Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2019, þriðjudaginn 17. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:00. Voru þá komin til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Diljá Ámundadóttir Zoega, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Alexandra Briem, Ellen Jacqueline Calmon, Sabine Leskopf, Hjálmar Sveinsson, Ragna Sigurðardóttir, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Diljá Mist Einarsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Baldur Borgþórsson, Kolbrún Baldursdóttir, Daníel Örn Arnarson, Alexander Witold Bogdanski, Örn Þórðarson, Marta Guðjónsdóttir, Egill Þór Jónsson og Katrín Atladóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Borgarstjórn samþykkir að birta svohljóðandi yfirlýsingu um Fjölmenningarborgina Reykjavík í samræmi við þátttöku borgarinnar í verkefninu „Intercultural Cities“:
Reykjavík er fjölmenningarborg. Við fögnum fjölbreytileika, jafnrétti, samskiptum og þátttöku allra. Við erum stolt af því að vera borg þar sem margir menningarheimar mætast. Við erum stolt af því hve langt við höfum náð í því að setja upp kynjagleraugun eða hinsegin gleraugun. Nú nýtum við okkur þessa reynslu og setjum upp fjölmenningargleraugun á sama hátt. Við hvetjum önnur sveitarfélög og ríkið að taka þátt í þessari vegferð. Við viljum að innflytjendur geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu með aðgang að öllu sem borgin hefur fram að færa og að þeir þekki réttindi sín. Við tryggjum að fjölmenningarleg gildi endurspeglist í allri stefnumótun sem og þjónustu borgarinnar. Við erum þakklát fyrir framlag innflytjenda í borgarlífinu. Við viljum gera þessu jákvæða framlagi innflytjenda hærra undir höfði. Við gerum okkur grein fyrir að fjölbreytileiki er undirstaða jákvæðrar þróunar. Þegar hver og einn fær tækifæri að njóta hæfileika sinna og sköpunarkrafta til fulls, þá græðum við öll á því.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19090190
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar meirihlutans fagna einróma samþykkt tillögunnar. Það er ánægjuefni að við stöndum öll saman að lýðræðislegu fjölmenningarsamfélagi.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins fagnar tillögu meirihlutans um fjölmenningarborgina, tekur heils hugar undir flesta þætti yfirlýsingarinnar og finnst hún löngu tímabær. Einnig fagnar borgarfulltrúinn öllum þeim góðu verkefnum sem borgin er að vinna að sem munu koma fólki af erlendu bergi brotnu að góðu. Á sama tíma vill hann benda meirihlutanum á að vera ekki að hrósa sér of mikið því að á meðan ágætur árangur hefur náðst með t.d. kynjagleraugunum er staðreyndin samt sú að á forræði borgarinnar eru verst launuðu störfin sem oft eru nefnd hin hefðbundnu kvennastörf. Á meðan varla er hægt að framfleyta sér á launum frá borginni ætti meirihlutinn að ganga hægt um gleðinnar dyr sérstaklega í ljósi yfirstandandi kjarasamningagerðar í að hreykja sér af því hve langt hefur náðst með því að setja upp kynjagleraugun eins og kemur fram í yfirlýsingunni.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Yfirlýsing um fjölmenningarborgina Reykjavíkur felur ekki í sér að horft sé fram hjá áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í þessu samhengi heldur nákvæmlega hið gagnstæða. Með þessu erum við að skapa leiðarljós sem hjálpar öllu borgarkerfinu að raungera hin auknu gæði sem felast í fjölbreytileikanum fyrir borgarsamfélagið og getum unnið að því að tryggja að allir hér njóta sín til fulls. Það er sérstakt fagnaðarefni að tillagan skuli hafa notið stuðnings allra borgarfulltrúa hér í dag.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Margt gott hefur verið gert til að auka fjölmenningu, fjölbreytileika og styrkja minnihlutahópa. Innan okkar samfélags vill Flokkur fólksins einnig minna á að það eru aðrir fjölbreytilegir minnihlutahópar sem ekki njóta nægjanlegs stuðnings. Hér er vísað til eldri borgara, öryrkja og barna sem þurfa sérþjónustu af ýmsu tagi. Grunnþjónusta við þessa hópa er ekki viðunandi, biðlistar eru nánast hvert sem litið er. Varla eru þeir gleymdir sem bíða eftir hjúkrunarrými en lengd biðlista náði hámarki 2018 eftir stöðuga fjölgun frá 2014. Hvað varðar innflytjendur lagði Flokkur fólksins til að sett yrðu á laggirnar námskeið fyrir innflytjendur þar sem sérstaklega yrði miðað að því að kenna málið í tengslum við atvinnuumsóknir og atvinnuviðtöl. Hér er brýnt að túlkað sé á máli viðkomandi en á íslenskunámskeiðum eru margir þjóðfélagshópar, margar mállýskur og ólíkar þarfir. Til að auðvelda aðlögun og draga úr einangrun er brýnt að komast út á vinnumarkað. Innflytjendur hafa einangrast, t.d. í Breiðholti, þar sem segja má að félagsleg blöndun hafi mistekist. Tillagan var felld. Börn af erlendu bergi sem eru fædd hér á landi eru mörg afar illa stödd í íslensku máli eins og kemur fram í skýrslu innri endurskoðunar um skólamálin. Hér þarf einnig að gera betur. Sem sagt minnihlutahópar eru alls konar.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að minnka álagstoppa í umferð með því að auka sveigjanleika opnunartíma stofnana og fyrirtækja borgarinnar og stuðla jafnframt að því að aðrir atvinnurekendur geri slíkt hið sama. Samgöngustjóra verði falið að vinna tillögur ásamt sviðum borgarinnar, sérstaklega skóla- og frístundasviði og velferðarsviði, auk þess sem unnið verði með dótturfyrirtækjum og öðrum stofnunum Reykjavíkurborgar, auk stórra stofnanna ríkisins eins og háskólunum og LSH. Lagt er til að markvissar tillögur liggi fyrir eigi síðar en í desember 2019.
