vísa ákvörðunum í mikilvægum málum til þeirra og er Alþingi hvatt til að kanna allar leiðir sem færar eru til að vinna í víðtæku samráði.
Tillagan er felld með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Lögð fram svohljóðandi ályktunartillaga borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna:

Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á Alþingi að tryggja aðkomu þjóðarinnar að ákvörðun um framhald aðildarviðræðna Íslands að Evrópusambandinu. Í samræmi við gefin fyrirheit verði dregin til baka tillaga um að viðræðum verði slitið og ákvörðun um framhald þeirra sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. Með því mun ríkisstjórnin leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.
Tillagan er samþykkt með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að upplýsingar um árangur hvers skóla í einstökum greinum PISA könnunar 2012, lesskilningi, náttúrufræðilæsi og stærðfræðilæsi, verði sendar viðkomandi skólastjórnendum, skólaráði og stjórn foreldrafélags í því skyni að hvetja til upplýstrar umræðu um kennsluhætti og námsárangur. Umræddar upplýsingar liggja nú þegar fyrir þar sem þær hafa verið unnar af tölfræði- og rannsóknaþjónustu skóla- og frístundasviðs.

Tillögunni er vísað frá með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillögunni er vísað frá enda hefur það verið stefna skólayfirvalda um margra ára skeið að skólaráð fjalli um niðurstöður prófa og kannana og það er skólastjórans að bera ábyrgð á því. Borgarfulltrúar VG, Besta flokksins og Samfylkingarinnar treysta því að eftir þessari stefnu sé unnið en hvetja til þess að skólaráðin ákveði í góðu samráði við fulltrúa foreldra í skólaráðinu hvernig kynning og samtal um stöðu skólans fer fram. Það er farsælast að miðstýra ekki slíkri kynningu heldur treysta hverju skólasamfélagi til að fjalla um stöðu sinna nemenda.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar Bjartrar framtíðar/Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna skuli vísa frá tillögu um að árangur hvers skóla í einstökum greinum PISA-könnunar 2012, lesskilningi, náttúrufræðilæsi og stærðfræðilæsi, verði sendar viðkomandi skólastjórnendum, skólaráði og stjórn foreldrafélags. Markmið tillögunnar er að tryggja að foreldrar fái tiltækar upplýsingar um árangur skóla barna þeirra og hvetja til upplýstrar umræðu um kennsluhætti og námsárangur. Markmið tillögunnar er hins vegar ekki að etja skólum saman og benda í ásökunarstíl á þann skóla sem skilar lökustum árangri eins og borgarfulltrúar meirihlutans hafa haldið fram. Rétt er að benda á að niðurstöður einstakra skóla í samræmdum prófum hafa verið birtar frá aldamótum og viðurkenna nú flestir að birting slíkra upplýsinga sé til góðs og veiti foreldrum mikilvægar upplýsingar um skóla barna þeirra sem og skólakerfið í heild. Niðurstaða málsins er skýr: Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja að foreldrar grunnskólabarna fái upplýsingar um útkomu grunnskóla þeirra í PISA-könnuninni. Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar/Besta flokksins og Vinstri grænna vilja ekki veita foreldrum þessar upplýsingar.

Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tillögunni er vísað frá vegna þess að þetta verklag er þegar í gildi. Stjórnendur og skólaráð fá upplýsingar um stöðu skóla. Í skólaráðum sitja foreldrar kosnir samkvæmt starfsreglum foreldrafélags hvers skóla. Skólaráðum er best treystandi til að virkja skólasamfélagið til samráðs og samtals um hagsmuni skólans og velferð nemenda. Miðstýring borgarstjórnar á því hvernig það fer fram er ekki til bóta. Allt tal um að borgarfulltrúar vilji ekki veita foreldrum upplýsingar um stöðu grunnskólanna er misskilningur eða útúrsnúningur og lykta sjónarmið Sjálfstæðisflokksins mjög af vantrausti til stjórnenda og skólaráða

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Það eru rangfærslur sem fram koma í bókun meirihlutans að umrætt verklag sé nú þegar í gildi. Rétt er að skólastjórnendur fá slíkar upplýsingar en með því að þeir leggi þær fram í skólaráði þar sem tveir fulltrúar foreldra sitja, er ekki tryggt að allir foreldrar í viðkomandi skóla sem óska eftir slíkum upplýsingum fái þær. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja tryggja að allir foreldrar fái sem víðtækastar upplýsingar um stöðu skóla barna sinna, hvort sem þeir sitja í skólaráði eða ekki.

