Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2013, þriðjudaginn 17. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Karl Sigurðsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Páll Hjalti Hjaltason, Eva Einarsdóttir, Margrét Kristín Blöndal, Dagur B. Eggertsson, Björk Vilhelmsdóttir, Oddný Sturludóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fer umræða um skýrslu starfshóps um sundlaugarnar í Reykjavík.
2. Fram fer umræða um Betri Reykjavík.
3. Fram fer umræða um lestrarkennslu í leik- og grunnskólum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Lestrarkennsla í leik- og grunnskólum er eitt mikilvægasta verkefni Reykjavíkurborgar. Of mörg teikn eru á lofti þess efnis að lestrarkunnátta barna sé á undanhaldi. Allt of mörg börn eru ólæs við lok grunnskóla og hundruð bíða eftir þjónustu vegna talgalla eða lesblindu. Því fyrr sem nemendur ná tökum á lestri, því betur líður þeim í skólanum og ná betri árangri í ólíkum námsgreinum. Sjálfstæðismenn telja nauðsynlegt að nú þegar verði sett skýr markmið um að fækka börnum sem geta ekki lesið sér til gagns.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Læsi er lykill að öllu námi og velferð barna í leik og starfi, hverju sinni og til framtíðar. Á skóla- og frístundasviði Reykjavíkur er lögð mikil áhersla á læsi í víðum skilningi, samfellu milli skólastiganna, innleiðingu nýrrar læsisstefnu leikskólanna og stuðning við fjölbreytilegar námsaðferðir í lestrarkennslu grunnskólanna. Nýta þarf öll tækifæri sem gefast í þróttmiklu starfi leik- og grunnskóla, sem og frístunda til að efla læsi og hvetja börn og unglinga til þess að lesa sér til gagns sem og gamans.
- Kl. 16.45 víkur Áslaug Friðriksdóttir af fundinum og Hildur Sverrisdóttir tekur þar sæti.
- Kl. 18.05 víkur Margrét Kristín Blöndal af fundi og Sigurður Björn Blöndal tekur þar sæti.
4. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu í hverfisráð Breiðholts.
Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að Björk Vilhelmsdóttir taki sæti Guðrúnar Lilju Magnúsdóttur í ráðinu.
5. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 5. og 12. september.
1. liður fundargerðarinnar frá 5. september, umsögn vegna umsjónar skógræktarsvæðis Reykjavíkur samþykktur með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur séð um mikilvæg skógræktarsvæði borgarinnar um langt árabil með miklum sóma. Ósk þeirra um að taka að sér fleiri svæði í borgarlandinu ætti að taka fagnandi og hefja viðræður við fulltrúa þeirra um útfærslur þess háttar fyrirkomulags ef til kæmi. Auðvelt er að sjá fyrir sér hagræði fyrir borgina og hugmyndaauðgi í nýtingu og umhirðu skóga, eins og Skógræktin hefur sýnt í Heiðmörk. Í staðinn hafnar meirihlutinn slíku samstarfi.
Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Áréttað er að í umsögn umhverfis- og skipulagsráðs er lögð áhersla á gott samstarf við Skógræktarfélag Reykjavíkur við umhirðu skógræktarsvæðanna í Reykjavík og vilja til að ræða samstarf um einstök verkefni á sviði skógræktar, svo sem grisjun eða trjáplöntun á nýjum svæðum þar sem ákveðið verður að planta skógi, eins og segir í umsögninni.
12. liður fundargerðarinnar frá 12. september, niðurstaða útboðs á endurskoðunarþjónustu fyrir Reykjavíkurborg samþykktur, með 15 samhljóða atkvæðum.
6. Lagðar fram fundargerðir íþrótta- og tómstundaráðs frá 6. september, mannréttindaráðs frá 10. september, skóla- og frístundaráðs frá 4. september, umhverfis- og skipulagsráðs frá 4., 9. og 11. september og velferðarráðs frá 5. september.
Fundi slitið kl. 18.33
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Eva Einarsdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 17.09.2013 - prentvæn útgáfa