- Kl. 15.25 tekur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sæti á fundinum og Diljá Ámundadóttir Zoega víkur.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19090191
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagsviðs.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillögunni er vísað til umhverfis- og skipulagssviðs enda er verið að vinna í anda tillögunnar inn á sviðinu, m.a. hjá samgöngustjóra í sérstökum hópi sem tengist stóru vinnustöðunum í Vatnsmýrinni.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Aukin sveigjanleiki í opnunartíma stofnana og fyrirtækja borgarinnar með það fyrir augum að minnka álagstoppa í umferð, er ein af þeim aðgerðum sem hægt er að framkvæma með tiltölulega litlum tilkostnaði á stuttum tíma. Skipulagshalli er gríðarmikill í borginni sem sést hvað best á því hvað umferð er þung inn í miðborgina að morgni og út úr henni síðdegis. Langar raðir bíla fylla aðra akrein stofnvega á meðan hin akreinin er nær tóm. Álagstoppar eru því sífellt erfiðari og er nauðsynlegt að dreifa álagi eins og unnt er. Hugmyndir um aukinn sveigjanleika hafa verið lengi í umræðunni en ekki hefur tekist að ná þeim árangri sem stefnt var að.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Á sama tíma og mikilvægt er að greiða úr umferðarflækjum borgarinnar og skoða til þess fjölbreyttar leiðir leggur Sósíalistaflokkurinn áherslu á að bættar almenningssamgöngur hljóta að vera svarið bæði við umferðarþunganum sem og þeim útblæstri sem honum fylgir. Best væri að leita allra leiða til að flýta leiðakerfisbreytingum strætó með uppfærðri tíðnitöflu sem gerir strætó að góðum og raunhæfum kosti fyrir borgarbúa.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Miðflokksins tekur heils hugar undir tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sveigjanlegri opnunartíma og fleytitíð. Leysa þarf úr þeim mikla vanda sem búinn hefur verið til með röngum ákvörðunum á síðustu árum og hér er kærkomið tækifæri á þeirri vegferð úrbóta og lausna sem nauðsynleg er til að leysa þann vanda. Borgarstjórn ber að taka ákvarðanir í úrlausnum mála, en ekki vísa þeim annað. Rétt leið er að samþykkja þessa tillögu hér og senda síðan til úrvinnslu hjá viðkomandi sviði.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði fram í borgarráði sambærilega tillögu: „að fleytitími verði enn sveigjanlegri en hann er í þeim störfum sem upp á það bjóða með það að markmiði að létta á umferðinni í og úr miðbænum á ákveðnum tíma árdegis og síðdegis“. Einnig var lögð fram tillaga um: „að borgin beiti sér í ríkari mæli í að atvinnufyrirtæki rísi í úthverfum frekar en í miðborginni“. Til að létta enn meira á álagi í umferðinni inn og úr miðbænum á meðan almenningssamgöngur eru ekki raunhæfur valkostur, var lagt til að skoðað yrði gaumgæfilega hvaða fyrirtæki sem nú eru í miðbænum mætti hugsanlega færa í úthverfin. Formanni borgarráðs hugnaðist ekki þessi tillaga og var henni vísað frá á sama fundi án frekari orða. Nú hefur tillagan verið lögð fram að nýju en af öðrum flokki en Flokki fólksins og nú er annað upp á teningnum, sem betur fer. Í það minnsta á ekki að vísa henni frá. Vissulega er sama hvaðan gott kemur en engu að síður vekur þetta upp spurningar um hvort það skipti máli hvaða flokkur í minnihluta leggur fram tillögur og án efa skiptir máli hverjir eru í forsvari funda hverju sinni.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að Reykjavíkurborg stofni tónlistarskóla með það að markmiði að halda kostnaði í lágmarki fyrir þau börn sem koma til með að sækja skólann og/eða skólana. Tónlistarskólinn á Klébergi, Kjalarnesi er eini tónlistarskólinn sem er alfarið rekinn af Reykjavíkurborg, annars er borgin með þjónustusamninga við 17 einkarekna tónlistarskóla. Þeir njóta styrkja frá Reykjavíkurborg og hafa sínar eigin gjaldskrár. Markmiðið með tillögunni er að koma á fót tónlistarskóla eða tónlistarskólum sem bjóða upp á vandað og fjölbreytt tónlistarnám með eins ódýrum hætti og völ er á fyrir nemendur. Lagt er til að skoðað verði með hvaða hætti hægt sé að nýta byggingar borgarinnar í að veita umrædda þjónustu, líkt og skólabyggingar. Þannig má tryggja að tónlistarskólarnir séu í nærumhverfi barnanna. Þó að yfirlýst markmið frístundakortsins sé að öll börn og unglingar 6-18 ára í Reykjavík geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum, þá dugar styrkurinn ekki til greiðslu á tónlistarnámi til lengdar og ófá dæmi um að hann dugi til greiðslu á tónlistarnámi yfirhöfuð. Það er mikilvægt að Reykjavíkurborg tryggi að öll börn sem hafa áhuga á því geti sótt tónlistarnám. Lagt er til að skóla- og frístundasviði verði falið að útfæra efni tillögunnar.