3. Fram fer umræða um frístundir í Reykjavík.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ódýrari frístundir voru eitt helsta kosningamál Samfylkingarinnar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Í málflutningi frambjóðenda flokksins kom oft fram að með ,,ódýrari frístundum“ væri átt við lækkun á kostnaði fjölskyldna vegna þátttöku barna og unglinga í uppbyggilegu frístundastarfi. Í viðtali við oddvita Samfylkingarinnar frá 2. mars 2010 segir t.d. að markmið ,,ódýrari frístunda“ sé að lækka kostnað fjölskyldna og einfalda aðgengi að íþróttum, frístundum og listnámi og stefna þannig að almennari og meiri þátttöku á verði sem fleiri ráði við. Í kjölfar umræddra kosningaloforða mynduðu borgarfulltrúar Samfylkingarinnar meirihluta með Besta flokknum og síðan hafa þátttökugjöld fyrir flestar ef ekki allar frístundir á vegum borgarinnar hækkað verulega. Þá hafa mörg íþróttafélög verið knúin til hækkana á æfingagjöldum barna og unglinga á kjörtímabilinu þar sem samningar milli þeirra og Reykjavíkurborgar voru ekki verðbættir og framlög borgarinnar því lækkuð verulega að raungildi. Fróðlegt er að sjá með hvaða hætti Samfylkingin efnir kosningaloforð sín.

Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Áherslur Besta flokksins og Samfylkingarinnar um ódýrari frístundir eru greinilegar síðustu misserin. Má þar nefna jákvæð viðbrögð íþróttahreyfingarinnar við hvatningu borgaryfirvalda um aukna systkinaafslætti og afslætti þvert á greinar, hækkun frístundakortsins um 20% og mikla viðleitni bæði borgaryfirvalda og íþróttahreyfingarinnar til að tryggja aðgengi allra barna að uppbyggilegum frístundum.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

Frítíminn er sjálfstæður og mikilvægur hluti af lífi fólks. Ung en vaxandi stétt frístundafræðinga hefur haft gríðarleg áhrif á þjónustuna sem þó hefur ekki verið skilgreind eða rædd sem skyldi innan borgarkerfisins. Nauðsynlegt er að taka markvissar á málum, tryggja farveg og fjármagn til að frístundin fái að vaxa að dafna, að hún verði án aðgreiningar og fyrir alla borgarbúa. Aðstöðumunur barna eftir aldri er ólíðandi, að ekki sé talað um mismunun vegna fötlunar eða uppruna. Tryggja verður þjónustu við börn í 5.-7. bekk og 16-18 ára, viðeigandi stuðning við þau sem þurfa og að öll börn viti af þeirri þjónustu sem í boði er. Að sama skapi verður að vinna að heildstæðri frístundaþjónustu þar sem gamaldags múrar milli fagsviða hindra aðgengi ákveðinna hópa. Til að svo megi vera þarf að tryggja frjóan jarðveg og nægilegan stuðning við fagfólk, auka fjármagn í málaflokkinn og stuðla að bættri nýtingu þess.

4. Fram fer umræða um undirbúning og samráð við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015.

5. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 6. mars.

6. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 13. mars.

7. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 14. mars, íþrótta- og tómstundaráðs frá 28. febrúar, mannréttindaráðs frá 25. febrúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 10. mars, skóla- og frístundaráðs frá 5. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 5. og 12. mars og velferðarráðs frá 6. mars.

Fundi slitið kl. 19.03

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 18.03.2014 - prentvæn útgáfa