Borgarstjórn - 18. janúar 2001

Borgarstjórn

2

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2001, fimmtudaginn 18. janúar, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 17.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Helgi Hjörvar, Hrannar Björn Arnarsson, Sigrún Magnúsdóttir, Helgi Pétursson, Sólveig Jónasdóttir, Anna Geirsdóttir, Alfreð Þorsteinsson, Kjartan Magnússon, Guðlaugur Þór Þórðarson, Jóna Gróa Sigurðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Kristján Guðmundsson og Ólafur F. Magnússon. Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Kristbjörg Stephensen.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 9. janúar. Forseti ákvað að 14. liður fundargerðarinnar, Staðardagskrá 21, yrði ræddur sem sérstakur dagskrárliður.

- Kl. 17.10 vék Sigrún Magnúsdóttir af fundi og Árni Þór Sigurðsson tók þar sæti.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks endurfluttu tillögu undir 20. lið fundargerðarinnar um að auglýsingaskilti, sem stendur á þríhyrndum grasbletti á mótum Sóleyjargötu, Njarðargötu og Hringbrautar, verði fjarlægt.

2. Lagður fram 14. liður fundargerðar borgarráðs frá 9. janúar.

- Kl. 17.55 vék Árni Þór Sigurðsson af fundi og Óskar Bergsson tók þar sæti. - Kl. 18.05 vék Anna Geirsdóttir af fundi og Kolbeinn Óttarsson Proppé tók þar sæti. - Kl. 18.20 tók Guðrún Pétursdóttir sæti á fundinum og Kristján Guðmundsson vék af fundi. - Kl. 18.35 tók Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sæti á fundinum og Guðrún Pétursdóttir vék af fundi. - Kl. 19.20 var gert fundarhlé. - Kl. 19.50 var fundi fram haldið og vék þá Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi og Guðrún Pétursdóttir tók þar sæti. Þá tók Sigrún Magnúsdóttir sæti á fundinum og Óskar Bergsson vék af fundi. Jafnframt tók Steinunn Valdís Óskarsdóttir sæti á fundinum og Sólveig Jónasdóttir vék af fundi.

Endurflutt tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að fjarlægja auglýsingaskilti sbr. 1. lið fundargerðarinnar, felld með 8 atkv. gegn 7.

Samþykkt með 15 samhlj. atkv. að vísa 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. janúar til borgarráðs.

3. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 16. janúar.

- Kl. 20.30 vék Alfreð Þorsteinsson af fundi og Óskar Bergsson tók þar sæti. - Kl. 20.35 tók Ólafur Kr. Hjörleifsson við fundarritun af Gunnari Eydal.

Forseti ákvað að 32. liður fundargerðarinnar, flugvallarhugmyndir á höfuðborgarsvæðinu, yrði ræddur sem sérstakur dagskrárliður.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað vegna 8. liðar:

Ég tel að vinnubrögð yfirdýralæknis í tengslum við nýlegan innflutning á nautakjöti frá Írlandi, þar sem kúariða er landlæg, séu óábyrg og óverjandi og feli í sér óþarfa áhættu gagnvart heilsu og öryggi almennings. Til að slík vinnubrögð endurtaki sig ekki tel ég það nauðsynlegt að yfirdýralæknir taki ábyrgð á gjörðum sínum og segi starfi sínu lausu. Yfirmaður hans, landbúnaðarráðherra, ætti annað hvort að viðurkenna að hér hafi átt sér stað mistök, sem ekki verða endurtekin, eða bera ábyrgð á verknaðinum með yfirdýralækni og segja af sér.

Samþykkt með 15 samhlj. atkv. að vísa 31. lið fundargerðarinnar, þriggja ára áætlun, til síðari umræðu.

4. Lagður fram 32. liður fundargerðar borgarráðs frá 16. janúar.

5. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 10. janúar.

6. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 15. janúar.

7. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 8. janúar. Samþykkt með samhlj. atkv.

8. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 10. janúar. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með 15 samhlj. atkv.

9. Lögð fram verðskrá Orkuveitu Reykjavíkur; síðari umræða. Samþykkt með 15 samhlj. atkv.

10. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Borgarstjórn samþykkir að skipa sérstaka stjórn til að sjá um málefni Elliðaánna og nánasta umhverfi. Stjórnin verði þriggja manna, skipuð af borgarráði. Til að undirbúa stofnun slíkrar stjórnar samþykkir borgarstjórn að fela borgarráði að skipa undirbúningshóp skipaðan fulltrúa meirihluta og fulltrúa minnihluta ásamt borgarlögmanni. Undirbúningshópurinn skili tillögum, sem feli í sér samþykktir og verkefnalýsingu fyrir væntanlega stjórn og aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til borgarráðs fyrir lok febrúar 2001.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi frávísunartillögu:

Fyrr á fundinum var til umræðu niðurstaða starfshóps um málefni lax- og silungsvatnasvæða í borgarlandinu sem samþykkt var í borgarráði 16. janúar s.l. Þar var samþykkt að fela umhverfisnefnd forræði í málefnum allra vatnasvæðanna, í því skyni að einfalda og efla stjórnskipan málaflokksins. Borgarstjórn hefur því þegar á þessum fundi ákveðið hvernig farið skuli með málefni Elliðaánna. Tillagan er því óþörf og er vísað frá.

Frávísunartillagan samþykkt með 8 atkv. gegn 7.

Fundi slitið kl. 01.34.

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Helgi Hjörvar

Ólafur F. Magnússon Hrannar Björn Arnarsson