- Kl. 16.10 víkur Katrín Atladóttir af fundi og Ólafur Kr. Guðmundsson tekur sæti.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19090192
Vísað til meðferðar stýrihóps um framtíð tónlistarnáms.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg er í góðu samstarfi við sjálfstætt rekna tónlistarskóla í borginni og þar liggur m.a. mikilvægur grunnur að öflugu tónlistarlífi í landinu undanfarna áratugi. Á hitt ber að líta að það er meginreglan á Íslandi að sveitarfélög reki tónlistarskóla fyrir nemendur í grunnnámi í hljóðfæraleik. Í dag rekur borgin einn tónlistarskóla innan vébanda Klébergsskóla á Kjalarnesi. Þó ekki standi til að grafa undan því góða samstarfi sem borgin á við sjálfstætt rekna tónlistarskóla er sjálfsagt að beina þessari tillögu um borgarrekinn tónlistarskóla til stýrihóps sem nú er að störfum og hefur það hlutverk að móta stefnu um framtíðarskipan tónlistarnáms í borginni.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Miðflokksins flutti síðastliðinn vetur tillögu, hér í borgarstjórn, um hækkun Frístundakorts úr 50 þús. kr. í 100 þús. kr. í samræmi við stefnuskrá flokksins. Markmiðið var að tryggja að allir hefðu jafnt aðgengi að því sem í boði er, þar með talið tónlistaskólanámi fyrir börn. Tillagan fékk ekki brautargengi. Afstaða fulltrúa Miðflokksins er óbreytt, og telur fulltrúi Miðflokksins að hækkun Frístundakorts sé vænlegri og um leið sanngjarnari leið, hvort sem litið er til notenda eða þeirra sem þjónustuna veita.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Á borgarstjórnarfundi nú er einnig lagt til að borgarstjórn samþykki viðauka vegna tónlistarskóla að upphæð 27.888 þ. kr. Um er að ræða frávik á framlagi Jöfnunarsjóðs í tengslum við tónlistarskóla sem kom í ljós við rýningu og samanburð á greiðslum frá Jöfnunarsjóði til Reykjavíkurborgar vegna náms í söng og hljóðfæraleik. Flokki fólksins finnst hér komin ein ástæða þess að borgin ætti að skoða að reka sjálf tónlistarskóla. Fimm tónlistarskólar kenna um 83% af kennslumagni í borginni á efri námsstigum. Safnast hafa upp frávik milli fjárheimilda hjá borginni og greiðslna Jöfnunarsjóðs inn í borgarsjóð fjögur undanfarin ár. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst að kominn sé tími til að endurskoða þetta með það í huga að taka tónlistarkennslu af fjölbreyttu tagi inn í skólakerfið. Ávinningurinn af því er sá að með því fyrirkomulagi er betur séð til þess að öll börn geti tekið þátt í tónlistarnámi óháð efnahag foreldra. Eins og vitað er dugar Frístundakortið engan veginn fyrir tónlistarnámi í einkareknum tónlistarskóla auk þess sem efnalitlir foreldrar eru stundum tilneyddir til að nota Frístundakortið sem gjaldmiðil fyrir frístundaheimili til að þeir komist út á vinnumarkað.
4. Fram fer umræða um skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma og rekstur grunnskóla Reykjavíkur.
Lagt er til að tekin verði á dagskrá með afbrigðum tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins vegna skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma og rekstur grunnskóla Reykjavíkur.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Fellt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
- Kl. 17.29 víkur Ólafur Kr. Guðmundsson af fundi og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir tekur sæti. R19050085
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Eitt mikilvægasta verkefni haustsins er að ljúka vinnu við að móta nýtt úthlutunarlíkan með það að markmiði að fjárveitingar til grunnskólanna endurspegli eðlilegan raunkostnað þeirra. Ennfremur er nauðsynlegt að taka tillit til samsetningar nemendahópsins og félagslegra þátta. Nefna má fjármagn til sérkennslu, kennslu barna með annað móðurmál en íslensku og framlög til að mæta öðrum rekstrarkostnaði en launum og húsnæði. Þó ber að halda til haga að fjármagn til grunnskóla í Reykjavík hefur hækkað um 46% frá árinu 2013 og fá grunnskólar borgarinnar hæstu framlögin á hvern nemanda af öllum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru grunnskólar á Íslandi almennt vel fjármagnaðir í alþjóðlegum samanburði eins og m.a. kom fram í skýrslu Evrópumiðstöðvarinnar um menntun án aðgreiningar. Þar og í nýrri skýrslu OECD kemur fram að fjármagn á hvern grunnskólanema á Íslandi er með því hæsta sem gerist í álfunni.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks þakka fyrir vel unna skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma og rekstur grunnskóla borgarinnar. Það vekur furðu að meirihlutinn hafi ekki viljað taka inn tillögu Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins með afbrigðum heldur tekur fundarhlé og spilar þannig einhvern pólitískan biðleik. Tillagan gengur út á að taka undir með innri endurskoðun að nauðsynlegt sé að allir aðilar málsins vinni vel saman að því markmiði að tryggja grunnskólum sem best umhverfi og þar með nemendum sem besta menntun. Í tillögunni segir m.a. að faglegt mat eigi að vera hornsteinn í þeirri samvinnu og hvetur því skóla- og frístundasvið að hlusta á og tala við skólastjórnendur og síðan þarf fjárveitingavaldið að hlusta á faglegt mat skóla- og frístundasviðs þegar fjármagni er úthlutað. Skýrslan staðfestir það sem bent hefur verið á árum saman og kjörtímabil eftir kjörtímabil að fjármagn til skólanna hefur verið vanáætlað með þeim afleiðingum að skólarnir fara ítrekað fram úr fjárhagsramma sínum. Í skýrslu IE segir orðrétt: „í raun standa skólarnir almennt fyrir því að nánast allir rekstrarliðir fá of knappt fjármagn“. Þá kemur jafnframt fram í skýrslunni að viðhaldi skólanna hefur ekki verið sinnt sem skyldi sl. 10 ár vegna niðurskurðar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Einn stærsti veikleikinn sem skýrsla innri endurskoðunar fjallar um snýr að útdeilingu fjármagns til skólanna. Hvergi í þessu ferli hafa skólastjórnendur aðkomu en þeir geta sent óskalista um viðbótarfjármagn. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst skólastjórnendum ekki sýnd virðing hér. Fjárveitingarvaldið hlustar ekki á fólkið á planinu. Hið margplástraða reiknilíkan sem lýst er hélt maður fyrst að væri bara eitthvað grín. Úrelt líkan sem lifir sjálfstæðu lífi er farið að stýra fjármagni til skólanna. Svelt skólakerfi sem á að vera skóli án aðgreiningar hefur dregið dilk á eftir sér. Ömurlegar afleiðingar var fyrirsögn í einu fréttablaðinu þar sem fjallað var um skóla án aðgreiningar. Menntun á að vera fyrir alla. Ef þetta á að heita skóli án aðgreiningar þarf að sjá til þess að hann sé það í raun og það kostar að hafa þann útbúnað, aðstæður og mannafla til að sinna fjölbreyttri flóru barna með fjölbreyttar þarfir. Í mörg ár hefur skóla- og frístundasviðinu verið naumt skammtað og getur því ekki deilt nauðsynlegu fé til skólanna. Skólarnir fara þess vegna fram úr áætlun og til að mæta fjárskorti er klipið af nemendatengdum stöðugildum. Skólarnir hafa einnig þurft að gera ráð fyrir mun minni yfirvinnu en er í raun, skera niður sérkennslu og stuðning við börnin svo fátt eitt sé nefnt.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að aðild Reykjavíkur að byggðasamlögum verði skoðuð með tilliti til þess að auka lýðræðislega aðkomu Reykvíkinga að þeim. Byggðasamlög eins og þau starfa nú, eru fjarlæg hinum almenna borgara. Þau eru stofnun sem setur sér eigin starfsreglur og eigin stefnu. Innan þeirra fer ekki saman fjárhagsleg ábyrgð og ákvarðanataka. Í núverandi kerfi mun byggðasamlögum fjölga frekar en fækka. Lýðræðishallinn vex. Ef þörf er á fjölda byggðasamlaga er ástæða til að huga að sameiningu þeirra sveitarfélaga sem þau mynda. Reykjavík getur ekki í núverandi byggðasamlögum tekið ákvarðanir um mikilvæg atriði sem kunna að skipta borgarbúa miklu án þess að njóta stuðnings a.m.k. tveggja annarra sveitarfélaga og það þótt Reykjavík beri langmestu fjárhagslegu ábyrgðina.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela borgarstjóra að taka upp viðræður um fyrirkomulag á rekstri og stjórnun sameiginlegra fyrirtækja sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á vettvangi stjórnar og fulltrúaráðs SSH. SSH starfar á grundvelli ákvæða sveitarstjórnarlaga um landshlutasamtök sveitarfélaga og er markmið þeirra að vera vettvangur samráðs og samstarfs aðildarsveitarfélaga, vinna að sameiginlegum hagsmunamálum þeirra og vera sameiginlegur málsvari. SSH er jafnframt sameiginlegur vettvangur sveitarfélaganna til að fjalla um rekstur þeirra byggðasamlaga sem sveitarfélögin reka sameiginlega hverju sinni auk þess sem fulltrúaráð SSH hefur það skýra hlutverk að mynda samráðsvettvang vegna reksturs þeirra byggðasamlaga sem sveitarfélögin reka sameiginlega hverju sinni. R19090193
Breytingartillagan er samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Tillagan svo breytt er samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er í raun merkilegt að rödd Reykjavíkur vegi ekki þyngra en hún gerir í byggðarsamlögunum og er borgarfulltrúi sósíalistaflokksins sammála því að fara verði í saumana á þessu málefni og leitað verði leiða til þess að rétta hlut borgarinnar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarmeirihlutinn virðist ætla sætta sig við að hafa alla þessa fjárhagslegu ábyrgð en hlutfallslega litlar stjórnunarheimildir. Það er blóðugt í ljósi bakreiknings frá Sorpu en nákvæmlega þar kristallast hin vonda staða Reykjavíkur í byggðasamlögum. Ef fjárhagsleg ábyrgð Reykjavíkur á rekstri byggðasamlaga á að vera meiri en ábyrgð annarra sveitarfélaga, verður Reykjavík að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við þá ábyrgð. Stjórn Sorpu er skipuð einum stjórnarmanni frá hverju sveitarfélagi höfuðborgarsvæðisins. Samþykki ¾ hluta atkvæðavægis eða a.m.k. 3 sveitarfélaga þarf fyrir ákvörðunum um gjaldskrár, fjárfestingar, ólögbundin útgjöld og aðrar skuldbindingar. Horfa ætti til stjórnsýsluúttektar árið 2011 á byggðasamlögum borgarinnar þar sem staðfest er tengslaleysi milli eigenda byggðasamlaganna og stjórna þeirra. Dæmi eru um að stjórnir byggðasamlaga fóru út fyrir verksvið sitt og tóku veigamiklar ákvarðanir sem féllu ekki að væntingum eigendanna. Reykjavíkurborg hefur jafnvel gert málamiðlanir á kostnað eigin hagsmuna.. Þetta fyrirkomulag er ekki gott eins og kom í ljós þegar beiðni frá Sorpu um viðbótarframlag upp á 1.6 milljarð var sett fram vegna „mistaka“. Þetta er ekki borgarbúum bjóðandi. Meirihlutinn í Reykjavík á að ganga í verkið og fara fram á breytingar án þess að hengja sig á Samtök Sveitarfélaga eins og hann leggur til hér.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að undirbúa uppsögn samnings Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um tilraunaverkefni til eflingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til 10 ára sem gerður var í maí 2012. Samhliða skuli brýnum úrbótum á helstu samgönguæðum borgarinnar, sem frestað var vegna samningsins, framhaldið.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19090194
Tillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkomulag um almenningssamgöngur var undirritað árið 2012 og gildir til 10 ára. Markmið samkomulagsins voru fjölmörg. Það fyrsta var að auka hlutdeild almenningssamgangna. Hefur það markmið ekki náðst ennþá en um 4% fara sinna ferða í strætó á meðan um 12,6% taka strætó a.m.k. einu sinni í viku. Yfir háannatímann eru um 30% farþega í strætó á Miklubraut. Annað markmiðið sem er fjölgun fastanotenda og fjölgun farþega á stofnleiðum sem hefur gengið vel. Innstigum hefur fjölgað um 25% frá 2011 til 2017. Þá hefur fjöldi fastnotenda þrefaldast og farþegum strætó á fyrri hluta ársins fjölgað um 400 þúsund. Lækkun nettókostnaðar strætó gengur vel. Rekstrarkostnaður á hvern farþega á ekinn kílómetra hefur lækkað milli áranna 2011 og 2017. Þá hefur viðhorf almennings til almenningssamgangna á sama tíma tekið framfararskrefum og er almenningur jákvæðari gagnvart strætó en við undirritun samkomulagsins. Samstarf við ríkið á sviði samgöngumála gengur vel, unnið er að nýrri samningsgerð í samvinnu við önnur sveitarfélög líkt og kunnugt er og engin ástæða er til að segja upp samkomulaginu sem liggur því til grundvallar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Á síðustu átta árum hefur umferð í borginni þyngst til mikilla muna og hefur ferðatími lengst verulega. Þá hefur hlutfall almenningssamgangna haldist óbreytt þrátt fyrir skýr markmið um að hún tvöfaldist a.m.k. á tímabilinu. Verkefnið hefur því misheppnast ár hvert. Milljörðum hefur verið varið af vegafé en þrátt fyrir þessar árangurstengdu greiðslur hefur hlutfallið ekkert aukist. Það er því morgunljóst að stefna Reykjavíkurborgar hefur ekki gengið upp. Fyrirhugað er að fara sérstakt átak í vegamálum á höfuðborgarsvæðinu og því rímar framkvæmdastopp á sömu framkvæmdunum ekki við þær fyrirætlanir.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi sósíalistaflokksins leggur áherslu á að áframhaldandi uppbygging almenningssamgangna og þá uppbygging út frá þörfum þeirra sem nota þær er eitthvað mikilvægasta hagsmunamál borgarbúa. Til þess að leysa úr umferðarflækju borgarinnar verður að gera almenningssamgöngur raunhæfan kost fyrir fólk.
7. Fram fer umræða um ábyrgð borgarinnar á þeim sem þiggja mataraðstoð frá frjálsum félagasamtökum. R19090032
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Á sama tíma og meirihlutinn setur á dagskrá sjálfshrós fyrir að virða frelsi og fjölmenningu stóðu 3600 manns fyrir framan lokaðar dyr frjálsra félagasamtaka í sumar þar sem þeir treystu á að fá mat. Meirihlutinn í borginni virðist ekki hafa vitað af lokununum og ekki vitað um stöðu þessa stóra hóps fátæks fólks sem átti ekki til hnífs og skeiðar og höfðu engin ráð þegar frjáls félagasamtök gátu ekki veitt matargjafir. Flokkur fólksins minnir á að: „Sveitarfélag skal sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum og tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Aðstoð og þjónusta skal jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf“. Af hverju virðir meirihlutinn í borgarstjórn ekki þessi lög? Hér er kallað eftir ábyrgð borgarmeirihlutans og að borgin sinni lögbundnum skyldum sínum. Ekki liggur fyrir hvort velferðarkerfið hafi athugað með þennan stóra hóp nú þegar vetur gengur í garð. Enginn á að þurfa að eiga lífsviðurværi sitt undir frjálsum félagasamtökum. Hér þarf greinilega að endurreikna fjárhagsaðstoð, í það minnsta þannig að hún dugi fólki fyrir mat.
8. Lagt til að Dóra Magnúsdóttir taki sæti sem þriðji varaforseti borgarstjórnar í stað Guðrúnar Ögmundsdóttur. R18060080
Samþykkt.
9. Lagt til að Sigríður Arndís Jóhannsdóttir taki sæti í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði í stað Guðrúnar Ögmundsdóttur. Jafnframt er lagt til að Ásmundur Jóhannsson taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Sigríðar Arndísar. R18060083
Samþykkt.
10. Lagt til að Dóra Magnúsdóttir taki sæti í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Sabine Leskopf. Jafnframt er lagt til að Sara Björg Sigurðardóttir taki sæti sem varamaður í stað Ellenar Jacqueline Calmon. R18060085
Samþykkt.
11. Lagt til að Aron Leví Beck taki sæti í skipulags- og samgönguráði í stað Rögnu Sigurðardóttur. Jafnframt er lagt til að Sara Björg Sigurðardóttir og Ásmundur Jóhannsson taki sæti sem varamenn í ráðinu í stað Arons Leví Beck og Ellenar Jacqueline Calmon. R18060086
Samþykkt.
12. Lagt til að Sigríður Arndís Jóhannsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Lífar Magneudóttur. Jafnframt er lagt til að Sara Björg Sigurðardóttir og Líf Magneudóttir taki sæti sem varamenn í ráðinu í stað Sigríðar Arndísar Jóhannsdóttir og Elínar Oddnýjar Sigurðardóttur. R18060087
Samþykkt.
13. Lagt til að Berglind Eyjólfsdóttir taki sæti sem varamaður í velferðaráði í stað Rögnu Sigurðardóttur. R18060089
Samþykkt.
14. Lagt til að Þorkell Heiðarsson taki sæti í aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í stað Ellenar Jacqueline Calmon. Jafnframt er lagt til að Þorkell verði formaður ráðsins. R19040033
Samþykkt.
15. Lagt til að Berglind Eyjólfsdóttir taki sæti í öldungaráði í stað Guðrúnar Ögmundsdóttur. Jafnframt er lagt til að Berglind verði formaður ráðsins. R18060107
Samþykkt.
16. Lagt til að Heiða Björg Hilmisdóttir taki sæti sem varamaður í stjórn Strætó bs. í stað Kristínar Soffíu Jónsdóttur. R18060112
Samþykkt.
17. Lagt til að Sabine Leskopf taki sæti sem varamaður í stjórn SORPU bs. í stað Kristínar Soffíu Jónsdóttur. R18060111
Samþykkt.
18. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 5. og 12. september R19010002
22. liður fundargerðarinnar frá 5. september; viðauki við fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar 2019 er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R19010200
24. liður fundargerðarinnar frá 5. september; ábyrgð á lántöku SORPU bs. hjá Lánasjóði sveitarfélaga er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins með svohljóðandi afgreiðslu:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir hér með á fundi sínum að veita einfalda ábyrgð og veðsetja til tryggingar ábyrgðinni tekjur sínar í samræmi við hlutfall eignarhalds, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, til tryggingar láns SORPU bs hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð allt að kr. 990.000.000,- með 15 ára. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Nær samþykki sveitarstjórnar jafnframt til undirritunar lánasamnings og að sveitarfélagið beri þær skyldur sem þar greinir. Er lánið tekið til að fjármagna viðbótarkostnað við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi, ásamt nauðsynlegum tækjabúnaði sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Borgarstjórn Reykjavíkur skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda SORPU bs. til að breyta ekki ákvæði samþykkta félagsins sem leggur hömlur á eignarhald að félaginu að því leyti að félagið megi ekki fara að neinu leyti til einkaaðila. Fari svo að Reykjavíkurborg selji eignarhlut í SORPU bs til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjavíkurborg sig til að sjá til þess að jafnframt yfirtaki nýr eigandi á sig ábyrgð á láninu að sínum hluta. Jafnframt er Halldóru Káradóttur 030365-4379, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. sveitarfélagsins að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns. R19090009
8. liður fundargerðarinnar frá 12. september; breyting á deiliskipulagi vegna Borgartúns 24 er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R19090093
18. liður fundargerðarinnar frá 12. september; viðauki við fjárhagsætlun Reykjavíkurborgar 2019 vegna tónlistarskóla er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R19010200
19. liður fundargerðarinnar frá 12. september; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019 vegna SORPU bs. er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins. R19010200
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september:
Um er að ræða ábyrgð eigenda Sorpu vegna lántöku í ljósi breytinga á fjárfestingaráætlun samlagsins. Lánið er tekið til að fjármagna viðbótarkostnað við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi ásamt nauðsynlegum tækjabúnaði. Þá skal því haldið til haga að málið er á borði stjórnar Sorpu enda hefur hún tekið málið föstum tökum og falið formanni og varaformanni stjórnar að fá óháðan aðila til að framkvæma úttekt á starfsemi félagsins og leggja tillögur fram á næsta stjórnarfundi Sorpu.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september:
Hér er farið fram á að veðsetja útsvarstekjur Reykjavíkurborgar svo SORPA geti tekið lán vegna framúrkeyrslu upp á einn og hálfan milljarð króna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast alfarið gegn því að veita veð í útsvarstekjum skattgreiðenda í Reykjavík vegna lausataka í rekstri byggðasamlagsins og greiða atkvæði gegn því. Bæjarráð Seltjarnarness neitaði að gangast í ábyrgð fyrir láni til Sorpu vegna framúrkeyrslunnar og telja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins rétt að borgarstjórn geri slíkt hið sama.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september:
Það verður að skoða alla fleti þessa máls og festa bætta verkferla í sessi til að tryggja að svona lagað geti ekki átt sér stað aftur.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september og 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. september:
Það vantar rúman 1,6 milljarð inn í rekstur SORPU bs. Ekkert kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2018 að staðan væri með þessum hætti. Í honum undirritar ytri endurskoðandi reikninginn með þessum orðum:„Það er álit okkar að ársreikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu félagsins 31. desember 2018 og afkomu þess og breytingu á handbæru fé á árinu 2018, í samræmi við lög um ársreikninga.“ Athygli vekur að skipt var um ytri endurskoðun SORPU bs. á milli endurskoðunarára eins og hjá Reykjavíkurborg. Kynnt var á fundinum að til stæði að lengja í lánum hjá Íslandsbanka úr 5 árum í 15 en það lán stendur í einum milljarði. Óskað var eftir nýrri lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga upp á milljarð. Þá á að framlengja 500 milljóna framkvæmdalán um 2 ár. Það er óhjákvæmilegt að stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki vitað af þessari gríðarlegu framúrkeyrslu og er það grafalvarlegt mál að stjórn félagsins hafi ekki verið upplýst um málið fyrr en í júní á þessu ári. Hér á sér stað hylming sem kallar á viðamikla, utanaðkomandi rannsókn. Velta má fyrir sér hvort félagið sé að verða ógjaldfært. Einnig er tekið undir bókun minnihluta bæjarráðs Kópavogs að komi til greina að skipa félaginu neyðarstjórn.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september:
Framkvæmdastjóri Sorpu óskar eftir að Reykjavík veiti samþykki sitt fyrir lántöku vegna mistaka sem gerð voru hjá Sorpu. Sótt er um 990 milljóna króna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Hér þarf að staldra við enda engar haldbærar skýringar á af hverju það vantar rúman 1.6 milljarð inn í rekstur Sorpu. Meirihlutinn í borginni spyr einskis, tilbúinn að samþykkja möglunarlaust að ganga í ábyrgð fyrir láni af þessari stærðargráðu. Bæjarráð Seltjarnarness segist ekki ætla að ganga í ábyrgð fyrir láninu. Reykjavík sem meirihlutaeigandi situr í súpunni þegar kemur að þessum byggðasamlögum. Borgin tekur mesta skellinn á meðan hin sveitarfélögin sigla lygnari sjó. Sum sleppa vel með margt annað líka t.d. að koma upp félagslegu húsnæði. Flokkur fólksins bar fram tillögu um að borgin skoði fyrirkomulag byggðasamlaga með tilliti til lýðræðislegra aðkomu borgarbúa að þeim. Hún var ekki samþykkt. Í þessu klúðri Sorpu kristallast þetta. Þótt Sorpa sé í eigu allra sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins þarf Reykjavík að bera þungann af fjármögnun hennar. Ef borgin ætlar að halda áfram að vera „mamman“ þarf fjárhagsleg ábyrgð Reykjavíkur á rekstri byggðasamlaga að vera meiri en ábyrgð annarra sveitarfélaga þá á Reykjavík jafnframt að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við þá ábyrgð.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september:
Það vekur furðu að Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins í borgarstjórn skulu greiða atkvæði gegn því að uppbygging gas- og jarðgerðarstöðvar standist áætlun. Þess má geta að Seltjarnarnesbær er eina sveitarfélagið sem lagðist gegn lántöku og gegn samstöðu sem annars ríkir í þessum málum á höfuðborgarsvæðinu. Það getur ekki annað en talist óábyrgt þegar búið er að framkvæma yfir 70% af verkinu. Er það raunverulegur vilji borgarfulltrúa þessara flokka að hætta við byggingu gas og jarðgerðarstöðvar?
19. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 13. september, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 26. ágúst og 9. september, skipulags- og samgönguráðs frá 28. ágúst og 4. og 11. september, skóla- og frístundaráðs frá 27. ágúst og 10. september, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 28. ágúst og velferðarráðs frá 21. ágúst og 4. september. R19010073
1. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 13. september; lausnarbeiðni Rögnu Sigurðardóttur er samþykkt. R19090098
2. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 13. september; lausnarbeiðni Ellen Jacqueline Calmon er samþykkt. R19090100
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 28. ágúst:
Sameiginlegur fundur skipulags- og umhverfisráðs var haldinn í Viðey 28. ágúst. Um var að ræða einhvers konar samráðsfund að sagt var þar sem skrifstofa umhverfisgæða, samgöngustjóri og skipulagsfulltrúar sögðu frá megináherslum og breytingum á milli ári. Orkuskipti voru meðal umræðuefna. Flokkur fólksins hefur ítrekað spurt um metan sem nóg er framleitt af. Hjá SORPU er verið að auka nýtingu á lífrænum úrgangi. Meðal annars með sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Nýja stöð er verið að reisa í Álfsnesi. Það þýðir að meira metan verður til. Hvað á að gera við allt þetta metan? Ef það verður ekki nýtt sem orkugjafi, á þá að stækka metanbálið í Álfsnesi? Í komandi orkuskiptum spyr Flokkur fólksins hvort ekki þarf að leggja áherslu á að borgin nýti þetta metan eða selji það? Engin svör hafa borist og ekkert af sviðum og ráðum sem bera ábyrgð á orkuskiptum í borginni hafa brugðist við þessum fyrirspurnum. Í raun er ekkert sem bendir til þess að verið sé að vinna í þessu. Engin skýr svör hafa heldur borist hvað Strætó bs. hyggst gera í þessum efnum. Ætlar Strætó að fjárfesta í fleiri metanvögnum?
20. Samþykkt að taka á dagskrá leiðréttingu á kosningu í íbúaráð Breiðholts. Á fundi borgarstjórnar þann 3. september 2019 fór fram kosning í íbúaráð Breiðholts. Við þá kosningu misritaðist nafn eins fulltrúans og er lagt til að borgarstjórn samþykki að breyta afgreiðslunni. Rétt afgreiðsla er svohljóðandi:
Lagt til að Sara Björg Sigurðardóttir, Geir Finnsson og Egill Þór Jónsson taki sæti í íbúaráði Breiðholts og að Þórarinn Alvar Þórarinsson, Þórunn Hilda Jónasdóttir og Jón Hjaltalín Magnússon taki sæti sem varamenn í ráðinu. Jafnframt er lagt til að Sara Björg Sigurðardóttir verði formaður ráðsins. R19090034
Samþykkt.
Fundi slitið kl. 22:55
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð
Pawel Bartoszek
Hjálmar Sveinsson Örn Þórðarsson
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 17.9.2019 - Prentvæn útgáfa